Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nú er ég hættur að skilja

Ég er nú alveg hættur að skilja hlutina hérna. Forseti ætlar að rjúfa þing á fimmtudag, en segir jafnframt að þingmenn muni halda umboði sínu sem þingmenn fram að kosningu. Því muni vera hægt að ljúka mikilvægum málum sem lægju fyrir.

Eftir að þing er rofið starfar það ekki lengur og eðli málsins engin mál afgreidd, svo einfalt sem það er. Því er einungis um morgundaginn að ræða til að ljúka málum. Þar kemur þó örlítið babb í bátinn, þar sem lögformlega þurfa mál þrjár umferðir á þinginu og afgreiðslu nefnda á milli. Veit ekki til að ríkisstjórnin sé komin það langt með afgreiðslu á neinu máli að einn þingdagur dugi til að klára það.

Það er svo sem ekki að undra þó sumir þingmenn og jafnvel ráðherrar skilji ekki þessa einföldu staðreynd, enda stjórnarskráin í litlum metum á þingi. Hitt er alvarlegra þegar forsetinn hefur ekki betri þekkingu á stjórnarskránni og stjórnlögum!

 


mbl.is Rýfur þing og boðar til kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum samkvæmt sannfæringu, ekki endurnýttum kosningaloforðum

Það er ekki annað hægt en að gleðjast yfir því að fá að kjósa nýja fulltrúa á Alþingi. Þeir sem nú verma þar stólana eru kannski ekki besti kosturinn. Verra er þó að hugsa til þess að sennilega verða sömu menn í framboði og einhverjir þeirra munu ná kjöri, jafnvel þó vit þeirra á stjórnskipan og virðing fyrir stjórnaskránni sé af skornum skammti, eins og sást í Silfri kvöldsins.

En hvað um það, við fáum að kjósa. Það er alltaf gleðilegt, ekki síst eftir algera stöðnun á öllum sviðum þetta stutta kjörtímabil. Þar kemur einkum til ósætti milli stjórnarflokkanna, enda þeir í meirihluta og hafa alfarið með dagskrá Alþingis að gera. Það er eðli lýðræðisins.

En hver verða svo kosningamálin? Gamlar kreddur munu hljóma í eyrum okkar sem aldrei fyrr, kreddur sem stjórnmálamenn hafa aldrei staðið undir þegar á þing er komið. Stefnumál flokkanna eru flestum kunn, alla vega þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þau, nú eða hafa haft eyrun opin fyrir kosningar. Þau hafa lítið breyst síðustu árartugi. Samt er eins og stjórnmálamenn gleymi þeim fljótt þegar kosningar eru afstaðnar, jafnvel þeim málum sem okkur er talin trú um að séu alger prinsipp fyrir kosningar.

Því eru það verkin sem tala og eftir þeim skal kosið. Stærstu mál þjóðarinnar í dag eru verðbólgudraugurinn, linkind gagnvart regluverki ESB, gegnum EES samninginn og svo allra stærsta málið sem varðar framtíð barna okkar og barnabarna, hvernig við ætlum að skila þeim í arf okkar fallega landi. Hvort því verði fórnað undir vindorkuver.

Auðvitað þarf að vinna bug á verðbólgudraugnum. Þar hafa stjórnvöld getað gert betur. Meðan útgjöld ríkisins fá að blómstra sem aldrei fyrr er lítil von til að sá draugur verði kveðinn niður.

Linkind okkar til að standa vörð um sjálfstæði okkar hefur aldrei jafn mikil og nú síðustu ár. Dekur við EES/ESB hefur náð nýjum hæðum og má kannski segja að frumvarp um innleiðingu bókunar 35 við EES samninginn beri þar hæst. Einnig hefur fylgispekt við ESB vegna ýmissa mála er sögð eru varnar því að jörðin brenni, eins og einn fyrrum ráðherra nefndi á einhverri ráðstefnu um það mál erlendis, verið okkur dýrkeypt og á eftir að kosta okkur mikið. Það átti aldrei að samþykkja annað en að til greina væri tekið hvaða árangri við værum búin að ná í orkuskiptum, áður en það orð komst í  tísku.

Af sama meiði er svokölluð vindorka. Einkver mest mengandi orkukostur sem þekkist í dag, bæði sjónrænt en ekki síður fyrir umhverfi sitt, bæði nær og fjær. Þó er það svo að fráfarandi ríkisstjórn hefur róið öllum árum að því að hér verði komið upp slíkum óskapnaði, því meiri því betri. Ráðherrar hafa jafnvel sagt að einfalda þurfi regluverkið svo flýta megi þeirri landeyðingu. Auðvitað er vitað að sumir ráðherrar hafa beinan hag af þeim ósköpum, en aðrir hefðu átt að sjá ruglið.

Vindorkuver berjast í bökkum erlendis, þó orkuverð þar sé margfalt hærra en hér á landi. Þó virðist umræðan hér snúast fyrst og fremst um hvernig ágóðanum skuli skipt. Hvaða helvítis ágóða?!

Ef ekki er hægt að reka þessi orkuver með ágóða þar sem orkuverð er margfalt hærra en hér á landi, hvernig ætla menn þá að fá einhvern ágóða hér? Með því að hækka orkuverðið? Það þarf þá að hækka mikið!

Ég hvet alla til að skoða verk stjórnmálamanna áður en merkt er við á kjörseðilinn. Skoða hvernig þeir hafa staðið vörð lands og þjóðar og ekki síst hvernig þeir hafa talað um vindorkuna og eyðingu náttúru okkar af hennar völdum. Ekki væri verra ef fólk nennti að leggja á sig smá skoðun á hagsmunum hvers frambjóðenda af þeirri óværu.

Munið bara að kosningavaðallinn er endalaus, endurunninn eins og alltaf. Það er til lítils að kjósa samkvæmt honum. Skoðum verkin, skoðum hver hefur talað fyrir að færa ESB valdið yfir okkar lögum, skoðum hverjir hafa mest unnið að vindorku og vilja flýta henni sem allra mest, skoðum hvernig til hefur tekist í fjármalum ríkissjóðs, sem rekinn er með þvílíku tapi að annað eins hefur aldrei sést.

Verið óhrædd að spyrja frambjóðendur allra flokka, ef þið komist í tæri við þá. Spyrjið þá um hver hugur þeirra er til þessara mála, vindorkunnar, fylgispektina við ESB og rekstur ríkissjóðs. Spyrjið þá um hagsmuni þeirra til þessara mála, einkum vindorkunnar.

Gangið síðan að kjörborðinu og kjósið samkvæmt eigin sannfæringu, ekki endurnýttum kosningaloforðum!


mbl.is Bjarni mun biðjast lausnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er "komið"

Maður veltir stundum fyrir sér í hvaða heimi Sigurður Ingi býr. Alla vega ekki í raunheimi, svo mikið er víst.

Það hefur legið fyrir, allt frá því Kata yfirgaf sökkvandi skipið, að því yrði ekki bjargað. Lím ríkisstjórnarinnar var virðing og vinskapur Bjarna og hennar. Það lím þornaði fljótt upp við brotthvarf Kötu. Eftir að VG valdi sér nýjan formann, manneskju sem aldrei hefur verið hægt að starfa með og lítur landslög hornauga, var strax ljóst að komið væri að leiðarlokum. Yfirlýsingar hennar gáfu einnig til kynna hvert hún sjálf vildi stefna.

En Sigurður Ingi telur að stjórnarslit hafi ekki legið í loftinu! Taldi að allt væri að "koma".

Þetta kom vissulega Sigurður Ingi!


mbl.is Segir stjórnarslit ekki hafa legið í loftinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt góðverk VG

Það virðist sem VG ætli að gera eitt góðverk á sinni lífstíð, að þurrka sig út úr íslenskum stjórnmálum.

Fyrir komandi landsfundi flokksins liggur tillaga um að slita stjórnarsamstarfinu við Framsókn og Sjalla. Þarft verk og löngu tímabært. Þetta mun að sjálfsögðu leiða til þess að flokkurinn þurrkast út úr íslenskum stjórnmálum. 

Til merkis um þurrð innan flokksins og grasrótarinnar þurfa höfundar tillögunnar að skreyta hana stolnum fjöðrum, svo sem eins og það sé VG að þakka að skólamáltíðir skulu vera fríar í leik- og barnaskólum. Eigandi þeirra bóta er verkaliðshreyfingin og ekki veit ég til að hún sé gengin í VG. 

Enn er einungis einn sem gefur kost á sér til formanns, Svandís Svavarsdóttir. Öflugur þingmaður sem kann nokkuð til verka í stjórnmálum. Hefur ekki hikað við að láta stjórnmálaskoðanir ráða för þó það sé í trássi við landslög, jafnvel sem ráðherra. Litlar líkur eru á að henni takist að breyta því sem framundan er hjá VG, endanlegu hruni. Það verður því líklega hennar hlutverk að fylgja flokknum til grafar.

En svo er auðvitað eftir að sjá hvort tillagan nái fram, eða hvort flokkurinn ætlar enn að tóra, sér og þjóðinni til skammar.

 


mbl.is Betra fyrir samfélagið að VG slíti samstarfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn hafðir að fíflum

Það eru gömul sannindi að með aldri eykst viska. Menntun eykur hins vega þekkingu og ungt fólk getur haft góða þekkingu á ákveðnum sviðum. Best er þegar þetta tvennt fer saman, en því miður er ekki alltaf svo.

Þetta skaut upp í huga minn þegar bókun 35 við EES samninginn var tekin á dagskrá. Þeir sem voru komnir til vits og ára er sá samningur var samþykktur af Alþingi, með minnsta mögulega meirihluta, vita hver aðdragandi þess samning var. Þeir vita líka hver ástæða var fyrir frestun á samþykkt þeirrar bókunar. Þar voru ekki gerð mistök, heldur var frestunin gerð með vitund og vilja. Þannig og einungis þannig var hægt að fá samninginn samþykktan af Alþingi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ef sú bókun hefði verið samþykkt var komið skýrt brot á stjórnarskrá Íslands. Strax í kjölfarið hófst aðförin að stjórnarskránni. Að nauðsynlegt væri að breyta henni og ýmsar ástæður nefndar, þó að baki lægi alltaf sú hugsun að hægt yrði að uppfylla EES samninginn að fullu, þ.e. að Alþingi gæti samþykkti bókun 35.

Þetta vita allir þeir sem eru komnir til vits og ára í upphafi tíunda áratug síðustu aldar. Sumir vilja hins vegar ekki kannast við það en þar spila auðvitað pólitíkin inní. Aðalhöfundur samningsins, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur staðfest þetta.

Nú liggur fyrir Alþingi að samþykkja bókun 35 við EES samninginn. Sagan að baki virðist gleymd flestum þingmönnum, enda kannski von. Flestir þingmenn í dag voru enn á skólaskyldualdri er EES samningurinn var samþykktur og sumir jafnvel ekki fæddir. Sjálfur flutningsmaður þess að samþykkja þessa bókun var þá á leikskólaaldri og því með öllu óþekkt þeirri umræðu sem fram fór. Því þurfa þessir þingmenn að treyst á aðkeypta þekkingu um málið, viskan er ekki til staðar. Þekking er þó aldrei betri en þess er hana gefur og því miður er vilji til að hlusta á ráðgjöf þeirra sem yngri eru rík hjá yngra fólki, hlusta á ráðgjöf þeirra sem hafa ákveðna þekkingu en eiga eftir að öðlast visku. Þetta leiðir til þess að oftar en ekki getur þekking verið valkvæð, þó viskan sé alltaf sönn.

Því mun Alþingi, samansett að stórum hluta af fólki sem ekki hefur visku um málið, ákveða hvort samþykkja skal þessa bókun. Það sem kannski er óhugnanlegast við það er þó að allir þingmenn sverja eyð að stjórnarskránni okkar. Henni hefur ekki verið breytt ennþá svo hægt sé að samþykkja bókunina og því jafn brotlegt við hana nú og var árið 1992. Því er næsta víst að Hæstiréttur mun þurfa að skera úr um lögmæti samþykktarinnar. Sá úrskurður getur aldrei fallið nema á einn  veg.

Sumir ráðherrar okkar hafa lýst því yfir að bókun 35 við EES samninginn muni engu breyta. Hví er þá áherslan nú svo mikil á að samþykkja bókunina?

Þegar orkupakki 3 var samþykktur af Alþingi, þurfti að setja inn ákvæði um að enginn sæstrengur yrði lagður frá landinu, nema með samþykki Alþingis. Að öðrum kosti náðist ekki samkomulag um samþykki orkupakkans. Flestir telja þetta ákvæði marklaust, þar sem öll lög og allar reglugerðir orkupakka 3 voru samþykkt. Þar á meðal að yfirráð yfir flutningi á raforku milli landa væru færð ACER, orkustofnunar ESB. Aðrir telja að þetta ákvæði standi, enda samþykkt af Alþingi, æðsta valdi hér á landi. Líklegt er að á þetta muni reyna fyrir dómstólum.

Eftir samþykkt bókunar 35 mun ekki þurfa að fara með málið fyrir dómstóla. Þá verður þetta ákvæði sjálfkrafa marklaust. Þá þarf ekki að deila um hvort lagapakkinn sem fylgdi orkupakka3 væri fullgildur hér á landi. Þá væri greið leið fyrir hvern sem er að leggja héðan sæstrengi í fleirtölu, svo flytja megi sem mest af raforku til meginlandsins.

Þetta er frumástæða þess að hér sé hægt að fara í þá gífurlegu uppbyggingu á vindorkuverum sem plön eru um. Tenging okkar við meginlandið veldur því að raforkuverð hér verður tengt orkuverði við hinn enda strengjanna, mun því margfaldast. Þannig og einungis þannig er einhver glóra í að virkja vindinn hér á landi. Það orkuverð sem hér er gerir slíkar áætlanir að engu og jafnvel þó einhverjum langi að sóa sínu fé í slíka framkvæmd er hún dauðadæmd. Þegar vindur blæs mun þvílíkt magn orku verða til að okkar lokaða kerfi yfirfyllist af rafmagni og samkvæmt rökum utanríkisráðherra fyrir samþykkt orkupakka 3, um dásemd markaðslögmálsins, mun orkuverð falla niður á núllið. Því er frumforsenda þess að hér megi fórna landinu undir vindorkuvar, að lagðir verði sæstrengir til meginlandsins.

Kannski er það einmitt ástæða þess ofsa ráðherranna að samþykkja bókun 35, að þannig verði að engu gerður sá varnagli sem stjórnvöld neyddust til að setja svo orkupakki 3 fengi samþykki sitt. Svo greiða megi leiðina fyrir vindorkuverum og fórn landsins.

Að verið sé að hafa þingmenn að fíflum!


Þjóðin ber vissulega skaðann

Fyrir það fyrsta þá er vindorka, með þeirri tækni sem til er í dag, fjarri því að teljast "græn orka". Er mjög mengandi, bæði sjónrænt en ekki síður fyrir umhverfið. Af því mun þjóðin bera skaða!

Það er hins vegar alvarlegt þegar ráðherra hefur í hótunum, vegna þess að lögin eru honum ekki þóknanleg. Það er mjög alvarlegt mál.

Við lifum enn í lýðræðisríki og því fylgir að hver sem telur á sér brotið, eða brotið á þeim hagsmunum sem þeir vinna fyrir, geti leitað til dómstóla, þegar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur á öllum stigum málsins mótmælt áformum um vindorkuver Landsvirkjunar. Á þau mótmæli hefur ekki verið hlustað né reynt að bera klæði á deiluna. Ætt áfram eins og naut í flagi. Því var einungis eitt eftir í stöðunni, að kæra.

Náttúruverndarsamtök vöknuðu loks til lífsins um skaðsemi vindorkunnar. Þaðan hafa komið athugasemdir við skipulagstillögur vindorkuvera. Enn er ekki hlustað og því síðasta hálmstráið að kæra framkvæmdina.

Allra alvarlegast er þó að enn er Alþingi ekki búið að samþykkja nein lög um hvort eða hvernig staðið skuli að vindorkumálum hér á landi. Því er ekki hægt að segja hvort farið sé að lögum við þessi áform, eða ekki. Á meðan er fráleitt að gefa leyfi til framkvæmda.

Kærurnar snúa því ekki að því hvort lög um byggingu vindorkuvera hafi verið brotin, heldur að vernd náttúrunnar. Að ráðherra skuli ætla að breyta lögum svo auðvelda megi spillingu hennar er háalvarlegt mál.

Slíkur ráðherra er sannarlega skaðlegur fyrir þjóðina og okkar fagra land!

Það er ekki hægt að bjarga náttúrunni með því að fórna henni.


mbl.is „Þjóðin ber skaðann af þessari framgöngu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lægra verður vart komist

Hvert eru stjórnvöld að leiða þjóðina?

Þegar ríkissjóður er rekin með lánum er lofað stórkostlegum upphæðum til framkvæmda sem ekki er séð fyrir hvað muni að endingu kosta og enn síður hver síðan rekstrakostnaðurinn verður. Alls hefur verið gefið loforð fyrir 311 milljörðum til gæluverkefnis á höfuðborgarsvæðinu. Hægt hefði verið að leysa þann vanda með mun ódýrari lausnum og að auki mun hraðar. Þegar loforðið um 311 milljarðana var gefið var jafnfram tekið fram að þetta yrði ekki endanleg upphæð, hún muni hækka. Hversu mikið veit enginn.

Svo virðist sem ráðamenn kikni í hnjánum ef einhver kemur með hugmyndir til bjargar heiminum. Því fáránlegri, því betri í eyrum ráðamanna. Nýlega trosnaði upp slík svikamilla er snerist um að flytja hingað tréflís frá vesturheimi og sigla með hana hálfa leið aftur til baka og sturta í sjóinn. Kannski ekki stórar upphæðir sem Íslendingar lögðu fram í því rugli, en ríkis- og sveitastjórnir gerðu allt til að styrkja þetta fráleita verkefni. Jafnvel svo að þegar eftirlitsstofnanir, sem lögum samkvæmt áttu að fylgjast með verkefninu gerðu athugasemdir, tók ráðherra fram fyrir hendur þeirra og beitti ráðherra valdi gegn þeirri stofnun. Sá ráðherra vermir nú forsætisráðherrastólinn.  Þó fjárhagslegt tap okkar hafi kannski ekki verið stórt, varð trúveruleiki okkar á alþjóðavelli vart bættur.

Og nú á að fara að dæla niður co2 ´jörð undir Hafnafjörð. Til þess skal notað vatn af þeirri stærðargráðu sem erfitt er að gera sér í hugarlund. Á hverju ári magni sem nemur 7,5 metum ofaná Hafnafjarðarbæ og það skal gert í a.m.k. 30 ár. Aðstandendur þessa verkefnis segja þetta engin áhrif hafa á landið. Fyrir það fyrsta er vatn auðlind sem er takmörkuð um heiminn, þó við getum enn stært okkur af gnótt hennar. Að taka 75000 m3 af þeirri auðlind á ári, í 30 ár og dæla niður í jörðina er hrein og klár sóun, svo ekki sé meira sagt. Hitt er aftur öllu verra en það er hvaða áhrif slíkt magn hefur á jarðskorpuna. Að halda því fram að allt þetta magn af vatni, sem dælt er niður í berglögin, hafi engin áhrif á jarðskorpuna er í besta falli barnalegt. Þvílíku magni af vatni hefur aldrei verið dælt niður í berglögin, hvorki hér á landi né annarsstaðar. Þetta er því tilraunaverkefni og því útilokað að hægt sé að fullyrða um áhrif þess.

Nú er talað um að leggja nýjan gagnastreng til vesturheims, svo hægt verði að setja hér upp fleiri gagnaver. Þetta er ákveðið á sama tíma og okkur er talin trú um að orkan í landinu sé af skornum skammti. Gagnaver nærist eingöngu á raforku. Fá störf eru tengd þeirri starfsemi og afraksturinn fluttur beint úr landi, Skilja ekkert eftir sig. Eftir þessu hlaupa ráðamenn okkar, í stað þess að leitast til að nýta orkuna okkar til einhverrar verðmætasköpunar fyrir tómann ríkissjóð.

Raforka er eitthvað sem við getum stært okkur af. Hrein og tær orka, þar til orkuverin selja hreinleikann úr landi. Kringum þá vitleysu hefur orðið til heljarinnar batterí, ekki bara hreinleika orkunnar okkar, heldur hvað það sem hægt er að telja mönnum trú um að sé seljanlegur hreinleiki. Hvort heldur það kemur frá trjám eða einhverju öðru. Nú er ESB að rannsaka Kínverja fyrir blekkingaleik í þessum málum. Það gæti reynst örðugt, þar sem allt málið er einn blekkingaleikur. Það á kannski ekki hvað síst við um sölu okkar á hreinleika orkunnar til annarra landa, af þeirri einföldu ástæðu að útilokað er fyrir okkur að afhenda okkar hreina rafmagn til þeirra kaupenda. Spurning hvort ESB fari ekki að skoða þetta skjalafals eitthvað nánar.

Um vindorku hef ég skrifað oftar en mig langar til. Vildi gjarnan að sá kaleikur yrði tekinn frá mér. Það mun þó ekki gerst fyrr en slík orkuframleiðsla fær bann hér á landi. Því miður mun skaðinn þá verða skeður. Hvergi í heiminum er hægt að reka vindorkuver með hagnaði, jafnvel þó orkuverð sé margfalt hærra en hér á landi og vinnslan ríkisstyrkt með háum upphæðum. Samt vilja ráðamenn hér fara í þetta feigðarflan. Í stað þess að draga lærdóm af mistökum annarra ætla þeir freka að fylgja þeim í forarpyttinn. Nú er svo komið að flest vindorkuver sem enn lifa erlendis hafa stöðvað tímabundið eða alveg frekari stækkanir. Þar kemur einkum til hinn ævintýralegi kostnaður við þá orkuöflun. Auðvitað mun koma að þeim tímapunkti hér líka, að enginn vilji reisa hér vindorkuver, jafnvel þó ráðamenn kjósi svo. En þá verður skaðinn skeður, bara spurning hversu stór.

Landsvirkjun er komin með öll leyfi til að byggja fyrsta vindorkuverið á Íslandi. Reyndar liggur fyrir kæra á það verkefni, en Landsvirkjun hundsar hana. Þar með verður búið að stór skaða innganginn okkar að hálendinu, Sprengisandsleið og leiðinni inn á Fjallabak. Um þennan inngang fer fjöldi ferðamanna á ári hverju og ekki víst að upplifun þeirra verði jafn skemmtileg eftir að vindorkuverið rís. Annað vindorkuver er komið á lokasprettinn. Það er í landi eiginkonu barnamálaráðherrans og tengdaföður hennar. Vonandi mun vindorkuver Landsvirkjunar verða nægt til að augu almennings, en þó mun fremur augu ráðamanna opnist og það verði látið þar við sitja. Að skaðinn verði einungis bundinn við það svæði. Stór skaði en kannski óhjákvæmilegur úr því sem komið er.

Við erum fámenn þjóð í tiltölulega stóru landi, einangruðu frá stórveldum meginlandanna. Við eigum gnótt af auðlindum, Tært vatn, heitt vatn, fiskinn í sjónum umhverfis landið og síðast en alls ekki síst, fegurð landsins okkar. Þessar auðlindir ber okkur að verja og skila til afkomenda okkar.

Að nýta auðlindir er auðvitað nauðsynlegt. En það á þá ætið að gera á þann hátt að land og þjóð fái notið ávaxtanna. Okkur er talin trú um að orkuskortur sé í landinu. Má vera, en af hvaða orsökum? Skortur á orku verður auðvitað til þegar meira er selt en hægt er að framleiða. Þá vaknar sú spurning hvort verið er að selja orkuna til aðila sem litlu eða engu skila í þjóðarbúið, t.d. ganavera. Enn eigum við kosti til að auka orkuframleiðslu með vatnsafli og hitaorku. Þær aðferðir raska vissulega náttúrunni okkar en þó ekki nema brot að þeim skaða er vindorkan veldur. Og þar sem orkuauðlindin, eins og allar auðlindir, er takmörkuð, ber okkur skilda til að hugsa fyrst og fremst um framleiðslu hennar til arðbærra verkefna, verkefna sem skila aur í ríkissjóð. Þar erum við íbúar landsins auðvitað efstir á blaði og síðan fyrirtækin sem skaffa okkur vinnu og þjóðarbúinu tekjur. Aðrir eiga ekki að eiga aðgang að auðlindum okkar.

En ráðmenn okkar hugsa ekki svona. Þeim er skít sama um þjóðina. Mestu skiptir að koma vel fram á alþjóðavelli, eins og við séum eitthvert afl í umheiminum. Þvílíkur brandari. Ísland mun aldrei skipta neinu máli í heimspólitíkinni. Eigum nóg með okkur sjálf. Allar þær aðgerðir sem stjórnvöld vilja leggja peninga í. peninga sem þarf að taka að láni, skipta akkúrat engu máli, hvort heldur er til bjargar jörðinni frá stiknun, eins og fyrrum forsætisráðherra sagði á erlendri grundu, né til að afstýra einhverjum skærum eða styrjöldum milli annarra landa. Það er til lítils að aka um á rafbíl meðan farnar eru margar ferðir með flugi til útlanda. Það telst hræsni. Það dugir lítið að gleypa hvaða vitleysu sem er til að sporna gegn losun co2 í andrúmsloftið en versla sem vitfirringur vörur frá Kína, sem byggir hvert kolaorkuverið af öðru.

Ekki má gleyma þeirri staðreynd að mitt í þessu peningafylleríi og dekri við erlenda aðila, eru innviðir landsins að grotna niður. Vegakerfið er ónýtt, heilbrigðiskerfið er komið af fótum fram, skólakerfið í molum, aldraðir og öryrkjar búa margir langt undir sultarmörkum og sumir jafnvel á götunni. Ungafólki verður að búa í foreldrahúsum langt fram á aldur, vegna þess að það getur hvorki leigt né keypt sér húsnæði. Lægra verður vart komist!

Því miður er útlitið ekki gott. Stjórnvöld eru gjafmild á fé sem ekki er til, tekur erlend lán í gríð og erg sem afkomendur þurfa síðan að greiða.

Þá stefna stjórnvöld hörðum höndum að því að fórna auðlindum okkar. Náttúrunni verður aldrei bjargað með því að fórna henni.

Og hvað eigum við þá?

Hverju ætlum við þá að skila til afkomenda okkar?! Ónýtu landi án allra auðlinda og erlendar stórskuldir?


"bara sjálfstætt mál"

Allir sem vilja framkvæma eitthvað hér á landi þurfa því að fara að ákveðnum reglum og ef framkvæmd er meiriháttar eru þessar reglur strangari. Ef einhverjum dettur í hug að kæra framkvæmdina, þarf að afgreiða þá kæru áður en framkvæmdir geti hafist.

Þetta er svo sem eðlileg afgreiðsla mála. Að vel sé vandaður undirbúningur, allra leyfa aflað og almennt farið að lögum. Ef einhverjum sem málið varðar dettur til hugar að kæra framkvæmdina, annað hvort vegna þess að hann telur á sér brotið eða einhvers annars, ber að fresta framkvæmd þar til afgreiðsla þeirrar kæru hefur verið lokið.

Vissulega getur þetta tafið framkvæmdir, stundum þarfar framkvæmdir, um nokkurn tíma. Sennilega frægasta framkvæmd sem tafin hefur verið með slíkum kærum vegurinn um Teigsskóg. Aðrar þarfar framkvæmdir hafa einnig oft tafist vegna þessarar málsmeðferðar. Jafnvel einstaklingar, sem hafa haft allt á borðinu, aflað allra leyfa og verið klárir í minniháttar framkvæmdir, hafa þurft að sitja undir þessari reglu, að fresta framkvæmdum þar til kæra var afgreidd.

Þetta er það sem við köllum lýðræðisafgreiðsla, að allir séu jafn réttháir til að tjá sig og jafn réttháir til að hafa áhrif á hvernig við förum með landið okkar. Ef tjáning ein dugir ekki eða ekki er hlustað, eru dómstólar látnir skera úr um lögmæti framkvæmdarinnar, bæði gagnvart þeim er kærir sem og framkvæmdaraðila.

En nú ber nýtt við. Vindorkuver virðast vera utan laga og reglana hér á landi. Þar eru kærumál vegna framkvæmda "bara sjálfstætt mál". Engin ástæða til að bíða eftir dómstólum vegna kærunnar.

Ef þetta er tónninn sem gefinn er, erum við í verri málum en áður. Þá geta vindbarónar ætt hér yfir landið okkar og eytt því, í nafni þess að allar andbárur og jafnvel kærur séu bara "sjálfstætt mál" sem komi þeim ekki við!


mbl.is Munu hefja framkvæmdir þrátt fyrir kæru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhæfa í lýðræðisríki

Það eru stór orð sem umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra lætur frá sér. Líkjast meira orðum einræðisherra en ráðherra í lýðræðisríki. Ekki víst að hann geti staðið við þau og gerlega búinn að gera sig óhæfan til að fjalla um málið eða afgreiða það sem ráðherra. Hann verður því að víkja.

Fram hefur komið að sveitarstjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps hafi á öllum stigum málsins lýst sig andvíga hugmyndum Landsvirkjunar um vindorkuver. Ekkert tillit hefur verið tekið til þeirra sjónarmiða, né reynt að bera klæði á deiluna. Anað áfram eins og naut í flagi. Það er því varla undarlegt að sveitarstjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps ákveði að kæra málið, reyndar hefði verið stór undarlegt ef hún hefði ekki gert það.

Mikið er látið með að Landsvirkjun hafi unnið að málinu í tvo áratugi og að fyrirtækið hafi farið eftir öllum leikreglum í málinu. Hvernig má það vera? Hvernig má það vera að fyrirtækið hafi farið eftir leikreglum? Hvaða leikreglum?

Enn hafa engar leikreglur verið settar um vindorku á Íslandi. Ríkisstjórnin samþykkt þó fyrir örfáum dögum tillögu umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra um lagasetningu varðandi þetta mál. Alþingi á þó eftir að samþykkja þau lög. Þannig að enn eru engin lög eða leikreglur um hvort eða hvernig landinu okkar verður fórnað undir vindorkuver. Og vonandi mun Alþingi sjá sóma sinn af því að fella þessa tillögu ráðherrans um málið, eða í það minnsta gera verulegar breytingar á þeim. Það er engum hollt og allra síst öfgafólki eins og því er nú sitja í ráðherrastólum, að fá slík völd sem orku-, umhverfis- og loflagsráðherra er þar að skapa sér.

Slíkt er óhæfa í lýðræðisríki!

Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni!


mbl.is Ósáttir við kæru sveitarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og enn er nöldrað um vindorku

Það er alveg magnað að hægt sé að byggja vindorkuver á mörkum sveitarfélaga, án samráðs þeirra í milli. Ef ég vil byggja mér lítinn skúr á lóð minni þarf ég að hlíta ströngum kröfum um hæð hans og flatarmál og ef hann er nær lóðamörkum nágrannans en 3 metrar þarf ég skriflegt samþykki hans. Samt geta vindbarónar byggt himinhár vindtúrbínur, allt að 200 metra háar á mörkum jarða og sveitarfélaga án nokkurs samráðs við nágranna sína! 

Sú deila sem er uppi milli sveitarstjórna á suðurlandi um staðsetningu vindorkuvers Landsvirkjunar, við innganginn á hálendið okkar, sýnir að fjarri fer að einhver sátt sé um þessa aðferð orkuöflunar. Reyndar er annað dæmi til þar sem svipuð staða er uppi, þ.e. í landi eiginkonu barnamálaráðherrans og tengdaföður hennar, Sólheimum í Dalabyggð. Þar er franskt fyrirtæki með áætlanir um byggingu vindorkuvers, reyndar töluvert öflugra en Landsvirkjun ætlar að reisa. Töluvert hærri og öflugri vindtúrbínur.

Staðsetning þessa vindorkuvers er á mörkum Dalabyggðar og Húnaþings Vestra. Framkvæmdasvæðið og einnig helgunarsvæði þessa vindorkuvers nær klárlega yfir sveitarfélagsmörk og hugsanlega mun einhverjar vindtúrbínur lenda í landi Húnaþings Vestra. Landamörk þarna á milli eru ekki skýr. Þó hefur hvorki það sveitarfélag, né þeir bændur er eiga lönd að, eða inná svæði vindorkuversins neina aðkomu að þessari framkvæmd. Þvert á móti er tekið illa í athugasemdir þeirra.

Nú veit ég ekki hvort Húnaþing Vestra hafi gert athugasemdir til Skipulagsstofnunar um þessa framkvæmd, geri þó fastlega ráð fyrir því. Frestur til að skila slíkum athugasemdum rann út núna á miðnætti. Þetta vindorkuver verður númer tvö í röðinni, hér á landi, á eftir vindorkuveri Landsvirkjunar.

Ef vindorkuver væru umhverfisvæn mætti hugsanlega horfa framhjá þeirri sjónmengun sem þau valda. Svo er þó ekki. Mengun þessara mannvirkja er mikil og mest mengun sem ekki er afturkræf.

Ef vindorkuver væru hagkvæm í rekstri mætti kannski horfa til þessara framkvæmda með blinda auganu. En fjarri fer að einhver hagkvæmni finnist í rekstri vindorkuvera. Í löndum þar sem orkuverð er margfalt hærra en hér á landi, reynist ekki unnt að reka þessa orkuöflun með hagnaði. Niðurgreiðslur til þeirra er gríðarleg og dugir þó ekki til. Einu vindorkuverin sem geta sagt að þau séu rekin með hagnaði eru þau orkuver sem fá greitt fyrir að framleiða ekki rafmagn. Þegar einn skoskur eigandi að slíku orkuveri var spurður hvort ekki væri fráleitt að byggja vindorkuver sem ekki mætti framleiða rafmagn, sagði hann stoltur að þetta minnkaði viðhaldskostnað og yki endingu vindtúrbínanna sinna. Honum var slétt sama þó almenningur væri að greiða fyrir ekkert.

Byggingakostnaður vindorkuvera er gjarnan greiddur með styrkfé og lánum. Fyrirtækin sem að baki standa eru fæst burðug til að greiða þann kostnað. Vel er þekkt erlendis að menn láti sig hverfa með stórann hluta þess fjár í skattaskjól. Er einhver ástæða til að ætla að erlendir vindbarónar sem hingað koma hagi sér eitthvað öðruvísi?

Að byggja vindorkuver á Íslandi, þar sem næg orka er til í fallvötnum og jarðhita, er álíka gáfulegt og að höggva skóg í vesturheimi, brytja hann niður í flísar og sigla tugi þúsunda tonna af slíkri flís til Íslands. Landa henni hér og skipa síðan aftur út á pramma sem dreginn er hálfa leið aftur til vesturheims, þar sem öllum þessum tugum þúsunda er sturtað aftur í sjóinn.

Fyrir þessari vitleysu féllu stjórnvöld hér á landi og margir sem töldu þarna veri gríðarleg tækifæri fyrir land og þjóð. Þegar eftirlitsstofnanir gerðu athugasemdir tóku ráðherrar fram fyrir hendur þeirra.

Sömu aðilar hafa fallið fyrir vindorkudraumunum. Sumir af því þeir hafa beina hag af því, aðrir af fávisku.

Hvenær í ósköpunum ætlar þjóðinni að auðnast að fá til starfa fyrir sig, við stjórn landsins, fólk sem hefur þann kost að geta lært af mistökum annarra þjóða?


mbl.is „Gríðarlega hættulegt fordæmi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband