Nýr forseti
2.6.2024 | 09:04
Fyrst vil ég óska Höllu Tómasdóttur til hamingju með sigurinn.
Niðurstaða kosninganna um nýjan forseta yfir Íslandi, næstu árin, gat farið verr, en einnig líka mun betur. Ljóst er, miðað við fjölda frambjóðenda, að Halla fékk góða kosningu og vonandi mun hún standa sig í starfi. Til þess þarf hún að vera duglegur forseti þjóðarinnar, ekki láta utanaðkomandi öfl stjórna sér til hlýðni. Þetta mun fljótlega koma í ljós, enda mörg umdeild mál sem koma fljótt inn á hennar borð. Þá reynir á hana og sýnir hennar innri mann.
Þessi sigur Höllu losaði Kötu af öngli sjallana og því getur hún brosað breytt, einnig með augunum.
Það er hins vegar sú værukærð yfir landsmönnum sem kemur mér mest á óvart. Meðan erlend öfl eru að leggja undir sig landið okkar og erlend ríkjasambönd sælast sífellt meira til valda hér, sneið fyrir sneið, voru einungis örfá prósent sem kusu þann frambjóðanda sem stóð heill gegn þessum öflum. Við fengum tækifæri til að snúa þessari þróun við, en gripum það ekki.
"Þetta reddast" er okkur landsmönnum tamt máltæki. Eftir að sjálfstæðinu hefur verið fórnað mun ekkert "reddast". Þá verðum við hjálenda án allrar ákvarðanatöku um land okkar og auð þess.
Baráttan heldur áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í dag sést hvernig til tókst að snúa þjóðinni á " rétta braut".
1.6.2024 | 09:37
Jæja, þá er maður komin heim úr sveitinni. Lítill tími hefur verið til lesturs og enginn til skrifta síðustu vikur, meiri hagsmunir verið í forgangi, þ.e. að leggja örlitla hönd á að fæða þjóðina.
Ekki hefur þó slagurinn um Bessastaði farið framhjá manni, trúðslæti fjölmiðla og opinberun þeirra á heimsku sinni og sjálfhverfu hefur riðið hér öllu. Engu líkara en að þessar forsetakosningar eigi að snúast um þá.
Tólf vonbiðlar til Bessastaða keppa. Því er ljóst að hver sem kosinn verður, mun hafa lítinn hóp landsmanna að baki sér. Verður ekkert sameiningartákn eða mannsættir. Hins vegar gæti nýr forseti unnið á og heillað þjóðina. Jafnvel sameinað hana. Til þess þarf hann að vera duglegur að hampa þeim gildum er sameina okkur sem þjóð, tungumálið, fegurð landsins og auðæfi, sjálfstæði okkar og frelsi.
Ekki ætla ég að tala hér mikið um sjálfa frambjóðendurna. Þó verður ekki hjá því komist að nefna bros fyrrum forsætisráðherra. Þetta bros sem svo marga heilla. Nú nær þetta fallega bros hennar ekki lengur til augnanna, einungis varanna, samkvæmt margendurteknum auglýsingum hennar á ljósvakamiðlum. Sorglegt.
Annan frambjóðanda vil ég nefna, Arnar Þór Jónsson. Hann hefur borið af öðrum frambjóðendum, hvort heldur er í rökræðum eða öðrum uppákomum sem fjölmiðlar telja skipta máli, eins og flökun á fiski, míní útgáfu af "gettu betur", eða hverju öðru sem komandi forseti mun alveg örugglega aldrei þurfa að inna af hendi í embætti. Hversu gáfulega eða hálfvitalega fjölmiðlar hafa látið, þá hefur Arnari ætíð tekist að koma fram af reisn og styrk. Fjölmiðlum aldrei tekist að koma honum úr jafnvægi.
Arnar er rökfastur og treystir þjóðinni. Hann gerir sér grein fyrir því hvaðan valdið kemur. Það er þjóðin sem hefur valdið, kjörnir fulltrúar eru vinnumenn þjóðarinnar. Því hefur hann boðað að í enn fleiri málum, einkum þeim er snýr að sjálfstæði okkar, muni þjóðin sjálf eiga síðasta orðið.
Einkum eru það þó verk Arnars sem setja hann ofar öðrum frambjóðendum. Hann hefur verið einstaklega duglegur við að halda uppi vörnum um sjálfstæði okkar, ekki síst í orkumálum. Hefur á stundum fengið bágt fyrir, einkum hjá svonefndum samherjum. Um stund heyrðist lítið frá honum, meðan hann var dómari. Til að geta látið rödd sína heyrast sagði hann upp þeirri æviráðningu, sem er næsta einstakt hér á landi.
Svo undarlegt sem það er þá hefur fylgi Arnars mælst lágt í svokölluðum skoðanakönnunum. Aðrir frambjóðendur, sumir sem sýnt hafa í verki að orð og æði þarf ekki að fara saman, sumir sem líta sjálfstæðið frjálsu auga og sumir sem eiga það kærast að beinlínis vilja gangast undir valdboð erlendra aðila, mælast hærra í þessum svokölluðum skoðanakönnunum.
Þetta vekur vissulega upp spurningar. Er þjóðinni virkilega sama um sjálfstæði þjóðarinnar? Er þjóðinni virkilega sama þó landinu verði spillt með vindorkuverum, um landið þvert og endilangt, í boði erlendra aðila? Eða eru kannski þessar skoðanakannanir ekki sem sagt er? Komið hefur fram að sumir þeirra frambjóðenda er hæst mælast, eru með óbein tengsl inn í sum könnunarfyrirtækin og helstu stuðningsmenn þeirra með bein tengsl. Það eykur vart traust til þeirra.
Vitað er að skoðanakannanir, sannar eða lognar, eru skoðanamyndandi. Eftir hverjar kosningar koma svo þessi fyrirtæki og hæla sér fyrir nákvæmni sína, jafnvel þó nákvæmnin sé kannski ekki svo mikil. Fyrirtækin hafa ávallt svör við því. Kannski ættu þessi fyrirtæki frekar að hæla sér af því hversu vel þeim tókst til að snú þjóðinni á "rétta braut". Hvort tekst jafn vel og oft áður, eða jafn illa og í Icesave kosningunum, þegar þjóðin neitaði alfarið að fara eftir vilja þessara fyrirtækja.
Ég hvet alla til að mæta á kjörstað og nýta þann rétt er okkur er gefinn til að ráða okkar málum. Ef ykkur er annt um land okkar og þjóð, tungu okkar og frelsi til að nota hana, sjálfstæðið og rétt okkar til yfirráðum á auðlindum okkar og vissu þess að fá að eiga síðasta orðið í öllum mikilvægustu málum þjóðarinnar. Að það verði Íslendingar en ekki erlendir auðhringir eða erlend ríkjasambönd sem hér fái að vaða yfir allt og engu eira. Ef þið viljið forseta fyrir Ísland, þá kjósið þið Arnar Þór Jónsson.
Ef ykkur er sama um þessi grundvallar málefni, sem gerir okkur að Íslendingum, ef þið viljið forseta fyrir erlenda aðila, getið þið kosið hvern þann sem skoðanakönnunarfyrirtækin telja okkur fyrir bestu.
Sjöundi forseti Íslands kjörinn í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kveikurinn útbrunninn
9.5.2024 | 16:01
Fréttastjóri ruv telur engin annarleg sjónarmið liggja að baki því að fréttaskýring Maríu Sigrúnar var bannfærð í Kveiksþætti. Það má svo sem koma með ýmsar eftiráskýringar um þá ákvörðun, en öllum er ljóst af hvaða hvötum hún var. Það var einungis fyrir mikla óánægju eigenda ruv, þ.e. þjóðinni, sem látið var eftir að þessi fréttaskýring var að lokum birt í Kastljósþætti.
Í ljós kom að þarna var um vandaðan fréttaflutning að ræða og opinberun á því sukki sem hefur verið innan borgarstjórnar, um allt of langan tíma. Of mikið mál að ræða þá sorgarsögu alla. Skýringar fyrrum borgarstjóra á málinu halda hvorki vatni né vind, rétt eins og ætíð áður.
Það er endalaust hægt að karpa um hvort annarleg hvöt hafi ráðið för er þessari fréttaskýringu var hafnað af Kveiksstjórnendum, án þess að nokkurn tímann menn komist þar að sameiginlegri niðurstöðu. Þar ræður pólitík afstöðu fólks. Þeir sem beita skynsemi eru þó alveg klárir á hvað olli.
Hitt er aftur alvarlegra, ummæli Ingólfs Bjarna um Maríu Sigrúnu, þegar hann taldi hana ekki góðan rannsóknarblaðamann, en væri þó skjáfríð. Þessi orð eru svo alvarleg að þau hljóta að hafa eftirmála. Fréttastjóra ruv er vart stætt á að hafa slíkan mann á launum, í opinberri stofnun.
María Sigrún sannaði í þessari fréttaskýringu að hún er meiri rannsóknarblaðamaður en flestir aðrir, fyrrverandi og núverandi starfsmenn Kveiks. Vandaður fréttaflutningur um málefni sem á fullt erindi til þjóðarinnar og leifir sér að gefa þeim er fréttin snýr að mestan tíma þáttarins, til að koma með andsvör. Eitthvað sem vart er þekkt hjá Kveik til þessa.
Kyn og fegurð er svo aftur málinu algerlega óviðkomandi. Ingólfur Bjarni var þarna sjálfum sér og þeirri stofnun sem hann starfar hjá, til háborinnar skammar.
Magnað hvað þessi ummæli hans hafa fengið lítil viðbrögð.
Þetta sannar enn og aftur að Kveikurinn er útbrunninn og fréttastofa ruv rúin trausti.
Ríkisútvarpið skuldar skýringar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kappræður?
4.5.2024 | 09:46
Það voru frekar leiðinlegar "kappræður" sem ruv bauð landsmönnum í gærkvöldi. Ekkert nýtt sem þar kom fram.
Sem fyrr eru þeir frambjóðendur sem hæst skora í skoðanakönnunum á röngum stað í sínum málflutningi og reyndar nokkrir þeirra minna metnu einnig. Virðast telja sig vera að bjóða sig fram á löggjafaþingið, ekki til forseta. Hvort kjósendur eru svo einfaldir að telja forsetaembættið löggjafavald, skal ósagt látið. Hitt er ljóst að flestir frambjóðendur þekkja vald forseta, þó sumir spili á þessa vitleysu og virðast njóta góðs af, a.m.k. í könnunum.
Embætti forseta er að samþykkja lög frá þinginu og ef hann telur þau lög stangast á við stjórnarskrá, nú eða hann skynjar mikla gjá milli þings og þjóðar, færir hann samþykkt þeirra laga til þjóðarinnar. Hann hefur ekki vald til að hafna lögum frá Alþingi, valdið til þess liggur einungis hjá þjóðinni.
Sorglega lítið var rætt um varðstöðu um gildandi stjórnarskrá, því meira um hvort frambjóðendur ætluðu að breyta henni. Sem fyrr liggur það vald hjá Alþingi og þjóðinni með kosningu á nýju Alþingi, sem einnig þarf að samþykkja breytinguna. Þá fyrst verða breytingar á stjórnarskrá gildar. Forseti hefur enga aðkomu að þeirri ákvörðun nema sem hver annar íslenskur kjósandi.
Sorglegt var að heyra suma frambjóðendur tala um einhverja nýja stjórnarskrá og sumir vitnuðu jafnvel til þess plaggs í svörum við spurningum. Það er einungis ein stjórnarskrá gild, hverju sinni. Þó að einhver umboðlaus hópur manna hafi soðið saman eitthvað plagg og kalla það " Nýja stjórnarskrá", er það algerlega marklaust. Gildandi stjórnarskrá er alveg skýr um hvernig breytingar hennar skulu gerðar og það ferli sem fór í gang, undir ríkisstjórn Jóhönnu var fjarri því sem gildandi stjórnarskrá tiltekur.
Einungis einn frambjóðandi sagðist myndi standa vörð stjórnarskrárinnar. Hann er lögfræðingur og fyrrum dómari og hefur af öllum frambjóðendum mestu þekkingu á henni. Þá hefur hann nokkra innsýn á störf Alþingis sem fyrrum þingmaður og ekki síst af þeim kynnum sem hann býður sig fram til forseta, sér þörfina. Þessi frambjóðandi er einstaklega prúður í framkomu, hefur haldið sig fjarri öllu skítkasti á meðframbjóðendur sína. Bíður sig fram á eigin kostum, en ekki löstum annarra frambjóðenda. Kannski á kurteisi og þekking ekki upp á borð hjá kjósendum, í það minnsta er nokkuð undarlegt hversu lítið fylgi hann mælist með í skoðanakönnunum.
Vonandi sér þjóðin að sér og kýs Arnar Þór Jónsson. Hann hefur sýnt og sannað að hann hefur festu og mikla þekkingu, auk þess að vera mjög frambærilegur og kurteis. Yrði landi og þjóð til sóma og myndi standa vörð gildandi stjórnarskrá, hverju sinni, landi og þjóð til heilla.
Fyrstu viðbrögð við kappræðunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
"það sem betur má fara"
29.4.2024 | 17:35
Síst vil ég gera lítið úr Sunnu Valgerðardóttur. Hefur lengi starfað sem blaðamaður og komið víða við. Ætlar nú að yfirgefa þann vettvang og hyggst hasla sér völl á sviði stjórnmála.
En kannski bera orð hennar; "Blaðamennskunni fylgja þau forréttindi að geta bent á það sem betur má fara og látið svo aðra um að laga", merki þess hversu margur blaðamaðurinn er úr takt við sitt verkefni. Blaðamennska snýst ekki um að benda á það sem betur má fara, blaðamennska snýst um það eitt að flytja fréttir, frá báðum hliðum og ávallt gæta hlutleysis og sannmælis.
En henni til hróss, eftir áralangt starf í röngu starfi, er hún kannski á heimleið. Á leið á þann vettvang er fólki er ætlað að segja hvað betur má fara og vinna að þeim umbótum, ef kjósendur velja svo.
Því miður er þessi ranghugsun gegnumsýrð í fjölmiðlum. Lengi var helst hægt að gagnrýna ruv fyrir slíkt, enda haldið uppi af öllum landsmönnum, hvar í flokki sem þeir eru eða hvaða sýn þeir hafa. Einkareknir fjölmiðlar höfðu meira frelsi til að tala máli sinna eigenda og sumir kannski full graðir á þeirri braut. Margir hafa farið flatt á því.
En nú er svo komið að flestir eða allir fjölmiðlar eru á framfæri okkar landsmanna, hvort sem okkur sjálfum líkar betur eða verr. Er haldið uppi af ríkissjóð. Því er enn frekari krafa um hlutleysi fjölmiðlafólks, að það segi fréttir en hvorki búi þær til né reyni að segja okkur hvað "betur má fara".
Lætur af störfum hjá Ríkisútvarpinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vandi Íslands
19.4.2024 | 17:40
Kannski er einn stærsti vandi landsins í stjórnmálum hræðsla forseta til að vísa stórum málum beint til þjóðarinnar. Hafa ekki kjark til að beita því aðhaldi að Alþingi sem embættinu ber.
Öll stærri mál er snúa að sjálfstæði okkar á að bera undir þjóðina. Það er útilokað að það vald geti legið hjá fámennri klíku er situr við Austurvöll. Svo átti að vera er EES samningurinn var samþykktur. Í raun eru síðan flest mál er skert hafa sjálfstæðið tengt þeirri aðför Alþingis að lýðræðinu. Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að sá samningur var og er risa mál í ákvörðunarrétti okkar sem sjálfstæð þjóð og þar sem ekki er í okkar stjórnarskrá skilyrtur aukinn meirihluti Alþingis í stórum ákvörðunum, verður þjóðin sjálf að fá að samþykkja þær, nú eða hafna slíkum ákvörðunum Alþingis. Þar er hlutverk forseta að taka í taumana. Gleymum ekki þeirri staðreynd að EES samningurinn var samþykktur með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi. Andstaða þjóðarinnar var mikil en þar sem samningurinn var ekki lagður fyrir hana er ekki vitað hvort meirihluti var fyrir þeirri samþykkt Alþingis.
Afsprengi þessa samning eru síðan einkavæðing bankanna og alger opnun á fjárflutninga úr landi, sem misindismenn voru fljótir að nýta sér og settu landið nánast á hausinn, orkupakkarnir sem hafa nú fært erlendu ríkjasambandi alger yfirráð yfir orkumálum okkar, þó að nafninu til við eigum orkuna ennþá. Landsala til erlendra aðila er að setja heilu sveitirnar í eyði. Þessi mál og fleiri átti þjóðin að fá að ákveða, ekki Alþingi.
Og fyrir Alþingi liggur síðan bókun 35 úr EES samningnum, sem gerir erlend lög æðri lögum frá Alþingi. Sú lagasetning á klárlega að fá dóm kjósenda.
Kata segist ætla að "fara sparlega með málskotsréttinn". Það þíðir væntanlega að hún mun ekki beita honum. Í það minnsta hefur hún nýlega yfirgefið ríkisstjórn sína, sem afsalaði orkumálum úr landi. Nú spretta upp allskyns milliliðir um sölu orkunnar okkar til okkar sjálfra og settur hefur verið á stofn orkumarkaður. Allt mun þetta hækka orkuverðið. Erlendir vindbarónar keppast við að komast yfir sem mest af ósnortinni náttúru okkar og ríkisstjórn Kötu hefur verið þeim notadrjúg í því starfi. Baráttan gegn þeim ósköpum sennilega töpuð og hér mun rísa hvert vindorkuverið af öðru með tilheyrandi mengun. Mest sjónmengun en mun hættulegri örplastmengun.
Undir stjórn Kötu hefur ríkisstjórnin, sem hún yfirgaf, unnið hörðum höndum að því að samþykkja bókun 35, við EES samninginn. Þegar núverandi ríkisstjórn lætur höggið falla og samþykkir þann óskapnað, mun Kata fara alveg einstaklega sparlega með málskotsréttinn, jafnvel svo að erfitt gæti orðið að finna hann aftur. Ekki að þörf sé á honum eftir samþykkt bókunar 35, Ísland verður ekki lengur sjálfstætt ríki. Getur ekki sett nein meiriháttar lög nema með samþykki erlendis frá.
Það er fráleitt að kjósa til forseta persónu sem hefur yfirgefið ríkisstjórn sína, sér í lagi meðan leifar hennar hökt enn.
Málskotsrétturinn verður aldrei of oft nýttur, hann er grunnur stjórnarskrárinnar. Á honum byggist sjálfstæði þjóðarinnar.
Mun fara sparlega með málskotsréttinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kjósið réttann frambjóðanda
17.4.2024 | 00:18
Það er sorglegt þegar frambjóðendur velja að heyja sína baráttu á því að telja fram ókosti annarra frambjóðenda, í stað þess að spila fram eigin ágæti. Það eru svo kjósendur sem velja og þeir mega tala um bæði ágæti og lesti allra frambjóðenda. Frambjóðendur sjálfir eiga hins vegar að halda sig við að boða sína eigin stefnu og eigið ágæti.
Reyndar er það svo að flestir frambjóðendur eru á svolitlum villigötum í sinni baráttu. Telja embætti forseta Íslands vera stærra og meira en það er, jafnvel að það nái yfir alla heimsbyggðina. Svo er ekki. Forsetinn er fyrst og fremst forseti okkar Íslendinga og ber að standa vörð lands og þjóðar.
Einn frambjóðandi hefur ekki valið þá leið að níða meðframbjóðendur sína, telur fram eigið ágæti og hvað hann telji sig geta gert fyrir land og þjóð. Hann býður sig fyrst og fremst fram til að standa vörð þjóðarinnar. Er ekki haldinn þeirri ranghugmynd að þessu embætti sé ætlað að stjórna heimsbyggðinni.
Þessi frambjóðandi er ekki stjórnmálafræðingur, ekki leikari og ekki dýralæknir (sem er víst viss frami í stjórnmálum á Íslandi), heldur lögfræðingur og fyrrum dómari. Þessi frambjóðandi hefur sýnt í verki að hann lætur verkin tala, jafnvel þó það kosti streð, erfiði og vinsældir meðal vina og samherja. Lætur ekki stjórna sér. Það sást vel í baráttu hans gegn orkupakka 3, þar sem hann fékk eigin flokk gegn sér. Fyrir löngu tímabært að fá mann með lögfræðiþekkingu og kjark til að standa vörð þjóðarinnar inn í embættið á Bessastöðum.
Fyrir þá sem ekki vita hvern er talað um er rétt að nefna nafn hans:
Arnar Þór Jónsson
Jón skipar sér í hóp með Ólafi og Davíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Guð blessi Ísland
9.4.2024 | 15:56
Jæja, þá hefur þjóðin fengið nýja ríkisstjórn. Varla er þó hægt að gleðjast eða óska okkur til hamingju með niðurstöðuna.
Fyrst verð ég þó að biðjast afsökunar. Í gær skrifaði ég að hugtakið "senn" gæti vart verið nokkrir dagar, hugsanlega frekar vikur, mánuðir eða ár. Þetta var rangt hjá mér. Þetta hugtak getur talist í dögum, nánar tiltekið fimm dögum.
En aftur að nýju ríkisstjórninni okkar. Þar hefur tekist einstaklega illa að manna, rétt eins og ekki sé til hæft fólk innan þjóðarinnar. Ráðherra getur jú verið utan þings, svona eins og nýr formaður VG hóf sína vegferð í stjórnmálum.
Bjarni tekur við sæti Kötu. Ekki kannski versti kostur en tilgangurinn vel sjáanlegur. Hrossakaup til að verja Svandísi frá atkvæðagreiðslu um vantraust. Svandís fer svo aftur úr matvælaráðuneyti yfir í innviðaráðuneytið og leysir þar Sigurð Inga af. Hinn nýi formaður VG var ekki í neinum vafa um hvert erindi hennar ætti að vera þar, að gefa góða innspýtingu í borgarlínu, í þágu umhverfisverndar. Í sama tilgangi á hún að auka afskipti stjórnmálamanna af orkuskiptum í umferðinni. Manni verður um og ó. Svandís hefur sýnt að hún lætur harðann kommúnisma ganga fram yfir lög og reglur, jafnvel þó hún sé tvídæmd fyrir slíkan verknað. Verður skelfilegt að fylgjast með hennar verkum á næstu misserum, ef stjórnin lifir svo lengi.
Við matvælaráðuneyti tekur Bjarkey Olsen. Með allri virðingu fyrir henni, hefði verið farsælla fyrir VG að velja í það embætti Bjarna Jónsson. Sigurður Ingi fer í fjármálaráðuneytið. Eins og ráðleysi framsóknarmana í fjármálum sé ekki nóg. Reyndar er Sigurður dýralæknir og það er víst gulls í gildi í pólitík. Og svo er það rúsínan í pylsuendanum. Þórdís fer aftur yfir í utanríkisráðuneytið. Fær aftur í hendurnar bókun 35. Nú verður ekkert slegið af, bókunin verður keyrð í gegn með hraði. Ekki vogandi að bíða eftir nýjum forseta, hann gæti verið af "röngum" ættum í pólitík og illa "taminn".!
Kata sá hvert stefndi hjá þjóðarskútinni og stökk því frá borði. Ekki boðar eða sker framundan heldur klettaveggurinn. Og stefnunni er haldið óbreyttri.
Guð blessi Ísland
Myndskeið: Ný ríkisstjórn kynnt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
"Senn"
8.4.2024 | 19:05
Nú er stóra spurningin, hvað ef slitnar uppúr viðræðum stjórnarflokkanna og stjórnin springur? Hver fer þá til forseta til að biðjast lausnar fyrir ríkisstjórnina? Varla Kata, hún hefur þegar mætt í settið hjá honum og sagt af sér þó hann hafi óskað eftir að hún yrði áfram starfandi forsætisráðherra. Sjálf hefur hún gefið rækilega í skyn að hún er ekki pólitískur ráðherra lengur.
Útspil Guðna, þegar Kata baðst lausnar fyrir sig var undarlegt. Hann átti auðvitað að taka af öll tvímæli um að ríkisstjórnin væri þar með fallin og hann óskað eftir að ráðherrar sætu áfram í starfsstjórn, þar til ný ríkisstjórn hefði verið mynduð. Hann átti að fresta Alþingi þar til málið væri í höfn.
Nú virðist enginn vita neitt í sinn haus, ekki hvort Alþingi geti eða má starfa, ekki hvað gera skal ef ekki næst saman um nýja ríkisstjórn og kannski það sem verst er að enginn veit hvað "senn" er langur tími. Þó greinilega eitthvað meira en dagar. Hvort skilgreining forsetans á þessu eru vikur, mánuðir eða ár er aftur á huldu.
Nefndarfundum aflýst: Engin ríkisstjórn í reynd starfandi í landinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vonbiðlar að Bessastöðum
7.4.2024 | 00:21
Nú liggur fyrir að a.m.k. 6 verða í framboði til forseta Íslands. Fleiri hafa sýnt áhuga svo vel gæti farið svo að kjósendur fái að velja úr stærri hóp. Ef við miðum við þá sex sem þegar hafa náð að skila inn meðmælum, geri ráð fyrir að Katrín sé í þeim hóp, og atkvæði skiptast nokkuð jafnt, munum við hugsanlega fá forseta sem hefur einungis fylgi lítils hluta þjóðarinnar. Ef allir mæta á kjörstað gæti fylgið við kosinn forseta legið innan við 17%, en auðvitað mæta aldrei allir og raunfylgið því mun minna.
Slíkur forseti er veikur í embætti og ekki hægt að tala um hann sem einhverskonar sameiningartákn þjóðarinnar. Einnig væri forseti í þeirri stöðu mun vanmáttugri til að standa þann eina vörð er honum er falið, að vera varnagli milli þjóðar og þings.
Margir hafa nefnt þá tilhögun að taka hér upp tvöfalda kosningu, að ef enginn nær yfir 50% í fyrstu kosningu verði kosið aftur milli þeirra tveggja er flest atkvæði fá. Þetta er í sjálfu sér réttmætt hugsun og auðséð að þá stæði annar yfir 50% en hinn undir því marki. Það segir þó ekki að atkvæðin á bakvið kosinn forseta væru neitt fleiri. Færri munu mæta í seinni kosninguna og margir skila auðu.
Því má segja að það lýðræði sem við höfum valið, að einungis sé kosið einu sinni og sá sem flest atkvæði fær verði réttkjörinn, sé í sjálfu sér ekkert verra fyrirkomulag. Það eru jú atkvæðin að baki sem veita styrkinn, ekki prósenta þeirra sem mæta á kjörstað.
Annað hefur einnig verið nefnt sem lausn til að hefta þá ásókn sem er í þetta embætti, en það er fjöldi meðmælenda. Réttilega bent á að fjöldi meðmælenda hafi ekki uppfærst miðað við fjölgun kjósenda. Þetta ætti að vera auðvelt að laga, einungis smá breyting í stjórnarskrá sem gæti fylgt með næstu kosningum til Alþingis. Að í stað ákveðins fjölda, eins og stjórnarskrá tilgreinir verði sett inn ákveðið hlutfall kjörbærra manna. Ef Alþingi samþykkir slíka breytingu fyrir kosningar og nýtt Alþingi samþykkir hana síðan að loknum kosningum, er málið afgreitt. Er ekki flóknara en það.
Slík breyting er þó engin vissa fyrir að frambjóðendum fækki. Á þeirri upplýsinga og tækniöld sem við búum, er einfaldleikinn við söfnun meðmæla slík að helsta vandamál við þá söfnun er að fá ekki of marga meðmælendur.
Því munum við áfram búa við marga vonbiðla til búsetu á Bessastöðum, þegar rúmin þar losna, rétt eins og við þurfum að búa við óheyrilegan fjölda vonbiðla til setu á Alþingi, þegar stólarnir þar losna. Spurningin er bara hvort við veljum að halda því lýðræði sem við höfum haft og að sá sem flest atkvæði fær sé réttkjörinn, jafnvel þó fá séu, eða hvort við viljum hrófla við þessu og taka upp tvöfalda kosningu, til þess eins að hækka prósentuna á bak við forsetann, jafnvel þó atkvæðin verði ekkert fleiri.
Mikilvægt fyrir Katrínu að ekki verði stjórnarkreppa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Spekingar spá
5.4.2024 | 08:47
Nú er vertíð fyrir spekingana. Forsetakosningar framundan þar sem allt bendir til að met verði sett í fjölda frambjóðenda. Hugsanlegt framboð forsætisráðherra gæti leitt af sér að við fáum einnig að kjósa til Alþingis á þessu ári. Um þetta og fleira því tengt eru spekingar að spá og stundum verður spá þeirra nokkuð undarleg.
Nú hafa einhverjir spekingar komist að þeirri niðurstöðu að þó forsætisráðherra bjóði sig fram til búsetu á Bessastöðum, þurfi hún ekki að segja sig frá embætti. Væntanlega á þessi spá þeirra einungis við um þann tíma er baráttan um Bessastaði á sér stað, stjórnarskrá er skýr er varðar sjálft embættið sem staðnum fylgir. Sá sem því gegnir má hvorki vera þingmaður né gegna nokkru opinberu starfi (9.gr).
En, semsagt spekingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að engin lög skildi ráðherra til að segja sig frá embætti meðan hann berst um búsetu á Bessastöðum. Sjálfsagt er þetta rétt niðurstaða hjá spekingunum, þ.e. lagalega. En það eru fleira en lög sem stýra þjóðfélagi. Heilbrigð skynsemi er einnig stórt vald. Heilbrigð skynsemi segir okkur kjósendum að frambjóðandi til forsetaembættis geti hvorki setið á þingi né verið ráðherra. Og það verður að segjast eins og er að lagabókstafurinn segir fólki lítið þegar það merkir við á kjörseðilinn. Skynsemi frambjóðanda vegur þar þyngra.
Hins vegar gætu stjórnarflokkarnir komið sér saman um að liggja í láginni og ekki gera neitt það er getur sundrað samstarfinu, fram yfir kosningar. Að þá ætti forsætisráðherra sæti sitt aftur tryggt ef hún ekki nýtur náð þjóðarinnar fyrir að fá að flytja til Bessastaða. Að ráðinn yrði einskonar bráðabirgða forsætisráðherra fram yfir forsetakosningar og deilumálin afgreidd að þeim loknum.
Slíkt samkomulag myndi í sjálfu sér litlu breyta varðandi stjórn landsins. Yrði jafn stjórnlaust og það hefur verið undir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Gæti haldið áfram þrátt fyrir framboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bráðabirgðabrú
30.3.2024 | 20:41
Ekki dreg ég í efa þörfina á göngubrú á þessum stað. En þarf mannvirkið að vera svona dýrt? Þarna á að byggja færanlega göngubrú, á íslensku kallast það bráðabirgðabrú. Brú sem á að fjarlægja í fyllingu tímans. Þarf bráðabirgðabrú að vera svona tilkomumikil og dýr?
Það er nokkuð víst að útreikningar verktakans eru nær lagi en Vegagerðarinnar, miðað við forsendur verksins. Þar á bæ hefur mönnum reynst einstaklega erfitt að áætla verkkostnað. Oftast eru áætlanir langt undir eðlilegum kostnaði. Verst er þetta þó þegar Betri samgöngur koma einnig að borðinu. Þá fyrst verða áætlanir út úr kú.
Aftur spyr ég, þarf þessi brú að vera svona tilkomumikil? Er ekki hægt að byggja bráðabirgðabrú fyrir minni pening? Eða er allt sem snýr að Betri samgöngum svo yfirdrifið og fáránlegt?
Minnumst aðeins brúarinnar yfir Fossvoginn. Brú sem einungis er ætluð örfáum landsmönnum en kostnaður margfaldur miðað við aðrar sambærilegar brýr sem eru byggðar og öllum heimilt að aka um. Sennilega sett heimsmet í hækkunum áætlana við þá framkvæmd, sem þó er enn á teikniborðinu. Heimsmet sem sennilega verða ekki nokkurn tímann slegið, nema kannski í einhverjum framkvæmdum á vegum BS, í framtíðinni.
Göngubrú boðin út að nýju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)