Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

500 MW orkuver

Á laugardaginn næsta rennur út frestur til að gera athugasemd við vindorkuver í Klausturseli á Fljótsdalsheiði.

Sendi eftirfarandi athugasemd til Skipulagsstofnunar:

Til
Skipulagsstofnunar vegna matsáætlunar um vindorkuver í Klausturseli, Múlaþingi
.

 

Almennt

Varðandi matsáætlunin sjálfa er það að segja að hún er illa unnin, upplýsingar litlar eða lélegar og vægast sagt loðnar. Það er því vart annað hægt að segja en hún sé í heild sinni óhæf eins og hún stendur.

Þó má finna einstakar upplýsingar í áætluninni. Þar er talað um 500MW framleiðslugetu og að vindtúrbínur hennar geti orðið allt að 90. Hæð að hámarki 200 metrar með spaða í toppi.

 

Vindtúrbínur. 

Miðað við 500MW framleiðslugetu og 90 vindtúrbínur þarf framleiðslugeta hverrar túrbínu að vera a.m.k 5,6MW. Ef einhverjar eru minni þurfa aðrar að vera stærri. Í áætluninni er gert ráð fyrir að stærðir hverrar túrbínu verði 5 til 7MW.  Þegar farið er inn á heimasíður vindtúrbínuframleiðenda kemur hins vegar í ljós að 5MW vindtúrbína getur lægst orðið um 200 metrar á hæð, miðað við spaða í hæstu stöðu, en allt að 241 metri. 7MW vindtúrbínur eru heldur hærri, eða kringum 260 metrar, miðað við spaða í hæstu stöðu.

Þarna er mikill munur á og ljóst að verið er að draga eins mikið úr stærðum og hægt er.  A.m.k. stemmir þessi  útreikningur engan veginn.  Reyndar er opnað á það í áætluninni að túrbínurnar geti orðið enn hærri, án þess þó að nefna hversu háar.

Ef mat á sýnileika þessa orkuvers er reiknað út frá 200 metra háum vindtúrbínum, eða lægri, er ljóst að sá útreikningur er rangur, þó geigvænlegur sé, sér í lagi þegar haldið er opnu að þær geti orðið nánast óendanlega háar.

 

Landnotkun.

Gert er ráð fyrir í matsáætluninni að svæðið undir þetta orkuver verði 4.110 ha. Þarna er líklega um töluverðan vanreikning að ræða, þar sem áhrif á vind og  tilurð vindstrengja sem þær valda, kallar á töluverða fjarlægð hver við aðra. Gera má ráð fyrir að landnotkun geti orðið allt að 18.000 ha. Innan þess getur auðvitað önnur landnotkun verið, svo sem vegna safnhúsa og spennuvirkja. Einungis vegstæði að svæðinu bætist þar við. Þarna er um verulega skekkju að ræða sem gerir þessa matsáætlun ónothæfa.

 

Dýralíf

Í þessari matsáætlun er lítið gert úr áhrifum á  dýralíf á svæðinu. Ekki þarf annað en að skoða kort af því til að sjá að þetta svæði er bæði nokkuð gróðursælt en einnig mikið um smátjarnir á því. Það segir manni að mikið fuglalíf hlýtur að vera á svæðinu, auk þess sem jórturdýr sækja á það. Þar má til dæmis nefna hreindýr. Á síðasta ári féll í Noregi lokunardómur á vindorkuveri, vegna truflunar á beitarskilyrðum hreindýra.

 

Efnisþörf

Matsáætlunin gerir ráð fyrir að allt efnismagn á svæðinu verði á bilinu 230.000 m3 til 540.000 m3, geti þó orðið meiri. Ónákvæmnin þarna er hrópandi.  Steypumagn í akkeri túrbínanna er áætlað um 54.000 m3. Samkvæmt heimasíðu vindtúrbínuframleiðenda þarf steypt akkeri undir vindtúrbínu með framleiðslugetu upp á 6MW að ná að lágmarki 30 metra út fyrir túrbínuna og aldrei minni en 4 metrar á þykkt. Þó verður alltaf að fara niður á fast, þannig að þetta er lágmarkið, að mati framleiðenda. Þetta gerir að akkeri hverrar túrbínu þarf að vera að lágmarki 11.000 m3. Ef það er síðan margfaldað með 90 kemur út 990.000 m3. Töluvert stærri tala en sögð er í áætluninni og nærri helmingi hærri en öll  efnisnotkun á svæðinu, sé tekið mið að hærri tölunni. Auðvitað geta menn svindlað á þessum kröfum framleiðenda og sparað sér aur, en hætt er við að þá kæmi upp svipuð staða og sumstaðar í Noregi, þar sem vindtúrbínurnar standa ekki af sér vetrarveðrin og falla í valinn. Veit reyndar ekki hvort þær virkjanir séu í eigu Zephyr.

 

Annað

Þarna er um að ræða orkuver af stærstu gerð, helmingi stærra en nokkur önnur hugmynd um beislun vinds hér á landi hljóðar upp á, ennþá.  Einungis Fljótsdalsvirkjun verður stærri að uppsettu afli.

Í matsáætluninni er gjarnan talað um vindorkugarða og vindmillur. Rétt eins og annað í þessari áætlun er þetta bæði villandi og rangt. Þarna er hvorki um garð né millu að ræða, heldur orkuver af stærstu gerð knúið áfram af risastórum vindtúrbínum.

Garður hefur ýmsa meiningu í íslensku máli, getur verið afgirt svæði til ræktunar eða yndisauka, getur einnig verið hlaðinn garður úr torfi og grjóti, til að halda búsmala, en þaðan kemur orðið girðing. Garður getur aldrei orðið samheiti yfir einhver risa orkuver, ekki frekar en að miðlunarlón vatnsorkuvera kallist tjörn.

Milla er eitthvað sem malar, t.d. korn, eins og orðanna hljóðan segir. Fyrr á öldum var vindur beislaður til að knýja slíkar millur en einnig vatnsorka. Aldrei er þó talað um vatnsmillur þegar rætt er um túrbínur vatnsorkuvera.

Það er því beinlínis rangt að tala um vindorkugarð, vindmillugarð eða vindmillur og ekki má heldur gleyma rangyrðinu í þessu sambandi þegar talað er um vindmillulund.

Þessar nafngiftir á þessi orkuver eru þó ekki nein tilviljun. Þetta er með ráðnum hug  gert, til að fegra óskapnaðinn.

Tölum um hlutina með réttum nöfnum, vindtúrbínur og vindorkuver.

 

Að lokum.

Þessi matsáætlun fyrir Vindorkuver í Klausturseli er loðin, villandi og að stórum hluta til beinlínis röng. Hana ber því að senda til föðurhúsanna og krefjast þess að betur sé að verki staðið, að allar staðreyndir verði leiðréttar og niðurstöður færðar til samræmis við þær.

Þarna er verið að ráðast freklega gegn náttúru landsins okkar og því lágmark að vel sé að málinu staðið. Að láta frá sér slíka skýrslu sem hér er kynnt er ekki bara móðgun við þjóðina, heldur ekki síður móðgun við landið okkar. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að einskis er svifist til að koma fram vilja erlenda fjármagnsafla.

Náttúran á alltaf að njóta vafans.

 

 

 


"Mokið, mokið, mokið, mokið, mokið meiri snjó"

Mikið er rifist um snjóruðning í höfuðborginni okkar. Ekki laust við að ætla að þar sé stjórnað af fólki sem er svo mikið alheimsfólk að það gleymir þeirri staðreynd að stundum snjóar á Íslandi.

Sjálfur bý ég á Skaganum og þar var ágætlega staðið að snjóruðningi. Reyndar ekki komið í götuna hjá mér, en við sem við hana búum erum svo sem ekki óvön því. Hugsanlega má líka telja að snjómokstur hjá okkur hafi verið svona góður vegna þess hversu lítið snjóaði.

Og það var einmitt málið, snjókoman var ekkert svo mikil. Hvorki hér á Skaganum né í höfuðborginni. Heldur meira snjóaði í nágrannabæjum borgarinnar, Mosfellssveit og uppbyggðum Kópavogs, en þar gekk einnig ágætlega að halda opnu. Öfugt við borgina. Nokkurn byl og blindu gerði hins vegar um tíma.

Það væri fróðlegt ef gerði alvöru snjókomu í borginni, svona svipað og austan Hellisheiðar. Þar hefur sannarlega snjóað. Hvað ef svona snjókoma færi yfir höfuðborgina okkar? Hverjum væri þá um að kenna?

Enn og aftur reynir borgarstjórnarmeirihlutinn að koma af sér sök. Ástæða þess að borgin var kolófær, þegar tiltölulega lítinn snjó gerði, er öllum öðrum um að kenna. Formaður einhverrar nefndar er látinn standa í stafni borgarstjórnar og halda uppi ruglinu. Fyrst var ástæðan að aðkeyptir viðbragðsaðilar hefðu ekki mætt þegar kallið kom, svo var haldið að fólki þeirri rökleysu að ekki væru til næg tæki og tól til að sinna verkinu. Því var einnig haldið fram að tafist hafi að endurskipuleggja snjómokstur borgarinnar. Og í dag fræddi þessi formaður okkur um að ástæða þeirrar tafa væri sleifarlag minnihlutans í borginni, að hann hefði ekki getað skipað fulltrúa í nefndina. Þetta er orðinn slíkur farsi að engu tali tekur. Trúir einhver þessu andsk... bulli?

Það er annars ágætt að meirihlutinn vilji nú starfa með minnihlutanum, það hefur ekki borið á slíkum vilja fyrr. Eða er aðild minnihlutans kannski bara æskileg þegar á bjátar í stjórnun? Ef svo er, ætti meirihlutinn fyrir löngu að vera búinn að færa minnihlutanum lykilinn að borginni, svo mikið er víst. Þá yrði borginni kannski stjórnað almennilega, án þess að eilíft væri verið að endurskipueggja einföldustu hluti.

Annars er sennilega fyndnasta tillagan komin frá fulltrúa VG, er hún lagði til að borgin keypti skóflur fyrir borgarbúa. Þegar svo skömmu síðar byggingavöruverslanir auglýstu að snjóskóflur væru að verða uppseldar, hélt ég í alvöru að hún hefði fengið meirihlutann til samstarfs.

Hvað sem öllu líður, þá var snjókoman fyrir jól ekkert svo ofboðsleg, miðað við hvað getur orðið. Íbúar á norðanverðu landinu gerðu góðlátlegt grín af borgarbúum, enda þekkja þeir snjóinn nokkuð vel. Það er ekki stórmál eða vísindi að ryðja snjó af götum og sú uppákoma sem varð í borginni því engan vegin afsakanleg. Þar gildir sú megin regla að fá sem flest tæki strax. Fleiri tæki afkast meiru en færri, það þarf hvorki nefnd né vísindamenn til að átta sig á því. Og fleiri tæki í styttri tíma, kosta varla mikið meira en færri tæki svo dögum skiptir.

Að halda götum borgarinnar opnum er ekki bara réttlætismál íbúa, það er ekki síður öryggismál, að viðbragðsaðilar komist um borgina.

Að hægt sé að halda uppi öryggi borgarbúa.


mbl.is Ábyrgðarhlutur að borgin geri ekki ráðstafanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttin er grunn

Jæja, þá er farið að glitta í einhvern málefnasamning hinnar nýju borgarstjórnar. Reyndar erfitt að átta sig á því sem tilvonandi borgarstjórar tjá sig um, svo ólíkur sem málflutningur þeirra er. Varla traustvekjandi, svona á fyrsta degi hjónabandsins.

En hvað um það, förum aðeins yfir það sem Einar segir. Munum að hann talaði um miklar breytingar í kosningabaráttunni. Líklega hefur það gefið ófá atkvæði til Framsóknar.

Einar boðar 18 breytingar. Þó nefnir hann einungis þrjár þeirra, væntanlega þær mikilvægustu. Fyrst nefnir hann metnaðarfyllri áætlanir í byggingu íbúðahúsnæðis. Það hefur svo sem ekki skort metnaðinn í áætlanir á þessu sviði, hjá fyrrverandi meirihluta. Glærusýningar og annað útgefið efni um málið hefur flætt frá þeim yfir landsmenn síðustu tólf ár. Hins vegar hefur orðið minna úr framkvæmdum. Þarna er því ekki um neina breytingu að ræða, áætlanir eru svo sem góðar en það eru framkvæmdir sem telja.

Sundabraut er næst hjá hinum nýja verðandi borgarstjóra. Þar er svipað upp á borðum, borgarstjórn hefur í sjálfu sér aldrei hafnað Sundabraut, þó einstaka fulltrúar hafi ákveðnar skoðanir gegn henni. Reyndar skipulagði borgin íbúðabyggð á því svæði sem hagkvæmast hefði verið að leggja þessa braut, þannig að verkefnið mun kosta meira en ella. Reyndar er nýlegt samkomulag milli borgarinnar og stjórnvalda um þetta málefni í gildi og ekki séð annað en að verið sé að fylgja því. Það er því vart hægt að tala um að þarna sé um einhvern viðsnúning eða taktískar breytingar að ræða.

Og svo er það þriðja málið sem Einar nefnir, Vatnsmýri og flugvöllur. Þar er sama upp á teningnum og í Sundabrautarmálinu, nýlegt samkomulag um að flugvöllurinn verði enn um sinn og að ekki megi skerða öryggi hans með byggingum við hann. Því er ekki heldur nein breyting þarna.

Reyndar má lesa aðra frétt, þar sem talað er við Dag um málið. Hann snýr dæminu svolítið á annan veg. Fyrst skal byggt og síðan unnið með Isavia varðandi mótvægisaðgerðir vegna minna öryggis flugvallarins. Þarna greinir nokkuð á milli þeirra, tilvonandi borgarstjóranna. Misræmið í túlkun þeirra í þessu máli ber ekki merki um sátt milli þeirra.

Í öllu falli er ljóst að þær breytingar sem Framsókn lofaði höfuðborgarbúum og reyndar landsmönnum öllum, finnast varla.


mbl.is Byggja í Vatnsmýri ef það ógnar ekki flugöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik og galdrar

Maður veltir því virkilega fyrir sér til hvers fólk mætir á kjörstað. Vilji kjósenda er ekki virtur.

Í síðustu tvennum sveitarstjórnarkosningum hefur meirihluti borgarstjórnar verið felldur af kjósendum, þó hefur Samfylking farið einna verst út úr þessum kosningum. Málflutningur þessa flokks virðist ekki eiga upp á pallborð kjósenda. Þrátt fyrir að fylgi Samfylkingar hafi fallið um þriðjung á þessum tíma, lafir flokkurinn í meirihluta, með hjálp annarra flokka. Eftir kosningarnar 2018 kom Viðreisn Samfylkingu til hjálpar og nú bætti sá flokkur enn betur og gekk í raun inn í hinn deyjandi flokk, með samkomulagi um að halda samstarfi áfram, hvað sem kjósendur segðu. Og í einfeldni sinni gekk Framsókn að þessum afarkjörum Viðreisnar. Þar með hefur Framsókn tryggt að dýrð þeirra mun ekki standa fram yfir næstu kosningar. Svikin við kjósendur eru algjör!

Framsókn vann vissulega stórsigur í Reykjavík. Kosningaloforðin voru í sjálfu sér loðin, meira horft til ímyndar en málefna, en þó stóð eitt kosningaloforð uppi sem einkennisorð Framsóknar; breytingar voru boðaðar. Kosningabandalag við Dag og hans fylgifólk mun tryggja að þetta eina kosningaloforð Framsóknar mun ekki standa, það verður einnig svikið. Svik við kjósendur er algjört!

Galdramenn eru þeir sem af snilligáfu sinni geta platað fólk til að sjá eitthvað annað en raunveruleikann. Platað fólk til að upplifa eitthvað allt annað en það í raun upplifir. Plata fólk til að trúa því ótrúanlega. Dagur er sannarlega einn slyngasti galdramaður Íslands.

Skoðum nú aðeins málefni og gerðir Samfylkingar, síðustu þrenn kjörtímabil. Vorið 2014 fékk flokkurinn 31% fylgi kjósenda, tími leikarans var liðinn og við tók tími galdramannsins. Fyrir þær kosningar var í sjálfu sér ekki mikið rætt um svokallaða borgarlínu og allt ruglið tengt henni. Flestir kjósendur töldu á þeim tímapunkti að hugmyndin væri svo afspyrnu fáránleg að hún yrði aldrei annað en hugmynd einhverra vitskertra. Strax að loknum kosningum var þó farið á fulla ferð í vinnu til að koma þessari hugmynd á koppinn. Byrjað var á að þrengja götur og gera einkabílnum erfiðara fyrir, unnið að framgangi málsins á bak við tjöldin, meðal annars innan landsstjórnar og löggjafans.  Svona gekk fram undir kosningarnar 2018. Í þeim kosningum felldu kjósendur þennan meirihluta, enda farnir að átta sig á að jafnvel þó hugmyndin um borgarlínu væri svo fráleitar sem mest mátti vera, auk þess sem kostnaður af henni væri eitthvað sem enginn vissi í raun, ætluðu vinstri menn, undir stjórn Dags, að koma henni í framkvæmd. Ætluðu sér að færa höfuðborg landsmanna aftur um heila öld í samgöngumálum. En þá kom Viðreisn til sögunnar og vilji kjósenda var hafður að engu.

Eftir að Dagur hafði verið reistur upp úr öskustónni, með hjálp Viðreisnar hófst enn eitt kjörtímabil skelfingar. Nú var fullum krafti hleypt í þessa afturhaldshugmynd vinstrimanna. Jafnvel tókst galdramanninum Degi að fífla stjórnvöld til liðs við sig, auðvitað með hálfkveðnum vísum. Þegar seinnihluti vísanna var kveðinn áttuðu stjórnvöld sig á að þau höfðu verið höfð af fíflum, en höfðu ekki kjark til að viðurkenna það. Því hafði Dagur tangarhald á þeim og tókst ekki bara að láta ríkissjóð opna opinn víxil fyrir þessum gerðum, heldur beinlínis kosta kosningabaráttu flokksins fyrir nýafstaðnar kosningar. Eftir sem áður höfnuðu kjósendur þessum meirihluta, enn og aftur. Fylgi Samfylkingar hafði nú minnkað um rúm 30%, í tvennum kosningum. Þá kemur Viðreisn til sögunnar. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum komst fulltrúi flokksins að þeirri niðurstöðu að sinn flokkur, sem hafði tapað helmingi sinna borgarfulltrúa, bæri að vera í borgarstjórn og ekki aðeins það, heldur átti hennar flokkur að bjarga Degi enn og aftur.

Framsókn, sem hafði unnið stórsigur, hafði nú einungis tvo kosti eftir, að ganga til viðræðna við galdramanninn og hans slekti, eða stíga til baka. Flokkurinn valdi verri kostinn. Þegar þessir afarkostir Viðreisnar voru staðreynd átti Framsókn ekki að sætta sig við þá stöðu og draga sig til baka. Með þessari ákvörðun sinni skrifaði flokkurinn upp á hrun sitt í næstu kosningum. Kjósendur Framsóknar kusu þann flokk út á loforð um breytingar, ekki loforð um sama ástand áfram.

Hér hef ég einkum bent á borgarlínu sem óstjórn vinstri meirihlutans, enda það mál lang stærst í göldrum Dags. Það má líka benda á margt annað, eins og bragga og strá, pálmatré, Hlemm, hin ýmsu torg þar sem gras er rifið upp með rótum og hellur lagðar, óþrifnaður á gatnakerfi og landi borgarinnar, Sorpu og margt margt fleira í dúr óstjórnar. En borgarlínu fylgir sú skelfing að borgin er færð öld aftur í tíma. Ekki einungis er slíkur rekstur gamaldags og úreltur og kostnaður mikill, heldur á að neyða fólk til að nota hana með skipulagi byggðar. Farið er aftur til tíma sovéts í þeim málum og háhýsi byggð svo þétt að ekki nær sól til jarðar. Fá eða engin bílastæði eru ætluð íbúum eða gestum þeirra. Byggt er á dýrustu lóðum borgarinnar og rifin þar hús sem eru í ágætis standi og sum jafnvel mjög góðu standi. Þetta gerir kostnað bið byggingu íbúðahúsnæðis enn dýrara en ella og er þó nóg samt!

Bílaflotinn er að færast frá eldsneytisbílum yfir í rafbíla. Hér á landi er þessi breyting svo hröð að bílaframleiðendur hafa ekki undan. Bið eftir nýjum rafbílum er mikil. Því er ljóst að þessi þróun mun verða mun hraðari hér en víðast annarsstaðar. Einungis framboðið sem mun tefja. Þetta breytir þó ekki hugsanagangi vinstrimanna í höfuðborginni. Einkabíll er einkabíll og einkabíll er slæmur, að þeirra mati. Mengun skiptir þar engu máli. Þá skiptir engu máli hjá þessu fólki að Reykjavík er höfuðstaður Íslands. Þangað þurfa íbúar landsins að sækja ýmsa þjónustu, sem ekki er lengur til staða á landsbyggðinni. Það fólk þarf að komast um borgina. Hef reyndar oft velt fyrir mér hvers vegna allir kjósendur landsins hafi með það að gera hver stjórnar höfuðborginni okkar.

Það sem átti að vera stuttur pistill um svik við kjósendur er orðinn lengri en góðu hófi gegnir. Hitt er deginum ljósara að björgun Framsóknar á hinum fallna meirihluta eru stór svik við kjósendur. Framsókn á ekki roð í galdramanninn.


mbl.is Meirihlutasamningur BSPC í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ég heldur

Ég skil ekki heldur hugmyndafræði Viðreisnar, reyndar ekki heldur hugmyndafræði VG, eða Pírata, eða Framsóknar, eða Samfylkingar, eða Sjálfstæðisflokks. Stefnumál þessara flokka er að vísu með örlítið mismunandi blæ, litlum þó, en verk þeirra algjörlega þau sömu. Þar er enginn munur á. Skil reyndar ekki hvers vegna þarna er um sex flokka að ræða, þegar þeir gætu hæglega sameinast í einn flokk. Og Sósíalistaflokkur gæti hæglega verið innan þess flokks.

Stjórnmálamenn allra þessara flokka sýna sömu fávitaeinkennin þegar þeir komast til valda og stjórnmálamenn allra þessara flokka eru jafn hundónýtir í stjórnarandstöðuhlutverkinu. Þar er enginn munur, ekki frekar en á verkum, eða öllu heldur verkleysi þeirra.

Það er sorglegt að hlusta á stjórnmálamenn tala til þjóðarinnar þessa dagana. Þar er enginn dugur né geta, einungis loforð sem vitað er að munu ekki standa, í flestum tilfellum loforð sem eru orðin svo slitin af kosninganotkun að þau hanga vart lengur saman. Smámálum hampað meðan stóru málunum er haldið í felum!

Svei þessu fólki öllu saman!

 


mbl.is Líf skilur ekki hugmyndafræði Viðreisnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pawel brugðið

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúa Viðreisnar er brugðið. Innviðaráðherra vill að borgin standi við gerðan samning. Það er nýlunda fyrir borgarfulltrúann, enda ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu, ekki verið að fetta fingur út í að borgin túlki samninga við ríkið eftir sínu höfði.

Megin málið er þó að borgarfulltrúinn bendir á samning frá 2013, máli sínu til stuðnings og gerir lítið úr samningi sem gerður var 2019. Það er þó kannski rétt fyrir borgarfulltrúann að átta sig á þeirri staðreynd að þegar tvennir samningar standast á, þá er það ætíð hinn nýrri sem tekur yfir þann eldri. Annað getur einfaldlega ekki gengið upp. Í samningnum frá 2013 var norður-suður brautin tryggð til ársins 2022, en í samningnum frá 2019 er hún tryggð þar til annar flugvöllur hefur verið byggður. Að öryggi vallarins verði ekki skert frekar en orðið er. Ekki mjög flókið.

Það er hins vegar rétt hjá borgarfulltrúanum, að hvorugur samningurinn fjallar um uppbyggingu borgarinnar á svæðinu, hvorki innan né utan flugvallar, enda varla þörf á að tíunda það. Það er fjallað um að öryggi flugvallarins skuli óskert og innviðauppbyggingu vegna starfsemi vallarins. Það ætti að duga. Ef rekstraraðili flugvallarins telur rekstraröryggi skert með uppbyggingu við flugbrautina, þá verður sú uppbygging auðvitað að bíða þar til rekstur vallarins hættir.

 


mbl.is Harður tónn ráðherra ekki í takt við sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldir borgarbúa

Skuldir Reykjavíkurborgar eru komnar yfir 407 milljarða króna. Það segir að hvert mannsbarn í höfuðborginni skuldar um 3,3 milljónir króna, vegna óstjórnar borgarstjórnar. Það gerir um 13,2 milljónir króna á fjögurra manna fjölskyldu.

Það er gott að búa EKKI í Reykjavík.


mbl.is Segir rauðu ljósin loga hjá borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landnám

Ég bý ekki í Reykjavík og því kemur mér væntanlega lítið við hvernig stjórnun borgarinnar er, eða í hverra höndum. En bíðum aðeins. Reykjavík er höfuðborg Íslands, í Reykjavík er öll stjórnsýslan, megnið af heilbrigðisþjónustunni og þaðan er stórum hluta af fjármagni landsins spilað út og svo framvegis. Því þarf ég, nauðugur eða viljugur, að eiga samskipti við Reykjavík. Því hlýtur mér að koma við hvernig stjórn borgarinnar er háttað, í það minnsta hlýt ég mega hafa skoðun á því.

Núverandi stjórnvöld borgarinnar hafa sýnt einhver mestu afglöp í stjórn sem þekkist, ekki í einu máli heldur flestum. Of langt yrði að telja öll þessi afglöp upp, en nefni sem dæmi samgöngur bragga, sorp og strætó. Og svo auðvitað það allra nýjasta, landnám borgarbúa.

Um nokkuð skeið hefur staðið yfir deila milli borgarinnar og nokkurra íbúa í Vesturbænum, um lóðamörk. Á skipulagi eru þó mörkin skýr, en eigendur hafa valið að eigna sér nokkuð umfram það sem þeim ber. Hafa tekið til sín hluta af grænu túni við Vesturbæjarlaugina og girt af. Að öllu venjulegu ætti ekki að vera mikill vandi að leysa þessa deilu, einfaldlega gefa þessum aðilum einhvern frest til að fjarlægja girðinguna, en að þeim fresti liðnum fjarlægja hana á þeirra kostnað. Engin deila er um hvar raunveruleg lóðamörk liggja.

Á fundi skipulagsnefndar þann 2. febrúar síðastliðinn, var lögð fram tillaga um lausn þessarar "deilu", þar sem lagt er til að þeir landnemar sem þarna eru á ferð skuli fá hluta þess lands sem þeir hafa tekið, en skila hinu. Röksemdarfærsla meirihlutans er að þannig stækki túnið við laugina! Þetta eru einhver undarlegustu rök sem fram hafa verið færð, en þó kannski ekki. Það má búast við öllu af hálfu þessa meirihluta.

Þetta hlýtur að gleðja alla borgarbúa og reyndar alla landsmenn. Nú er bara að skreppa í Lífland og sækja sér nokkra girðingarstaura og net, finna einhvern fallegan stað innan borgarinnar, girða hann af og eigna sér. Hver veit nema maður gæti eignast einhvern hluta þess, loks þegar búið væri að þreyta þetta fólk við Tjörnina nógu lengi!

Það verður að segjast eins og er að það er hreint með ólíkindum að stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli ekki hafa mannaval til að steypa af stóli svo gjörsamlega óhæfu fólki sem nú stjórnar borginni. Ekki nóg með það, flokkurinn hefur aldrei mælst svo lítill sem nú, nokkrum vikum fyrir kosningar! Reyndar má segja að þjóðkjörnir fulltrúar eru svo sem ekki að bæta stöðu flokksins, eða hjálpa til við þetta þarfaverk. Yfirlýsing eins þingmanns flokksins um sölu á gulleggi þjóðarinnar, Landsvirkjun, er eitt dæmi þess.

Fer sem horfir er ljóst að núverandi meirihluti muni halda, jafnvel auka fylgi sitt. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að girða sig í brók og tefla fram fólki sem hefur getu og vilja til að snú borginni á betri braut. Það ætti svo sem ekki að vera erfitt verk, næg eru rökin.

Ég er hins vegar farinn að velta fyrir mér hvar best sé að nema land innan borgarmarkanna.


mbl.is Beint: Reykjavíkurþing Varðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatursorðræða

Það er auðvitað graf alvarlegt mál þegar menn ganga um bæi eða borgir, skjótandi út í loftið. Hingað til hefur Víkingasveitin verið kölluð til í slíkum málum og handtekið þann skotglaða, jafnvel þó einungis hafi sést til manns með eitthvað sem líktist byssu. Einhverra hluta vegna tókst þó einhverjum að skjóta á bækistöðvar stjórnmálaflokka og á bíl borgarstjórans án þess að nokkur yrði var við, fyrr en eftir á. Virðist sem að baki liggi eingöngu skemmdarverk, að ekki hafi verið ætlunin að skaða líf eða limi nokkurs manns. Engu að síður er þetta óafsakanlegt verk og ekki hægt að ætla annað en að þarna hafi verið um andlega veika persónu að ræða.

En stjórnmálin eru söm við sig og sumir gripið þetta atvik til að upphefja sjálfa sig og úthúða andstæðingnum. Ásakanir í garð stjórnmálaflokka voru fljót að spretta upp, ekki síst frá þeim er standa næst borgarstjóra. Sjálfur hefur hann verið duglegur að nýta þetta og leikið fórnarlamb af miklum móð, jafnvel þó víst sé að líf hans hafi aldrei verið í hættu. Þá er reynt að kenna svokallaðri "hatursorðræðu" í fjölmiðlum um þessi atvik og haldið fram að stjórnmál í dag séu svo óvægin.

Stjórnmál er í eðli sínu óvægin og þeir sem velja að feta inn á þann völl verða að sætta sig við að fórna stórum hluta persónufrelsi sínu. Oft hafa menn verið orðljótir, steytt hnefa og jafnvel gengið að andstæðingi sínum í þingsal og lamið í öxlina. Hin síðustu ár hefur heldur dregið úr slíku ofbeldi og sýnist sitt hverjum um það. Sumir segja það merki um deyfð, doða og almennan aumingjaskap stjórnmálamanna, að þeir hafi ekki lengur kjark til að standa á sinni skoðun. Víst er að stjórnmál voru skemmtilegri hér áður fyrr, þegar menn skiptust á skoðunum, stundum með kannski full stórum orðum. Í dag er bara sagt það sem "má" segja og varla það.

Svokölluð hatursorðræða er eitthvað sem erfitt er að skilgreina. Ekki er þó hægt að halda fram að hún sé stunduð milli stjórnmálamanna, þó ansi tæpt hafi stundum verið á því innan borgarstjórnar, einkum þegar ákveðnir fulltrúar þar hafa ráðist gegn oddvitum þeirra flokka sem eru í minnihluta. Þó verður sennilega frekar að flokka þær árásir á barnaskap þeirra er fluttu. Heilbrigð gagnrýni getur aldrei flokkast sem hatursorðræða, jafnvel þó stór orð falli og jafnvel þó kannski sé ekki allt nákvæmlega eftir sannleikanum. Hvenær hefur stjórnmálamaður sagt allan sannleikann? Hins vegar eru ummæli sem falla í athugasemdum fréttamiðla oft þess eðlis að hægt er að tala þar um hatursorðræðu. Þar er þá einkum um að ræða truflað fólk sem ekki hefur kjark til að rita undir eigin nafni. Það sem sammerkt er með þeim ummælum er að þau snúast einkum gegn tveim stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki og Miðflokki og þeim sem þar eru í ábyrgðarstöðum. Þetta má uppræta með því einu að hafna öllum skrifum frá þeim sem ekki hafa kjark til að setja nafn sitt við þau.

Umræðan um meinta hatursorðræðu er komin á hættulegt stig. Stjórnmálamenn eru farnir nýta sér þetta hugtak í auknum mæli til að þagga niður í andstæðingum sínum. Farið er að tala um að setja ströng lög gegn meintri hatursorðræðu. Þarna erum við komin út á hættulegt svið og stutt í að tjáningarfrelsið falli og þá um leið lýðræðið. Verst er þó að þeir sem hæst kalla eftir böndum á meinta hatursorðræðu, eru í flestum tilfellum þeir sem kannski nálgast mest þau mörk í sínum málflutningi.

Það er hverjum ljóst að enginn stjórnmálaflokkur á aðild að þessum skotárásum, hvorki beint né óbeint. Vissulega eru sumir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn duglegri en aðrir í aðhaldi gegn valdhöfum og ekki vanþörf á. Það er engum valdhafa hollt að geta unnið án gangrýni, þó flestir sem í slíka stöðu komast kjósa það hellst. Slíkt er fyrsta skref í afnámi lýðræðisins.

Að andlega vanheill maður skuli geta gengið um borgina, skjótandi á dauða hluti í þeim eina tilgangi að eyðileggja, er graf alvarlegt mál. Hvar er lögreglan? Hvar eru samborgararnir? Er það virkilega svo að hægt sé að stunda slíkan verknað án þess að nokkur verði var fyrr en löngu seinna? Eru ekki eftirlitsmyndavélar um alla miðborgina? Hvernig má þetta vera? Enn alvarlegra er þegar stjórnmálamenn vilja láta slíkan atburð snúast um sig og jafnvel vilja kenna andstæðingum í pólitík um. Er það ekki hatursorðræða?

 

 


mbl.is „Ekki fara á límingunum!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera rændur inn í pólitík

Dagur B hefur ætíð verið duglegur að skreyta sig með stolnum fjöðrum og kenna öðrum þegar illa fer. Þarna gengur hann þó skrefi lengra en áður, skrefi sem gerir þennan mann ómerkari en áður.

Í viðhengdri frétt reynir Dagur að réttlæta viðtalið. Segir meiningu sína aðra en fram kemur í viðtalinu og hælir aðgerðum þríeykisins svokallaða. Hvergi kemur þó fram í viðtalinu við Bloomberg að heiðurinn sé annarra en Dags. Í formála þess er útilokað annað að skilja en að Dagur, í krafti sinnar læknismenntunar, sé heilinn og höfuðið að baki þeim árangri sem hér hefur náðst. Dagur hvorki leiðréttir það né minnist þríeykið í sjálfu viðtalinu. Uppveðrast og tekur fegins hendi því hóli sem Bloomberg ber á hann. 

En það var einnig annað skondið sem fram kom í þessu viðtali. Eftir að Dagur var búinn að telja upp alla sína menntun, sagði hann að honum hafi verið rænt inn í pólitík. Hann hefði svo sem auðveldleg getað losað þau höft af sér eftir síðustu kosningar og sloppið frá ræningjunum, enda var honum hafnað af kjósendum. Það var einungis vegna nokkurra smáflokka, mönnuðum af jafn valdasjúku fólki og hann sjálfur, sem Degi tókst að halda völdum. Degi var því ekki rænt, heldur rændi hann borgarbúa lýðræðinu.

Eftir að hafa horft á þetta viðtal Bloombergs við Dag, er ljóst hvaða íslendingur líkist mest Trump. Sjálfshól, lygar og taktleysi við raunveruleikann einkennir þá báða, þó Trump hafi vissulega mun meira vit á fjármálum en Dagur, enda leitun að manni sem hefur tekist að koma heilli höfuðborg í jafn mikla fjárhagslega erfiðleika.

 


mbl.is Þakka læknisfræðimenntun Dags fyrir viðbrögðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband