Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
"Mokið, mokið, mokið, mokið, mokið meiri snjó"
4.1.2023 | 00:07
Mikið er rifist um snjóruðning í höfuðborginni okkar. Ekki laust við að ætla að þar sé stjórnað af fólki sem er svo mikið alheimsfólk að það gleymir þeirri staðreynd að stundum snjóar á Íslandi.
Sjálfur bý ég á Skaganum og þar var ágætlega staðið að snjóruðningi. Reyndar ekki komið í götuna hjá mér, en við sem við hana búum erum svo sem ekki óvön því. Hugsanlega má líka telja að snjómokstur hjá okkur hafi verið svona góður vegna þess hversu lítið snjóaði.
Og það var einmitt málið, snjókoman var ekkert svo mikil. Hvorki hér á Skaganum né í höfuðborginni. Heldur meira snjóaði í nágrannabæjum borgarinnar, Mosfellssveit og uppbyggðum Kópavogs, en þar gekk einnig ágætlega að halda opnu. Öfugt við borgina. Nokkurn byl og blindu gerði hins vegar um tíma.
Það væri fróðlegt ef gerði alvöru snjókomu í borginni, svona svipað og austan Hellisheiðar. Þar hefur sannarlega snjóað. Hvað ef svona snjókoma færi yfir höfuðborgina okkar? Hverjum væri þá um að kenna?
Enn og aftur reynir borgarstjórnarmeirihlutinn að koma af sér sök. Ástæða þess að borgin var kolófær, þegar tiltölulega lítinn snjó gerði, er öllum öðrum um að kenna. Formaður einhverrar nefndar er látinn standa í stafni borgarstjórnar og halda uppi ruglinu. Fyrst var ástæðan að aðkeyptir viðbragðsaðilar hefðu ekki mætt þegar kallið kom, svo var haldið að fólki þeirri rökleysu að ekki væru til næg tæki og tól til að sinna verkinu. Því var einnig haldið fram að tafist hafi að endurskipuleggja snjómokstur borgarinnar. Og í dag fræddi þessi formaður okkur um að ástæða þeirrar tafa væri sleifarlag minnihlutans í borginni, að hann hefði ekki getað skipað fulltrúa í nefndina. Þetta er orðinn slíkur farsi að engu tali tekur. Trúir einhver þessu andsk... bulli?
Það er annars ágætt að meirihlutinn vilji nú starfa með minnihlutanum, það hefur ekki borið á slíkum vilja fyrr. Eða er aðild minnihlutans kannski bara æskileg þegar á bjátar í stjórnun? Ef svo er, ætti meirihlutinn fyrir löngu að vera búinn að færa minnihlutanum lykilinn að borginni, svo mikið er víst. Þá yrði borginni kannski stjórnað almennilega, án þess að eilíft væri verið að endurskipueggja einföldustu hluti.
Annars er sennilega fyndnasta tillagan komin frá fulltrúa VG, er hún lagði til að borgin keypti skóflur fyrir borgarbúa. Þegar svo skömmu síðar byggingavöruverslanir auglýstu að snjóskóflur væru að verða uppseldar, hélt ég í alvöru að hún hefði fengið meirihlutann til samstarfs.
Hvað sem öllu líður, þá var snjókoman fyrir jól ekkert svo ofboðsleg, miðað við hvað getur orðið. Íbúar á norðanverðu landinu gerðu góðlátlegt grín af borgarbúum, enda þekkja þeir snjóinn nokkuð vel. Það er ekki stórmál eða vísindi að ryðja snjó af götum og sú uppákoma sem varð í borginni því engan vegin afsakanleg. Þar gildir sú megin regla að fá sem flest tæki strax. Fleiri tæki afkast meiru en færri, það þarf hvorki nefnd né vísindamenn til að átta sig á því. Og fleiri tæki í styttri tíma, kosta varla mikið meira en færri tæki svo dögum skiptir.
Að halda götum borgarinnar opnum er ekki bara réttlætismál íbúa, það er ekki síður öryggismál, að viðbragðsaðilar komist um borgina.
Að hægt sé að halda uppi öryggi borgarbúa.
![]() |
Ábyrgðarhlutur að borgin geri ekki ráðstafanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sorgleg fyndni
2.1.2023 | 08:42
Um áramót er gjarnan rætt um skaupið, þetta sem ruv sýnir landsmönnum. Ég ætla hins vegar að ræða um hitt skaupið, þetta sem við erum uppfrædd af fjölmiðlum alla daga. Það skaup er mun skemmtilegra en hitt, en einnig nokkuð sorglegra fyrir suma hópa.
Í viðhengdri frétt fjargviðrast formaður rafbílasambandsins um að stjórnvöld séu að úthýsa rafbílnum á Íslandi. Að skattlagning á þessa bíla muni valda því að þeir verði ekki keyptir.
Fyrir það fyrsta þá eru rafbílar leiktæki auðvaldsins. Enginn venjulegur launþegi kaupir slíka bíla, enda verð þeirra nokkuð ofan kaupgetu þeirra. Sumir láta þó blekkjast af gylliboðum bankanna og taka lán fyrir slíkum bíl, en vart er hægt að hugsa sér að innleiðing rafbíla verði fjármögnuð á þann hátt. Það myndi stefna þjóðarskútunni beinustu leið í strand, sér í lagi ef ríkissjóður má ekki leggja á þessa bíla neinn skatt.
Því er það svo að láglaunafólkið, sem flest ekur á eldsneytisbílum, þarf um þessi áramót að greiða enn meira í ríkisjóð af sínum akstri, svo auðvaldið geti keypt sér dýra rafbíla án afskipta ríkissjóðs. Þetta er sorgleg fyndni.
Önnur frétt á mbl í dag fjallar um ófærð og ferðaþjónustu. Þar kveinka ferðaþjónustuaðilar yfir að ekki skyldi koma óveður á gamlársdag, með tilheyrandi ófærð. Vilja kenna veðurfræðingum um skandalinn.
Það er ekki veðurfræðingum að kenna, eða þakka, þó veðrið verði betra en spáð er. Þar ráða náttúruöflin. Veðurfræðingar spá samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, hverju sinni. Í þeirri spá sinni reyna þeir að vera eins nákvæmir og hugsast getur, en ef vafi er til staðar verða þeir ð gera ráð fyrir verri kostinum. Annað væri fráleitt og beinlínis hættulegt.
Varðandi vegalokanir þá er ljóst að mun fyrr er lokað vegum í dag en áður fyrr. Þar er þó ekki um að kenna verra veðri og enn síður veðurfræðingum eða almannavörnum. Ástæðan er einfaldlega sú að búið er að markaðssetja Ísland sem heilsárs ferðaland. Þetta veldur því að erlendir ferðamenn, sem koma hingað til lands, er talin trú um að geta ferðast um landið þvert og endilangt, alla daga ársins. Þegar svo náttúran okkar ræskir sig örlítið, þá verða þessir ferðamenn strand á þjóðvegunum, jafnvel þó okkur landanum, a.m.k. okkur landsbyggðafólki, þyki ekki mikið til koma með veður eða færð. Því verður að loka vegum mun fyrr, svo þetta ferðafólk fari ekki sjálfu sér að voða eða stofni öðrum í hættu.
Það er ekki veðrið eða færðin sem ræður lokunum, heldur það erlenda ferðafólk, stundum á illa búnum bílaleigubílum, hefur litla eða enga reynslu í akstri í snjó og hálku og sumt hvert aldrei séð snjó á sinni ævi. Þar ráða ferðaskrifstofurnar öllu. Þær skaffa fólki bílana og þær markaðssetja Ísland á erlendri grundu. Þetta er sorgleg fyndni.
Þá má ekki gleyma blessaðri stjórnmálastéttinni okkar. Síðustu daga þingsins, fyrir jólafrí, voru umræður um kjör þeirra sem allra minnst hafa í okkar þjóðfélagi. Þar stóðu ráðherrar sem einn í því að standa gegn smá bótum til þessa hóps, meðan þeir á sama tíma útbýttu tugum og hundruðum milljóna í ýmis önnur málefni. Vart var þetta fólk gengið út úr steinhúsinu við Austurvöll, þegar það fór að ræða kjör hinna verst settu og að standa þyrfti vörð um þann hóp.
Svo kom nýtt ár og með því sjálf Kryddsíldin. Þar lét þetta fólk sína visku njóta sín, eða þannig. Sumir komu betur fyrir en aðrir og sumir urðu, að venju, sér sjálfum til skammar. Auðvitað allir sammála um að verja þurfi kjör þeirra sem verst standa, þrátt fyrir að allir fréttamiðlar væru stút fullir af fréttum um hinar ýmsu hækkanir skatta, sem tækju gildi þann sama dag.
Það var engu líkara en að þessir pólitísku leiðtogar okkar væru í einverjum öðrum heimi en við hin. Þetta fólk er sorglegt.
Læt staðar numið að sinni þó margt fleira mætti telja fram. Eitt er þó víst að spaugstofa ruv mun aldrei toppa íslenskan raunveruleik, hvorki í spaugi né sorg.
Óska öllum farsældar á nýju ári.
![]() |
Á góðri leið með að úthýsa rafbílum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Snilldar viðskiptamódel Landsvirkjunnar
16.12.2022 | 16:09
Margir hafa undrast þá ráðstöfun að hægt sé að selja upprunavottorð (aflátsbréf) fyrir raforku til annarra landa, jafnvel þó engin tenging sé þar á milli. Að orka sem framleidd er í einu landi sé sögð nýtt í öðru, án tenginga þar á milli. Þetta er náttúrulega svo út úr kú að engu tali tekur. Af þessum sökum er framleidd orka, samkvæmt pappírum, með bæði kolum og kjarnorku, hér á landi. Þó eru slík orkuver ekki til og ekki stendur til að reisa þau. Hvernig þessi ósköp koma fram í loftlagsbókhaldi Íslands hefur ekki komið fram, en vart er hægt að nota þessa hreinu orku okkar mörgum sinnum.
Til þessa hafa þessi aflátsbréf orkuframleiðenda verið valkvæð. En nú skal breyta því. Landsvirkjun, fyrirtæki okkar landsmanna, hefur ákveðið að allir notendur raforku frá þeim skuli kaupa aflátsbréf, hvort sem þeir vilja eða ekki. Þetta mun hækka orkuverð til notenda um allt að 20% á einu bretti. Fyrir hinn almenna borgara gerir þessi ráðstöfun ekkert annað en að hækka orkureikninginn, enda markmiðið það eitt, af hálfu orkuframleiðenda.
En skoðum aðeins málið., Nú þegar selur Landsvirkjun aflátsbréf fyrir 61% af sinni orkuframleiðslu, að megninu til til erlendra fyrirtækja. Eftir stendur að fyrirtækið er að framleiða 39% af sinni orku sem hreina orku. Hitt er framleitt með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku hér á landi, eða þannig.
Sem sagt, Landsvirkjun hefur til umráða 39% af sinni orku sem hrein orka. Samt ætla þeir að rukka alla notendur sína um aflátsbréfin góðu. Það segir að fyrir stóran hluta af sinni framleiðslu ætlar fyrirtækið okkar að selja aflátsbréfin tvisvar, fyrst til erlendra kaupenda og síðan til eigenda sinna.
Er hægt að finna meiri snilld í viðskiptum?
Hvar er Alþingi nú? Hvers vegna er þetta mál ekki rætt þar? Eru þingmenn svo uppteknir við að leita sér málefna á facebook, til að ræða í sal Alþingi? Er þeim algerlega fyrirmunað að greina hismið frá kjarnanum?
Margt skrítið í kýrhausnum
13.12.2022 | 12:31
Það er margt skrítið í kýrhausnum. Kýr ropa og reka við og hafa alla tíð gert. Því teljast þessar blessaðar skepnur nú til helstu ógnar við mannkynið, jafnvel þó kýr hafi alla tíð ropað og rekið við og lítil breyting þar á síðustu þrjá áratugi.
Í Hollandi hefur verið tekin sú ákvörðun að fækka kýrhausum um helming, til bjargar mannkyni. Samhliða þessari ákvörðun, ákváðu Hollendingar að ræsa gömul og úrsérgengin kolaorkuver. Frekar skrítið.
Í Danmerkurhreppi eru bændur farnir að ókyrrast. Heyrst hefur að hreppsnefndin þar sé að íhuga álíka dóm gegn blessaðri kúnni, að afhöfða þurfi slatta að þeim bústofni, væntanlega líka til að bjarga mannkyni jarðar.
Talandi um Danmerkurhrepp, þá hafa Danir verið einstaklega duglegir við að virkja vindinn, enda fátt annað virkjanlegt þar í landi. Svo merkilega vill til að þegar vel blæs á Jótlandsheiðum, blæs yfirleitt einnig ágætlega í norðurhluta Þýskalands. En þar um slóðir og fyrir ströndum þess, eru einnig mikil vindorkuver. Því getur komið upp sú staða að orkuframleiðsla á þessum slóðum getur orðið meiri en gott þykir, þ.e. gott þykir hjá framleiðendum orkunnar. Ofgnótt orku leiðir jú til lækkaðs markaðsverð hennar, eitthvað sem framleiðendur orkunnar eru ekki par sáttir við. Því hafa þýskir orkuframleiðendur tekið það upp hjá sér að greiða þeim dönsku fyrir að stoppa sínar vindtúrbínur, til að halda orkuverðinu sem hæstu. Þetta er gert með samþykki ACER, verjanda orkustefnu ESB.
Og hvernig bregst svo danskurinn við? Jú, hann ætlar að margfalda vindorkuframleiðslu sína. Væntanlega til að fá enn meira borgað fyrir að láta þær ekki snúast. Getur jafnvel sleppt því að hafa þær með spöðum!
Þetta er auðvitað galið. Jafnvel Orwell hefði ekki getað spunnið upp söguþráð sem slær þessum staðreyndum við.
Tásumyndir frá Spáni
6.12.2022 | 18:35
Nú kemur oddviti Fljótsdalshéraðs í fjölmiðla og aftekur að um einhverskonar mútur hafi verið að ræða, er honum ásamt nokkrum landeigendum þar eystra var boðin ferð suður í sólina á Spáni, af ótilgreindu dönsku fyrirtæki. Fyrirtæki sem sækist eftir að byggja vindorkuver af áður óþekktri stærð á landi. Hvort oddvitinn sem einnig er einn landeigenda sem hag munu hafa af því að selja náttúru landsins okkar, greiddi fyrir þessa ferð sjálfur eða ekki skiptir svo sem ekki höfuð máli. Það sem máli skiptir er að þetta óþekkta danska fyrirtæki skipulagði ferðina og skoðanaferðir í henni. Þá skiptir auðvitað miklu máli að æðsta vald sveitarinnar, oddvitinn, skuli einnig vera meðal þeirra landeigenda sem að málinu koma. Sveitarstjórn fer með skipulagsvald og oddvitinn er höfuð sveitastjórnar. Varla er hægt að nefna skýrara dæmi um hagsmunaárekstur.
Oddvitinn og landeigandinn taldi slíka ferð nauðsynlega, svo hægt væri að gera sér grein fyrir því um hvað málið snýst. Ekki veit ég hvað ferð til Spánar gat upplýst oddvitann, en samkvæmt þeim myndum sem byrst hafa úr þessari ferð, fengu ferðalangarnir úr Fljótsdalnum að sjá litlar úreltar vindtúrbínur, staðsettar í eyðimörk. Varla hefur sú sýn upplýst ferðalanga mikið um það sem til stendur að byggja á Fljótsdalsheiðinni.
Samkvæmt fyrstu fréttum af þessu máli, settar fram í Bændablaðinu, var ekki vitað um framkvæmdaraðila annað en hann væri danskur. Þar var einnig talað um að byggja ætti 58 stk af vindtúrbínum sem hefðu uppsett afl allt að 350 MW. Það gerir að hver túrbína þarf að geta framleitt 6 MW. Þarna erum við að tala um stærðir sem vart þekkjast annars staðar. Samkvæmt heimasíðum vindtúrbínu framleiðenda er 6 MW vindtúrbína að lágmarki rúmlega 200 metrar á hæð. Fer þó aðeins eftir framleiðendum, sumir nefna enn hærri tölur.
Þegar síðan farið er inn á heimasíðu Skipulagsstofnunar, má finna þar skipulagsáætlun er framkvæmdaraðili hefur látið gera fyrir sig og skilað inn til stofnunarinnar. Þar er nafn fyrirtækisins ekki lengur leyndarmál, heldur um að ræða norska fyrirtækið Zephyr. Forsvarsmaður þess hér á landi er enginn annar en Ketill Sigurjónsson, en hann hefur farið í einskonar víking um landið og falboðið mönnum lönd þeirra. Undir vindorkuver. Hvergi hefur hann þó verið jafn stórtækur og þarna eystra. En það er fleira sem kemur fram í þessari áætlun Zephyr. Nú er ekki lengur talað um 350 MW framleiðslugetu, heldur 500 MW með allt að 90 vindtúrbínum. Nú fara leikar að æsast og stærðir komnar langt út fyrir raunveruleikaskyn almennings. Áttum okkur á því að þetta norska fyrirtæki er mjög stórtækt í heimalandinu, með fjölda vindorkuvera. Þó er samanlögð aflgeta allra þeirra orkuvera einungis um 800 MW. Einungis 300 MW minni en aflgeta orkuversins á fljótsdal á að vera. Pælið örlítið í því!
Samkvæmt korti er fylgir þessari áætlun Zephyr, er gert ráð fyrir að þetta orkuver verði á Fljótsdalsheiðinni, nokkurn veginn beint upp af innri enda Lagarins. Þetta svæði er nokkuð gróðursælt með fjölda tjarna. Fuglalíf er mikið á svæðinu og hreindýr ganga þar um. Talandi um hreindýr, þá er nýfallinn dómur í Noregi þar sem vindorkuver var stöðvað, vegna skerðingar á beitarsvæði hreindýra. Þetta er engin spænsk eyðimörk þarna, heldur náttúra íslands í sinni fegurstu mynd. Þá vekur nokkra athygli hversu lítið svæði er afmarkað á þessu korti í áætluninni. Ekki verður séð að hægt verði að koma fyrir allt að 90 vindtúrbínum innan þess.
Þá er þetta svæði nærri flugleiðinni að Egilstöðum, þar sem byggja á upp betri aðstöðu fyrir hann sem einn af varaflugvöllum landsins. Stjórnvöld geta varið þeim peningum í annað, verði að byggingu þessa risa vindorkuvers.
Ekki veit ég hvort ferðalangarnir austfirsku, tóku af sér tásumyndir í Spánarferð sinni. Hitt er ljóst að þeir hefðu sennilega orðið jafn upplýstir af slíkum myndatökum og þeir urðu af myndatökum af litlu úreltu vindorkuverunum í eyðimörkinni þar í landi. Allar þær stærðir sem nefndar eru í sambandi við þetta risa orkuver á Fljótsdalsheiðinni eru slíkar að engin ferð erlendis getur komið mönnum í skilning um hvað sé í gangi.
Hafi þeir landeigendur sem ætla að selja land sitt til þessa norska fyrirtækis, fyrirtækis sem er þekktast fyrir málssóknir í heimalandinu og óvirðingu fyrir náttúrunni, ævarandi skömm fyrir!
![]() |
Risavindorkugarður undirbúinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nagladekk- eða ekki / öryggisbelti- eða ekki
5.12.2022 | 16:16
Nú síðustu daga hefur verið nokkur hálka á vegum. Þá er gott að vera kominn með nagladekkin undir bílinn.
Mikill áróður er gegn notkun nagladekkja hér á landi. Þar fara hæst sumir stjórnmálamenn, sem telja sig höndla sannleikann í hverju máli. Þó er staðreynd sem ekki verður hrakin að engin dekk ráða betur við þær aðstæður er verið hafa snemma morguns og seint að kvöldi, síðustu daga. Vissulega eru til dekk sem ráða ágætlega við þetta, harðkornadekk, loftbóludekk og sumar tegundir vetrardekkja eru orðin mjög góð í hálku, en engin þeirra betri en nagladekkin. Þá er einnig vitað að aldur dekkja skiptir máli, að ný sumardekk geti jafnvel verið betri í hálku en gömul ónegld vetrardekk. Auðvitað er það svo að engin dekk, negld eða ónegld, gefa fullkomna viðspyrnu í hálku. Ætið þarf að aka við þær aðstæður af varúð. En enginn getur haldið því fram að ónegld dekk séu betri en negld dekk, í ísingu og hálku.
Notkun nagladekkja er öryggismál. Þeir sem halda því fram að nagladekk séu óþörf, að slík tækni hafi átt sér stað í framleiðslu dekkja, að naglar séu óþarfir, geta allt eins sagt að framleiðsla bíla hafi tekið slíkum stakkaskiptum að öryggisbelti séu óþörf. Og vissulega hefur orðið mikil breyting í bílaframleiðslu síðust áratugi, þar sem megin áhersla er lögð á öryggi farþega, að ekki sé talað um að allir bílar eru komnir með loftpúða til að verja farþega. Engum, ekki einu sinni allra fávísustu stjórnmálamönnunum, dettur þó til hugar að nefna að öryggisbelti séu óþörf. Enda öryggi í umferðinni aldrei of mikið. Því er nánast ótrúlegt að fólk sem vill láta taka mark á sér, skuli tala gegn einu mesta umferðaröryggi sem hægt er að hugsa sér, þegar að hálku kemur. Einungis keðjur geta talist betri en nagladekk.
Þarna skipta aurar auðvitað mestu máli fyrir stjórnmálamenn. Notkun öryggisbelta eykur ekki neinn kostnað fyrir ríki og sveitarfélög, meðan hægt er að halda því fram að naglar auki slit á götum. Þar er þó kannski stærri sökudólgur saltaustur á göturnar. Á móti kemur kostnaður vegna slysa sem orsakast vegna notkunarleysis á nagladekkjum. Beinn kostnaður af þeim tjónum leggst á tryggingafélögin, ríki og borg og fyrirtækin og lendir að endingu alltaf á almenningi. Óbeini kostnaðurinn, örkumlun eða dauði, lendir hins vegar á nánustu fjölskylduaðilum. Þann kostanað er ekki hægt að reikna til aura.
Niðurstaðan verður alltaf að kostnaður við nagladekkjanotkun er lægri, þegar upp er staðið.
Verum ekki fífl, nýtum alla möguleika í umferðaröryggi.
Ökum á nagladekkjum.
![]() |
Hálka víða um land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eru austfirðingar gengnir af göflunum?
26.11.2022 | 16:39
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins er mikil grein um vindorkuver í Fljótsdal. Auðvitað er þetta kallað vindmillugarður, þó fyrirbrigðið eigi ekki neitt skylt við vindmillur og því síður garð. Þetta eru risavaxnar vindtúrbínur og um er að ræða orkuver af stærri gerðinni.
Samkvæmt greininni er ekki um neinn ágreining að ræða um þessa vegferð, í héraðinu og því fyllilega hægt að spyrja hvort Héraðsbúar séu gjörsamlega gengnir af göflunum. Reyndar trúi ég ekki að slík samstaða sé um verkið sem segir í þessari grein, þó vissulega einhverjir landeigendur séu auðkeyptir á sitt land, að ekki sé nú talað um svokallaða "vettvangsferð" sem þeim var gefin, til Spánar.
Þessi svokallaða vettvangsferð þeirra virðist hafa verið vel valin að vindbarónunum. Samkvæmt mynd sem fylgir greininni hefur fólkinu verið sýndar vindtúrbínur af smærri gerðinni, úreltar túrbínur. Að auki virðist sem þær séu reistar í eyðimörk, ekki á frjósömu landi eins og tíðkast hér á landi, ekki síst á frjósömum heiðum Fljótsdalsins. Að sjá af þessum myndum er um að ræða vindtúrbínur með aflgetu á milli 1 og 2 MW, meðan áætlað er að reisa vindtúrbínur með aflgetu yfir 6MW í þessu orkuveri þar eystra. 2MW vindtúrbína losar 100 metra hæð, meðan 6MW vindtúrbína getur farið yfir 300 metra hæð. Þarna er himinn og haf á milli. Reyndar verður að segjast eins og er að sennilega er erfitt að finna vindorkuver erlendis, af þeirri stærðargráðu sem ætlað er að byggja á Fljótsdalsheiðinni, hvort heldur er stærð vindtúrbína eða fjölda þeirra. Leifi fyrir slíkum risamannvirkjum fást ekki þar yrta. Menn ættu aðeins að velta fyrir sér áhuga erlendra fjármálamanna á Íslandi í þessu skyni.
Eins og áður segir er áætlað að reisa þarna vindtúrbínur með aflgetu upp á 6MW og þær eiga að vera alls 58 stykki! Það er ekki neitt smá landflæmi sem þarf fyrir slíkt orkuver. Aflgeta orkuversins á að vera 350 MW, eða ca. hálf Kárahnjúkavirkjun, eða vel rúmlega tvær Sigölduvirkjanir, svo dæmi séu tekin. Þarna eru svo risavaxnar stærðir í gangi að það nær ekki nokkurri átt. Í ofanálag eru áætlanir þeirra sem að þessu orkuveri standa, að nýting þess verði 45%. Það er einhver besta nýting sem sést hefur í vindorkuveri og þó hafa enn engar rannsóknir farið fram um vindafar á svæðinu. Vel er þó þekkt sú veðurblíða sem oft gengur þarna yfir.
Samhliða þessu og það sem þessir aðilar leggja megin áherslu á er bygging rafeldsneytisverksmiðju niður á fjörðum. Þar er áætlað að vinna rafeldsneyti og úr aukaafurð þess mætti byggja áburðarverksmiðju. Sá böggull fylgir þó skammrifi að þessi verksmiðjuáform verða ekki að veruleika nema þetta risastóra vindorkuver verði reyst. Halda þessir menn að fólk, svona almennt, sé fávíst? Þó þeim takist, með fagurgala og Spánarferðum að plata einhverja landeigendur þar eystra, þíðir lítið að bera svona þvætting á borð þjóðarinnar. Að halda því fram að erlendir fjármálamenn vilji ekki fjárfesta hér í stóriðju nema að um ótrygga orku sé að ræða er fásinna. Að það sé sett fram sem skilyrði af þeirra hálfu. Hvað ætla þeir að gera þegar margrómað góðviðrið brestur á þarna? Ætla þeir bara að stoppa alla framleiðsluna og bíða þar til vindur blæs?! Þvílíku og öðru eins bulli hefur fáum tekist að halda fram.
Auðvitað er þessi svokallaða rafeldsneytisverksmiðja einungis rúsínan í málflutningi þessara manna, til þess eins ætluð að liðka fyrir samþykki á risastóru vindorkuveri. Það vita allir sem vilja vita, að þeir aðilar sem vilja byggja vindorkuver á hverjum hól hér á landi, eru ekki að því til að nýta þá orku innanlands. Það eitt að verð orkunnar hér er mjög lágt, meðan orkuverð á meginlandinu er í hæstu hæðum, segir manni hvert þeir stefna. Þeir ætla sér að fá sæstreng, annað er ekki í boði. Einungis þannig geta þessir fjármálamenn ávaxtað fé sitt. Orkupakki 3 opnaði á þann möguleika.
Þessi bull málflutningur er svo gjörsamlega út í hött að engin skáldsaga slær honum við. Þeim er vorkunn sem trúa þessu, en því miður virðist flest vera falt fyrir örfáa skildinga og ekki verra að fá ferð til Spánar í kaupbæti! Smá aurar og ferðalag virðist geta látið ágætis fólk tapa glórunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að gefa út gúmmítjékka
22.11.2022 | 08:32
Meðal íslenskra stjórnmálamanna, sér í lagi þeirra sem veljast til ráðherrastóla, þykir enginn maður með mönnum nema hann gefi út óútfylltan tékka (gúmmítjékka), á erlendri grundu. Stundum er ríkissjóð ætlað að greiða slíka tékka, en einnig þekkist að ráðamenn þjóðarinnar lofi peningum sem þeir hafa engin yfirráð yfir, eins og þeim peningum er landsmenn geyma í lífeyrissjóðum sínum. Sjaldnast liggur fyrir heimild fyrir slíkri tékkaútskrift, hvort heldur Alþingi á þar í hlut eða aðrir sjóðir ótengdir þeirri stofnun. Og nú hefur einn ráðherra gefið út slíkan tékka, án þess að hafa hugmynd um hver upphæð hans muni vera, hvað þá að einhver heimild liggi fyrir þeirri útgáfu.
Þessi sjóður, sem enginn veit hversu stór verður, enginn þjóð veit hvað hún þarf að leggja mikið til hans og að flestu leiti fátt um vitað, hefur Ísland verið skuldbundið til að þjóna, án aðkomu Alþingis.
Það eina sem liggur nokkuð ljóst fyrir er hvaða þjóðir muni geta sótt styrki í þennan sjóð. Það eru svokölluð "verr" sett ríki og hin betur sett eiga að greiða. Flest þessara "verr" settu ríkja hafa þó efni á að halda úti stórum herjum, eiga kjarnorkuvopn og senda rakettur út fyrir gufuhvolfið, sum stefna jafnvel á ferðir til tunglsins.
Þjóð sem heldur stóran her, á kjarnorkuvopn og jafnvel stundar það að skjóta rakettum út fyrir gufuhvolfd jarðar, þarf vart aðstoð frá öðrum, þegar eitthvað bjátar á. Hún virðist eiga næga peninga.
Og er þjóð sem ekki sóar peningum í herafla, kjarnorkuvopn eða rakettuleik, en hefur þó ekki efni á að hjálpa heimilislausum, fötluðum og öldruðum, svo vel sé, aflögufær til að hjálpa erlendum herveldum?
COP27 markar þó vissulega breytingu á áherslum, vegna hlýnunar jarðar. Jafnvel þó lítil sé hefur þessi hlýnun áhrif. Áherslan á að reyna að stýra hlýnuninni fer minnkandi, enda útilokað að breyta þar neinu. Áherslan á að takast á við þær breytingar virðist vera að ná meira vægi, þó enn sé horft til slökkvistarfa í stað forvarna. Þær þjóðir sem eru berskjaldaðastar fyrir þessum breytingum eiga flestar til nægjanlegt fjármagn sjálfar, þó vissulega séu örfáar þjóðir sem eru hjálpar þurfi. Meginreglan er þó að nægt fjármagn er til hjá þessum þjóðum.
Það er vonandi að ráðamenn heimsins haldi áfram á þessari braut, hætti að berja hausnum við stein og fari að gera eittvað sem máli skiptir. Við vitum ekki hversu mikið mun enn hlýna, né hversu lengi sú hlýnun stendur. Síðustu ár bera þó ekki merki þess að þetta ástand muni standa lengi. Hvort hröð og skelfileg kólnun komi í kjölfarið er ekki heldur vitað. Fari svo er fátt til hjálpar. Það eina sem vitað er, er að örlítið hefur hlýnar frá kaldasta tímabili þessa hlýskeiðs. Enn er þó langt í að hámarkshita þessa hlýskeiðs sé náð.
Vandi jarðar er ekki sveiflur í hitastig. Sveiflur í hitastigi er hins vegar vandi mannkynsins, enda sú skeppna jarðar sem erfiðast á með að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Þá gerir sú gífurlega fjölgun mannkyns það að verkum að það er enn berskjaldaðra.
![]() |
Gerir ráð fyrir þátttöku í loftslagshamfarasjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Firringin í ráðhúsinu við Tjörnina
15.11.2022 | 00:41
Það er spurning í hvaða heimi borgarfulltrúinn lifir. Fyrir ekki löngu síðan var mikil hálka á þjóðvegum landsins, jafnvel í byggð á sumum stöðum. Loka þurfti vegum vegna snjóa á hluta landsins. Miðborg Reykjavíkur slapp að mestu en morgunhálka var í efri byggðum borgarinnar. Þó skammvinn hlýindi hafi komið til okkar aftur, síðustu daga, er full ástæða fyrir þá sem þess þurfa að setja naglafdekkin undir. Sér í lagi þeir sem þurfa að fara yfir fjallvegi.
Fyrir nokkrum vikum gerði logn í Reykjavík. Þetta var fagur og bjartur dagur og fjallasýn hin besta. Þegar litið var til borgarinnar var þykkt mengunarský yfir henni, reyndar svo þykkt að vart sáust þar húsin, héðan ofanaf Skaganum.
Ekki voru menn komnir á nagladekkin á þessum tíma, þannig að vart var hægt að tengja þá mengun við nagla. Þarna opinberaðist greinilega sóðaskapur borgaryfirvalda. Í logninu og þurrkinum þyrlaðist drullan upp af götum borgarinnar, enda götusópar eitthvað sem borgfaryfirvöld hræðast.
Hafi Hjálmar svona miklar áhyggjur af svifryksmengun innan borgarmarkanna ætti hann að byrja á því að hreinsa eigin rass, byrja á því að þrífa götur borgarinnar. Vegna þéttingastefnu borgaryfirvalda er óhemju magni jarðefna mokað á stóra flutningabíla og keyrt út fyrir borgarmörkin. Sömu bílar ferðast síðan sömu leið skömmu síðar til að koma með jarðefni til fyllingar þeim holum sem grafnar voru. Öll þessi umferð og allt þetta jarðrask skapar mikla rykmengun. Þetta ryk sest bæði á götur borgarinnar en ekki síður í illa hirt græn svæði, þar sem það liggur og bíður síns tíma. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að víða um land eru sandar, einkum í fjörum suðurlandsins. Þaðan fýkur sandur yfir borgina. Allt skapar þetta síðan sviðryksmengun, sér í lagi þegar þéttingastefna borgarinnar leiðir til þess að stórir og þungir flutningabílar aka um götur hennar af miklum móð og mala rykið niður í svifryk.
Undrun borgarfulltrúans á því að bílaleigubílar skuli komnir á nagladekk er eiginlega toppurinn á heimskunni. Undanfarna vetur hafa bílaleigur verið harðlega gagnrýndar fyrir að hafa sína bíla ekki á viðeigandi dekkjabúnaði. Sú gagnrýni skapast vegna þess fjöld slysa sem hafa orðið og flest hægt að rekja til þess þáttar. Það ætti að gleðja hvern mann að bílaleygur skuli vera að gera bragabót þar á. Langstærsti hluti þeirra er leigja sér bíl eru erlendir ferðamenn. Þeir leigja sér ekki bíl til að ferðast um höfuðborgina, heldur til að ferðast um landið. Það er skammarlegt af stjórnmálamanni, sama hverja skoðun hann hefur á notkun nagladekkja, að láta svona ummæli frá sér. Fyrir okkur sem þurfum að ferðast um þjóðvegi landsins, nær daglega og þurfum að mæta erlendum ferðamönnum á bílaleigubílum. er örlítið meira öryggi að vita til þess að bílaleigur skuli vera að bæta þarna úr. Rétt eins og við sem þurfum að aka þjóðvegi til vinnu, sama hvernig færið er, ferðast erlendir ferðamenn um þessa sömu þjóðvegi, án tillits til færðar.
Að aumkunarverður borgarfulltrúi telji sig hæfan til að gagnrýna lögreglu landsins lýsir kannski best þeirri firringu sem ríkir í ráðhúsinu við Tjörnina.
![]() |
Eðlilegt að gagnrýna lögreglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eru vindorkuver náttúruvæn?
13.11.2022 | 11:07
Hér kemur enn einn pistill minn um vindorkuver. Skaðsemi slíkra orkuvera verður aldrei of oft kveðin, en í þessum pistli er hellst rætt um þá efnisnotkun sem fer í vindtúrbínur.
Hér á landi eru flestar hugmyndir um stærð vindtúrbína með framleiðslugetu upp á um 5 Mw. Ástæðan fyrir þeirri stærð er fyrst og fremst að þetta voru með stærstu þekktu vindtúrbínum þegar skýrslur um hugmyndir þeirra er að vindorkuverum standa, voru sendar til opinberra stofnana, hér á landi. Í dag er farið að framleiða mun stærri vindtúrbínur, allt að 13 Mw og þar sem þekkt er í þessum bransa að hagkvæmni vindorkuvera felist í stærð vindtúrbína, er líklegt að hér muni rísa stærri túrbínur en talað er um, ef og þegar leifi fást.
En höldum okkur 5 Mw vindtúrbínur. Heildar hæð slíkra túrbína er allt að 200 metrar, fer nokkuð eftir framleiðendum. Spaðalengdin á þessum vindtúrbínum er nærri því að vera um 80 metrar. Spaðar eru úr trefjaplasti, sem og húsið efst á turninum. Sjálfur turninn er úr stáli utan neðsta hluta hans sem er úr steyptum einingum. Undir vindtúrbínunni er síðan sökkull úr járnbentri steypu.
Hver spaði er nærri því að vera um 20 tonn að þyngd og þeir eru þrír á hverri vindtúrbínu. Spaðarnir eru gerðir úr trefjaplasti, en helsta hráefni trefjaplasts er olía. Trefjaplast er einstaklega erfitt til endurvinnslu og því eru þeir að langstærstum hluta grafnir í jörðu, þegar þeir hafa lokið ætlunarverki sínu. Þá er trefjaplast viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áhrifum og því eyðast spaðarnir nokkuð hratt upp. Því þarf a.m.k. tvö sett af spöðum á líftíma hverrar vindtúrbínu. Það gerir um 120 tonn af trefjaplasti sem grafið er í jörðu, fyrir utan það magna sem þegar hefur mengað náttúruna sem örplast. Náttúruvænt?
Í stjórnhúsi vindtúrbínu, efst á turni þeirra, er gírkassi, rafall og stjórnbúnaður. Á þennan gírkassa og annan stjórnbúnað túrbínunnar fer um 2000 lítrar af olíu og glussa, sem þarf að endurnýja á níu mánaða fresti. Náttúruvænt?
Í hverja svona vindtúrbínu fer yfir 300 tonn af stáli. Í 300 tonn af stáli fara um 600 tonn af ýmsum jarðefnum, að mestu hrájárn. Þetta er brætt upp við um 2000 gráðu hita. Til að ná slíkum hita er aðalhráefnið kol. Náttúruvænt?
Undirstaða þessara vindtúrbína er járnbent steypa. Í hverja undirstöðu fer um 4.000 m3 af steypu og til styrktar henni eru um 1.000 tonn af steypujárni. Þetta gerir um 11.000 tonn af járnbentri steypu, neðanjarðar. Náttúruvænt?
Þarna er einungis stiklað á stærstu þáttunum, auk þess fer fjöldi annarra hráefna í hverja vindtúrbínu. Af sumum þeirra er nægt magn til á jörðinni en önnur eru ákaflega fágæt. Þar er SF6 sennilega þeirra hættulegast, sagt vera 28.000 sinnum skaðlegra en co2 og tekur þúsundir ára að eyðast, sleppi það út. Náttúruvænt?
Nokkuð mismunandi er hversu margar vindtúrbínur eru ætlaðar til hvers vindorkuvers, hér á landi Flestar eru þó með ætlanir um að þær verði fleiri en tíu, jafnvel fleiri en þrjátíu. En til að einfalda reikninginn örlítið, þá skulum við miða við tíu vindtúrbínur í hvert vindorkuver. Það gerir að flytja þurfi hátt í 110.000 tonn á hvern vindorkuversstað. Bara í sökklana fyrir slíkt vindorkuver þurfa nærri 600 steypubílar að mæta á svæðið! Sumir hlutir verða ekki fluttir nema í heilu lagi. Þar mun mest bera á spöðunum, enda lengd þeirra mikil. Þyngd hvers spaða er hins vegar ekki svo mikil, rétt um 20 tonn. Hins vegar koma í fyrstu atrennu 30 stykki á staðin og önnur 30 stykki þegar líða fer á rekstrartíma vindorkuversins. Minni hlutir eins og spennar eru hins vegar mjög þungir. Þá þarf stóra krana, sennilega stærri en til eru hér á landi nú, til að setja herlegheitin saman. Því þurfa allir vegir um svæðið að vera einstaklega öflugir. Þar duga engir "línuvegir". Náttúruvænt?
Það er svo sem ekki að undra að innviðaráðherra hafi fundið einhverja aura til uppbyggingar á veginum yfir Laxárdalsheiði, þar sem flokksfélagi hans og ráðherra hefur fært frönskum aðila stórt land undir vindorkuver með allt að 30 vindtúrbínum! Þangað þarf jú að koma allt að 1.800 steypubílum, 90 spöðum í fyrstu atrennu, 9.000 tonnum af stálrörum, væntanlega flutt á um 400 flutningabílum. Allar tölur þrisvar sinnum hærri en að ofan er talið.
Náttúruvænt? Eða kannski bara sérhagsmunapot?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)