Bráðabirgðabrú

Ekki dreg ég í efa þörfina á göngubrú á þessum stað. En þarf mannvirkið að vera svona dýrt? Þarna á að byggja færanlega göngubrú, á íslensku kallast það bráðabirgðabrú. Brú sem á að fjarlægja í fyllingu tímans. Þarf bráðabirgðabrú að vera svona tilkomumikil og dýr?

Það er nokkuð víst að útreikningar verktakans eru nær lagi en Vegagerðarinnar, miðað við forsendur verksins. Þar á bæ hefur mönnum reynst einstaklega erfitt að áætla verkkostnað. Oftast eru áætlanir langt undir eðlilegum kostnaði. Verst er þetta þó þegar Betri samgöngur koma einnig að borðinu. Þá fyrst verða áætlanir út úr kú.

Aftur spyr ég, þarf þessi brú að vera svona tilkomumikil? Er ekki hægt að byggja bráðabirgðabrú fyrir minni pening? Eða er allt sem snýr að Betri samgöngum svo yfirdrifið og fáránlegt?

Minnumst aðeins brúarinnar yfir Fossvoginn. Brú sem einungis er ætluð örfáum landsmönnum en kostnaður margfaldur miðað við aðrar sambærilegar brýr sem eru byggðar og öllum heimilt að aka um. Sennilega sett heimsmet í hækkunum áætlana við þá framkvæmd, sem þó er enn á teikniborðinu. Heimsmet sem sennilega verða ekki nokkurn tímann slegið, nema kannski í einhverjum framkvæmdum á vegum BS, í framtíðinni.


mbl.is Göngubrú boðin út að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi

Vonandi býður Kata sig fram til forseta. Ekki að ég muni kjósa hana, fjarri því. Tel ekki að hún eigi nokkurt erindi á Bessastaði. Ástæða þess að ég vona að hún bjóði sig fram er einfaldlega sú að þá fáum við að kjósa til Alþingis. Ríkisstjórnin mun ekki lifa af brottför Kötu.

Annars er merkilegt hvað margir frambjóðendur bjóða sig fram til forseta, í þeim tilgangi að bjarga heiminum. Eins og litla sæta Ísland sé eitthvað stórveldi. Undir þann flokk telst Kata, kannski ekki af boðskap sínum, bjóði hún sig fram, en verk hennar segja okkur hvert efnið er í henni. Hefur t.d. haft það sem sið að þykjast hafa mikinn áhuga á að verja kjör eldri borgara fyrir hverjar kosningar en lítið unnið í þá veru. Nú síðustu ár hefur ástandið erlendis verið henni hugleiknara en skelfingin hér innanlands. Stendur harðann vörð um allt sem kemur erlendis frá en gleymir alveg eigin þjóð. Jafnvel orðin harður NATO sinni, sem reyndar ég tel hana betri manneskju fyrir. Verri og hættulegri þykir mér fylgispekt hennar við ESB.

Ég ætla að kjósa þann frambjóðanda sem hefur sýnt í verki að hann er með hugann við land og þjóð, hefur kjark til að sýna það í verki. Enda tel ég mig ganga til kosninga til að kjósa forseta Íslands, ekki starfsmann ESB eða alheimsins.

 


mbl.is Býður Katrín sig fram til forseta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gróði banka þeim ofviða

Það er eitt og annað sem er athugasemdarvert við þessa fréttatilkynningu Landsbankans. 

Þar kemur fram að bankinn hafi fyrir tæpu ári upplýst bankasýslu ríkisins um áhuga á kaupum bankans á tryggingarfélagi. Einnig kemur fram að bankinn hafi upplýst BS, skömmu fyrir jól að óskuldbindandi tilboð hafi verið gert í þetta tryggingafélag. Ekki kemur hins vegar fram að bankinn hafi upplýst BS um að hann ætlaði að gera skuldbindandi tilboð upp á þrjá tugi milljarða í tryggingafélagið. Bar bankanum ekki að fá samþykki fyrir þeirri gjörð? Bar bankanum ekki að tilkynna BS um að hann ætlaði að binda þrjá tugi milljarða í skuldbindandi tilboði í tryggingafélag?

Þá er stóra spurningin, hvers vegna vill bankinn færa sig yfir í áhætturekstur tryggingafélags? Von um meiri gróða, segir bankastjórinn. Í hverju fellst sá gróði? Fylgir ekki rekstur tryggingafélags mikil áhætta? Það getur gengið ágætlega í nokkur ár, en síðan þarf ekki nema eitt stórt bótamál til að þurrka út gróðann. Og ekki er hægt að skilja bankastjóra á annan veg en svo að stórann hluta gróðans, í góðærum, eigi að greiða sem arð. Það verður þá lítið til skiptanna þegar áföllin ríða á. 

Landsbankinn skilar alveg ágætis hagnaði og væntanlega arðgreiðslum líka. Enda vaxtakjör lána hvergi hærri en hér á landi. Þetta er nokkuð tryggur hagnaður og þá einnig tryggar arðgreiðslur. Engin fyrirtæki hafa hagnast jafn mikið og bankar, allt frá hruni. Þar kemur hæfi við stjórnun bankann lítið við sögu, gæti hvað fáviti rekið banka á Íslandi. Það er því með öllu óskiljanlegt að bankinn sé svo æstur í áhættusækinn rekstur. Er góðærið honum ofviða? 

Önnur skýring bankastjóra á kaupum á tryggingafélagi er að aðrir bankar hafi verið að færa sig yfir í slíka áhættu. Hvers vegna þarf Landsbankinn að apa ósómann eftir einkareknum bönkum? Og hvers vegna er Kvika að losa sig við þetta tryggingafélag? 

Það er nokkuð víst að bankastjórn Landsbankans hefur gögn um samskiptin við BS, bæði á vordögum og fyrir jól. Færi vart að senda slíka fréttatilkynningu að öðrum kosti. Það segir okkur að BS hefur logið að þjóðinni og ber að víkja strax. Bankastjórn Landsbankans verður einnig að víkja, þar sem hún getur ekki sýnt fram á heimild til að skuldbinda þrjá tugi milljarða í tryggingafélagi. En kannski þó frekar vegna fávisku og hroka.


mbl.is Segja Bankasýsluna hafa vitað um kaup á TM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litla gula hænan

Hollt væri fyrir peningastefnunefnd og kannski sérstaklega seðlabankastjóra að rifja upp söguna um litlu gulu hænuna. Tímalaus dæmisaga um hvernig brauðið verður til og hvað um það verður.

Litla gula hænan fann fræ. Hún bað um hjálp til að planta því, en enginn vildi hjálpa. Hún bað síðan um hjálp til slá öxin og þreskja, en enn varð hún ein að sjá um verkið. Hún bað um hjálp til að baka brauðið og enn og aftur þurfti hún að vinna verkið ein. Þegar síðan brauðið hafði verið bakað voru allir tilbúnir að koma og borða það, svo litla gula hænan fékk ekki neitt.

Þannig er þjóðfélagið okkar. Fáir skapa verðmætin en allir vilja njóta þeirra. Þeir sem skapa fá minnst. Megnið fer til þeirra sem síst skyldi, fjármagnsaflanna. Seðlabankastjóri hefur tekið sér stöðu með þeim síðarnefndu.

"Þjóðin getur ekki bæði étið kökuna og átt hana" segir seðlabankastjóri. Það verður hins vegar engri köku að skipta ef áframhald verður á varðstöðu bankastjórans fyrir fjármálaöflin. Nú þegar eru heimilin farin að þjást meira en góðu hófi gegnir og sum fyrirtækin einnig. Með sama áframhaldi verða engar kökur eða brauð bökuð á Íslandi, verður ekkert til skiptanna.

Verðbólgudraugurinn dafnar sem aldrei fyrr og bankar og fjármálastofnanir fitna, þar til of seint er að snúa á rétta braut.


mbl.is „Þjóðin getur ekki bæði étið kökuna og átt hana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eiga banka - eða ekki

Okkur landsmönnum er talin trú um að við eigum Landsbankann og vissulega er ríkið skráð fyrir nánast öllum hlutum hans. Fjármálaráðherra er síðan með yfirumsjón yfir þessum hlut, sem þjóðin á.

En málið virðist nokkuð flóknara en þetta. Til að slíta tengsl milli pólitíkur og bankans, að ráðherra hafi ekki beint umboð til afskipta af rekstri hans, var stofnuð Bankasýsla ríkisins. Henni er ætlað að vera fulltrúi eigenda bankans. Reyndar ekki kosin af eigendum, heldur skipuð af ráðherra. Því kannski ekki hægt að tala um slit milli pólitíkur og reksturs bankans.

En þetta dugir þó ekki. Bankastjóri og bankaráð telur sig eiga þennan banka okkar. Að afskipti ráðherra eða bankasýslunnar skipti bara engu máli. Bakastjóri Landsbankans hefur sagt að bankinn muni halda áfram við fyrirhuguð kaup á TM, þrátt fyrir mótmæli eigandans, þ.e. ráðherra.

Þegar þetta er skoðað verður maður virkilega efins um hver á Landsbankann. Klárlega ekki almenningur, enda hefur hann enga aðkomu að bankanum aðra en að greiða til hans okurvexti og óheyrileg þjónustugjöld af minnsta tilefni. Ekki virðist ráðherra ráða miklu, eins og orð bankastjóra bera með sér. Og bankasýslan, jú henni hefur tekist að fresta aðalfundi bankans um einn mánuð, en mun sjálfsagt ekki hafa kjark til að rifta kaupunum. Enda ekki séð að BS sé með hugann við verkið. Lætur afskiptalaust að bankastjóri og bankaráð stundi vafasöm viðskipti, viðskipti sem kemur bankarekstri ekki við á nokkurn hátt.

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Það fyrirkomulag sem um þennan banka ríkir, banka sem sannarlega er í eigu landsmanna, þó erfitt sé að sjá það á framkvæmd eða stjórnin hans, er kjörið að endurskoða við þessi tímamót. Ef um einkafyrirtæki væri að ræða myndu eigendur hans reka samstundis alla þá er telja sig vera æðri en eigandinn, bankastjóra, bankaráð og Bankasýsluna og taka yfir reksturinn með nýju fólki.

Þannig gæfist gullið tækifæri til að endurskipuleggja rekstur bankans. Að hætta að reka hann sem gróðafyrirtæki, eða jafnvel okurstofnun og gera hann að samfélagsbanka. Slíkt bankaform er þekkt víða, þó sennilega þekktast í Þýskalandi. Þar er bankastarfsemi að stærstum hluta rekin sem samfélagsbankar og það voru þessir samfélagsbankar sem björguðu Þýskalandi frá hruni, haustið 2008. Banki sem rekinn er eftir lögmáli Mammons er veikari fyrir ef áföll skella á. Áhætturekstur er eitt aðalsmerki þeirra. Banki sem rekinn er eftir þörfum samfélagsins og ekki er drifinn áfram af græðgi, er fastari fyrir og þolir betur utanaðkomandi áföll.

Eftir bankahrunið hér haustið 2008, þegar landinu var steypt í fen skulda og hörmunga, ætti fólk að vita að einkavæðing bankakerfisins er ekki að ganga. Slík einkavæðing er átrúnmaður á Mammon. Ekkert að því að einhverjir einkavæddir bankar séu starfandi hér, ef einhver vill reka þá og bera ábyrgð á þeim. En samfélagsbanki verður að vera til staðar í landinu, þó ekki sé til annars en að halda niðri þeirri óheyrilegu okurstefnu sem bankakerfið stundar og er að draga lífið úr þjóðinni, hvort heldur þar er um einstaklinga eða fyrirtæki að ræða.

Framkvæmdin á stofnun slíks samfélagsbanka er einföld. Öllum hlutum hans sem ríkið hefur undir höndum, væru einfaldlega deilt á hvert mannsbarn í landinu. Ekki væri heimilt að selja þá hluti, heldur myndu þeir erfast til afkomenda. Allar meiriháttar ákvarðanir, s.s. ráðning bankaumsjónar og jafnvel bankastjóra færu fram með rafrænni kosningu þjóðarinnar. Frambjóðendur þyrftu auðvitað að standast eitthvað mat til þátttöku. Þeir sem hlytu kosningu hefðu enga heimild til að taka ákvarðanir um breytingu á rekstri bankans. Jafnvel þó þeir teldu að það væri "til haga fyrir eigendur".

Þannig færi ekkert á milli mála að við ættum öll Landsbankann og sennilega myndu flestir færa sín viðskipti yfir í hann.


mbl.is Aðalfundi Landsbankans frestað um mánuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö stríð, mismunandi fréttir

Á Gasa er fólk drepið í stríði, en í Úkraínu fellur fólk eða lætur lífíð. Þegar talað er um hversu margir láta lífið í þessum tveim stríðum, er aldrei gerður greinarmunur á saklausu fólki og hermönnum á Gasa, ein heildartala fallinna sögð og gefið í skyn að þar séu allir saklausir, jafnt kornabörn sem skæruliðar Hamas. Fréttir frá Úkraínu eru hins vegar nokkuð öðruvísi. Þar er gerð góð skil á því hvort hermenn eru drepnir eða saklausir íbúar.

Þetta er ein birtingarmynd þess hvernig fréttaflutningur er notaður til að móta hugsanir fólks, hvernig athyglin er dregin frá stríðsátökum Rússa gegn Úkraínu og hún færð yfir í að réttlæta hryðjuverk Hamasliða. Til þess var leikurinn gerður.

Það liggur alveg ljóst fyrir að Hamasliðar vissu nákvæmlega að hverju þeir gengu er þeir hófu hryðjuverkin þann 7. október síðastliðinn. Vissu að Ísrael myndi svara af hörku. En þeim hafði verið talin trú um að þeir hefðu bakhjarl, þann sem skaffaði þeim vopnin, Íran. En kjarkur Írana er ekki upp á marga fiska. Þeir beita öðrum fyrir sig, skaffa vopn en ekki meira. Þannig er einnig gagnvart Hútum í Jemen. Íran dælir þangað vopnum en lætur Húta um að skaffa kjötið.

Svo merkilegt sem það er þá hittust ráðamenn Rússa og Írans skömmu fyrir hryðjuverk Hamas. Margir telja þarna beina tengingu á milli. Pútín þekkir hernaðarsögu Rússa nokkuð vel. Veit hvernig seinni heimstyrjöldin vannst. Þegar Þjóðverjar áttu í raun ekki annað eftir en að yfirtaka Moskvu, náðu Rússar viðspyrnu. Ekki vegna herkænsku, enda Stalín þá búinn að slátra flestum hæfum hershöfðingjum sínum og ekki vegna góðra hergana, áttu fá og léleg tæki til stríðsrekstrar. Nei, viðspyrnan náðist vegna mikilla herganaflutninga frá Bandaríkjunum til Rússlands. Þar spilaði Ísland stórt hlutverk. Rússar áttu hins vegar nægt kjöt til að fóðra fallbyssur Þjóðverja á.

Þannig tókst Rússum að ná fótspyrnu og í framhaldinu að snú stríðinu sér í hag. Tóku að reka Þjóðverja til síns heima. Ekki þó fyrr en vesturríkin höfðu náð að hrekja Þjóðverja á brott úr norðanverðri Afríku og leggja stórann hluta Ítalíu undir sig. Það ásamt innrás inn í Frakkaland og miklum hergagna flutningum frá Bandaríkjunum, gerði Rússum kleyft að snúa við stríðinu á heimaslóð.

Það er þekkt í hersögunni að tefla fram á tveim stöðum, til að veikja andstæðing sinn. Þetta virkaði vel fyrir Rússa í seinni heimstyrjöldinni, með hjálp vesturlanda og virðist ætla að virka nú í innrás þeirra í Úkraínu. Það er reyndar ótrúlegt að þeir sem styðja Ísrael í sinni baráttu skulu styðja Rússa. Vilja jafnvel bera saman Palestínuaraba við Úkraínubúa. Þvílík fjarstæða! Ef einhvern samanburð er hægt að gera þá er það Rússlandsher við hryðjuverkasamtökin Hamas.

Það voru Rússar sem réðust með hörku inn í Úkraínu, Það voru Rússar sem hertóku landsvæði nágrannaríkis síns. Rétt eins og hryðjuverkasamtök Hamas réðust inn í Ísrael. Því má að einhverju leyti jafna þetta tvennt saman. Munurinn er þó örlítill og ekki Rússum í hag. Rússar og Úkraína hafa samþykkt ríki hvors annars, meðan hvorki Ísrael hefur samþykkt ríki Palestínuaraba né þeir samþykkt ríki Ísraels.

Nokkrum sinnum hefur tekist að ná viðræðum um slíka gagnkvæma viðurkenningu, svokallaða tveggja ríkja lausn og a.m.k. einu sinni verið skrifað undir slíkan samning. Arabar hafa ætíð hafnað honum þegar á hólminn er komið, þó Ísrael hafi allt fram til þessa stríðs er nú herjar þar, verið tilbúið í gagnkvæma viðurkenningu þessara ríkja.

Það er skelfilegt til þess að vita að meðan Rússar herja miskunnarlaust á nágrannaþjóð sína, skuli samúð vesturlanda vera að þverra. Ekki aðeins er þetta skelfileg hugsun vegna úkraínsku þjóðarinnar, heldur einnig vegna þess að Rússar munu ekki láta staðar numið við að innlima Úkraínu. Þeir munu halda lengra til vesturs. Það er barnalegt eða vanþekking að halda öðru fram.

Verst er þó að þetta samúðarleysi okkar til Úkraínu skuli stafa af því að allir fjölmiðlar og ráðafólk á vesturlöndum hafi fært samúðina yfir á hryðjuverkasamtök. Um það vitnar umræðan, hvort heldur á fréttamiðlum eða innan hinnar vestrænu stjórnmálastéttar.

Í Úkraínu falla eða deyja börn í stríði en í Palestínu er fólk drepið, hvort heldur það er saklaust af stríðátökunum eða ekki. Þannig er umræðan!


"Ekki bæði sleppt og haldið"

Loks ratast fjármálaráðherra rétt orð af munni, smá glæta í hennar málflutningi. Auðvitað kalla orkuskiptin á frekari nýtingu náttúruauðlinda og auðvitað veldur slík nýting raski. Hitt er svo annað mál hvaða auðlindir eigi að nýta, bæði með tilliti til rasks á náttúrunni en kannski ekki síður með tilliti til þess hversu miklu það rask skilar þjóðinni til hagsbóta.

Vatnsorka og jarðhiti eru orkugjafafar sem gefa stöðuga og trygga orku og valda til þess að gera litlu raski á náttúrunni. A.m.k. ef reiknað er út frá hagnaði versus skaði á náttúru. Vindorkan er hins vegar bæði óstöðug og veldur mjög miklum skaða á náttúrunni. Þar má hellst nefna mjög mikla sjónmengun, sem væntanlega mun gera útaf við brothættan ferðaiðnaðinn, örplastmengun sem þegar hefur verið staðfest að er mjög mikil frá vindtúrbínum og er þar vart á bætandi fyrir náttúruna. Margt fleira má telja gegn vindorkunýtingu sem of langt mál er að telja nú.

Því ættum við að láta nýtingu vindorkunnar bíða um stund. Kannski mun tæknin til þeirrar nýtingar batna með öðrum aðferðum en nú eru notaðar. Núverandi tækni er ekki hægt að bæta.

Þá fer ráðherra aðeins inn á stofnun þjóðarsjóðs. Eitthvað kunnuglegt? Jú, vissulega hefur þetta heyrst áður. Það er gott að leggja til hliðar, ef geta er til þess. En betra er þó að greiða skuldir fyrst. Það hefur ríkisjóð reynst erfitt, sama hvaða stjórn er við völd.

Talandi um þjóðarsjóð þá er sennilega einungis ein þjóð í heiminum sem hefur tekist að byggja sér slíkan sjóð,  svo einhverju nemi. Það eru auðvitað Norðmenn. Þeir nýttu ævintýralegan gróða af vinnslu og sölu jarðefnaeldsneytis til uppbyggingar þessa sjóðs. Settu um hann strangar kröfur um úttekt, þannig að hann óx og dafnaði. Nú er sagan hins vegar önnur. Farið er að greiða úr sjóðnum á sama tíma og innkoman hefur minnkað verulega. Þar kemur einkum til röng orkustefna Norðmanna, orkustefna sem íslenskir stjórnmálamenn og ráðherrar eru svo æstir í að taka upp. Hætt við að erfitt reynist að byggja upp slíkan þjóðarsjóð, fái sú stefna ráðið.

"Ekki bæði sleppt og haldið" segir ráðherra og er þá að tala um orkuskipti versus orkunýtingu. Þennan frasa má einnig nota yfir hugmyndir um stofnun þjóðarsjóðs. Það verður ekki bæði sleppt og haldið þar heldur.

Þjóðarsjóð er ekki hægt að stofna ef valin er röng orkustefna.


mbl.is Orkuskiptin kalla á nýtingu og rask á náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband