Landnám

Ég bý ekki í Reykjavík og því kemur mér væntanlega lítið við hvernig stjórnun borgarinnar er, eða í hverra höndum. En bíðum aðeins. Reykjavík er höfuðborg Íslands, í Reykjavík er öll stjórnsýslan, megnið af heilbrigðisþjónustunni og þaðan er stórum hluta af fjármagni landsins spilað út og svo framvegis. Því þarf ég, nauðugur eða viljugur, að eiga samskipti við Reykjavík. Því hlýtur mér að koma við hvernig stjórn borgarinnar er háttað, í það minnsta hlýt ég mega hafa skoðun á því.

Núverandi stjórnvöld borgarinnar hafa sýnt einhver mestu afglöp í stjórn sem þekkist, ekki í einu máli heldur flestum. Of langt yrði að telja öll þessi afglöp upp, en nefni sem dæmi samgöngur bragga, sorp og strætó. Og svo auðvitað það allra nýjasta, landnám borgarbúa.

Um nokkuð skeið hefur staðið yfir deila milli borgarinnar og nokkurra íbúa í Vesturbænum, um lóðamörk. Á skipulagi eru þó mörkin skýr, en eigendur hafa valið að eigna sér nokkuð umfram það sem þeim ber. Hafa tekið til sín hluta af grænu túni við Vesturbæjarlaugina og girt af. Að öllu venjulegu ætti ekki að vera mikill vandi að leysa þessa deilu, einfaldlega gefa þessum aðilum einhvern frest til að fjarlægja girðinguna, en að þeim fresti liðnum fjarlægja hana á þeirra kostnað. Engin deila er um hvar raunveruleg lóðamörk liggja.

Á fundi skipulagsnefndar þann 2. febrúar síðastliðinn, var lögð fram tillaga um lausn þessarar "deilu", þar sem lagt er til að þeir landnemar sem þarna eru á ferð skuli fá hluta þess lands sem þeir hafa tekið, en skila hinu. Röksemdarfærsla meirihlutans er að þannig stækki túnið við laugina! Þetta eru einhver undarlegustu rök sem fram hafa verið færð, en þó kannski ekki. Það má búast við öllu af hálfu þessa meirihluta.

Þetta hlýtur að gleðja alla borgarbúa og reyndar alla landsmenn. Nú er bara að skreppa í Lífland og sækja sér nokkra girðingarstaura og net, finna einhvern fallegan stað innan borgarinnar, girða hann af og eigna sér. Hver veit nema maður gæti eignast einhvern hluta þess, loks þegar búið væri að þreyta þetta fólk við Tjörnina nógu lengi!

Það verður að segjast eins og er að það er hreint með ólíkindum að stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli ekki hafa mannaval til að steypa af stóli svo gjörsamlega óhæfu fólki sem nú stjórnar borginni. Ekki nóg með það, flokkurinn hefur aldrei mælst svo lítill sem nú, nokkrum vikum fyrir kosningar! Reyndar má segja að þjóðkjörnir fulltrúar eru svo sem ekki að bæta stöðu flokksins, eða hjálpa til við þetta þarfaverk. Yfirlýsing eins þingmanns flokksins um sölu á gulleggi þjóðarinnar, Landsvirkjun, er eitt dæmi þess.

Fer sem horfir er ljóst að núverandi meirihluti muni halda, jafnvel auka fylgi sitt. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að girða sig í brók og tefla fram fólki sem hefur getu og vilja til að snú borginni á betri braut. Það ætti svo sem ekki að vera erfitt verk, næg eru rökin.

Ég er hins vegar farinn að velta fyrir mér hvar best sé að nema land innan borgarmarkanna.


mbl.is Beint: Reykjavíkurþing Varðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband