Minning um mann
9.10.2021 | 08:23
Það hefur verið ljóður á þingræði okkar að þingmenn geti skipt um flokka eins og nærbuxur. Um þetta þarf þó ekki að deila, þingmenn hafa þennan rétt og sífellt fleiri sem nýta sér hann. Það segir þó ekki að þetta sé réttlátt gagnvart kjósendum, enda í raun enginn þingmaður kosinn í eigin nafni, heldur í skjóli einhvers stjórnmálafls. Réttur kjósandans á kjörstað til að velja sér ákveðna persónu, nú eða hafna henni, er slíkur að útilokað er að virkja hann. Fólk kýs flokk, með þeim frambjóðendum sem þeim flokki fylgir.
Eins og áður segir, þá færist sífellt í aukanna að þingmenn flakki milli flokka á milli kosninga. Nánast eingöngu hefur það verið vegna málefnalegs ágreinings innan flokks, sem kemur upp á kjörtímabilinu. Að fólk hefur ekki verið tilbúið að fylgja flokkslínunni, nú eða að þingmenn telji að meirihluti síns flokks hafi svikið eigin flokkslínu. Við þær aðstæður hafa sumir þingmenn talið æru sinni vegna, að betra sé að yfirgefa flokk sinn. Sumir starfað sem óháðir á eftir en flestir þó gengið til samstarfs við annan flokk. Sjaldan hefur þó slíkt flokkaflakk orðið þingmanni til framdráttar.
En nú ber alveg nýtt við. Einungis eru örfáir dagar frá kosningum og þingmaður ákveður að yfirgefa flokk sinn, ekki vegna málefnalegs ágreinings, enda störf Alþingis vart hafin, ekki heldur vegna þess að þingflokkur hans sé að svíkja eigin stjórnmálastefnu. Nei, þingmaðurinn yfirgefur flokk sinn vegna málefnis sem skeði snemma á síðasta kjörtímabili, utan starfa Alþingis. Ja, betra seint en aldrei, myndu sumir segja!
Heiðarlegra hefði verið, þar sem gamalt mál hrjáir samvisku þessa þingmanns, að gefa bara alls ekki kost á sér fyrir þann flokk sem hann nú yfirgefur. Gefa frekar kost á sér í framboð fyrir þann flokk sem hann nú dáir.
Það er full ástæða til að óska Sjálfstæðisflokki til hamingju með þennan nýja öflugan þingmann, sem þeir fengu svona í bónus. Ekki ónýtt að eflast með þessum hætti. Hitt ætti hinn skeleggi þingmaður að átta sig á að allar þær ræður og öll sú vinna er hann lagði á sig til að standa vörð sjálfstæðis og til varnar að hálendið yrði tekið og lagt undir embættismenn í 101 Reykjavík, hefði verið honum ómöguleg ef hann hefði setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokk á síðasta kjörtímabili.
Þá væri minningin um Birgir Þórarinsson önnur.
![]() |
Birgir skilur við Miðflokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Rétt og rangt hjá Ólafi
1.10.2021 | 16:34
Það er rétt hjá Ólafi að í 31. grein stjórnarskrár er talað um að jafna eigi þingsæti milli kjördæma, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þetta er einnig tekið fyrir í lögum um kosningum til Alþingis.
Hitt er rangt hjá honum og kemur það verulega á óvart hjá einum mesta stjórnmálaspeking landsins, að það sé verkefni Alþingis að jafna þennan mun. Bæði í stjórnarskránni sem og lögum um kosningar til Alþingis, er skýrt tekið á um að þetta vald sé í höndum landskjörsstjórnar.
Í 31. grein stjórnarskrár segir; Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun.
Og í 9. grein laga um kosningar til Alþingis segir; Eftir hverjar alþingiskosningar skal landskjörstjórn reikna út hvort kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum skv. 2. mgr. 8. gr., séu helmingi færri í einu kjördæmi en kjósendur að baki hverju þingsæti í einhverju öðru kjördæmi, miðað við kjörskrá í nýafstöðnum kosningum, sbr. 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Ef svo er skal landskjörstjórn breyta fjölda kjördæmissæta í kjördæmum þannig að dregið verði úr þessum mun. Sú breyting má þó aldrei verða meiri en þörf krefur hverju sinni til þess að fullnægja fyrirmælum þessa stjórnarskrárákvæðis.
Það liggur því nokkuð ljóst fyrir að Alþingi á ekki neina aðkomu að þessu verkefni. Nú vill svo til að fjöldi kjósenda á kjörskrá í einu kjördæmi er um það bil helmingi færri en í öðru, er alveg á mörkum þess að landskjörstjórn geti beitt þessu ákvæði. Um er að ræða það kjördæmi sem fæsta þingmenn hafa og það sem flesta hafa. Það myndi þá fækka um enn einn í því sem fæsta hefur og fjölga um einn í því sem flesta hefur. Þetta er vand með farið og spurning hvort ekki væri betra að jafna þennan mun með breytingu á þeim þrem kjördæmum sem eru á suð vestur horninu, þ.e. Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum. Að baki hvers þingmanns í Reykjavíkurkjördæmunum liggja mun færri kosningabærir einstaklingar en að baki hvers þingmanns í Kraganum. Þar þarf Alþingi aftur að koma að málum, því ekki má breyta kjördæmaskipan nema á Alþingi, að undanteknum Reykjavíkurkjördæmunum tveim. Þar hefur landkjörstjórn heimild til að breyta kjördæmaskipan, innan þeirra tveggja.
Það er því ekki Alþingis að framkvæma ákvæði 31. greinar stjórnarskrár, eða 9. greinar laga um kosninga til Alþingis. Það verkefni er í höndum landkjörstjórnar og eiginlega nokkuð undarlegt að stjórnmálafræðingurinn skuli ekki vita það.
![]() |
Segir Alþingi vanrækja skyldu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosningar
1.10.2021 | 01:45
Það var vissulega óheppilegt hvernig staðið var að talningu atkvæða í NV kjördæmi og vissulega má taka undir að þar hefði betur mátt fara. Hitt er undarlegra, að lögfróðir menn, sumir jafnvel sem voru í framboði og fengu ekki næg atkvæði, skuli bera fyrir sig brotum á stjórnarskrá og kosningalögum í þessu sambandi. Þessu fólki væri hollt að lesa stjórnarskránna og kosningalögin.
Það er fljótlesið hvað stjórnarskrá segir um kosningar til Alþingis, þar er í raun einungis rætt um kjördæmaskipan og hverjir eru kjörgengir. Að öðru leyti er vísað til kosningalaga. Í þeim er aftur að finna hvernig skuli farið með kjörgögn, hvernig skuli staðið að talningu og annað er snýr að kosningunni sjálfri, auk ákvæða um kjördæmaskipan og kjörgengi.
Skemmst er frá að segja að samkvæmt þeim lögum er talað um að kjörkassar skuli innsiglaðir á kjörstað, á leið frá kjörstað til talningarstöðvar og á leið frá talningarstöð í geymslu, þar sem þau eru geymd í ákveðinn tíma en síðan eytt. Ekki segir að kjörkassar þurfi að vera innsiglaðir meðan þeir eru á talningarstað. Ekki segir að kjörgögn skuli flutt til geymslu strax að lokinni talningu, einungis að talningarstaður skuli vera í innsigluðu rými. Ekkert segir til um hvernig skuli staðið að flutningi kjörgagna, til og frá kjörstað, hvort einn eða fleiri eigi að vinna það verk.
Varðandi viðurlög við brotum á kosningalögum er ansi fátæklegt um að litast í þeim. Meint vald Alþingis virðist vera ofmetið. Það hefur einungis vald til að skoða hvort hver sá er hlýtur kjör þangað inn sé með löglegt umboð þjóðarinnar. Til að Alþingi geti ákveðið nýjar kosningar þarf annað tveggja að vera fyrir hendi, að ágallar séu svo miklir að veruleg áhrif það hafi á fylgi flokka og ef ágallar leiði til að heill þingflokkur telst vera án umboð þjóðarinnar.
Nú liggur fyrir að þessi skekkja sem varð í talningu atkvæða í NV kjördæmi breytti ekki fylgi stjórnmálaflokka, hafði einungis áhrif á uppbótarþingmenn innan hvers flokks. Því er ljóst að fyrra atriðið er ekki fyrir hendi. Hvort þeir uppbótarþingmenn er komu inn í stað þeirra sem fóru út, hafi umboð þjóðarinnar, má kannski deila um. Ljóst er þó að einungis er þar um að ræða fjóra þingmenn frá fjórum flokkum.
En upphlaupið sýnir kannski kjarna málsins. Þeir þingmenn sem duttu út láta mikinn, þó flokkar þeirra hafi ekki borið neinn skaða. Horfa fyrst og fremst á eigin hag.
Svo má auðvitað deila um hvort stjórnarskrá og lög um kosningar séu sanngjörn. Það er bara allt önnur saga.
Um meint vantraust er það eitt að segja að þeir sem velja að túlka og snúa lögum sér í hag eru þeir menn sem grafa undan trausti til stjórnsýslunnar. Sorglegt að þar skuli lögfræðingar vera á bekk. Mistök geta hins vegar alltaf átt sér stað. Þegar þau uppgötvast er það merki um styrk að ráðast strax í að leiðrétta þau.
Þá er rétt að nefna að enginn hefur tjáð sig um að kosningasvindl hafi átt sér stað.
![]() |
Innsiglað alls staðar nema í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þá hefst baráttan um háu stólana
28.9.2021 | 08:26
Jæja, þá er kosningum lokið. Að loknum kosningum þykjast auðvitað allir vera sérfræðingar í að lesa úr vilja þjóðarinnar. Ekki ætla ég að vera eftirbátur annarra á því sviði, þó kannski mínar skýringar séu lítt skárri en annarra.
Einfaldast skýringin er að kjósendur völdu að hlusta á kosningaloforð í stað þess að skoða verk stjórnmálamanna. Eitt elsta trix í stjórnmálum lifir því vel, jafnvel hægt að nýta sömu kosningaloforðin aftur og aftur, kosningar eftir kosningar, kjósendur falla alltaf á prófinu. Þetta er sorgleg staðreynd.
Ljóst er að engin vinstri sveifla kemur út úr þessum kosningum, VG, Samfylking og Píratar tapa allir í kosningunum, sem segir einnig að þjóðinni er annt um sjálfstæði sitt og vill ekki hálendisþjóðgarð.
Flokkur fólksins vann stórsigur og það segir okkur að þjóðin vill að betur sé hugað að öldruðum og öryrkjum. Sennilega flestir sem átta sig á að það góðæri sem stærsti hluti þjóðarinnar býr við, var skapaður af því fólki sem nú er skammtað úr hnefa. Að þeir sem skópu hagsældina, með svita og tárum, fá ekki notið hennar.
Undarlegast er þó það tap sem Miðflokkurinn varð fyrir. Þar má sennilega um kenna að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, ásamt reyndar Flokki Fólksins, voru dugleg að taka í sín kosningaloforð verk Miðflokksins á þingi, jafnvel þó skort hafi á samvinnu við hann um málin þegar umræðan um þau stóðu á alþingi. Má þar til dæmis nefna hálendisþjóðgarðinn, orkupakkamálið og ýmis mál er snúa að sjálfstæði okkar og yfirráðum yfir landinu. Þar stóð Moðflokkurinn einn vörð þjóðarinnar í verki. Nú reynir á að þessir flokkar standi við kosningaloforðin, þó framferði þeirra á því sviði hingað til, geri mann ekki bjartsýnan.
Það má túlka þessar kosningar um ýmis önnur málefni, t.d. svokallaða "nýja stjórnarskrá". Lítill vilji virðist til að fylgja því máli eftir. Fleiri mál má nefna en læt þetta duga - í bili.
Og eftir kosningar heft svo rifrildið um stólana, þessa háu. Allir vilja jú snúa á móti þingmönnum í sal alþingis, að ekki sé nú talað um fínu og flottu skrifstofurnar sem þeim stólum fylgir. Og aðstoðarmennirnir, maður minn! Það er ekki ónýtt að geta látið einhvera vini fá væn embætti, vel launuð embætti!
Þetta kristallast í þeirri frétt sem þetta blogg er hengt við. Ríkisstjórnin hélt vissulega velli, en misjafnt var hvernig stjórnarflokkarnir voru kjósendum þóknanlegir. Þetta breytir auðvitað valdahlutföllum stjórnarflokkanna. Framsókn græddi 5 þingmenn meðan VG tapaði 3. Því hlýtur að þurfa nýjan stjórnarsáttmála, sem endurspeglar þennan vilja þjóðarinnar. Þau málefni sem VG stendur fyrir hljóta að vega minna en áður og að sama skapi hljóta málefnin sem Framsókn lofaði að vega þyngra. Ekkert virðist þó vera farið að ræða þessar staðreyndir, alla vega ákaflega lítið. Hins vegar er byrjað að rífast um stólana. SIJ vill auðvitað fleiri ráðherrastóla, Bjarni er tilbúinn að gefa eftir fjármálaráðuneytið, en einungis með vænni ábót. þ.e. 2 fyrir 1.
Það er svo sem ekki nein ástæða fyrir Sjalla og Framsókn að gefa neitt eftir, geta í raun myndað þriggja flokka stjórn með hvaða flokki sem er, jafnvel Miðflokki. Vandinn er kannski að ansi margir stjórnmálamenn á vinstrikantinum voru með stórkallalegar yfirlýsingar fyrir kosningar, sögðust ekki geta unnið með hægri flokkunum. Jafnvel formaður Viðreisnar fullyrti slíkt, jafnvel þó sá flokkur sé kannski sá flokkur sem er lengst til hægri í íslenskri pólitík. Það er hætt við að hún býti í vörina á sér núna, þegar ljóst er að eini möguleiki hennar til ráðherraembættis er með samstarfi við sína fyrrum félaga í Sjálfstæðisflokki.
Samantekið, miðað við kosningaloforð og niðurstöður kosninga:
Ekki ESB eða evra
Ekki hálendisþjóðgarð
Ekki op4
Ekki gjörbyltingu stjórnarskrár
Ekki byltingu sjávarútvegs í landinu
Minni áherslur á að reyna að breyta veðurfari með skattaálögum
Landsmenn vilja auka hag aldraðra og öryrkja
Landsmenn vilja meiri framfarir, minna afturhald, enda eru framfarir eina leiðin áfram.
![]() |
Stjórnin gefur sér út vikuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Metum verk stjórnmálamanna, ekki kosningaloforð þeirra
22.9.2021 | 19:19
Sigmundur Davíð nefnir að skortur á vitlegri umræðu komi ríkisstjórnarflokkunum til góða. Það er rétt hjá Sigmundi, en það eru jú að koma kosningar, sá tími sem stjórnmálamenn virðast flestir tapa glórunni.
Það skortir ekki kosningaloforðin. Keppnin stendur þó ekki um efni þeirra, þar virðast flestir sammála. Keppnin snýst um hversu hátt menn geta hrópað. Efnisleg umræða er fjarri þessu fólki, enda ekki vænleg til atkvæðaveiða. Hitt er talið vænlegra, að geta hrópað nógu andskoti hátt.
Og fyrir þessu falla kjósendur. Þeim er slétt sama um efnislega umræðu, trúa áfram gatslitnum kosningaloforðum sem aldrei virðist vera hægt að standa við. Þeir sem eru nógu duglegir að koma sér á framfæri og hrópa nógu hátt, falla að krami kjósenda.
Hvernig væri, þó ekki nema til tilbreytingar, að meta verk stjórnmálamanna, í stað kosningaloforða. Hvernig væri að skoða hvernig stjórnmálamenn og flokkar þeirra hafa hagað sér þegar þeir komast að völdum. Til dæmis að skoða hvernig þetta fólk hefur hagað sér síðasta áratug, eða svo.
Varla geta vinstri flokkarnir hælt sér af sinni aðkomu að stjórn landsins, eftir að nokkrir íslenskir glæpamenn höfðu nánast sett landið á hausinn. Sumir þeirra meira að segja komnir á þing. Vinstri flokkarnir tveir, Samfylking og VG, voru kosnir vegna loforða um að slá skjaldborg um heimili landsins, meðan komist væri gegnum þann vanda sem þessir glæpamenn höfðu skaðað landið okkar. Hvað skeði? Skjaldborgin var slegin utanum bankakerfið, sem strax á fyrsta ári fór að sýna ævintýralegan hagnað.
Þúsundir fjölskyldna voru bornar út af heimilum sínum, dómur Hæstaréttar var hundsaður með afturvirkum lögum, svokölluðum Árna Páls lögum, lífeyrir til aldraðra og öryrkja var skertur meira en nokkur önnur ríkisstjórn hafði áður afrekað og í ofanálag miðuðust allar aðgerðir stjórnvalda til "hjálpar" heimilum, að því að bankakerfið fengi sitt. Enn eru fjölskyldur sem eiga um sárt að binda frá þessum tíma. Fjölskyldum landsins var fórnað á altari Mammons.
Formaður hagsmunasamtaka heimilanna er nú í framboði til Alþingis. Hún hefur verið dugleg að halda uppi málflutningi um þennan tíma og afleiðingar aðgerða þáverandi ríkisstjórnar á heimili landsins, verið góður málsvari heimilanna. Nú virðist sem flokkurinn sem hún er í framboði fyrir ætli að láta þá flokka sem þá voru við völd, véla sig til samstarfs!
Munum icesave. Þeir samningar komu á færibandi. Sá fyrsti leit dagsins ljós vegna þess að samningamaður ríkisstjórnarinnar nennti ekki að standa í þessu lengur. Sá samningur var skotinn út af borðinu. Næsti icesave samningur var samþykktur af Alþingi, þrátt fyrir hetjulegrar baráttu einstaka þingmanna gegn honum. Forsetinn vísaði hins vegar þeim samning til þjóðarinnar, sem stóð einhuga gegn honum. Þá kom þriðji samningurinn. Þar fór eins, hann var samþykktur af Alþingi, en þjóðin hafnaði honum. Þarna var meðal nokkurra valinkunnra manna, í forsæti gegn þessum samningum, þáverandi formaður Framsóknar.
Aldrei í sögu lýðveldisins hafa verið settir jafn margir skattar á launþega en einmitt þegar þessi vinstri stjórn sat. Enn er verið að vinda ofanaf þeirri skelfingu og verður að segjast að það verk gengur hægar en burðir eru til. Það virðist auðveldara að setja á skatt en taka hann af.
Kvöldið fyrir kosningar, vorið 2009, afneitaði formaður VG ESB aðild í þrígang. Samt stóð hann að aðildarumsókn, korteri eftir kosningar. Þar var auðvitað farin sneypuför. Fólki var talið trú um að um eitthvað væri að semja og að kjósendur fengju síðan að kjósa um þann samning. Kunnuglegt stef sem hefur heyrst nokkuð oft í kosningabaráttunni nú. Staðreyndin er einföld og það komst þessi ríkisstjórn fljótlega að. Umsóknarríki verður að aðlaga sig að ESB, ekki öfugt. Ekki er um neinn samning að ræða, einungis hægt að fá frest á framkvæmd einstakra mála, þó ekki málaflokka. Þegar kom að sjávarútvegi og landbúnaði sigldu viðræðurnar í strand.
Sneypuleg var för þessarar ríkisstjórnar í stjórnarskrármálinu. Ætt var af stað með þvílíkum flumbrugang að Hæstiréttur sá sig knúinn til að grípa inní. Ekki var þó hlustað á hann, heldur haldið áfram. Þjóðinni bauðst síðan að segja álit sitt efnislega um örfáar greinar þess plaggs og hvort nota ætti það sem grunn að breytingu stjórnarskrárinnar. Enn er til fólk sem heldur því fram að ný stjórnarskrá hafi verið samin og þjóðin fengið að kjósa um hana. Það fólk á bágt, enda greinilegt að eitthvað skerðir mynni þess. Það var aldrei samin nein stjórnarskrá, einungis drög og það var aldrei kosið um neina stjórnarskrá, einungis hvort nýta mætti þessi drög til breytingar á gildandi stjórnarskrá. Enda hefði annað verið brot á núverandi stjórnarskrá, þar sem skýrt er tekið á um hvernig breyting hennar skuli framkvæmd.
Það má lengi skrifa um óhæfuverk hinnar einu tæru vinstri stjórnar, sem hér sat frá 2009 til 2012 og síðan í eitt ár til viðbótar sem áhrifalaus minnihlutastjórn. Skemmst er frá að segja að í kosningum vorið 2013 var dómur þjóðarinnar á þessari ríkisstjórn harður. Máttu þáverandi stjórnarflokkar þakka fyrir að halda manni á þingi. Sigurvegari þessara kosninga var hins vega Framsóknarflokkur. Þar kom einkum tvennt til. Formaðurinn og nokkrir þingmenn flokksins höfðu verið einarðir í andstöðu við icesave samningana, alla. En einnig kom til að margir treystu því að það sem formaður flokksins sagðist ætla að gera, að láta kröfuhafa greiða 300 milljarða til ríkissjóðs, til að losna undan höftum þess fjármagns sem þeir höfðu komist yfir í kjölfar hrunsins, einkum með samningum við þáverandi fjármálaráðherra en einnig eftir öðrum leiðum, væri gerlegt.
Og það tókst. Formaður Framsóknar náði þessum 300 milljörðum sem hann sagðist ætla að ná og reyndar gott betur, endaði í um 600 milljörðum. Þeir sem höfðu gagnrýnt hann mest fyrir kosningarnar og sagt hann vera loddara, sagt þetta svo vitlaust sem mest gæti verið og með öllu óframkvæmanlegt, stukku nú fram og ásökuðu formann Framsóknar um að hafa tekið of lítið af kröfuhöfum búanna! Þvílík hræsni!! Skömmu eftir þetta afrek formanns Framsóknar var hann hengdur í beinni útsendingu ruv. Æran var tekin af honum. Magnað hvað tímalínan var þarna nákvæm.
Færum okkur nær í tíma. Í síðustu kosningum kom fyrrverandi formaður Framsóknar fram með eigið framboð. Spár fjölmiðla voru að hann myndi ekki ná neinu fylgi. Sumir frambjóðendur annarra framboða lýstu yfir andstöðu sinni við þetta nýja framboð. Úrslit kosninga voru hins vegar skýr, Miðflokkurinn varð fjórði stærsti flokkur landsins, varð stærri en Framsóknarflokkur.
Á þessu kjörtímabili hafa verið nokkur stór mál til umfjöllunar. Stærstu þeirra kannski orkupakkamálið og hálendisþjóðgarðurinn. Í báðum þessum málum stóð Miðflokkurinn einn í baráttunni gegn þessum málum. Orkupakkamálið tapaðist og ekki enn séð hvaða afleiðingar það mun hafa fyrir okkur sem þjóð, þó líkindin megi kannski sjá hjá frændum okkar í Noregi. Víst er þó að erlendir vindmillubarónar telja sig vita hvað hér á eftir að gerast, enda ásælast þeir hvaða hól sem finnst á landinu. Sumir í samstarfi ráðherra! Hálendisþjóðgarð tókst að tefja nægjanlega til að hann næði ekki fram fyrir þinglok. Reyndar verður starfandi umhverfisráðherra búinn að taka stóran hluta hálendisins undir þjóðgarð án aðkomu Alþingis og án aðkomu kjósenda, en það er annað mál sem sjálfsagt verður kannaður lögfræðilegur grundvöllur fyrir.
Læt hér staðar numið, þó enn megi margt segja.
Megin málið er þó að kjósendur ættu að skoða verk stjórnmálamanna. Þau verða ekki hrakin. Kosningaloforðin eru hins vegar haldlítil, enda sum orðin ansi slitin og ofnotuð. Ef þjóðin vill að við höldum sjálfstæði okkar og reisn, forðast hún þá flokka sem vilja selja landið undir ofurafl erlendra aðila og ef þjóðinni er annt um heimili sín og afkomu, forðast hún vinstri afturhaldsöflin. Þau hafa sýnt hvað í þeim býr!!
![]() |
Skortur á umræðu hjálpar ríkisstjórninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þegar hljóð og mynd fara ekki saman
21.9.2021 | 01:48
Mikill brestur er á því að hljóð og mynd fari ekki saman hjá stjórnmálafólki, einkum skömmu fyrir kosningar. Nú eru til dæmis flestir flokkar sammála um að stórefla þurfi aðgerðir gegn svokallaðri loftlagsvá, en ekki hægt að sjá að lausnir sem þeir nefni muni neitt hjálpa þar til. Því síður er hægt að sjá að gerðir þeirra hingað til hafi mikið hjálpað, í sumum tilfellum beinlínis gert ástandið verra.
Vegagerð um Kjalarnes er eitt skýrt dæmi þar sem hljóð og mynd fara ekki saman. Þörf framkvæmd en mun sennilega vera sú framkvæmd sem mest mun auka losun co2 út í andrúmsloftið. Þvert á orð stjórnmálamanna, sem þó tóku þá ákvörðun um þessa framkvæmd.
Þarna er nú verið að leggja svokallaðan 2+1 veg, þ.e. tvær akreinar í aðra áttina og eina í hina. Auk þess verður lagður nýr vegur, svokallaður tengivegur með einni akrein í hvora átt, meðfram aðalveginum, sumstaðar beggja vegna hans. Því er nú verið að leggja allt í allt frá fimm akreinum upp í sjö akreinar um Kjalarnesið. Mikil og kostnaðarsöm framkvæmd, sem maður skildi ætla að skilaði af sér betri samgöngum og kannski umfram allt minni mengun. En því fer fjarri.
Samgöngur um Kjalarnesið munu verða tafsamari en áður, verri samgöngur. Það skapast af því að þrenn hringtorg verða þarna sett á þjóðveg eitt. Hringtorg hafa þann leiðinlega ágalla að verulega þarf að hægja á umferð gegnum þau. Akstur um þjóðvegi miðast við 90 km/klst, en í gegnu hringtorg er ekki komist á meiri hraða en kannski 25 km/klst, hægar fyrir stóra bíla. Þetta leiðir af sér gífurlega mikla aukningu á mengun frá bílum. Rafbílar eru að vísu að taka yfir fólksbílamarkaðinn, þannig að mengun frá þeim mun í framtíðinni ekki verða svo mikil, þar verður fyrst og fremst um að ræða tafsama umferð. En vöruflutningabílar munu aftur á móti áfram verða á olíu í einhveri mynd, alla vega svo langt sem séð er. Og þar mun einmitt mengunin aukast mest. Það þarf mikla orku til að hægja 40 tonna bíl frá 90 niður í nánast ekki neitt og margfalt meiri orku til að ná þeim aftur upp í 90. Þarna erum við að tala um alvöru mengunar aukningu.
Þegar matsáætlun fyrir þessa framkvæmd er skoðuð sést að auk þessara þriggja hringtorga er gert ráð fyrir fimm undirgöngum undir sjálfan þjóðveginn og a.m.k. ein þeirra eru ætluð akandi umferð. Þá spyr maður; hvers vegna var ekki hægt að gera þrenn mislæg gatnamót á þennan veg og sleppa hringtorgunum. Áætluð undirgöng hefðu þá sameinast þessum mislægu gatnamótum. Ef hljóð og mynd hefði farið saman, þegar ákvörðun um framkvæmdina var tekin, hefði væntanlega verið litið þannig á að þó að einhver aukakostnað hlytist af mislægum gatnamótum, í stað hringtorga að annarra undirganga, væri sá kostnaður réttlætanlegur í nafni minni mengunar. En mynd og hljóð fóru ekki saman þarna, ekki frekar en í svo mörgum öðrum ákvörðunum stjórnmálamanna.
Það er mörg framkvæmdin á sviði gatnagerðar undarleg innan marka Reykjavíkurborgar, í nafni þess að auka eigi almenningssamgöngur. En þó Kjalarnesið tilheyri Reykjavík, er þessi framkvæmd á vegum ríkisins. Því ætti aðkoma borgarinnar ekki að þurfa að menga þessa vegaframkvæmd. Þarna fara fáir sem geta nýtt sér almenningssamgöngur, jafnvel þó strætó sé þarna með ferðir um svæðið. Skipulag þeirra er með þeim hætti að fáir geta nýtt sér þær, ekið er þarna um á stórum hálftómum bílum sem fara fáar ferðir yfir daginn. Þá er þjónusta þessara vagna á tiltölulega þröngu svæði og margir þeir sem um Kjalarnesið fara algerlega utan þjónustu þeirra. Þungaflutningar eru miklar um Kjalarnesið og þar mun mengun aukast mest. Ef mislæg gatnamót hefðu verið gerð, í stað hringtorga, hefði umferð batnað verulega og mengun minnkað, jafnvel þó um 2+1 veg væri að ræða.
En það má taka fleiri dæmi þar sem hljóð og mynd fara ekki saman. VG leggur sennilega mestu áherslu á aðgerðir til bjargar andrúmsloftinu. Þó vill þessi flokkur öðrum fremur taka stóran hluta landsins undir þjóðgarð og útiloka okkar helstu leið til hjálpar jarðkringlunni á þessu sviði, með framleiðslu á endurnýtanlegri og mengunarlausri orku, til að framleiða það sem heimsbyggðin þarf. Þarna er fjarri því að hljóð og mynd fari saman, líkast því að þögul kvikmynd frá upphafi framleiðslu þeirra yrði talsett með tali úr nýjustu kvikmyndum.
Stjórnmálamenn lögðu blessun sína yfir að erlendir aðilar keyptu upp jörð hér á landi, í þeim tilgangi að flytja þaðan út malarefni til Evrópu og Ameríku. Sagt að þetta sé til framleiðslu á "vistvænni" steypu! Þvílík steypa, hversu vistvæn getur steypa orðið þegar efni í hana er ekið á stórum flutningabílum yfir hálft landið og síðan siglt yfir hafið á svartolíu brennandi skipum?! Að ekki sé talað um þann skaða sem landið okkar hlýtur af. Stjórnmálamenn tala um að landið eigi að vera í eigu Íslendinga, að verja eigi landið gegn skaða og minnka eigi mengun. Allt er þarna brotið og hljóð og mynd fjarri hverju öðru.
Þá er ekki annað að sjá en að stjórnmálamenn séu búnir að sannmælast um að Ísland verði paradís vindmillubaróna, sem hingað geti komið og plantað niður risastórum vindmillum á hvaða hól sem þeim dettur í hug og þurfi síðan ekki að þrífa eftir sig skítinn þegar ævintýrinu lýkur. Vindmillur eru sennilega einna mest mengandi orkugjafar veraldar og allra óhagkvæmastar. Þarna sækjast menn eftir skammtímagróða en ætla öðrum eftir skítinn og tapið.
Það má halda áfram endalaust með slík dæmi, þar sem hljóð og mynd stjórnmálamanna fer ekki saman. Við þekkjum þetta svo sem, enda ekki verið að kjósa hér á landi í fyrsta sinn. Það sem kannski er breytt er að á loftlagssviðinu eru flestir flokkar sammála í hljóðinu en myndin er nokkuð mismunandi og hjá sumum þeirra er enga mynd að sjá.
Einn flokkur hefur bent á að skoða þurfi málið í stóru samhengi, þ.e. á heimsvísu. Þannig gætum við lagt mikið til þessara mála með því að bjóða öðrum þjóðum að koma hingað og framleiða sínar vörur hér á landi, með endurnýtanlegri og hreinni orku. Þarna fer hljóð og mynd saman. Aðrir flokkar virðast ekki sjá lengra en á tær sér!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosið um aðild að ESB
18.9.2021 | 08:48
Það stefnir í skelfingu fyrir land og þjóð gangi þessi spá eftir. Það þarf ekki annað enn að horfa til stjórnunar Reykjavíkurborgar, með öllum þeim hneykslum sem reglulega koma upp í stjórn hennar og hvernig fjárhagur borgarstjórnar er, til að átta sig á hvernig fer fyrir landinu, taki sömu flokkar við landsstjórninni.
En það er þó ekki það sem skelfilegast verður fyrir þjóðina. Peningasukk má leiðrétta eftirá, að vísu með sárum aðgerðum og stjórnleysi má búa við um stuttan tíma án teljandi skaða til framtíðar. Verra er að þessir flokkar munu leggja ofuráherslu á framsal sjálfstæðis okkar til erlendra aðila, eða eins og það heitir á máli ESB, "sjálfstæðinu er deilt". Það verður ekki svo auðveldlega leiðrétt til baka.
Þar með yrðum við áhrifalaus með öllu um okkar málefni, yrðum jaðarsvæði samtaka sem stjórnast frá miðju. Þar sem allar ákvarðanir eru teknar til að efla miðjuna á kostnað jaðarsvæðanna. Þetta er vitað, núverandi jaðarsvæði ESB hafa orðið illa úti og þegar eitthvað á bjátar, bankahrun eða heims faraldur, jaðarsvæðin eru látin blæða, til að halda miðjunni gangandi. Og við, hér mitt á milli Evrópu og Ameríku, erum margfalt fjær miðju ESB en nokkurt núverandi jaðarsvæði þess. Því er ljóst að við munum alltaf verða verst úti þegar eittvað bjátar á.
ESB eru deyjandi samtök, sem haldið er á lífi með gífurlegum fjárframlögum aðildarríkja. Fyrir nokkru líkti einn helsti ESB sinni Íslands, til margra ára, inngöngu okkar í ESB við að flytja inn í brennandi hús. Þetta hús brennur enn.
Kjósendur, um þetta verður kosið um næstu helgi, aðild Íslands að ESB. Áttið ykkur á því.
![]() |
Vinstri sveifla þegar vika er eftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvað skal kjósa?
12.9.2021 | 21:19
Nú eru innan við tvær vikur til kosninga og enn hafa frambjóðendur ekki minnst á stóru málin. Það er rifist um dægurmál líðandi stundar, sama hversu smá þau eru. Athugasemdir samfélagsmiðla virðast ráða orðum frambjóðenda.
Enn hefur ekkert verið rætt um orkupakka4, ees/esb samstarfið eða neitt sem máli skiptir fyrir framtíð okkar lands. Ekki er rætt um vindmillubarónana sem flykkjast til landsins og vilja leggja undir sig hvern hól fyrir vindmilluófreskjur, ófreskjur af þeirri stærð að fólki er framandi. Það er ekkert rætt um erlenda auðjöfra sem kaupa hér bújarðir, gjarnan til að komast yfir laxveiðihlunnindi sem þeim fylgja. Þá forðast frambjóðendur að segja hug sinn til hálendisþjóðgarðs, vilja sennilega ekki styggja þann flokk sem að líkindum mun ráða hvernig stjórnarsamstarf verður eftir kosningar.
Það er einungis einn flokkur, Miðflokkurinn, sem hefur rætt þessi mál, mál sem skipta framtíð okkar mestu. En þar sem fjölmiðlar landsins virðast hafa bundist höndum um að útiloka þann flokk frá pólitískri umræðu fyrir þessar kosningar, koma frambjóðendur þess flokks illa frá sér boðskapnum. Einungis einn fjölmiðill virðist standa frambjóðendum Miðflokks opinn, Bændablaðið. Sá miðill gerir ekki greinarmun á stjórnmálastefnu þeirra sem þar vilja láta ljós sitt skína. Allir fá þar áheyrn. Enda eini alvöru fjölmiðill þessa lands.
Með sama áframhaldi, meðan frambjóðendur vilja ekki eða þora ekki að gefa upp sína stefnu í stóru málunum, meðan þeir forast í smámálum dagsins í dag, er ekki nema einn flokkur sem kemur til greina að kjósa, það er sá flokkur sem þorir að nefna stóru málin, þorir að taka afstöðu til framtíðar og lætur ekki hversdagsleg dægurmál draga sig niður í svaðið.
Kjósendur, skoðið stefnumál flokkanna. Allir flokkar nema Miðflokkur eru með nákvæmlega sömu stefnu, froðu um ekki neitt. Þar er enginn munur á Sjálfstæðisflokki eða VG né neinum flokk þar á milli. Sjálfstæðisflokkur er kominn á fulla ferð í auglýsingum, þar sem sömu málum er lofað og fyrir síðustu kosningar, kosningarnar þar á undan og kosningarnar.... Það sama má segja um Samfylkingu, þó forustan láti minna metna innan flokksins um að halda uppi merki aðildarumsóknar og evru. Forusta þess flokks veit að það er gott að geta verið beggja megin borðsins og lætur því þá sem mega missa sig um erfiðu málin. Viðreisn er að festast í evru rugli og ESB aðildarumsókn. Það kemur ekki á óvart, enda flokkurinn flís frá Sjálfstæðisflokki vegna þess máls. Framsókn er farinn að hlaupa um skóga. Formaðurinn ætlar að fjárfestra í fólki. Daginn sem hann færði þjóðinni þann boðskap, afhenti hann vegagerðinni smá auka milljónir, til að setja upp klósett hringinn í kringum landið. Hvernig næsta fjárfesting formannsins verður, verður gaman að sjá. Um Pírata þarf ekkert að ræða, þeir eru bara píratar. Flokkur fólksins á erindi á þing, þó ekki sé nema vegna þess eina máls sem hann er stofnaður um. Hann verður þó aldrei ráðandi á þingi. Svo skulum við bara biðja guð að forða okkur frá því að kapítalistarnir sem kalla sig sósíalista komist á þing.
Það ætti ekki að vera erfitt fyrir hugsandi fólk að kjósa, einungis einn flokkur sem kemur til greina. Fyrir hina getur vandinn orðið meiri, enda fátt sem skilur forarflokkanna í sundur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Til hvers að kjósa?
8.9.2021 | 07:30
Ég veit ekki til hvers þjóðin ætlar að ganga til kosninga. Ekki verður betur séð en að félagasamtök séu að taka yfir stjórn landsins og ekki nóg með það þá virðast þessi félagasamtök vera að yfirtaka íþróttahreyfinguna. Lög landsins virðast ekki þvælast fyrir!
Kynferðislegt ofbeldi er eitthvað svartasta sem menn geta framið, jafnvel verra en morð. Á því verður að taka. Það verður þó ekki gert með hrópum á torgum úti, það verður einungis gert gegnum réttarkerfið. Ef réttarkerfið er talið of veikt, verður einfaldlega að efla það.
Þó þarf að fara varlega, það er auðvelt að kollvarpa réttarkerfinu með of ströngum lögum. Og grundvelli þess, að hver sé saklaus uns sekt er sönnuð, má aldrei fórna.
![]() |
Áslaug telur ummæli Helga vafasöm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Formenn sperra sig
1.9.2021 | 00:51
Ég glaptist til að horfa á formenn stjórnmálaflokkanna sperra sig í sjónvarpinu. Þeim tíma hefði betur verið varið í annað.
En maður verður jú að vera upplýstur, það eru víst að koma kosningar svo betra er kannski að vita hvar maður á að setja X á seðlinum. Eftir þennan þátt er maður lítt betri í kollinum á því sviði, froðusnakkið með eindæmum milli þess sem gamalgróin loforð voru flutt, loforð sem svo gleymast daginn eftir kosningar en dregin aftur upp úr hattinum þegar þær næstu nálgast.
Það sem þó kom kannski mest á óvart var hvernig formaður Viðreisnar opinberaði fákunnáttu sína og það um eina málið sem sá stjórnmálaflokkur var stofnaður um, ESB. Hún ætlar að semja við ESB um aðild Íslands að sambandinu! Það veit hvert mannsbarn, sem eitthvað hefur kynnt sér sambandið, að umsóknarríki semja ekki um aðild, enda slíkt óframkvæmanlegt fyrir ESB. Það er útilokað fyrir ESB að semja við umsóknarríki, þar sem lög þess ná yfir 27 lönd. Það þyrfti þá að breyta lögum í hverju aðildarríki til að þóknast umsóknarríkinu. Það sér hver maður að það gengur einfaldlega ekki upp. Því er skýrt í Lissabonsáttmálanum að umsóknarríki verði að aðlaga sig að lögum og reglum ESB, vilji það inngöngu. Einungis hægt að semja um hversu langan tíma sú aðlögun þurfi að taka. Það er magnað að fólk sem hefur slíka tröllatrú á ESB skuli ekki einu sinni gera sér grein fyrir einföldum staðreyndum, eða þekkja Lissabonsáttmálann, sem er einskonar stjórnarskrá sambandsins.
Þar sem formaður Viðreisnar hefur haldið því fram að aldrei muni verða gefið eftir í sjávarútvegsmálum, getur hún gleymt frekari viðræðum við ESB um inngöngu Íslands. Hún þarf ekki annað en að spyrja það fólk sem var við stjórnvölin þegar síðustu viðræður sigldu í strand, sumarið 2012, á hverju hafi strandað!
Ef einhver formaður sýndi þarna yfirvegun var það formaður Miðflokksins. Hann þurfti ekki að hækka róminn eins og hinir.
![]() |
Peningum ausið út í loftið í loftslagsmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Kosningar
30.8.2021 | 09:02
Nú líður að kosningum. Við Íslendingar erum svo heppin að fá að velja það fólk sem stjórnar landinu, þ.e. löggjafavaldið. Framkvæmdavaldið skipast hins vegar eftirá, þegar kosningum er lokið. Það þarf ekki endilega að endurspegla vilja kjósenda og mörg dæmi þess að menn sem jafnvel rétt skriðu inn á Alþingi, fái digra ráðherrastöðu. En við fáum þó að kjósa til Alþingis, það er alls ekki sjálfgefið og einungis fengið með sjálfstæði þjóðarinnar.
Flestir flokkar og framboð hafa nú opinberað sínar stefnur. Umræðan er hins vegar nokkuð flöt ennþá og snýst fyrst og fremst um ýmis froðumál líðandi stundar. Lítið er talað um það sem máli skiptir fyrir okkur sem sjálfstæða þjóð.
Lítið sem ekkert er rætt um brýn innanlandsmál, s.s. orkumál. Hvernig við eigum að halda þar á málum og þá ekki síst hvort samþykkja eigi orkupakka 4 frá ESB eða sæstreng sem virðist nú vera kominn á fulla ferð aftur. Þetta er eitt brýnasta mál dagsins í dag.
Lítið er rætt um þá bylgju erlendra aðila sem eru að leggja landið undir sig og þar á ég ekki við ólöglega innflytjendur, heldur kaupsýslumenn sem eru að kaupa upp landið til að eignast laxveiðiár, kaupa upp heiðarnar til að byggja þar risastóra vindmilluskóga og kaupa upp firðina kringum landið til laxeldis. Þetta er ein af þeim ógnum sem okkur steðjar hætta af, þó frambjóðendur til Alþingis þegi.
Fleira mætti nefna sem ógnar sjálfstæði okkar þjóðar, eins og t.d. EES samningurinn. Í formálanum hér fyrir ofan nefni ég hvað við séum heppin að fá að kjósa okkur löggjafaþing. Sú heppni súrnar þó aðeins þegar staða Alþingis er orðin þannig að í stað löggjafar er þar að stórum hluta tekið á móti tilskipunum erlendis frá og þær stimplaðar sem lög. Hvert er þá sjálfstæðið okkar komið?
Sjálfstæðisflokkur ætlar að efla loftlagsvarnir, væntanlega með aukinni skattheimtu. Það virðist eina verkfærið. Að öðru leyti reynir flokkurinn að vísa til fornar frægðar, sem löngu er fallin. Ekkert er þarna minnst á orkumál eða op4, ekkert minnst á erlenda auðjöfra sem eru að leggja landið undir sig og ekkert á framtíð EES samningsins.
VG ætlar að efla atvinnulífið í landinu. Auk þess leggur flokkurinn mikla áherslu á loftlagsvarnir fyrir jörðina en einnig skal hér tekinn stór hluti landsins og friðaður. Ætlar að gera það ómögulega. Ekkert er minnst á op4, erlenda landtökumenn eða EES/ESB.
Framsókn er eins og Framsókn er, svona eins og haustlauf sem er við það að detta af grein sinni. Þar á bæ tala menn um að fjárfesta í fólki. Ekkert nánar um það nema kannski að láta það borga veggjöld. Ekkert minnist þessi flokkur þó á þau mál sem ógna sjálfstæði þjóðarinnar. Ekki einu sinni minnst á landbúnað!
Samfylkingin vill ganga í ESB og taka upp evru. Orkumálum og landsyfirráðum má fórna til að ná því takmarki. EES samninginn þarf ekki að ræða í þeirra huga, enda fellur hann úr gildi þegar við erum orðin aðilar að ESB.
Um Viðreisn má hafa sömu orð og yfir Samfylkingu. Auðvitað eru rætur þessara flokka sitt úr hvorri áttinni, Viðreisn á sínar rætur til Sjálfstæðisflokks, til hægri, meðan rætur Samfylkingar liggja til vinstri. ESB er þó sameiginlegt áhugamál þessara flokka og þar sem þetta er í raun eina mál þeirra, má sannarlega kalla þá sitthvora hliðina á sama peningnum. En auðvitað þurfa þessir tveir flokkar ekki að spá í framtíð Íslands eða hvernig hér skal skipa málum. Eftir inngöngu í ESB munum við bara gera eins og okkur er sagt.
Píratar, já píratar. Ég veit eiginlega ekki hvað skal segja. Þeim hefur tekist að halda sér á þing í nokkur kjörtímabil, jafnvel þó þeir hafi enga eiginlega stefnu. Fylgja bara deginum í dag. Fortíð og framtíð er þeim framandi. Sjálfstæði þjóðarinnar eða málefni því tengt er ekki inn á borði Pírata. Hins vegar hafa nokkrir duglegir þingmenn komið frá Pírötum og slíka menn er ágætt að hafa á þingi, svona með.
Flokkur fólksins hefur sett baráttu fyrir aldraða og öryrkja í forgang. Þannig fólk þarf einnig á Alþingi. Þessi flokkur tjáir sig hins vegar lítið um afstöðu sína til þeirra mála er varðar þau mál er ógna sjálfstæði okkar. Það er slæmt fyrir kjósendur.
Jafnvel Miðflokkurinn, sem á sínar rætur að rekja til icesave, hefur verið ansi slappur að ræða málefnin sem mestu skiptir. Verk þeirra segja okkur hins vegar hvar þeir liggja í þessum málaflokkum, en það þarf að minna kjósendur á þau verk. Að koma fram með málefni sem fáir virðast skilja, jafnvel þó það sé gott, gaf flokkurinn fjölmiðlum og öðrum flokkum tækifæri til að mistúlka það á alla vegu og gera erfiðara fyrir frambjóðendur að halda uppi merki flokksins. Miðflokkurinn á að halda sig við sínar rætur og ræða þau málefni sem hann hefur verið duglegastur að vinna að á Alþingi, mál sem snúa að sjálfstæði þjóðarinnar. Að vísu er einstaka frambjóðandi duglegur að halda þessu merki flokksins á lofti, en það er eins og vanti einhvern samhug milli frambjóðenda hans. Kannski var sú breyting sem gerð var á frambjóðendum ekki að öllu leiti flokknum til góða, kannski er hann farinn að stefna í þá átt, sem hann hefur gagnrýnt fram til þessa, að verða einskonar kerfisflokkur.
Sósíalistaflokkurinn er tímaskekkja. Ekki aðeins málefnaleg tilurð hans heldur ekki síður hvernig til hans var stofnað. Það er búið að reyna sósíalískt stjórnarfar í meira en eina öld, vítt og breitt um heiminn. Það hefur allstaðar og alltaf endað með skelfingu.
Að kjósa hefur afleiðingu. Kjósendur hafa vald. Þegar því valdi beitt, er nauðsynlegt að vita hvað skiptir máli og hvað ekki. Við kjósum fyrir okkur sjálf, ekki aðra!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Vandi VG
29.8.2021 | 07:39
Stjórnarflokkarnir þrír héldu hver og einn sinn flokksfund í gær og kynntu sínar stefnur. Magnað var að heyra formenn þessara flokka tjá sig í fréttum eftir þá fundi. Þeir sigldu þar milli skers og báru og reyndu að koma sínum málum á framfæri, án þess að styggja samstarfsflokkana. Bjarni talaði um aukna sókn í umhverfismálum, meðan Kata talar um aukna sókn í atvinnulífinu. Hún minnist hins vegar lítið á umhverfismálin, lætur Bjarna og auðvitað varaformann VG um þau mál. Og hugur varaformannsins er skýr þar, reyndar fátt annað sem hann talar um.
En vandi VG er stór, sennilega sá flokkur sem erfiðast á um þessar mundir. Umhverfismál eru kjósendum þess flokks hugleikin og er það auðvitað gott og gilt. En það er erfitt að samræma alþjóðlega loftlagsvernd og innanlands umhverfisvernd. Til að auka þátt okkar í loftlagsvernd jarðar þurfum við að virkja sem mest má og nýta þá orku til framleiðslu hinna ýmissa þarfa er jarðarbúar þurfa. Að færa þá framleiðslu frá því að vera olíu eða kolakynnt yfir í rafkynnta, með hreinni raforku. En þetta samrýmist ekki hugsjón VG, þar sem þar á bæ má hellst ekki virkja eina einustu lækjarsprænu.
Þennan vanda verður VG að yfirstíga vilji þeir láta kalla sig alvöru stjórnmálaflokk. Annað hvort horfa þeir vítt og leita lausna fyrir alla jarðarbúa, nú eða hitt að þeir horfa bara á tær sér og loka fyrir að hægt sé að framleiða hreina orku hér á landi. Það er algjör ómöguleiki að gera hvoru tveggja.
Eftir fréttir gærdagsins er ljóst að Sjálfstæðisflokkur er genginn lengra til vinstri en nokkurn tíma áður og að VG er farinn að teygja sig lengra til hægri en mörgum flokksfélaganum þykir gott. Að venju dinglar Framsókn eins og lauf í vindi, haustlauf.
![]() |
Velsæld og tækifæri með félagslegum áherslum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)