Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bókun 35, hvers vegna nú?

Enn er bókun 35 komin til Alþingis og enn er okkur sagt að mikið liggi við, jafnvel sjálfur EES samningurinn. 

Það eru nú liðin 33 ár frá samþykkt Alþingis á EES samningnum, með minnsta mögulega meirihluta þingmanna og án aðkomu þjóðarinnar. Vitandi vits var bókun 35 haldið utan samningsins, enda ljóst að sú bókun væri hreint brot á stjórnarskrá okkar. Um það voru allir löglærðir menn sammála, þó deilt hafi verið um hversu mikið samningurinn að öðru leyti gengi gegn stjórnarskránni. 

EB nú ESB, samþykkti þessa afgreiðslu og lengi framanaf var ekki gerð athugasemd við hana. Jafnvel í tíð Jóhönnustjórnar, þegar Össur dvaldi löngum stundum í höfuðstöðvum sambandsins, við þá iðju að koma landinu undir yfirráð ESB, heyrðist ekki orð um þessa bókun, a.m.k. ekki opinberlega. 

Það er því undarleg árátta krata og sjálfstæðiskrata, áherslan á þetta mál. Jafnvel haldið fram að 33 ára hamall samningur sé í uppnámi. Gott og vel, er ekki bara kominn tími til að taka upp þann gamla samning, gera á honum þær bætur sem þarf?  Frá samþykkt hans hefur margt breyst. Kannski stærst breytingin eðli og tilgangur mótherja okkar að þeim samningi. 

Eins og áður segir var samningurinn gerður við Efnahagsbandalag Evrópu, EB. Skömmu eftir undirritun samningsins var gerð mjög dramatísk breyting á samstarfi þeirra þjóða er tilheyrðu EB. Gerðu nýtt samkomulag þeirra á milli um enn frekari samruna og samstarf á pólitíska sviðinu. Þá varð til Evrópusambandið, ESB. Síðan hefur það eflst mjög á pólitíska sviðinu og við orðið að taka við hinum ýmsu tilskipunum á því sviði. Þó var þessi samningur einungis um viðskipti þegar Alþingi samþykkti hann. Því er full ástæða að taka hann upp, átti auðvitað að gera það við eðlisbreytinguna sem aðildarríki EB/ESB samþykktu á sinum tíma. 

Í vitengdri frétt heldur þingmaður Samfylkingar því fram að einhugur innan ríkisstjórnar sé um samþykkt bókunar 35. Þetta er mjög merkilegt, ef satt er. Flokkur fólksins hefur gegnum tíðina verið mjög andvígur bókunnar 35. Einn ráðherra flokksins einn ötulasti talsmaður gegn þeirri bókun og bent á það augljósa að engin breyting hafi verið gerð á stjórnarskrá sem heimilar samþykkt þessarar bókunar. Hún er jafn mikið brot á stjórnarskrá nú og vorið 1992. Hvernig ætlar Ff að útskýra fyrir sínum kjósendum þessa umpólun, þessi sviknu kosningaloforð?

En hvers vegna núna? Það er stóra spurningin. Hvað veldur því að EES samningurinn er í hættu nú, 33 árum eftir samþykkt hans. EB samþykkti á sínum tíma samninginn, eftir afgreiðslu Alþingis, án bókunar 35. Hvað hefur breyst?

Er þetta kannski frekar eitthvað innanlandsmál? Eitthvað sem kratar og sjálfstæðiskratar sjá sér hag í? 

Þegar síðustu sneiðar salamipylsunar er skornar eru puttarnir í hættu. Að ekki einungis að síðasta sneiðin verði skorin, heldur einnig framanaf fingrum sér.


mbl.is Einhugur innan ríkisstjórnarinnar um bókun 35
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindorka og vegakerfið

Loks er Vegagerðin að átta sig á komandi vanda, vanda sem er af þeirri stærðargráðu að segja má að sé óleysanlegur. Flutningar um vegakerfið vegna bygginga vindorkuvera.

Framhjá þessum vanda er vandlega skautað í öllum skipulagsáætlunum vegna vindorkuvera, þeir sem þau hyggjast byggja telja hann utan þeirra skyldu. Þó hefur gjarnan verið bent á þennan vanda í athugunarsemdum við þær skipulagsáætlanir sem fram hafa verið lagðar, þó Vegagerðin sjálf hafi lítt haft sig frammi í þeim athugasemdum. 

Þessi vandi er stór, mjög stór. Vegakerfið okkar ber ekki þá umferð sem um það fer í dag, hvort heldur þar er talað um sjálfan hringveginn eða aðra minna berandi vegi. 

En hvað er verið að horfa á varðandi byggingu vindorkuvera? Ef við skoðum fyrst lengdina þá er ljóst að spaðar vindtúrbínu eru nærri fjórum sinnum lengri en leyfð heildarlengd ökutækis, þrír fyrir hverja vindtúrbínu sinnum fjölda þeirra í hverju vindorkuveri. Ef horft er til breiddar er ljóst að stór hluti vindtúrbínuhluta fellur utan leifðrar heildar breiddar. Þessi tvö atriði hafa þó ekki bein áhrif á vegakerfið sem slíkt en mun hafa mjög mikil áhrif á aðra umferð um það. Sjaldnast hægt að vísa umferð aðra leið meðan á svona stórflutningum stendur.

Þyngd er hins vegar nokkuð annað mál sem hefur bein áhrif á vegakerfið sjálft. Þar er um stærðir að ræða sem ekki er með nokkru móti hægt að leggja á vegakerfið, ekki bara vegna skaða sem slíkur flutningur getur valdið á því, heldur einfaldlega af öryggisástæðum. Óafturkræf stórslys geta orðið og jafnvel mannlíf í húfi. Sumir stakir hlutir vindtúrbínu, sem koma þarf frá skipi á byggingarstað geta vegið allt að 100 tonnum, margföld sú þyngd sem er að leggja vegakerfið okkar í rúst í dag. Mjög þungir kranar þurfa að komast á staðinn, til að reisa megi hverja vindtúrbínu. Þeir falla ekki af himnum ofan. Fjöldi þessara ofurþungu flutninga ræðst af fjölda vindtúrbína í hverju vindorkuveri, en verður alltaf töluverður.

Þar fyrir utan mun síðan fjöldi ökutækja með "löglegan" farm verða gríðarlegur. Öll sú umferð þarf að fara um okkar lélega vegakerfi. Þar má nefna sem dæmi flutning á steypu i sökkla vindtúrbína. Ekki er fjarri að 170 lestaða steypubíla þurfi fyrir hverja vindtúrbínu, 1700 ef um 10 vindtúrbínu vindorkuver er að ræða 3400 lestaða steypubila ef vindorkuverið telur 20 vindtúrbínur. Auðvitað má setja upp steypustöð á byggingarsvæðinu en þá þarf sambærilega flutninga á hráefni til hennar. Reyndar hvergi minnst á þann möguleika í skipulagsáætlunum.

Það er því ljóst að álag á vegakerfið eykst mjög mikið, mun meira en það getur borið. Einnig er ljóst að stakir flutningar eru af þeirri þyngd að hættulegt er að leggja þá á vegina. Því þarf að endurbyggja vegina frá höfn að byggingarsvæði, frá grunni. Eins og áður segir telja þeir sem vilja byggja hér vindorkuver þetta vera utan þeirra skyldu. Líta svo á að þetta sé vandi landsmanna, skattgreiðenda.

Nú er þýskt fyrirtæki, undir skjóli Landsvirkjunar, byrjað að byggja fyrsta risa vindorkuverið á Íslandi. Það er staðsett við innganginn inn á hálendið okkar. Vegagerðin er nú að vakna upp af þeirri martröð að þurfa að tryggja flutninga frá uppskipunarhöfn á byggingastað, flutninga af stærðargráðu sem áður er óþekkt. Líklegt er að flestum hlutum vindorkuversins verði skipað a land í Þorlakshöfn. Landleiðin þaðan upp á hálendið er ekki tilbúin fyrir þessa flutninga og segja má að fyrsti kaflinn sé kannski verstur, þ.e. frá Þorlakshöfn upp á hringveg austan Selfoss. Sá vegur er um erfitt mýrarsvæði með þegar ónýtum vegum. Mjög kostnaðarsamt eða jafnvel útilokað að leggja þar veg sem mun bera þennan ógurlega þunga. 

Kannski hefði átt að skoða þessa þætti betur og fyrr. Kannski hefði Vegagerðin átt að vera vakandi og fylgjast með, benda á ómöguleikann.

 

Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni.


mbl.is Stórfelld áhrif uppbyggingar vindorku á vegakerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logið að þjóðinni

Hafin er bygging á fyrsta risa vindorkuveri hér á landi. Okkur þjóðinni var talin trú um að þar væri fyrirtæki okkar landsmanna að verki, Landsvirkjun. Á þeim grundvelli hefur málið verið kynnt og á þeim grundvelli hafa mótmæli gegn þessu vindorkuveri verið minni en ella. Mörgum þótt ásættanlegt að fyrirtæki í eigu landsmanna stæðu að slíkri framkvæmd, umfram erlenda aðila. Aðrir hafa þó ekki gert greinarmun á því hvort náttúrunni verði fargað í nafni innlendra eða erlendra aðila. Fórnin er alltaf söm.

En nú er ljóst að Landsvirkjun er einungis notuð sem skálkaskjól fyrir erlendan aðila, Enercon. Hefur gert samning við það erlenda fyrirtæki um byggingu og REKSTUR vindorkuversins. Landsvirkjun mun því einungis skaffa nafn sitt á gjörninginn og væntanlega taka svo við ruslinu þegar allt er komið í þrot.

Logið var að þjóðinni og inngangurinn inn á hálendið mengaður.

Landsvirkjun var stofnað til að halda utanum orkuvæðingu landsins, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Það verkefni gekk vel framanaf. Fyrirtækið rekið óhagnaðardrifið samkvæmt lögum. Verð orkunnar miðaðist við að greiða niður skuldir vegna framkvæmda og orkuverð til eigenda átti að lækka eftir því sem fram liði. 

En sú lækkun kom aldrei til eigenda Landsvirkjunar. Heimskir stjórnmálamenn flæktu okkur í samstarf við milljóna þjóðir, með EES samningnum. Eitthvað sem sagan mun dæma þá af. Stuttu síðar voru orkumál tengd þeim samningi, algerlega að óþörfu. Síðan hefur sigið á ógæfuhlið eigenda Landsvirkjunar, hver tilskipunin á fætur annarri. Enda orka ekki lengur skilgreind sem innviðir, heldur vara. Og vara skal hlíta lögmáli markaðarins, samkvæmt þeim sem segja okkur fyrir verkum. Og þann markað þarf að búa til, sé hann ekki fyrir hendi. Um það höfum við ekkert val. Mammon svífst einskis.

Og nú ætlar þetta fyrirtæki okkar að nota þennan auð okkar í vonlaust verkefni, verkefni sem hvergi hefur gengið upp í heiminum nema með góðum og öflugum ríkisstyrkjum, vindorku. Er engu betri fjarfesting en Icesave. 

Þessi fjáraustur verður auðvitað bak við tjöldin, til hins erlenda fyrirtækis Enercon. Sama hagfræðin og skóp Icesave. 

 

Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni.

 


Laun og ábyrgð

Finnst fólki eðlilegt að valdalaus forseti þjóðar, sem telur um 380.000 hræður, sé með hærri laun en forseti þjóðar sem telur um 340.000.000 manns? Forseta sem hefur völd og gæti með einni skipun tortímt öllu lífi á jörðinni á augabragði.

Er ekki eitthvað skakkt við þessa mynd?


Áróðurinn hafinn

Stjórnvöld hafa hafið áróðurinn fyrir kosningu um aðild að esb. Annars vegar með fjáraustri til að "rétt niðurstaða"  fáist og hins vegar með því að læða inn í hugarskot fólks að öll mótmæli gegn aðild sé til komin af inngripi erlendra aðila, gjarnan ótiltekinna öfgahópa.

Fyrir það fyrsta er engin rétt eða röng niðurstaða sem mun koma fram úr þessari kosningu, einungis vilji meirihluta landsmanna. Það kallast lýðræði. Inngrip stjórnvalda í slíka kosningu kallast allt öðru og ljótara nafni. Kjósendur vega og mets kosti og galla aðildar og eiga að fá að gera það í friði fyrir ríkjandi stjórnvöldum.

Að nota ríkissjóð til öflunar atkvæða til aðildar að esb eru inngrip sem ekki á né má samþykkja, aldrei. Sambandið sjálft er þegar með háar greiðslur til þessa verks, sumpart gegnum menntaelítuna í nafni svokallaðra styrkja, en mestan part til fjölmiðla til að fá "rétta" umfjöllun. Þar er ekki á bætandi, þó grunur sé um enn víðtækari greiðslur sambandsins til stuðnings aðildar Íslands að esb. Allt inngrip með peningum í þessa umræði, skekkir niðurstöðuna, gerir hana ómerka. 

Sú ógn af utanaðkomandi erlendum öflum, sem ráðherra nefnir, er ekki til staðar. Engin erlend öfl hafa hag af því að við göngum ekki ì esb. Þessi umræða er hins vegar nokkuð algeng í dag, ekki síst innan esb og þá hefur umræða Trumps einnig verið nokkur í þessum dúr. Ef grunur er um vafasama kosningu er haldið uppi þessum áróðri og ef kosningaúrslit eru ráðamönnum ekki hagfelld er þetta fyrsta sem sagt er, að einhver óskilgetin utanaðkomandi öfl, gjarnan kennd við öfgahópa, sögð hafa haft afskipti af kosningunni.

Evrópusambandið hefur gengið svo langt að neita niðurstöðu kosninga, ef þær eru ekki að vilja þess. Sett ríki í skammarkrók og sektað þau, ef vilji þeirra þjóða er ekki sami og framkvæmdarstjórnarinnar. Fyrir vestan okkur er réttarkerfið örlítið skárra, þar komast menn illa upp með svona rugl, geta ekki refsað fyrir "ranga"  niðurstöðu. Þar er dómskerfið enn virkt. 

Einu erlendu afskiptin sem við þurfum að hafa áhyggjur af, stafa frá esb. Þau eru þegar hafin.

Að nota fjármuni til að hafa áhrif á vilja fólks í kosningum er eitt, annað að koma inn í huga fólks að einungis ein skoðun sé rétt. Þetta er afbökun lýðræðisins. Þegar stjórnvöld haga sér með þeim hætti erum við komin nær einræðinu en gott þykir og nauðsynlegt að rétta þann kúrs.

Þá er spurning, þegar slíkt er gert i þeim tilgangi að færa völd til erlendra ríkjasambanda, að veikja lýðræði, hvenær ákvæði stjórnarskrár um landráð virkjast?


mbl.is Ekki hlutverk stjórnvalda að greiða fyrir rétt svar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Green eða Grín

Green economy, eða grænt hagkerfi mætti kannski frekar kalla grín hagkerfi.

Og út á hvað gengur svo þetta grín hagkerfi?. Jú, það er búin til einhver þörf og þeirri þörf þarf að svara. Í þessu tilfelli þörf á að minnka co2 í andrúmslofti og svar við því hvernig slíkt er hægt. Þessu tengdu er svo komið inn á umhverfismál, náttúruauðlindir og fleira, sem auðvitað er hið besta mál, flokkun sorps og fleira. Vandinn er bara að það nær ekki lengra en svo. Sorpið flokkað af neytendum og safnað saman í safnstöð þar sem því er pakkað til flutnings úr landi og notað þar sem eldsneyti, í eldsneytishrjáðum löndum þar ytra.

Ekkert af þessu skapar raunveruleg verðmæti, eru fjármögnuð að mestu með hærri sköttum á almenning. Ekkert af þessum verkefnum skilar tilætluðum árangri þrátt fyrir að miklum fjármunum sé eytt til þeirra. Nú síðast upplýst að Climeworks, fyrirtæki sem ætlaði að fanga co2 úr andrúmslofti, hefur haft uppi brellur til að halda verkefni sínu gangandi. Er búið að selja 380 þúsund tonn af kolefniskvóta en ekki getað afhent nema rétt rúmlega 1 þúsund tonn. Verkefnið er ekki að ganga upp og mun sennilega aldrei gera það. Það hefur þó ekki vantað aurinn sem þetta fyrirtæki hefur sót til sín, peningar sem alltaf lendir á almenningi að borga, með einum eða öðrum hætti.

Tengt þessu fyrirtæki er svo Carbfix, sem ætlaði að dæla niður innfluttu menguðu co2 sulli í jörð niður í Hafnarfirði. Íbúar bæjarins náðu að stöðva það æði, a.m.k. í bili. En Carbfix, eða réttara sagt Orkuveita Reykjavíkur, lætur ekki svoleiðis smámuni stoppa sig, fann sveitarfélag norður í landi sem fagnar þessum áformum og víst að þar mun skelfingin fá að ríða röftum. Þar skal dæla niður einhverju óhemju magni af einhverju glundri, flutt með skipum frá Evrópu, niður í berg sem er á jarðskjálftasvæði.

Allir muna Runnig Tyde ævintýrið, sem stóð sem betur fer frekar stutt. Tréflís var sturtað í miklu magni í sjóinn og átti hún að draga til sín co2 úr andrúmsloftinu. Allir menn sem einhverja menntun hafa á þessu sviði bentu á það augljósa, að það myndi ekki gerast, heldur þvert á móti myndi flísin sökkva til botns með tímanum, rotna og sleppa enn hættulegra gasi úr í andrúmsloftið, metani. Sennilega verið betra að leifa trjánum bara að standa vestur í Kanada og fanga co2 úr andrúmsloftinu, eins og trjám er gjarnt.

Önnur tilraun af sama meiði var ætlun Rastar að dæla vítissóta í Hvalfjörðinn. Það náðist að stöðva, í bili. Eigendur Runnig Tyde og Rastar eru Transition Labs. Sami eigandi.

Trjárækt er viðurkennd aðferð við föngun co2 úr andrúmslofti. Þar þarf þó að fara varlega, stundum betra að láta þann gróður sem fyrir hendi er sjá um verkið. Það eru nefnilega ekki bara grænu blöðin á trjánum sem vinna slíkt verk, allt grængresi og reyndar allur gróður gerir slíkt hið sama. Þess vegna er co2 svo nauðsynlegt fyrir líf á jörðinni, nauðsynlegra en súrefni, sem reyndar er einnig unnið út í andrúmsloftið af grænblöðungum. Vinna kolefniseininguna úr co2 og sleppa súrefninu frá sér. Stór mistök voru gerð í þessu fyrir nokkru, þegar sama sveitarfélag og nú vill taka á móti menguðu sulli frá Evrópu, gaf heimild til að plægja upp stórt gróið svæði til trjáræktar.

Samhliða þessu hefur verið tekin sú stefna að moka ofaní skurði, kallast endurheimt votlendis. Allir sem þekkja til votlendis vita að þar er gróður oftast rýr og oftar en ekki megn fýla af slíkum svæðum. Fýlan skapast af rotnun og sú rotnun framleiðir metan, hættuleg gastegund ef hún er í miklum mæli. Hins vegar vita hinir sömu að þurrkað land verður gjarnan mjög gróskumikið, Magn grænblöðunga margfaldast og getan til vinnslu co2 í sama mæli. Þá eru flestir framræsluskurðir hér á landi meira en hálfrar aldar gamlir. Þeir skurðir sem hefur verið viðhaldið eru einkum þeir sem snúa að ræktarlandi, aðrir eru flestir orðnir gagnlitlir eða gagnlausir til þurrkunar. Hvernig á því standur að mönnum datt þessi fásinna í hug er óskiljanlegt með öllu. Þarna er verið að vinn þvert gegn þeirri stefnu sem ætlað er.

Flokkun rusl er auðvitað hið besta mál, en einungis ef hægt er að treysta því að sú flokkun skili sér alla leið. Stjórnvöld hafa tekið upp Evrópu tilskipun á þessu svið, tilskipun sem reynist fámennri þjóð í stóru landi ansi dýr. Mörg sveitarfélög neyðast til að stór hækka gjaldtöku af íbúum, svo uppfylla megi tilskipunina, ef þau ætla að lifa af. Þessi flokkun er þó ekkert annað en sýndarmennska, þegar vel er gáð. Sem dæmi að ef á að flokka plast til endurvinnslu þarf að flokka það í sjö flokka, sex undirflokka plasts og þann sjöunda fyrir gerviplastið. Þetta er auðvitað ekki gerlegt fyrir heimili landsins, sjáum í hendi okkar að kostnaðurinn myndi verða enn meiri og tunnufjöldinn maður minn, við hvert heimili. Því er plast frá heimilum tekið óflokkað og sent til Svíþjóðar, þar sem það er nýtt sem eldsneyti á brennsluofna til framleiðslu orku. Er ekki betra að byggja slíka ofna hér heima og framleiða orku á köldum svæðum, losna þannig við dýran og mengunarmikinn flutning yfir hafið. Sama má gera fyrir pappann. Þannig værum við komin með háhitaofna sem gætu brennt allt okkar rusl, utan járns og gefið okkur bæði hitaorku og raforku, svona rétt eins og Svíarnir gera við okkar sorp. Einungis einsleitt plast frá stórnotendum, rúlluplast bænda og netadræsur skipa, er vinnanlegt og það er unnið hér á landi.

Töluvert er talað um umhverfismál í því sem kallast Green Economy, eða grín hagkerfi. Allar aðgerðir sem flokkast undir þetta grín eru þó þvert á þá stefnu.

Umhverfismál eru auðvitað mjög víðfeðmt hugtak en í sinni tærustu og einföldustu mynd má segja að umhversmál fjalli um að ekki skuli ganga meir á náttúruauðlindir en nauðsyn ber, ekki skuli menga meira en nauðsyn ber og er þar átt við alla mengun. Co2 er ekki mengun, heldur lífsandi jarðar. Og að nýta skuli það sem notað er eins lengi og hægt er.

Ef við byrjum á nýtingu hluta þá eru jarðarbúar þar einstakir sóðar. Hlutir eru gerðir meira og minna einnota, þannig að ef þeir bila er ekki hægt að laga þá og því keyptur nýr. Stefnan í rafvæðingu bílaflotans er eitt dæmi um sóðaskap við nýtingu hluta. Mönnum er gert auðveldara að kaupa nýja rafbíla, beinlínis til að koma eldsneytisbílum út af markaði. Nýlegum bílum er því hent, jafnvel þó séu í ágætis ástandi og auðvelt að halda þeim við. Þetta er beinlínis stefna grín hagkerfisins. Svona mætti lengi telja, nýting hluta, sem ætti að vera í hávegum haft til bjargar jörðinni, er talið hættulegt. Einnota hlutum er hampað.

Mengun af öllu tagi er slæm. Kolaorkuver er til dæmis mjög mengandi, þó aldrei sé talað um mengun frá þeim nema á einn veg, co2 losun. Co2 er ekki mengun, eins og áður segið, hins vegar er sót og fleiri þættir mjög mengandi fyrir jörðina. Vindtúrbínur eru einnig mjög mengandi fyrir náttúruna. Þar má fyrst nefna örplastið, sem sagt er hverfandi en þó slitna spaðarnir mjög hratt. Olíumengun er tíð frá vindtúrbínum, SF6 gas, sem sannarlega hefur áhrif á hitastig andrúmsloftsins, losnar töluvert. Jarðflæmi sem þarf fyrir hverja framleidda orkueiningu er meira en nokkurri annarri orkuframleiðslu, ef frá er skilin sólarorkan. Þá hafa nýlegar rannsóknir bent til að lágtíðnihljóð, sem mannseyrað nemur ekki en hefur slæm áhrif á heilsufar, sé mun víðtækara, bæði að magni til og fjarlægð frá vindorkuverum. Önnur nýleg rannsókn bendir til að vindorkuver hafi áhrif á loftslag á umhverfið, bæði með truflun á vindafari og einnig til hækkunar hitastigs.  Þá liggur fyrir að vindorkuver hefur hvergi getað verið rekið með hagnaði, eru háð styrkjum og niðurgreiðslum.

Sólarorkuver eru sífellt að verða vinsælli og sérstakt átak nú hér á landi að koma þeim sem mest á koppinn. Þar er kannski mesta hættan hækkun á hitastigi. Sólarspeglar eru svartir og svart dregur til sín hita frá sólinni. Það þarf ekki snilling til að átta sig á hvað áhrif á lofthita sólarorkuver sem þekur nokkra hektara hefur.

Þá má nefna náttúruauðlindirnar. Þær geta bæði verið ofanjarðar sem neðan. Ef við byrjum á náttúruauðlindum ofanjarðar er auðvitað fyrst að nefna ósnortna náttúru. Þar er til dæmis hálendið okkar efst. Það ber okkur að vernda og ekki með nokkru móti megum við fórna því undir vindorkuver. Okkur ber skilda til að skila þeirri náttúru eins góðri og mögulegt er til afkomenda okkar. Erlendis hefur ósnortinn skógur verið ruddur í stórum stíl, til að koma fyrir vind og sólarorkuverum. Jafnvel tekin mikilvæg ræktarlönd úr matvælaframleiðslu, í þessum tilgangi. Þetta er hættuleg stefna sem jörðin okkar þolir alls ekki. Þá er ótrúlegt að erlendir aðilar geti komið hingað til lands og sótt jarðveg í stórum stíl. Einu sinni var sungið "jörðin fýkur burt", nú getum við sagt jörðin er flutt burt.

Neðanjarðar orkulindir geta verð margvíslegar, en eiga flestar sammerkt að vera takmarkaðar. Nú er orðið ljóst að sumar þessar auðlindir hverfa hratt, einkum vegna aukinna framleiðslu rafmótora og battería. Hvað tekur við þegar þær auðlindir klárast, hvernig ætlum við jarðargbúar að útskýra fyrir afkomendum okkar að ekki sé lengur hægt að framleiða einföldustu hluti, af því við kláruðum þau hráefni sem þarf? Sumir nefna endurvinnslu og allir segjast endurvinna. Það er þó bara brot af því sem notað er, brot af því sem þarf. Sumt er erfitt eða útilokað að endurvinna, annað svo dýrt að það borgar sig ekki og oftar en ekki eru þessir hlutir bara urðaðir, með tilheyrandi mengunarhættu. Tökum sem dæmi batterí í rafbíla. Endurvinnsla þeirra er í mýflugumynd. Þó fullyrða flestir framleiðendur rafbíla að öll batterí séu endurunnin. Fyrir örfáum dögum var frétt erlendis um bruna þar sem stæður að úreltum batteríum brann. Það skondna, eða skelfilega við þá frétt var að safnstöðin var skammt frá endurvinnslustöð, en of dýrt var að láta endurvinna þau. Því fór sem fór. 

Green economy, eða grín hagkerfi skilar ekki neinum verðmætum. Lifir á skattheimtu almennings. Það mun aldrei geta gengið upp til lengdar, sjáum þegar mikla hrörnun hagkerfis Evrópu, sem telur sig leiðandi í gríninu. Ég er ekki neinn hagfræðingur, en veit þó að ef ekki verður verðmætasköpun mun fljótt síga á ógæfuhliðina. Að höndla með peninga manna á milli, eða eyða peningum í einhvern óþarfa, mun tæma budduna. Það þarf alltaf einhverja verðmætasköpun og hún finnst hvergi í grín hagkerfinu, þvert á móti.

Þessi pistill er orðinn lengri en góðu hófi gegnir, en gæti verið mun lengri. Meginmálið er að einblínt er á einn þátt, þátt sem jörðinni er nauðsynlegur. Algjörlega horft framhjá öllum öðrum þáttum, sem sannarlega þarf nauðsynlega að taka á. Frekar unnið gegn jörðinni í stað þess að vera að bjarga henni. Með sama áframhaldi mun mannkynið eyða sér fyrir næstu aldamót!


Siðleysið ríður röftum, enn og aftur

Fjármálaráðherra var óspar á stóru orðin þegar þjóðinni var boðið að kaupa eigin banka. Sagði bankakerfið standa einstaklega vel. Minnugir slíkra orða ráðamanna sumarið og haustið 2008, varð til þess að margir urðu afhuga kaupum á bréfunum, þó margir hafi látið blekkast, rétt eins og fyrir hrun.

Þegar blaðað er í Viðskiptablaðinu eru nokkrar áhugaverðar fréttir. Þar er til dæmis frétt er segir frá mögulegri samþjöppun á bankamarkaði. Ef menn telja þörf á samruna þess er ljóst að orð fjármálaráðherra eru álíka marktæk og ráðamanna sumarið og haustið 2008.

Önnur frétt er nokkuð umhugsunarverð. Hún er um að Orkan sé að kaupa Samkaup. Orkan er eins og flestir vita í eigu Skeljar, áður Skeljungs. Aðaleigandi Skeljar er enginn annar en Jón Ásgeir Jóhannesson, nokkuð kunnuglegt nafn. Kannski frægustu ummæli hans fyrst eftir hrunið, þegar hann sagðist kannski eiga fyrir einni diet kók. Þó hefur þessum manni, sem sagðist með öllu eignarlaus eftir hrunið, tekist að ná undir sig fjölda fyrirtækja hér á landi og er enn að bæta í safnið. Ekki að sjá að hann hafi þurft að taka á sig stóra ábyrgð í kjölfar hrunsins, né lært. Margir eru enn að súpa seiðið af þeim skaða sem Jón Ásgeir og aðrir svokallaðir útrásarvíkingar eða hrunverjar, ullu með því að setja bankakerfið á hausinn. Eru ekki eins "heppnir" og Jón.

Þriðja fréttin sem skar augun er enn óhuggulegri og minnir enn frekar á tímana fyrir hrun, þegar ósóminn fékk að ganga lausum hala og sumir höguðu sér eins og svín. Sú frétt er svo ótrúlega nærri þeim fréttum sem daglega mátti lesa fyrir hrunið, um kauprétt hlutabréfa. Nokkrir af stjórnendum Ölgerðarinnar fengu að kaupa hlut í fyrirtækinu á gjafvirði og seldu aftur samdægurs á markaðsvirði. Þannig náðu þeir að þyngja pyngju sína um heilar 28,215,000 kr hver. Reyndar ekki jafn mikill hagnaður og forsætisráðherrann okkar fékk er hún hætti vinnu á almennum markaði og ákvað að setjast á þing, en alveg ágætis summa þó. Einkum vegna þess að nær allir sem einhvern alvöru titil hafa hjá Ölgerðinni fengu þennan ábata á laun sín. Fólkið á gólfinu, þetta sem býr til verðmætin, fékk ekkert.

Fleiri óhugnanlegar fréttir mætti vitna til í Viðskiptablaðinu, fréttir sem minna á þann tíma er siðleysingjar höfðu hér öll völd á fjármálamarkaði. Ein fréttin þar segir frá því að kaupendur bréfa í Íslandsbanka hafi fengið þau afhent og fyrir hádegi hafi stór hluti þeirra verið búin að selja bréfin frá sér, nýtt sér afslátt fjármálaráðherra. Hverjir kaupendur eru er ekki sagt, en ekki ótrúlegt að þar fari einhverir þeirra er mest bar á fyrir hrunið. Að hrunverjar séu að ná aftur tangarhaldi á bankakerfinu.

Og svo kannski undarlegasta fréttin, eða fáránlegasta. Þar segir ágætur hagfræðingur okkur að heimili landsins séu hreinlega að drukkna í innlánum! Á hvaða lyfjum er fólk eiginlega? Enn ein vísunin til mánaðanna fyrir hrunið, þegar landsmönnum var talin trú um að þeir væru svo ofboðslega ríkir, af því við áttum svo ofboðslega mikla fjármálasnillinga sem væru að ávaxta fé okkar svo ofboðslega mikið. Raunin þá var önnur og kannski einnig nú.

Það er hreint eins og við séum komin 17 ár aftur í tímann. Ekkert hefur breyst. Sjálftakan orðin viðtekin venja, rétt eins og fyrir hrun, siðleysið algert. Og ráðamenn þjóðarinnar spila auðvitað með, rétt eins og fyrir hrun, jafnvel forsetinn farin að taka með sér "viðskiptafólk" í erlendar heimsóknir, eitthvað sem þáverandi forseti var mjög gagnrýndur fyrir í hrunskýrslunni.

Kannski erum við komin nær öðru hruni en margur heldur.


Vegagerðin á blæðingum

Þeir sem muna gömlu malarvegina, með sínum holum, þvottabrettum, ryki og drullumengun, þakka fyrir það skref var stigið í að klæða vegi landsins. Reyndar enn eftir að klára það verk og enn fólk sem býr við þá skelfingu að þurfa daglega að aka malarvegi, oftast mjög vanrækta í viðhaldi.

Það var mikið átak að koma á klæðningu á helstu leiðir og einungis stutt síðan náðist að klára að leggja á allan hringveginn. Þetta tókst af því að ákveðið var að nota ódýrari leið til klæðningar vegakerfisins, svokallað Ottadekk. Víst er að ef malbik hefði orðið fyrir valinu væri verkið enn mjög skammt á veg komið.

Lengst framanaf entist þessi klæðning alveg ágætlega og fátítt eða alveg ótítt að blæðingar kæmu upp úr klæðningunni. Helsta vandamálið var undirlagið, vegurinn sjálfur. Oftar en ekki var verið að leggja slitlag ofaná ónýta vegi. Þar hefði litlu skipt þó notað hefði verið malbik eða jafnvel steypa. Það er tiltölulega stutt síðan fór að bera á blæðingum í slitlagi og á sama tíma fór að bera á að malbikið sjálft væri orðið endingaminna. Sumir vilja kenna aukinni umferð um, sérstaklega þungaumferð og sjálfsagt hefur það sitt að segja um endingu en kemur blæðingum lítið við. Aðal málið er þó að undirbygging sé góð og bestu efni sem þekkjast notuð.

Eins og áður segir, þá er nokkuð langt síðan hafist var handa um að leggja slitlag á vegakerfið og lengst framanaf gaf þessi aðferð ágætis raun. Ekki að sjá neina sérstaka bilun á þessu þó umferð ykist. Aukning þungaflutninga fóru hins vegar illa með undirlag veganna og skemmdi þannig klæðningar. Tjörublæðingar voru óþekktar, jafnvel þó hitastig væri í hærri kantinum. Enda vandséð að hægt sé að kenna hitastigi um, bæði vegna þess að blæðingar eiga sér stað á veturna líka og einnig að þessi klæðning er þekkt erlendis þar sem hitastig verður mun hærra en hér á landi.

Þar sem enn er að mestu notast við sama berg sem klæðningarefni og áður og sömu vinnuaðferðir, er vart hægt að kenna því um. Því stendur eitt eftir og það er tjaran sem bindur saman steinklæðninguna. Þar hefur orðið breyting. Á árunum eftir hrun var lögum breytt þannig að ekki mátti nota þau efni til íblöndunar tjörunnar og áður og í þess stað skildi notast við önnur efni. Í framhaldinu fór að bera á blæðingum tjörunnar í klæðningum og reyndar einnig lélegri ending á malbiki. Þetta má sjá á því að klæðningar sem enn eru til frá því fyrir þessa breytingu, klæðningar sem oftar en ekki eru orðnar kross sprungnar, eru ekki að blæða tjöru.

Vitað er að innviðaskuld ríkisins til vegamála er orðin stór, en það er þó ekki vandinn við blæðingar. Sá vandi kemur fram í minni uppbyggingu vegakerfisins og lélegu viðhaldi þar sem enn eru malarvegir, auk ótrúlega hægfara útrýmingu hættuþátta eins og einbreiðra brúa, mjóum vegum og þess háttar. Sök blæðinga er ekki hægt að leita þar, þó vissulega komin sé tími til að greiða þessa skuld.

Það er hreint með ólíkindum að Vegagerðin og stjórnvöld skuli ekki viðurkenna vandann. Eytt er peningum í allskyns tilraunir, eins og innflutning á steinefni og fleira. Malbiksstöðvar eru látnar gefa út yfirlýsingar um að tjörublöndur þeirra séu góðar, jafnvel frábærar. Vel getur verið að þær tjörublöndur standist allar kröfur, en þær standast ekki náttúruna. Um það snýst málið og því fyrr sem raunverulegur vandi er viðurkenndur, því fyrr má útrýma tjörublæðingum í klæðningum. En til þess verður að breyta þeim stöðlum sem notast er við og taka upp fyrri aðferðir.

Við erum fámenn þjóð í tiltölulega stóru landi. Að ætlast til þess að allt vegakerfið verði malbikað er í raun fráleit hugsun, þó vissulega megi auka malbik á erfiðustu köflunum. Klæðning verður áfram aðal aðferðin, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Undirbygging vega má víða batna, t.d. alveg óskiljanlegt að notuð skuli svokölluð fergjunar aðferð við veglagningu nýrra vega. Þetta hefur verið reynt frá því fyrir aldamót og aldrei gengið upp. Vegir missíga og auka þannig endingarleysi klæðninga og malbiks. Nýjasta dæmið er margföldun vegarins um Kjalarnes, þar sem stór kafli var unnin með þessari aðferð. Vegurinn tekinn í notkun fyrir tveim árum og er þegar farinn að missíga mikið. Jafnvel steypa stæðist ekki þá raun.

Það er hreint ótrúlegt hvað ráðamenn þjóðarinnar berja hausnum í steininn. Að ekki skuli fyrir löngu verið viðurkenndur vandi blæðinga og gerð þar bót á!


mbl.is Vara við „umtalsverðum bikblæðingum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarnefnd

Ekki vissi ég að til væri svokölluð framtíðarnefnd á Alþingi. Verkefni hennar frekar óljóst, þó er vitað Alþingi getur ekki vísað ákveðnum málum til nefndarinnar. 

Nú hefur varaformaður nefndarinnar lagt til að Framtíðarnefnd verði lögð af, að loknum skipanatíma hennar. Forseti Alþingis er hins vegar á því að mikilvægi þessarar nefndar sé svo mikið að nauðsyn beri til að lengja þann skipunartíma.

Það er ekki öll vitleysan eins og fjarri því að síðasti hálfvitinn sé fæddur. Hvað höfum við við Framtíðarnefnd að gera, nefnd sem ekki er hægt að vísa málum Alþingis til en aðrar nefndir geta leitað álits hjá? Skilgreint markmið nefndarinnar er svo loðið að hálfa væri nóg. Þessi nefnd er því algerlega þarflaus og gagnlaus.

En kannski eru þeir sem í nefndinni sitja svo miklir vitringar að þeir sjái fyrir um framtíðina, nú eða að þeir ráði yfir einhverri kristalkúlu. Man reyndar ekki eftir neinni afurð nefndarinnar, en framtíðin er jú ekki enn komin. Þegar varaformaður nefndarinnar telur hana vera þarflausa, er nokkuð ljóst að svo er. Ekki viðtekin venja að nefndarmenn telji sína nefnd óþarfa, hvað þá þeir sem titlaðir eru í efstu lögum nefnda. Oftast halda stjórnmálamenn föstum tökum í sínar nefndir, gefa út misvitrar skýrslur til að sanna tilveru þeirra. Vilja halda lífi í þeim svo lengi sem mögulegt er. Það er því nokkuð ljóst að þegar varaformaður nefndar telur hana ekki þjóna tilgangi, er nefndin gagnslaus og ber að leggja af.

Hvar er nú öll hagræðingin sem stjórnvöld boðuðu? Ef ekki er hægt að stöðva tilraun sem fyrirséð að myndi mislukkast, hvernig fer þá með aðrar hagræðingaráætlanir stjórnarinnar? Ef nefnd sem á að spá um það sem útilokað er að spá, þ.e. framtíðina, er talin svo mikilvæg, hvað þá með aðrar nefndir og stofnanir sem Alþingi ræður yfir?

Ég segi því aftur, það mun seint fæðast síðasti hálfvitinn. Verra er að þeir virðast hafa þá tilhneigingu að safnast saman í þingsal Alþingis.


mbl.is Segir framtíðarnefnd tilraun sem eigi að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nálgumst hratt einræði

Þegar sú staða er komin upp að ráðherra rekur embættismann, fyrir það er virðist eitt að henni þykir skoðanir embættismannsins of langt frá eigin skoðunum, er lýðræðið komið í hættu. Slík vinnubrögð þekkjast einungis í einræðisríkjum. Það fyrsta sem Hitler gerði var að losa sig við alla þá sem honum voru ekki þóknanlegir, Stalín hélt fast um sitt einræði með því að losa sig við alla þá sem hann taldi sér standa ógn af, oftast þó af ímyndun einni. Fleiri einræðisherra mætti nefna sem slíka tilburði viðhafa. Jafnvel Trump verið gagnrýndur fyrir að nota þessa stjórnháttu. Fátítt eða aldrei hefur verið beitt þessum starfsaðferðum hér á landi. Það er óhugnanlegt að byrjað skuli að feta þann veg.

Rök ráðherra eru haldlítil í málinu. Segir að til standi að efla landamæravörslu, eitthvað sem lögreglustjórinn fyrrverandi hefur ákaft kallað eftir. Því hefði auðvitað verið rétt hjá ráðherra að halda Úlfari sem lengst, nýta þekkingu hans og krafta. Fáir eru betur inn í þessum málum en einmitt fráfarandi lögreglustjóri Suðurnesja.

Skil reyndar ekki hvernig þessi óhefti innflutningur getur átt sér stað til landsins. Ekkert skip kemur hingað til lands og leggst að bryggju nema áhafnalisti og eftir ástæðum farþegalisti, hafi fyrst verið sendur. Þar kemur fram nafn allra, það land er þeir búa í og númer vegabréfs. Ef áhafnaskipti eru, þarf lögregla að mæta í skip og stimpla heimild þeirra sem af skipinu fara, jafnvel þó þeir fari beinustu leið í flug úr landi. Áhöfn sem kemur á skip kemst ekki út úr flugstöðinni nema hafa fengið uppáskrift lögreglu, þó þeir fari beinustu leið af velli í skip. Þetta á við um alla þá sem búsettir eru utan Schengen svæðisins og engar undanþágur frá því. 

Hvers vegna er ekki fyrir löngu búið að setja sömu reglur fyrir flugið. Farþegalistar liggja fyrir löngu fyrir flug og því varla mikið mál að senda þá áður en haldið er í loftið. Og hin spurningin, hvernig stendur á því að flugfélög hleypa fólki inn í vél án vegabréfs? Ekki hef ég nokkurn tíman komist inn í flugvél, reyndar ekki heldur nálægt brottfararsal, án þess að sýna vegabréfið mitt. Hefði haldið að þetta atriði væri mikilvægara í baráttunni gegn hryðjuverkum en að taka af manni sjampóbrúsann eða skoða hvort eitthvað er falið í skósólanum.

En megin málið er þó það að geðþóttarákvörðun ráðherra er hættuleg. Henni ber að starfa eftir lögum og í öllu falli að beita sanngirni. Skynsemi skaðar ekki. Þegar stórar breytingar eru framundan eru fáir betri til að koma þeim í kring en einmitt þeir sem kallað hafa eftir þeim breytingum og þekkja best til málanna.

Nema auðvitað, að ráðherra hafi einhverjar allt aðrar hugmyndir uppi um þær breytingar. Að ekki eigi að taka á vandanum, heldur reyna að fela hann. Að hafa uppi einræðistilburði vegna eigin stjórnmálaskoðana.

Þá er ávörðun ráðherra skiljanleg.


mbl.is Segir ákvörðunina varhugaverða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband