500 MW orkuver

Á laugardaginn næsta rennur út frestur til að gera athugasemd við vindorkuver í Klausturseli á Fljótsdalsheiði.

Sendi eftirfarandi athugasemd til Skipulagsstofnunar:

Til
Skipulagsstofnunar vegna matsáætlunar um vindorkuver í Klausturseli, Múlaþingi
.

 

Almennt

Varðandi matsáætlunin sjálfa er það að segja að hún er illa unnin, upplýsingar litlar eða lélegar og vægast sagt loðnar. Það er því vart annað hægt að segja en hún sé í heild sinni óhæf eins og hún stendur.

Þó má finna einstakar upplýsingar í áætluninni. Þar er talað um 500MW framleiðslugetu og að vindtúrbínur hennar geti orðið allt að 90. Hæð að hámarki 200 metrar með spaða í toppi.

 

Vindtúrbínur. 

Miðað við 500MW framleiðslugetu og 90 vindtúrbínur þarf framleiðslugeta hverrar túrbínu að vera a.m.k 5,6MW. Ef einhverjar eru minni þurfa aðrar að vera stærri. Í áætluninni er gert ráð fyrir að stærðir hverrar túrbínu verði 5 til 7MW.  Þegar farið er inn á heimasíður vindtúrbínuframleiðenda kemur hins vegar í ljós að 5MW vindtúrbína getur lægst orðið um 200 metrar á hæð, miðað við spaða í hæstu stöðu, en allt að 241 metri. 7MW vindtúrbínur eru heldur hærri, eða kringum 260 metrar, miðað við spaða í hæstu stöðu.

Þarna er mikill munur á og ljóst að verið er að draga eins mikið úr stærðum og hægt er.  A.m.k. stemmir þessi  útreikningur engan veginn.  Reyndar er opnað á það í áætluninni að túrbínurnar geti orðið enn hærri, án þess þó að nefna hversu háar.

Ef mat á sýnileika þessa orkuvers er reiknað út frá 200 metra háum vindtúrbínum, eða lægri, er ljóst að sá útreikningur er rangur, þó geigvænlegur sé, sér í lagi þegar haldið er opnu að þær geti orðið nánast óendanlega háar.

 

Landnotkun.

Gert er ráð fyrir í matsáætluninni að svæðið undir þetta orkuver verði 4.110 ha. Þarna er líklega um töluverðan vanreikning að ræða, þar sem áhrif á vind og  tilurð vindstrengja sem þær valda, kallar á töluverða fjarlægð hver við aðra. Gera má ráð fyrir að landnotkun geti orðið allt að 18.000 ha. Innan þess getur auðvitað önnur landnotkun verið, svo sem vegna safnhúsa og spennuvirkja. Einungis vegstæði að svæðinu bætist þar við. Þarna er um verulega skekkju að ræða sem gerir þessa matsáætlun ónothæfa.

 

Dýralíf

Í þessari matsáætlun er lítið gert úr áhrifum á  dýralíf á svæðinu. Ekki þarf annað en að skoða kort af því til að sjá að þetta svæði er bæði nokkuð gróðursælt en einnig mikið um smátjarnir á því. Það segir manni að mikið fuglalíf hlýtur að vera á svæðinu, auk þess sem jórturdýr sækja á það. Þar má til dæmis nefna hreindýr. Á síðasta ári féll í Noregi lokunardómur á vindorkuveri, vegna truflunar á beitarskilyrðum hreindýra.

 

Efnisþörf

Matsáætlunin gerir ráð fyrir að allt efnismagn á svæðinu verði á bilinu 230.000 m3 til 540.000 m3, geti þó orðið meiri. Ónákvæmnin þarna er hrópandi.  Steypumagn í akkeri túrbínanna er áætlað um 54.000 m3. Samkvæmt heimasíðu vindtúrbínuframleiðenda þarf steypt akkeri undir vindtúrbínu með framleiðslugetu upp á 6MW að ná að lágmarki 30 metra út fyrir túrbínuna og aldrei minni en 4 metrar á þykkt. Þó verður alltaf að fara niður á fast, þannig að þetta er lágmarkið, að mati framleiðenda. Þetta gerir að akkeri hverrar túrbínu þarf að vera að lágmarki 11.000 m3. Ef það er síðan margfaldað með 90 kemur út 990.000 m3. Töluvert stærri tala en sögð er í áætluninni og nærri helmingi hærri en öll  efnisnotkun á svæðinu, sé tekið mið að hærri tölunni. Auðvitað geta menn svindlað á þessum kröfum framleiðenda og sparað sér aur, en hætt er við að þá kæmi upp svipuð staða og sumstaðar í Noregi, þar sem vindtúrbínurnar standa ekki af sér vetrarveðrin og falla í valinn. Veit reyndar ekki hvort þær virkjanir séu í eigu Zephyr.

 

Annað

Þarna er um að ræða orkuver af stærstu gerð, helmingi stærra en nokkur önnur hugmynd um beislun vinds hér á landi hljóðar upp á, ennþá.  Einungis Fljótsdalsvirkjun verður stærri að uppsettu afli.

Í matsáætluninni er gjarnan talað um vindorkugarða og vindmillur. Rétt eins og annað í þessari áætlun er þetta bæði villandi og rangt. Þarna er hvorki um garð né millu að ræða, heldur orkuver af stærstu gerð knúið áfram af risastórum vindtúrbínum.

Garður hefur ýmsa meiningu í íslensku máli, getur verið afgirt svæði til ræktunar eða yndisauka, getur einnig verið hlaðinn garður úr torfi og grjóti, til að halda búsmala, en þaðan kemur orðið girðing. Garður getur aldrei orðið samheiti yfir einhver risa orkuver, ekki frekar en að miðlunarlón vatnsorkuvera kallist tjörn.

Milla er eitthvað sem malar, t.d. korn, eins og orðanna hljóðan segir. Fyrr á öldum var vindur beislaður til að knýja slíkar millur en einnig vatnsorka. Aldrei er þó talað um vatnsmillur þegar rætt er um túrbínur vatnsorkuvera.

Það er því beinlínis rangt að tala um vindorkugarð, vindmillugarð eða vindmillur og ekki má heldur gleyma rangyrðinu í þessu sambandi þegar talað er um vindmillulund.

Þessar nafngiftir á þessi orkuver eru þó ekki nein tilviljun. Þetta er með ráðnum hug  gert, til að fegra óskapnaðinn.

Tölum um hlutina með réttum nöfnum, vindtúrbínur og vindorkuver.

 

Að lokum.

Þessi matsáætlun fyrir Vindorkuver í Klausturseli er loðin, villandi og að stórum hluta til beinlínis röng. Hana ber því að senda til föðurhúsanna og krefjast þess að betur sé að verki staðið, að allar staðreyndir verði leiðréttar og niðurstöður færðar til samræmis við þær.

Þarna er verið að ráðast freklega gegn náttúru landsins okkar og því lágmark að vel sé að málinu staðið. Að láta frá sér slíka skýrslu sem hér er kynnt er ekki bara móðgun við þjóðina, heldur ekki síður móðgun við landið okkar. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að einskis er svifist til að koma fram vilja erlenda fjármagnsafla.

Náttúran á alltaf að njóta vafans.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þú átt þakkir skildar fyrir að leggja í þessa rýnivinnu, sem greinilegra hefur meira gildi en þessi hrákasmíð, sem kölluð er matsáætlun fyrir 500 MW vindorkuver.  Ég skil ekki, hvað amlóðar eru að burðast við það, sem þeir greinilega hafa ekki á valdi sínu.  Að láta frá sér fara svona matsáætlun sýnir í senn litla tæknilega burði og metnaðarleysi.  Er nema von, að Íslendingar hafi upp til hópa áhyggjur af því, að múldýr ætli sér nú að ryðjast inn í íslenzka náttúru og valda um leið efnahagstjóni vegna hækkunar raforkuverðs ? 

Bjarni Jónsson, 5.1.2023 kl. 20:24

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Gunnar.

Þakka þér framtakið, sem er í alla staði rökrétt og skýrt.

Persónulega álít ég að vindmyllur eigi alls ekki við hér á Íslandi vegna sjónmengunar, viðhalds, dýraverndunar og auðvitað hrikalegs kostnaðar auka fyrir okkur venjulega raforku-notendur, sem ætíð borga brúsann, þegar smartir bissness-gaurar fara á hausinn eins og við öll þekkjum.

Jónatan Karlsson, 5.1.2023 kl. 21:13

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk fyrir innlit Bjarni. Þú hefur nú ekki látið þitt eftir liggja í vörninni.

Víst er að ef enginn nennir að leggja smáveigis á sig, mun baráttan tapast.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 5.1.2023 kl. 21:36

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Jónatan

Við erum sammála um andstöðuna gegn vindorkuverum. Þær hugmyndir sem uppi eru, af erlendum aðilum, eru hins vegar svo stórfelldar að engu tali tekur.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 5.1.2023 kl. 21:39

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Takk fyrir Gunnar. Er hægt að senda afrit af því sem þú sendir inn, eða þarf að hnika til orðavali? Greining þín og nákvæmni í magntölum og öðru, ásamt góðu innsæi verður manni hvatning til að láta til sín taka, ef það hefur einhverja vikt. Pistlar Bjarna Jónssonar hafa einnig verið hvati til þess að taka þátt í baráttunni gegn þessum vágesti, sem nú ógnar hérlendri náttúru og efnahag almennings um ókomna framtíð. 

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 6.1.2023 kl. 03:14

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kærar þakkir fyrir þetta, Gunnar. Þessi hrákasmíð er því miður engin nýjung varðandi virkjanir. Því miður var til dæmis auðvelt fyrir 12 árum að tæta niður svokallað mat á umhverfisáhrifum fyrir virkjanahugmyndir eins og Búlandsvirkjun, virkjanir á Kröflusvæðinu, Kjalölduveitu og fleiri. 

Nöfnin ein voru glöggt dæmi, því að ekki á að virkja neitt Búland eða neina Kjalöldu,né neinn Hvamm eða Holt, heldur á að virkja Skaftá, efstu þrjá stórfossa í Þjórsá í Þjórsárfossavirkjun og Búðfoss í neðri hluta Þjórsár. 

Í mati Mannvits er þess hvergi getið að með Búlandsvirkjun eigi að þurrka upp fimm fallega fossa nálægt Skaftárdal og raunar látið í veðri vaka að sá hluti Skaftár, sem ráðast skal á, sé ekki til, svo sem afar fallegt hraunkvíslanet í ánni!

Um aldamótin síðustu sagði Landsvirkjun að Kvíslaveita tæki um 15 prósent vatnsmagnsins af Þjórsárfossunum, en síðar hefur brugðið svo við að rétt tala sé um 40 prósent! 

Listinn er langur. Mannvit verkfræðistofa sýndi litla virðingu fyrir heiti sínu þegar sett voru tvö svæði sem landslagsheildir inn í áætlunina um virkjanir á Kröflusvæðinu. 

Í stað þess að setja hinn það, sem blasir við jarðvísindamönnum jafnt sem leikmönnum, vettvang Kröfluelda, settu þeir inn annars vegar Gæsafjöll (!) og hins vegar nokkurn veginn virkjanasvæði Kröfluvirkjunar! 

Ómar Ragnarsson, 7.1.2023 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband