Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sorglegt fyrir land og þjóð

Þá hefur ríkisstjórnin afgreitt þingsályktun og lög umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra um vindorkuver hér á landi. Alþingi á reyndar eftir að samþykkja þessa ráðstöfun ríkisstjórnarinnar, en sennilega er það einungis formsatriði. Þar með hefur verið opnað fyrir slátrun landsins undir vindorkuver og getur hver sem er gengið til þeirra óhæfuverka, erlendir sem innlendir. Reyndar má segja að franska fyrirtækið Qair, sem Tryggvi Herbertsson er í bitlingum fyrir og alþjóðafyrirtækið Zephyr, sem Ketill Sigurjónsson er starfsmaður hjá, sé búin að sölsa undir sig nánast öllu landinu og því fáir kostir eftir fyrir aðra.

En hvað um það, vindorkubrjálæðið er hafið hér á landi. Þökk sé GÞÞ, erkiglóp okkar landsmanna. Þetta mun leiða hörmungar yfir landið okkar, orkuverð mun hækka enn frekar. Því miður mun það ekki veita þessum orkuverum rekstrargrundvöll. Eina von þeirra er að héðan verði lagðir sæstrengir til meginlandsins. Einungis þannig er örlítil von um rekstrarhæfi, þó veik sé. Slíkir strengir duga hvorki Norðmönnum né Svíum til að reka sín vindorkuver yfir núllinu.

Gulli er ekki viss hvort vindurinn sé auðlind eða ekki. Svolítið vandræðalegt þar sem hann er jú umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra landsins. Ráðuneytið hans er þó með þetta á hreinu, þar fer ekki á milli mála að loftið, hvort sem það er kjurt eða á fullri ferð, er skilgreint sem auðlind. Kannski Gulli ætti að vera í svolitlu betra sambandi við eigið ráðuneyti eða í það minnsta lesa yfir það sem það færir honum til að bulla um. 

Þá telur Gulli að engin ástæða sé til að ræða þessi mál neytt meira, vill bara að verkin tali. Er hann þar að segja að Alþingi komi málið ekki við? Þó hingað til hafi einungis einn tveggja manna þingflokkur staðið fast gegn þessum áformum, þá nálgast kosningar óðfluga. Margir aðrir þingmenn er vanir að haga sínum málflutningi eftir því sem vindur blæs á samfélagsmiðlum. Telja það best til atkvæðaveiða. Og nú er að sjá eitthvað hik á VG liðum í þessu máli, enda algjört harakírí fyrir þá að samþykkja þetta rugl. Flokkurinn er þegar orðinn að örflokki og mun endanlega þurrkast út, samþykki hann ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar VG hafa reyndar þegar samþykkt þetta en þingflokkurinn væntanlega ekki. Það er því allsendis óvíst að þessi þingsályktun og lög nái samþykki Alþingis, svo það er kannski von að Gulli vilji hellst ekki leifa Alþingi að ræða málið.

Það er annars merkilegt, eða kannski ekki, að mogginn skuli ekki fjalla um málið. Þar er talið merkilegra að segja frá því að ruslabíllinn muni halda áætlun, að uppistandari hati uppistand, að enn sé beðið eftir gosi og fleiri fréttir í þeim dúr. Að við séum að afhenda landið okkar erlendum aðilum undir vindorkuver þykir ekki merkilegt á þeim bænum.

Fyrir hrun var Gulli nokkuð hallur undir "fjármálasnillingana", þessa sem settu landið á hausinn. Eftir hrun hagaði hann sér nokkuð betur, var næstum því ágætur þingmaður. Hélt jafnvel uppi sjálfstæðisstefnunni, sem átti mjög undir högg að sækja í flokknum. En svo var eitthvað sem gerðist í haus hans. Hann tók þá einstöku og fráleitu ákvörðun um að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni og var þar rasskeltur, rétt eins og flestir sem reyna slíkt. Eftir þetta hefur hegðun Gulla verið með ólíkindum og spurning hvort hann sé ekki í vitlausum flokki. Ekki einasta orð um sjálfstæðisstefnu flokksins kemur frá honum, reyndar ekkert orð um sjálfstæði landsins og vörn þess, yfir höfuð. Þess í stað hefur hann unnið hörðum höndum fyrir erlenda auðmenn, einna líkast því að hann telji sig sækja sitt umboð til ESB. Menn hafa verið dæmdir fyrir landráð af minna tilfelli.

Kannski blandast þarna einhverjir eiginhagsmuni inní en það skýrir þó ekki þetta hegðunarmynstur Gulla. Það er sorglegt hvernig komið er fyrir honum. Og það er líka sorglegt fyrir Sjálfstæðisflokk að sitja uppi með 11svona mann.

10

462F9BEDFD5E2F2271975DE918A41D82C950BD4884D4736EE5BDC4B0EF59876A


Margur verður af aurum api

Margur verður af aurum api og það virðist vera einstaklega fjölbreitt úrval apa á Íslandi, ekki síst meðal þeirra sem bjóða sig fram til stjórnunar ríkis og sveitarfélaga. Nægir að veifa einhverjum hugmyndum um hugsanlegan gróða, einhvern tímann í framtíðinni, til að hér sé náttúrunni fórnað. Þetta á ekki síst við þegar kemur að svokölluðum umhverfisverkefnum. Má þar nefna vindorku, niðurdæling á innfluttum koltvístring, mengun á sjó með því að kasta í hann gífurlegu magni af innfluttri tréflís og nú fórn á velgrónu svæði til skógræktar.

Varðandi það síðastnefnda þá er verið að fórna grónu landi á svæði sem er einstaklega viðkvæmt og fátækt af slíkum gæðum. Nú er ég alls ekki á móti skógrækt, þvert á móti. En val undir skóg verður að vera vandað, að hann sé til bóta en ekki bölvunar. Á norð austur horninu eru víða foksandar og gróðurlítil svæði sem þurfa hjálp. Þar má vel planta stórskógum eins og Ygg vill gera. Að velja gróið svæði til þess er fráleitt. Bara það að rífa upp svörðinn veldur mikilli kolefnislosun, en það sem kannski er verra er að þegar skógur hefur yfirtekið þetta land mun allur annar gróður hverfa. Þetta gæti leitt til gróðureyðingar og óvíst að skógurinn geti varnað því. Þó rótarkerfi skóga sé ágætt þá er rótarkerfi lyngs enn víðfeðmara og betra.

En eins og áður segir, margur verður af aurum api. Sveitarfélaginu Norðurþingi, eða réttara sagt stjórnendum þess, er lofað 5% af sölu kolefniskvóta og þá er fjandinn laus. Þessi kolefniskvóti skilar sér þó ekki fyrr en eftir mörg ár, einhvern tímann í framtíðinni, þ.e. ef trén ná að vaxa og dafna. Engan kolefniskvóta er hægt að selja fyrr en sýnt er fram á að komandi skógur er farinn að vinna kolefnið úr andrúmsloftinu. Það er ekki nóg að vera með exelskjal til sölu slíkra kvóta.

Það er í tísku að nýta styrkjakerfi til að koma svona verkefnum af stað. Því heimskulegri sem hugmyndin er, því opnari verður styrkjasamfélagið. Það er einnig í tísku að láta sig hverfa með sem mest að fénu, þegar ekki verður lengur tottaðir styrkir. Þetta sést víða erlendis en er einnig farið að nema land hér á landi. Nægir að nefna fyrrverandi tréflísafyrirtækið ameríska, Runnig Tyde í því sambandi. Því er alssendis óvíst að Norðurþing fái nokkurn tímann krónu fyrir verkefnið.

Svo geta menn velt fyrirsér mótsögnunum. Hef hér nefnt fyrrverandi fyrirtæki, Running Tide, en það lét höggva skóg í Norður Ameríku, kurla hann niður í flís og flutti með stórum skipum yfir hafið til Íslands, þar sem blandað var sementi við þessa flís og hún flutt hálfa leið til baka aftur og dumpað þar í hafið. Eftir stóð skóglaust og örfoka land þar sem áður var skógur, þar ytra. Nú er grónu landi hér, sem er þegar að vinna af fullum krafti við að fanga kolefni úr loftinu, bylt við og eyðilagt til að planta þar skógi. Stórum skógi á íslenskan mælikvarða en þó einungis örskógi miðað við þann sem felldur var í Norður Ameríku og fluttur hingað.

Hvoru tveggja er gert í nafni þess að fanga lífsandann úr andrumsloftinu.

 


mbl.is Sér á eftir mjög fallegu landi og berjamó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hverfandi hveli (Gone With The Wind)

Segja má með sanni að leyfisveiting orkumálastjóra til Landsvirkjunar fyrir vindorkuveri, hafi í raun verið síðasti þröskuldur þeirra er vilja leggja landið undir vindorkuver. Þar með hefur fordæmið verið gefið og útiokað að stöðva brjálæðið. Orkumálastjóri nefnir að þarna sé litlu að tapa, hvað varðar umhverfissjónarmið, þegar sé búið að spilla þar landinu svo nokkrar iðnaðarvindtúrbínur breyti litlu.

Nú veit ég ekki hversu vel stýran þekkir til á þessum slóðum, taldi reyndar að hún væri þar nánast á heimaslóðum, eða svo mátti skilja er hún barðist fyrir Bessastöðum. En henni til fróðleiks, ef það hefur kannski farið framhjá henni, þá er þetta hliðið inn á hálendið okkar sem um ræðir. Þarna fer fjöldi ferðafólks, bæði íslenskt sem erlent, ýmist til að fara norður yfir Sprengisand eða skoða náttúruperlurnar að Fjallabaki. Verri staðsetning varðandi skemmd á náttúrunni og ferðaþjónustunni er vandfundin.

En hvað um það. Nú geta Tryggvi Herbertsson og félagar kæst, að ekki séu nú nefndir sumir ráðherrarnir okkar. Kæmi ekki á óvart þó þeir hefði slegið í smá partí í gær og opnað nokkrar freyðivínsflöskur. Fjárglæframenn hafa nú fagnað af minna tilefni.

Það sem kemur þó mest á óvart er að nú er að opinberast allur ósóminn kringum vindorkuna. Lengi verið talað um alla þá mengun sem henni tilheyrir, bæði sjónrænni sem og hættulegri mengun fyrir umhverfið. Hækkandi raforkuverð hefur ætíð fylgt þessari orkunýtingu, jafnvel svo að fólk hefur ekki efni á að nýta sér rafmagnið. En nú er einnig að opinberast svindlið sem að baki liggur.

Ekkert vindorkuver er sjálfbært, hvorki varðandi náttúruna né rekstrarforsendur. Erlendis hafa ríki þurft að greiða þessa orku niður í stórum stíl. Framkvæmdin sjálf er oftast greidd af ýmsum sjóðum og hefur ESB verið duglegt á því sviði. Víðast er það svo að einhverjir "erlendir" aðilar sjá um uppbygginguna og lofa öllu fögru til að fá land undir ósómann. Þegar styrkir eru komnir í hús hverfa þeir gjarnan til aflandseyja og þegar ekki verður lengur tottað meira úr þessum sjóðum, hverfa þessir "erlendu" aðilar einnig. Sveitarfélög sitja síðan uppi með allt draslið, án þess að hafa fengið nokkuð að öllum "gróðanum".

Þetta er ekki svartsýnishjal, heldur kaldur veruleiki. Þarf ekki annað en að fara til okkar næstu nágranna til að sjá þetta. Noregur og Svíþjóð eru dæmi um þetta, þar sem allur "gróði" hefur horfið úr landi ásamt stofnendum vindorkuveranna og þau skilin eftir í skuldasúpunni.

Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum manni til hugar að þetta verði eitthvað öðruvísi hér en í Noregi eða Svíþjóð. Þegar svo við þetta bætist að að orkuverð þar ytra er margfalt hærra en hér á landi eru vart til orð sem lýsa heimsku þeirra er vilja leggja landið okkar undir slíkar virkjanir.

Ísland er á hverfandi hveli vegna fávisku þingmanna okkar og þeirra er þeir ráða til starfa í æðstu stöður samfélagsins.

 


mbl.is Til skoðunar að kæra virkjunarleyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindorkuver í landi Sólheima í Dölum

Fyrir skipulagsstofnun liggur til umsagnar kynning á umhverfismatsskýrslu um vindorkuver í landi Sólheima í Dölum, nánar tiltekið á Laxárdalsheiði.

Það sem ekki er sagt.

Fyrst er rétt að tíunda nokkur atriði er ekki koma fram í skýrslunni. Það er þó ekki tæmandi listi, fjarri því. Ekki kemur fram hver eða hvernig orkan á að nýtast, einungis að hún skal keyrð inn á net Landsnets. Þarna er um að ræða virkjun með uppsett afl upp á 209 MW. Það segir að það magn af orku fer þá inn á netið þegar vindur blæs. Engin orka skilar sér hins vegar þegar lygnir. Þetta mun valda sveiflum á kerfinu sem ekki er gert ráð fyrir að vindorkuverið þurfi að brúa. Enginn kaupir slíka orku og ef Landsvirkjun er ætlað að taka á sig sveiflurnar er ljóst að rekstur virkjana þess verður óhagkvæmari og orkuverð muni hækka. Til samanburðar má nefna að Hrauneyjarfossstöð er með uppsett afl upp á 210MW og samanlagt er uppsett afl Írafossstöðvar, Laxárvirkjana 1, 2 og 3, Ljósafossvirkjunar, Steingrímsstöðvar og Vatnsfellsstöðvar 206,5MW. Þarna er því um mikla orku að ræða sem þetta eina vindorkuver getur framleitt þegar vindur blæs en ekkert ef lygnir. Þá sveiflu telja aðstandendur þessa orkuvers sig ekki bera ábyrgð á eða þurfa að jafna.

Nokkuð er rætt um hugsanlega mengun frá orkuverinu. Þó er ekki minnst einum staf á þá tvo mengunarþætti er alvarlegastir eru, örplastmengun og slepping á sf6 gasi. Örplastmengun frá vindtúrbínum er þekkt vandamál og alvarlegt. Trefjaplastið þolir illa þá áraun er verður á spöðum þeirra, ekki síst við erfiðari veðuraðstæður eins og hér eru. Því slitna þeir hratt, talið gott ef þeir duga einn áratug, eða innan við helming endingartíma túrbínuna. Þetta er staðreynd sem ekki hefur enn verið fundin lausn á.

Straumlokar eru kældir og einangraðir með sf6 gasi. Við hverja opnun eða lokun þeirra sleppur örlítið af þessu gasi út í andrúmsloftið. Þetta kemur lítið að sök í vatnsaflsvirkjunum, þar sem framleiðsla er stöðug, en er vandamál varðandi vindorkuver. Þar er sífellt verið að opna og loka þessum lokum, eftir því hvernig vindur blæs. Í norðanverðu Þýskalandi, þar sem vindorkuver hafa sprottið upp í miklu mæli, er þegar farið að mælast hækkun á sf6 gasi í andrúmsloftinu. Sf6 gas eða sulfur hexafuoride, er litlaust og lyktarlaust gas sem hefur þann eiginleika að vera einstaklega treg- eða óbrennanlegt. Áhrif þess á andrúmsloftið er 23500 sinnum öflugra en co2. 

Bruni í vindtúrbínu er mál sem erfitt er að taka á. Auðvitað kviknar í vindtúrbínum, þó við verðum að vona að algengi þess sé ekki jafn svakalegt og hingað til á Íslandi, þar sem ein af hverjum fjörum hafa brunnið. En engu að síður kviknar í þeim. Hjá því verður ekki komist. Þegar slíkt gerist er lítið annað hægt að gera en horfa á úr fjarska og vona að enginn hafi verið staddur uppi í rafalhúsinu er eldurinn kviknaði. Til þessa hafa afleiðingar slíkra bruna verið litlir, aðrir en tap vindorkuversins. Nú er hins vegar farið að vakna spurningar um hvað verður um mengunina, þó einkum eðli hennar, frá slíkum brunum. Þegar trefjaplast brennur verður mikil mengun af glertrefjum. Þessar glertrefjar fjúka með vindinum langar leiðir og lenda að lokum í vistkerfinu. Fyrst í grasinu og síðan þeim skepnum er lifa á því. Nýlega kom upp slíkur bruni í vindtúrbínu í Bandaríkjunum. Bann var lagt á beit skepna á stóru svæði og öll jarðvinnsla og nýting lands bönnuð. Bændur máttu ekki hirða tún sín. Erfitt eða útilokað er að hreinsa glertrefjar af jörðu og enginn veit hversu langan tíma tekur að losna við þá óværu. Getur tekið aratugi. Á meðan er enginn búskapur á svæði er mengast af þessum sökum. Þá er talið að brunnar glertrefjar séu nánast eins og asbest hvað mannskepnuna varðar, krabbameinsvaldandi.

Skautun.

Það er víða sem hægt er að nefna svokallaða skautun í þessari skýrslu, þar sem sannleikanum er hliðrað eða jafnvel tilraunir til að fela hann. Lítið gert úr því sem ekki hentar en því meira úr því sem "fallegt" er. Og svo eru beinlíns rangfærslur í þessari skýrslu, viljandi eða óviljandi.

Fyrir það fyrsta þá fer framkvæmdarsvæðið yfir sveitarfélagsmörk, samkvæmt öllum kortum er eru í skýrslunni. Nær yfir í Húnaþing vestra. Á einu korti er að auki áhrifasvæðið bæði út fyrir sveitarfélagsmörk sem og framkvæmdamörk. Nú er það svo að Sólheimar eru austasti bær í Laxárdal í Dölum. Jörðin liggur að sveitarfélagsmörkum og bæjunum Laxárdal og Bæ 1 og 2 í Húnaþingi vestra. Eins og áður segir liggur athafnasvæðið og að hluta einnig áhrifasvæðið austur yfir sveitarfélagsmörkin, eða yfir í land Laxárdals og Bæ 1 og 2. Ekkert samráð hefur verið haft við eigendur þessara jarða, einungis einn lélegur fundur, snemma á ferlinu, haldinn til kynningar í nágrannasveitarfélaginu. Samkvæmt byggingareglugerð skal ávallt fá samþykki næstu nágranna fyrir framkvæmdum. Einu undantekningarnar frá þeirri reglu eru ef girt er á lóða eða landamörkum og girðing er innanvið 180 cm á hæð og ef byggður er svokallað garðhús að hámarki 250cm hátt og að er fjær landamerkjum en 3 metrar, þarf ekki slíkt skriflegt leifi. Því er með ólíkindum að hægt skuli vera að byggja fjölda af vindtúrbínum, 200 metra háum, staðsettum nánast á landamerkjum, án samráðs eða samþykkis nágranna! Það er vandséð að þetta geti staðist lög!

Qair ætlar, samkvæmt skýrslunni, að notast við vindtúrbínur frá fyrirtækinu Vestas, type 162 7,2. Ef farið er inn á heimasíðu þess fyrirtækis er hægt að nálgast allar upplýsingar um þær túrbínur er þeir framleiða, einnig þessa gerð. Þar kemur fram að hávaði frá túrbínunni er sagður vera 105,5 dB, eða svipaður og þegar þyrla flýgur hjá. Þyrlan flýgur burtu en allar 29 túrbínur vindorkuversins á Laxárdalsheiðinni munu vera fastar þar, með tilheyrandi hávaða dag sem nótt. Í skýrslunni er lítið gert úr þessari mengun, miðað við hvernig heyrast muni í 7 km fjarlægð. Sjálfsagt heyrist þar mun minna, fer þó eftir því hvort vindur blæs af túrbínunum þangað eða ekki. Vindur ber jú hljóð, eins og flestir vita. Þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að á þessu svæði eru nokkur stór og öflug fjárbú sem beita fé á heiðina, enda einstaklega gott beitarlend. Hætt er við að blessaðar ærnar ærist af hávaðanum og komi sér burtu. Mikið fuglalíf er á svæðinu, eins og kemur fram í skýrslunni og ekki víst að fuglarnir sættist á þennan hávaða. Eitt er þó alveg víst að lítið mun heyrast af þessum hávaða til Reykjavíkur, þar sem ætlunin er að stjórnstöðin fyrir vindorkuverið á að rísa!

Allar skýringarmyndir um hæð og umfang vindtúrbínanna eru rangar. Minna gert úr hæð þeirra og umfangi en ástæða er til. Sem dæmi er mynd sem eignuð er Qair og sýna á stærð vindtúrbínanna miðað við annars vegar Hallgrímskirkjuturn og hins vegar Effelturnin. Ef við gefum okkur að Hallgrímsturninn sé í réttri hæð á myndinni, 75 metra hár er ljóst að vindtúrbínan sem á að vera 200 metra há er á þeirri mynd ekki nema 117 metra há og Effelturninn sem á að vera 300 metra hár hefur lækkað nokkuð verulega, eða niður í 188 metra hæð. Ekki viss um að frökkum myndi líka það. Þetta er einungis eitt dæmi um fölsunina og því spurning hversu mikið er að marka skýrsluna í heild. Ef ekki er hægt að gera eina skýringarmynd í réttum hlutföllum er varla hægt að treysta því að önnur atriði séu samkvæmt raunveruleikanum eða sannleikanum!

Reynt er að gera minna úr undirstöðum en tilefni er til. Gefið í skyn að magn steypu geti verið misjafnt og jafnvel tiltölulega lítið. Undir vindtúrbínu af þeirri stærð er hér um ræðir þarf að minnsta kosti um 1000m3 af steypu, meira ef land liggur þannig. 1000m3 er um 2500 tonn, bara undir eina túrbínu. Það gerir 72500 tonn af steypu, plús steypu undir spennahús og stjórnhús. Það verða þá á fimmta þúsund steypubíla sem þurfa að aka um 55km aðra leiðina, 110km í hverri ferð.

Þá er gert ráð fyrir svokölluðum óvenjulegum hlössum, þ.e. hlöss sem ekki rúmast innan umferðarlaga vegna þyngdar eða stærðar. Sagt að 319 ferðir með slíkan farm muni þurfa til. Þarna er þó skekkja. Skýrsluhöfundar gera ráð fyrir að turn túrbínunnar sé fluttur í heilu lagi á staðinn. Það er með öllu útilokað. Spaðarnir eru 81 metri að lengd og eðli málsins samkvæmt verða þeir ekki fluttir öðruvísi en í heilu og þykir nokkuð afrek. 80 metrar eru eins og 6,66 40 feta gámar, enda í enda. Turninn er hins vegar bæði mun lengri, eða 162 metrar, helmingi lengri en spaðinn og að auki margfalt þyngri. Hann verður því klárlega fluttur í pörtum. Hins vegar mætti svo sem parta hann svo mikið niður að flutningurinn teldist löglegur. Það yrðu þá ansi margar ferðir. Vaninn er hins vegar að taka turninn niður í nokkra parta og flytja þannig, sem ólöglegan farm.

 Nokkuð er rætt um fuglalífið í skýrslunni. Það sem er kannski athyglisverðast eru ratsjármælingar af flugi fuglanna. Greinilegt er að mesta flug þeirra er einmitt þar sem ætlunin er að reisa vindtúrbínurnar, minna þar á milli. Örninn sker sig þarna nokkuð úr en hans flug er mest við túrbínur eitt til sex, eða nyrstu og austustu túrbínurnar. Þetta kemur ekki á óvart, enda arnarhreiður þar í grennd. Lítið er gert úr áhrifum vindorkuversins á fuglalíf, þó vissulega það muni verða all verulegt.

Ferðaþjónusta er nokkur í Dölum og víst að hún mun að estu leggjast af. Mikil umferð ferðafólks er bæði um Dalina sem og vestanverðan Hrútafjörð, enda einu landleiðirnar á vestfirði um þá vegi. Þá er mikil umferð ferðafólks um austanverðan Hrútafjörð. Þar liggur leiðin milli norður og suðurlands. Sjónmengun frá vindorkuverinu mun hafa veruleg áhrif á upplifun ferðafólks um alla þessa vegi, ekki kannski jákvæð. Erlendir ferðamenn koma ekki hingað til lands til að sjá vindorkuver. Þeir koma til að njóta óspilltrar náttúru.

Lokaorð.

Þessi pistill er orðinn mun lengri en ætlað var og því kominn tími til að hætta, jafnvel þó enn liggi margt ósagt sem segja má. Meginmálið er þó þetta:

Vindorkan er með þeim takmörkunum að einungis er hægt að framleiða þar orku þegar vindur blæs. Þess á milli getur framleiðslan farið í núllið. Til að jafna sveiflur frá vindorkunni þarf eitthvað annað, einhverja aðra orkugjafa. Hjá okkur er það vatnsorkan. Ef við tökum úr almennri virkni vatnsorkuver til að vega á móti vindorkunni er ljóst að enginn aukning hefur orðið á raforkuframleiðslu hjá okkur, einungis eðlisbreyting til hins verra. Þá þurfum við að hafa vatnsorkuver sem ekkert framleiðir meðan vindur blæs, svo vindorkuverið geti selt sína framleiðslu, en kemur svo inn þegar lygnir svo neytendur verði ekki fyrir skakkaföllum. Er þá ekki betra að vera einungis með vatnsorkuverið og hlífa náttúrunni.

Vindorkuver er fjarri því að geta talist hreinorkuver. Er mun nær kolaorku en vatnsorku hvað mengun varðar. Og þá er einungis verið að tala um mengun, ekki áhrifin á dýralífið, sem eru verulega neikvæð. Að byggja vindorkuver þar sem blómlegur landbúnaður er stundaður er svo aftur einhver mesta glópska sem þekkist. Að leggja búvænleg héröð í eyði.

Hin viðkvæma ferðaþjónusta, sem virðist eiga erfitt við flestar aðstæður, mun alls ekki lifa af vindorkuver í bakgarðinum.

Hvernig framkoman við landeigendur umhverfis fyrirhugað vindorkuver á Laxárdalsheiðinni, er svo sér kapítuli. Þar er sveitarstjórn Dalabyggðar ekki til fyrirmyndar eða sóma!!

 

 


mbl.is Blöðin teygja sig 200 metra upp í loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógn við lýðræðið

Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að því að kosning sem haldin er eftir þeim reglum sem settar eru og um 70% þjóðar tekur þátt í, hvernig í ósköpunum er hægt að komast að því að niðurstað þeirrar kosningar sé ógn við lýðræðið?! Að þeirri niðurstöðu komst þó "sérfræðingur" er fréttastofa ruv dró til sín í sjónvarpssal. 

Flokkur Marie Le Penn, Þjóðfylkingin, hlaut yfirburðakosningu í frönsku þingkosningunum. Þeir sem fylgst hafa með málflutningi þess flokks vita að hann byggir fyrst og fremst á að setja Frakkland og franska kjósendur í fyrirrúm. Hefur sett spurningamerki um þróun esb, einkum þeim andlýðræðislegu gildum sem sífellt meira eru að yfirtaka sambandið. Þetta þykir esb vera ógn og því verið duglegt að úthrópa Þjóðfylkinguna sem hægri öfgaflokk, reynt að koma í undirvitund kjósenda að hættulegt sé að kjósa þann flokk.

Nú er það svo, samkvæmt frönskum kosningalögum, að ef enginn flokkur nær hreinum meirihluta, skal kjósa aftur um þá tvo flokka er mest fylgi fengu. Því verður kosið aftur um næstu helgi, væntanlega á milli Þjóðfylkingar og bandalags vinstriflokka. Flokkur Macrons, sem hlaut afhroð í kosningunni, hefur ekki rétt til þátttöku í þeirri kosningu. Þó hefur Macron stigið fram og sagt að nauðsynlegt sé að mynda kosningabandalag gegn Þjóðfylkingunni. Að hans flokkur fái aðgengi að bandalagi vinstri flokka. 

Hvað kallast slík afskræming á lýðræðinu?!

Ógn við lýðræðið?!


mbl.is Flokkur Le Pen bar sigur úr býtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eintómur misskilningur

Umhverfisráðherra er einn stór misskilningur og ætti að finna sér annað starf. Skilur ekki hlutverk sitt né fyrir hverja hann á að vinna. Í stað þess að standa vörð íslenskrar náttúru eltir hann erlenda loftlagstrú. Leggur meiri áherslu á ímynd sína gagnvart erlendum aðilum í stað þess að verja sína vinnuveitendur. 

Veruleg áhöld eru um hvort jörðin fari hlýnandi af mannavöldum eða af náttúrulegum ástæðum. Reyndar veruleg áhöld um hvort jörðin fari hlýnandi yfirleitt. Til þess að komast að þeirri niðurstöðu þarf að misskilja eldri hitamælingar, eða öllu heldur "leiðrétta" þær. 

En hvað um það. Gefum okkur að það sé að hlýna á jörðinni. Við því er lítið annað að gera en að undirbúa jarðarbúa til að takast á við það. Það er stór misskilningur að mannskepnan geti gert eitthvað gegn hlýnun, einungis aðlagað sig að henni. Við lifum í dag við eitt kaldasta tímaskeið frá síðustu ísöld. Ný skriðin út úr þeim tíma er kuldi var svo mikill á jörðinni að örlítið meiri kólnun hefði sennilega leitt til alvöru ísaldar. Því eigum við að fagna hverri gráðu sem hlýnar frá þeim ósköpum. 

Mikið er látið með skaðsemi co2 í andrúmsloftinu, sjálfum lífsandanum. Það er stór misskilningur. Grænblöðungar eiga sína tilveru alfarið undir þeim lífsanda og þar með allt líf á jörðinni. Magn þessa lífsanda nú er með því lægsta sem þekkist í jarðsögunni og fór nánast að þeim mörkum að líf jarðar var komið í hættu. Sem betur fer hefur magn lífsandans aukist lítilleg. Það er gott mál, enda gróðurfar aukist. Vandinn er hins vegar sá að með auknum gróðri er auðveldara fyrir óprútna að kveikja gróðurelda. 

Sá misskilningur að co2 leiði til hlýnunar andrúmsloftsins er lífsseigur. Staðreyndirnar eru hins vegar þær að einn vísindamaður kom með þessa tilgátu, seint á nítjándu öld. Innan áratugar hafði fjöldi vísindamanna afsannað þá kenningu. Það var síðan pólitíkus sem vakti þann draug upp, um öld síðar. Þessi pólitíkus hafði sterk ítök í peningavaldið og þeir vísindamenn sem mótmæltu hans "visku" voru óðara settir út af sakramentinu. Nú eru einungis eldri vísindamenn sem þora að mótmæla, enda hættir launastörfum og hafa engu að tapa. Aðrir hlýða boðskapnum, gegn betri vitund. Vita að orsakasamhengið er öfugt.

Mikið magn co2, eða lífsandans, er bundið í mýrum, ekki síst freðmýrum. Þegar hlýnar þiðna freðmýrarnar og lífsandi losnar. Það er því ekki lífsandinn sem orsakar hlýnun, heldur eykst magn lífsandans við aukna hlýnun. Þetta eru reyndar svo augljós fræði að jafnvel ráðherrar ættu ekki að þurfa að misskilja þau.

Veður hefur ætíð áhrif á mannskepnuna, enda hún viðkvæmasta og aumasta skeppna jarðar. Sagan kennir okkur að frá síðustu ísöld hafa ætíð orðið mestar framfarir hjá manninum, þegar hlýtt er í veðri og mestu hörmungar orðið þegar kólnar. Enn í dag er það svo að margfalt fleiri látast vegna kulda en hita. 

Sá misskilningur ráðherra og trúbræðra hans, að hægt sé að stjórna veðri, gerir ekkert annað en að færa fé milli manna, láta láta almenning og heilu þjóðfélögin blæða til að örfáir fái enn meira í sínar fjárhirslur. Þetta gerir það að verkum að þjóðir heims verða enn berskjaldaðri til að verja sitt fólk fyrir veðurbreytingum, einkum ef hitastigið tæki stefnu aftur niðurávið. Algert hrun yrði ef aftur kæmi tímabil eins og var frá 13 til 19 aldar. Ef Thames á legði, ef allir firðir hér á landi legðu og hafís allt umhverfis landið, þyrfti ekki að spyrja að leikslokum. Það þarf ekki nema um 1.5 gráðu kólnun til! 

Það er ekki misskilningur!! 


mbl.is Banninu ekki flýtt: „Alltaf verið misskilningur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfum við tapað stríðinu?

Hver orrustan af annarri tapast, hjá okkur sem berjumst gegn áformum um vindorku á landinu okkar fagra.

Nú er orðið ljóst að Landsvirkjun ætlar að ríða á vaðið í eyðingu landsins, með vindorkuveri sem á að telja 30 vindtúrbínur. Staðsetningin er ekki af verri endanum, við innganginn að hálendinu þar sem ferðamenn sækja í að skoða ósnortna náttúru og hinar fögru víðáttur. Ekki víst að erlendu ferðafólki hugnist að sækja okkur heim þegar þeirri upplifun hefur verið eytt.

En, sem sagt, Landsvirkjun ætlar að reisa þarna 30 túrbínur. Segir hæð þeirra verða um 100 metrar á hæð, en tekur þó skýrt fram að það eigi hugsanlega eftir að breytast. Nú er vitað hverjar væntingar fyrirtækisins til orkuöflunar þessa vindorkuvers eru og samkvæmt því þarf hver vindtúrbína að hafa uppsett afl sem svarar a.m.k. 4MW. Ef skoðaðar eru heimasíður framleiðenda þessara mannvirkja kemur hins vegar í ljós að vindtúrbína með uppsett afl 3,6-4,2MW er nokkuð hærri en 100 metrar á hæð, reyndar töluvert hærri. 150 metrar eru nærri lagi, svo uppfylla megi vænta orkuframleiðslu hverrar þeirra. Þá á eftir að taka inn í reikninginn rekstrartími þessara túrbína. Hann stjórnast ekki bara af vindi heldur spilar viðhald þar einnig stórt inní. Við bestu aðstæður, meðan vindtúrbínur eru tiltölulega nýjar, má kannski gera ráð fyrir um 50% rekstrartíma, en það hlutfall lækkar skart eftir því sem líður á líftíma þeirra. Hávaðinn frá slíkum mannvirkjum er sagður jafngilda hávað frá þyrluflugi. Munurinn þó sá að þyrlan flýgur hjá en vindtúrbínan stendur kyrr með stögum hávaða.

Að segja opinberlega að þessi mannvirki verði "einungis" um 100 metra há, er því vísvitandi lygi!

Eftir að Landsvirkjun hefur byggt sitt vindorkuver verður erfiðara að standa gegn öðrum aðilum er vilja reisa hér slíkan óskapnað. Og ekki er vöntun á þeim. Eina skilyrðið er að viðkomandi fyrirtæki sé skráð innan ESB/EES ríkis. Annað þarf ekki til. Þá hafa þau jafnan rétt til að eyðileggja land okkar og Landsvirkjun og þar getur Alþingi ekkert sagt eða gert. Reyni stjórnvöld eða Alþing að setja sig gegn þeim vilja fyrirtækjanna, mun ACER úrskurða um málið. Sá úrskurður getur aldrei orðið nema á einn veg. Það er því ákvörðun sem tekin er í Lubljana í Slóveníu sem gildir!

En það er ekki bara landið okkar sem er undir, landgrunnið allt er komið til skoðunar. Þar eru reyndar Bretar sem mestan áhuga hafa, vilja gera Ísland að orkubanka fyrir sjálfa sig. Hvort Alþingi fái einhverju ráðið um þær áætlanir er svo spurning. Ekki þarf annað til en að skrá fyrirtækin í einhverju landi ESB/EES og þá verður Bretum þar allir vegir færir.

Einn er sá þáttur þessara fyrirætlana allra sem gæti sett strik í reikninginn, en það eru sveitarfélög landsins. Þau hafa skipulagsvaldið. Því miður virðist auðvelt að kaupa stjórnir þeirra til fylgilags. En þar er þó okkar eina von úr þessu, þó veik sé.

Sveitarstjórnir eru einstaklega sveigjanleg ef erlendir aðilar sækja þær heim. Kikna í hnjánum fyrir þessum erlendu mikilmennum. Ef ég vil byggja mér smá garðhýsi í garðinum mínum má það að hámarki vera 2,5 metrar í hæsta punkt og ef mannvirkið mikla er nær lóðamörkum en 3 metrar, þarf skriflegt samþykki frá nágranna og skiptir þar engu þó sá nágranni sé í öðru sveitarfélagi. Skriflegt samþykki SKAL liggja fyrir, alltaf!

Hins vegar hafa sum sveitarstjórnir leyft sér að skipuleggja vindorkuver með vindtúrbínum nærri 200 metrum háar á lóðamörkum bænda, án þess að þeir fái þar eitthvað um að segja og ef viðkomandi bóndi er í öðru sveitarfélagi er hann ekki einu sinni virtur viðlits. Sagt að þetta komi honum bara alls ekkert við! Svolítið undarleg stjórnsýsla. Í byggingareglugerð, sem á að ná yfir allar byggingar í Íslandi kemur skýrt fram að allar framkvæmdir skuli fá grenndarkynningu, utan smáhýsi sem eru innan við 2,5 metra há og fjær lóðamörkum en 3 metrar. Allar aðrar framkvæmdir þurfa skriflegt samþykki nágranna. Engar undantekningar eru á þessu í reglugerðinni, utan þess er áður er sagt.

Því verður maður svolítið sorgmætur. Ekki einungis eru sum sveitarfélög einstaklega eftirlát erlendum öflum, heldur virðast þau ekki hika við að brjóta þær reglugerðir er þeim er ætlað að starfa eftir, til þóknunar þessum öflum. Og um leið og eitt sveitarfélag kemst upp með slík brot er víst að erfitt verður fyrir önnur að standa í lappirnar.

Því er svo að sjá að stríðið sé tapað, að lokaorrustan hafi þegar farið fram. Reyndar má segja að þetta stríð hafi tapast fyrir nokkru, eða þegar Alþingi samþykkti orkupakka3, jafnvel enn fyrr, eða þegar Alþingi gekkst að því að orkan okkar væri vara og þannig hluti af EES samningi. Þar voru fyrstu mistökin gerð en þau síðan fest enn frekar í sessi með samþykkt op2 og svo endanlega með samþykkt op3. Orkupakki 4, sem Alþingi hefur ekki enn samþykkt liggur á borðinu. Reyndar áhöld um hvort yfir höfuð þurfi að samþykkja hann, þar sem hann hafði þegar tekið gildi innan ESB er Alþingi samþykkt op3. ACER starfar samkvæmt op4 og getur ekki annað og Ísland samþykkti op3 sem fjallar einmitt um að ACER skuli hafa endanlegt vald um öll orkumál. Vissulega eigum við orkuna okkar enn, en ráðum í raun litlu um hana.

Orkan okkar er ekki vara. Vara er eitthvað sem hægt er að höndla. Orkan okkar er hluti innviða landsins okkar. Því átti orkan okkar aldrei neitt erindi inn í EES samninginn. Þessu má enn breyta. En til þess þarf kjark, kjark sem ekki er til staðar á Alþingi í dag.

Maður spyr sig; hvers vegna var barist fyrir sjálfstæði landsins ef við síðan afhendum erlendum öflum yfirráð yfir gullkistu okkar? Hver vegna var barist við Breta um landhelgi okkar, ef við síðan ætlum að færa þeim landgrunnið á silfurfati?

Það sorglega við þetta allt er að þeir tveir stjórnmálaflokkar sem stofnaðir voru fyrir tíma sjálfstæðisins, standa að því að fórna landi okkar á altari Mammons!! Að það skuli vera sömu flokkar og áttu stærstan þátt í að við fengjum sjálfstæði, skuli vinna harðast að því að fórna því!!

Náttúra okkar er einstök. Erlendir ferðamenn sækja okkur heim til að njóta þess að skoða perlurnar okkar. Þetta hefur gefið okkur gjaldeyri, gjaldeyri sem við getum síðan eytt í ferðir til erlendra landa. Eftirspurn byggir alfarið á náttúru okkar. Verði af þeim vindorkuverum sem áætlað er að byggja, mun sú eftirspurn ekki lengur verða til staðar.

Þegar hefur verið tekin ákvörðun um að eyðileggja inngönguna inn á hálendið, með vindorkuveri við Búrfell. Þangað mun færri sækja. Enginn un hafa áhuga á að ganga á Grábrók, ef hvínandi vindorkuver verða komin þar umhverfis, bæði í austri og norðri. Stuðlagil og hálendið norðan Vatnajökuls verður lítt eftirsóknarvert ef áform um byggingu vindorkuvers á Fljótsdalsheiði raungerist. Hin mikla gróska í ferðaþjónustu og fuglaskoðun í Meðallandinu mun hverfa, verði af áætlunum um vindorkuver í landi Grímsstaða. Reyndar mun sú virkjum hafa enn víðtækari áhrif, sökum þess flatlendis sem þar er. Hið einstaka fuglalíf Breiðafjarðar mun verða fyrir miklum áföllum, verði af öllum virkjanaáformum fyrir botni hans. Svona má lengi telja. Jafnvel verður ekki eins gaman að ganga um götur Reykjavíkur, ef vindorkuver verður reyst á Hólmsheiðinni.

Það er viljandi verið að fórna náttúru okkar, fyrir skammvinnan gróða örfárra erlendra aðila. Eftir sitjum við svo með land sem er mengað af örplasti, geislavirkri olíu og ónýtum vindorkuverum. Mannvirkin munu síðan grotna hægt og rólega niður, því ekki höfum við peninga til að rífa þau og erlendu peningapungarnir flognir burtu. Allir steypuhnallarnir sem mynda undirstöður undir þessi mannvirki verða um aldir í jörðu hjá okkur.

Ef þjóðin lifir þetta af munu afkomendur okkar ræða þetta tímabil Íslandsögunnar sem það skelfilegasta af öllum. Móðharðindin verður sem hégómi í samanburðinum. Menn munu um aldir velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum þetta gat skeð, hvað hafi farið úrskeiðis. Hvers vegna í ósköpunum ekki var gripið í taumana meðan hægt var!!

Náttúruhamfarir eru eitt, hamfarir af mannavöldum allt annað og alvarlegra!

 


Vegakerfið er vissulega ónýtt

Blessaður dýralæknirinn telur vegakerfið alls ekki ónýtt, eins og framkvæmdastjóri Vörumiðlunar heldur fram. Þvílík veruleikafirring hjá dýralækninum, sem gegnir starfi forstjóra Vegagerðarinnar. Vegirnir eru vissulega ónýtir, þó finna megi einhverja kafla sem hægt er að aka um skammlaust.

Enn eru stórir hlutar vegakerfisins malarvegir, vegir sem nútíma bílar eru ekki gerðir til að aka um, sér í lagi rafbílar. Þar sem bundið slitlag er, má helst segja að það sé bundið þeim bílum sem um það aka, ekki veginum. Ástæðan er einföld, notuð er feiti, matarolía og fita fiska, til íblöndunar malbiksins, í stað rjúkandi efna eins og terpentínu. Þetta veldur því að malbikið nær aldrei að þorna að fullu og minnstu veðrabreytingar valda því sem kallast blæðingum á vegunum. Þetta vita allir sem um vegakerfið aka, hvort heldur er að sumri eða vetri. Það er ekki hitastigið sem ræður, heldur breyting á hitastigi. Slíkar breytingar á veðri eru eitt aðalsmerki Íslands. Þetta er þekkt vandamál og búið að vera þekkt lengi. Allt frá því fyrsta tilraun var gerð með þessum íblöndunum.

Nánast allir vegir utan þéttbýlis eru með svokölluðu Ottódekki, þ.e. ekki eiginlegu malbiki heldur er fitublandaðri tjöru sprautað á vegina og möl sett yfir. Þessi aðferð hafði einstaklega stuttan líftíma meðan tjaran var enn blönduð rjúkandi efnum, en eftir að þeim var skipt út fyrir fitu hefur endingatíminn styðst enn frekar og blæðingar orðið algengari. Kostnaðurinn við viðhald þeirra er því meira en þarf.

Einungis örfáir vegakaflar, næst höfuðborgarsvæðinu, uppfylla staðla um breidd og skáhalla frá þeim. Flestir vegir eru of mjóir fyrir umferð úr gagnstæðum áttum og víða svo bratt fram af þeim að bíla sem fara útaf velta. Á þetta hefur verið bent, trekk í trekk. Vegakerfið hér fær falleinkunn í hvert sinn sem erlendir aðilar hafa tekið það út.

Kostnaður við endurnýjun og viðhalds vegakerfisins er vissulega mikill. Því er mikilvægt að fara vel með þá aura sem fást. Að sóa peningum í ónýtt efni til vegagerðar, að sóa peningum í ýmis gæluverkefni pólitíkusa og að sóa peningum í einhverja listsköpun í sambandi við brúargerð og fleira, er eins og að brenna þá peninga. Ætíð á að horfa til öryggis umferðar og einskis annars. Stórfelld fjölgun alvarlegra slysa sýnir að svo er ekki í dag.

Að nota rétt efni til malbikunar er fljótt að borga sig. Reyndar hefur ekki verð sýnt fram á að notkun á feiti í stað rjúkandi efna sé ódýrari. Að malbika í stað þess að leggja Ottódekk, er fljótt að borga sig, jafnvel þó kostnaður sé meiri í upphafi. Þarna vantar einungis kjark til að snúa frá ófæra feninu og velja betri, öruggari og til lengri tíma ódýrari leið. Að stunda listsköpun við brúargerð er aftur með öllu óafsakanleg ráðstöfun og þeir sem taka þátt í að sóa vegafé í slíkt eiga ekki rétt til að halda starfi sínu. Þarna er verið að véla með fé okkar landsmanna!

Jú, vegakerfið er vissulega ónýtt. Það vita allir sem neyðast til að nota það. Hefði kannski talist ágætt fyrir hálfri öld, en í dag er það alls ekki viðunnandi. Að halda öðru fram er í besta falli barnalegt.

 


mbl.is Hafnar því að vegirnir séu ónýtir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkusóðar

Okkur landsmönnum er talin trú um að við séum einstakir orkusóðar og á því verði að taka hið fyrsta.

Jú, jú, hér er sannarlega framleitt mikið magn af orku, per íbúa. Og þar berum við höfuð og herðar yfir heimsbyggðina. Hins vegar erum við ansi neðarlega á listanum yfir magn framleiddrar orku per þjóðríki, erum þar á pari með Líbanon og lítið hærri en Kúba. Orka þeirra ríkja er hins vegar nokkuð minna vistvæn en okkar. Á toppnum trónir auðvitað Kína, með öll sín kolaorkuver. Byggja ný slík á verju ári.

En við erum semsagt orkusóðar, með okkar vistvænu orku. Og okkur er tjáð að það gangi ekki. Auðvitað er mælingin kolröng. Það er fráleitt að ræða um orku per íbúa. Þar sem verið er að tala um allan heiminn og mengun vegna orkunotkunar, á auðvitað að miða við yfirráðasvæði hvers ríkis, þ.e. orkunotkun per ferkílómeter. Og að auki ætti hreinorka ekki að telja í því sambandi. Titillinn fyrir orkusóðann færi þá til einhvers annars ríkis en okkar.

En semsagt það er ekki mælt þannig. Heldur er hreinorka lögð að jöfnu við svarta orku og mæld orka á hvert mannsbarn í hverju ríki. Við þetta búum við og teljumst því mestu orkusóðar heimsins.

Og nú skal orkuvinnslan nærri því tvöfölduð hér á landi. Að hluta til með aukinni framleiðslu á hreinorku, til að vinna með enn meiri orkuframleiðslu á vindorku, sem er jú fjarri því að kallast hrein. Er reyndar nær því að menga í takt við kolaorkuver, er svartorka þó ekki rjúki frá þeim nema þegar þær brenna.

Þessar aðgerðir munu ekki geta komið okkur ofar á listanum yfir mestu orkusóða heimsins, vermum toppinn þar nú þegar, en mun færa okkur upp um nokkur sæti á listanum yfir magn framleiddrar orku, þó sennilega við munum ekki ná Danmörku á þeim lista.

Orkusóðaviðurnefnið mun festast í sessi, svo rækilega að útiokað verður að hrista það af sér, a.m.k. ekki meðan rangur tommustokkur er nýttur við mælinguna.

Okkur er því sagt að við séum orkusóðar og á því verði að taka en aðgerðir stjórnvalda snú hins vegar að því að festa það óorð á okkur, rækilegar en nokkru sinni fyrr!

Ég á hins vegar erfitt með að skilja hvernig hægt er að vera orkusóði, þegar nánast öll orkan er framleidd sem hreinorka. Það sem er hreint getur ekki sóðað.

 


Heimir Már fór á kostum

Fréttastofa stöðvar 2 fræddi okkur landann um atkvæðagreiðsluna um vantrausttillögu á matvælaráðherra. Einungis tveir þingmenn stjórnarflokkanna höfðu uppi tilburði til að lýsa óánægju sinni með störf þessa ráðherra, en hvorugur hafði þó kjark til að greiða vantrausttillögunni samþykki sitt. Annar sat þó hjá.

Á Alþingi var fréttamaðurinn Heimir Már og tók hann viðtöl við tvo þingmenn, að lokinni atkvæðagreiðslunni, hinn óþekka stjórnarþingmann er sat hjá og svo starfandi formann VG.

Þarna fór Heimir Már á kostum. Spurði óþekktarorminn spjörunum úr, en gaf honum ekki séns á að svara nokkurri spurningu. Jafn skjótt og þingmaður byrjaði að svara hverri spurningu, greip fréttamaðurinn orðið af honum með nýrri spurningu. Sleit síðan viðtalinu rétt er óþekktarormurinn var að byrja að svara síðustu spurningunni. 

Annar bragur var á í viðtalinu við starfandi formann VG. Hann fékk að svara hverri spurningu að fullu og klára sitt mál áður en fréttamaður sleit viðtalinu. Það er langt síðan svona fádæma fréttaflutningur hefur verið á skjá landsmanna. 

Svo, svona til að bíta höfuðið af skömminni, þá endaði fréttin á að fá samfylkingarmann til að túlka atburði dagsins og hvort stjórnin væri veikari eða sterkari á eftir. Auðvitað varð lítið um svör þess manns, ekki fremur venju. Bullaði bara einhverja dómadags vitleysu.

Nú er bara að bíða og sjá hvort fréttastofa ruv nær að toppa þetta.


mbl.is Bergþór: Tóku ábyrgð á stjórnsýslu Bjarkeyjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband