Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gæluverkefni

Það er engin neyð fyrir Siglfirðinga þó Strákagöng lokist. Þeir eru með einhverjar bestu samgöngur á landinu, eftir sem áður. Eru í góðu vegsambandi við landið.

Vissulega mun það breyta nokkru fyrir þetta samfélag, ef leiðin til vesturs leggst af. En að kalla það einhverja neyð er bein vanvirðing til þeirra sem búa við raunverulega neyð í samgöngum. Það fólk sem þarf að búa við illfæra fjallvegi og ófæra malarvegi hlýtur að vera framar í röðinni.

Það er hins vegar vel skiljanlegt að Siglfirðingar vilji vegasamband til vestur og kalli eftir göngum yfir í Fljót. Við höfum hins vegar ekki efni á slíku bruðli. Gleymum ekki þeirri umræðu sem fram fór áður en Héðinsfjarðargöng voru ákveðin. Þá gafst Siglfirðingum kostur á að fá göng yfir í Fljót. Því var hafnað og margfalt dýrari framkvæmd notuð til að tengja þennan stað við umheiminn, tvenn göng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, með viðkomu í Héðinsfirði. Framkvæmd sem aldrei mun borga sig fjárhagslega, ávinninginn verður að reikna eftir öðrum forsendum.

Eini ókosturinn við þessa leið er að lengra er til Reykjavíkur. Sumir nefna kannski ófærð í Ólafsfjarðarmúlanum, en þegar hann loksast eru Fljótin væntanlega löngu lokuð, enda snjóþyngsta svæði í byggð á Íslandi.

Það hefur legið fyrir um nokkurn tíma að gera þurfi göng sem leggja af Öxnadalsheiðina, einn af hættulegri vegum landsins að vetri til, þó verulega sé búið að endurbæta hann. Þar verða mörg slys á hverju ári. Það er því framkvæmd sem er mun þarfari en göng frá Siglufirði yfir í Fljót.

Ríkiskassinn er tómur, galtómur, reyndar rekinn á lántökum. Meðan svo er, er tómt mál að tala um einhver gæluverkefni í vegagerð. Þó vissulega stjórnvöld hafi samþykkt miklar og ófyrirsjáanlegar upphæðir til "vegabóta" á höfuðborgarsvæðinu þá er fráleitt að líta það sem einhverja fyrirmynd. Þar er mun fremur fáviska stjórnmálamanna sem ræður för.

Vegakerfi landsins er í molum eftir svelt á fjármagni til margra ára. Víða eru vegir sem ekki standast neinar kröfur, malarvegir, einbreiðar brýr og fleiri slysagildrur sem hafa tekið allt of mörg mannslíf. Þá eru, eins g áður segir, samfélög sem eru meira og minna án samgangna á landi svo mánuðum skiptir.

Það fé sem tiltækt er til samgöngubóta á fyrst og fremst að nýta til að fækka slysagildrum, laga ófæra vegi og koma viðunandi vegtengingum til þeirra sem enn skortir slíkan munað. Gæluverkefnin verða að bíða.

Það mun ekkert aukast slysahætta fyrir Siglfirðinga þó Strákagöngum verði lokað. Eina slysahættan þar er að ekki skuli þegar hafa verið lögð af sú leið. Þeir munu hafa mjög góða vegtengingu eftir sem áður, vegtengingu sem telst með þeim betri á landinu og með þeim allra dýrustu.

 


mbl.is Strákagöng lokast ef hlíðin fer
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik við kjósendur Sjálfstæðisflokks

Ef Sjálfstæðisflokkur vill eiga minnstu möguleika á að ná einhverju fylgi aftur, verður öll stjórn hans að víkja. Þeirra tími er löngu liðinn. Það dugir ekki að formaðurinn einn stígi til hliðar og alls ekki að varaformaður taki við keflinu. Stjórnin verður öll að víkja. Annað er dauðadómur fyrir flokkinn.

Menn segja að slíkt sé ekki framkvæmanlegt, hverjir eigi þá að taka við? Það er enginn ómissandi, hvorki hjá stjórnmálaflokki né annarsstaðar. Sjálfstæðisflokkur hefur verið móðurflokkur stjórnmála á Íslandi frá stofnun og fram á þessa öld. Það er ekki fyrr en nú síðustu ár, sérstaklega á þeim tíma er núverandi stjórn hefur ráðið, sem flokkurinn hefur látið undan gefa og það sögulega. Núverandi stjórn er því alls vanhæf. Jafnvel eftir Hrun var flokkurinn öflugri en hann er í dag.

Ef slíkur flokkur getur ekki skipt út hjá sér stjórn, ef mannaval flokksins er ekki skárra en svo,  er kannski eins gott að leggja þennan fyrrum móðurflokk íslenskra stjórnmála niður. Fari varaformaður í stól formanns mun það gerast sjálfkrafa.

Það er komið nóg af þessu rugli, komið nóg af svikum við kjósendur flokksins.


mbl.is Fer ekki fram gegn Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgi flokka

Þau stórtíðindi vor gerð heyrinkunnug að Miðflokkurinn væri orðinn næst stærsti flokkur landsins, væri orðinn stærri en Sjálfstæðisflokkur. Því miður var þarna ekki um kosningu að ræða, heldur einungis skoðanakönnun. Og skoðanakannanir eru jú bara kannanir og ber að taka þeim með fyrirvara.

Það sem kemur þó mest á óvart eru útskýringar stjórnmálafræðinga á þessari fylgisaukningu Miðflokksins. Þeirra skýring er að óánægðir kjósendur Sjálfstæðisflokks séu að færa sig yfir til Miðflokks. En bíðum við, var ekki fylgistap Framsóknar einmitt sagt vera það sama, að kjósendur þess flokks væru að færa sig yfir í Miðflokkinn? 

Það væri óskandi að stjórnmálafræðingar hefðu rétt fyrir sér, að þeir sem yfirgefa Sjalla og Framsókn muni kjósa Miðflokkinn. Þá yrði Miðflokkur öflugur. En því miður halda þessar útskýringar fræðinganna ekki vatni, ekki frekar en aðrar útskýringar þeirra. Fylgistap Sjalla og Framsóknar er einfaldlega stærra en svo að þessi útskýring fræðinganna gangi upp. 

Og auðvitað fylgir ætið útskýringum stjórnmálafræðinganna að Miðflokkurinn sé öfgaflokkur til hægri. Stærra skammaryrði þora þeir ekki að nefna. Þeir sem skoða stefnu flokksins sjá þó annað og þeir sem skoða verk flokksins á Alþingi komast fljótt að því að engir öfgar hafa verið stundaðir af kjörnum fulltrúum hans. 

Hins vegar hefur Miðflokkurinn verið einn fremsti flokkur á Alþingi til að standa vörð lands og þjóðar, stundum einn og óstuddur, stundum með hjálp einstaka smáflokka. Ef það kallast öfgar til hægri er ég stoltur hægri öfgamaður. En svo er þó ekki, heldur er þetta einungis það sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi eiga að gera, að standa vörð lands og þjóðar. 

Kannski er þetta einmitt ástæða fylgisaukningar Miðflokksins, að þjóðin sé að vakna upp af martröð ósjálfstæðis okkar á sífellt fleiri sviðum.

Sama ástæða gæti hæglega útskýrt fylgistap Sjálfstæðisflokks og jafnvel Framsóknar einnig. 


mbl.is Miðflokkurinn tekur fram úr Sjálfstæðisflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segjum hlutina eins og þeir eru

Í viðtengdri frétt er rætt um vindmillur. Milla malar, t.d. korn. Ein slík var í Reykjavík á fyrrihluta síðustu aldar. Þekktasta land af vindmillum er Hollland, en einnig var nokkuð um að vindur væri notaður til að mala korn vítt um heiminn. Landsvirkjun er því ekki að fara að reisa vindmillur, enda ekki kornframleiðandi.

Vindtúrbínur er orð sem allstaðar er notað yfir þau fyrirbæri sem Landsvirkjun hyggst reisa við innganginn á hálendið okkar. Reyndar farið að tala meira um iðnaðarvindtúrbínur (IWT eða Industrial Wind Turbine). Undir það flokkast allar vindtúrbínur sem ná ákveðinni hæð eða 120 metra, einnig ef vindtúrbínur eru lægri ef um fleiri en þrjár er að ræða. Túrbínur Landsvirkjunar flokkast því sannarlega undir iðnaðarvindtúrbínur.

Þá kallar Landsvirkjun þetta nýja orkuver sitt Búrfellslund. Flestir íslendingar þekkja merkingu orðsins lundur, einkum átt við skjólsæl svæði, gjarnan í skógum. Það er með öllu fráleitt að telja að vindorkuver sem telur 30 vindtúrbínur, 150 metra háar á 17,5 ferkílómetra svæði, sem einhvern lund. Þetta er 17,5 ferkílómetra iðnaðarsvæði sem mun sjást víða að. Það eru engar aðgerðir til svo minka megi þá sjónmengun, þó forstjóri Landsvirkjunar lofi slíku.

Sárt er að horfa til þess að sveitarfélagið þar sem þessi virkjun á að rísa í skuli telja einhvern meðbyr með slíkri framkvæmd og í raun er sveitarstjórinn búinn að lofa að framkvæmdaleyfið verði veitt. Bara formsatriði að samþykkja það. Sérkennileg stjórnsýsla það. Það sem hann þó setur á oddinn er að sveitarfélagið njóti einhvers ábata af verkefninu. Hvaða ábata? Ef ekki er hægt að reka vindorkuver með hagnaði þar sem orkuverð er margfalt hærra en hér á landi, er nánast fáviska að ætla að slíkt sé hægt hér og alger fáviska að halda að hægt sé að næla í einhvern ábata þess vonar hagnaðar.

Tölum um hlutina eins og þeir eru, tölum um vindorkuver og vindtúrbínur, jafnvel iðnaðarvindtúrbínur. Leifum ekki einhverja gaslýsingu á þessum hlutum. Leyfum ekki þeim sem vilja næla sér í styrki til að reisa þessi orkuver ráða orðræðunni, fegra þá hluti sem ekki er með neinu móti hægt að fegra!


mbl.is Myllur hafa meðbyr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðvikudagurinn 21.8.2024, svartur dagur í sögu þjóðarinnar

Síðastliðinn miðvikudag kom enn einn dómur Seðlabankans. Vextir skulu haldast óbreyttir og enn skal hert á sultaról landsmanna. Ástæðan er að lítið gengur í baráttunni við verðbólgudrauginn.

Það merkilega var að þann sama dag var "endurskoðaður" samgöngusáttmáli kynntur af stjórnvöldum og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Endurskoðunin fólst einungis í því að uppfæra tölur sáttmálans, eða nærri tvöfalda þá upphæð sem ætlað er til verksins. Kostar nú 310.000.000.000 kr. og mun koma í hlut ríkissjóðs 262.500.000.000 kr., eða 262.5 milljarðar króna. Væn upphæð, sem mun þó víst ekki vera endanleg. Ekki ætla ég að rita um þennan sáttmála núna, en bendi þó á að sumir samþykktu þessa breytingu með óbragði í munni, töldu þetta skásta kostinn. Henni til fróðleiks þá hafa margir aðrir kostir verið kynntir, til liðkunar fyrir umferð og betri möguleikar á almenningssamgöngum. En það verður hún auðvitað að eiga við sig sjálf.

Málið er að Seðlabankinn er að berjast við verðbólgudrauginn og virðist ekki hafa aðra kosti til þess en að svelta hinn vinnandi mann, svelta þann sem skapar verðmætin. Ríkisstjórnin hefur hins vega gott verkfæri til að hjálpa Seðlabankanum við verkið, en það er sjálfur ríkiskassinn. Með því að draga úr fjárútlátum sem kostur er og fresta öllum þeim aðgerðum sem hægt er að fresta, stuðlar ríkisstjórnin að lækkun verðbólgunnar. En því miður er ekki hæfara fólk við stjórnvölin en svo að það er unnið þvert á þessi sannindi, drauginn fóðraður enn frekar. Reyndar voru ummæli fjármálaráðherra, einmitt þennan sama dag á þann veg að maður spyr sig hvernig slíkt fólk kemst til valda, svona yfirleitt.

Þá verður að segjast eins og er að algjört stjórnleysi virðist ríkja í fjármálum ríkisins. Þar virðast sumir geta vaðið í fé án nokkurra fjárheimilda og svo þegar ekki verður lengra komist er sest niður og hlutir "uppfærðir". Þetta á ekki einungis við um samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu, heldur einnig mörg önnur verkefni. Í dag er stjórnlaust verið að moka fé í varnargarða vegna eldsumbrota á Reykjanesi, vissulega þarfra framkvæmda en ekki þar með sagt að fjárausturinn til verksins geti verið stjórnlaus. Bendi á að allar stærri framkvæmdir á ríkið að bjóða út, samkvæmt lögum. Látum vera að gripið sé til örþrifaráða í neyð, en þegar neyðin er hjá má skoða hvernig hagkvæmast skuli að verki staðið. Annað verkefni á vegum ríkisins er veglagning yfir Hornafjarðarós. Þar var farið af stað samkvæmt ákveðinni formúlu um fjármögnun. Þegar sú formúla gekk ekki upp var verkinu ekki frestað, heldur haldið áfram sem ekkert væri og ríkiskassinn opnaður upp á gátt. Þetta hefur leitt til þess að aðrar vegaframkvæmdir eru settar á bið. Þessi framkvæmd mun sannarlega stytta nokkuð veginn milli Reykjavíkur og Hafnar, en ekki er þarna verið að leggja af neinn sérlega hættulegan kafla eða fjallveg. Getur verið að að þarna skiptir máli að þetta verkefni er í kjördæmi þáverandi innviðaráðherra, núverandi fjármálaráðherra.

Svona lagað gengur ekki. Það er með öllu fráleitt að hægt sé að ganga í ríkissjóð eftir vilja hvers og eins og gera síðan bara "uppfærslu" á orðnum hlut, án þess að nokkur beri ábyrgð. Það er bein ávísun á aukna verðbólgu.

Þegar menn lenda í ófærri keldu eru tveir möguleikar í stöðunni, að snúa til baka og finna betri leið eða halda áfram að spóla í sama farinu þar til örendi þrýtur. Stjórnvöld velja síðari kostinn, því miður.


Sorglegt fyrir land og þjóð

Þá hefur ríkisstjórnin afgreitt þingsályktun og lög umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra um vindorkuver hér á landi. Alþingi á reyndar eftir að samþykkja þessa ráðstöfun ríkisstjórnarinnar, en sennilega er það einungis formsatriði. Þar með hefur verið opnað fyrir slátrun landsins undir vindorkuver og getur hver sem er gengið til þeirra óhæfuverka, erlendir sem innlendir. Reyndar má segja að franska fyrirtækið Qair, sem Tryggvi Herbertsson er í bitlingum fyrir og alþjóðafyrirtækið Zephyr, sem Ketill Sigurjónsson er starfsmaður hjá, sé búin að sölsa undir sig nánast öllu landinu og því fáir kostir eftir fyrir aðra.

En hvað um það, vindorkubrjálæðið er hafið hér á landi. Þökk sé GÞÞ, erkiglóp okkar landsmanna. Þetta mun leiða hörmungar yfir landið okkar, orkuverð mun hækka enn frekar. Því miður mun það ekki veita þessum orkuverum rekstrargrundvöll. Eina von þeirra er að héðan verði lagðir sæstrengir til meginlandsins. Einungis þannig er örlítil von um rekstrarhæfi, þó veik sé. Slíkir strengir duga hvorki Norðmönnum né Svíum til að reka sín vindorkuver yfir núllinu.

Gulli er ekki viss hvort vindurinn sé auðlind eða ekki. Svolítið vandræðalegt þar sem hann er jú umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra landsins. Ráðuneytið hans er þó með þetta á hreinu, þar fer ekki á milli mála að loftið, hvort sem það er kjurt eða á fullri ferð, er skilgreint sem auðlind. Kannski Gulli ætti að vera í svolitlu betra sambandi við eigið ráðuneyti eða í það minnsta lesa yfir það sem það færir honum til að bulla um. 

Þá telur Gulli að engin ástæða sé til að ræða þessi mál neytt meira, vill bara að verkin tali. Er hann þar að segja að Alþingi komi málið ekki við? Þó hingað til hafi einungis einn tveggja manna þingflokkur staðið fast gegn þessum áformum, þá nálgast kosningar óðfluga. Margir aðrir þingmenn er vanir að haga sínum málflutningi eftir því sem vindur blæs á samfélagsmiðlum. Telja það best til atkvæðaveiða. Og nú er að sjá eitthvað hik á VG liðum í þessu máli, enda algjört harakírí fyrir þá að samþykkja þetta rugl. Flokkurinn er þegar orðinn að örflokki og mun endanlega þurrkast út, samþykki hann ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar VG hafa reyndar þegar samþykkt þetta en þingflokkurinn væntanlega ekki. Það er því allsendis óvíst að þessi þingsályktun og lög nái samþykki Alþingis, svo það er kannski von að Gulli vilji hellst ekki leifa Alþingi að ræða málið.

Það er annars merkilegt, eða kannski ekki, að mogginn skuli ekki fjalla um málið. Þar er talið merkilegra að segja frá því að ruslabíllinn muni halda áætlun, að uppistandari hati uppistand, að enn sé beðið eftir gosi og fleiri fréttir í þeim dúr. Að við séum að afhenda landið okkar erlendum aðilum undir vindorkuver þykir ekki merkilegt á þeim bænum.

Fyrir hrun var Gulli nokkuð hallur undir "fjármálasnillingana", þessa sem settu landið á hausinn. Eftir hrun hagaði hann sér nokkuð betur, var næstum því ágætur þingmaður. Hélt jafnvel uppi sjálfstæðisstefnunni, sem átti mjög undir högg að sækja í flokknum. En svo var eitthvað sem gerðist í haus hans. Hann tók þá einstöku og fráleitu ákvörðun um að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni og var þar rasskeltur, rétt eins og flestir sem reyna slíkt. Eftir þetta hefur hegðun Gulla verið með ólíkindum og spurning hvort hann sé ekki í vitlausum flokki. Ekki einasta orð um sjálfstæðisstefnu flokksins kemur frá honum, reyndar ekkert orð um sjálfstæði landsins og vörn þess, yfir höfuð. Þess í stað hefur hann unnið hörðum höndum fyrir erlenda auðmenn, einna líkast því að hann telji sig sækja sitt umboð til ESB. Menn hafa verið dæmdir fyrir landráð af minna tilfelli.

Kannski blandast þarna einhverjir eiginhagsmuni inní en það skýrir þó ekki þetta hegðunarmynstur Gulla. Það er sorglegt hvernig komið er fyrir honum. Og það er líka sorglegt fyrir Sjálfstæðisflokk að sitja uppi með 11svona mann.

10

462F9BEDFD5E2F2271975DE918A41D82C950BD4884D4736EE5BDC4B0EF59876A


Margur verður af aurum api

Margur verður af aurum api og það virðist vera einstaklega fjölbreitt úrval apa á Íslandi, ekki síst meðal þeirra sem bjóða sig fram til stjórnunar ríkis og sveitarfélaga. Nægir að veifa einhverjum hugmyndum um hugsanlegan gróða, einhvern tímann í framtíðinni, til að hér sé náttúrunni fórnað. Þetta á ekki síst við þegar kemur að svokölluðum umhverfisverkefnum. Má þar nefna vindorku, niðurdæling á innfluttum koltvístring, mengun á sjó með því að kasta í hann gífurlegu magni af innfluttri tréflís og nú fórn á velgrónu svæði til skógræktar.

Varðandi það síðastnefnda þá er verið að fórna grónu landi á svæði sem er einstaklega viðkvæmt og fátækt af slíkum gæðum. Nú er ég alls ekki á móti skógrækt, þvert á móti. En val undir skóg verður að vera vandað, að hann sé til bóta en ekki bölvunar. Á norð austur horninu eru víða foksandar og gróðurlítil svæði sem þurfa hjálp. Þar má vel planta stórskógum eins og Ygg vill gera. Að velja gróið svæði til þess er fráleitt. Bara það að rífa upp svörðinn veldur mikilli kolefnislosun, en það sem kannski er verra er að þegar skógur hefur yfirtekið þetta land mun allur annar gróður hverfa. Þetta gæti leitt til gróðureyðingar og óvíst að skógurinn geti varnað því. Þó rótarkerfi skóga sé ágætt þá er rótarkerfi lyngs enn víðfeðmara og betra.

En eins og áður segir, margur verður af aurum api. Sveitarfélaginu Norðurþingi, eða réttara sagt stjórnendum þess, er lofað 5% af sölu kolefniskvóta og þá er fjandinn laus. Þessi kolefniskvóti skilar sér þó ekki fyrr en eftir mörg ár, einhvern tímann í framtíðinni, þ.e. ef trén ná að vaxa og dafna. Engan kolefniskvóta er hægt að selja fyrr en sýnt er fram á að komandi skógur er farinn að vinna kolefnið úr andrúmsloftinu. Það er ekki nóg að vera með exelskjal til sölu slíkra kvóta.

Það er í tísku að nýta styrkjakerfi til að koma svona verkefnum af stað. Því heimskulegri sem hugmyndin er, því opnari verður styrkjasamfélagið. Það er einnig í tísku að láta sig hverfa með sem mest að fénu, þegar ekki verður lengur tottaðir styrkir. Þetta sést víða erlendis en er einnig farið að nema land hér á landi. Nægir að nefna fyrrverandi tréflísafyrirtækið ameríska, Runnig Tyde í því sambandi. Því er alssendis óvíst að Norðurþing fái nokkurn tímann krónu fyrir verkefnið.

Svo geta menn velt fyrirsér mótsögnunum. Hef hér nefnt fyrrverandi fyrirtæki, Running Tide, en það lét höggva skóg í Norður Ameríku, kurla hann niður í flís og flutti með stórum skipum yfir hafið til Íslands, þar sem blandað var sementi við þessa flís og hún flutt hálfa leið til baka aftur og dumpað þar í hafið. Eftir stóð skóglaust og örfoka land þar sem áður var skógur, þar ytra. Nú er grónu landi hér, sem er þegar að vinna af fullum krafti við að fanga kolefni úr loftinu, bylt við og eyðilagt til að planta þar skógi. Stórum skógi á íslenskan mælikvarða en þó einungis örskógi miðað við þann sem felldur var í Norður Ameríku og fluttur hingað.

Hvoru tveggja er gert í nafni þess að fanga lífsandann úr andrumsloftinu.

 


mbl.is Sér á eftir mjög fallegu landi og berjamó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hverfandi hveli (Gone With The Wind)

Segja má með sanni að leyfisveiting orkumálastjóra til Landsvirkjunar fyrir vindorkuveri, hafi í raun verið síðasti þröskuldur þeirra er vilja leggja landið undir vindorkuver. Þar með hefur fordæmið verið gefið og útiokað að stöðva brjálæðið. Orkumálastjóri nefnir að þarna sé litlu að tapa, hvað varðar umhverfissjónarmið, þegar sé búið að spilla þar landinu svo nokkrar iðnaðarvindtúrbínur breyti litlu.

Nú veit ég ekki hversu vel stýran þekkir til á þessum slóðum, taldi reyndar að hún væri þar nánast á heimaslóðum, eða svo mátti skilja er hún barðist fyrir Bessastöðum. En henni til fróðleiks, ef það hefur kannski farið framhjá henni, þá er þetta hliðið inn á hálendið okkar sem um ræðir. Þarna fer fjöldi ferðafólks, bæði íslenskt sem erlent, ýmist til að fara norður yfir Sprengisand eða skoða náttúruperlurnar að Fjallabaki. Verri staðsetning varðandi skemmd á náttúrunni og ferðaþjónustunni er vandfundin.

En hvað um það. Nú geta Tryggvi Herbertsson og félagar kæst, að ekki séu nú nefndir sumir ráðherrarnir okkar. Kæmi ekki á óvart þó þeir hefði slegið í smá partí í gær og opnað nokkrar freyðivínsflöskur. Fjárglæframenn hafa nú fagnað af minna tilefni.

Það sem kemur þó mest á óvart er að nú er að opinberast allur ósóminn kringum vindorkuna. Lengi verið talað um alla þá mengun sem henni tilheyrir, bæði sjónrænni sem og hættulegri mengun fyrir umhverfið. Hækkandi raforkuverð hefur ætíð fylgt þessari orkunýtingu, jafnvel svo að fólk hefur ekki efni á að nýta sér rafmagnið. En nú er einnig að opinberast svindlið sem að baki liggur.

Ekkert vindorkuver er sjálfbært, hvorki varðandi náttúruna né rekstrarforsendur. Erlendis hafa ríki þurft að greiða þessa orku niður í stórum stíl. Framkvæmdin sjálf er oftast greidd af ýmsum sjóðum og hefur ESB verið duglegt á því sviði. Víðast er það svo að einhverjir "erlendir" aðilar sjá um uppbygginguna og lofa öllu fögru til að fá land undir ósómann. Þegar styrkir eru komnir í hús hverfa þeir gjarnan til aflandseyja og þegar ekki verður lengur tottað meira úr þessum sjóðum, hverfa þessir "erlendu" aðilar einnig. Sveitarfélög sitja síðan uppi með allt draslið, án þess að hafa fengið nokkuð að öllum "gróðanum".

Þetta er ekki svartsýnishjal, heldur kaldur veruleiki. Þarf ekki annað en að fara til okkar næstu nágranna til að sjá þetta. Noregur og Svíþjóð eru dæmi um þetta, þar sem allur "gróði" hefur horfið úr landi ásamt stofnendum vindorkuveranna og þau skilin eftir í skuldasúpunni.

Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum manni til hugar að þetta verði eitthvað öðruvísi hér en í Noregi eða Svíþjóð. Þegar svo við þetta bætist að að orkuverð þar ytra er margfalt hærra en hér á landi eru vart til orð sem lýsa heimsku þeirra er vilja leggja landið okkar undir slíkar virkjanir.

Ísland er á hverfandi hveli vegna fávisku þingmanna okkar og þeirra er þeir ráða til starfa í æðstu stöður samfélagsins.

 


mbl.is Til skoðunar að kæra virkjunarleyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindorkuver í landi Sólheima í Dölum

Fyrir skipulagsstofnun liggur til umsagnar kynning á umhverfismatsskýrslu um vindorkuver í landi Sólheima í Dölum, nánar tiltekið á Laxárdalsheiði.

Það sem ekki er sagt.

Fyrst er rétt að tíunda nokkur atriði er ekki koma fram í skýrslunni. Það er þó ekki tæmandi listi, fjarri því. Ekki kemur fram hver eða hvernig orkan á að nýtast, einungis að hún skal keyrð inn á net Landsnets. Þarna er um að ræða virkjun með uppsett afl upp á 209 MW. Það segir að það magn af orku fer þá inn á netið þegar vindur blæs. Engin orka skilar sér hins vegar þegar lygnir. Þetta mun valda sveiflum á kerfinu sem ekki er gert ráð fyrir að vindorkuverið þurfi að brúa. Enginn kaupir slíka orku og ef Landsvirkjun er ætlað að taka á sig sveiflurnar er ljóst að rekstur virkjana þess verður óhagkvæmari og orkuverð muni hækka. Til samanburðar má nefna að Hrauneyjarfossstöð er með uppsett afl upp á 210MW og samanlagt er uppsett afl Írafossstöðvar, Laxárvirkjana 1, 2 og 3, Ljósafossvirkjunar, Steingrímsstöðvar og Vatnsfellsstöðvar 206,5MW. Þarna er því um mikla orku að ræða sem þetta eina vindorkuver getur framleitt þegar vindur blæs en ekkert ef lygnir. Þá sveiflu telja aðstandendur þessa orkuvers sig ekki bera ábyrgð á eða þurfa að jafna.

Nokkuð er rætt um hugsanlega mengun frá orkuverinu. Þó er ekki minnst einum staf á þá tvo mengunarþætti er alvarlegastir eru, örplastmengun og slepping á sf6 gasi. Örplastmengun frá vindtúrbínum er þekkt vandamál og alvarlegt. Trefjaplastið þolir illa þá áraun er verður á spöðum þeirra, ekki síst við erfiðari veðuraðstæður eins og hér eru. Því slitna þeir hratt, talið gott ef þeir duga einn áratug, eða innan við helming endingartíma túrbínuna. Þetta er staðreynd sem ekki hefur enn verið fundin lausn á.

Straumlokar eru kældir og einangraðir með sf6 gasi. Við hverja opnun eða lokun þeirra sleppur örlítið af þessu gasi út í andrúmsloftið. Þetta kemur lítið að sök í vatnsaflsvirkjunum, þar sem framleiðsla er stöðug, en er vandamál varðandi vindorkuver. Þar er sífellt verið að opna og loka þessum lokum, eftir því hvernig vindur blæs. Í norðanverðu Þýskalandi, þar sem vindorkuver hafa sprottið upp í miklu mæli, er þegar farið að mælast hækkun á sf6 gasi í andrúmsloftinu. Sf6 gas eða sulfur hexafuoride, er litlaust og lyktarlaust gas sem hefur þann eiginleika að vera einstaklega treg- eða óbrennanlegt. Áhrif þess á andrúmsloftið er 23500 sinnum öflugra en co2. 

Bruni í vindtúrbínu er mál sem erfitt er að taka á. Auðvitað kviknar í vindtúrbínum, þó við verðum að vona að algengi þess sé ekki jafn svakalegt og hingað til á Íslandi, þar sem ein af hverjum fjörum hafa brunnið. En engu að síður kviknar í þeim. Hjá því verður ekki komist. Þegar slíkt gerist er lítið annað hægt að gera en horfa á úr fjarska og vona að enginn hafi verið staddur uppi í rafalhúsinu er eldurinn kviknaði. Til þessa hafa afleiðingar slíkra bruna verið litlir, aðrir en tap vindorkuversins. Nú er hins vegar farið að vakna spurningar um hvað verður um mengunina, þó einkum eðli hennar, frá slíkum brunum. Þegar trefjaplast brennur verður mikil mengun af glertrefjum. Þessar glertrefjar fjúka með vindinum langar leiðir og lenda að lokum í vistkerfinu. Fyrst í grasinu og síðan þeim skepnum er lifa á því. Nýlega kom upp slíkur bruni í vindtúrbínu í Bandaríkjunum. Bann var lagt á beit skepna á stóru svæði og öll jarðvinnsla og nýting lands bönnuð. Bændur máttu ekki hirða tún sín. Erfitt eða útilokað er að hreinsa glertrefjar af jörðu og enginn veit hversu langan tíma tekur að losna við þá óværu. Getur tekið aratugi. Á meðan er enginn búskapur á svæði er mengast af þessum sökum. Þá er talið að brunnar glertrefjar séu nánast eins og asbest hvað mannskepnuna varðar, krabbameinsvaldandi.

Skautun.

Það er víða sem hægt er að nefna svokallaða skautun í þessari skýrslu, þar sem sannleikanum er hliðrað eða jafnvel tilraunir til að fela hann. Lítið gert úr því sem ekki hentar en því meira úr því sem "fallegt" er. Og svo eru beinlíns rangfærslur í þessari skýrslu, viljandi eða óviljandi.

Fyrir það fyrsta þá fer framkvæmdarsvæðið yfir sveitarfélagsmörk, samkvæmt öllum kortum er eru í skýrslunni. Nær yfir í Húnaþing vestra. Á einu korti er að auki áhrifasvæðið bæði út fyrir sveitarfélagsmörk sem og framkvæmdamörk. Nú er það svo að Sólheimar eru austasti bær í Laxárdal í Dölum. Jörðin liggur að sveitarfélagsmörkum og bæjunum Laxárdal og Bæ 1 og 2 í Húnaþingi vestra. Eins og áður segir liggur athafnasvæðið og að hluta einnig áhrifasvæðið austur yfir sveitarfélagsmörkin, eða yfir í land Laxárdals og Bæ 1 og 2. Ekkert samráð hefur verið haft við eigendur þessara jarða, einungis einn lélegur fundur, snemma á ferlinu, haldinn til kynningar í nágrannasveitarfélaginu. Samkvæmt byggingareglugerð skal ávallt fá samþykki næstu nágranna fyrir framkvæmdum. Einu undantekningarnar frá þeirri reglu eru ef girt er á lóða eða landamörkum og girðing er innanvið 180 cm á hæð og ef byggður er svokallað garðhús að hámarki 250cm hátt og að er fjær landamerkjum en 3 metrar, þarf ekki slíkt skriflegt leifi. Því er með ólíkindum að hægt skuli vera að byggja fjölda af vindtúrbínum, 200 metra háum, staðsettum nánast á landamerkjum, án samráðs eða samþykkis nágranna! Það er vandséð að þetta geti staðist lög!

Qair ætlar, samkvæmt skýrslunni, að notast við vindtúrbínur frá fyrirtækinu Vestas, type 162 7,2. Ef farið er inn á heimasíðu þess fyrirtækis er hægt að nálgast allar upplýsingar um þær túrbínur er þeir framleiða, einnig þessa gerð. Þar kemur fram að hávaði frá túrbínunni er sagður vera 105,5 dB, eða svipaður og þegar þyrla flýgur hjá. Þyrlan flýgur burtu en allar 29 túrbínur vindorkuversins á Laxárdalsheiðinni munu vera fastar þar, með tilheyrandi hávaða dag sem nótt. Í skýrslunni er lítið gert úr þessari mengun, miðað við hvernig heyrast muni í 7 km fjarlægð. Sjálfsagt heyrist þar mun minna, fer þó eftir því hvort vindur blæs af túrbínunum þangað eða ekki. Vindur ber jú hljóð, eins og flestir vita. Þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að á þessu svæði eru nokkur stór og öflug fjárbú sem beita fé á heiðina, enda einstaklega gott beitarlend. Hætt er við að blessaðar ærnar ærist af hávaðanum og komi sér burtu. Mikið fuglalíf er á svæðinu, eins og kemur fram í skýrslunni og ekki víst að fuglarnir sættist á þennan hávaða. Eitt er þó alveg víst að lítið mun heyrast af þessum hávaða til Reykjavíkur, þar sem ætlunin er að stjórnstöðin fyrir vindorkuverið á að rísa!

Allar skýringarmyndir um hæð og umfang vindtúrbínanna eru rangar. Minna gert úr hæð þeirra og umfangi en ástæða er til. Sem dæmi er mynd sem eignuð er Qair og sýna á stærð vindtúrbínanna miðað við annars vegar Hallgrímskirkjuturn og hins vegar Effelturnin. Ef við gefum okkur að Hallgrímsturninn sé í réttri hæð á myndinni, 75 metra hár er ljóst að vindtúrbínan sem á að vera 200 metra há er á þeirri mynd ekki nema 117 metra há og Effelturninn sem á að vera 300 metra hár hefur lækkað nokkuð verulega, eða niður í 188 metra hæð. Ekki viss um að frökkum myndi líka það. Þetta er einungis eitt dæmi um fölsunina og því spurning hversu mikið er að marka skýrsluna í heild. Ef ekki er hægt að gera eina skýringarmynd í réttum hlutföllum er varla hægt að treysta því að önnur atriði séu samkvæmt raunveruleikanum eða sannleikanum!

Reynt er að gera minna úr undirstöðum en tilefni er til. Gefið í skyn að magn steypu geti verið misjafnt og jafnvel tiltölulega lítið. Undir vindtúrbínu af þeirri stærð er hér um ræðir þarf að minnsta kosti um 1000m3 af steypu, meira ef land liggur þannig. 1000m3 er um 2500 tonn, bara undir eina túrbínu. Það gerir 72500 tonn af steypu, plús steypu undir spennahús og stjórnhús. Það verða þá á fimmta þúsund steypubíla sem þurfa að aka um 55km aðra leiðina, 110km í hverri ferð.

Þá er gert ráð fyrir svokölluðum óvenjulegum hlössum, þ.e. hlöss sem ekki rúmast innan umferðarlaga vegna þyngdar eða stærðar. Sagt að 319 ferðir með slíkan farm muni þurfa til. Þarna er þó skekkja. Skýrsluhöfundar gera ráð fyrir að turn túrbínunnar sé fluttur í heilu lagi á staðinn. Það er með öllu útilokað. Spaðarnir eru 81 metri að lengd og eðli málsins samkvæmt verða þeir ekki fluttir öðruvísi en í heilu og þykir nokkuð afrek. 80 metrar eru eins og 6,66 40 feta gámar, enda í enda. Turninn er hins vegar bæði mun lengri, eða 162 metrar, helmingi lengri en spaðinn og að auki margfalt þyngri. Hann verður því klárlega fluttur í pörtum. Hins vegar mætti svo sem parta hann svo mikið niður að flutningurinn teldist löglegur. Það yrðu þá ansi margar ferðir. Vaninn er hins vegar að taka turninn niður í nokkra parta og flytja þannig, sem ólöglegan farm.

 Nokkuð er rætt um fuglalífið í skýrslunni. Það sem er kannski athyglisverðast eru ratsjármælingar af flugi fuglanna. Greinilegt er að mesta flug þeirra er einmitt þar sem ætlunin er að reisa vindtúrbínurnar, minna þar á milli. Örninn sker sig þarna nokkuð úr en hans flug er mest við túrbínur eitt til sex, eða nyrstu og austustu túrbínurnar. Þetta kemur ekki á óvart, enda arnarhreiður þar í grennd. Lítið er gert úr áhrifum vindorkuversins á fuglalíf, þó vissulega það muni verða all verulegt.

Ferðaþjónusta er nokkur í Dölum og víst að hún mun að estu leggjast af. Mikil umferð ferðafólks er bæði um Dalina sem og vestanverðan Hrútafjörð, enda einu landleiðirnar á vestfirði um þá vegi. Þá er mikil umferð ferðafólks um austanverðan Hrútafjörð. Þar liggur leiðin milli norður og suðurlands. Sjónmengun frá vindorkuverinu mun hafa veruleg áhrif á upplifun ferðafólks um alla þessa vegi, ekki kannski jákvæð. Erlendir ferðamenn koma ekki hingað til lands til að sjá vindorkuver. Þeir koma til að njóta óspilltrar náttúru.

Lokaorð.

Þessi pistill er orðinn mun lengri en ætlað var og því kominn tími til að hætta, jafnvel þó enn liggi margt ósagt sem segja má. Meginmálið er þó þetta:

Vindorkan er með þeim takmörkunum að einungis er hægt að framleiða þar orku þegar vindur blæs. Þess á milli getur framleiðslan farið í núllið. Til að jafna sveiflur frá vindorkunni þarf eitthvað annað, einhverja aðra orkugjafa. Hjá okkur er það vatnsorkan. Ef við tökum úr almennri virkni vatnsorkuver til að vega á móti vindorkunni er ljóst að enginn aukning hefur orðið á raforkuframleiðslu hjá okkur, einungis eðlisbreyting til hins verra. Þá þurfum við að hafa vatnsorkuver sem ekkert framleiðir meðan vindur blæs, svo vindorkuverið geti selt sína framleiðslu, en kemur svo inn þegar lygnir svo neytendur verði ekki fyrir skakkaföllum. Er þá ekki betra að vera einungis með vatnsorkuverið og hlífa náttúrunni.

Vindorkuver er fjarri því að geta talist hreinorkuver. Er mun nær kolaorku en vatnsorku hvað mengun varðar. Og þá er einungis verið að tala um mengun, ekki áhrifin á dýralífið, sem eru verulega neikvæð. Að byggja vindorkuver þar sem blómlegur landbúnaður er stundaður er svo aftur einhver mesta glópska sem þekkist. Að leggja búvænleg héröð í eyði.

Hin viðkvæma ferðaþjónusta, sem virðist eiga erfitt við flestar aðstæður, mun alls ekki lifa af vindorkuver í bakgarðinum.

Hvernig framkoman við landeigendur umhverfis fyrirhugað vindorkuver á Laxárdalsheiðinni, er svo sér kapítuli. Þar er sveitarstjórn Dalabyggðar ekki til fyrirmyndar eða sóma!!

 

 


mbl.is Blöðin teygja sig 200 metra upp í loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógn við lýðræðið

Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að því að kosning sem haldin er eftir þeim reglum sem settar eru og um 70% þjóðar tekur þátt í, hvernig í ósköpunum er hægt að komast að því að niðurstað þeirrar kosningar sé ógn við lýðræðið?! Að þeirri niðurstöðu komst þó "sérfræðingur" er fréttastofa ruv dró til sín í sjónvarpssal. 

Flokkur Marie Le Penn, Þjóðfylkingin, hlaut yfirburðakosningu í frönsku þingkosningunum. Þeir sem fylgst hafa með málflutningi þess flokks vita að hann byggir fyrst og fremst á að setja Frakkland og franska kjósendur í fyrirrúm. Hefur sett spurningamerki um þróun esb, einkum þeim andlýðræðislegu gildum sem sífellt meira eru að yfirtaka sambandið. Þetta þykir esb vera ógn og því verið duglegt að úthrópa Þjóðfylkinguna sem hægri öfgaflokk, reynt að koma í undirvitund kjósenda að hættulegt sé að kjósa þann flokk.

Nú er það svo, samkvæmt frönskum kosningalögum, að ef enginn flokkur nær hreinum meirihluta, skal kjósa aftur um þá tvo flokka er mest fylgi fengu. Því verður kosið aftur um næstu helgi, væntanlega á milli Þjóðfylkingar og bandalags vinstriflokka. Flokkur Macrons, sem hlaut afhroð í kosningunni, hefur ekki rétt til þátttöku í þeirri kosningu. Þó hefur Macron stigið fram og sagt að nauðsynlegt sé að mynda kosningabandalag gegn Þjóðfylkingunni. Að hans flokkur fái aðgengi að bandalagi vinstri flokka. 

Hvað kallast slík afskræming á lýðræðinu?!

Ógn við lýðræðið?!


mbl.is Flokkur Le Pen bar sigur úr býtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband