Draugar fortíðar, Glámur og esb.

Enn hefur draugur esb aðildar verið vakinn upp. Það sem mest kemur þar á óvart er hver stendur að þeirri uppvakningu. Ekki þeir hefðbundnu talsmenn þess að við "deilum" sjálfstæði þjóðarinnar, nei, þar að verki er einn öflugast starfsmaður verkalýðshreyfingarinnar, Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Veralýðsfélags Akraness. Þó segist Villi vera á móti aðild að esb.

Þennan draug vakti Villi upp með samráði við atvinnurekendur, að eigin sögn, um að fá "óháða" erlenda aðila til gera úttekt á upptöku annars gjaldmiðils og ástæðan er léleg hagstjórn hér innanlands. Hann svarar allri gagnrýni að þetta eigi að vera óháð athugun sem mun leiða "sannleikann" í ljós. 

Fyrir það fyrst er nokkuð undarlegt að Villi skuli hafa farið með þetta viðkvæma, pólitíska stórmál fyrst til atvinnurekenda, áður en það var rætt og afgreitt á vettvangi launafólks. 

Hvað varðar "óháða aðila" ætti Villi að vita best að þeir finnast hvergi í veröldinni, Enda gefur hann lítið fyrir nokkur hundruð blaðsíðna úttekt um þetta málefni. Ástæðan er að Seðlabankinn stóð að þeirri skýrslugerð. Að henni kom fjöldi álitsgjafa, bæði innlendra og erlendra,  en það dugir Villa ekki. Það væri hægt að fá hóp hagfræðinga til að gefa út í löngu máli að jólasveinninn væri til, bara ef einhver er tilbúinn að borga.

Varðandi hagstjórnina þá breytist hún ekkert við upptöku á erlendum gjaldeyri, Auðvitað kostar það okkur að halda eigin gjaldeyri, en sá kostnaður er smámynt í heildarsamhenginu. Jafnvel ekki þó við gengjum í esb mun það engu breyta í hagstjórninni hér. Það sannað Hrunið okkur. Jafnvel þó við afsöluðum algjörlega sjálfstæði okkar til erlends ríkis og legðum niður Alþingi, mun hagsæld okkar áfram miðast að þeirri staðreynd að við erum fámennt samfélag í stóru landi á eyju langt frá umheiminum. Hitt er ljóst að ef við ekki ráðum eigin gjaldmiðli og stjórn hans tekur mið af allt öðru hagkerfi en hér er, mun veða erfiðara að stýra hagkerfinu og því líklegt að vextir hækki enn frekar og það sem kannski verst er fyrir launafólk, atvinnuleysi eykst. Sjálfur vil ég frekar halda vinnu, jafnvel þó hagurinn skerðist tímabundið vegna misvitrar stjórnunar landsins.

Þetta vanhugsaða brölt Villa er óskiljanlegt. Ber því við að fleiri og fleiri hagfræðingar telji krónuna ónýta. Inn á þetta er ég búinn að koma.

Hins vegar hefur þetta brölt hans vakið upp draug esb aðildar. Fjölmiðlar farnir að vitna í hagfræðinga um ágæti evru, sennileg sömu hagfræðinga og tókst að dáleiða Villa. Enginn ræðir norska krónu, Kanadadollar eða usadollar. Og auðvitað ræðir enginn dönsku krónuna, enda sá gjaldmiðill fasttengdur evru. Það væri því óþarfa millistig með tilheyrandi flækjum að taka upp þann gjaldeyri.

Villi ætti að lesa Grettissögu og baráttu Grettis við drauginn Glám. Þann draug þorði enginn að eiga við, flestir forðuðust hann, þeim fjáðu tókst að semja við óværuna. Það þurfti heljarmenni sem búið var að gera útlægann úr samfélaginu, til að berjast við drauginn og að lokum fella hann. Gretti bauðst að gera samning við Glám, en valdi frekar að útrýma honum. Barátta Grettis við Glám er að öllu leyti dæmisaga, þar sem útlægt heljarmenni tekur sér stöðu gegn vá almennings, það var enginn efi í huga Grettis, enda engir hagfræðingar til að hvísla í eyru hans.

Þeir sem hafa lesið pistla mína vita að ég hef verið ötull varðmaður fyrir Villa, á þessum vettvangi hér. Mér er ómögulegt að verja hann í þessari nýju vegferð sem hann hefur haldið í. Þetta hef ég tilkynnt honum en vona innilega að hann sjái að sér.

Þeir sem fara að leita hins eina sanna sannleiks hafa tekið að sér óendanlegt verkefni. Hann mun hvergi finnast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður pistill Gunnar.

Það kemur mér reyndar ekki á óvart að umræddur verkalýðsforingi sé kominn í hóp þeirra ræðara sem kenna árinni. Svona miðað við hvernig hann hefur tekið pólinn í hæðina síðustu tvo kjarasamningana eða svo, og kæmi ekki á óvart að fleiri kolleikar hans ættu eftir að stökkva á vagninn.

Magnús Sigurðsson, 25.9.2023 kl. 16:05

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er SORGLEGT að lesa um þennan VIÐSNÚNING hjá Vilhjálmi Birgissyni í gjaldeyrismálum.  Ég hef  nú löngum haft töluvert álit á þeim manni og aldrei reiknaði ég með því að sá maður dytti í þann "DRULLUPYTT" INNLIMUNARSINNA að fara að kenna gjaldmiðlinum um hver staða okkar er í efnahagsmálum en eins og allir "ÆTTU" að vita þá er gjaldmiðill bara gjaldmiðill og er ekkert með sjálfstæða hugsum eða stjórnar einu eða neinu.eins og "SUMIR" vilja halda fram HELDUR ER HANN ALGJÖRLEGA HÁÐUR ÞVÍ HVERNIG STJÓRN EFNAHAGSMÁLA I LANDINU ER OG STAÐA LANDSINS ER VEGNA SLAKRAR STJÓRNAR EFNAHAGSMÁLA FRÁ UPPHAFI LÝÐVELDISSTOFNUNAR.......

Jóhann Elíasson, 26.9.2023 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband