Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

EES, hinn svarti samningur

Nú virðist tíska að tala um gullhúðun EES laga og reglna, sem sá samningur gerir okkur skylt að taka upp frá ESB. Að þegar slíkar tilskipanir koma til samþykktar Alþingis sé búið að gera þær strangari en til stóð. Erfitt eða útilokað er fyrir þingmenn að fylgja eftir sínu lögskipaða eftirliti við upptöku þessara tilskipana, þar sem þær eru gjarnan afgreiddar á færibandi síðasta dag hvers þings. Því er auðvelt fyrir embættismenn, jafnvel án samþykkis ráðherra, að bæta í þessar tilskipanir. Eftir að viðkomandi ráðherra hefur síðan fengið tilskipun samþykkta, með þeim breytingum sem bætt var við, tekur hann gjarnan sumar reglugerðir og færir þær til "fagaðila" til frekari útlistunar. Oftar en ekki hefur viðkomandi "fagaðili" hag af því að gera reglugerðina enn þyngri.

Nú vilja ráðamenn breyta þessu, vilja að tilskipanir um lög og reglugerðir frá ESB séu teknar eins og þær eru gerðar í upphafi. Að ekki sé verið að bæta í þær hér á landi. Eina leiðin til þess er að hver tilskipun sé tekin til málefnalegrar umræðu á Alþingi, þar sem þingmönnum verði gert fært að sannreyna hvort íslenski textinn sé samhljóða þeim upphaflega. Það færi þá sennilega lítið fyrir öðrum störfum þingsins og landið enn stjórnlausara en það er og má þar vart á bæta.

Nú er það svo að oftar en ekki dettur einstaka þingmanni í hug að bera saman þessar tvær útgáfur, þá er samin er í Brussel og þá sem embættismenn kokka fyrir ráðherrann sinn, til fyrirlagningar þingsins. Þegar þeir benda á misræmið, nú eða hættuna við samþykkt viðkomandi laga eða reglugerða, er sá strax úthrópaður sem öfga hægrisinn, gamalmenni eða jafnvel enn ljótari orð notuð.

Hvernig á því stendur að einhverjum datt til hugar að kalla þessa svikastarfsemi gullhúðun er svo aftur sérstakt rannsóknarefni. Mun nær að tala um svertun eða kolun tilskipana frá ESB.

Þá mætti með sanni segja: EES, hinn svarti samningur.


Vilja Grindvíkinga ber að virða

Náttúruöflin hér á landi eru ægileg. Þegar þau láta að sér kræla ber okkur skilda til að halda vel utanum það fólk sem fyrir verður. Þar duga ekkert yfirlýsingar ráðamanna um hversu duglegir við landsmenn séum, að við munum komast gegnum þetta, dugir ekkert "þetta reddast" hugarfarið. Það virðast þó ríkt í hugum þeirra sem stjórna landinu okkar á þessum viðsjárverðu tímum náttúruhamfara.

Trekk í trekk dynja ósköp yfir Grindavík og nú síðast hraunrennsli inn í bæinn og nýtt og enn viðsjárverðara sprungusvæði, sem var þó ærið fyrir. Og nú tala jarðfræðingar um að þetta sé í raun einungis byrjun á enn stærri atburðum, eða gætu veri það. Grindavíkurbær er þegar að stórum hluta óbyggilegur og enn eftir að fá úr því skorið hversu umfangsmikið sprungusvæðið er orðið. Því er óvíst hvort eða hvenær hægt verður að byggja upp aftur.

Engir eru dómbærari á það hvernig staðið skuli að aðstoð við íbúana, en þeir sjálfir. Einungis þeir hafa reynsluna og einungis þeir geta sagt hvernig skuli staðið að verki. Allir aðrir eru óhæfir til þess verks, allra síst stjórnmálamenn. Það er útilokað með öllu, fyrir nokkurn mann að setja sig í spor Grindvíkinga.

Nú hefur verið haldinn íbúafundur og vilji þeirra er skýr. Þeir vilja losna frá þessum hörmungum, vilja losna við hús sín, vilja geta hafið líf á nýjum stað. Þegar yfir lýkur munu sjálfsagt einhverjir sækja heim aftur, en það geta verið ár eða áratugir þar til slíkt verður framkvæmanlegt. Þessi vilji er skýr og sennilega fáir landsmenn sem setja sig upp á móti þeim vilja íbúana. Það er hins vegar stjórnvalda að hrinda þeirri framkvæmd í verk og þar duga hvorki vettlingatök né slóðaskapur. Þetta verk þarf að vinna hratt og örugglega, svo Grindvíkingar geti farið að horfa fram á veginn. Það er þegar búið að leggja meira á þá en góðu hófu gegnir.

En þar kemur babb í bátinn. Ekki einungis eru stjórnmálamenn hikandi, heldur er neikvæðni þeirra hrópleg. Gert meira úr kostnaði en efni eru til og yfirleitt sú lausn sem íbúar vilja töluð niður. Rætt um aðrar og jafnvel dýrari lausnir. Stjórnmálamenn telja sig vita betur hvernig Grindvíkingum lýður en þeir sjálfir, þykjast vita meira um vilja íbúanna en þeir sjálfir. Þetta kallast á vægu máli hroki.

Fjármálaráðherra kom fram með tölur á fundinum, sagði það kosta 120 milljarða að kaupa upp húseignir í Grindavík. Inn í þeirri tölu er innbú, sem í flestum tilfellum má enn bjarga. Því er upphæðin nokkuð lægri. Ekki er enn búið að meta öll tjón á húsum í bænum og ekki byrjað að meta það tjón sem kom upp í síðustu ósköpum. Því er ekki vitað hversu mörg hús þarf þegar að kaupa upp, en kostnaður við þau kaup dregst að sjálfsögðu frá þeim hundrað milljörðum sem ráðherra nefndi. Ekki nema hún telji vera hægt að komast hjá að bæta þau einnig. Því er endanlegur kostnaður við kaup á þeim húsum sem ekki dæmast ónýt, kannski ekki svo hár og sjálfsagt gæti ríkissjóður yfirtekið lán sem hvíla á mörgum þeirra og þannig dreift greiðslubyrgði yfir lengri tíma.

En það er ekki bara að sum húsin séu skemmd. Landið er stórskemmt og hættulegt. Það er ekki nóg að eiga heilt hús ef ekki er hægt að fara út fyrir dyr þess án þess að eiga á hættu að hverfa ofaní jörðina. Það fer enginn með börn inn á slíkt svæði, jafnvel þó sjálft húsið sé heilt. Ef umhverfið er ekki öruggt er húsið jafn ónýtt fyrir eigandann, þó ekki sjáist á því sprungur.

Það minnsta sem hægt er að gera í stöðunni í dag er að fara að vilja Grindvíkinga, að losa þá frá þeirri skelfingu sem þeir hafa búið við. Um það ætti ekki að þurfa að deila, jafnvel þó kostnaður sé einhver. Hann skilar sér fljótt aftur. Í það verkefni þurfa stjórnvöld að einhenda sér.

Úrtölur eða hroki er ekki til bóta í stöðunni nú.


mbl.is Forsíða Morgunblaðsins: Nístandi óvissa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin er aumkunarverð

Framkoma ráðherra ríkisstjórnarinnar er aumkunarverð, svo ekki sé meira sagt. Nú kveður sér hljóðs einn ráðherra Sjalla og segist bera fullt traust til Svandísar. Ekki langt síðan hún gerði stólpagrín af henni og nefndi þar einmitt framkomu Svandísar í því máli sem Umboðsmaður Alþingis hefur nú komist að niðurstöðu um. Þar var hann reyndar sammála þessum ráðherra Sjalla, um að Svandís hefði bæði brotið lög og ekki gætt að jafnræðisreglu. Eftir einn fund í ráðherrabústaðnum kemur Áslaug svo út brosandi út og segist styðja Svandísi! Hvers konar andsk..... aumingjaskapur er þetta?!

Nú hafa nokkrir óbreyttir þingmenn Sjalla verið nokkuð harðir í afstöðu sinn gagnvart þessu lögbroti Svandísar. Eðlilega, enda sjálfsögð krafa að ráðherra fari að lögum. Í réttarríki gengur annað ekki upp. Annars erum við ekki lengur réttarríki, heldur orðin að einræði. Það er alvarlegt ef aðrir ráðherrar skilja ekki þetta grundvallar atriði. 

Fyrir liggur, ef ekki verður tekið í taumana og Svandís látin yfirgefa ráðherrastól, muni verða lögð fram á Alþingi vantrausttillaga. Væntanlega á Svandísi eina en ætti auðvitað að vera á alla ráðherra, miðað við hvernig þeir tala og haga sér í málinu. Víst er að vantraust verið samþykkt á Alþingi, sitji þingmenn Sjalla hjá. Þá mun koma í ljós hvernig menn þeir hafa til að bera. Hvort þeir standi við stóru orðin eða hvort þeir fara að fordæmi fyrrum félaga síns sem át eigin orð upp til agna án þess að blikna, fyrir síðustu kosningar.

Tel líklegra að þeir muni verja Svandísi fyrir vantrausti, taki á sig sök hennar.


mbl.is „Ég hef borið traust til hennar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningaár

Árið 2024 verður sannkallað kosningaár hér á landi. Forsetakosning, biskupskosning og sífellt fleiri teikn um að kosið verði einnig til Alþingis.

Forsetakosning.

Forsetinn okkar fór að dæmi Danadrottningar og sagði starfi sínu lausu. Þegar hafa komið fram vonbiðlar til embættisins. Sá fyrsti sem bauð sig fram er reyndar genginn úr skaftinu, þar sem ekki gaus á þrettándanum. Fyrsta alvöruframboðið kom síðan stuttu síðar, er Arnar Þór Jónsson bauð sig fram í embættið. Aðrir minni menn hafa síðan tjáð þjóðinni vilja sinn til verksins, eins og Ástþór Magnússon, svona af venju og fleiri. Strax eftir að Arnar tilkynnti sitt framboð fór vinstri elítan af stað til leita að mótframboði. Þar hafa ýmsir varið nefndir, jafnvel að þeim forspurðum. "Óháður kosningastjóri" ruv er duglegur að bjóða fram forsætisráðherrann okkar í embættið, þó hún hafi ekki sjálf sýnt vilja til embættisins, a.m.k. ekki opinberlega. Líklegt er að nokkuð vel muni ganga að manna frambjóðendastöður vinstrivængsins og hugsanlega veit "kosningastjórinn" eitthvað meira en við hin og að Kata verði meðal þeirra. Því fleiri vinstri menn í boði, því betra. Þá deilast atkvæðin þeirra sem mest.

Arnar hefur hins vegar sýnt að hann ann sjálfstæði þjóðarinnar, ann málfrelsinu og ann því að við höldum yfirráðum yfir eigin málum. Það kom hins vegar nokkuð á óvart að hann skyldi bjóða sig fram til embættisins. Hefur verið duglegur að verja þessi gildi á vígvellinum sjálfum. Nú ætlar hann að færa sig af vígvellinum yfir í vörnina. Hugsanlega telur hann baráttuna tapaða og eina sem hægt sé til varnar þjóðinni að virkja varnaglann, þ.e. að geta tekið völdin af Alþingi og fært þau til þjóðarinnar. Hver svo sem ástæða Arnars er fyrir þessari tilfærslu sinni, þá treysti ég að hann hafi tekið rétta ákvörðun og mun sannarlega kjósa hann. Veit engan íslending annan sem getur breytt þeirri ákvörðun minni. Og allir þeir sem trúa á Ísland, sjálfstæði þess og gildi ættu að eiga auðvelt með að kjósa þann mann til forseta. Þeir sem láta samvisku sína ráða vita hvern skal kjósa.

Biskupskosning.

Um tvöhundruð sérvaldir menn munu kjósa nýjan biskup yfir landið. Reyndar eru enn færri sem velja hvaða frambjóðendur fá að vera í kjöri. Hvort þetta muni efla kristna kirkju hér á landi leyfi ég mér að efast stórlega. Vandi kirkjunnar er stærri en svo. Vissulega gæti nýr biskup aukið vegferð kirkjunnar og gert þjóðina hliðhollari henni. En það verður ekki gert með kosningu sérvaldra um frambjóðendur er enn færri velja. Sátt um biskup og þá um leið aukin vegferð kirkjunnar verður einungis með því að hver sá sem er skráður í þjóðkirkjuna fá að kjósa um hvern þann sem býður sig fram og er innan þjóðkirkjunnar.

Alþingiskosningar?

Sífellt fleiri teikn eru á lofti um að þjóðin fái að kjósa til Alþingis á þessu ári. Óánægja þingmanna stjórnarflokkanna verður sífellt sýnilegri þjóðinni. Þessi ríkisstjórn hefur til þessa verið nánast óstarfhæf, enda langt á milli pólitískra sjónarmiða tveggja flokka af þrem er mynda stjórn. Sá þriðji er hins vegar einstaklega slungin við að sigla þarna á milli, eða halda sig til hlés. Stjórninni tekst einstaka sinnum að sameinast um einstök verkefni, gjarnan utanaðkomandi vá fyrir landið. Þar má nefna alheimspest, jarðhræringar og eldgos og nú þykist hún vera sameinuð um að forða hér allsherjar verkföllum á næstu mánuðum.

Fáir efast þó um að dagar þessarar ríkisstjórnar eru taldir, reyndar löngu taldir. Það er einungis eitt sem heldur stjórninni saman, en það er einstakur vinskapur milli formanna þeirra tveggja flokka er eru á sitt hvorum enda hins pólitíska litrofs hér á landi, Bjarna og Kötu. Falli annað þeirra úr skaftinu er leik lokið og þjóðin fær að kjósa. Hins vegar eru einmitt þessir tveir flokkar sem koma verst út í skoðanakönnunum og eru samkvæmt þeim að þurrkast út. Því má gera ráð fyrir að þau Bjarni og Kata  þurfi að brýna sína þingmenn enn frekar, jafnvel ná sér í svipu til kattasmölunar, svo halda megi öndunarvél þessarar heiladauðu stjórnar gangandi.

En eins og áður segir eru teiknin sífellt fleiri sem segja okkur að kosningar séu í bráð. Bjarni hefur gefið í skyn að tími sé fyrir hann að breyta um starf. Vonbiðill og varaformaður flokksins tilkynnti undir lok síðasta árs, að hún væri reiðubúin að taka við keflinu. Það mun ekki verða flokknum til framdráttar en meira skiptir kannski máli að þar með slitna þau bönd sem halda stjórninni saman. Þá hefur, eins og áður segir, nafn Kötu verið sífellt endurtekið á ruv, sem næsti frambjóðandi vinstri elítunnar til Bessastaða.

Hvað sem hver segir þá eru líkur á Alþingiskosningum sífellt að aukast. Hver ástæða stjórnarslita verður mun koma í ljós. Hvort það verður óánægja þingmanna Sjálfstæðisflokks eða brottför annars eða beggja þerra enda er halda í líflínu ríkisstjórnarinnar, skiptir í sjálfu sér ekki máli. Þó er ljóst að afleiðingarnar geta orðið misjafnar fyrir báða þessa flokka, hver ástæðan er. Sjallar munu sannarlega umbuna þeim þingmönnum er standa í lappirnar og sýna að sjálfstæðið er ekki falt fyrir stóla.

Að lokum

Allir sannir unnendur sjálfstæðis Íslands, sameinist um að kjósa Arnar Þór Jónsson til forseta.

 


Viðbrögð ráðherrans

Niðurstaða á skoðun umboðsmanns Alþingis, á því hvernig matvælaráðherra stóð að verkum í upphafi sumars, er húm frestaði hvalveiðum með eins dags fyrirvara, ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart. Bæði lærðir og leikir sáu strax að þar fór ráðherrann hressilega yfir strikið. Braut lög og gætti ekki meðalhófs í ákvörðunum.

Það er hins vegar hvernig ráðherrann tekur á áliti umboðsmanns, sem kemur virkilega á óvart. Þar er ekki neina iðrun að sjá. Talar um að lögin séu gömul og úrelt. Engu að síður eru þau lög í gildi og ber öllum að fara eftir þeim, líka ráðherra.

Hún staglast á þessu í hverjum fréttatímanum af öðrum, að lögin séu úrelt og þeim þurfi að breyta. Að það sé nóg fyrr ráðherra sem brýtur lög að breyta þeim bara eftir brotið, af því þau lög eru ekki henni að skapi. Að þar með sé málið búið!

Hitt atriðið sem umboðsmaður fann að og skiptir kannski mestu máli, ekki síst fyrir það starfsfólk sem missti stórann hluta þeirra tekna sem það taldi sig hafa ráðið sig til, yfir sumartímann, brotið á meðalhófsreglunni. Hvernig ætlar hún að "leiðrétta" það brot sitt? Kannski bara leggja slíkar reglur af? Að koma hér á Stalínísku stjórnkerfi einræðisríkis? Það er ekki að ástæðulausu að talað er um meðalhóf í ákvörðunum ráðherra, eða annarra í stjórnsýslunni. Það er stór hluti þess sem við köllum lýðræði. Að ákvörðun stjórnvalds sé ekki af ætt einræðis, heldur skuli lýðræðisleg gildi ráða.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Svandís Svavarsdóttir, í stól ráðherra, brýtur lög. Hún er orðin nokkuð sjóuð á því sviði. Enda viðbrögð hennar nú, strax nokkuð forhert. Lætur í léttu rúmi liggja þó hún hafi skapað ríkisjóð bótaskyldu upp á háar upphæðir.

Það var undarlegt val hjá formanni VG að velja Svandísi í ríkisstjórn, eftir forsögu hennar á því sviði. Nú, þegar séð er að Svandís hikar ekki við að halda uppi sömu tilburðum og lætur lög ekki þvælast fyrir sér, heldur hvernig henni finnst að lögin eigi að vera, hlýtur formaðurinn að endurskoða veru Svandísar á ráðherrastóli.

Þingflokksformaður Framsóknar er auðvitað efins um hvað skuli gera. Er í algerum stíl við sinn flokk, lætur vindinn einan ráða hver stefnan er. Þorir ekki að taka af skarið. Sjallar eru aftur nokkuð ákveðnari í sinni afstöðu, þ.e. nokkrir þingmenn flokksins, ennþá. Forustan lætur hins vegar ekkert uppi og mun sennilega kyngja stoltinu einu sinni enn. Skoðanakannanir eru ekki hagstæðar til kosninga fyrir flokkinn nú. Því mun sennilega eitthvað fækka þeim röddum þingmanna flokksins sem hafa kjark til að tjá sína skoðun á þessu máli, eins og svo mörgum öðrum.

Auðvitað hefði verið hreinlegast og eðlilegast að matvælaráðherra hefði sagt af sér, strax og niðurstöður umboðsmanns lágu fyrir. Það hefðu verið eðlileg viðbrögð og henni og flokk hennar til framdráttar. En úr því svo var ekki kemur það í hlut formanns VG að taka af skarið. Eða ætlar hún að storka enn frekar örlögum ríkisstjórnarinnar? Þar er vart borð fyrir báru.

 


mbl.is Telur ekki tilefni til að kalla saman þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrumið og kjarkurinn

Í dagbók Björns Bjarnasonar, sem hann hefur til sýnis hér á bloggvef moggans, þann 28. des, gerir hann tilraun til að skýra orðið "lýðskrum".  Nú er það svo að ágætar skýringar eru til á þessu orði, eða öllu fremur hugtaki. H.L Mencken skilgreindi lýðskrumara svo:  "það er maður sem predikar kennisetningar sem hann veit að eru rangar yfir mönnum sem hann veit að eru fávitar".  Á vísindavefnum er þetta hins vegar skilgreint örlítið öðruvísi, eða:  "það er notað um stjórnmálamann sem tekur afstöðu til mála eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs meðal almennings eða aflar sér fylgis með því að beina kröftum sínum að lægstu hvötum kjósenda". 

Báðar eru þessar útskýringar keimlíkar, þó örlítill blægðarmunur sé á. Fyrri og eldri skýringin í þeim tíðaranda er ríkti áður fyrr, er stjórnmál voru mun lokaðri en í dag og fréttaöflun almennings bundin við prentmiðla, sem aftur voru gjarnan á höndum stjórnmálaflokka. Síðar greiningin er aftur kunnuglegri, enda vart sá stjórnmálamaður til sem ekki fellur undir hana. Það sést best á störfum Alþingis. Þegar eitthvað málefni kemur upp á götunni fara þingmenn á kostum í ræðuhöldum og kenna þá gjarnan andstæðingnum um. Ekki dettur nokkrum í huga að bíða eftir niðurstöðu rannsóknar eða dóms ef svo vill. Þegar svo í ljós kemur að upphlaupið var ástæðulaust, eða jafnvel skaðlegt fyrir sárasaklaust fólk, dettur ekki neinum ræðumanni Alþingis að biðjast afsökunar.

Skilgreining Björns Bjarnasonar er hins vegar nokkuð önnur á orðinu "lýðskrum". Í grein sinni tiltekur hann þrjá menn, sem dæmi um lýðskrumara. Einn erlendan sem kosinn var af meirihluta þjóðar sinnar til að stjórna landi þeirra og tvo íslenska menn sem hafa haldið uppi mikilli umræðu um vörð sjálfstæðis okkar og að vald yfir auðlindum landsins verði ekki ofurselt erlendum aðilum. Hans skilgreining á "lýðskrumi" er að hver sá maður er vill standa vörð um sjálfstæði þjóðar sinnar og vill að valdið sé okkar í sem flestum málum, einkum auðlindamálum, sé lýðskrumari. Að hver sá er setur spurningamerki við að völd séu sífellt meira færð yfir til erlendra afla sé lýðskrumari.

Samkvæmt þessari skilgreiningu Björns er ég lýðskrumari. Gott og vel, ég get vel borið þann titil fyrir Björn, ef það er honum einhver hugarró. Hef svo sem verið kallaður verri nöfnum fyrir mín skrif. Sjálfur tel ég það merki um kjark að þora að tjá sig gegn almenningsáliti, tel það kjark að reyna af litlum mætti að verja sjálfstæðið okkar og kalla það kjark að spyrja áleitinna spurninga.

Ef menn, sem skilgreina lýðskrum á sama hátt og BB gerir, hefðu verið ráðandi á seinnihluta nítjándu aldar og fyrri helming þeirrar tuttugustu, værum við enn undir stjórn Dana. Þeir kjarkmenn sem stóðu harðast að því að landið fengi sjálfstæði frá Dönum hefðu þó sennilega seint tekið inn kjarkleysinga í sinn hóp. Ekki hefði slíkum mönnum heldur verið boðið til stofnfundar Sjálfstæðisflokksins, þó allt mori af þeim þar í dag. Og ekki hefði kjarkleysi dugað til að stækka landhelgina, eða halda úti stríði gegn stórhernaðarveldi til að tryggja það, í þrígang. Saga okkar, allt frá landnámi, er full af kjarkmiklum einstaklingum sem hafa drifið fjöldann með sér og komið á bótum.

Samkvæmt skilningi Björns Bjarnasonar voru þeir þó einungis lýðskrumarar.

Reyndar má segja að lokaorð Björns í viðhengdri grein séu einmitt skýrt dæmi um lýðskrum, þar sem hann kastar fram fullyrðingu án skýringar.

 


Undarlegur málflutningur forstjórans

Það er undarlegur málflutningur forstjóra Landsvirkjunar. Talar um leka milli raforkukerfa.

Alþingi samþykkti, illu heilli, að gerast aðili að orkustefnu ESB. Þetta var gert með samþykkt þriggja  svokallaðra orkupakka, þ.e. safn laga og reglna sem sambandið setur upp, og í raun er farið að vinna samkvæmt orkupakka 4 hér á landi, þó Alþingi hafi ekki fengið að ræða þann pakka eða samþykkja.

Orkustefna ESB byggir á frjálsum viðskiptum með orku og frjálsu flæði hennar yfir landamæri. Við samþykkt op1, árið 2003, var Alþingi í raun að samþykkja að hér skyldi einnig gilda frelsi á markaði um orku. Fyrstu kynni almennings af þessu "frelsi" var að orkureikningum fjölgaði, þar sem op1 krafðist þess að skilið skyldi á milli framleiðslu, flutnings og sölu orkunnar. Þar með var lagður grunnur að frelsi með sölu orkunnar okkar, ekki bara hér innanland, heldur einnig milli landa. Enn er þó ekki komin tenging á okkar raforkukerfi til annarra landa, sem betur fer, þannig að í  raun er þetta frelsi einungis um sölu hér á landi.

Þetta segir að ekki megi gera skil á milli notkunar heimila og stóriðjunnar. Frelsið um söluna er ekki og má ekki vera með neinum höftum. Ef útlit er fyrir skort ber framleiðendum að framleiða meira og ef flutningur kerfisins er ekki nægur ber að bæta það. Og ef einhver vill leggja héðan raforkustreng til annarra landa, til að flytja orkuna okkar úr landi, ber Alþingi að samþykkja þá bón. Þessi atriði öll voru kyrfilega áréttuð í op3.

Þetta veit forstjórinn, en samt velur hann að koma fram með einhvern bull málflutning, eitthvað moð. Ekki er ástandið betra á löggjafasamkundunni okkar. Þar liggur fyrir frumvarp stjórnvalda sem mun sannarlega brjóta í bága við orkustefnu ESB, sem sama samkunda samþykkti fyrir hönd landsmanna fyrir rétt rúmum tuttugu árum síðan!

Ef það er vilji forstjórans og ef það er vilji Alþingis, að heimili landsins fá forgang að orkunni okkar er ekki nema eitt í stöðunni. Reyndar mjög einfalt að fara þá leið. Það er að segja upp samstarfi um orkumál við ESB, gegnum EES samninginn. Þannig fær ríkið aftur yfirráð um hvernig orkunni skuli ráðstafað og þannig fær forstjórinn aftur afsökun fyrir því að slugsast við að framleiða næga orku fyrir landið. Eins og staðan er í dag er víst að öll viðleitni til að stjórna því hver fær orkuna okkar til afnota, mun lenda fyrir dómstólum og ríkið mun tapa því máli. Slíkt verður ekki liðið meðan við höldum okkur við að láta stofnanir undir ESB stjórna markaðnum hér.

Grundvallarstefna ESB, sem við höfum tengt okkur við gegnum EES samninginn er fullt frelsi með sölu orkunnar. Þar skal markaðurinn einn ráða.

Er ekki komið nóg? Er ekki kominn tími til að vakna?


mbl.is Varar við leka á milli orkumarkaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bjarga náttúrunni með því að fórna henni

Nú er svo komið að stjórnvöld eru að fara að fórna enn frekar auðlindum okkar. Til stendur að hleypa inn í landið erlendum auðjöfrum, til að virkja vindinn. Auðvitað var vitað að svo myndi fara, sumir ráðherrar hafa af því beinan hag en aðrir eru svo auðtrúa að þeir halda að þeir séu að bjarga jörðinni frá steikingu. Það má segja að þeir ráðherrar sem hafa persónulegan hag af þeim áformum lýsi einungis innræti þeirra, að sú hugsun að hver sé sjálfum sér næstur sé þeirra mottó. En það er önnur saga, saga sem ekki er við hæfi að aumur bloggari sé að skrifa um. Þar gætu svokallaðir rannsóknarblaðamenn komist í feitt, ef þeir nenna. En kannski hugsa þeir frekar um ríkisstyrkinn, að hann sé þeim mikilvægari en sannleikurinn.

Hitt er öllu verra þegar æðstu menn þjóðarinnar telja sig vera að bæta heiminn með því að gera hann verri. Að þeir telji að stórmengandi vindorkuver, í okkar tæru náttúru, muni skipta þar sköpum. Við erum komin á hættulega braut þegar svo er komið og víst að þá á sjálfstæðið ekki langa lífdaga eftir. En þar er auðvitað engum um að kenna nema okkur kjósendum. Við höfum valið, stjórnmálamenn eru í vinnu hjá okkur en ekki öfugt. Það var vel vitað hvert stefndi fyrir síðustu kosningar, atkvæðin um innleiðingu op3 gat sagt okkur hverja við ættum ekki að kjósa. Þó fór það svo að flest atkvæðin fóru til þeirra sem að þeim gjörningi stóð. Sá á kvölina sem á völina.

Ég hef ritað mörg blogg um vindorkuver og vindtúrbínur og ætla ekki að gera það nú. Hins vegar ætla ég aðeins að rita um veðurfar. Það er nefnilega svo að þegar kólnar á jarðkringlunni þá kólnar í veðri og ef hlýnar þá hlýnar einnig í veðri. Þetta er eitt af því sem flestir geta verið sammála um. Og vissulega hefur hlýnað nokkuð frá lokum litlu ísaldar, þó enn sé nokkuð í að hitastig jarðar ná því sem hæst hefur orðið, frá lokum síðustu ísaldar, fyrir um 11 - 12 þúsund árum síðan. Reynda erum við enn á ísaldartímabili í jarðsögulegu tilliti, en það er önnur saga.

Ætíð þegar hlýnar á jörðinni hafa framfarir og framþróun orðið. Þegar aftur kólnar verður síðan afturkippur, stundum verulegur eins og á sjöttu og sjöundu öld og svo aftur 13. til 18. öld. Einhvern veginn hefur manninum tekist að komast gegnum þessar sveiflur á veðurfarinu, lifði jafnvel af síðustu ísöld, þó tæpt hafi verið. Sagan segir okkur það að erfiðustu tímabil mannsins, á þeim stutta tíma sem hann hefur gist jörðina, eru kuldatímabilin. Kuldinn er okkur mun verri en hlýindi. Undir lok litlu ísaldar og eftirhreytum hennar, var vart orðið lífvænt hér á landi. Þó er vitað að akuryrkja var stunduð hér í stórum stíl fyrst eftir landnám, á mun stærra svæði landsins en nú telst hagkvæmt að yrkja jörðina til korns.

Það er ekki hitinn sem drepur fólk heldur kuldinn. Um miðjan áttunda áratug síðustu aldar voru kuldar nokkuð miklir. Svo miklir að vísindamenn töldu að jörðin stefndi í ísöld. Þá voru allir fréttamiðlar fullir af fréttum af fólki sem lést vegna kulda, Nú eru einungis færðar fréttir af þeim örfáu sálum er látast að hita á hverju ári. Jafnvel gert meira úr þeim fréttum en tilefni er til. Ekki eru fluttar fréttir að andlátum vegna kulda, þó vitað sé að þau eru mun fleiri.

Í sumar er leið var frekar lítið um hitabylgjur á jörðinni. Þó voru fréttastofur nokkuð duglegar við að tala um tilvonandi hitabylgjur, en síðan lítið meira. Þó var eitthvað í fréttum um mikla hitabylgju í Peking, en hún stóð víst ekki nema í tvo daga. Sumarið núna á suðurhvelinu hefur sjaldan verið kaldara. Nú er hins vegar búið að vera mikill kuldi í Peking og reyndar um gjörvalla austur Asíu. Lítið hefur heyrst frá því í fréttum ekki frekar en miklum kuldum um norðanverð Bandaríkin og Kanada. Eina sem heyrst hefur er að þessir kuldar stafi af hlýnun jarðar. Er hlýnunin þá vegna kulda?

Forsætisráðherra okkar ætlar þó að kippa þessu í liðinn. Nú skulu þessar sveiflur í veðurfar stöðvaðar, hvað sem hver segir. Ekki er þó vitað hver kjörhiti jarðar er og því ekki hægt að segja til um hvert markmiðið eigi að vera né hvernig því skuli náð. Það virðist vera sama hversu margar ferðir erlendis hún flýgur, í nafni kolefnisleysis, henni hefur ekki tekist að finna svarið. Samkvæmt hennar orðum erum við þó farin að steikja jörðina, sem er auðvitað slæmt.

En þetta er ekkert grín. Það hefur hlýnað, um það þarf ekki að rífast. Hvort sú hlýnun heldur áfram eða hvort kólnar aftur er auðvitað ekki vitað. Við skulum vona að ekki kólni aftur. Það er enn fullt af fólki sem man hvernig vetur voru hér á sjöunda, áttund og fram á níunda ártug síðustu aldar og fæstir vilja fá slíkt veðurfar aftur. Þó var það kuldaskeið einungis hálfdrættingur á við þá kulda sem voru þegar fyrstu alvöru mælingar hófust, seinnihluta nítjándu aldar og fyrsta áratug þeirrar tuttugustu. Þegar hafís var hér landlægur á hverjum vetri og sum sumur. Þegar hafís umlukti allt landið og hægt var að ganga milli Akraness og Reykjavíkur á ís. Þannig veðurfar er notað sem viðmið um hvort hlýnað hefur á jörðinni og það verður bara að segjast eins og er að til allrar guðs blessunar gerðist það. Verra hefði verið ef farið hefði á hinn veginn.

FB_IMG_1693328424957En forsætisráðherra vill frekar kulda en hlýindi. Og hún telur sig vera megnuga til að ráða því. Í því skyni ætlar hún að fórna íslenskri náttúru. Hún skilur ekki plottið. Henni til fróðleiks þá er útilokað að bjarga náttúrunni með því að fórna henni. Slík hugsun er ekki bara galin, heldur svo fjarstæðukennd að hvert hugsandi mannsbarn ætti að sjá það. Vindorkuver er slík fórn á náttúrunni að engu tali tekur. Þegar lögð eru að jöfnu kolaorkuver við vindorkuver hefur kolaorkuverið vinning að öllu leyti nema einu, co2. Og rörsýn stjórnmálamanna telur enga aðra mengun skipta máli, jafnvel þó vitað sé að co2 er eitt af lífskilyrðum jarðar. Á mesta gróðurtímabili jarðar var magn co2 í andrúmslofti margfalt á við það sem nú er, enda er garðyrkja vart talin möguleg hér á landi nema með því að dæla því loftefni inn í gróðurhús.

Í öllu falli þá verður náttúrunni ekki bjargað með því að fórna henni.

 


Íslensk orkustefna eða orkustefna ESB

Landsvirkjun var stofnuð um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. í tengslum við stórhuga áform um rafvæðingu landsins. Til að svo mætti verða, þurfti stórann kaupanda sem keypti jafna og mikla orku. Þannig kom stóriðjan til landsins. Við stofnun Landsvirkjunar var búin til stefna um fyrirtækið, samhliða orkustefnu fyrir Ísland, stefnu sem gilti allt til ársins 2003, er breytingar urðu á. Í stuttu máli var sú stefna um að hér skildi ávallt almenni markaðurinn vera í forskoti orkunnar og þegar fram liðu stundir átti orka til almenning að endurspegla kostnað við framleiðsluna. Þ.e. að eftir því sem Landsvirkjun tækist að greiða niður sínar skuldir og eflast, ætti orka til almennings að lækka.

En svo kom EES til sögunar. Sá samningur var mjög gagnrýndur af mörgum en þó náðist samkomulag minnsta mögulega meirihluta á Alþingi til samþykktar hans. Einkum fyrir þau loforð að hér yrði aldrei látið af hendi helstu auðlindir okkar og aldrei skildi samþykkja nokkra þá reglugerð eða nokkur þau lög sem gengju nærri stjórnarskránni. Þetta breyttist fljótt og nú svo komið að svokallaðir "háttvirtir þingmenn" sjaldan með stjórnarskrá í huga, hvað þá auð landsins.

Sjö árum eftir að Alþingi hafði samþykkt aðild að EES samningnum kom fyrsti orkupakki ESB til samþykktar. Fjórum árum síðar var hann samþykktur af Alþingi, eða árið 2003. Þar með var búið að afsala sjálfstæði þjóðarinnar yfir einni helstu auðlind hennar, orkuauðlindinni.

Fyrsti orkupakkinn var grundvallar breyting fyrir land og þjóð í orkumálum. Hann gerði að engu þá stefnu sem mörkuð hafði verið við stofnun Landsvirkjunar, orkustefnu landsins. Eitthvað merkasta plagg sem Alþingi hefur samþykkt og sýndi stórhug samfara rétt þjóðarinnar til nýtingar auðlinda sinna á sem bestan og hagkvæmasta hátt hátt, ásamt því að tryggja þjóðinni sjálfri ódýra og trygga orku. Nú skildi markaðslögmálið ráða. Orkumál Íslands skyldu nú hlíta reglum EES svæðisins og innri markaði ESB. Það fyrsta sem við landsmenn fengum að kynnast var fjölgun reikninga vegna orkunnar sem við keyptum. Samkvæmt 1. pakkanum skildi aðgreind framleiðsla, flutningur og sala orkunnar. Íslenskri orkustefnu var skipt út fyrir orkustefnu ESB! Grunnurinn undir einkavæðinguna var lagður!

Annar orkupakkinn var um flutning á raforku milli landa, þvert yfir landamæri. Þarna tókst að skilgreina Ísland sem "einangraðan og lokaðan markað". Því má segja að orkupakki 2 hafi í raun haft lítil áhrif hér á landi en viss sigur að ná fram þeirri skilgreiningu að við værum í raun utan þessa kerfis.

Síðan kemur orkupakki 3. Þá sögu ættu flestir að þekkja. Mjög mikil andstaða var við þann pakka á Alþingi, þó í raun einungis einn stjórnmálaflokkur hafi staðið þar vörð þjóðarinnar. Flestir aðrir stjórnmálaflokkar létu sér þetta í léttu rúmi liggja, eða réttara sagt fulltrúar þeirra á Alþingi. Enginn efi er að ef allir þingmenn hefðu kosið samkvæmt stefnu sinna stjórnmálaflokka í því máli, hefði op3 verið kolfelldur á þingi. En þingmenn kusu heldur að fara gegn stefnu sinna flokka, fara gegn þjóðinni. Þessi orkupakki var alger grundvallar breyting á orkustefnu ESB og EES. Stofnun sérstakrar stofnunar, ACER, er skildi sjá um að allir færu eftir þessari sameiginlegu orkustefnu ESB. Flutningur orku milli landa var sett alfarið í hendur þeirrar stofnunar. Svo má ekki gleyma því sem þáverandi utanríkisáðherra taldi svo ofboðslega nauðsynlegt, aukinn aðskilnað framleiðslu, flutning og sölu orkunnar, fyrst og fremst með aukinni markaðsvæðingu. Það sem þó var verst fyrir okkur landsmenn var að með samþykkt orkupakka 3 var afsalað þeirri skilgreiningu sem orkupakki 2 hafði tryggt okkur, að við værum lokaður og einangraður markaður. Þar með vorum við búin að missa endanleg ráð yfir orkunni okkar.

Orkupakki 4 hefur ekki enn verið samþykktur af Alþingi, enda svo sem engin þörf á Því. Þar sem sá orkupakki hafði þegar tekið gildi innan ESB er við samþykktum orkupakka 3, má segja að Alþingi hafi í raun verið að samþykkja orkupakka 4. Enda er orkustefna ESB samkvæmt orkupakka 4 og allar tilskipanir og gerðir sambandsins um orkumál samkvæmt honum. ACER starfar samkvæmt þeim orkupakka einnig.

Smá innsýn í þann pakka. Aukin völd ACER, tilskipun um orkunýtingu, tilskipun um græna orku, reglugerð um innri markað aukin, reglugerð um loftlagsgæði, stofnun eftirlitsstofnunar um samvinnu innan orkusambandsins og margt fleira. Nokkuð þekkileg orð, þegar horft er til umræðunni sem stjórnvöld viðhafa þessi misserin. Eru greinilega búin að samþykkja orkupakka 4, þó Alþingi hafi ekki fengið um það neitt að segja.

Og nú kemur fram frumvarp frá orkumálaráðherra, rétt eins og skrattinn úr sauðaleggnum, um að tryggja heimilum landsins trygga orku. Erum við þá ekki komin í hring? Hefði þá ekki berið betra að sleppa því að samþykkja orkupakka 3 og halda inni þeirri skilgreiningu að Ísland væri lokaður og einangraður orkumarkaður? Eða það sem hefði verið allra best, að sleppa því alfarið að ganga inn í orkukerfi ESB, strax í upphafi? Þá hefðum við haldið okkar framsýnu orkustefnu, er mörkuð var um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Að betra hefði verið heima setið en af stað farið. Þá hefði ekki þurft að taka dýrmætan tíma ráðherrans til að semja frumvarp um sama efni, frumvarp sem, ef að lögum verður, mun verða lögleysa samtímis því að bókun 35 við EES samninginn hefur fengið samþykki Alþingis og reyndar vandséð að muni halda samkvæmt orkustefnu ESB! Reyndar fyrirséð, eins og fram hefur komið í fréttum, að látið verður reyna á þessa lagasmíð Gulla fyrir dómstólum. Þá mun reyna á hvort ACER eða þessi nýja eftirlitsstofnun ESB muni láta til sín taka.

Þessi lagasmíð Gulla, hver svo sem raunverulegur höfundur þess er, enda skiptir það minnsta máli, eru ólög. Ekki að innihaldið sé slæmt, heldur hitt að með afsali okkar yfir orkuauðlindinn ráðum við bara ekki lengur hver fær orkuna okkar. Alþingi hefur samþykkt að þar skuli markaður ráða og samkvæmt því eru þeir sem kaupa forgangsorku alltaf í forgangi. Veit ekki til að heimilin borgi fyrir forgangsorku, enda sennilega erfitt að halda nýtingu á þeim stöðugri og jafnri.

Þeir sem muna þá umræðu er var í samfélaginu fyrir samþykkt orkupakka 1 og ekki síður orkupakka 3, muna að við þessu var varað. Háværar varnaðarraddir voru um hvert stefndi, hverjar afleiðingar þess væru að ganga inn í orkustefnu ESB og auka þá samvinnu enn frekar. En ekki var hlustað.

Maður veltir nokkuð fyrir sér, þar sem áhugamál Gulla liggja mun frekar að því að hér rísi vindorkuver og það sem flest, en því hvernig heimilum landsins gengur, hvort þetta frumvarp sé til þess eins að slá ryki í augu fólks. Hann veit alveg að ACER mun ekki líða slík inngrip í orkumarkaðinn sem frumvarpið gerir. Hann veit einnig að eftir samþykki bókunar 35 við EES samninginn, munu þessi lög að engu verða. Samt heldur hann áfram með málið. Hver er ástæðan?

Í síðasta pistli mínum spurði ég hvort Gulli væri endanlega búinn að tapa sér og endaði hann á því hvort einhverju hefði verið að tapa. Þetta frumvarp hans nú ber ekki merki um að mikið vit sé í kolli hans og enn síður verður sagt um hans getu til að hugsa þegar orð hans um vindorkuna eru lesin. Þar leggur hann að jöfnu smá mannvirki við risastórar vindmillur og segir heilu sveitirnar svo illa farnar af veru stóriðju innan þeirra, að engu máli skipti þó þær séu fylltar af slíkum ófreskjum sem vindtúrbínur eru.

Er Gulli svona vitlaus eða er þetta eitthvað herbragð hjá honum? Er hann að spila með þjóðina, lofa henni tryggri orku, hvort sem hægt er að framkvæma það eða ekki, til þess eins að færa umræðuna örlítið frá sínu helsta hugðarefni, vindorkuáætlunum erlendra auðmanna. Hann hefur vissulega persónulegan hag af þeim áformum, rétt eins og sumir aðrir í ríkisstjórn.

Það er ekki undarlegt að sá flokkur sem lengst af hefur verið kallaður móðurflokkur íslenskra stjórnmála, sé að þurrkast út af þingi. Það er tap fyrir þjóðina. En meðan flokkurinn sjálfur getur ekki valið sér betri forystu er stefnan á einn veg, niðurávið þar til ekkert er eftir!


mbl.is Frumvarpið ekki samið á skrifstofu Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Gulli nú endanlega búinn að tapa sér

Í dag kynnti Gulli pantaða skýrslu um nýtingu vindorku á Íslandi. Niðurstaðan kemur ekki á óvart, það sem kemur verulega á óvart er hversu skýrsluhöfundar virðast þekkja lítið til málefnisins.

Í einföldu máli eru tillögur skýrsluhöfunda þessar: 

Vindorkuver eiga að vera undir rammaáætlun, nema einhver vilji virkja utan rammans. Þá skal sá kostur "tekinn útfyrir rammaáætlun". Þetta segir að hér skal tekið upp villta vestrið í vindorkuframleiðslu. 

Vind skal frekar virkja þar sem landi hefur verið raskað. Þarna er í raun opnað á allt landið. Vissulega er það svo að sumir telja sig vera komna upp í óbyggðir þegar farið upp fyrir Ártúnsbrekkuna, en þeim til fróðleiks er blómleg byggð hringinn kringum landið. 

Skýrsluhöfundar gera mikið úr því að nærsamfélagið fái notið ávaxta vindorkunnar. Kannski þeir hafi lært þetta orðfæri út í Noregi, þar sem gjarnan heyrast slík loforð til að fá byggingaleyfi fyrir vindorkuver. Minna fer fyrir efndum, enda fráleitt að einhver arður myndist við virkjun vinds. Flest eða öll slík orkuver erlendis lifa á styrkjum þjóðríkja. Þó berjast þau í bökkum.

Ekkert er tekið á allri þeirri mengun sem vindorkuver láta frá sér. Reyndar reynt að gera lítið úr sjónmenguninni með ofangreindri tillögu um að reisa slík orkuver þar sem landi hefur verið raskað, sem aftur gefur skotleyfi á allt landið. Ekkert rætt um aðra mengun, s.s. gífurlegt magn örplastmengunar, SF6 gasmengun og olíumengun í jarðveg frá vindtúrbínum. Ekki er heldur lagt til að vernda svæði fugla, eins og arnarins, fálkans, rjúpunnar og þess fjölda farfugla er hingað kom eða hafa hér viðkomu. Þar er í raun allt landið undir.

En Gulli vill virkja, eðlilega. Hann á ágætis land undir eins og eitt vindorkuver. Kollegi hans í ríkisstjórn, Ási Daða. er heldur lengra kominn. Hann er tilbúinn að reisa vindmillur, hefur þegar útvegað öll tilskilin leyfi sveitarstjórnar í sinni heimabyggð. 

Það voru hins vegar ummæli Gulla, í kynningu á kvöldfréttum rúv sem urðu ástæða þessa pistils. Þar grípur hann áðurnefnda tillögu um hvar æskilegast sé að byggja vindorkuver og nefnir svæði þar sem háspennulínur liggja. Að lítil röskun yrði af því, þar sem háspennumöstur væru þegar til staðar. Honum til upplýsingar þá er hæstu línumöstur um 50 metrar á hæð og þykir mörgum nóg um. Vindtúrbínur eru hins vegar nokkuð hærri, eða fimm sinnum hærri. Það segir þó ekki alla söguna, því hagkvæmni vindtúrbína liggur í stærðinni, því stærri, því minna tap á rekstrinum. Nú er farið að framleiða vindtúrbínur sem eru 350 metra háar og farið að hanna slík tól sem ná upp í 450 metra hæð. Má því ætla að nýjustu og hagkvæmustu vindtúrbínurnar verð reistar hér, þegar brjálæðið hefst. Hæsta mannvirki á Íslandi er mastrið á Gufuskálum, 412 metrar á hæð og það snýst ekki. Hæstu byggingar eru turninn við Smáratorg og Hallgrímskirkja, vel innanvið 80 metrar á hæð.

Þegar ráðherra leggur að jöfnu línumastur sem er að hámarki 50 metra hátt við vindtúrbínu sem er frá 250 metrum á hæð og uppúr, með spaðahafi um eða yfir 200 metrum, spöðum sem snúast þegar vind hreyfir. Þá vissulega spyr maður hvort viðkomandi ráðherra sé endanlega búinn að tapa glórunni, eða var kannski engu að tapa?


mbl.is Nærsamfélög hafi endanlegt ákvörðunarvald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband