Eru austfirðingar gengnir af göflunum?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins er mikil grein um vindorkuver í Fljótsdal. Auðvitað er þetta kallað vindmillugarður, þó fyrirbrigðið eigi ekki neitt skylt við vindmillur og því síður garð. Þetta eru risavaxnar vindtúrbínur og um er að ræða orkuver af stærri gerðinni.

Samkvæmt greininni er ekki um neinn ágreining að ræða um þessa vegferð, í héraðinu og því fyllilega hægt að spyrja hvort Héraðsbúar séu gjörsamlega gengnir af göflunum. Reyndar trúi ég ekki að slík samstaða sé um verkið sem segir í þessari grein, þó vissulega einhverjir landeigendur séu auðkeyptir á sitt land, að ekki sé nú talað um svokallaða "vettvangsferð" sem þeim var gefin, til Spánar.

Þessi svokallaða vettvangsferð þeirra virðist hafa verið vel valin að vindbarónunum. Samkvæmt mynd sem fylgir greininni hefur fólkinu verið sýndar vindtúrbínur af smærri gerðinni, úreltar túrbínur. Að auki virðist sem þær séu reistar í eyðimörk, ekki á frjósömu landi eins og tíðkast hér á landi, ekki síst á frjósömum heiðum Fljótsdalsins. Að sjá af þessum myndum er um að ræða vindtúrbínur með aflgetu á milli 1 og 2 MW, meðan áætlað er að reisa vindtúrbínur með aflgetu yfir 6MW í þessu orkuveri þar eystra. 2MW vindtúrbína losar 100 metra hæð, meðan 6MW vindtúrbína getur farið yfir 300 metra hæð. Þarna er himinn og haf á milli. Reyndar verður að segjast eins og er að sennilega er erfitt að finna vindorkuver erlendis, af þeirri stærðargráðu sem ætlað er að byggja á Fljótsdalsheiðinni, hvort heldur er stærð vindtúrbína eða fjölda þeirra. Leifi fyrir slíkum risamannvirkjum fást ekki þar yrta. Menn ættu aðeins að velta fyrir sér áhuga erlendra fjármálamanna á Íslandi í þessu skyni.

Eins og áður segir er áætlað að reisa þarna vindtúrbínur með aflgetu upp á 6MW og þær eiga að vera alls 58 stykki! Það er ekki neitt smá landflæmi sem þarf fyrir slíkt orkuver. Aflgeta orkuversins á að vera 350 MW, eða ca. hálf Kárahnjúkavirkjun, eða vel rúmlega tvær Sigölduvirkjanir, svo dæmi séu tekin. Þarna eru svo risavaxnar stærðir í gangi að það nær ekki nokkurri átt. Í ofanálag eru áætlanir þeirra sem að þessu orkuveri standa, að nýting þess verði 45%. Það er einhver besta nýting sem sést hefur í vindorkuveri og þó hafa enn engar rannsóknir farið fram um vindafar á svæðinu. Vel er þó þekkt sú veðurblíða sem oft gengur þarna yfir.

Samhliða þessu og það sem þessir aðilar leggja megin áherslu á er bygging rafeldsneytisverksmiðju niður á fjörðum. Þar er áætlað að vinna rafeldsneyti og úr aukaafurð þess mætti byggja áburðarverksmiðju. Sá böggull fylgir þó skammrifi að þessi verksmiðjuáform verða ekki að veruleika nema þetta risastóra vindorkuver verði reyst. Halda þessir menn að fólk, svona almennt, sé fávíst? Þó þeim takist, með fagurgala og Spánarferðum að plata einhverja landeigendur þar eystra, þíðir lítið að bera svona þvætting á borð þjóðarinnar. Að halda því fram að erlendir fjármálamenn vilji ekki fjárfesta hér í stóriðju nema að um ótrygga orku sé að ræða er fásinna. Að það sé sett fram sem skilyrði af þeirra hálfu. Hvað ætla þeir að gera þegar margrómað góðviðrið  brestur á þarna? Ætla þeir bara að stoppa alla framleiðsluna og bíða þar til vindur blæs?! Þvílíku og öðru eins bulli hefur fáum tekist að halda fram.

Auðvitað er þessi svokallaða rafeldsneytisverksmiðja einungis rúsínan í málflutningi þessara manna, til þess eins ætluð að liðka fyrir samþykki á risastóru vindorkuveri. Það vita allir sem vilja vita, að þeir aðilar sem vilja byggja vindorkuver á hverjum hól hér á landi, eru ekki að því til að nýta þá orku innanlands. Það eitt að verð orkunnar hér er mjög lágt, meðan orkuverð á meginlandinu er í hæstu hæðum, segir manni hvert þeir stefna. Þeir ætla sér að fá sæstreng, annað er ekki í boði. Einungis þannig geta þessir fjármálamenn ávaxtað fé sitt. Orkupakki 3 opnaði á þann möguleika.

Þessi bull málflutningur er svo gjörsamlega út í hött að engin skáldsaga slær honum við. Þeim er vorkunn sem trúa þessu, en því miður virðist flest vera falt fyrir örfáa skildinga og ekki verra að fá ferð til Spánar í kaupbæti! Smá aurar og ferðalag virðist geta látið ágætis fólk tapa glórunni.

 

Bændablaðið

 


Tásumyndir frá Tene

Það er ekki oft sem samtök atvinnulífsins og fulltrúar launþega eru sammála. Það tókst þó seðlabankastjóra að ná fram, með undarlegri hegðun sinni. Ásgeir Jónsson er af góðum ættum og ágætlega gefinn, en að hann væri megnugur þess að sameina atvinnurekendur og launþega, svona á fyrstu skrefum samningaviðræðna, er sennilega hans stærsti sigur.

Seðlabankinn hefur ýmis tæki til að stjórna peningamálum þjóðarinnar. Eitt þessara tækja er hækkun stýrivaxta. Til þessa tóls er gjarnan gripið þegar stefnir í óefni á lánamarkaði, þ.e. þegar útlán eru komin út fyrir það sem gott þykir. Þá eru vextir hækkaðir til að stemma stigu við frekari útlánum bankanna og er gott og gilt að því marki. Það er hins vegar spurning hvers vegna þurfi að hækka vexti á þegar útgefnum lánum og hvaða áhrif slík hækkun hefur. Þegar einhver tekur lán á hann að geta gengið að því sem vísu að þeir vextir sem hann skrifar undir, séu þeir vextir sem hann þarf að greiða. Það er erfitt eða útilokað fyrir lántaka að skila láninu.

Að hækka vexti á þegar útgefnum lánum getur aldrei slegið á verðbólgu, heldur kyndir undir hana. Það er ekki bara launafólk sem er bundið bönkum með lánum, flest fyrirtæki í flestum geirum, eru einnig með miklar lántökur. Bæði langtímalán og skammtímalán. Ólíkt launafólki, sem ekki hefur neinn möguleika á öðru en að halda áfram að borga af sínum lánum ella missa heimili sitt, geta mörg fyrirtæki fært þessa auknu byrgði sína yfir á neytendur, þ.e. hækkað verð á sinni vöru eða þjónustu. Það er fæða verðbólgudraugsins.

Tásumyndir frá Tene eru seðlabankastjóra hugleiknar. Vill meina að landsmenn séu stórtækir í ferðum í sólina. Þó viðurkennir hann að þær ferðir séu ekki fjármagnaðar með lántökum, heldur innistæða fólks frá Covid tímanum. Fólk hlýtur að ráð hvernig það ráðstafar sínu fé, eða ætlar seðlabankinn að stjórna því líka? Stærri spurning er hvernig hann hyggst stjórna með vaxtahækkun, þegar fólk er upp til hópa að nota fé sem það á fyrir.

Alvarlegasta við þetta frumhlaup seðlabankastjóra er þó sú staðreynd að nú standa yfir viðræður um kaup og kjör á vinnumarkaði. Þessi gjörningur er ekkert annað en sprengja inn í þær viðræður. Það lá fyrir að einmitt vegna mikilla hækkana bankans á stýrivöxtum, yrðu þessar viðræður erfiðar. Ríkissáttasemjari er þegar tekinn til starfa.

Það dylst engum að verðbólga er í landinu. Hana má fyrst og fremst rekja til erlendra áhrifa. Þau innlendu áhrif sem oft eru talin, eru flest til komin af sömu ástæðu. Nær engin bein innlend áhrif má rekja til þessarar verðbólguhækkunar, ekki einu sinni tásumyndirnar. Innlend vaxtahækkun hefur því lítil áhrif á verðbólguna og innlend vaxtahækkun á þegar útgefin lán einungis fóður fyrir verðbólgudrauginn. Þeir sem græða á þessum hækkunum eru bankarnir, þeir sem tapa er fólkið og fyrirtækin í landinu.

Tásumyndatal seðlabankastjóra minnir nokkuð á flatskjáaumræðuna eftir hrun bankana. Kannski er Ásgeir búinn að átta sig á að við nálgumst þann stað er við vorum á haustið 2008 og er að búa í haginn fyrir afsökun hins nýja hruns landsins.


mbl.is Vaxtahækkun truflar kjaraviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gefa út gúmmítjékka

Meðal íslenskra stjórnmálamanna, sér í lagi þeirra sem veljast til ráðherrastóla, þykir enginn maður með mönnum nema hann gefi út óútfylltan tékka (gúmmítjékka), á erlendri grundu. Stundum er ríkissjóð ætlað að greiða slíka tékka, en einnig þekkist að ráðamenn þjóðarinnar lofi peningum sem þeir hafa engin yfirráð yfir, eins og þeim peningum er landsmenn geyma í lífeyrissjóðum sínum. Sjaldnast liggur fyrir heimild fyrir slíkri tékkaútskrift, hvort heldur Alþingi á þar í hlut eða aðrir sjóðir ótengdir þeirri stofnun. Og nú hefur einn ráðherra gefið út slíkan tékka, án þess að hafa hugmynd um hver upphæð hans muni vera, hvað þá að einhver heimild liggi fyrir þeirri útgáfu.

Þessi sjóður, sem enginn veit hversu stór verður, enginn þjóð veit hvað hún þarf að leggja mikið til hans og að flestu leiti fátt um vitað, hefur Ísland verið skuldbundið til að þjóna, án aðkomu Alþingis.

Það eina sem liggur nokkuð ljóst fyrir er hvaða þjóðir muni geta sótt styrki í þennan sjóð. Það eru svokölluð "verr" sett ríki og hin betur sett eiga að greiða. Flest þessara "verr" settu ríkja hafa þó efni á að halda úti stórum herjum, eiga kjarnorkuvopn og senda rakettur út fyrir gufuhvolfið, sum stefna jafnvel á ferðir til tunglsins.

Þjóð sem heldur stóran her, á kjarnorkuvopn og jafnvel stundar það að skjóta rakettum út fyrir gufuhvolfd jarðar, þarf vart aðstoð frá öðrum, þegar eitthvað bjátar á. Hún virðist eiga næga peninga.

Og er þjóð sem ekki sóar peningum í herafla, kjarnorkuvopn eða rakettuleik, en hefur þó ekki efni á að hjálpa heimilislausum, fötluðum og öldruðum, svo vel sé, aflögufær til að hjálpa erlendum herveldum?

 

COP27 markar þó vissulega breytingu á áherslum, vegna hlýnunar jarðar. Jafnvel þó lítil sé hefur þessi hlýnun áhrif. Áherslan á að reyna að stýra hlýnuninni fer minnkandi, enda útilokað að breyta þar neinu. Áherslan á að takast á við þær breytingar virðist vera að ná meira vægi, þó enn sé horft til slökkvistarfa í stað forvarna. Þær þjóðir sem eru berskjaldaðastar fyrir þessum breytingum eiga flestar til nægjanlegt fjármagn sjálfar, þó vissulega séu örfáar þjóðir sem eru hjálpar þurfi. Meginreglan er þó að nægt fjármagn er til hjá þessum þjóðum.

Það er vonandi að ráðamenn heimsins haldi áfram á þessari braut, hætti að berja hausnum við stein og fari að gera eittvað sem máli skiptir. Við vitum ekki hversu mikið mun enn hlýna, né hversu lengi sú hlýnun stendur. Síðustu ár bera þó ekki merki þess að þetta ástand muni standa lengi. Hvort hröð og skelfileg kólnun komi í kjölfarið er ekki heldur vitað. Fari svo er fátt til hjálpar. Það eina sem vitað er, er að örlítið hefur hlýnar frá kaldasta tímabili þessa hlýskeiðs. Enn er þó langt í að hámarkshita þessa hlýskeiðs sé náð.

Vandi jarðar er ekki sveiflur í hitastig. Sveiflur í hitastigi er hins vegar vandi mannkynsins, enda sú skeppna jarðar sem erfiðast á með að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Þá gerir sú gífurlega fjölgun mannkyns það að verkum að það er enn berskjaldaðra.


mbl.is Gerir ráð fyrir þátttöku í lofts­lags­ham­fara­sjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Firringin í ráðhúsinu við Tjörnina

Það er spurning í hvaða heimi borgarfulltrúinn lifir. Fyrir ekki löngu síðan var mikil hálka á þjóðvegum landsins, jafnvel í byggð á sumum stöðum. Loka þurfti vegum vegna snjóa á hluta landsins. Miðborg Reykjavíkur slapp að mestu en morgunhálka var í efri byggðum borgarinnar. Þó skammvinn hlýindi hafi komið til okkar aftur, síðustu daga, er full ástæða fyrir þá sem þess þurfa að setja naglafdekkin undir. Sér í lagi þeir sem þurfa að fara yfir fjallvegi.

Fyrir nokkrum vikum gerði logn í Reykjavík. Þetta var fagur og bjartur dagur og fjallasýn hin besta. Þegar litið var til borgarinnar var þykkt mengunarský yfir henni, reyndar svo þykkt að vart sáust þar húsin, héðan ofanaf Skaganum.

Ekki voru menn komnir á nagladekkin á þessum tíma, þannig að vart var hægt að tengja þá mengun við nagla. Þarna opinberaðist greinilega sóðaskapur borgaryfirvalda. Í logninu og þurrkinum þyrlaðist drullan upp af götum borgarinnar, enda götusópar eitthvað sem borgfaryfirvöld hræðast.

Hafi Hjálmar svona miklar áhyggjur af svifryksmengun innan borgarmarkanna ætti hann að byrja á því að hreinsa eigin rass, byrja á því að þrífa götur borgarinnar. Vegna þéttingastefnu borgaryfirvalda er óhemju magni jarðefna mokað á stóra flutningabíla og keyrt út fyrir borgarmörkin. Sömu bílar ferðast síðan sömu leið skömmu síðar til að koma með jarðefni til fyllingar þeim holum sem grafnar voru. Öll þessi umferð og allt þetta jarðrask skapar mikla rykmengun. Þetta ryk sest bæði á götur borgarinnar en ekki síður í illa hirt græn svæði, þar sem það liggur og bíður síns tíma. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að víða um land eru sandar, einkum í fjörum suðurlandsins. Þaðan fýkur sandur yfir borgina. Allt skapar þetta síðan sviðryksmengun, sér í lagi þegar þéttingastefna borgarinnar leiðir til þess að stórir og þungir flutningabílar aka um götur hennar af miklum móð og mala rykið niður í svifryk.

Undrun borgarfulltrúans á því að bílaleigubílar skuli komnir á nagladekk er eiginlega toppurinn á heimskunni. Undanfarna vetur hafa bílaleigur verið harðlega gagnrýndar fyrir að hafa sína bíla ekki á viðeigandi dekkjabúnaði. Sú gagnrýni skapast vegna þess fjöld slysa sem hafa orðið og flest hægt að rekja til þess þáttar. Það ætti að gleðja hvern mann að bílaleygur skuli vera að gera bragabót þar á. Langstærsti hluti þeirra er leigja sér bíl eru erlendir ferðamenn. Þeir leigja sér ekki bíl til að ferðast um höfuðborgina, heldur til að ferðast um landið. Það er skammarlegt af stjórnmálamanni, sama hverja skoðun hann hefur á notkun nagladekkja, að láta svona ummæli frá sér. Fyrir okkur sem þurfum að ferðast um þjóðvegi landsins, nær daglega og þurfum að mæta erlendum ferðamönnum á bílaleigubílum. er örlítið meira öryggi að vita til þess að bílaleigur skuli vera að bæta þarna úr. Rétt eins og við sem þurfum að aka þjóðvegi til vinnu, sama hvernig færið er, ferðast erlendir ferðamenn um þessa sömu þjóðvegi, án tillits til færðar.

Að aumkunarverður borgarfulltrúi telji sig hæfan til að gagnrýna lögreglu landsins lýsir kannski best þeirri firringu sem ríkir í ráðhúsinu við Tjörnina.

 


mbl.is Eðlilegt að gagnrýna lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru vindorkuver náttúruvæn?

Hér kemur enn einn pistill minn um vindorkuver. Skaðsemi slíkra orkuvera verður aldrei of oft kveðin, en í þessum pistli er hellst rætt um þá efnisnotkun sem fer í vindtúrbínur.

Hér á landi eru flestar hugmyndir um stærð vindtúrbína með framleiðslugetu upp á um 5 Mw. Ástæðan fyrir þeirri stærð er fyrst og fremst að þetta voru með stærstu þekktu vindtúrbínum þegar skýrslur um hugmyndir þeirra er að vindorkuverum standa, voru sendar til opinberra stofnana, hér á landi. Í dag er farið að framleiða mun stærri vindtúrbínur, allt að 13 Mw og þar sem þekkt er í þessum bransa að hagkvæmni vindorkuvera felist í stærð vindtúrbína, er líklegt að hér muni rísa stærri túrbínur en talað er um, ef og þegar leifi fást.

En höldum okkur 5 Mw vindtúrbínur. Heildar hæð slíkra túrbína er allt að 200 metrar, fer nokkuð eftir framleiðendum. Spaðalengdin á þessum vindtúrbínum er nærri því að vera um 80 metrar. Spaðar eru úr trefjaplasti, sem og húsið efst á turninum. Sjálfur turninn er úr stáli utan neðsta hluta hans sem er úr steyptum einingum. Undir vindtúrbínunni er síðan sökkull úr járnbentri steypu.

Hver spaði er nærri því að vera um 20 tonn að þyngd og þeir eru þrír á hverri vindtúrbínu. Spaðarnir eru gerðir úr trefjaplasti, en helsta hráefni trefjaplasts er olía. Trefjaplast er einstaklega erfitt til endurvinnslu og því eru þeir að langstærstum hluta grafnir í jörðu, þegar þeir hafa lokið ætlunarverki sínu. Þá er trefjaplast viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áhrifum og því eyðast spaðarnir nokkuð hratt upp. Því þarf a.m.k. tvö sett af spöðum á líftíma hverrar vindtúrbínu. Það gerir um 120 tonn af trefjaplasti sem grafið er í jörðu, fyrir utan það magna sem þegar hefur mengað náttúruna sem örplast.  Náttúruvænt?

Í stjórnhúsi vindtúrbínu, efst á turni þeirra, er gírkassi, rafall og stjórnbúnaður. Á þennan gírkassa og annan stjórnbúnað túrbínunnar fer um 2000 lítrar af olíu og glussa, sem þarf að endurnýja á níu mánaða fresti. Náttúruvænt?

Í hverja svona vindtúrbínu fer yfir 300 tonn af stáli. Í 300 tonn af stáli fara um 600 tonn af ýmsum jarðefnum, að mestu hrájárn. Þetta er brætt upp við um 2000 gráðu hita. Til að ná slíkum hita er aðalhráefnið kol. Náttúruvænt?

Undirstaða þessara vindtúrbína er járnbent steypa. Í hverja undirstöðu fer um 4.000 m3 af steypu og til styrktar henni eru um 1.000 tonn af steypujárni. Þetta gerir um 11.000 tonn af járnbentri steypu, neðanjarðar. Náttúruvænt?

Þarna er einungis stiklað á stærstu þáttunum, auk þess fer fjöldi annarra hráefna í hverja vindtúrbínu. Af sumum þeirra er nægt magn til á jörðinni en önnur eru ákaflega fágæt. Þar er SF6 sennilega þeirra hættulegast, sagt vera 28.000 sinnum skaðlegra en co2 og tekur þúsundir ára að eyðast, sleppi það út. Náttúruvænt?

Nokkuð mismunandi er hversu margar vindtúrbínur eru ætlaðar til hvers vindorkuvers, hér á landi Flestar eru þó með ætlanir um að þær verði fleiri en tíu, jafnvel fleiri en þrjátíu. En til að einfalda reikninginn örlítið, þá skulum við miða við tíu vindtúrbínur í hvert vindorkuver. Það gerir að flytja þurfi hátt í 110.000 tonn á hvern vindorkuversstað. Bara í sökklana fyrir slíkt vindorkuver þurfa nærri 600 steypubílar að mæta á svæðið! Sumir hlutir verða ekki fluttir nema í heilu lagi. Þar mun mest bera á spöðunum, enda lengd þeirra mikil. Þyngd hvers spaða er hins vegar ekki svo mikil, rétt um 20 tonn. Hins vegar koma í fyrstu atrennu 30 stykki á staðin og önnur 30 stykki þegar líða fer á rekstrartíma vindorkuversins. Minni hlutir eins og spennar eru hins vegar mjög þungir. Þá þarf stóra krana, sennilega stærri en til eru hér á landi nú, til að setja herlegheitin saman. Því þurfa allir vegir um svæðið að vera einstaklega öflugir. Þar duga engir "línuvegir".  Náttúruvænt?

Það er svo sem ekki að undra að innviðaráðherra hafi fundið einhverja aura til uppbyggingar á veginum yfir Laxárdalsheiði, þar sem flokksfélagi hans og ráðherra hefur fært frönskum aðila stórt land undir vindorkuver með allt að 30 vindtúrbínum! Þangað þarf jú að koma allt að 1.800 steypubílum, 90 spöðum í fyrstu atrennu, 9.000 tonnum af stálrörum, væntanlega flutt á um 400 flutningabílum. Allar tölur þrisvar sinnum hærri en að ofan er talið.

Náttúruvænt? Eða kannski bara sérhagsmunapot?


Ein stétt

Það ætti ekki að vefjast fyrir vinnumálaráðherranum að kippa þessu í liðinn. Síðast nú á laugardaginn fullyrti fjármálaráðherra að einungis væri ein stétt í landinu. Því hlýtur jafnt að ganga yfir alla innan þeirrar stéttar, ekki satt?

Vinnumálaráðherra hlýtur að herma þessi orð uppá fjármálaráðherra, þannig að öryrkjar komist kannski með tærnar inn fyrir dyr hátíðarsalsins, þar sem "eina stéttin" úðar í sig kræsingum um jólin.


mbl.is Ræða jólabónus fyrir öryrkja í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn gala vindhanar

Ég hef áður ritað nokkuð um aðkomu fyrrverandi rektors á Bifröst að vindorkumálum og þá fylgispekt sem hann hefur tekið við erlenda fjármálamenn á því sviði. Nú lætur lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri heyra í sér og ekki að sjá annað á hans orðum en að hann sé einnig orðinn fylgismaður þessara erlendu afla. Þegar tveir háttmetnir menn innan menntakerfisins tjá sig á þennan veg, vaknar vissulega upp sú spurning hvar menntakerfið klikkaði. Hvar eða hvenær auður væri eingöngu mældur í spesíum. 

Í frétt á ruv er rætt við lektor Háskólans á Akureyri. Hugmyndi hans eru vægast sagt óhuggulegar fyrir lands og þjóð. Hann vill taka 10% af landinu undir vindorkuver, svo hægt verði að senda megnið af þeirri orku um sæstrengi til Evrópu. Telur að með því megi "hjálpa" Evrópu í við orkuskiptin. Þessar hugmyndir eru svo fjarstæðukenndar að engu tali tekur.

Jöklar Íslands þekja um 10% af landinu, með allri sinni tign og fegurð. Fæstir vilja hafa vindmillur nærri byggð og ef taka á önnur 10% af landinu undir stór og ljót vindorkuver, er ljóst að ansi lítið verður eftir af ósnortinni náttúru hálendis Íslands. Á þessu landsvæði telur lektorinn að hægt verði að framleiða allt að 150 teravattstundir af orku, eða sjö komma fimm sinnum meiri orku en nú er framleidd hér á landi. Til að framleiða 150 teravattstundir af orku með vindorkuverum þarf gott betur en 10% af Íslandi, en látum þá skekkju lektorsins liggja milli hluta.

En hvað segja 150 teravattstundir í orkuþörf Evrópu. Það er eins og dropi í hafið, dugar rétt til að halda við aukinni orkuþörf álfunnar og alls ekki til orkuskipta þar. Sem dæmi hefur ESB litið hýru auga til vesturstrandar Afríku, til vindorkuvera. Þar er gert ráð fyrir að framleiða allt að 1000 teravattstundum af orku og er það talið sem smá hjálp við orkuskipti Evrópu, alls ekki lausn þeirra.

Vissulega er rétt að við núverandi orkuverð í Evrópu mætti fá ágætis tekjur fyrir 150 teravattstundir af rafmagni. Þær tekjur færu þó að mestu í vasa erlendra auðjöfra, lítið til okkar landsmanna. Hins vegar eru tvær hliðar á hverju máli og tapið sem við yrðum fyrir í staðinn margfalt meira en ágóðinn.

Fyrir það fyrsta mun ferðaiðnaður hrynja, ekki lengur hægt að bjóða upp á ósnortna náttúru Íslands. Litlar líkur á að erlendir ferðamenn hafi mikinn áhuga á að koma hingað til að skoða stórmengað land af vindorkuverum og örplasti.

Í öðru lagi mun með tengingu landsins við Evrópu, virkjast að fullu orkupakki 3, og væntanlega op 4 einnig. Það mun leiða til þess að orkuverð á raforku hér á landi mun fylgja markaðsverði á hinum enda strengsins. Það mun leiða til þess að öll fyrirtæki landsins munu ekki geta átt í samkeppni við erlend fyrirtæki og leggja upp laupana, með tilheyrandi atvinnuleysi.

Það liggur fyrir að allur kostnaður við tengingu vindorkuvera við landsnetið og lagning þess að fyrirhuguðum sæstrengjum, mun falla á almenna landsmenn, samkvæmt op 3.

Þessi sýn er ljót en raunsæ, reyndar svo fjarstæðukennd að furðu þykir að hugmyndin komi úr ranni lektors við háskóla. Hann virðist einblína á eina stærð en horfa að öllu leiti framhjá öllum öðrum. Ekki beint vísindaleg nálgun.

Hitt er svo spurning, hvenær vísindasamfélagið gerir athugasemd við vindorkuverin, í þeirri mynd sem nú er. Það liggur fyrir að mengun frá þessum orkuverum er gífurleg, jafnvel meiri en frá gasorkuverum. Það liggur fyrir að nú þegar eru stór landsvæði tekin undir urðun ónýtra spaða vindorkuvera, en af þeim fellur til gífurlegt magn nú þegar. Það liggur fyrir að örplastmengun frá spöðum vindorkuvera er mikil, mjög mikil. Nýlega var sagt frá rannsókn á hvölum og tiltekið ótrúlegt magn af örplast sem þeir innbyrða. Það liggur fyrir að í Þýskalandi er farið að mælast stór aukið magn af SF6 gasi í andrúmslofti og sú mengun rakin til fjölgunar vindorkuvera. Það liggur auðvitað fyrir að sjónmengun vindorkuvera er gífurleg og flökt frá spöðum talið skaðlegt. Það liggur fyrir að hljóðmengun frá vindorkuverum er mikil, rétt eins og á rokktónleikum að sögn framleiðenda þessara túrbína. Það liggur hinsvegar ekki fyrir hver áhrif vindorkuver hafa á vindstrauma. Ekki enn verið opinberaðar rannsóknir á því sviði. Því er ekki spurning hvort heldur hvenær vísindasamfélagið setur sig gegn vindorkuverum í þeirri mynd sem nú er. Þar mun ráða fjármagnið sem það fær greitt.

Það eru til aðferðir til virkjunar vindsins án vindtúrbína með spöðum. Aðferðir sem þurrka út flesta galla hefðbundinna vindtúrbína, þó sérstaklega örplastmengunina. Þessar aðferðir byggja helst á því að vindur verði virkjaður sem næst notkunarstað orkunnar. Þá eru menn að komast yfir þann þröskuld sem hefur staðið gegn byggingu þóríum orkuvera, en af þóríum er nægt magn til á jörðinni.

Vísindasamfélagið út um allan heim, nema kannski á Íslandi, vinnur hörðum höndum að lausn orkuvanda jarðar. Hugsanlega mun á næstu árum koma eitthvað alveg nýtt fram til þeirrar lausnar, eitthvað sem fáum eða engum dettur til hugar í dag. Víst er að hefðbundin og gamaldags vindorkuver eru ekki þar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband