Færsluflokkur: Bílar og akstur

Um Sundabraut og fleira

Mikið hefur verið rætt um svokallaða Sundabraut og þá helst til réttlætingar á enn frekari skattpíningu bíleigenda.

Það þarf enginn að efast um að umferð um Vesturlandsveg er tafsöm á köflum og stundum erfið. Það þarf vissulega að bæta. En það eru til fleiri leiðir en lagning nýs vegar til lausnar þess vanda, önnur en sú sem kostar meira en nokkur leið er að réttlæta, sérstaklega eftir að borgaryfirvöld ákváðu að hækka þann kostnað um tug miljarð króna, með því að útiloka hagkvæmasta kostinn yfir Grafarvoginn.

Þegar horft er til umferðaþunga skiptir fleira máli en fjöldi akreina. Flæði umferðar er þar stærsti valdurinn. Vegur sem er 2+1 eða 2+2 getur flutt mikla umferð á stuttum tíma ef engar tafir eru á honum. Síðustu ár var mikið rætt um tvöföldun Hvalfjarðargangna og sú framkvæmd talin vera bráð nauðsynleg. Þeir sem um göngin þurftu að fara áttu auðvelt með að skilja þessa fullyrðingu, enda oftar en ekki sem miklar biðraðir mynduðust við norður enda gangnanna, Nú síðustu mánuði hefur þessi umræða þagnað, enda þessar tafir ekki lengur til staðar. Ástæðan? Jú, hætt var að innheimta gjald gegnum göngin og því enginn flöskuháls við norðurendann lengur!

Þannig mætti laga Vesturlandsveg og minnka tafir eftir honum. Frá Esjumelum suður að Grafarholti, á innanvið 10 km kafla, þarf að aka gegnum 8 hringtorg, með tilheyrandi töfum á umferð. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt. Sum þessara hringtorga eru í þannig landslagi að auðvelt er að koma fyrir mislægum gatnamótum, önnur eru eitthvað verr í sveit sett, en þó alls ekki þannig að slíkt sé útilokað. Nýjasta hringtorgið er við gatnamót að Esjumelum, á stað þar sem tiltölulega auðvelt hefði verið að koma fyrir mislægum gatnamótum. Í ofanálag er þetta hringtorg einbreitt og tafir því meira um það en önnur á þessari leið.

Kostnaður við Sundabraut liggur ekki fyrir, en heyrst hafa tölur upp á um 100 milljarða króna. Þar sem einungis eru til gömul gögn um áætlaðan kostnað þessarar framkvæmdar, er nánast víst að kostnaðurinn er nokkuð hærri en þetta. Áætlanagerð hefur sjaldan verið neitt sérstaklega áreiðanlegar hjá okkur Íslendingum, auk þeirrar tilhneigingar stjórnmálamanna að draga þær meira saman en gott þykir, til að koma verki af stað.

Hitt er nokkuð þekktara, kostnaður við gerð mislægra gatnamóta. Ólíkt við Sundabraut, hefur verið nokkuð byggt af mislægum gatnamótum hér og því komin nokkur þekking á kostnaði þeirra. Að meðaltali kostar gerð slíkra gatnamóta innan við 1 milljarð króna.

Ljóst er því að gerð átta mislægra gatnamóta ættu ekki að kosta nema um 8 milljarða, verum örlát og hækkum það upp í 10 milljarða, eða sömu upphæð og áætlanir um Sundabraut hækkuðu á einum fundi borgarstjórnar, síðasta vor. Þá eru a.m.k. eftir 90 milljarðar sem nota má til breikkunar Vesturlandsvegar frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum á Kjalarnesi. Breikkun frá Móum að Hvalfjarðagöngum kostar alltaf jafn mikið, sama hvort valin er Sundabraut eða endurbætur núverandi vegar. Frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum eru um 7 km. Hver kostnaður er við að breikka þann kafla veit ég ekki, en ljóst er að vænn afgangur mun verða eftir af 90 milljörðunum!!

Stundum hafa menn látið freistast til að nefna Sundabraut í tengslum við annan vanda á Kjalarnesinu, vind og ófærð. Þar mun þó engin breyting verða á, sama hvaða leið verður valin. Eina lausnin gegn vindi og ófærð á Kjalarnesi er yfirbygging alls vegarins, lausn sem ekki er raunhæf á þessari öld. Hins vegar mætti minnka vind á veginum sjálfum, ef plantað væri þéttu skógarbelti norðan vegarins, a.m.k. 50 - 100 metra breiðu, eftir öllu Kjalarnesinu.

Hitt er borðleggjandi að laga má Vesturlandsveg á núverandi stað þannig að hann beri umferð næstu áratuga með glans, fyrir fjármuni sem duga ekki nema í hluta Sundabrautar. Þegar peningar eru af skornum skammti er útilokað að réttlæta slíkan fjáraustur sem Sundabraut kallar á. Að nota síðan óþarfan veg til réttlætingar á enn frekari skattheimtu, er siðlaust og þeim til skammar er slíkt gera!!


Siggi og Nonni, eða bara Dagur

Enn bætist á óráðslistann, nú skal byggja jarðgöng í Hafnafirði. Það mætti halda að Dagur væri búinn að taka yfir óstjórn landsins.

Björn Leví, Pírati, hefur bent á að dæmið gangi bari alls ekki upp, að 100-140kr dugi engan veginn fyrir öllum þeim framkvæmdum sem boðaðar hafa verið. Komst hann að þessu áður en göng í Hafnafirði voru boðuð, framkvæmd upp á eittþúsund og tvöhundruð miljónir króna!

En kannski misskilur Björn þetta og við hin líka, kannski er nóg að rukka 100-140 krónur við hvert skatthlið, bara hafa þessi skatthlið nógu andskoti mörg og þétt!

Fyrst þarf 10 til 15 skatthlið,til þess eins að borga stofnkostnað vegna skattsins, síðan þarf 15 til 20 skatthlið til að greiða rekstrarkostnað ruglsins og innheimtu skattsins. Þá er hægt að snúa sér að því að reikna út allan kostnað við þá draumóra sem pjakkarnir hafa lagt fram og finna út hversu mörgum skatthliðum þarf að bæta við.Vandinn er hins vegar sá að nánast daglega dettur þeim eitthvað nýtt í hug, sem framkvæma má. Það gæti því orðið nokkuð tafsamt fyrir okkur landsbyggðafólk að komast til borgarinnar, þegar aka þarf gegnum hvert tollahliðið af öðru, að svo þéttriðið net þeirra verði að vart verði bíllengd á milli.

Það er ekki að undra þó manni detti Dagur í hug, í hvert sinn sem Siggi og Nonni opna á sér munninn. Peningavitið ekkert og raunveruleikinn þeim öllum jafn fjarlægur.

Siggi og Nonni geta þó ekki búist við að fá þá silki meðferð sem Dagur fær, þegar allt fer í hundana. Þeir munu ekki stjórna rannsóknarnefnd um eigið vanhæfi og enn síður nefnd sem rannsakar rannsóknarnefndina.

 


mbl.is Jarðgöng í Hafnarfirði á listanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Túkallinn frá ömmu

Þvílíkt happ fyrir ríkisstjórnina að ung kona skyldi mæta á Klausturbar og nenna að sitja þar í fjóra klukkutíma til að taka upp fyllerísröfl nokkurra þingmanna, þar sem tveir þeirra urðu orðljótir. Annar þeirra þingmanna gengdi þá stöðu formanns samgöngunefndar og þurfti nú að yfirgefa það embætti. Við formennskunni tók fyrrverandi samgönguráðherra og höfundur þeirrar vegskattahugmynda sem núverandi samgönguráðherra andmælti harðlega fyrir síðustu kosningar en var síðan fljótur að samþykkja eftir að hafa fíflað kjósendur. Þessi upptaka á Klausturbar ætlar því að verða afdrifarík fyrir þjóðina.

Ekki líður sá dagur að þessi nýorðni formaður samgöngunefndar fái ekki heiðurssess í fjölmiðlum, þar sem hann heldur uppi látlausum áróðri fyrir vegsköttum, svo miklum að einn daginn las ég að sjálfur væri ég orðinn þeim hliðhollur. Sem betur fer fyrir sálarlíf mitt, þá var ég ekki orðinn svo forfallinn, heldur hafði bæjarstjórinn minn bara sýnt þessari tillögu áhuga. Engan annan hef ég fundið í mínu bæjarfélagi sem er sama sinnis og bæjarstjórinn, nema auðvitað nokkrir Framsóknarmenn, sem fylgja sínum formanni til heljar, þurfi þess.

Það er hins vegar hvernig málflutningur þessa nýorðna formanns samgöngunefndar sem kemur á óvart. Annað hvort er maðurinn svona víðáttu heimskur eða hann telur þjóðina heimska. Hvort heldur er, þá er ekki sæmandi þingmanni að flytja mál með þeim hætti er hann gerir. Þar talar hann eins og þriggja ára barn, sem ætlar að kaupa allt í heiminum fyrir túkallinn sem amma gaf því.

En hvað eru vegskattar? Enn sem komið er virðist enginn vita um hvað málið snýst, ekki annað en að þeir eigi að gera alla vegi betri, tvöfaldanir helstu leiða munu koma eins og ekkert sé, vegstyttingar verða svo örar að erfitt mun verða að rata um landið, einbreiðar brýr hverfa sem dögg fyrir sólu, malarvegir munu heyra sögunni til, jafnvel áður en gjaldtaka hefst og gott ef ekki verður bara borað gegnum öll fjöll sem fyrirfinnast á landinu. Ef málflutningur nýorðins formanns samgöngunefndar eru tekinn gildur, eru þetta svokallaðir vegskattar. Fyrir trúgjarna er þetta auðvitað hrein draumsýn!!

Ekkert hefur þó verið útfært hvar né hvernig skuli innheimta þessa skatta, ekkert gefið út hverjar tekjur ríkissjóðs skuli verða af þeim og enn síður hversu mikið landsmenn muni borga.

Talað er með óljósum hætti einhverskonar myndavéla rukkun á skattinum og að "stofnbrautir" verði skattlagðar. Ekkert hvaða stofnbrautir, hvort þarna er verið að tala um stofnbrautir ríkissjóðs innan sveitarfélaga eða utan, hvort menn megi búast við að verða rukkaðir oft á sömu leið, t.d. hringveginum. Hvort Akureyringur sem ætlar til Keflavíkur þurfi kannski að greiða allt að tíu sinnum skatt á leiðinni!

Ríkið ætlar auðvitað að fá einhverja X upphæð í sinn sjóð, en til að svo megi verða mun fólkið í landinu þurfa að borga XX til ríkissjóðs. Umsýslukostnaður, sem ríkisstjórnin hefur með öllu látið ógert að reikna, er töluverður. Kaup, uppsetning og viðhald myndavéla er hreint ekki ókeypis og svo þarf auðvitað vel mannaða skrifstofu til að lesa úr því sem frá kerfinu kemur og sjá um innheimtuna.

Málið er allt vanreifað og alls ekki klárt til samþykktar. Muni Alþingi samþykkja þetta í upphafi nýs árs er ljóst að verið er að gefa út óútfylltan víxil, sem síðan landsmenn þurfa að greiða. Virðing Alþingis er ekki með þeim hætti að því sé treystandi fyrir slíkum víxli. Þá þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að þeir fjármunir sem þarna eiga að innheimtast með nýjum skatti, mun fráleitt allir fara til vegabóta, ekki frekar en þau gjöld sem sett hafa verið í eldsneytið í sama tilgangi. Það eru engir sem greiða eins mikið til ríkissjóðs en einmitt bíleigendur, langt umfram þann kostnað sem ríkissjóður þarf að leggja til og þarna skal hoggið enn frekar í sama knérunn!!

Þá má ekki gleyma þeirri stóru staðreynd að landsbyggðafólk verður harðast fyrir þessum skatti. Í því Íslandi sem við lifum í dag er staðan með þeim hætti að heilsuþjónusta hefur að mestu færst til höfuðborgarinnar og því þarf það fólk að sækja slíka þjónustu að stæðstum hluta þangað. Þá mun auðvitað aukinn skattur á bílaumferð valda því að vöruverð mun hækka enn frekar á landsbyggðinni og er það nógu hátt fyrir. Fyrirtæki út á landi munu svo standa enn verr að vígi, þegar aukinn skattur leggst á flutning vöru þeirra á markað. Það mun leggja mörg fyrirtæki.

Enginn efast um að með fjölgun rafbíla mun skattheimtu ríkissjóðs til vegamála minnka. Þann vanda á þó ekki að færa á þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki nýtt sér þá tækni. Þann vanda á að leysa með því að setja einhverskonar vegskatt á rafbíla, eins og þegar er gert á bíla sem nota eldsneyti. Vöruflutningar verða seint stundaðir með rafbílum, a.m.k. meðan tæknin er ekki meiri en nú er.

Hitt mætti alveg skoða, að skipta út skatti á eldsneyti og færa yfir á ekna kílómetra. Að allir borguðu ákveðinn skatt af akstri en ekki eldsneyti. Ekki þegar ekið er eftir ákveðnum vegum, heldur eftir eknum kílómetrum.

Tvísköttun vegna þessa málefnis, eins og stjórnvöld ætla sér með vegsköttum, má aldrei verða.

Skattlagning sem mismunar fólki eftir búsetu má heldur aldrei verða.

Túkallinn sem nýorðinn formaður samgöngunefndar ætlar að fá frá ömmu sinni, mun ekki duga honum til að kaupa allt í heiminum!!

 

 

 

 


mbl.is Veggjöld samþykkt eftir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

20 ára óréttlæti að ljúka

Á morgun lýkur loks skattalegu óréttlæti sem viðgengist hefur í 20 ár. Hluti landsmanna hefur verið skattlagður sérstaklega fyrir það eitt að eiga erindi til sinnar höfuðborgar. Hvort þetta stenst lög ætla ég ekki að tjá mig um, enda enginn þorað að láta á slíkt reyna.

Stundum hefur verið sagt að enginn sé neyddur til að fara göngin, að hægt sé að aka fyrir Hvalfjörð. Vissulega er nokkuð til í þessu, en þó ekki. Staðreyndin er sú að viðhald vegarins um Hvalfjörð hefur verið í skötulíki síðustu tuttugu ár, auk þess sem lítil snjóhreinsun vegarins gerir það að verkum að þessi möguleiki er fjarri því að vera raunhæfur, yfir vetrarmánuðina.

Hér á landi hefur verið valin sú leið að innheimta sérstakan skatt til vegabóta gegnum eldsneyti. Þannig greiða þeir sem nota vegakerfið sjálfir fyrir viðhald þess og endurbyggingu. Þeir sem ekki eiga eða nota bíla, hafa verið undanþegnir þeirri kvöð að bæta og halda við vegakerfi landsins. Þetta er í sjálfu sér réttlátt kerfi, þeir borga sem nota.

Einn hængur hefur þó verið á þessari skattlagningu, en hann er sá að misvitrir stjórnmálamenn haf sífellt sótt í þetta fé, til annarra nota. Því hefur sá skattur sem bíleigendur greiða í formi gjalds á eldsneyti, ekki skilað sér til vegabóta og stundum einungis lítill hluti þess verið nýttur til þeirra nota. Því er sú staða komin upp núna að vegakerfi landsins er orðið úr sér gengið og víða stór hættulegt.

Það var við lok níunda áratugar síðustu aldar og upphafi þess tíunda, sem nokkrir góðir menn fóru að vinna að því hörðum höndum að skoða hvernig mætti þvera Hvalfjörðinn. Hugmyndir um göng undir fjörðinn komu út úr þeirri vinnu, eftir að brú eða ferja voru ekki talin raunhæfar lausnir.

Um miðjan tíunda áratuginn var ákveðið að stofna félag um byggingu gangnanna og Spölur varð til. Göngin voru gerð og þau opnuð í júlí 1998, eða fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Skiptar skoðanir voru um framkvæmdina, en fljótt kom í ljós hversu þörf hún var.

Þó að um einkaframkvæmd væri að ræða var að einhverjum óskiljanlegum ástæðum ákveðið að leggja skatt á hvern þann sem um göngin fóru og þannig átti að greiða hana upp. Þessi aðferðarfræði var vægast sagt undarleg. Vel mátti fá einkafyrirtæki til framkvæmdanna og reksturs gangnanna, en ríkið átti einfaldlega að greiða fyrir það, kannski á tuttugu árum, kannski styttri tíma, kannski lengri, allt eftir því hvernig um hefði samist.

Þann pening sem ríkið þurfti, til að greiða fyrir göngin, eignaðist það sjálfkrafa við opnun gangnanna, í formi sparnaðar annarsstaðar. Það gleymdist nefnilega að gera ráð fyrir því hvað göngin myndu spara ríkissjóð í viðhaldi á veginum fyrir Hvalfjörð. Ljóst er að spár um aukningu umferðar myndu leiða til þess að byggja þyrfti upp hver einasta metir af Hvalfjarðarvegi og halda honum síðan við, að ógleymdum stór auknum snjómokstri yfir vetrarmánuðina.

Hvað ríkissjóður hefur sparað á þessum tuttugu árum sem liðin eru, get ég ekki sagt til um, en ljóst er að búið væri að greiða göngin fyrir þá aura, fyrir nokkru. Þeir sem hafa ekið fyrir Hvalfjörð, á síðustu tuttugu árum, vita að þar þyrfti að kosta miklu til svo sá vegur gæti annað þeirri umferð sem um göngin fara, á hverjum degi.

Ég ætla rétt að vona að enginn stjórnmálamaður sé svo skini skroppinn að hann samþykki slíka staðbundna skattlagningu sem við Hvalfjarðargöng hafa verið. Það er með ólíkindum að sumir landsmenn þurfi að greiða aukaskatt til að ferðast milli landshluta, meðan aðrir þurfa þess ekki. Slíka mismunun mun enginn kjósandi láta bjóða sér aftur og refsa þeim stjórnmálamönnum harðlega sem að slíku stæðu.

Auðvitað er það svo að skattlagning í gegnum eldsneyti er ekki endilega rétta aðferðin, til að fjármagna viðhald vegakerfisins. Til eru aðrar leiðir, sem eru alveg jafn réttlátar. Hvergi þekkist þó tvöfalt kerfi, eins og þeir sem um Hvalfjarðargöng hafa ekið, síðust tuttugu ár, hafa þurft að búa við.

Víða erlendis eru tollhlið algeng og ökumenn greiða þar sinn hlut í mannvirkjum. Eðli málsins samkvæmt gengur slíkt ekki upp hér á landi, vegna þess hversu dreifbýlt landið er. Það myndi leiða af sér að fjölmennustu vegirnir yrðu þá greiðir og beinir, meðan minna eknir vegir væru verri. Minnst eknu vegirnir yrðu þá væntanlega bara moldarslóðar. Ætla mætti að þeir sem væru búnir að þvælast um nánast vegleysur, af Austurlandi eða Vestfjörðum, kæmu inn á nánast gullslegna vegi umhverfis höfuðborgina!

Þungaskattur, þar sem menn greiða skatt eftir eknum kílómetrum, er önnur leið. Þetta var í gildi gagnvart díselbílum hér á landi fyrir nokkrum áratugum, eða þar til farið var að lita díselolíu. Þá var þessi skattur færður í hana. Með fjölgun rafbíla má þó gera ráð fyrir að þetta fyrirkomulag verði ofaná í framtíðinni, það þarf nefnilega að viðhalda og endurbæta vegakerfið, þó við rafbílavæðum bílaflotann. 

En frumforsenda þess er auðvitað að afnema þá gjaldið úr eldsneytinu.

Það er sorglegt að hlusta á vegamálaráðherra tala fyrir skattskýlum, nánast við hver gatnamót. Þessi maður, sem fyrir kosningar sagði að ekki kæmi til greina að taka upp slíkt kerfi, var varla búinn að setjast í stólinn þægilega, þegar hann skipti um skoðun!

Ég trúi á hið góða í mannskepnunni, þó erfitt sé að hafa einhverja trú á ráðherranum. Ég trúi því að meðal þeirra 63 manna og kvenna, sem þjóðin kaus til stjórnunar landsins, séu a.m.k 32 sem hafa þá skynsemi sem þarf til að sinna þeim skildum sem þeir sóttust eftir. Þá þarf ekki að óttast þó einhverjir misvitrir eða jafnvel óvitrir, sitji í stól ráðherra!!


mbl.is Gjaldtöku hætt um kl. 13 á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver skelfilegasta falsfrétt sögunnar

Það er með ólíkindum að einum manni hafi tekist að fífla alla heimsbyggðina. Donald Trump er sem smákrakki við hlið þessa manns og sjálfur Kristur einungis hálfdrættingur hans. Þessi maður heitir Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.

Al Gore ferðaðist þvers og kruss um heimsbyggðina, á sinni einkaþotu og kom fram hvar sem nægilega hátt gjald var greitt, til að boða falsfréttir sínar. Ekki leið á löngu þar til misvitrir sérfræðingar voru tilkippilegir til að taka undir málstað hans og setja einhverskonar stimpil á hann. Ein helstu rök Gore og reyndar þau einu sem hann hafði fram að færa, voru að fylgni væri milli hækkandi hitastigs og losunar ýmissa efna sem fengu viðurnefnið gróðurhúsalofttegundir. Loftegundir sem í raun eru skilyrði lífs á jörðinni.

Reyndar er það rétt hjá Gore, það er vissulega fylgni þarna á milli. Það sem honum yfirsást var að fyrst hlýnaði loftslag og við það jukust þessar loftegundir nokkru síðar, sem í raun er eðlilegt þar sem freðmýrar, einhver stæðsti geymslubanki þessara lofttegunda, þiðna upp við aukna hlýnun jarðar. Þannig slapp út gígatíst magn þessara loftegunda.

Af þessu brölti sínu varð Al Gore vel auðugur maður. Og hvað notaði hann sinn auð í? Lagði hann sitt af mörkum til minnkunar svokallaðra gróðurhúsalofttegund? Fór auður hanns til að þróa eitthvað sem gæti komið í staðinn fyrir þá orku sem nú er mest notuð? Nei, hann nýtti mest af sínu fé til kaupa á hlutafé í olíufélögum og olíhreinsistöðvum. Hann flýgur enn um heiminn á sinni einkaþotu og heldur enn fyrirlestra um falsfréttina, þar sem nóg er borgað.

Auðvitað er þetta nokkur einföldun á málinu, þó Al Gore hafi verið iðinn þá á hann ekki allan heiðurinn af falsfréttinni. Fyrsta fræi hennar var sáð í byrjun áttundu aldar, þegar Margaret Thatcher stóð í illvígum deilum við kolanámumenn. Þá fékk hún nokkra "vísindamenn" til að koma fram með þá falfrétt að kol væru stór hættuleg umhverfinu. Þetta gerði hún til að réttlæta sigur sinn í þeirri deilu, sigur sem byggði á að leggja niður flestar kolanámur í Bretlandi. Síðan þá hafa margir stjórnmálamenn notað þessa aðferð, til ýmissa verka. Enginn náði þó eins miklum árangri og Al Gore.

Í dag er staðan orðin sú að enginn hefur kjark til að mótmæla, enda búið að fjármagna heilu vísindasamfélögin til að réttlæta falsfréttina. Þó ber nokkurn skugga á að engar spár þessa svokallaða vísindasamfélags hafa staðist, enda rökvillan algjör. Stjórnmálamenn, sem flestir hugsa fyrst og fremst um eigin hag, þora ekki að mótmæla og má segja að það gildi um allan heim. Þó vissulega einhverjir þeirra séu með efasemdir, þá er kjarkurinn ekki nægur til að spyrja spurninga. Það er bara hlýtt í blindni.

En snúum okkur aðeins að kjarnanum, hlýnun jarðar. Það efast enginn um að loftslag á jörðinni hefur hlýnað nokkuð frá byrjun tuttugustu aldar, eða frá lokum litlu ísaldar. Hvert æskilegt hitastig jarðar er hefur engum tekist að upplýsa. Víst er þó að mannkynið myndi sennilega ekki vilja fá hér sama meðalhita og á síðustu öldum fyrir iðnbyltinguna. Sagan segir okkur að hitastig jarðar hefur sjaldan verið langi eins, heldur skiptast á köld og heit tímabil, allt frá mjög heitum tímabilum til alvöru ísalda. Þessar upplýsingar hafa vísindamenn fengið úr borkjörnum, m.a. á Grænlandsjökli. Þeir borkjarnar ná tugi þusund ára aftur í tímann og sýna t.d. að fyrir um 3 til 4000 árum var mjög hlýtt á jörðinni og stóð það hlýskeið yfir í nokkrar aldir. Annað hlýskeið var fyrir og um landnám hér á landi. Bæði þessi hlýskeið voru mun hlýrri en nú, jafnvel þó engir dísilbílar væru á ferðinni. Allt tal um að Grænlandsjökull muni hverfa er því hreinar falsfréttir. Það eitt að borkjarnar úr jöklinum tugi þúsund ára aftur í tímann segja svo ekki verður um villst að jökullinn lifði af þessi síðustu hlýskeið, sem við eigum enn mjög langt í land með að ná.

Eldri loftlagsfræðingar, þeir sem vinna fyrir vísindin en ekki peninga, hafa um nokkuð langt skeið haldið því fram að hitastig jarðar skýrist fyrst og fremst af tvennu. Sólinni og sporbaug Jarðar um hana. Sólgos senda hingað orku. Á ellefu ára fresti minnka sólgos og aukast síðan aftur. Þessi sveifla stækkar og minnkar af einhverjum ástæðum og vitað er að á litlu ísöld fóru sólblettir úr engi yfir í mjög litla. Um síðust aldamót var þessi sveifla hins vegar frá því að vera töluvert af sólblettum yfir í mikla. Sporbaugur jarðar er sporöskjulagaður, sem færist til á nokkrum öldum. Þessir vísindamenn telja að þegar saman kemur óvenju mikil fjarlægð frá sólu og lítil sem engin sólgos, þá kólni hratt á jörðinni og þegar fjarlægðin er lítil samhliða miklum sólgosum, hlýni. Þessi ferli geta staðið yfir í hundruð eða þúsund ár. Í versta falli kemur ísöld og í besta falli gott hlýskeið. Fram til þessa hafa þeir haldið því fram að við værum á leið í hlýskeið, sem myndi hækka hita jarðar enn frekar, en nú sjá þeir blikur á lofti og eru farnir að tala um að kólna muni á jörðinni næstu ár og áratugi. Hvort um tímabundna kólnun er að ræða eða hvort við stefnum í alvöru ísöld, er ekki enn hægt að sjá. Eitt eru þessir vísindamenn sammála um og það er að svokallaðar gróðurhúsalofttegundir eru ekki til og að mengun mannskepnunnar kemur ekki hitastig jarðar við, enda hlutur hennar svo ofboðslega lítill í heildar samhenginu. Til þess þarf eðlisfræðin að finna sér leið gegn sjálfri sér, þar sem vitað er að hlýnun jarðar leiðir til aukinna lofttegunda sem almennt ganga undir nafninu gróðurhúsaloftegundir. Því er útilokað að þær lofttegundir leiði til hlýnunar, þar sem jörðin væri þá fyrir löngu bráðnuð niður!!

Það er erfitt að hugsa sér fáránlegri aðgerðir en íslensk stjórnvöld boða nú. Að ætla að kasta fleiri milljörðum króna í súginn til þess eins að þóknast einhverjum falsspámönnum, er eins vitlaust og hugsast getur. Og hvert fara þessir peningar, hver mun græða?! Almenningur borgar, svo mikið er víst og þetta mun leiða til verri lífskjara.

Mengun, sóun og jafnvel í sumum tilfellum þurrkun mýra, getur haft slæm áhrif. Ekki þó á hitastig jarðar, heldur almennt. Því er sjálfsagt að vinna gegn slíku, en einungis á réttum forsendum. Loftmengun hefur slæm áhrif á fólk og á að minnka þess vegna. Þó er loftmengun einungis ein gerð mengunar og í heildinni ákaflega lítill hluti hennar. Stæðsta mengunarógn sem að mannskepnunni stafar nú, er af allt öðrum toga og ekkert minnst á hana í aðgerðum stjórnvalda, en það er plastmengun. Sóun er á allan hátt óafsakanleg, hverju nafni sem hún nefnist. Ekkert í þessum tillögum tekur á sóun. Þurrkun mýra getur haft slæm áhrif á fuglalíf og þess vegna á að stuðla að því að einungis land sem ætlað er til nota sé þurrkað upp. Endurheimt votlendis hefur engin áhrif á hitastig jarðar, en ef svo væri ætti frekar að stuðla að því að þurrka sem mest! Að breyta landi sem engin raunveruleg vísindi sanna að sleppi út co2, yfir í land sem sannarlega mun framleiða mikið magn af metan gasi, er auðvitað algjörlega galið! Fleira mætti telja upp sem mannskepnan þarf að laga hjá sér, en kannski er stæðsta váin sú gengdarlausa fjölgun hennar. Með sama áframhaldi skiptir ekki máli hvernig loftslag verður á jörðinni, né neitt annað. Fjölgun mannskepnunnar mun leiða af sér hrun hennar.

Þegar peningar fá að tala óáreittir, er ljóst að illa er komið. Peningar stjórna stórum hluta vísindasamfélagsins, peningar stjórna fréttamiðlun heimsins, peningar stjórna stjórnmálastéttinni. Peningarnir eru sóttir til almennings og lenda í örfáum vösum þeirra sem mesta auðinn hafa og stjórna heiminum.

Og nú hefur íslenska ríkisstjórnin stigið enn eitt skrefið í fórn þegna landsins á altari Mammons!!

https://www.youtube.com/watch?v=oYhCQv5tNsQ

 


mbl.is 6,8 milljarðar til loftslagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vextir?

Hægt er að líta sem svo að þessir 4 milljarðar, sem ríkisstjórnin samþykkti sem "aukafjárveitingu" til vegamála, sé einungis lítill hluti af þeim vöxtum sem ríkissjóður skuldar til málaflokksins.

Bílaeign landsmanna skilar ríkissjóði hátt í 100 milljarða tekjum á ári hverju. Stór hluti þess fjár er skattekja sem beinlínis er eyrnamerkt vegakerfi landsins. Aldrei hefur þó það fé allt skilað sér til málaflokksins, hefur verið nýtt til annarra þátta í rekstri ríkissjóðs. Yfir allan þjófabálk tók þó í kjölfar hrunsins, þegar fjármagn til viðhalds og endurbóta vegakerfisins var skert svo hressilega að vegakerfið beið stór skaða af. Enn hefur ekki náðst að koma fjárframlögum til vegamála á sama grunn og fyrir hrun, jafnvel þó ríkissjóður standi nú enn betur en nokkurn tíma áður. Enda er sá hluti vegakerfisins sem enn tórir, að hruni kominn. Ekki finnst sá vegspotti í vegakerfi landsins sem hægt er að segja að sé í lagi!! Um 70% vegakerfisins nær einungis einni til tveim stjörnum af fimm, samkvæmt úttekt EuroRAP og enginn vegspotti nær fimm stjörnum!!

4 milljarðar nú til viðbótar við þá 8 milljarða sem eru á fjárlögum, til viðhalds og endurbóta vegakerfisins, er lítið brot af þeim 100 milljörðum sem ríkissjóður aflar af bíleigendum. Það er því stór skattur sem þeir þurfa að greiða til reksturs ríkisbáknsins, umfram aðra skattgreiðendur, eða hátt í 90 milljarðar króna. Það gerir að meðaltali aukaskatt upp á vel yfir 400.000 kr. á hvern bíl í landinu, ár hvert, auk alls kostnaðar við viðhald og endurbætur vegakerfisins.

Það má nefna fleira, sem rökstyður þá kenningu að þessir 4 milljarðar séu einungis vextir af láni ríkisins frá bíleigendum. Hvalfjarðargöng voru byggð fyrir réttum tuttugu árum síðan. Allan kostnað af þeirri framkvæmd hafa þeir greitt sem um göngin hafa ekið og vel það. Auk auðvitað að greiða ríkinu fullan skatt af þeim sama akstri.

Við tilkomu Hvalfjarðargangna var öll uppbygging og endurbætur vegarins fyrir fjörðinn stöðvuð og viðhald þess vegar skert fram úr hófi. Við þetta sparaði ríkissjóður slíka upphæð, sem ökumenn um göngin greiddu, að næsta víst má telja að 4 milljarðarnir séu rétt vextir þeirrar upphæðar!

Það er ljóst að ríkissjóður hefur tekið einhliða lán hjá bíleigendum þessa lands, án þess þeir hafi getað rönd við reyst og er enn að stunda þessa iðju. Á þessu ári mun fara til málaflokksins 12 milljarðar, eins og áður sagði. Þetta er einungis brot þess fjár sem eyrnamerkt er til viðhalds og endurbóta vegakerfisins, af þeim sköttum sem bíleigendum er gert að greiða.

Eðli málsins samkvæmt, bitna skattar á bíleigendur fyrst og fremst á landsbyggðafólki. Það býr ekki við sama lúxus og höfuðborgarbúar, að hafa kost á að sleppa einfaldlega bílaeign. Þar koma til fjarlægðir við öll aðföng, sækja sér vinnu og ekki síst við að sækja sér þjónustu. Mörg er sú þjónusta sem landsbyggðafólk þarf að sækja, er einungis veitt á höfuðborgarsvæðinu. Þá valda óhóflegir skattar á rekstur bílaflotans því að öll vara verður dýrari á landsbyggðinni og samkeppni fyrirtækja verður erfiðari við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er því landsbyggðaskattur.

Að ráðherra skuli hæla sér að því að honum hafi tekist að kría út 4 milljarða úr ríkissjóð, af þeim hundruðum milljarða sem ríkissjóður hefur stolið frá málaflokknum gegnum tíðina, tugum milljarða á þessu ári, er lítilmannlegt!!


mbl.is Fjórir milljarðar í brýnar vegaframkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað ekki

Það bæri nýrra við ef VG tækju upp á því að vera á móti skattlagningu. Þessi flokkur, með þáverandi formann í stól fjármálaráðherra, setti einstakt met í fjölgun og hækkun skatta á einungis einu kjörtímabili. Katrín gæti því með engu móti staðið gegn frekari álagningu á landsmenn.

Það er gilt sjónarmið að þeir sem njóta greiði. Þetta á ekki síður við um bíleigendur sem aðra.

Og vissulega er það svo, bíleigendur greiða fyrir það sem þeir njóta, af hendi ríkisvaldsins, reyndar fjórfalt. Í dag eru álögur á þá sem þurfa að nota eigin bíl mjög miklar, meir en fjórum sinni hærri en það fjármagn sem skaffað er til vegamála. Stór hluti þessarar álagningar er eyrnamerkt viðhaldi og endurnýjun vegakerfisins. Því miður skilar það sér ekki þangað, heldur hverfur í ríkishítina.

Það er því með algerum ósköpum að nú séu ráðamenn að tala um að leggja enn meiri álögur á bíleigendur. Þó Katrín hafi ekki útilokað frekari skattlagningu á bíleigendur er ekki sama sagt um núverandi samgönguráðherra. Fyrir kosningar og reyndar eftir þær líka, eftir að hann fékk lykilinn að ráðuneytinu, hafnaði sá maður með öllu öllum hugmyndum um vegaskatt. Ekki að sjá að honum sé annt um mannorð sitt. Eftir að hafa skaddað það verulega fyrir tæpum tveim árum síðan, hefur hann nú endanlega gengið af því dauðu!! Undarlegast af öllu er þó að rótin að þessari hugmynd um vegaskatt kemur úr Sjálfstæðisflokki, þeim flokk sem hvað duglegastur er að tala um lækkun skatta, a.m.k. fyrir hverjar kosningar.

Menn geta deilt um með hvaða hætti ríkisvaldið skattleggur bíleigendur, svo þeir greiði fyrir viðhald og endurnýjun vegakerfisins. Hvort greiddir eru vegatollar eða hvort eldsneyti sé skattlagt. Það ætti þó ekki að þurfa að deila um að ekki verði gert hvoru tveggja!!

Það er ærinn sá skattur sem landsbyggðafólk þarf að greiða, þó ekki bætist á stór aukinn aksturskostnað, með tilheyrandi auknum kostnaði við öll aðföng. Og ekki má gleyma þeirri augljósu staðreynd að slíkur skattur mun auka verðbólguna með tilheyrandi hækkun vaxtakostnaðar. Ekki mun það hjálpa unga fólkinu að eignast húsnæði!

 


mbl.is „Við höfum aldrei útilokað gjaldtöku“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trú eða rök

Það er eitt að byggja sinn málflutning á trú, eins og Bryndís Haraldsdóttir gerir, annað að byggja málflutning á rökum, eins og Frosti Sigurjónsson.

Grein Frosta var vel rituð, eins og hans er von og vísa, allar hliðar málsins greindar og rök flutt fyrir hverju atriði.

Bryndís talar hins vegar um "vitrænan hátt" og að hún sé "sannfærð". Ansi lítill rökstuðningur í slíkum málflutningi.

Það er vissulega þörf á að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, samhliða fjölgun íbúa þar. En það má aldrei gera með því að skerða aðra umferð, það verður ekki byggt á óraunhæfum forsendum um gígatíska hlutfallsfjölgun þeirra sem almenningssamgöngur nota og enn óraunhæfari fjölgun þeirra sem hvorki nota einkabíl né almenningssamgöngur, til að komast milli staða. Þá er ljóst að kostnaður við verkefnið er svo ótrúlegur að útilokað er að hefja það nema með mikilli aðkomu ríkissjóðs. Og þá erum við að tala um þær áætlanir sem liggja fyrir, slíkar áætlanir hafa sjaldnast staðist hér á landi og ljóst að kostnaður mun verða mun hærri. Er einhver glóra í því að allir landsmenn verði látnir taka þátt í verkefni sem einungis hluti þeirra hefur möguleika á að nýta og enn færri munu síðan nýta?

Þetta eru forsendurnar fyrir borgarlínunni, skerðing annarrar umferðar, óraunhæfar áætlanir um fjölgun þeirra sem almenningssamgöngur munu nota, enn óraunhæfari áætlanir þeirra sem hvorki munu nota einkabíl né almenningssamgöngur, kostnaður að stórum hluta tekinn úr sjóði allra landsmanna. Kostnaður sem strax við fyrstu áætlun er svo hár að bygging nýs Landspítala bliknar í samanburðinum. Kostnaður sem sennilega mun tvöfaldast, sé tekið mið af öðrum framkvæmdum hér á landi, sem draumóramönnum hefur tekist að koma yfir á ríkissjóð!

Það á auðvitað að byrja á að fjölga akreinum þar sem umferð er hvað mest, gera mislæg gatnamót á þyngstu gatnamótin og almennt að fara í aðgerðir til að greiða fyrir ALLRI umferð. Þá minnka tafir, líka almenningsvagna. Mengun mun einnig minnka verulega. Síðan á að kaupa fleiri og minni strætisvagna og þannig að þétta kerfi þeirra. Rafmagnsvagna er mjög vel hægt að nýta innan höfuðborgasvæðisins og auðveldara að fá slíka vagna eftir því sem stærð þeirra er minni. Allt þetta væri hægt að gera fyrir mun minni pening en borgarlínu og ef rétt að málum staðið, má gera þetta á tiltölulega löngum tíma. Bara við það eitt að gera ein mislæg gatnamót, á réttum stað, getur greitt ótrúlega mikið fyrir umferð.

Og svo má auðvitað ekki gleyma þeirri staðreynd að ef 5000 manna vinnustaður, sem verið er að byggja niður í miðbæ, verður færðar utar í borgina, á betri stað, mun þörfin minnka á eflingu gatnakerfisins, þar sem slík efling er hvað erfiðust og dýrust, þ.e. á neðsta hluta Miklubrautar.

Það er alveg sama hvernig þetta mál er skoðað, forsendur þess og skipulag. Þetta kemur ekkert við eflingu almenningssamgangna, enda aðalforsenda borgarlínu, hlutfallslega minni notkun einkabílsins, að stórum hluta fundin með stóraukningu þeirra sem hvorki ætla að nýta almenningssamgöngur né einkabíl, heldur ferðast á annan veg. Þetta varð að gera þar sem forsendur um notkun almenningssamgangna var þá þegar komin yfir öll raunhæf mörk, en nauðsynlega að ná niður notkun einkabílsins, svo forsendur stæðust! Öll merki þessarar hugmyndar bera með sér andúð á einkabílnum!!

Áætlanir segja að 12% muni ferðast með almenningssamgöngum, sem er þreföldun miðað við daginn í dag, en að 30% muni hvorki nota almenningssamgöngur né einkabíl. Miðað við spár um fólksfjölgun á svæðinu, munu þá 450.000 manns daglega ferðast ýmist gangandi eða hjólandi um höfuðborgarsvæðið!! Trúir einhver svona andskotans bulli?!

Það er ótrúlegt að fólk sem vill láta taka sig alvarlega og velur sér pólitískan starfsvettvang, skuli vera ginkeypt fyrir þessu rugli. Ég hélt að slík fásinna væri bundin við hörðustu vinstrisinna.


mbl.is Segir grein Frosta rökleysu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Reykjavík höfuðborg allra landsmanna?

Endalaus áróður sóðanna sem stjórna höfuðborg okkar landsmanna, gegn nagladekkjum, er orðinn óþolandi. Ekki einungis að þarna séu stjórnvöld borgarinnar að ráðast með ofbeldi gegn öryggi á götum og vegum, ekki aðeins að taka ákvörðunarrétt af bíleigendum, heldur er með þessari tillögu verið að leggja stein í götu landsbyggðafólks, þurfi það að sækja sér þjónustu til sinnar eigin höfuðborgar!!

Vandinn er ekki nema að sáralitlu leyti vegna nagla í dekkjum bíla og mætti útrýma því með því einu að hætta þeim gengdarlausa saltaustri sem viðhafður er á götum Reykjavíkur. Saltið leysir upp malbikið, sér í lagi þegar gæði þess eru léleg, en borgin hefur valið að versla ódýrast og lélegast malbik sem hægt er að komast yfir hér á landi.

Aðalorsök svifryks er fyrst og fremst þeim sóðaskap sem borgaryfirvöld viðhafa, að kenna. Hreinsun gatna er langt fyrir neðan lágmark. Það veldur því að ryk safnast á göturnar, jafnt að vetri sem sumri, það ryk fer síðan á ferð þegar bílar aka um göturnar og sest í gras og gróður umhverfis þær, sem sóðarnir í ráðhúsinu við Tjörnina hafa verið einstaklega duglegir að láta vaxa villt. Þegar síðan vindur snýr sér, blæs hann sama rykinu aftur yfir göturnar.

Sóða- og slóðaskapur borgaryfirvalda er hreint út sagt með eindæmum!!

Síðan, þegar mengun fer yfir viðmiðunarmörk af allt annarri ástæðu, er tækifærið nýtt til að hnýta í bíleigendur! Kannski voru það bara þeir sem aka um á nagladekkjum sem skutu upp rakettum um síðustu áramót og alveg örugglega voru það þeir sem aka á nagladekkjum sem gerðu samning við veðurguðina um að hafa logn á höfuðborgarsvæðinu á nýársnótt, svo öruggt væri að mengunin sæti sem fastast!

En aftur að kröfu borgaryfirvalda um lagasetningu Alþingis um að færa sveitarfélögum verulega og afdrifaríka íhlutun um málefni sem, af ríkri ástæðu, er ekki er á þeirra valdi. Ef Alþingismenn eru svo skyni skroppnir að láta eftir slíkt ofurvald til borgarstjórnar, er komin upp ansi undarleg staða.

Sjálfur bý ég út á landi og eins og svo margir sem þar búa ek ég á nagladekkjum. Þetta geri ég ekki vegna þess að mér þyki svo gaman að hlusta á hávaðann í dekkjunum þegar ekið er eftir vegunum, ekki vegna þess að mér þyki nauðsynlegt að hreinsa sem mest af málningu innanúr hjólskálunum og enn síður vegna þess að mér þyki svo gaman að borga meira fyrir dekkin undir bílinn minn. Nei, ég ek um á nagladekkjum af þeirri einföldu ástæðu ég þarf að komast á milli staða eftir okkar yndislegu þjóðvegum, snemma á morgna og seint að kvöldi, í hvaða veðri sem er, til að sinna minni vinnu. Oft eru aðstæður til aksturs á þeim tímum þannig að nagladekk eru nauðsyn, þó auðvitað marga daga sé þeirra ekki þörf. Það er af öryggisástæðum einum sem ég vel að vera á nagladekkjum, svona eins og allir sem það velja. Vil taka það fram að ég bý þó á einu snjóléttasta svæði landsins, en á Íslandi! Margir landsmenn búa við enn erfiðari aðstæður.

Fái borgin það vald sem hún sækist eftir, verður ferðafrelsi mitt skert verulega. Þá verður það undir valdi borgarstjórnar hvort ég má aka minni bifreið innan borgarmarkanna!

Mun ég kannski þurfa að hringja í borgarstjóra og fá leyfi, þurfi ég að sækja þjónustu til minnar höfuðborgar, kannski alla leið vestur í bæ á minn nýja Landspítala, þá daga sem borgarstjórn telur ástæðu til að banna akstur á nagladekkjum? (sem verður þá alla daga ársins, verði þessir þverhausar áfram við völd). Eða á kannski Landsspítalinn bara að vera fyrir höfuðborgarbúa, þá sem vestast í borginni búa?

Ekki trúi ég að borgarbúar kjósi þessi skoffín aftur yfir sig!!


mbl.is Vilja geta takmarkað umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbyggðaskattur

Ekki trúi ég að nokkur þingmaður eða frambjóðandi þori að taka undir þessar tillögur starfshópsins, svo skömmu fyrir kosningar. Nema auðvitað Jón Gunnarsson, samgönguráðherra. Hann getur ekki svarið þessar tillögur af sér, svo mjög sem hann hefur talað fyrir þeim.

Þarna er auðvitað verið að leggja til aukinn skatt, sem í sjálfu sér er í algjörri andstöðu við stefnu flokks samgönguráðherra. Það sem meira er, þá eru auknar skattaálögur einnig í andstöðu við stefnu samtaka atvinnulífsins. Eða á það eingöngu við um skattlagningu á fyrirtæki? Að allt í lagi sé að skattleggja þá sem af nauðsyn þurfa að eiga og reka einkabíl, meðan fyrirtæki landsins geti grætt á slíkri skattheimtu?

Árið 2016 voru heildartekjur ríkisins af bílaflota landsmanna um 70 milljarðar króna (70.000.000.000.kr.). Á þessu ári un þessi upphæð verða enn hærri, aukinn innflutningur bíla, aukinn akstur landsmanna og stór aukinn fjöldi ferðafólks sem komast þarf um landið, sér til þess. Ekki kæmi á óvart þó tekjur ríkissjóðs næðu allt að 100 milljörðum króna á þessu ári, af þessum stofni einum.

Enn meiri hækkun tekna ríkissjóðs er sjáanleg á næsta ári. Fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar verður auðvitað ekki samþykkt. Samkvæmt því átti að stór hækka álögur á eldsneyti, auk þess afnema undanþágur bílaleiga á innflutningsgjöldum. Þetta mun gefa ríkissjóð einhverja milljarða í kassann. Að auki er ljóst að krónan mun veikjast og innflutningsverð eldsneytis því hækka. Það mun einnig fita ríkissjóð á aurum bíleigenda.

Auðvitað er ljóst að fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp hægri stjórnarinnar, með öllum sínum skattahækkunum, mun ekki ná fram að ganga, en ljóst er að ef vinstri flokkar ná völdum munu þessar skattahækkanir verða enn meiri. Viðbrögð þeirra á Alþingi, þegar frumvarpið var lagt fram, sannar það.

Starfshópurinn telur að það þurfi 56 milljarða króna á næstu átta árum, til að koma vegakerfinu í þokkalegt stand. Það gerir þá nálægt 7 milljörðum á ári, að jafnaði. Það er þá væntanlega viðbót við þá 18 milljarða sem ætlaðir eru í málaflokkinn á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Að samtals þurfi sem svarar 25 milljarða á ári til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins.

Liggur nærri að það samsvari 1/4 þess sem ríkið innheimtir í dag af bílaflota landsmanna. Hinir 3/4 hlutar þess fjár fer þá væntanlega í annan rekstur ríkissjóðs, eða nálægt 75 milljörðum króna. Þennan skatt bera þeir einir sem þurfa að eiga og reka einkabíl. Undan þeim skatti getur fólk auðvitað komið sér, með því að sleppa því að eiga bíl. Það er mögulegt fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðafólk hefur ekki val. Því er þetta hreinn landsbyggðaskattur, skattur sem að stærstum hluta er nýttur til greiðslu hinna ýmis rekstrar ríkissjóðs, að mestu innan marka höfuðborgarsvæðisins. 

Bíleigendur borga í dag sannanlega fyrir allt viðhald og endurnýjun vegakerfisins, c.a. fjórfallt! Og nú skal enn sótt í vasa þeirra. Þá 56 milljarða sem starfshópurinn telur þurfa, vill hann rukka af bíleigendum á næstu 20 árum. Það gerir 2,8 milljarðar á ári, sem sóttur verður beint í vasa bíleigenda, ofaná alla aðra skatta sem þeir þegar borga!  

Það er vissulega sjónarmið hvernig staðið skuli að fjármögnun á viðhaldi og endurnýjum vegakerfisins. Mismunandi er eftir þjóðum hvernig að slíku er staðið og vegtollar orðið ofaná hjá sumum ríkjum. Önnur nota skattkerfið til þessarar fjármögnunar.

Við Íslendingar völdum að hafa þessa fjármögnun inn í eldsneytisverði. Vandinn er bara að misvitrir stjórnmálamenn hafa gegnum tíðina sælst æ meir í það fjármagn, þannig í dag fer hluti þess skatts á eldsneyti, sem ætlaður var til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins, inn í ríkishítina. Ástæða þess að eldsneytisgjald var valið umfram vegskatts, var auðvitað stórt og strjálbýlt land. Hætt er við að vegakerfið okkar væri ansi fátæklegt, ef vegskattur hefði átt að greiða hvern vegspotta, sér í lagi í dreifðustu byggðum landsins. Eldsneytisgjaldið var talið vænna út frá byggðasjónarmiðum og væri það vissulega, ef stjórnmálamenn stunduðu ekki massíf lögbrot með því að nota hluta þess fjár í annað!!

Forsenda fyrir vegsköttum er auðvitað að fólk hafi val, geti ekið aðra og kannski lakari vegi en þá sem skattur er innheimtur af. Önnur forsenda er að önnur skattheimta, í sama tilgangi, sé þá afnumin. En frumforsenda er að vegskattur sé ekki innheimtur fyrr en hægt er að aka um viðkomandi vegkafla. Hvergi í víðri veröld er innheimtur vegtollur af "væntanlegum" vegi, enda sennilega hvergi í víðri veröld sem hægt er að treysta stjórnmálamönnum fyrir slíkri fyrirfram skattheimtu!!

Eins og áður segir, eru tekjur ríkissjóðs af bíleigendum, hér á landi, gífurlegar. Hluti þeirrar skattheimtu er svokallað eldsneytisgjald og hann ætlaður til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins. Einungis hluti þess gjalds fer til þeirra nota, þar sem stjórnmálamenn hafa ráðstafað hluta eldsneytisgjaldsins til annarra nota. Væri allt eldsneytisgjaldið nýtt í þeim tilgangi sem til stóð, væri vegakerfi okkar ekki að hruni komið!

Engin ástæða er til að ætla að vegskattur verði eitthvað betur varinn fyrir misvitrum stjórnmálamönnum. Þeir munu ásælast hann, rétt eins og eldsneytisgjaldið!!


mbl.is Gjald verði lagt á helstu stofnvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband