Breytt ásýnd Hvalfjarðar?
28.6.2022 | 00:59
Hjá Skipulagsstofnun er til kynningar matsáætlun um vindorkuver á Brekku í Hvalfirði, nánar tiltekið upp á Brekkukambi. Brekkukambur er um 647 metra hár frá sjó og ætlunin er að þetta vindorkuver muni standa á toppi hans.
Þessi matsáætlun er fyrsta formlega skrefið sem tekið er í þessari framkvæmd, síðan verður matið sjálft unnið og samhliða því þarf sveitarfélagið að samþykkja breytingu á skipulagi svæðisins. Þar mun reyna á getu sveitastjórnar til að hrinda af sér óværunni. Þegar þessi matsáætlun er lesin kemur margt skrítið fram, tölur eru mjög reikandi og í sumum tilfellum stangast þær á. Þó er ljóst að ætlunin er að setja þarna upp vindorkuver er hefur getu til að framleiða allt að 50MW, í fyrsta áfanga. Í áætluninni er gert ráð fyrir að síðar megi stækka verið. Aðrar tölur, sem væntanlega eru fengnar frá framkvæmdaraðila, eru hins vegar á mjög breiðu bili. Sem dæmi er talað um að undirstöður geti verið allt frá 1600 til 4560m2. Vindmillurnar eru sagðar eiga að geta framleitt 5,6MW hver, en samt er talað um að þær geti verið frá 8 til 12. Það gerir framleiðslugetu frá 45 til 67MW. Á einum stað er talað um að varanleg landnotkun verði frá 3,9 til 6,2 ha, á öðrum stað er sagt að taka eigi 300 ha undir verkefnið. Svona má lengi telja, bæði eru tölur reikandi en einnig í andstöðu við hverjar aðrar.
En þetta er bara kynning á áætlun um mat á verkinu, matið sjálft er eftir. Í áætluninni segir Skipulagstofnun að notuð verði hæstu gildi við matið, hveju sinni. Þá erum við að tala um að reistar verði 12 vindmillur sem verða 247 metra háar, upp á fjalli sem er 647 metra hátt. Því munu þessar vindmillur teygja sig upp í rétt tæplega 900 metra hæð yfir sjó!
Nýverið lýsti forsætisráðherra því yfir að eðlilegt væri að þjóðin nyti góðs af arði vindorkuvera. Það er því miður lítill arður væntanlegur af slíku ævintýri hér á landi. Þar kemur fyrst og fremst til hár byggingakostnaður og stutt ending. Orkuverð hér á landi þarf því að hækka verulega til að dæmið gangi upp. Þá er það fyrirtæki sem stendur að þessu, Zephyr, erlent og því mun seint sjást arður hér á landi frá því. Nokkur atvinnusköpun verður á byggingatíma orkuversins en eftir hann er ekki gert ráð fyrir að nokkur maður verði við vinnu á svæðinu, öllu stýrt frá höfuðborginni, eða jafnvel Noregi. Sveitarfélagið mun ekki hafa miklar tekjur af ævintýrinu, þar sem einungis húsnæði fyrir safnstöð orkunnar eru skattskyld. Það er vonandi að vindbarónarnir hafi ekki tekið orð forsætisráðherra a þann veg að þau mætti túlka á báða vegu, að ríkið fengi hluta af arðinum, ef hann verður einhver en á móti þá komi ríkið með peninga upp í tapið!
Það er stundum talað um að vindorkuver séu vistvæn. Fátt er fjær sannleikanum. Vindorkuver eru sennilega með óvistvænstu aðferðum til að framleiða orku. Í hverja vindmillu þarf óhemju mikið magn af stáli og öðrum málmum, sumum fágætum. Við rafalana eru gírar sem þurfa mikla olíu til smurnings. Hana þarf að endurnýja oft og reglulega. Í hverri vindmillu er spennir og í safnstöð eru fleiri spennar. Þeir þurfa olíu til kælingar, olíu sem getur orðið geislavirk og erfitt að losna við. Á hverri vindmillu eru spaðar. Þeir eru úr trefjaplast, sem eyðist ótrúlega fljótt. Það leiðir af sér einhverja mestu örplastmengun sem hugsast getur. Undir hverri vindmillu er síðan járnbent steypa, hátt í tvö þúsund rúmmetrar! Þessi steypa mun ekki verða fjarlægð aftur, þannig að fullyrðingar um að vindorkuver sé afturkræft eru fjarri lægi. Sjónmengun er auðvitað mikil, sér í lagi þegar vindmillum er prjónað upp á hátt fjall, nærri byggð. Samkvæmt matsáætluninni er talað um að sjónmengun muni ná allt frá Þingvöllum of vestur um upp í Borgarfjörð! Hljóðmengun, einkum lágtíðnihljóð sem mannseyrað ekki nemur, er mikil. Það hefur áhrif á allt dýralíf, líka mannskepnuna, þó hún heyri það ekki. Segulsvið myndast umhverfis vindorkuver og það mun hafa áhrif á margar fuglategundir, sem treysta á segulsvið jarðar til að rata um, auk þess sem það getur haft áhrif á aðrar skepnur líka. Tvö síðasttöldu atriðin hafa leitt til þess að bannað er að byggja vindorkuver nærri flugvöllum í Bandaríkjunum. Þá er óvíst hvaða áhrif vindmillur munu hafa á vindafar. Það getur oft verið hvasst í Hvalfirðinum í norðan og norð-austanáttum. Hvaða áhrif hefur það á vindstrengi þegar þeir ganga fram af Brekkufjallinu?
Sem fyrr segir þá er þetta skjal frá Skipulagsstofnun einungis kynning á áætlun um mat á vindorkuveri á Brekku í Hvalfirði. Þar til sjálft matið hefur verið framkvæmt er í sjálfu sér lítið hægt að segja. Þá á sveitastjórn eftir að taka afstöðu til þess hvort skipulagi verði breytt. Þar verður að treysta á íbúana, að þeir geri sveitarstjórn grein fyrir vilja sínum. Jafnvel ætti sveitastjórn að boða til kosninga um málið, enda svo stórt að vart verður séð að umboð hennar sé til staðar fyrir þeirri ákvörðun. Við erum að tala um framkvæmd sem ekki verður tekin til baka, líki fólki ekki. Við erum að tala um að breyta ásýnd Hvalfjarðar til frambúðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lenging í hengingarólinni
16.6.2022 | 07:50
Forstjóri SS boðar "methækkun" afurðaverðs til bænda í haust. Vissulega er þarna um mikla hækkun að ræða, ef mið er tekið af verðlagningu afurðaverðs undanfarin ár, en fjarri því að þetta muni bjarga bændastéttinni. Og að sjálfsögðu verður að þakka forstjóranum fyrir kjarkinn til að leiða þessa hækkun.
Ef skoðað er afurðaverð til bænda síðastliðin ár verður þó að telja þetta skammt gengið. 2016 lækkaði afurðaverð um 10% og ári síðar reið forstjóri SS á vaðið og boðaði 26% lækkun, sem reyndar endaði á bilinu 30-35% lækkun, hjá flestum afurðarstöðvum. Síðan þá hafa hækkanir á afurðaverði vart haldið í við verðbólgu. Bændur hafa því þurft að ganga á höfuðstól sinn, þegar hann var uppurinn urðu þeir að ganga á laun sín og að lokum var svo komið að bændur þurftu að leita sér vinnu utan búsins. Í dag er staðan sú að bændur þurfa að afla tekna utan bús til að hafa í sig og á og þurfa að vinna utan bús til að greiða niður kostnað við búin. Höfuðstóllinn er enn jafn tómur og áður. Þarna erum við að tala um ástandið eins og það var áður en Pútín réðst inn í Úkraínu, með tilheyrandi hækkunum á öllum aðföngum. Það er sér kapítuli.
Því er ástandið nú komið á það stig að fjöldi bænda mun leggja upp laupana í haust. Þar munu ungu bændurnir verða fyrstir til að flýja okið, en hinir eldri koma fljótlega á eftir. Heilu sveitirnar munu því leggjast í eyði og heilu kaupstaðirnir fylgja á eftir. Landið verður fátækara.
Úkraínustríðið flýtir þessu auðvitað. Hækkanir á öllum aðföngum hefur margfaldast. Svokallaður spretthópur var stofnaður og lagði hann til að 2.5 milljarðar yrðu settir inn í landbúnaðinn vegna þessa. Þetta er eingreiðsla, aðeins fyrir þetta ár. Hvað svo? Afleiðingar stríðsins eiga eftir að vara lengi, jafnvel þó hægt væri að ljúka því strax í dag. Þessir tveir og hálfur milljarður dugir skammt fyrir þær hækkanir sem þegar eru komnar, hvað þá framhaldinu!
Því verður vart séð að metnaður stjórnvalda til að bjarga bændastéttinni sé mikill og ekki heldur séð að forstjóri SS geri ráð fyrir að fyrirtæki hans verði starfandi mikið lengur. Ef engir bændur eru, þá er heldur ekkert SS.
Vandi bændastéttarinnar er mikill. Of langt væri að telja hann allan upp en nefna má dæmi. Afurðaverð er langt undir því sem tíðkast í viðmiðunarlöndunum, svo munar um 80%. Það er auðvitað stærsti vandinn. Annað sem er svolítið undarlegt að kálfum sé slátrað nánast við fæðingu, engum til gagns, til þess eins að rýma fyrir innflutningi á erlendu kjöti á okkar örmarkað. Það er auðvitað galið og vart í anda þeirrar stefnu að minnka kolefnislosun! Svona mætti lengi telja, stjórnun og hugur stjórnmálastéttarinnar fer ekki saman.
Erlendis þykir sjálfsagt að bændur hafi laun sem hægt er að lifa af og engar deilur eru um það meðal þeirra þjóða. Þar þykir líka sjálfsagt að ríkið komi til hjálpar þegar áföll skella á, eins og stríð með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir. Eftir fall Loðvíks 15 í Frakklandi, áttuðu stjórnmálamenn sig á því að fólk þarf mat, og eftir tvær heimstyrjaldir á síðustu öld áttuðu stjórnmálamenn sig á mikilvægi þess að hver þjóð væri sér sem mest sjálfbær í sinni matvælaframleiðslu. Erlendis býr stjórnmálastéttin enn að þessum vísdóm, meðan sú íslenska virðist sem fyrr, telja sig vita betur!
Þessar aðgerðir, spretthópsins og forstjórans, munu sjálfsagt leiða til þess að einhverjir bændur munu fresta brottför úr stéttinni, þá helst eldri skuldlausir bændur. En þetta er þó ekkert annað en lenging í hengingaról bændastéttarinnar. Landið mun leggjast í eyði að stórum hluta.
![]() |
SS boðar methækkun á afurðaverði til bænda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sáttin er grunn
7.6.2022 | 05:05
Jæja, þá er farið að glitta í einhvern málefnasamning hinnar nýju borgarstjórnar. Reyndar erfitt að átta sig á því sem tilvonandi borgarstjórar tjá sig um, svo ólíkur sem málflutningur þeirra er. Varla traustvekjandi, svona á fyrsta degi hjónabandsins.
En hvað um það, förum aðeins yfir það sem Einar segir. Munum að hann talaði um miklar breytingar í kosningabaráttunni. Líklega hefur það gefið ófá atkvæði til Framsóknar.
Einar boðar 18 breytingar. Þó nefnir hann einungis þrjár þeirra, væntanlega þær mikilvægustu. Fyrst nefnir hann metnaðarfyllri áætlanir í byggingu íbúðahúsnæðis. Það hefur svo sem ekki skort metnaðinn í áætlanir á þessu sviði, hjá fyrrverandi meirihluta. Glærusýningar og annað útgefið efni um málið hefur flætt frá þeim yfir landsmenn síðustu tólf ár. Hins vegar hefur orðið minna úr framkvæmdum. Þarna er því ekki um neina breytingu að ræða, áætlanir eru svo sem góðar en það eru framkvæmdir sem telja.
Sundabraut er næst hjá hinum nýja verðandi borgarstjóra. Þar er svipað upp á borðum, borgarstjórn hefur í sjálfu sér aldrei hafnað Sundabraut, þó einstaka fulltrúar hafi ákveðnar skoðanir gegn henni. Reyndar skipulagði borgin íbúðabyggð á því svæði sem hagkvæmast hefði verið að leggja þessa braut, þannig að verkefnið mun kosta meira en ella. Reyndar er nýlegt samkomulag milli borgarinnar og stjórnvalda um þetta málefni í gildi og ekki séð annað en að verið sé að fylgja því. Það er því vart hægt að tala um að þarna sé um einhvern viðsnúning eða taktískar breytingar að ræða.
Og svo er það þriðja málið sem Einar nefnir, Vatnsmýri og flugvöllur. Þar er sama upp á teningnum og í Sundabrautarmálinu, nýlegt samkomulag um að flugvöllurinn verði enn um sinn og að ekki megi skerða öryggi hans með byggingum við hann. Því er ekki heldur nein breyting þarna.
Reyndar má lesa aðra frétt, þar sem talað er við Dag um málið. Hann snýr dæminu svolítið á annan veg. Fyrst skal byggt og síðan unnið með Isavia varðandi mótvægisaðgerðir vegna minna öryggis flugvallarins. Þarna greinir nokkuð á milli þeirra, tilvonandi borgarstjóranna. Misræmið í túlkun þeirra í þessu máli ber ekki merki um sátt milli þeirra.
Í öllu falli er ljóst að þær breytingar sem Framsókn lofaði höfuðborgarbúum og reyndar landsmönnum öllum, finnast varla.
![]() |
Byggja í Vatnsmýri ef það ógnar ekki flugöryggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Svik og galdrar
6.6.2022 | 08:54
Maður veltir því virkilega fyrir sér til hvers fólk mætir á kjörstað. Vilji kjósenda er ekki virtur.
Í síðustu tvennum sveitarstjórnarkosningum hefur meirihluti borgarstjórnar verið felldur af kjósendum, þó hefur Samfylking farið einna verst út úr þessum kosningum. Málflutningur þessa flokks virðist ekki eiga upp á pallborð kjósenda. Þrátt fyrir að fylgi Samfylkingar hafi fallið um þriðjung á þessum tíma, lafir flokkurinn í meirihluta, með hjálp annarra flokka. Eftir kosningarnar 2018 kom Viðreisn Samfylkingu til hjálpar og nú bætti sá flokkur enn betur og gekk í raun inn í hinn deyjandi flokk, með samkomulagi um að halda samstarfi áfram, hvað sem kjósendur segðu. Og í einfeldni sinni gekk Framsókn að þessum afarkjörum Viðreisnar. Þar með hefur Framsókn tryggt að dýrð þeirra mun ekki standa fram yfir næstu kosningar. Svikin við kjósendur eru algjör!
Framsókn vann vissulega stórsigur í Reykjavík. Kosningaloforðin voru í sjálfu sér loðin, meira horft til ímyndar en málefna, en þó stóð eitt kosningaloforð uppi sem einkennisorð Framsóknar; breytingar voru boðaðar. Kosningabandalag við Dag og hans fylgifólk mun tryggja að þetta eina kosningaloforð Framsóknar mun ekki standa, það verður einnig svikið. Svik við kjósendur er algjört!
Galdramenn eru þeir sem af snilligáfu sinni geta platað fólk til að sjá eitthvað annað en raunveruleikann. Platað fólk til að upplifa eitthvað allt annað en það í raun upplifir. Plata fólk til að trúa því ótrúanlega. Dagur er sannarlega einn slyngasti galdramaður Íslands.
Skoðum nú aðeins málefni og gerðir Samfylkingar, síðustu þrenn kjörtímabil. Vorið 2014 fékk flokkurinn 31% fylgi kjósenda, tími leikarans var liðinn og við tók tími galdramannsins. Fyrir þær kosningar var í sjálfu sér ekki mikið rætt um svokallaða borgarlínu og allt ruglið tengt henni. Flestir kjósendur töldu á þeim tímapunkti að hugmyndin væri svo afspyrnu fáránleg að hún yrði aldrei annað en hugmynd einhverra vitskertra. Strax að loknum kosningum var þó farið á fulla ferð í vinnu til að koma þessari hugmynd á koppinn. Byrjað var á að þrengja götur og gera einkabílnum erfiðara fyrir, unnið að framgangi málsins á bak við tjöldin, meðal annars innan landsstjórnar og löggjafans. Svona gekk fram undir kosningarnar 2018. Í þeim kosningum felldu kjósendur þennan meirihluta, enda farnir að átta sig á að jafnvel þó hugmyndin um borgarlínu væri svo fráleitar sem mest mátti vera, auk þess sem kostnaður af henni væri eitthvað sem enginn vissi í raun, ætluðu vinstri menn, undir stjórn Dags, að koma henni í framkvæmd. Ætluðu sér að færa höfuðborg landsmanna aftur um heila öld í samgöngumálum. En þá kom Viðreisn til sögunnar og vilji kjósenda var hafður að engu.
Eftir að Dagur hafði verið reistur upp úr öskustónni, með hjálp Viðreisnar hófst enn eitt kjörtímabil skelfingar. Nú var fullum krafti hleypt í þessa afturhaldshugmynd vinstrimanna. Jafnvel tókst galdramanninum Degi að fífla stjórnvöld til liðs við sig, auðvitað með hálfkveðnum vísum. Þegar seinnihluti vísanna var kveðinn áttuðu stjórnvöld sig á að þau höfðu verið höfð af fíflum, en höfðu ekki kjark til að viðurkenna það. Því hafði Dagur tangarhald á þeim og tókst ekki bara að láta ríkissjóð opna opinn víxil fyrir þessum gerðum, heldur beinlínis kosta kosningabaráttu flokksins fyrir nýafstaðnar kosningar. Eftir sem áður höfnuðu kjósendur þessum meirihluta, enn og aftur. Fylgi Samfylkingar hafði nú minnkað um rúm 30%, í tvennum kosningum. Þá kemur Viðreisn til sögunnar. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum komst fulltrúi flokksins að þeirri niðurstöðu að sinn flokkur, sem hafði tapað helmingi sinna borgarfulltrúa, bæri að vera í borgarstjórn og ekki aðeins það, heldur átti hennar flokkur að bjarga Degi enn og aftur.
Framsókn, sem hafði unnið stórsigur, hafði nú einungis tvo kosti eftir, að ganga til viðræðna við galdramanninn og hans slekti, eða stíga til baka. Flokkurinn valdi verri kostinn. Þegar þessir afarkostir Viðreisnar voru staðreynd átti Framsókn ekki að sætta sig við þá stöðu og draga sig til baka. Með þessari ákvörðun sinni skrifaði flokkurinn upp á hrun sitt í næstu kosningum. Kjósendur Framsóknar kusu þann flokk út á loforð um breytingar, ekki loforð um sama ástand áfram.
Hér hef ég einkum bent á borgarlínu sem óstjórn vinstri meirihlutans, enda það mál lang stærst í göldrum Dags. Það má líka benda á margt annað, eins og bragga og strá, pálmatré, Hlemm, hin ýmsu torg þar sem gras er rifið upp með rótum og hellur lagðar, óþrifnaður á gatnakerfi og landi borgarinnar, Sorpu og margt margt fleira í dúr óstjórnar. En borgarlínu fylgir sú skelfing að borgin er færð öld aftur í tíma. Ekki einungis er slíkur rekstur gamaldags og úreltur og kostnaður mikill, heldur á að neyða fólk til að nota hana með skipulagi byggðar. Farið er aftur til tíma sovéts í þeim málum og háhýsi byggð svo þétt að ekki nær sól til jarðar. Fá eða engin bílastæði eru ætluð íbúum eða gestum þeirra. Byggt er á dýrustu lóðum borgarinnar og rifin þar hús sem eru í ágætis standi og sum jafnvel mjög góðu standi. Þetta gerir kostnað bið byggingu íbúðahúsnæðis enn dýrara en ella og er þó nóg samt!
Bílaflotinn er að færast frá eldsneytisbílum yfir í rafbíla. Hér á landi er þessi breyting svo hröð að bílaframleiðendur hafa ekki undan. Bið eftir nýjum rafbílum er mikil. Því er ljóst að þessi þróun mun verða mun hraðari hér en víðast annarsstaðar. Einungis framboðið sem mun tefja. Þetta breytir þó ekki hugsanagangi vinstrimanna í höfuðborginni. Einkabíll er einkabíll og einkabíll er slæmur, að þeirra mati. Mengun skiptir þar engu máli. Þá skiptir engu máli hjá þessu fólki að Reykjavík er höfuðstaður Íslands. Þangað þurfa íbúar landsins að sækja ýmsa þjónustu, sem ekki er lengur til staða á landsbyggðinni. Það fólk þarf að komast um borgina. Hef reyndar oft velt fyrir mér hvers vegna allir kjósendur landsins hafi með það að gera hver stjórnar höfuðborginni okkar.
Það sem átti að vera stuttur pistill um svik við kjósendur er orðinn lengri en góðu hófi gegnir. Hitt er deginum ljósara að björgun Framsóknar á hinum fallna meirihluta eru stór svik við kjósendur. Framsókn á ekki roð í galdramanninn.
![]() |
Meirihlutasamningur BSPC í höfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)