Sagan kennir okkur

Nú er hafið fjórða eldgosið á Reykjanesinu, á þrem árum. Það hófst með miklum krafti en þegar þetta er skrifað hefur dregið verulega úr því. Óhemju magn hraunelfu hefur skilað sér upp á yfirborðið á ótrúlega skömmum tíma.

Nú, sem fyrr, var fyrirvari gossins lítill sem enginn. Þetta virðist einkenna eldgos á þessu svæði, jarðvísindamenn hafa ekki þekkingu til að segja til um gos, þó þeim hafi tekist nokkuð vel að staðsetja þau, svona að vissu marki. Þekking íslenskra jarðvísindamanna er þó talin ein sú besta í heimi, en náttúran lætur slíkt ekki glepja sér sýn.

En sagan kennir okkur og vissulega má draga lærdóm af þessari sögu jarðelda á Reykjanesi síðustu þrjú ár. Jörð skelfur illilega, landris verðu mikið og á það til að hlaupa milli staða, jarðfræðingar eru á tánum. Síðan dregur úr skjálftum og landrisi, jarðfræðingar róast og fara jafnvel að ýja að því að atburðum sé lokið í bili. Þá gýs. Annað sem má læra er að gosin virðast eflast með hverju gosi.

Það ætti því að vera auðvelt fyrir almannavarnir að gera rýmingaráætlanir. Meðan jörð skelfur er lítil hætta, meðan land rís er lítil hætta. Hins vegar þegar dregur úr landrisi og skjálftum, þarf að fara að huga að rýmingu og þegar jarðfræðingar róast er komið skýrt merki um að tímabært sé að rýma svæði. Því stærri svæði sem gosum fjölgar.


mbl.is „Þurfum að endurskoða okkar rýmingarvinnu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk orkustefna eða orkustefna ESB

Landsvirkjun var stofnuð um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. í tengslum við stórhuga áform um rafvæðingu landsins. Til að svo mætti verða, þurfti stórann kaupanda sem keypti jafna og mikla orku. Þannig kom stóriðjan til landsins. Við stofnun Landsvirkjunar var búin til stefna um fyrirtækið, samhliða orkustefnu fyrir Ísland, stefnu sem gilti allt til ársins 2003, er breytingar urðu á. Í stuttu máli var sú stefna um að hér skildi ávallt almenni markaðurinn vera í forskoti orkunnar og þegar fram liðu stundir átti orka til almenning að endurspegla kostnað við framleiðsluna. Þ.e. að eftir því sem Landsvirkjun tækist að greiða niður sínar skuldir og eflast, ætti orka til almennings að lækka.

En svo kom EES til sögunar. Sá samningur var mjög gagnrýndur af mörgum en þó náðist samkomulag minnsta mögulega meirihluta á Alþingi til samþykktar hans. Einkum fyrir þau loforð að hér yrði aldrei látið af hendi helstu auðlindir okkar og aldrei skildi samþykkja nokkra þá reglugerð eða nokkur þau lög sem gengju nærri stjórnarskránni. Þetta breyttist fljótt og nú svo komið að svokallaðir "háttvirtir þingmenn" sjaldan með stjórnarskrá í huga, hvað þá auð landsins.

Sjö árum eftir að Alþingi hafði samþykkt aðild að EES samningnum kom fyrsti orkupakki ESB til samþykktar. Fjórum árum síðar var hann samþykktur af Alþingi, eða árið 2003. Þar með var búið að afsala sjálfstæði þjóðarinnar yfir einni helstu auðlind hennar, orkuauðlindinni.

Fyrsti orkupakkinn var grundvallar breyting fyrir land og þjóð í orkumálum. Hann gerði að engu þá stefnu sem mörkuð hafði verið við stofnun Landsvirkjunar, orkustefnu landsins. Eitthvað merkasta plagg sem Alþingi hefur samþykkt og sýndi stórhug samfara rétt þjóðarinnar til nýtingar auðlinda sinna á sem bestan og hagkvæmasta hátt hátt, ásamt því að tryggja þjóðinni sjálfri ódýra og trygga orku. Nú skildi markaðslögmálið ráða. Orkumál Íslands skyldu nú hlíta reglum EES svæðisins og innri markaði ESB. Það fyrsta sem við landsmenn fengum að kynnast var fjölgun reikninga vegna orkunnar sem við keyptum. Samkvæmt 1. pakkanum skildi aðgreind framleiðsla, flutningur og sala orkunnar. Íslenskri orkustefnu var skipt út fyrir orkustefnu ESB! Grunnurinn undir einkavæðinguna var lagður!

Annar orkupakkinn var um flutning á raforku milli landa, þvert yfir landamæri. Þarna tókst að skilgreina Ísland sem "einangraðan og lokaðan markað". Því má segja að orkupakki 2 hafi í raun haft lítil áhrif hér á landi en viss sigur að ná fram þeirri skilgreiningu að við værum í raun utan þessa kerfis.

Síðan kemur orkupakki 3. Þá sögu ættu flestir að þekkja. Mjög mikil andstaða var við þann pakka á Alþingi, þó í raun einungis einn stjórnmálaflokkur hafi staðið þar vörð þjóðarinnar. Flestir aðrir stjórnmálaflokkar létu sér þetta í léttu rúmi liggja, eða réttara sagt fulltrúar þeirra á Alþingi. Enginn efi er að ef allir þingmenn hefðu kosið samkvæmt stefnu sinna stjórnmálaflokka í því máli, hefði op3 verið kolfelldur á þingi. En þingmenn kusu heldur að fara gegn stefnu sinna flokka, fara gegn þjóðinni. Þessi orkupakki var alger grundvallar breyting á orkustefnu ESB og EES. Stofnun sérstakrar stofnunar, ACER, er skildi sjá um að allir færu eftir þessari sameiginlegu orkustefnu ESB. Flutningur orku milli landa var sett alfarið í hendur þeirrar stofnunar. Svo má ekki gleyma því sem þáverandi utanríkisáðherra taldi svo ofboðslega nauðsynlegt, aukinn aðskilnað framleiðslu, flutning og sölu orkunnar, fyrst og fremst með aukinni markaðsvæðingu. Það sem þó var verst fyrir okkur landsmenn var að með samþykkt orkupakka 3 var afsalað þeirri skilgreiningu sem orkupakki 2 hafði tryggt okkur, að við værum lokaður og einangraður markaður. Þar með vorum við búin að missa endanleg ráð yfir orkunni okkar.

Orkupakki 4 hefur ekki enn verið samþykktur af Alþingi, enda svo sem engin þörf á Því. Þar sem sá orkupakki hafði þegar tekið gildi innan ESB er við samþykktum orkupakka 3, má segja að Alþingi hafi í raun verið að samþykkja orkupakka 4. Enda er orkustefna ESB samkvæmt orkupakka 4 og allar tilskipanir og gerðir sambandsins um orkumál samkvæmt honum. ACER starfar samkvæmt þeim orkupakka einnig.

Smá innsýn í þann pakka. Aukin völd ACER, tilskipun um orkunýtingu, tilskipun um græna orku, reglugerð um innri markað aukin, reglugerð um loftlagsgæði, stofnun eftirlitsstofnunar um samvinnu innan orkusambandsins og margt fleira. Nokkuð þekkileg orð, þegar horft er til umræðunni sem stjórnvöld viðhafa þessi misserin. Eru greinilega búin að samþykkja orkupakka 4, þó Alþingi hafi ekki fengið um það neitt að segja.

Og nú kemur fram frumvarp frá orkumálaráðherra, rétt eins og skrattinn úr sauðaleggnum, um að tryggja heimilum landsins trygga orku. Erum við þá ekki komin í hring? Hefði þá ekki berið betra að sleppa því að samþykkja orkupakka 3 og halda inni þeirri skilgreiningu að Ísland væri lokaður og einangraður orkumarkaður? Eða það sem hefði verið allra best, að sleppa því alfarið að ganga inn í orkukerfi ESB, strax í upphafi? Þá hefðum við haldið okkar framsýnu orkustefnu, er mörkuð var um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Að betra hefði verið heima setið en af stað farið. Þá hefði ekki þurft að taka dýrmætan tíma ráðherrans til að semja frumvarp um sama efni, frumvarp sem, ef að lögum verður, mun verða lögleysa samtímis því að bókun 35 við EES samninginn hefur fengið samþykki Alþingis og reyndar vandséð að muni halda samkvæmt orkustefnu ESB! Reyndar fyrirséð, eins og fram hefur komið í fréttum, að látið verður reyna á þessa lagasmíð Gulla fyrir dómstólum. Þá mun reyna á hvort ACER eða þessi nýja eftirlitsstofnun ESB muni láta til sín taka.

Þessi lagasmíð Gulla, hver svo sem raunverulegur höfundur þess er, enda skiptir það minnsta máli, eru ólög. Ekki að innihaldið sé slæmt, heldur hitt að með afsali okkar yfir orkuauðlindinn ráðum við bara ekki lengur hver fær orkuna okkar. Alþingi hefur samþykkt að þar skuli markaður ráða og samkvæmt því eru þeir sem kaupa forgangsorku alltaf í forgangi. Veit ekki til að heimilin borgi fyrir forgangsorku, enda sennilega erfitt að halda nýtingu á þeim stöðugri og jafnri.

Þeir sem muna þá umræðu er var í samfélaginu fyrir samþykkt orkupakka 1 og ekki síður orkupakka 3, muna að við þessu var varað. Háværar varnaðarraddir voru um hvert stefndi, hverjar afleiðingar þess væru að ganga inn í orkustefnu ESB og auka þá samvinnu enn frekar. En ekki var hlustað.

Maður veltir nokkuð fyrir sér, þar sem áhugamál Gulla liggja mun frekar að því að hér rísi vindorkuver og það sem flest, en því hvernig heimilum landsins gengur, hvort þetta frumvarp sé til þess eins að slá ryki í augu fólks. Hann veit alveg að ACER mun ekki líða slík inngrip í orkumarkaðinn sem frumvarpið gerir. Hann veit einnig að eftir samþykki bókunar 35 við EES samninginn, munu þessi lög að engu verða. Samt heldur hann áfram með málið. Hver er ástæðan?

Í síðasta pistli mínum spurði ég hvort Gulli væri endanlega búinn að tapa sér og endaði hann á því hvort einhverju hefði verið að tapa. Þetta frumvarp hans nú ber ekki merki um að mikið vit sé í kolli hans og enn síður verður sagt um hans getu til að hugsa þegar orð hans um vindorkuna eru lesin. Þar leggur hann að jöfnu smá mannvirki við risastórar vindmillur og segir heilu sveitirnar svo illa farnar af veru stóriðju innan þeirra, að engu máli skipti þó þær séu fylltar af slíkum ófreskjum sem vindtúrbínur eru.

Er Gulli svona vitlaus eða er þetta eitthvað herbragð hjá honum? Er hann að spila með þjóðina, lofa henni tryggri orku, hvort sem hægt er að framkvæma það eða ekki, til þess eins að færa umræðuna örlítið frá sínu helsta hugðarefni, vindorkuáætlunum erlendra auðmanna. Hann hefur vissulega persónulegan hag af þeim áformum, rétt eins og sumir aðrir í ríkisstjórn.

Það er ekki undarlegt að sá flokkur sem lengst af hefur verið kallaður móðurflokkur íslenskra stjórnmála, sé að þurrkast út af þingi. Það er tap fyrir þjóðina. En meðan flokkurinn sjálfur getur ekki valið sér betri forystu er stefnan á einn veg, niðurávið þar til ekkert er eftir!


mbl.is Frumvarpið ekki samið á skrifstofu Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Gulli nú endanlega búinn að tapa sér

Í dag kynnti Gulli pantaða skýrslu um nýtingu vindorku á Íslandi. Niðurstaðan kemur ekki á óvart, það sem kemur verulega á óvart er hversu skýrsluhöfundar virðast þekkja lítið til málefnisins.

Í einföldu máli eru tillögur skýrsluhöfunda þessar: 

Vindorkuver eiga að vera undir rammaáætlun, nema einhver vilji virkja utan rammans. Þá skal sá kostur "tekinn útfyrir rammaáætlun". Þetta segir að hér skal tekið upp villta vestrið í vindorkuframleiðslu. 

Vind skal frekar virkja þar sem landi hefur verið raskað. Þarna er í raun opnað á allt landið. Vissulega er það svo að sumir telja sig vera komna upp í óbyggðir þegar farið upp fyrir Ártúnsbrekkuna, en þeim til fróðleiks er blómleg byggð hringinn kringum landið. 

Skýrsluhöfundar gera mikið úr því að nærsamfélagið fái notið ávaxta vindorkunnar. Kannski þeir hafi lært þetta orðfæri út í Noregi, þar sem gjarnan heyrast slík loforð til að fá byggingaleyfi fyrir vindorkuver. Minna fer fyrir efndum, enda fráleitt að einhver arður myndist við virkjun vinds. Flest eða öll slík orkuver erlendis lifa á styrkjum þjóðríkja. Þó berjast þau í bökkum.

Ekkert er tekið á allri þeirri mengun sem vindorkuver láta frá sér. Reyndar reynt að gera lítið úr sjónmenguninni með ofangreindri tillögu um að reisa slík orkuver þar sem landi hefur verið raskað, sem aftur gefur skotleyfi á allt landið. Ekkert rætt um aðra mengun, s.s. gífurlegt magn örplastmengunar, SF6 gasmengun og olíumengun í jarðveg frá vindtúrbínum. Ekki er heldur lagt til að vernda svæði fugla, eins og arnarins, fálkans, rjúpunnar og þess fjölda farfugla er hingað kom eða hafa hér viðkomu. Þar er í raun allt landið undir.

En Gulli vill virkja, eðlilega. Hann á ágætis land undir eins og eitt vindorkuver. Kollegi hans í ríkisstjórn, Ási Daða. er heldur lengra kominn. Hann er tilbúinn að reisa vindmillur, hefur þegar útvegað öll tilskilin leyfi sveitarstjórnar í sinni heimabyggð. 

Það voru hins vegar ummæli Gulla, í kynningu á kvöldfréttum rúv sem urðu ástæða þessa pistils. Þar grípur hann áðurnefnda tillögu um hvar æskilegast sé að byggja vindorkuver og nefnir svæði þar sem háspennulínur liggja. Að lítil röskun yrði af því, þar sem háspennumöstur væru þegar til staðar. Honum til upplýsingar þá er hæstu línumöstur um 50 metrar á hæð og þykir mörgum nóg um. Vindtúrbínur eru hins vegar nokkuð hærri, eða fimm sinnum hærri. Það segir þó ekki alla söguna, því hagkvæmni vindtúrbína liggur í stærðinni, því stærri, því minna tap á rekstrinum. Nú er farið að framleiða vindtúrbínur sem eru 350 metra háar og farið að hanna slík tól sem ná upp í 450 metra hæð. Má því ætla að nýjustu og hagkvæmustu vindtúrbínurnar verð reistar hér, þegar brjálæðið hefst. Hæsta mannvirki á Íslandi er mastrið á Gufuskálum, 412 metrar á hæð og það snýst ekki. Hæstu byggingar eru turninn við Smáratorg og Hallgrímskirkja, vel innanvið 80 metrar á hæð.

Þegar ráðherra leggur að jöfnu línumastur sem er að hámarki 50 metra hátt við vindtúrbínu sem er frá 250 metrum á hæð og uppúr, með spaðahafi um eða yfir 200 metrum, spöðum sem snúast þegar vind hreyfir. Þá vissulega spyr maður hvort viðkomandi ráðherra sé endanlega búinn að tapa glórunni, eða var kannski engu að tapa?


mbl.is Nærsamfélög hafi endanlegt ákvörðunarvald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

84.000 fótboltavellir!

Aldrei hélt ég að ég ætti eftir að vitna til Heimildarinnar á þessu vefsvæði.

Eftir síðasta pistil minn vitna ég þó glaður til aðsendrar greinar er birtist á þeim miðli. Grein sem skrifuð er af norskum orkuráðgjafa til okkur íslendinga um þróun vindorkuvera í Noregi og áhrif þeirra. Þetta er varnaðargrein hans til okkar íslendinga sem allir ættu að lesa. Hvers vegna þessi grein birtist einungis á Heimildinni en ekki öðrum fjölmiðlum, verður fólk svo að spyrja sig sjálft. Víst er að hann hefur sent greinina til allra helstu fjölmiðla landsins, en kannski lestur greinarinnar skýri hvers vegna aðrir fjölmiðlar þegi. Það eru jú peningarnir sem tala, eða öllu heldur smá von um að einhverjir molar hrynji niður af gnægtaborðinu.

Þessi norski orkuráðgjafi heitir Sveinulf Vagen. Hann fer nokkuð vel yfir hvernig mál hafa þróast í vindorkumálum í Noregi, upphafið, loforðin og svikin. Ræðir um hvernig fjármögnun er háttað og hvert arðurinn fer. Hann útskýrir líka þróun orkuverðs vegna vindorkuframleiðslu og þar kemur fram það sem margoft má sjá í mínum fyrri skrifum, að vindorkuverum er útilokað að starfa á smáum orkumörkuðum og því nauðsynlegt að tengja slíka orkumarkaði stærri mörkuðum. Jafnvel norski orkumarkaðurinn er allt of smár til reksturs vindorkuvera. Hvað þá um okkar ofursmáa orkumarkað hér á landi. Þetta leiðir til hækkunar á orkuverði, svo miklar að fyrirtæki neyðast til að flytja starfsemi sína úr landi eða leggja hana niður. Rekstrargrundvöllur þeirra hrynur.

Það er þó lokasetning þessarar greinar Svenulf Vagen, "En því miður er skjótfenginn ríkulegur gróði mikið aðdráttarafl fyrir tækifærasinnaða fjármagnseigendur, banka og lobbíista, meðan sjálfbærar lausnir og eðlilegur afrakstur heilla minna", sem segir allt sem segja þarf.

Ég hvert alla til að lesa þessi aðvörunarorð Svenulf Vagen til okkar íslendinga. Vonandi er enn hægt að stöðva þessa þróun hér á landi. Við getum enn lært, það er enn hægt að stöðva þessa öfugþróun, en til þess þurfa landsmenn að vakna!!

 


Sloppin fyrir horn?

Nokkuð er síðan ég nöldraði hér yfir vindorkuverum og þeim hugmyndum um slík fyrirbrigði hér á landi. Nú skal örlítið bætt þar úr.

Vindorkuver í nágrannaríkjum okkar berjast nú í bökkum og stefna hraðbyr á hausinn. Metnaðarfullar áætlanir um stórkostlega uppbyggingu á risa vindorkuverum á hafi, hafa víðast verið lagðar niður. Ofaná þetta bætist síðan að nú eru vindorkuver farin að falla á tíma, eru orðin úrelt og búnaður slitinn.

Ástæðan fyrir lélegum rekstrargrundvelli vindorkuvera er auðvitað fyrst og fremst stuttur endingatími og tiltölulega umfangsmikill búnaður til framleiðslu hverrar orkueiningar, miðað við hefðbundin vatns, gas, kola eða kjarnorkuorkuver. Afskriftir þurfa því að fara fram á mjög stuttum tíma, sem gerir þennan orkukost mjög óhagkvæman. Því velja flest vindorkuver að setja sig í þrot þegar líða tekur að lokum. Til dæmis eiga Kínverjar stórann hlut í flestum vindorkuverum í Svíþjóð. Þar er stundað að láta þessi vindorkuver greiða háa vexti til móðurfélagsins. Eitt sinn kallaðist slíkt "hækkun í hafi" hér á landi og taldist lögbrot. Þetta tryggir hins vegar Kínverja frá því að kosta til dýrt niðurrif orkuveranna.

Annað atriði sem vegur þungt þegar kemur að óhagkvæmni vindorkuvera er að stundum blæs vindurinn en stundum velur hann að halda kyrru fyrir. Þar sem mesta vonin er að vindur haldi ferð sinni, eru gjarnan vinsælustu staðir til að setja niður vindorkuver. Því er svo komið að um norðanverða Evrópu er komin mikill skógur af vindtúrbínum, mis háum. Þegar blæs á þeim slóðum er því mikil orka framleidd, mun meiri en markaður er fyrir. Þá lækkar verð snarlega, þó við hér á Íslandi þættum það verð hátt. Svo aftur þegar vindur vill hvíla sig og halda kyrru fyrir, framleiða þessi vindorkuver litla sem enga orku. Þá hækkar orkuverð upp úr öllu valdi. Því er það svo að vindorkuverin framleiða orku þegar verð eru lægst en enga orku þegar verð er hæst! Ólíkt hefðbundnum orkuverum, sem framleiða jafna orku alltaf, sama hvernig viðrar.

Nú er svo komið að vindorkuver eru farin að komast á aldur, sum hver og fer þeim fjölgandi. Endingatími vindtúrbínu er talin vera allt að 25 ár, sem verður að teljast ansi skammur tími. Á þessum 25 árum fara a.m.k. tvenn sett af spöðum, jafnvel meira við sumar aðstæður. Oftast er það þó svo að þegar sett nr. tvö af spöðum hefur gufað út í loftið, í formi örplast, er ekki talið hagkvæmt að kosta til þriðja spaðasettið. Því er raun endingartími vindtúrbína styttri, jafnvel mun styttri þar sem álag á spaða er mikið, t.d. mikið ísaálag.

Fram til þessa hefur lítið verið gert til ábyrgðar vindorkuhafa um eyðingu úrgangs frá vindorkuverum. Nýlega hefur ESB þó samþykkt að 80% af úrgangi frá vindorkuverum skuli endurunnin. Hvernig það skuli gert er svo aftur annað mál. Endurvinnsla á spöðum vindtúrbína er nánast útilokuð, án enn meiri mengunar fyrir umhverfið. Einfaldast og sennilega besta lausnin er bara að urða spaðana, eins og gert hefur verið. Það er gott og gilt svo lengi sem nægt land er til. Reyndar má búast við að á einhverjum öldum muni spaðarnir eyðast upp í jörðinni. Hvort það verður í formi enn frekara örplasts eða einhverjum öðrum skaðlegum efnum, veit ég bara ekki. Hef hvergi fundið neitt um slíkt, þrátt fyrir víðtæka leit í netheimum. Því skal þó haldið til haga að eitt Bandarískt fyrirtæki gaf fyrir nokkru út að það tæki við slíkum spöðum til endurvinnslu. Þegar nánar var skoðað leifðu þeir listafólki að fá sér bita af spöðum til að búa til listaverk. Hin 99,999% gróf fyrirtækið í jörðu. Þjóðverjar hafa hins vegar valið aðra leið, efir tilskipunina. Þeir senda bara spaðana til Póllands og málið er dautt!

Það þarf engum blöðum um það að fletta að vindorkuver er mjög mengandi aðferð til raforkuframleiðslu. Fyrir utan augljósa sjónmengun og mengun við uppsetningu slíkra orkuvera, þá er mengun á rekstrartíma þeirra mjög mikil. Mikil þróun hefur orðið í framleiðslu vindtúrbína, en sú þróun er einungis á einn veg, uppávið. Lítil sem engin þróun er í búnaði, önnur en stækkun hans í samræmi við hækkun vindtúrbína og stærra vænghafs. Spaðar eru enn framleiddir úr trefjaplasti, enda fátt annað í boði og ekkert á skynsamlegu verði. Því eykst örplastmengun í sama hlutfalli og túrbínur stækka. SF6 gas er önnur mengun sem rakin er til vindorkuvera. Þetta gas hefur margfalt lengri endingartíma í andrúmslofti en t.d. co2, er talið jafn slæmt eða verra varðandi gróðurhúsaáhrif. Á þeim svæðum sem mest hefur verið byggt af vindorkuverum fer gildi þessa gas marktækt hækkandi og það beinlínis rakið til vindorkuvera. Fleira má telja sem mengunarvalda í rekstri vindorkuvera, læt nefna þriðja vandamálið sem virðist vera orðið mjög erfitt að komast hjá, en það eru olíulekar frá vindtúrbínum. Þessi olía mengar jarðveginn umhverfis túrbínurnar og mun smá saman síast út í jarðveginn. Þá verða vatnsból í hættu.

Fyrirsögnin á þessum pistli "Sloppin fyrir horn?" vísar auðvitað í það hvort við hér á landi séum sloppin fyrir horn í að fórna landinu undir vindorkuver. Hvort það nægi ráðamönnum að sjá að rekstrargrundvöllur fyrir rekstri slíkra orkuvera er ekki til staðar, jafnvel ekki þar sem orkuskortur er mikill og orkuverð hátt. Hvort ráðamenn séu loks farnir að átta sig á að vindorkan, í þeirri mynd sem hún er virkjuð í dag, er ekki umhverfisvæn, reyndar svo mengandi að jafnvel kolaorkuver mengar minna. Að vísu er lítil co2 mengun frá vindorkuverum en þess meira af mengun sem er enn verri og þekkist ekki frá kolaorkuveri. Ekki að ég sé að mælast til að slík orkuver verði bygg hér á landi, eigum enn næga vatns og hitaorku og þegar við komumst á þrot þar, má finna önnur minna mengandi orkuver en þau sem kynnt eru með kolum. Hugsanlega verður betri og minna mengandi aðferð þá komin til virkjunar vindsins.

Líklegast er þó, þar sem ráðherrar okkar, sumir hverjir, eiga beinan hag af því að vindorkuver verði reist hér á landi, muni staðreyndir skipta litlu máli fyrir þá. Að frekar verði unnið bakvið tjöldin að framgangi þess að fórna landinu undir vindorku. Að einn daginn sjáum við bara stóreflis vinnuvélar leggja hér vegi um fjöll og firnindi, svo reisa megi sem hæstu og flestu vindtúrbínurnar. Það fer enginn að reisa litlar og lágreistar vindtúrbínur, þegar hægt er að fá alvöru slík tól.

Því hærri því hagkvæmari, þar til allt hrynur!!

 


Ekki má það minna vera

Auðvitað þurfum við að gera vel við allt fólkið sem hjálpar ráðherrunum að stjórna landinu. Annars gæti illa farið.

Nýtt 6000 fermetra húsnæði, fyrir tvö ráðuneyti er það minnsta sem hægt var að finna, enda kostar hver farmeter ekki nema rétt um eina milljón króna. Minna má það ekki vera. Ríkisbankinn, sem selur eiganda sínum þetta fína húsnæði, hangir á horriminni og þarf nauðsynlega að minnka höll sína örlítið.

Hvert erum við landsmenn komnir?! hvert eru stjórnvöld komin, sem slíka gjörninga gera. Það eitt að Landsbankinn reisi sér hurðarás um öxl með byggingu eins allra dýrast húsnæðis á landinu, er sannarlega gagnrýni vert. Sér í lagi þar sem bankinn er í eigu landsmanna. Þegar síðan þetta ríkisfyrirtæki selur eiganda sínum rúmlega þriðjung af því húsi sem hann hafði byggt, á verði sem er einstakt, verður öll gagnrýni á stjórnendur landsins gagnslaus. Það stoðar lítið að gagnrýna fávíst fólk!

Kannski er allt það fólk sem á að hjálpa ráðherrum við stjórn landsins ekki starfi sínu vaxið. Kannski er allt of margt fólk sem fær það hlutverk að reyna að tryggja að ráðherrar haldi sönsum. Kannski er allt þetta fólk engu betra en ráðherrarnir sem það á að passa.

Þegar ekki er hægt að halda hér uppi sómasamlegu heilbrigðiskerfi, ekki hægt að koma börnum læsum út á lífið, ekki hægt að halda uppi matvælaframleiðslu í landinu svo vel sé og ekki er hægt að sýna öldruðum þann sóma að þeir fái eytt elliárunum með reisn og svo framvegis, er varla til fjármagn til kaupa á dýrasta húsnæði landsins, svo blýantsnagararnir hafi það gott. Ein milljón undir hvern stól, fjórar milljónir til að hægt sé að setjast á klósettið, er vissulega vel í lagt.

Fyrir þessa sex milljarða sem húsnæðið kostar okkur landsmenn, hefði verið hægt að gera svo margt annað og betra. Best hefði þó verið að minnka halla ríkissjóðs um þá upphæð.

Fólk sem situr efst í fílabeinsturni veit lítið um raunveruleikann sem fyrir neðan er. Nú er fílabeinsturnunum fjölgað sem aldrei fyrr.

Það er vissulega farið að koma upp ónotatilfinning í maga manns. Ástandið í landinu, ekki síst stjórnmálum, er farið að minna helst til mikið á árin fyrir hrun. Flottræfilshátturinn orðin helsta aðalsmerkið!!


mbl.is Ráðuneytin flytja eftir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áttatíu og eitthvað

Stórveldið Ísland sendi 80 og eitthvað fulltrúa til Dúbaí, þvert yfir hnöttinn. Þar stendur enn yfir ráðstefna sem kallast Cop28, eða 28 unda loftlagsráðstefna Sameinuðuþjóðana. Þá ráðstefnu sækja um 97.000 einstaklinga.

Hvers vegna sendum við bara 80 og eitthvað, af hverju ekki 180 og eitthvað eða 1080 og eitthvað. Við erum nefnilega svo öflug á heimsvísu, svo ofboðslega rík, nema kannski þegar kemur að grunnþjónustunni hér heima. Þá eru fáir aurar til. Á okkar ráðamenn er sko hlustað á erlendri grundu og ráð þeirra mikils metin. Enda ljóst að Ísland spilar lykilhlutverk þegar kemur að stjórnun veðurfarsins. Það má skilja á orðum fyrrum forseta vors, sem eitt sinn naut aðdáunar og trausts þjóðarinnar. 

Það er vísindalega sannað að skömmu eftir að lauf fara að gulna á trjám hér á landi, tekur að kólna í Evrópu og meir en það, það kólnar þá um allt norðurhvel jarðar! Því ættum við að vera dugleg að senda sem flesta ráðamenn okkar út í heim, sem lengst og sem oftast. Þannig gætum við hugsanlega frestað eitthvað banvænum kuldum í Evrópu og á norðurhvelinu, gætum hugsanlega lengt þann tíma sem laufin á trjánum okkar halda fallega græna lit sínum. Bónusinn væri að þessir ráðamenn gera þá ekkert af sér hér heima á meðan, meðan heimsbyggðin hæðist að þeim. 

Cop 28 er semsagt 28 ráðstefnan á jafn mörgum árum, þar sem heimsbyggðinni er færð sú frétt að jörðin eigi einungis örfá ár eftir til tortímingar, eða eins og forsætisráðherra okkar hafði sem lokaorð í sinni ræðu, suður í Dúbaí, steikingar jarðar.

Eitt skilur þessi ráðstefna eftir, sem margir hafa bent á en fáir viðurkenna. Þessar ráðstefnur snúa um eitt verkefni og aðeins eitt. Að færa peninga frá almenningi til valdra auðmanna. Sönnunin liggur svo skýr á borðinu að fáir geta efast. Forríkur forstjóri stærsta olíufyrirtækis Saudí Arabíu, háttsettur innan samtaka olíufyrirtækja þar syðra, nær með auð sínum að kaupa sig sem formann ráðstefnunnar! Hann hélt hjartnæma opnunarræðu á henni, þar sem hann fór stórum og þungum orðum um olíuvinnslu heimsins, taldi að þar mætti finna sökudólga. Ekki hafði hann yfirgefið höllina þegar hann, í viðtali eftir þessa hjartnæmu ræðu sína, fullyrti að notkun jarðefnaeldsneytis væri ekki skaðleg jörðinni, að engar vísindalegar rannsóknir staðfestu það.

Þarna var auðvitað komin skýring þess að réttlætanlegt væri fyrir hann að kaupa formannsæti ráðstefnunnar. Ekki var það til að standa að því að fórna eigin auðæfum, alls ekki. Nei, þarna náði hann að gera vægi orða sinna verulegt. Enda er það svo að vart berast nú fréttir af þessari ráðstefnu. Reyndar fræddi mogginn okkur um að nokkur mengun væri í Dúbaí. Sennilega bæði á götum þar syðra sem og í hugum þeirra 97 þúsund gesta sem ráðstefnuna sækja.

Miklar fréttir voru um einhver straumhvörf myndu verða á ráðstefnunni, áður en hún hófst, þar sem færa átti heimsbyggðina aftur um eina öld eða svo, á næstu fimm til tíu árum. Minna fer af þeim fréttum nú, meira að segja rúv þegir að mestu. 

Vonandi skilar þessi ráðstefna því að fólk hugsi aðeins, opni hug sinn og forvitnist. Forvitni er jú forsenda vísinda, að leita sannana. Að fólk átti sig á því að náttúrunni verði ekki bjargað með því að fórna henni. Við erum reyndar komin nokkuð vel á leið í þeirri vegferð. Frumskógar eru ruddir til að framleiða "náttúrulegt" eldsneyti, ökrum til matvælaframleiðslu er breytt í sama tilgangi. Ósnortinni náttúru og blómlegum landbúnaðarhéruðum er fórnað undir sólarrafhlöð og stórmengandi vindorkuver. 

Það mun ekki verða hlýnun jarðar sem útrýmir mannverunni á jörðinni, heldur meintar aðgerðir til stjórnunar hitastigs jarðar. Fórn náttúru og endalaus skattlagning mun kollvarpa tilveru mannsins. Og þegar við aumingjarnir sem búum til verðmætin, föllum fyrir hungrinu, verða peningar auðrónanna lítils virði.

Íslenskir stjórnmálamenn ráða þar litlu, eru ekki einu sinni peð á skákborði heimsmálanna! 


Fullveldið 105 ára og sjálfshól rásar 2.

Mikil mistök voru gerð fyrir fjörutíu árum síðan, þegar rás 2 var hleypt út í loftið. Ekki var hægt að velja verri dag en sjálfan fullveldisdaginn til að starta þeirri útvarpsrás.

Rás 2 má muna sinn fífil fegurri. Nú er svo komið að fáir hæla þessari stöð sem einhverjum meiriháttar menningarmiðli. Því er einungis eitt til ráða hjá starfsfólki hennar, að hæla sjálfu sér! Hvert sinn sem ég hef álpast inn á þessa útvarpsrás í dag, hefur dunið á manni sjálfshólið. Fer reyndar lítið fyrir hóli á það fólk sem ruddi þar brautina, en þess meira hæla starfandi starfsmenn stöðvarinnar sjálfu sér. Sjálfshól er einn angi minnimáttarkenndar og ekki annað séð en innan stöðvarinnar sé fólk haldið alvarlegri minnimáttarkennd.

Í dag er fullveldið 105 ára. Ekki er minnst á þann áfanga hjá starfsfólki rásar 2. Ekki frekar en þegar við héldum upp á aldarafmæli fullveldisins, fyrir fimm árum síðan. Þá voru starfsmenn stöðvarinnar svo uppteknir af því að halda upp á 35 ára afmæli rásarinnar. Taldi það merkari tímamót en aldarafmæli fullveldis okkar.

En hvað sem starfsfólk rásar 2 segir, þá eigum við þjóðin stórafmæli, fullveldisafmæli. Fullveldið gaf þjóðinni yfirráð yfir löggjafavaldinu, dómsvaldinu og framkvæmdavaldinu. Urðum fullvalda þjóð í konungsríki. Þetta var stærsta og afdrifaríkasta skrefið í átt til stofnunar lýðveldis Íslands.

En það eru blikur á lofti. Löggjafavaldið og jafnvel dómsvaldið hefur verið fært í litlum en mörgum skrefum undir erlend yfirráð. Framkvæmdavaldið telur sig ekki lengur starfsfólk landsmanna, talar frekar máli þessara erlendu aðila.  Enn er talað um að Ísland sé fullvalda lýðveldi. Fullveldið byggir á fullum yfirráðum yfir eigin þegnum. Svo er ekki í dag. Við gerð EES samningsins var bent á að fullveldinu væri að hluta fórnað. Að sá samningur stæðist ekki stjórnarskrá. Síðan eru liðnir um þrír áratugir og hægt og sígandi verið gengið á rétt landsmanna og stjórnarskrá, gegnum þann samning. Hin síðari ár hefur svo keyrt um þverbak. Regluverk ESB, gegnum EES samninginn flæðir inn í landið. Fæstir þingmenn nenna að kynna sér allt það regluverk og samþykkja hljóðalaust. Þannig höfum við glatað sjálfræði yfir einni mestu auðlind okkar, orkuauðlindinni.

Á starfandi þingi nú liggja svo fyrir áætlanir um að samþykkja enn frekari eftirgjöf af fullveldinu, með svokallaðri bókun 35. Þar fer fyrir málinu formaður þess stjórnmálaflokks sem kennir sig við sjálfstæði þjóðarinnar. Kaldhæðnin getur vart orðið meiri. Verði af samþykkt þeirrar bókunar, verður ekkert fullveldi eftir til að halda uppá.

Þá getum við glaðst með sjálfhverfa starfsfólkinu á rás 2, þann 1. des hvert ár. Gætum jafnvel sent skjaldarmerki rásarinnar til Winnipeg í Kanada, þar sem það gæti staðið við hlið styttunnar af Jóni Sigurðssyni. Hætt er þó við að afkomendum íslendinganna sem þangað fluttu, þegar sjálfstæðisbarátta okkar stóð sem hæst, þyki slík gjöf móðgandi. Þar vestra er minning Jóns Sigurðssonar og fullveldisstofnunin í hávegum höfð.

Það færi betur ef landsmenn ræktu arf sinn jafn vel og afkomendur þess fólks sem þurfti að flýja héðan náttúruhamfarir, örbyrgð og fátækt, mitt í baráttunni um fullveldi landsins okkar.

Það færi betur ef við stæðum vörð þeirrar baráttu er forfeður okkar unnu, í skugga hafísára, stórgosa, fátæktar og landflótta.


MIB í strætó

 

Watch Men in Black Streaming Online | Hulu (Free Trial)


mbl.is Svartklæddir eftirlitsmenn í Strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegir stjórnendur?

Eru íslenskir stjórnendur fyrirtækja almennt lélegir?

Við þekkjum öll söguna af því þegar nokkrir einstaklingar komust yfir bankakerfið okkar og settu það á hausinn svo fjölskyldum landsins blæddi. Sumir töldu að þar hefðu menn fyrst og fremst verið að sanna þá kenningu að besta leiðin til að ræna banka, væri að ræna hann innanfrá. Eða voru þessir menn kannski bara svona lélegir stjórnendur?

Mörg fyrirtæki voru stofnuð í kjölfar hrunsins, flest þeirra farið á hausinn. Má þar nefna flugfélög og fjárfestingafélög. Þar er greinilegt að stjórnun var léleg.

Íslenskt lyfjafyrirtæki, sem rekið er um allan heim, er rekið með gríðarlegu tapi. Lyfjanotkun hefur þó aldrei verið meiri, hvort heldur er hér á landi eða öðrum löndum hins vestræna heim. Ber það merki þess að hinn íslenski stjórnandi þess fyrirtækis sé góður stjórnandi?

Og nú þarf íslenskt flugfélag að breyta hjá sér afkomuspá, vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Ekki vegna þess að farþegum hafi fækkað svo mikið, einungis pöntunum með skömmu fyrirvar fækkað örlítið og að sögn forstjórans merki um að það sé að ganga til baka. Aldrei hafa verið fleiri ferðamenn sem heimsækja Ísland og þetta ár. Er þetta merki um góða stjórnun?

Þeir sem ekki geta rekið lyfjafyrirtæki með sóma, þegar lyf eru brudd sem sælgæti um allan heim og þeir sem ekki geta rekið flugfélag þegar farþegafjöldi er í hæstu hæðum, ættu kannski að skoða stöðu sína. Kannski hentar þeim betur eitthvað annað starf en stjórnun.


mbl.is Breyta afkomuspá vegna jarðhræringanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helber lygaþvættingur

Einn er sá flokkur á Alþingi sem mest hefur predikað siðabót kjörinna fulltrúa. Reyndar var þessi stjórnmálaflokkur stofnaður um það eitt, í upphafi. 

Þó er það svo að eini þingmaðurinn sem setið hefur á þingi og hefur á baki sér áfellisdóm siðanefndar Alþingis, kemur frá þeim flokki og situr enn sem fastast.  Og nú bætist við að fyrsti kjörni fulltrúi Alþingis sem handtekinn er af lögreglu, kemur einnig frá þessum sama flokki. Víst er að hún mun einnig sitja áfram á þingi.

Þeir sem predika siðabót kjörinna fulltrúa og eru gjarnan fyrstir til að kalla eftir afsögnum annarra þingmanna, við minnsta tilefni, ættu auðvitað að sýna gott fordæmi. Og þegar upp koma atvik sem rýrir störf þeirra á einhvern hátt, eiga þingmenn þessa flokks að fara eftir því sem þeir krefja aðra um.  Annað kallast tvískinnungur og lygaþvættingur!

 


mbl.is Kannast ekki við fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing andskotans

Nú þegar við landsmenn erum farnir að byggja svokallaða varnargarða vegna mögulegs hraunrennslis á Reykjanesi, vaknar óneitanlega upp spurningar í huga manns. Spurningar um einkarekstur á innviðum.

Þeir varnargarðar sem nú eru í framkvæmd og kosta munu einhverja milljarða króna, eru sagðir til að verja innviði á Reykjanesinu. Innviði sem eru í einkaeign, einkarekstri. Hvernig Bláa lónið getur talist til innviða landsins er svo aftur stór spurning. Afrennsli frá orkuveri sem hefur verið markaðssett erlendis og einhverra hluta vegna komist í eigu einkaaðila. En látum vera að ræða það núna.

Orkuverið sjálft telst óneitanlega til innviða. Um það verður ekki deilt. Það er rekið af einkaaðilum sem hirða af því allan arð sem gefst. Þegar á móti blæs, á síðan ríkið að hlaupa undir bagga. Þarna er eitthvað rangt. Kallast einkavæðing andskotans.

Ef innviðir landsins eru svo mikilvægir að ríkissjóður verður að koma til þegar hætt steðjar af, hlýtur að vera best að slíkir innviðir séu í höndum ríkisins. Að einkaaðilar geti ekki sölsað þá undir sig. Þannig myndi arður af fyrirtækinu, þegar vel gengur, renna í ríkiskassann, sem þá væri kannski sterkari að taka á áföllunum þegar þau ríða yfir. Ef við hins vegar teljum að einkavæða megi þessa innviði, hlýtur sú einkavæðing að taka bæði til hagnaðar og taps.

Það er í sjálfu sér ekkert að því að gera tilraunir til að berjast við náttúruna, þó slíkt hafi sjaldnast tekist. Bygging varnargarða vegna mögulegs hraunflæðis er vart hægt að sjá að takist, sér í lagi þegar ekki er vitað hvort eða hvar gýs. En sjálfsagt að prófa það. Ef ríkissjóður stendur að slíkum tilraunum verður að velja vandlega hvað skal reyna að verja. Vel stæð einkafyrirtæki sem greiða eigendum mikinn arð geta varla verið framarlega í því vali. Þau geta einfaldlega sótt um leyfi til að gera slíkar tilraunir upp á sínar eigin spýtur.

Vissulega er Orkuverið í Svartengi nokkuð mikilvægt fyrir landi og þjóð. Orkuframleiðsla HS Orku er samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins um 184 MW uppsett afl. Það munar sannarlega um það. Þessi orka er unnin úr jarðvarma, fengnum með djúpum borholum í jörðina. Dýpsta holan þeirra er 4,6 km. Alls er virkjunin með 54 háhitaholur, nokkuð vel djúpar. Talið var að hraunið undir Grindavík hafi verið komið 0,8 km upp undir yfirborð jarðar. Nýjustu fréttir eru að kvika nálgist óðfluga yfirborðið nærri Svartsengi og því kannski ekki mesta ógn orkuversins rennsli á hrauni ofanjarðar, heldur eldsumbrot neðanjarðar. Eldsumbrot sem kannski ná ekki upp á yfirborðið en gæti hæglega eyðilegt allar borholur virkjunarinnar.

Þegar við veljum að byggja á þekktum eldsumbrotasvæðum eða virkja þau, verðum við að sætta okkur við að náttúran ræður þar öllu. Ef hún ekki sættir sig við þau áform okkar er enginn mannlegur máttur sem getur stöðvað hana. Skiptir þar engu hvort um efnaða einkaaðila er að ræða eða sveltan ríkissjóð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband