Fjárfestirinn og 725 krónurnar

Það hefur ekki vafist fyrir neinum að verðtryggingin er gullepli fyrir fjárfesta og peningastofnanir. Um þetta hefur aldrei verið deilt. Þeirra er hagurinn og sá hagur kemur sannarlega frá hinum hópnum, þorra þjóðarinnar sem vinnur sér það eitt til saka að gera tilraun til að koma þaki yfir sig og sína fjölskyldu.

Hjálmar Gíslason, sem kallar sig fjárfesti og frumkvöðul, gerir tilraun til að réttlæta verðtrygginguna. Á bloggsíðu sinni tekur hann 725 krónur árið 1981 og skoðar þróun þeirra til dagsins í dag og til samanburðar tekur hann sama verðgildi dollars yfir sama tímabil. Með þessum samanburði sínum tekst Hjálmari að komast að þeirri niðurstöðu að krónan og verðtryggingin séu óaðskiljanlegar síamssystur.

Það er þó margt að athuga við þennan samanburð Hjálmars.

Í fyrsta lagi þá skoðar Hjálmar málið einungis út frá sjónarhól fjárfesta. Tekur ekkert tillit til þeirra sem eru á hinum enda verðtryggingarinnar, þ.e. þeirra sem greiða þá fjármuni sem fjárfestar hagnast um. Slík skoðun er hvorki réttlát né heiðarleg.

Í öðru lagi þá velur Hjálmar að taka tímabil sem að öllu leyti er innan þess tíma sem verðtrygging hefur verið við völd hér á landi. Því er ekki til að heilsa möguleiki á slíkan samanburð án verðtryggingar, svo marktækur sé. Allt þetta tímabil er markað af hagkerfi þar sem peningamálum er stjórnað út frá þeirri staðreynd að stæðstur hluti fjármagns er verðtryggður, hvort heldur er útlán eða innlán. Því getur enginn sagt til um hvernig til hefði tekist ef verðtrygging hefði verið afnumin jafn skjótt og hægt var. Það var jú ætlunin, þegar hún var sett á. Það getur enginn sagt til um hvort krónan hefði blómstrað jafnvel enn betur, ef hér hefði verið fjármálakerfi á sama grunni og allstaðar annarstaðar í heiminum, þ.e. að fjármagnsstofnanir og fjármagnseigendur hefðu þurft að haga sínum málum af kostgæfni og ábyrgð, til að ávaxta sitt fá, í stað þess að hirða gróðann hvernig sem allt umhverfið um þá snýst. Vel má færa fyrir því rök að þá hefði bankakerfið ekki vaxið sér til húðar, haustið 2008!

Í þriðja lagi þá skoðar Hjámar þetta með augum fjárfestis. Sá samanburður er nokkuð athyglisverður. Meðan dollar ávaxtaði sig um 2,5%, sem verður að teljast bara ágætt, þá ávaxtaði verðtryggða krónan sig um 4,1% til fjármagnseigandans, sem sennilega er einhver hæðsta ávöxtun sem þekkist yfir þetta tímabil, í hinum vestræna heimi. Þetta sannar vissulega að verðtryggingin er gullepli fjármagnseigenda. Hitt er svo kannski rétt að skoða, hvernig samsetning landans er. Hversu stór hluti landsmanna lifa af því að geta safnað sem mestum auð inn á bankareikninga. Stæðsti hluti þjóðarinnar býr þó ekki við slíkan lúxus, heldur er bundinn oki verðtryggingar í hinn enda hennar, þ.e. það er stæðsti hluti þjóðarinnar sem heldur uppi litlum hluta hennar, gegnum verðtrygginguna. Án verðtryggingar væri þetta auðvitað þannig einnig, en þá þyrftu fjármagnseigendur að hafa fyrir því að fylgjast með sínu fé, til að missa það ekki fyrir björg.

Í fjórða lagi er einstaklega hagkvæmt að gera slíkan samanburð á krónu og dollar, umreiknuðum í krónur, meðan dollar er í sögulegu hámarki og skömmu eftir að hér dundi á bankahrun með gífurlegri lækkun krónunnar. Það má gera ýmsa samburði, t.d. yfir sama tímabil með evru í stað dollars, eða yfir styttra tímabil, þar sem áhrif bankahrunsins rugla ekki jöfnuna. Hætt er við að niðurstöður þeirra kannana sýndu aðra niðurstöður. Þá er hætt við að yfirburðir vertryggðrar krónu væru slíkir að menn stæðu á öndinni.

Mestu um vert er þó að reikna áhrif verðtryggingar á lántakendur. Þeir eru jú uppistaða þjóðarinnar og hafa þær hendur sem skapa fjármagnið sem fjárfestar síðan leika sér með. Hjálmar vill kannski taka að sér að reikna út margföldun 725 krónanna, ef þeir hefði verið teknar á verðtryggðu láni árið 1981, til dagsins í dag. Hætt er við að lántaki hafi greitt nokkuð meira af því láni en sem svarar 4,1% raunávöxtun. Líklegt að niðurstaða þess samanburðar verði geigvænlegur og sennilega nokkuð ríflega sú raunávöxtun sem bandaríska mafían hefði haft af sömu upphæð í dollurum, yfir sama tímabil.

Verðtryggingin er skaðleg. Einungis þeir sem geta leyft sér þann munað að safna miklum peningum á bók græða á henni. Allir aðrir tapa. Fyrir hagkerfið er þetta sem krabbamein sem útilokað er að lækna, eina vonin felst í afskurði. Fyrir stjórnendur fjármála landsins er nánast útilokað að nýta hefðbundin stjórntæki, s.s. stýrivexti, til að halda jafnvægi. Og fyrir stæðstan hluta þjóðarinnar er þetta sem hengingaról, sem strekkist hægt og örugglega að.

Verðtryggingin er því ekki síamssystir krónunnar, heldur illkynja krabbamein sem er að éta hana upp. Lækningin er þekkt, en engir þorir að taka hnífinn sér í hönd.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Hárrétt greining hjá þér, Gunnar - Fékk þessa grein senda og las þetta sama úr henni. - Algerlega einhliða framsetning.

Már Elíson, 27.11.2015 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband