Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þjóðin ber vissulega skaðann

Fyrir það fyrsta þá er vindorka, með þeirri tækni sem til er í dag, fjarri því að teljast "græn orka". Er mjög mengandi, bæði sjónrænt en ekki síður fyrir umhverfið. Af því mun þjóðin bera skaða!

Það er hins vegar alvarlegt þegar ráðherra hefur í hótunum, vegna þess að lögin eru honum ekki þóknanleg. Það er mjög alvarlegt mál.

Við lifum enn í lýðræðisríki og því fylgir að hver sem telur á sér brotið, eða brotið á þeim hagsmunum sem þeir vinna fyrir, geti leitað til dómstóla, þegar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur á öllum stigum málsins mótmælt áformum um vindorkuver Landsvirkjunar. Á þau mótmæli hefur ekki verið hlustað né reynt að bera klæði á deiluna. Ætt áfram eins og naut í flagi. Því var einungis eitt eftir í stöðunni, að kæra.

Náttúruverndarsamtök vöknuðu loks til lífsins um skaðsemi vindorkunnar. Þaðan hafa komið athugasemdir við skipulagstillögur vindorkuvera. Enn er ekki hlustað og því síðasta hálmstráið að kæra framkvæmdina.

Allra alvarlegast er þó að enn er Alþingi ekki búið að samþykkja nein lög um hvort eða hvernig staðið skuli að vindorkumálum hér á landi. Því er ekki hægt að segja hvort farið sé að lögum við þessi áform, eða ekki. Á meðan er fráleitt að gefa leyfi til framkvæmda.

Kærurnar snúa því ekki að því hvort lög um byggingu vindorkuvera hafi verið brotin, heldur að vernd náttúrunnar. Að ráðherra skuli ætla að breyta lögum svo auðvelda megi spillingu hennar er háalvarlegt mál.

Slíkur ráðherra er sannarlega skaðlegur fyrir þjóðina og okkar fagra land!

Það er ekki hægt að bjarga náttúrunni með því að fórna henni.


mbl.is „Þjóðin ber skaðann af þessari framgöngu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lægra verður vart komist

Hvert eru stjórnvöld að leiða þjóðina?

Þegar ríkissjóður er rekin með lánum er lofað stórkostlegum upphæðum til framkvæmda sem ekki er séð fyrir hvað muni að endingu kosta og enn síður hver síðan rekstrakostnaðurinn verður. Alls hefur verið gefið loforð fyrir 311 milljörðum til gæluverkefnis á höfuðborgarsvæðinu. Hægt hefði verið að leysa þann vanda með mun ódýrari lausnum og að auki mun hraðar. Þegar loforðið um 311 milljarðana var gefið var jafnfram tekið fram að þetta yrði ekki endanleg upphæð, hún muni hækka. Hversu mikið veit enginn.

Svo virðist sem ráðamenn kikni í hnjánum ef einhver kemur með hugmyndir til bjargar heiminum. Því fáránlegri, því betri í eyrum ráðamanna. Nýlega trosnaði upp slík svikamilla er snerist um að flytja hingað tréflís frá vesturheimi og sigla með hana hálfa leið aftur til baka og sturta í sjóinn. Kannski ekki stórar upphæðir sem Íslendingar lögðu fram í því rugli, en ríkis- og sveitastjórnir gerðu allt til að styrkja þetta fráleita verkefni. Jafnvel svo að þegar eftirlitsstofnanir, sem lögum samkvæmt áttu að fylgjast með verkefninu gerðu athugasemdir, tók ráðherra fram fyrir hendur þeirra og beitti ráðherra valdi gegn þeirri stofnun. Sá ráðherra vermir nú forsætisráðherrastólinn.  Þó fjárhagslegt tap okkar hafi kannski ekki verið stórt, varð trúveruleiki okkar á alþjóðavelli vart bættur.

Og nú á að fara að dæla niður co2 ´jörð undir Hafnafjörð. Til þess skal notað vatn af þeirri stærðargráðu sem erfitt er að gera sér í hugarlund. Á hverju ári magni sem nemur 7,5 metum ofaná Hafnafjarðarbæ og það skal gert í a.m.k. 30 ár. Aðstandendur þessa verkefnis segja þetta engin áhrif hafa á landið. Fyrir það fyrsta er vatn auðlind sem er takmörkuð um heiminn, þó við getum enn stært okkur af gnótt hennar. Að taka 75000 m3 af þeirri auðlind á ári, í 30 ár og dæla niður í jörðina er hrein og klár sóun, svo ekki sé meira sagt. Hitt er aftur öllu verra en það er hvaða áhrif slíkt magn hefur á jarðskorpuna. Að halda því fram að allt þetta magn af vatni, sem dælt er niður í berglögin, hafi engin áhrif á jarðskorpuna er í besta falli barnalegt. Þvílíku magni af vatni hefur aldrei verið dælt niður í berglögin, hvorki hér á landi né annarsstaðar. Þetta er því tilraunaverkefni og því útilokað að hægt sé að fullyrða um áhrif þess.

Nú er talað um að leggja nýjan gagnastreng til vesturheims, svo hægt verði að setja hér upp fleiri gagnaver. Þetta er ákveðið á sama tíma og okkur er talin trú um að orkan í landinu sé af skornum skammti. Gagnaver nærist eingöngu á raforku. Fá störf eru tengd þeirri starfsemi og afraksturinn fluttur beint úr landi, Skilja ekkert eftir sig. Eftir þessu hlaupa ráðamenn okkar, í stað þess að leitast til að nýta orkuna okkar til einhverrar verðmætasköpunar fyrir tómann ríkissjóð.

Raforka er eitthvað sem við getum stært okkur af. Hrein og tær orka, þar til orkuverin selja hreinleikann úr landi. Kringum þá vitleysu hefur orðið til heljarinnar batterí, ekki bara hreinleika orkunnar okkar, heldur hvað það sem hægt er að telja mönnum trú um að sé seljanlegur hreinleiki. Hvort heldur það kemur frá trjám eða einhverju öðru. Nú er ESB að rannsaka Kínverja fyrir blekkingaleik í þessum málum. Það gæti reynst örðugt, þar sem allt málið er einn blekkingaleikur. Það á kannski ekki hvað síst við um sölu okkar á hreinleika orkunnar til annarra landa, af þeirri einföldu ástæðu að útilokað er fyrir okkur að afhenda okkar hreina rafmagn til þeirra kaupenda. Spurning hvort ESB fari ekki að skoða þetta skjalafals eitthvað nánar.

Um vindorku hef ég skrifað oftar en mig langar til. Vildi gjarnan að sá kaleikur yrði tekinn frá mér. Það mun þó ekki gerst fyrr en slík orkuframleiðsla fær bann hér á landi. Því miður mun skaðinn þá verða skeður. Hvergi í heiminum er hægt að reka vindorkuver með hagnaði, jafnvel þó orkuverð sé margfalt hærra en hér á landi og vinnslan ríkisstyrkt með háum upphæðum. Samt vilja ráðamenn hér fara í þetta feigðarflan. Í stað þess að draga lærdóm af mistökum annarra ætla þeir freka að fylgja þeim í forarpyttinn. Nú er svo komið að flest vindorkuver sem enn lifa erlendis hafa stöðvað tímabundið eða alveg frekari stækkanir. Þar kemur einkum til hinn ævintýralegi kostnaður við þá orkuöflun. Auðvitað mun koma að þeim tímapunkti hér líka, að enginn vilji reisa hér vindorkuver, jafnvel þó ráðamenn kjósi svo. En þá verður skaðinn skeður, bara spurning hversu stór.

Landsvirkjun er komin með öll leyfi til að byggja fyrsta vindorkuverið á Íslandi. Reyndar liggur fyrir kæra á það verkefni, en Landsvirkjun hundsar hana. Þar með verður búið að stór skaða innganginn okkar að hálendinu, Sprengisandsleið og leiðinni inn á Fjallabak. Um þennan inngang fer fjöldi ferðamanna á ári hverju og ekki víst að upplifun þeirra verði jafn skemmtileg eftir að vindorkuverið rís. Annað vindorkuver er komið á lokasprettinn. Það er í landi eiginkonu barnamálaráðherrans og tengdaföður hennar. Vonandi mun vindorkuver Landsvirkjunar verða nægt til að augu almennings, en þó mun fremur augu ráðamanna opnist og það verði látið þar við sitja. Að skaðinn verði einungis bundinn við það svæði. Stór skaði en kannski óhjákvæmilegur úr því sem komið er.

Við erum fámenn þjóð í tiltölulega stóru landi, einangruðu frá stórveldum meginlandanna. Við eigum gnótt af auðlindum, Tært vatn, heitt vatn, fiskinn í sjónum umhverfis landið og síðast en alls ekki síst, fegurð landsins okkar. Þessar auðlindir ber okkur að verja og skila til afkomenda okkar.

Að nýta auðlindir er auðvitað nauðsynlegt. En það á þá ætið að gera á þann hátt að land og þjóð fái notið ávaxtanna. Okkur er talin trú um að orkuskortur sé í landinu. Má vera, en af hvaða orsökum? Skortur á orku verður auðvitað til þegar meira er selt en hægt er að framleiða. Þá vaknar sú spurning hvort verið er að selja orkuna til aðila sem litlu eða engu skila í þjóðarbúið, t.d. ganavera. Enn eigum við kosti til að auka orkuframleiðslu með vatnsafli og hitaorku. Þær aðferðir raska vissulega náttúrunni okkar en þó ekki nema brot að þeim skaða er vindorkan veldur. Og þar sem orkuauðlindin, eins og allar auðlindir, er takmörkuð, ber okkur skilda til að hugsa fyrst og fremst um framleiðslu hennar til arðbærra verkefna, verkefna sem skila aur í ríkissjóð. Þar erum við íbúar landsins auðvitað efstir á blaði og síðan fyrirtækin sem skaffa okkur vinnu og þjóðarbúinu tekjur. Aðrir eiga ekki að eiga aðgang að auðlindum okkar.

En ráðmenn okkar hugsa ekki svona. Þeim er skít sama um þjóðina. Mestu skiptir að koma vel fram á alþjóðavelli, eins og við séum eitthvert afl í umheiminum. Þvílíkur brandari. Ísland mun aldrei skipta neinu máli í heimspólitíkinni. Eigum nóg með okkur sjálf. Allar þær aðgerðir sem stjórnvöld vilja leggja peninga í. peninga sem þarf að taka að láni, skipta akkúrat engu máli, hvort heldur er til bjargar jörðinni frá stiknun, eins og fyrrum forsætisráðherra sagði á erlendri grundu, né til að afstýra einhverjum skærum eða styrjöldum milli annarra landa. Það er til lítils að aka um á rafbíl meðan farnar eru margar ferðir með flugi til útlanda. Það telst hræsni. Það dugir lítið að gleypa hvaða vitleysu sem er til að sporna gegn losun co2 í andrúmsloftið en versla sem vitfirringur vörur frá Kína, sem byggir hvert kolaorkuverið af öðru.

Ekki má gleyma þeirri staðreynd að mitt í þessu peningafylleríi og dekri við erlenda aðila, eru innviðir landsins að grotna niður. Vegakerfið er ónýtt, heilbrigðiskerfið er komið af fótum fram, skólakerfið í molum, aldraðir og öryrkjar búa margir langt undir sultarmörkum og sumir jafnvel á götunni. Ungafólki verður að búa í foreldrahúsum langt fram á aldur, vegna þess að það getur hvorki leigt né keypt sér húsnæði. Lægra verður vart komist!

Því miður er útlitið ekki gott. Stjórnvöld eru gjafmild á fé sem ekki er til, tekur erlend lán í gríð og erg sem afkomendur þurfa síðan að greiða.

Þá stefna stjórnvöld hörðum höndum að því að fórna auðlindum okkar. Náttúrunni verður aldrei bjargað með því að fórna henni.

Og hvað eigum við þá?

Hverju ætlum við þá að skila til afkomenda okkar?! Ónýtu landi án allra auðlinda og erlendar stórskuldir?


"bara sjálfstætt mál"

Allir sem vilja framkvæma eitthvað hér á landi þurfa því að fara að ákveðnum reglum og ef framkvæmd er meiriháttar eru þessar reglur strangari. Ef einhverjum dettur í hug að kæra framkvæmdina, þarf að afgreiða þá kæru áður en framkvæmdir geti hafist.

Þetta er svo sem eðlileg afgreiðsla mála. Að vel sé vandaður undirbúningur, allra leyfa aflað og almennt farið að lögum. Ef einhverjum sem málið varðar dettur til hugar að kæra framkvæmdina, annað hvort vegna þess að hann telur á sér brotið eða einhvers annars, ber að fresta framkvæmd þar til afgreiðsla þeirrar kæru hefur verið lokið.

Vissulega getur þetta tafið framkvæmdir, stundum þarfar framkvæmdir, um nokkurn tíma. Sennilega frægasta framkvæmd sem tafin hefur verið með slíkum kærum vegurinn um Teigsskóg. Aðrar þarfar framkvæmdir hafa einnig oft tafist vegna þessarar málsmeðferðar. Jafnvel einstaklingar, sem hafa haft allt á borðinu, aflað allra leyfa og verið klárir í minniháttar framkvæmdir, hafa þurft að sitja undir þessari reglu, að fresta framkvæmdum þar til kæra var afgreidd.

Þetta er það sem við köllum lýðræðisafgreiðsla, að allir séu jafn réttháir til að tjá sig og jafn réttháir til að hafa áhrif á hvernig við förum með landið okkar. Ef tjáning ein dugir ekki eða ekki er hlustað, eru dómstólar látnir skera úr um lögmæti framkvæmdarinnar, bæði gagnvart þeim er kærir sem og framkvæmdaraðila.

En nú ber nýtt við. Vindorkuver virðast vera utan laga og reglana hér á landi. Þar eru kærumál vegna framkvæmda "bara sjálfstætt mál". Engin ástæða til að bíða eftir dómstólum vegna kærunnar.

Ef þetta er tónninn sem gefinn er, erum við í verri málum en áður. Þá geta vindbarónar ætt hér yfir landið okkar og eytt því, í nafni þess að allar andbárur og jafnvel kærur séu bara "sjálfstætt mál" sem komi þeim ekki við!


mbl.is Munu hefja framkvæmdir þrátt fyrir kæru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhæfa í lýðræðisríki

Það eru stór orð sem umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra lætur frá sér. Líkjast meira orðum einræðisherra en ráðherra í lýðræðisríki. Ekki víst að hann geti staðið við þau og gerlega búinn að gera sig óhæfan til að fjalla um málið eða afgreiða það sem ráðherra. Hann verður því að víkja.

Fram hefur komið að sveitarstjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps hafi á öllum stigum málsins lýst sig andvíga hugmyndum Landsvirkjunar um vindorkuver. Ekkert tillit hefur verið tekið til þeirra sjónarmiða, né reynt að bera klæði á deiluna. Anað áfram eins og naut í flagi. Það er því varla undarlegt að sveitarstjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps ákveði að kæra málið, reyndar hefði verið stór undarlegt ef hún hefði ekki gert það.

Mikið er látið með að Landsvirkjun hafi unnið að málinu í tvo áratugi og að fyrirtækið hafi farið eftir öllum leikreglum í málinu. Hvernig má það vera? Hvernig má það vera að fyrirtækið hafi farið eftir leikreglum? Hvaða leikreglum?

Enn hafa engar leikreglur verið settar um vindorku á Íslandi. Ríkisstjórnin samþykkt þó fyrir örfáum dögum tillögu umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra um lagasetningu varðandi þetta mál. Alþingi á þó eftir að samþykkja þau lög. Þannig að enn eru engin lög eða leikreglur um hvort eða hvernig landinu okkar verður fórnað undir vindorkuver. Og vonandi mun Alþingi sjá sóma sinn af því að fella þessa tillögu ráðherrans um málið, eða í það minnsta gera verulegar breytingar á þeim. Það er engum hollt og allra síst öfgafólki eins og því er nú sitja í ráðherrastólum, að fá slík völd sem orku-, umhverfis- og loflagsráðherra er þar að skapa sér.

Slíkt er óhæfa í lýðræðisríki!

Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni!


mbl.is Ósáttir við kæru sveitarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og enn er nöldrað um vindorku

Það er alveg magnað að hægt sé að byggja vindorkuver á mörkum sveitarfélaga, án samráðs þeirra í milli. Ef ég vil byggja mér lítinn skúr á lóð minni þarf ég að hlíta ströngum kröfum um hæð hans og flatarmál og ef hann er nær lóðamörkum nágrannans en 3 metrar þarf ég skriflegt samþykki hans. Samt geta vindbarónar byggt himinhár vindtúrbínur, allt að 200 metra háar á mörkum jarða og sveitarfélaga án nokkurs samráðs við nágranna sína! 

Sú deila sem er uppi milli sveitarstjórna á suðurlandi um staðsetningu vindorkuvers Landsvirkjunar, við innganginn á hálendið okkar, sýnir að fjarri fer að einhver sátt sé um þessa aðferð orkuöflunar. Reyndar er annað dæmi til þar sem svipuð staða er uppi, þ.e. í landi eiginkonu barnamálaráðherrans og tengdaföður hennar, Sólheimum í Dalabyggð. Þar er franskt fyrirtæki með áætlanir um byggingu vindorkuvers, reyndar töluvert öflugra en Landsvirkjun ætlar að reisa. Töluvert hærri og öflugri vindtúrbínur.

Staðsetning þessa vindorkuvers er á mörkum Dalabyggðar og Húnaþings Vestra. Framkvæmdasvæðið og einnig helgunarsvæði þessa vindorkuvers nær klárlega yfir sveitarfélagsmörk og hugsanlega mun einhverjar vindtúrbínur lenda í landi Húnaþings Vestra. Landamörk þarna á milli eru ekki skýr. Þó hefur hvorki það sveitarfélag, né þeir bændur er eiga lönd að, eða inná svæði vindorkuversins neina aðkomu að þessari framkvæmd. Þvert á móti er tekið illa í athugasemdir þeirra.

Nú veit ég ekki hvort Húnaþing Vestra hafi gert athugasemdir til Skipulagsstofnunar um þessa framkvæmd, geri þó fastlega ráð fyrir því. Frestur til að skila slíkum athugasemdum rann út núna á miðnætti. Þetta vindorkuver verður númer tvö í röðinni, hér á landi, á eftir vindorkuveri Landsvirkjunar.

Ef vindorkuver væru umhverfisvæn mætti hugsanlega horfa framhjá þeirri sjónmengun sem þau valda. Svo er þó ekki. Mengun þessara mannvirkja er mikil og mest mengun sem ekki er afturkræf.

Ef vindorkuver væru hagkvæm í rekstri mætti kannski horfa til þessara framkvæmda með blinda auganu. En fjarri fer að einhver hagkvæmni finnist í rekstri vindorkuvera. Í löndum þar sem orkuverð er margfalt hærra en hér á landi, reynist ekki unnt að reka þessa orkuöflun með hagnaði. Niðurgreiðslur til þeirra er gríðarleg og dugir þó ekki til. Einu vindorkuverin sem geta sagt að þau séu rekin með hagnaði eru þau orkuver sem fá greitt fyrir að framleiða ekki rafmagn. Þegar einn skoskur eigandi að slíku orkuveri var spurður hvort ekki væri fráleitt að byggja vindorkuver sem ekki mætti framleiða rafmagn, sagði hann stoltur að þetta minnkaði viðhaldskostnað og yki endingu vindtúrbínanna sinna. Honum var slétt sama þó almenningur væri að greiða fyrir ekkert.

Byggingakostnaður vindorkuvera er gjarnan greiddur með styrkfé og lánum. Fyrirtækin sem að baki standa eru fæst burðug til að greiða þann kostnað. Vel er þekkt erlendis að menn láti sig hverfa með stórann hluta þess fjár í skattaskjól. Er einhver ástæða til að ætla að erlendir vindbarónar sem hingað koma hagi sér eitthvað öðruvísi?

Að byggja vindorkuver á Íslandi, þar sem næg orka er til í fallvötnum og jarðhita, er álíka gáfulegt og að höggva skóg í vesturheimi, brytja hann niður í flísar og sigla tugi þúsunda tonna af slíkri flís til Íslands. Landa henni hér og skipa síðan aftur út á pramma sem dreginn er hálfa leið aftur til vesturheims, þar sem öllum þessum tugum þúsunda er sturtað aftur í sjóinn.

Fyrir þessari vitleysu féllu stjórnvöld hér á landi og margir sem töldu þarna veri gríðarleg tækifæri fyrir land og þjóð. Þegar eftirlitsstofnanir gerðu athugasemdir tóku ráðherrar fram fyrir hendur þeirra.

Sömu aðilar hafa fallið fyrir vindorkudraumunum. Sumir af því þeir hafa beina hag af því, aðrir af fávisku.

Hvenær í ósköpunum ætlar þjóðinni að auðnast að fá til starfa fyrir sig, við stjórn landsins, fólk sem hefur þann kost að geta lært af mistökum annarra þjóða?


mbl.is „Gríðarlega hættulegt fordæmi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæluverkefni

Það er engin neyð fyrir Siglfirðinga þó Strákagöng lokist. Þeir eru með einhverjar bestu samgöngur á landinu, eftir sem áður. Eru í góðu vegsambandi við landið.

Vissulega mun það breyta nokkru fyrir þetta samfélag, ef leiðin til vesturs leggst af. En að kalla það einhverja neyð er bein vanvirðing til þeirra sem búa við raunverulega neyð í samgöngum. Það fólk sem þarf að búa við illfæra fjallvegi og ófæra malarvegi hlýtur að vera framar í röðinni.

Það er hins vegar vel skiljanlegt að Siglfirðingar vilji vegasamband til vestur og kalli eftir göngum yfir í Fljót. Við höfum hins vegar ekki efni á slíku bruðli. Gleymum ekki þeirri umræðu sem fram fór áður en Héðinsfjarðargöng voru ákveðin. Þá gafst Siglfirðingum kostur á að fá göng yfir í Fljót. Því var hafnað og margfalt dýrari framkvæmd notuð til að tengja þennan stað við umheiminn, tvenn göng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, með viðkomu í Héðinsfirði. Framkvæmd sem aldrei mun borga sig fjárhagslega, ávinninginn verður að reikna eftir öðrum forsendum.

Eini ókosturinn við þessa leið er að lengra er til Reykjavíkur. Sumir nefna kannski ófærð í Ólafsfjarðarmúlanum, en þegar hann loksast eru Fljótin væntanlega löngu lokuð, enda snjóþyngsta svæði í byggð á Íslandi.

Það hefur legið fyrir um nokkurn tíma að gera þurfi göng sem leggja af Öxnadalsheiðina, einn af hættulegri vegum landsins að vetri til, þó verulega sé búið að endurbæta hann. Þar verða mörg slys á hverju ári. Það er því framkvæmd sem er mun þarfari en göng frá Siglufirði yfir í Fljót.

Ríkiskassinn er tómur, galtómur, reyndar rekinn á lántökum. Meðan svo er, er tómt mál að tala um einhver gæluverkefni í vegagerð. Þó vissulega stjórnvöld hafi samþykkt miklar og ófyrirsjáanlegar upphæðir til "vegabóta" á höfuðborgarsvæðinu þá er fráleitt að líta það sem einhverja fyrirmynd. Þar er mun fremur fáviska stjórnmálamanna sem ræður för.

Vegakerfi landsins er í molum eftir svelt á fjármagni til margra ára. Víða eru vegir sem ekki standast neinar kröfur, malarvegir, einbreiðar brýr og fleiri slysagildrur sem hafa tekið allt of mörg mannslíf. Þá eru, eins g áður segir, samfélög sem eru meira og minna án samgangna á landi svo mánuðum skiptir.

Það fé sem tiltækt er til samgöngubóta á fyrst og fremst að nýta til að fækka slysagildrum, laga ófæra vegi og koma viðunandi vegtengingum til þeirra sem enn skortir slíkan munað. Gæluverkefnin verða að bíða.

Það mun ekkert aukast slysahætta fyrir Siglfirðinga þó Strákagöngum verði lokað. Eina slysahættan þar er að ekki skuli þegar hafa verið lögð af sú leið. Þeir munu hafa mjög góða vegtengingu eftir sem áður, vegtengingu sem telst með þeim betri á landinu og með þeim allra dýrustu.

 


mbl.is Strákagöng lokast ef hlíðin fer
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik við kjósendur Sjálfstæðisflokks

Ef Sjálfstæðisflokkur vill eiga minnstu möguleika á að ná einhverju fylgi aftur, verður öll stjórn hans að víkja. Þeirra tími er löngu liðinn. Það dugir ekki að formaðurinn einn stígi til hliðar og alls ekki að varaformaður taki við keflinu. Stjórnin verður öll að víkja. Annað er dauðadómur fyrir flokkinn.

Menn segja að slíkt sé ekki framkvæmanlegt, hverjir eigi þá að taka við? Það er enginn ómissandi, hvorki hjá stjórnmálaflokki né annarsstaðar. Sjálfstæðisflokkur hefur verið móðurflokkur stjórnmála á Íslandi frá stofnun og fram á þessa öld. Það er ekki fyrr en nú síðustu ár, sérstaklega á þeim tíma er núverandi stjórn hefur ráðið, sem flokkurinn hefur látið undan gefa og það sögulega. Núverandi stjórn er því alls vanhæf. Jafnvel eftir Hrun var flokkurinn öflugri en hann er í dag.

Ef slíkur flokkur getur ekki skipt út hjá sér stjórn, ef mannaval flokksins er ekki skárra en svo,  er kannski eins gott að leggja þennan fyrrum móðurflokk íslenskra stjórnmála niður. Fari varaformaður í stól formanns mun það gerast sjálfkrafa.

Það er komið nóg af þessu rugli, komið nóg af svikum við kjósendur flokksins.


mbl.is Fer ekki fram gegn Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgi flokka

Þau stórtíðindi vor gerð heyrinkunnug að Miðflokkurinn væri orðinn næst stærsti flokkur landsins, væri orðinn stærri en Sjálfstæðisflokkur. Því miður var þarna ekki um kosningu að ræða, heldur einungis skoðanakönnun. Og skoðanakannanir eru jú bara kannanir og ber að taka þeim með fyrirvara.

Það sem kemur þó mest á óvart eru útskýringar stjórnmálafræðinga á þessari fylgisaukningu Miðflokksins. Þeirra skýring er að óánægðir kjósendur Sjálfstæðisflokks séu að færa sig yfir til Miðflokks. En bíðum við, var ekki fylgistap Framsóknar einmitt sagt vera það sama, að kjósendur þess flokks væru að færa sig yfir í Miðflokkinn? 

Það væri óskandi að stjórnmálafræðingar hefðu rétt fyrir sér, að þeir sem yfirgefa Sjalla og Framsókn muni kjósa Miðflokkinn. Þá yrði Miðflokkur öflugur. En því miður halda þessar útskýringar fræðinganna ekki vatni, ekki frekar en aðrar útskýringar þeirra. Fylgistap Sjalla og Framsóknar er einfaldlega stærra en svo að þessi útskýring fræðinganna gangi upp. 

Og auðvitað fylgir ætið útskýringum stjórnmálafræðinganna að Miðflokkurinn sé öfgaflokkur til hægri. Stærra skammaryrði þora þeir ekki að nefna. Þeir sem skoða stefnu flokksins sjá þó annað og þeir sem skoða verk flokksins á Alþingi komast fljótt að því að engir öfgar hafa verið stundaðir af kjörnum fulltrúum hans. 

Hins vegar hefur Miðflokkurinn verið einn fremsti flokkur á Alþingi til að standa vörð lands og þjóðar, stundum einn og óstuddur, stundum með hjálp einstaka smáflokka. Ef það kallast öfgar til hægri er ég stoltur hægri öfgamaður. En svo er þó ekki, heldur er þetta einungis það sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi eiga að gera, að standa vörð lands og þjóðar. 

Kannski er þetta einmitt ástæða fylgisaukningar Miðflokksins, að þjóðin sé að vakna upp af martröð ósjálfstæðis okkar á sífellt fleiri sviðum.

Sama ástæða gæti hæglega útskýrt fylgistap Sjálfstæðisflokks og jafnvel Framsóknar einnig. 


mbl.is Miðflokkurinn tekur fram úr Sjálfstæðisflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segjum hlutina eins og þeir eru

Í viðtengdri frétt er rætt um vindmillur. Milla malar, t.d. korn. Ein slík var í Reykjavík á fyrrihluta síðustu aldar. Þekktasta land af vindmillum er Hollland, en einnig var nokkuð um að vindur væri notaður til að mala korn vítt um heiminn. Landsvirkjun er því ekki að fara að reisa vindmillur, enda ekki kornframleiðandi.

Vindtúrbínur er orð sem allstaðar er notað yfir þau fyrirbæri sem Landsvirkjun hyggst reisa við innganginn á hálendið okkar. Reyndar farið að tala meira um iðnaðarvindtúrbínur (IWT eða Industrial Wind Turbine). Undir það flokkast allar vindtúrbínur sem ná ákveðinni hæð eða 120 metra, einnig ef vindtúrbínur eru lægri ef um fleiri en þrjár er að ræða. Túrbínur Landsvirkjunar flokkast því sannarlega undir iðnaðarvindtúrbínur.

Þá kallar Landsvirkjun þetta nýja orkuver sitt Búrfellslund. Flestir íslendingar þekkja merkingu orðsins lundur, einkum átt við skjólsæl svæði, gjarnan í skógum. Það er með öllu fráleitt að telja að vindorkuver sem telur 30 vindtúrbínur, 150 metra háar á 17,5 ferkílómetra svæði, sem einhvern lund. Þetta er 17,5 ferkílómetra iðnaðarsvæði sem mun sjást víða að. Það eru engar aðgerðir til svo minka megi þá sjónmengun, þó forstjóri Landsvirkjunar lofi slíku.

Sárt er að horfa til þess að sveitarfélagið þar sem þessi virkjun á að rísa í skuli telja einhvern meðbyr með slíkri framkvæmd og í raun er sveitarstjórinn búinn að lofa að framkvæmdaleyfið verði veitt. Bara formsatriði að samþykkja það. Sérkennileg stjórnsýsla það. Það sem hann þó setur á oddinn er að sveitarfélagið njóti einhvers ábata af verkefninu. Hvaða ábata? Ef ekki er hægt að reka vindorkuver með hagnaði þar sem orkuverð er margfalt hærra en hér á landi, er nánast fáviska að ætla að slíkt sé hægt hér og alger fáviska að halda að hægt sé að næla í einhvern ábata þess vonar hagnaðar.

Tölum um hlutina eins og þeir eru, tölum um vindorkuver og vindtúrbínur, jafnvel iðnaðarvindtúrbínur. Leifum ekki einhverja gaslýsingu á þessum hlutum. Leyfum ekki þeim sem vilja næla sér í styrki til að reisa þessi orkuver ráða orðræðunni, fegra þá hluti sem ekki er með neinu móti hægt að fegra!


mbl.is Myllur hafa meðbyr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðvikudagurinn 21.8.2024, svartur dagur í sögu þjóðarinnar

Síðastliðinn miðvikudag kom enn einn dómur Seðlabankans. Vextir skulu haldast óbreyttir og enn skal hert á sultaról landsmanna. Ástæðan er að lítið gengur í baráttunni við verðbólgudrauginn.

Það merkilega var að þann sama dag var "endurskoðaður" samgöngusáttmáli kynntur af stjórnvöldum og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Endurskoðunin fólst einungis í því að uppfæra tölur sáttmálans, eða nærri tvöfalda þá upphæð sem ætlað er til verksins. Kostar nú 310.000.000.000 kr. og mun koma í hlut ríkissjóðs 262.500.000.000 kr., eða 262.5 milljarðar króna. Væn upphæð, sem mun þó víst ekki vera endanleg. Ekki ætla ég að rita um þennan sáttmála núna, en bendi þó á að sumir samþykktu þessa breytingu með óbragði í munni, töldu þetta skásta kostinn. Henni til fróðleiks þá hafa margir aðrir kostir verið kynntir, til liðkunar fyrir umferð og betri möguleikar á almenningssamgöngum. En það verður hún auðvitað að eiga við sig sjálf.

Málið er að Seðlabankinn er að berjast við verðbólgudrauginn og virðist ekki hafa aðra kosti til þess en að svelta hinn vinnandi mann, svelta þann sem skapar verðmætin. Ríkisstjórnin hefur hins vega gott verkfæri til að hjálpa Seðlabankanum við verkið, en það er sjálfur ríkiskassinn. Með því að draga úr fjárútlátum sem kostur er og fresta öllum þeim aðgerðum sem hægt er að fresta, stuðlar ríkisstjórnin að lækkun verðbólgunnar. En því miður er ekki hæfara fólk við stjórnvölin en svo að það er unnið þvert á þessi sannindi, drauginn fóðraður enn frekar. Reyndar voru ummæli fjármálaráðherra, einmitt þennan sama dag á þann veg að maður spyr sig hvernig slíkt fólk kemst til valda, svona yfirleitt.

Þá verður að segjast eins og er að algjört stjórnleysi virðist ríkja í fjármálum ríkisins. Þar virðast sumir geta vaðið í fé án nokkurra fjárheimilda og svo þegar ekki verður lengra komist er sest niður og hlutir "uppfærðir". Þetta á ekki einungis við um samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu, heldur einnig mörg önnur verkefni. Í dag er stjórnlaust verið að moka fé í varnargarða vegna eldsumbrota á Reykjanesi, vissulega þarfra framkvæmda en ekki þar með sagt að fjárausturinn til verksins geti verið stjórnlaus. Bendi á að allar stærri framkvæmdir á ríkið að bjóða út, samkvæmt lögum. Látum vera að gripið sé til örþrifaráða í neyð, en þegar neyðin er hjá má skoða hvernig hagkvæmast skuli að verki staðið. Annað verkefni á vegum ríkisins er veglagning yfir Hornafjarðarós. Þar var farið af stað samkvæmt ákveðinni formúlu um fjármögnun. Þegar sú formúla gekk ekki upp var verkinu ekki frestað, heldur haldið áfram sem ekkert væri og ríkiskassinn opnaður upp á gátt. Þetta hefur leitt til þess að aðrar vegaframkvæmdir eru settar á bið. Þessi framkvæmd mun sannarlega stytta nokkuð veginn milli Reykjavíkur og Hafnar, en ekki er þarna verið að leggja af neinn sérlega hættulegan kafla eða fjallveg. Getur verið að að þarna skiptir máli að þetta verkefni er í kjördæmi þáverandi innviðaráðherra, núverandi fjármálaráðherra.

Svona lagað gengur ekki. Það er með öllu fráleitt að hægt sé að ganga í ríkissjóð eftir vilja hvers og eins og gera síðan bara "uppfærslu" á orðnum hlut, án þess að nokkur beri ábyrgð. Það er bein ávísun á aukna verðbólgu.

Þegar menn lenda í ófærri keldu eru tveir möguleikar í stöðunni, að snúa til baka og finna betri leið eða halda áfram að spóla í sama farinu þar til örendi þrýtur. Stjórnvöld velja síðari kostinn, því miður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband