Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Náttúrunni verður aldrei bjargað með því að fórna henni

Vindorkuæðið hér á landi er með öllu óskiljanlegt. Það má auðvitað segja að peningamenn, sérstaklega ef þeir koma erlendis frá, séu kannski ekki að hugsa um náttúruna okkar, þegar gróði er í boði. En það er bara enginn gróði í boði! Hvað drífur þetta fólk þá áfram? Hrein illska? Skemmdarfíkn?

Tveir sænskir hagfræðingar, Christian Sandström og Christian Steinbeck, tóku sig til og skoðuðu hagkvæmni vindorkuvera þar í landi. Niðurstaðan var sláandi, tapresktur sænskra vindorkuvera á árunum 2017 til 2022 nam 13,5 bilj. sænskra króna!! Þessar upplýsingar sóttu þeir í ársskýrslur þessara orkufyrirtækja. Þetta gerist þrátt fyrir að raforkuverð í Svíþjóð sé allt að sex sinnum hærra en hér á landi.

Það er því fráleitt að einhver hagnaðarvon sé fyrir vindorku hér á landi, nema auðvitað að orkuverð verði margfaldað og það gott betur en sexfaldað. Jafnvel varla að dugi að tífalda orkuverð hér, til þess eins að vindorkuverin geti rekið sig.

En það er fleira sem fram kemur í þessari úttekt sænsku hagfræðingana, t.d. það að einungis fimmtungur vindorkuveranna þar er í eigu Svía. Fjórir fimmtu eru í eigu erlendra aðila, eins og Kínverja. Stærsta vindorkuver Svía, Markbygden Ett, með 179 vindtúrbínum, er gjaldþrota en safnar samt áfram stórum skuldum hvern dag. Hagfræðingarnir fullyrða að ekki eitt einasta vindorkuver í Svíþjóð hafi verið rekið með hagnaði síðan 2017 þó segja megi að smærri vindorkuverin standi ekki eins illa og þau stærri. Greinilegt að hagkvæmni stærðarinnar á ekki við í þessum bissnes.

Í Þýskalandi stendur til að fella skóg, svo koma megi fyrir vindorkuverum. Þetta er enginn venjulegur skógur, heldur sá skógur er kenndur hefur verið við Gríms ævintýrin. Auðvitað eru íbúar þar ekki sérlega ánægðir með þetta framtak, telja menningarverðmætin og ferðaþjónustan sem hefur byggst upp vegna þeirra, verðmætari en vindorkuver sem útilokað er að reka með hagnaði. Áætlunin stendur þó enn, hinn 200 ára skógur Gríms ævintýranna skal ruddur fyrir 241 metra háum vindtúrbínum!! Þetta er ekki eini skógurinn í Þýskalandi sem skal víkja fyrir vindorkuverum, nokkrir aðrir fornir skógar, sem eru þó kannski ekki eyrnamerktir ævintýrum, eiga einnig að víkja.

Því er spurning; hvað er það sem dregur fólk áfram á þessari braut? Ekki er það hagkvæmnin og ekki er það ást á náttúrunni. Þaðan af síður er það umhyggja fyrir mengun, þar sem vindorkuver menga sennilega mest allra kosta til raforkuframleiðslu.

Náttúrunni verður aldrei bjargað með því að fórna henni!!

 


17. júní og starfsmenn þjóðarinnar

Vil byrja á að óska landsmönnum öllum til hamingju með daginn.

Í viðhengdri frétt af hátíðarræðu forsætisráðherra, kemur fram að hann hefur áhyggjur af framtíð lýðræðis okkar. Undir það má vissulega taka, þó kannski meiningarmunur sé á hver orsökin er.

Ráðherra telur hættuna stafa að samfélagsmiðlum og þeirri umræðu sem fram fer þar. Nefnir skautun, ógagnrýna hugsun, stutt myndskeið og falsfréttir í því sambandi. Umræða á samfélagsmiðlum er ekki hættulegt fyrirbrigði, heldur spegill þjóðarinnar. Skilji stjórnmálamenn ekki þá staðreynd eru þeir ekki starfi sínu vaxnir.

Þar liggur kannski hundurinn grafinn, stjórnmálamenn skilja ekki þjóðina. Og þar liggur hætta lýðræðis okkar. Undanfarna tvo og hálfann áratug hafa stjórnvöld markvisst unnið gegn lýðræði landsins. Þó hefur keyrt úr hófi síðustu ár. Með samþykkt aðild að EES samningnum, á tíunda áratug síðustu aldar, með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi og án þess að þjóðin fengi þar nokkra aðkomu, hófst þessi vegferð til slátrunar á lýðræði okkar. Þar var samþykkt óheft flæði fólks, fjármagns og verslunar, milli Íslands og ESB/EES ríkja. Síðan hefur verið settar á okkur auknar kvaðir á flestum sviðum, þó einkum krafa um einkavæðingu á sem flestum sviðum. Einkavæðing er í sjálfu sér ekki slæm, en það er ýmis grunnþjónusta sem útilokað er að einkavæða hjá lítilli þjóð í stóru landi.

Einungis tók rúman áratug fyrir misyndismenn að komast yfir bankakerfið okkar og í krafti frjáls flæðis fjármagns settu þeir landið okkar nánast á hausinn. Eitt lítið dæmi, sem þó skiptir miklu máli fyrir fjölda landsmanna, er einkavæðing póstflutninga. Í fyrstu virtist þetta litlu máli skipta, enda sett yfir málaflokkinn stofnun sem átti að sjá um að þjónustan yrði virk. Ekki leið á löngu áður en farið var að heimila einkafyrirtækinu að sleppa póstburði á einstaka bæi og síðan fór pósthúsum á landsbyggðinni að fækka. Nú er svo komið að fjöldi bæja fær ekki borinn til sín póst, vegna óhagkvæmni fyrir fyrirtækið og enn stærri hópur fólks, heilu sveitarfélögin og byggðakjarnarnir, hafa ekki lengur aðgengi að pósthúsi í heimabyggð.

Að hafa óskorað vald yfir auðlindum okkar er hornsteinn þess að við getum haldið uppi lýðræði okkar. Af þeim sökum var sjávarútvegi og landbúnaði haldið utan EES samningsins og hefur það að mestu haldið. Hellst að gengið sé á rétt bænda, þeir látnir gangast að kröfum ESB á ýmsum sviðum. 

Orkumál komu hins vegar ekki til umtals við gerð EES samningsins, enda þau ekki orðin það bitepli heimsbyggðarinnar sem nú. Það leið þó ekki á löngu er ESB tók þau mál í sína gíslingu, fyrst innan eigin ríkja en fljótlega færð yfir í EES samninginn. Samþykkt Alþingis á fyrsta orkupakka ESB voru stór mistök og algerlega óþörf. Það var þó ekki fyrr en annar orkupakkinn tók gildi sem landsmenn áttuðu sig á hvert stefndi. Þá fóru að taka hér gildi ýmis lög og reglur ESB, eins og t.d. að skipta upp fyrirtækjum er að orkumálum stóð. Sama fyrirtækið mátti ekki lengur hafa með höndum framleiðslu orku, flutning hennar og sölu. Þetta leiddi óneytanlega til þess að orkuverð hækkaði, einkum flutningur hennar. Lengi vel reyndu stjórnvöld hér að hundsa þessa reglugerð en urðu að lokum að láta undan kröfum ESB.

Það var svo orkupakki3 sem í raun færði ESB öll völd yfir íslensku orkunni. Sá orkupakki fjallar um að yfirstjórn orkumála skuli vera hjá ACER, orkustofnun ESB. Skylt var að setja á stofn orkumarkað um sölu orkunnar og eru nú þegar fjöldi fyrirtækja sem sjá um að selja orku. Slíkir milliliðir þurfa sitt, sem auðvitað kemur í hlut neytanda að greiða. Megin stef þessa pakka er þó frjáls flutningur orku milli landa. Þar setti Alþingi svokallaðan varnagla, sem auðvitað mun ekki halda gegn ACER. Þegar Alþingi samþykkti op3, var hann búinn að vera í gildi um hríð í ESB og stofnun ACER orðin að veruleika. Og það sem kannski skiptir mestu máli, ESB var þá þegar búið að samþykkja orkupakka4, sem Alþingi hefur ekki samþykkt. ACER vinnur því samkvæmt op4 og getur ekki annað. Því má segja að ef koma upp mál sem fara fyrir þá stofnum, verður hún að afgreiða þau samkvæmt op4, þó Alþingi hafi ekki samþykkt hann enn.

Bókun 35 er svo síðast naglinn í kistu okkar lýðræðis. Verði sú bókun samþykkt, munu íslensk lög þurfa að víkja fyrir lögum ESB. Alvarleiki þess máls er gífurlegur. Réttarkerfið hér færi á hvolf. Lög sem hér hafa gild í árhundruð munu þá víkja. Þeir sem muna umræðuna um samþykkt EES samninginn á Alþingi, muna ástæðu þess að þessari bókun var haldið frá samningnum. Svo nærri stjórnarskránni var samningurinn talinn vega, að með þessari bókun var ekki hægt að samþykkja hann. Þetta var gert með vilja og samþykki Evrópubandalagsins, forvera Evrópusambandsins. Engar breytingar hafa orðið á þessu sjónarmiði, jafnvel þó ljóst sé að framkvæmd EES samningsins hafi gengið enn nær stjórnarskrá en lofað var.

Ekki ætla ég að ræð mikið um landsölu stjórnmálamanna. Þó verður að nefna að það æði sem hefur gripið um sig í vindorkumálum mun ekki styrkja lýðræðið okkar! Það er með öllu útilokað að hægt sé að bjarga náttúrunni með því að fórna henni.

Það er vissulega rétt hjá forsætisráðherra, lýðræði okkar á undir högg að sækja. Ekki vegna umræðunnar á samfélagsmiðlum, umræðu þjóðarinnar. Skautun dæmir sig sjálf, falsfréttir má leiðrétta, þ.e. eftir að menn ná að skilgreina falsfrétt. Stjórnmálamenn eru sífellt oftar að nota það hugtak yfir þá umræðu sem ekki hentar þeim. Falsfrétt hlýtur þó að vera eitthvað sem er ósatt og sannleikurinn kemur alltaf fram um síðir. Eftir sem áður er umræða þjóðarinn spegill hennar.

Lýðræðið okkar er í hættu vegna þess að stjórnmálamenn skilja ekki sitt hlutverk, að þeir eru starfsmenn þjóðarinnar. Verði ekki gripið skjótt inní og þessum starfsmönnum gerð grein fyrir því fyrir hverja þeir eiga að vinna, er óvíst hversu oft enn við getum óskað hverju öðru til hamingju með þennan hátíðisdag okkar!!


mbl.is Þakkaði Guðna og óskaði Höllu velfarnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru menn gengnir af göflunum !!

Eru menn alveg að ganga af göflunum?! 3300MW uppsett afl í vindorku?! Allar virkjanir Landsvirkjunar, að rellunum tveim meðtöldum, eru einungis með uppsett afl upp á 2262MW !!

En fyrst af öllu, hættið að kalla vindorkuver einhverja garða. Þessi stóriðja á ekkert skylt við garða. Hvert vindorkuver spannar yfir stórt svæði, með tilheyrandi sjónmengun vítt yfir landið okkar. Að kalla slíka starfsemi garð er fráleitt og einungis til að slá ryki í augu fólks. Aðferð snákaolíukaupmanna.

3300 MW uppsett afl í vindorku þíðir að meðan vindur blæs er hægt að framleiða allt að þeirri orku, en síðan þegar lygnir verður minna úr framleiðslunni. Reyndar má ekki heldur blása of mikið svo vindtúrbínur geti starfað þannig að sjálfsagt mun oftar þurfa að stöðva þær vegna of mikils vinds. Og hvað á svo að gera þegar lygnir, eða blæs of mikið? Enginn er tilbúinn að kaupa orku sem er háð því hvort blæs mikið lítið eða ekki neitt. Því þarf eitthvað annað til að grípa inní, svo orkukaupandinn þurfi ekki að stöðva sína framleiðslu. Vatnsorka? Varla, jafnvel þó allar virkjanir Landsvirkjunar yrðu teknar í slíkt verkefni, duga þær ekki til. Því er ekki um að ræða annað en að setja upp nokkur olíu eða kolaorkuver! Þeim er auðvelt að stjórna í takt við duttlunga veðursins.

Það fer ekki á milli mála hvert stefnir, þessi orka er ætluð til útflutnings um sæstreng. Þannig og einungis þannig er hægt að fá verð sem hugsanlega gæti haldið uppi vindorkuverum, með aðstoð atyrkjakerfis ESB og vænum styrkjum úr tómum íslenskum ríkissjóð. Verð á orku hér á landi duga engan veginn til.

Aginter franska fyrirtækisins Qair á Íslandi er stórkallalegur í viðtalinu, talar um orkuöryggi! Það hefur ekki sýnt sig erlendis að mikið öryggi sé í vindorkunni, þvert á móti. Þetta er einhver mesti skaðvaldur fyrir umhverfið sem þekkist, varðandi orkuframleiðslu. Jafnvel hægt að segja að kolaorkuver sé umhverfisvænna. Örplastmengun, olíumengun og sf6 gasmengun eru einna verst, en einnig má nefna það augljós, sjónmengun. Á byggingatíma er gífurlegu magni af co2 sleppt í loftið, strax frá upphafi á smíði vindtúrbínunnar og ekki síður vegna undirstaða þeirra og öllu því raski er þeim tilheyrir.Bara undirstaða fyrir hverja vindtúrbínu kallar á gífurlegt magn steypu, sem dugað gæti í mörg einbýlishús af stærri gerðinni.

Í öllum skipulagsáætlunum fyrir vindorkuver, sem enn hafa komið fram, er sjónmengun mæld á tiltölulega þröngu svæði umhverfis vindorkuverin. Sjónmengunin er þó mun meiri og víðtækari. Þá er einnig gert minna úr hæð vindtúrbína en raunveruleikinn segir, jafnvel gengið svo langt að segja þær lægri en framleiðendur gefa upp. Það er vísvitandi verið að blekkja landsmenn.

Þróun vindtúrbína hefur verið nokkur, síðustu tvo áratugi. Sú þróun er þó nánast öll á einn veg, að stækka þær. Þannig má ná meiri orku úr hverri framleiðslueiningu, sem er auðvitað augljós hagnaður. Nú er svo komið að farið er að framleiða vindtúrbínur sem eru svo háar að hugmyndaflug meðalmannsins nær ekki yfir það. Hér er ætlunin að vera með lágreistari vindtúrbínur, eða frá 180 metrum upp í 230 metra háar. Hallgrímskirkja er um 74 metra há, sementsturninn sem stóð á Akranesi og sást víða var 68 metra hár og hæsta bygging sem stendur á Íslandi, turninn við Smáratorg, er 78 metra hár. Vindtúrbínurnar sem hér á að byggja eru allt að þrisvar sinnum hærri og er auk þess trónað upp á fjöll og hálsa!

Ríkisstjórnin var að samþykkja frumvarp á Alþingi um innflytjendur. Þar hældu ráðherrar sér af því að einungis væri verið að samræma þetta við slík lög á öðrum Norðurlöndum, væri verið að læra af mistökum nágranna okkar. Ég hvet ráðamenn til að læra einnig af mistökum nágranna okkar varðandi vindorkuna. Skoða hvernig þetta gengur t.d. í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Í Svíþjóð fengu erlendir aðilar að byggja hvert vindorkuverið af öðru og ráku stuttan tíma, en hurfu svo eð gróðann úr landi. Eftir standa vindorkuver sem enginn vill sjá eða koma nálægt. Norðmenn héldu þessu að mestu fyrir sig, en gróðinn hvarf eftir sem áður. Þar er offorsið svo mikið og illa að verki staðið svo vindtúrbínur eru að fjúka um koll. Dómstólar hafa dæmt þar vindorkuver ólögleg vegna mengunar. Danir eru heldur heppnari. Þeir byggja hvert vindorkuverið af öðru og eru nánast að leggja Jótland undir slíkan ósóma. En spaðarnir snúast lítið, jafnvel þó blási. Þeir fá borgað fyrir að halda þeim frá framleiðslu, að mestu, svo verð orkunnar hrapi ekki á Evrópunetinu. Það kæmi sér illa fyrir Þýsku vindorkuverin.

Aginter Qair á Íslandi nefndi einnig að ekki mætti virkja árnar í Skagafirði og því yrðum við að hleypa vindorkuverum að. Honum til upplýsingar þá er andstaðan við virkjun í Skagafirði vegna ástar okkar á landinu og fegurð þess. Þann "vanda" leysum við ekki með enn frekari skaða fyrir landið og náttúru þess.

Vindorka, með þeirri tækni sem nú þekkist, á engan rétt á sér, nema þar sem enginn annar orkukostur er í boði. Bara örplastmengunin ein og sér ætti að duga til að banna vindorkuver. Evrópusambandið bannar mér að nota plastskeið til að borða ísinn sem ég kaupi í sjoppu, en þykir sjálfsagt mál að ég innbyrði fleiri kíló af plast gegnum andrúmsloftið og gegnum allan mat sem ég legg mér til munns.

Og aftur: ekki nefna einhverja andskotans garða í tengslum við vindorkuverin og enn síður lundi!! Þetta er stóriðja að þeirri stærð sem við höfum aldrei áður kynnst, stóriðja sem mun leggja landið okkar í auðn.

 


mbl.is 3.300 MW í vinnslu fyrir vindorkuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjörningur um aðgerðaráætlun

Fjórir ráðherrar héldu einskonar gjörning í gær. Tilefnið var stiknun jarðar.

Tók mig til og horfði á myndband af sýningunni. Það tók nokkuð á og þurfti einbeitingu til að halda þræðinum, enda þarna saman komnir einhverjir leiðinlegustu ráðherrar landsins, þessa stundina. Ekki var ég þó miklu nær eftir boðskapinn, minnti nokkuð á fyrirtæki eitt sem nýlega hefur geispað golunni, bæði hér á landi sem og í heimalandi sínu (sjá myndband í frétt).

Kolefnislosun er gjarnan mæld miðað við höfðatölu hvers lands. Þessi mælikvarði er okkur Íslendingum mjög óhagstæður. Erum fámenn þjóð í stóru landi og ef landhelgin er talin með er yfirráðasvæði okkar gífurlega stórt. Þar sem verið er að tala um mengun á heimsvísu væri auðvitað eðlilegra að mæla hana við yfirráðasvæði hverrar þjóðar. En það er annað mál og kom auðvitað ekki fram í boðskap ráðherrana okkar.

Boðskapurinn er einfaldur; við skulum vera búin að minnka losun um 41% miðað við losun 2005 fyrir árið 2030, eða eftir sex ár. Og við eigum að verða kolefnishlutlaus tíu árum síðar. Kolefnishlutleysi næst auðvitað aldrei, eða við skulum vona ekki. Það myndi þíða dauða fyrir jörðina. Og sex ár er stuttur tími, rétt um eitt og hálft kjörtímabil. Kannski skilja stjórnmálamenn slíkan mælikvarða betur.

Nú eru komin fram um 200 markmið til að ná þessum áföngum, markmið sem reyndar eru mun færri þar sem svo virðist sem sum sömu markmið séu nokkuð oft endurnýtt og kannski sú endurnýting sem best gengur hjá okkur. Hvað um það, það vantar ekki hugmyndaflug ráðherrana. Enn tönglast á hlutum sem þegar hefur verið bent á að ekki gangi.

Nýir orkugjafar (vindorka ráðherranna), endurheimt votlendis og fleiri kunnugleg hugtök. Aukin skógrækt til bindingar á co2 og einhverjar aðrar ótilgreindar aðgerðir. Flísasleppingin Runnig Tide klikkaði reyndar, en sjálfsagt munu einhverjir erlendir aðilar koma með enn fráleitari hugmyndir. Og svo eru það auðvitað bændurnir okkar, þ.e. hinn hefðbundni landbúnaður. Hér eins og í Evrópu eru þeir taldir vera mestu umhverfissóðarnir og nánast réttdræpir.

Það var vægast sagt nokkuð ruglingslegt að hlusta á matvælaráðherra. Annað hvort hefur hún ekki hundsvit á þessum málum eða hún vísvitandi ruglar til þess eins að ná athygli. Hún ræddi prump og viðrekstur jórturdýranna og úrganginn frá þeim. Taldi þetta hina mestu vá, enda er þetta víst bráðhættulegt eiturefni sem kallast metangas. Í næstu setningu talaði hún um að endurheimta þurfi votlendi í enn stærra mæli en hingað til, svo minnka megi losun co2 í andrúmsloftið..

Endurheimt votlendis hefur að mestu verið lagt niður, enda ljóst að þar gæti Running Tide verið á góðum heimavelli. Mat á áhrifum landþurrkunar er ekki bara rangt, heldur kolrangt.

Áætluð áhrif hvers skurðar er metin allt að 75 metra til beggja átta. Flestir skurðir voru hins vegar grafnir með um 40 metra millibili eða minna, þannig að áhrifasvæði þeirra getur aldrei orðið meira en 20 metrar til hvorrar hliðar. Ef lengra bil var milli skurða, í blautu landi, náðu þeir ekki að þurrka upp alla spilduna á milli. Varð bleyta og stundum ófært tækjum um hana miðja. Þarna er fyrsta skekkjan og hún ekki neitt smáræði.

Í öðru lagi þá voru flestir skurðir grafnir fyrir 1980, eða fyrir um hálfum fimmta áratug síðan. Eftir þann tíma er skurðir einungis grafnir til að viðhalda eða endurnýja tún og akra.

Í þriðja lagi þá endast skurðir til þurrkunar votlendis ekki nema í mesta lagi tuttugu ár, nema hreinsað sé úr þeim reglulega. Því eru flestir skurðir sem ekki hafa beinan tilgang til ræktunar, orðnir fullir og því skaðlausir að þessi leyti.

Í fjórða lagi þá veldur það rask sem til verður við fyllingu skurða mikilli losun co2. Tekur sennilega mörg ár að jafna sig. Þá er erfitt og stundum ekki hægt að loka gömlum skurðum í votlendi, þar sem land er orðið svo blautt vegna gagnsleysis þessara skurða. Því hafa menn gripið til þess ráðs, í anda Running Tide, að velja skurði í vallendi til verksins. Þar endurheimtist ekki votlendi. Einungis lokað skurðum með tilheyrandi aukinni losun co2!

Í fimmta lagi þá er það svo að ef tækist að loka skurðum í votlendi og endurheimta það, þá mun aukast losun á co2 vegna rasksins en einnig mun þá stór aukast losun á metani, sem fyrst og fremst á sinn uppruna í votlendi! Þetta gas sem ráðherrann telur svo banvænt fyrir jörðina okkar! Þarna talar hún í kross og gerði það reyndar margítrekað á fundinum.

Í sjötta lagi er ljóst að þurrlendi gefur af sér meiri grænblöðunga og grænblöðungar eru ein afkastamesta jurt til ljóstillífunar. þ.e. að vinna kolefnið úr co2 og skila af sér súrefninu.

Eina markverða sem matvælaráðherra gaf frá sér var aukin áhersla á skógrækt. Ekki svo sem í fyrsta skipti sem ráðamenn nefna þetta og óvíst hvort efndir verða betri nú en áður. Skógrækt gerir landið fallegra og skjólsælla. Það er næg ástæða til að auka skógrækt, þó vissulega fara þurfi varlega á þessu sviði, a.m.k. meðan við erum og getum boðið erlendu ferðafólki til okkar. Það kemur ekki hingað til að skoða skóga.

Þar sem þessi fundur var bæði leiðinlegur og litlar upplýsingar að fá, fór ég að ráði umhverfisráðherra og skoðaði síðuna sem hann benti fólki á, co2.is Þvílík steypa sem þar birtist og þarf langan tíma til að komast gegnum þann frumskóg. Þvælt fram og til baka um akkúrat ekki neitt. Hver linkurinn af öðrum svo manni sundlaði. Þarna mátti þó finna einstakar tölur, svona innan um skrúðmælið. T.d. kemur fram að landnotkun losi mest, eða um 7757 þ.t.co2 ígildi. Næst kemur svo það sem kallast samfélagsleg losun, um 2762 þ.t.co2 ígildi og loks stóriðjan og flug um 2300 þ.t.co2 ígildi. Þetta gerir samtals um 12.824 þ.t.co2 ígildi. Eins og áður segir þá er losun vegna landnotkunar hressilega ofreiknuð. Hvort hinar tölurnar standast raunveruleikann skal ósagt látið. Hitt er ljóst að matvælaráðherra hefur miklar áhyggjur af sóðaskap landbúnaðarins. Ekki einungis vegna þessarar ofreiknuðu tölu vegna landnotkunar, heldur einnig vegna þeirra 618 þ.t.co2 ígildislosunar sem kemur fram í samfélagslosuninni. Væntanlega búið að umreikna prumpið og ropið yfir í co2 ígildi, þó það sé reyndar metan.

Ríkisstjórnin ætti að stökkva til og ráða til sín "sérfræðingana" sem misstu vinnuna hjá Running Tide. Þeir ættu ekki vandræðum með að redda þessu smámáli. Þeirra markmið var að bjarga heiminum svo varla mikið mál fyrir þá að redda nokkrum tonnum fyrir okkur Íslendinga. Gulli þekkir þá, gæti bara slegið á þráðinn.

Skelfilegast við þetta allt eru þó þær hugmyndir að leggja hér landið í rúst til að þjóna erlendum vindbarónum. Þetta kom ekki fram á fundinum en mátti skilja á viðtali við matvælaráðherra eftir fundinn. Við vitum að þar fara saman hagsmunir a.m.k. tveggja ráðherra ríkisstjórnarinnar og því spurning hver tilgangur þessarar sýningar var.

 


mbl.is Bjartsýnn á að ná loftslagsmarkmiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ærandi þögn fjölmiðla

Þögn fjölmiðla varðandi fréttir af vindorkuverum á Íslandi er orðin ærandi. Þó er ekki eins og allt sé þar í kyrrstöðu.

Sum sveitarfélög hafa sett málið á ís, þar til Alþingi hefur gefið út hvernig að þessum málum skuli staðið, en önnur eru á fullu að leyfa erlendum auðhringum og aginterum þeirra hér á landi, rannsóknir og skipulagningu vindorkuvera. Það vekur upp spurningar hvort viðkomandi sveitarfélög eru ekki að baka sér skaðabótaskildu, ef svo ólíklega vildi til að Alþingi sæi ljósið í þessu rugli öllu og hafnaði nýtingu vindorkunnar hér á landi. A.m.k. meðan tæknin er ekki betri en nú þekkist.

Það þarf ekki meiriháttar snilling til að sjá að meðan vindorka stendur ekki undir kostnaði þar sem orkuverð er margfalt hærra en hér á landi, þrátt fyrir mikla styrki frá ríkjum og ríkjasamböndum sem þau eru stödd í, er algjör fjarstæða að ætla að heimila slíka orkuvinnslu hér á landi. Jafnvel þó orkan verði flutt úr landi mun aldrei fást hærra verð fyrir hana en fæst þar ytra og þrátt fyrir að einhverjir styrkir fengjust erlendis frá, mun íslenska ríkið verða að koma með myndarlegt framtak svo hægt sé að virkja vindinn. Og orkuverð til heimila verður auðvitað að hækka til samræmis við það verð sem orkumarkaðir ákveða, eða til samræmis við það verð sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Framleiðsla á rafeldsneyti er núna helsta gulrót erlendu vindbarónanna. Að hægt sé að nýta alla þá orku sem hægt er að framleiða með vindorkuverum, til framleiðslu rafeldsneytis. Fyrir það fyrsta þá er framleiðslukostnaður á rafeldsneyti mjög mikill, jafnvel þó orkuverð sé "íslenskt". Í öðru lagi fer enginn heilvita maður að byggja hér á landi, langt frá mörkuðum, eldsneytisverksmiðju upp á hundruð milljarða króna, til að reka hana eftir því hvernig eða hvort vindur blæs. Rekstrarhæfni slíkra verksmiðja byggir fyrst og fremst á stöðugri og jafnri framleiðslu. Því munu slíkar verksmiðjur kalla eftir vatns eða gufuaflsvirkjunum til samræmis við framleiðslugetu vindorkuvera, svo orka sé til þegar lygnir. Sama lögmál gildir um vatns og gufuaflsvirkjanir og um flestan rekstur, að jöfn og stöðug framleiðsla er hagkvæmust. Þá er spurning, ef menn telja rafeldsneytisframleiðslu hér norður í Atlantshafi vera fýsilega, hvort ekki sé þá einfaldara og betra að framleiða orku fyrir slíka verksmiðju með vatns eða gufuafli. Þannig mætti halda orkuverði eins lágu og framast er hægt.

En kannski skipta þessar vangaveltur ekki lengur máli, kannski er ekkert lengur fréttnæmt af þessum málum. Kannski hefur teningnum þegar verið kastað. Í það minnsta erum við þegar búin að gangast undir orkustefnu ESB og lútum valdi ACER. Illu heilli samþykkti Alþingi orkupakka 3, og gaf þar með frá sér stjórnun orkumála, verður að lúta valdi og vilja ACER. ACER vinnur hins vegar eftir orkupakka 4 og getur ekki annað, skiptir þar engu þó Alþingi okkar Íslendinga hafi ekki samþykkt þann pakka. Þegar svo Alþingi hefur samþykkt bókun 35, mun ekki þurfa að ræða málið frekar.

Hins vegar eru nægar fréttir af vindorkuhugmyndum og öðru þeim tengt, hér á landi og enn fleiri fréttir af vandræðum vindorkuframleiðslu og fyrirtækjum þeim tengdum, erlendis. Fréttamiðlar gætu og ættu að segja okkur fréttir af því.

Eða er kannski eitthvað æðra vald búið kaupa þessa miðla til þagnar?!

 


Blái þráðurinn

Ríkisstjórn Katrínar hékk á bláþræði frá upphafi. Ríkisstjórn Bjarna (sem reyndar er sama ríkisstjórn) notast við sama slitna þráðinn.

Það eru ófá skrifin á þessari bloggsíðu, þar sem ríkisstjórn Katrínar var spáð falli. Þegar síðan höfuð þeirrar ríkisstjórnar ákvað að yfirgefa koppinn og sækjast eftir búsetu á Bessastöðum, skrifaði undirritaður að þar með væru dagar ríkisstjórnarinnar taldir, að það lím sem héldi henni saman væri farið. Það er engum blöðum um það að fletta að vinskapur og virðing Bjarna og Kötu er sterk. 

En nú er ég farin að efast. Svo mörg mál hafa komið upp sem hefðu talist ærið tilefni til stjórnarslita, allan tíma þessarar ríkisstjórnar. Samt hefur tekist að halda í henni lífi. Oftar en ekki hafa sumir stjórnarþingmenn þurft að kyngja ælunni, einkum þingmenn VG og Sjalla. Framsókn er jú opin í báða enda og þolir ýmislegt í slíkum málum.

Fyrrum fréttaritari ruv og nú starfsmaður VG taldi upp nokkur slík mál, sem hún taldi VG hafa þurft að gefa meira eftir en þeim var hollt. Það þarf ekki lengi að hugsa til að finna mun fleiri mál sem Sjallar hafa gefið eftir í þessu samstarfi, stundum með fyrirvar og gegnum störf á þingi en einnig gerræðislegar ákvarðanir sumra ráðherra VG.

Þessi ríkisstjórn var ekki stofnuð um málefni eða prinsipp. Hún var eingöngu stofnuð um kyrrstöðu á öllum sviðum. Það segir að prinsippmál hvers flokks má sín lítils. Þ.e. þeirra tveggja flokka í þessu samstarfi sem hafa prinsipp. Þriðji lafir bara með. Engin breyting hefur orðið á þessu markmiði, þó nýtt höfuð sé komið á samstarfið og það eldra fallið frá borði.

Því er varlegt að spá falli þessarar ríkisstjórnar, líklegra að hún lafi svo lengi sem henni er heimilt. Að bláþráðurinn haldi.

En það má vissulega vona.


mbl.is „Ríkisstjórnarsamstarfið hangir á bláþræði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr forseti

Fyrst vil ég óska Höllu Tómasdóttur til hamingju með sigurinn. 

Niðurstaða kosninganna um nýjan forseta yfir Íslandi, næstu árin, gat farið verr, en einnig líka mun betur. Ljóst er, miðað við fjölda frambjóðenda, að Halla fékk góða kosningu og vonandi mun hún standa sig í starfi. Til þess þarf hún að vera duglegur forseti þjóðarinnar, ekki láta utanaðkomandi öfl stjórna sér til hlýðni. Þetta mun fljótlega koma í ljós, enda mörg umdeild mál sem koma fljótt inn á hennar borð. Þá reynir á hana og sýnir hennar innri mann.

Þessi sigur Höllu losaði Kötu af öngli sjallana og því getur hún brosað breytt, einnig með augunum.

Það er hins vegar sú værukærð yfir landsmönnum sem kemur mér mest á óvart. Meðan erlend öfl eru að leggja undir sig landið okkar og erlend ríkjasambönd sælast sífellt meira til valda hér, sneið fyrir sneið, voru einungis örfá prósent sem kusu þann frambjóðanda sem stóð heill gegn þessum öflum. Við fengum tækifæri til að snúa þessari þróun við, en gripum það ekki. 

"Þetta reddast" er okkur landsmönnum tamt máltæki. Eftir að sjálfstæðinu hefur verið fórnað mun ekkert "reddast".  Þá verðum við hjálenda án allrar ákvarðanatöku um land okkar og auð þess. 

Baráttan heldur áfram.


Í dag sést hvernig til tókst að snúa þjóðinni á " rétta braut".

Jæja, þá er maður komin heim úr sveitinni. Lítill tími hefur verið til lesturs og enginn til skrifta síðustu vikur, meiri hagsmunir verið í forgangi, þ.e. að leggja örlitla hönd á að fæða þjóðina.

Ekki hefur þó slagurinn um Bessastaði farið framhjá manni, trúðslæti fjölmiðla og opinberun þeirra á heimsku sinni og sjálfhverfu hefur riðið hér öllu. Engu líkara en að þessar forsetakosningar eigi að snúast um þá.

Tólf vonbiðlar til Bessastaða keppa. Því er ljóst að hver sem kosinn verður, mun hafa lítinn hóp landsmanna að baki sér. Verður ekkert sameiningartákn eða mannsættir. Hins vegar gæti nýr forseti unnið á og heillað þjóðina. Jafnvel sameinað hana. Til þess þarf hann að vera duglegur að hampa þeim gildum er sameina okkur sem þjóð, tungumálið, fegurð landsins og auðæfi, sjálfstæði okkar og frelsi.

Ekki ætla ég að tala hér mikið um sjálfa frambjóðendurna. Þó verður ekki hjá því komist að nefna bros fyrrum forsætisráðherra. Þetta bros sem svo marga heilla. Nú nær þetta fallega bros hennar ekki lengur til augnanna, einungis varanna, samkvæmt margendurteknum auglýsingum hennar á ljósvakamiðlum. Sorglegt.

Annan frambjóðanda vil ég nefna, Arnar Þór Jónsson. Hann hefur borið af öðrum frambjóðendum, hvort heldur er í rökræðum eða öðrum uppákomum sem fjölmiðlar telja skipta máli, eins og flökun á fiski, míní útgáfu af "gettu betur", eða hverju öðru sem komandi forseti mun alveg örugglega aldrei þurfa að inna af hendi í embætti. Hversu gáfulega eða hálfvitalega fjölmiðlar hafa látið, þá hefur Arnari ætíð tekist að koma fram af reisn og styrk. Fjölmiðlum aldrei tekist að koma honum úr jafnvægi. 

Arnar er rökfastur og treystir þjóðinni. Hann gerir sér grein fyrir því hvaðan valdið kemur. Það er þjóðin sem hefur valdið, kjörnir fulltrúar eru vinnumenn þjóðarinnar. Því hefur hann boðað að í enn fleiri málum, einkum þeim er snýr að sjálfstæði okkar, muni þjóðin sjálf eiga síðasta orðið.

Einkum eru það þó verk Arnars sem setja hann ofar öðrum frambjóðendum. Hann hefur verið einstaklega duglegur við að halda uppi vörnum um sjálfstæði okkar, ekki síst í orkumálum. Hefur á stundum fengið bágt fyrir, einkum hjá svonefndum samherjum. Um stund heyrðist lítið frá honum, meðan hann var dómari. Til að geta látið rödd sína heyrast sagði hann upp þeirri æviráðningu, sem er næsta einstakt hér á landi.

Svo undarlegt sem það er þá hefur fylgi Arnars mælst lágt í svokölluðum skoðanakönnunum. Aðrir frambjóðendur, sumir sem sýnt hafa í verki að orð og æði þarf ekki að fara saman, sumir sem líta sjálfstæðið frjálsu auga og sumir sem eiga það kærast að beinlínis  vilja gangast undir valdboð erlendra aðila, mælast hærra í þessum svokölluðum skoðanakönnunum.

Þetta vekur vissulega upp spurningar. Er þjóðinni virkilega sama um sjálfstæði þjóðarinnar? Er þjóðinni virkilega sama þó landinu verði spillt með vindorkuverum, um landið þvert og endilangt, í boði erlendra aðila? Eða eru kannski þessar skoðanakannanir ekki sem sagt er? Komið hefur fram að sumir þeirra frambjóðenda er hæst mælast, eru með óbein tengsl inn í sum könnunarfyrirtækin og helstu stuðningsmenn þeirra með bein tengsl. Það eykur vart traust til þeirra.

Vitað er að skoðanakannanir, sannar eða lognar, eru skoðanamyndandi. Eftir hverjar kosningar koma svo þessi fyrirtæki og hæla sér fyrir nákvæmni sína, jafnvel þó nákvæmnin sé kannski ekki svo mikil. Fyrirtækin hafa ávallt svör við því. Kannski ættu þessi fyrirtæki frekar að hæla sér af því hversu vel þeim tókst til að snú þjóðinni á "rétta braut". Hvort tekst jafn vel og oft áður, eða jafn illa og í Icesave kosningunum, þegar þjóðin neitaði alfarið að fara eftir vilja þessara fyrirtækja.

Ég hvet alla til að mæta á kjörstað og nýta þann rétt er okkur er gefinn til að ráða okkar málum. Ef ykkur er annt um land okkar og þjóð, tungu okkar og frelsi til að nota hana, sjálfstæðið og rétt okkar til yfirráðum á auðlindum okkar og vissu þess að fá að eiga síðasta orðið í öllum mikilvægustu málum þjóðarinnar. Að það verði Íslendingar en ekki erlendir auðhringir eða erlend ríkjasambönd sem hér fái að vaða yfir allt og engu eira. Ef þið viljið forseta fyrir Ísland, þá kjósið þið Arnar Þór Jónsson.

Ef ykkur er sama um þessi grundvallar málefni, sem gerir okkur að Íslendingum, ef þið viljið forseta fyrir erlenda aðila, getið þið kosið hvern þann sem skoðanakönnunarfyrirtækin telja okkur fyrir bestu.


mbl.is Sjöundi forseti Íslands kjörinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kveikurinn útbrunninn

Fréttastjóri ruv telur engin annarleg sjónarmið liggja að baki því að fréttaskýring Maríu Sigrúnar var bannfærð í Kveiksþætti. Það má svo sem koma með ýmsar eftiráskýringar um þá ákvörðun, en öllum er ljóst af hvaða hvötum hún var. Það var einungis fyrir mikla óánægju eigenda ruv, þ.e. þjóðinni, sem látið var eftir að þessi fréttaskýring var að lokum birt í Kastljósþætti.

Í ljós kom að þarna var um vandaðan fréttaflutning að ræða og opinberun á því sukki sem hefur verið innan borgarstjórnar, um allt of langan tíma. Of mikið mál að ræða þá sorgarsögu alla. Skýringar fyrrum borgarstjóra á málinu halda hvorki vatni né vind, rétt eins og ætíð áður.

Það er endalaust hægt að karpa um hvort annarleg hvöt hafi ráðið för er þessari fréttaskýringu var hafnað af Kveiksstjórnendum, án þess að nokkurn tímann menn komist þar að sameiginlegri niðurstöðu. Þar ræður pólitík afstöðu fólks. Þeir sem beita skynsemi eru þó alveg klárir á hvað olli.

Hitt er aftur alvarlegra, ummæli Ingólfs Bjarna um Maríu Sigrúnu, þegar hann taldi hana ekki góðan rannsóknarblaðamann, en væri þó skjáfríð. Þessi orð eru svo alvarleg að þau hljóta að hafa eftirmála. Fréttastjóra ruv er vart stætt á að hafa slíkan mann á launum, í opinberri stofnun.

María Sigrún sannaði í þessari fréttaskýringu að hún er meiri rannsóknarblaðamaður en flestir aðrir, fyrrverandi og núverandi starfsmenn Kveiks. Vandaður fréttaflutningur um málefni sem á fullt erindi til þjóðarinnar og leifir sér að gefa þeim er fréttin snýr að mestan tíma þáttarins, til að koma með andsvör. Eitthvað sem vart er þekkt hjá Kveik til þessa.

Kyn og fegurð er svo aftur málinu algerlega óviðkomandi. Ingólfur Bjarni var þarna sjálfum sér og þeirri stofnun sem hann starfar hjá, til háborinnar skammar.

Magnað hvað þessi ummæli hans hafa fengið lítil viðbrögð. 

Þetta sannar enn og aftur að Kveikurinn er útbrunninn og fréttastofa ruv rúin trausti.


mbl.is Ríkisútvarpið skuldar skýringar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kappræður?

Það voru frekar leiðinlegar "kappræður" sem ruv bauð landsmönnum í gærkvöldi. Ekkert nýtt sem þar kom fram. 

Sem fyrr eru þeir frambjóðendur sem hæst skora í skoðanakönnunum á röngum stað í sínum málflutningi og reyndar nokkrir þeirra minna metnu einnig. Virðast telja sig vera að bjóða sig fram á löggjafaþingið, ekki til forseta. Hvort kjósendur eru svo einfaldir að telja forsetaembættið löggjafavald, skal ósagt látið. Hitt er ljóst að flestir frambjóðendur þekkja vald forseta, þó sumir spili á þessa vitleysu og virðast njóta góðs af, a.m.k. í könnunum. 

Embætti forseta er að samþykkja lög frá þinginu og ef hann telur þau lög stangast á við stjórnarskrá, nú eða hann skynjar mikla gjá milli þings og þjóðar, færir hann samþykkt þeirra laga til þjóðarinnar. Hann hefur ekki vald til að hafna lögum frá Alþingi, valdið til þess liggur einungis hjá þjóðinni. 

Sorglega lítið var rætt um varðstöðu um gildandi stjórnarskrá, því meira um hvort frambjóðendur ætluðu að breyta henni. Sem fyrr liggur það vald hjá Alþingi og þjóðinni með kosningu á nýju Alþingi, sem einnig þarf að samþykkja breytinguna. Þá fyrst verða breytingar á stjórnarskrá gildar. Forseti hefur enga aðkomu að þeirri ákvörðun nema sem hver annar íslenskur kjósandi. 

Sorglegt var að heyra suma frambjóðendur tala um einhverja nýja stjórnarskrá og sumir vitnuðu jafnvel til þess plaggs í svörum við spurningum. Það er einungis ein stjórnarskrá gild, hverju sinni. Þó að einhver umboðlaus hópur manna hafi soðið saman eitthvað plagg og kalla það " Nýja stjórnarskrá", er það algerlega marklaust. Gildandi stjórnarskrá er alveg skýr um hvernig breytingar hennar skulu gerðar og það ferli sem fór í gang, undir ríkisstjórn Jóhönnu var fjarri því sem gildandi stjórnarskrá tiltekur.

Einungis einn frambjóðandi sagðist myndi standa vörð stjórnarskrárinnar. Hann er lögfræðingur og fyrrum dómari og hefur af öllum frambjóðendum mestu þekkingu á henni. Þá hefur hann nokkra innsýn á störf Alþingis sem fyrrum þingmaður og ekki síst af þeim kynnum sem hann býður sig fram til forseta, sér þörfina. Þessi frambjóðandi er einstaklega prúður í framkomu, hefur haldið sig fjarri öllu skítkasti á meðframbjóðendur sína. Bíður sig fram á eigin kostum, en ekki löstum annarra frambjóðenda. Kannski á kurteisi og þekking ekki upp á borð hjá kjósendum, í það minnsta er nokkuð undarlegt hversu lítið fylgi hann mælist með í skoðanakönnunum.

Vonandi sér þjóðin að sér og kýs Arnar Þór Jónsson. Hann hefur sýnt og sannað að hann hefur festu og mikla þekkingu, auk þess að vera mjög frambærilegur og kurteis. Yrði landi og þjóð til sóma og myndi standa vörð gildandi stjórnarskrá, hverju sinni, landi og þjóð til heilla.


mbl.is Fyrstu viðbrögð við kappræðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband