Afætur þjóðfélagsins

Þá er það á hreinu, afætur þjóðfélagsins eru launþegar og því lægri laun sem þeir hafa því meiri og öflugri afætur!

Víglundur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri SA vældi í fréttum sjónvarps. Hann kvartar yfir mikilli þenslu, lækkun skatta og óhóflegra launahækkana. Hann kemst að þeirri skoðun að vandinn sé annað hvort stjórnvöldum að kenna eða launþegum.

Undir þetta tekur síðan starfsmaður greiningardeildar bankanna. Þar er vandamálinu aftur vísað til stjórnvalda og launþega.

Fjármálaráðherra sver af sér ábyrgð stjórnvalda og eftir stendur að þenslan er af völdum launþega. Þá er það á hreinu!

En bíðum aðeins.

Var það ekki einmitt framkvæmdastjóri SA sem kallaði eftir meiri umsvifum í þjóðfélaginu, fyrir einungis nokkrum mánuðum síðan. Fyrir síðustu kjarasamninga voru það einmitt helstu rök þessa manns fyrir því að ekki mætti hækka laun meira en 2,5 til 3%, að umsvif atvinnulífsins væru ekki næg. Var það ekki svo einmitt sami maður sem kallaði eftir aðkomu stjórnvalda, þegar allt virtist sigla í strand í kjarasamningum. Þar kallaði hann eftir því að stjórnvöld myndu með einhverjum hætti niðurgreiða launakostnað fyrirtækjanna. Nú þegar svo loks stjórnvöld láta til skarar skríða og niðurgreiða launakostnað fyrirtækja með skattalækkunum til launþega, þá allt í einu finnst framkvæmdastjórnaum það vera óráðssía! Menn geta svo sem haft lítið milli eyrnanna, en þetta er kannski full lítið hjá framkvæmdastjórnaum!!

Bankarnir. Greiningardeildir bankanna eru duglegar að "greina" hlutina. Í gegnum tíðina hefur þeim þó brugðist bogalistin á því sviði, sjaldnast sem þær greiningar hafa staðist. Stæðstu greiningar þeirra og þegar enn var á þeim tekið mark, voru um að bankakerfið hér á landi stæði traustum fótum. Þær greiningar voru gefnar út á haustdögum árið 2008, skömmu fyrir hrun kerfisins. Síðan þá hafa fjölmargar greiningar komið frá þessum deildum, mis langt frá raunveruleikanum.

Nú eru þessar deildir duglegar að spá verðbólgu og ástæðan auðvitað launahækkanir á almennum markaði. Þær hækkanir voru nálægt 10% yfir þriggja ára tímabil. Nýgerðir kjarasamningar bankastarfsmanna gefa þeim hins vegar að lágmarki 22%. En það kemur þenslu ekkert við, einungis þau skitnu 5% sem almenningur fékk í vor og hin fimm prósentin sem koma í tveim þrepum, það seinna um áramótin 2017. Og þær hækkanir eiga að leiða til verðbólguhækkana langt umfram launahækkanirnar. Þetta eru fræði sem ég mun aldrei geta skilið, enda er ég ekki bankastarfsmaður.

Verði verðbólguskot er mun líklegra að það verði af öðrum völdum. Hér eru t.d. mjög háir vextir og víst er að það mun fyrst og fremst lenda á fyrirtækjum landsins. Almenningur er að mestu með sín lán verðtryggð og vaxtahækkanir hafa lítil áhrif á þau, ekki fyrr en verðbólgan æðir af stað. Fyrirtækin eru hins vegar flest með ýmis rekstrarlán og yfirdrætti, svo hægt sé að halda fyrirtækjum gangandi þó þau lendi í tímabundnum vanda með innheimtur. Þau lán eru ekki verðtryggð, heldur á fljótandi vöxtum. Því virka vaxtahækkanir beint á fyrirtækin og hvert skyldu þau sækja þá peninga? Auðvitað til sinna viðskiptavina og verðlag hækkar! Vaxtaokrið í landinu, stjórnað af Seðlabankanum og þeirri staðreynd að engin samkeppni er á bankamarkaði, mun vekja upp verðbólgudrauginn. Hann rumskar ekki þó laun almennings hækki um 10% á þrem árum.

En þessir snillingar sjá þetta ekki. Í þeirra huga eru það launþegar sem eru afætur þjóðarinnar og því meiri afætur sem laun þeirra eru lægri. Engu skiptir þó flesta af því fólki sem þeir skilgreina sem afætur þjóðarinnar vinni fyrst og fremst að verðmætasköpuninni, í ferðaþjónustu, við fiskvinnslu og við stóriðjuna. Snillingarnir, sem vinna við það eitt að velta fyrir sér hlutum eða höndla með annarra manna fé, telja sig vera burðarás þjóðfélagsins.

En hver er verðmætasköpun þeirra? Hvaða verðmæti skapast af því að búa til einhverja spár á þriggja mánaða tímabili, spár sem nánast aldrei standast? Hvaða verðmætasköpun er af manni sem telur sitt helsta verk vera að koma í fjölmiðla til að niðurlægja almenning, þann sama almenning og heldur fyrirtækjunum, sem hann talar í umboði fyrir, gangandi og sér til að þar verði til verðmætasköpun? Ætti þessi maður ekki frekar að nýta hvert tækifæri til að hæla því fólki sem byggir grunnin að því að hann hafi VEL launaða vinnu?!

Stjórnvöldum er vorkunn. Það er sama hvað þau gera, það er alltaf gagnrýnt. Þó er sjaldséð að menn gagnrýni það að stjórnvöld standi við sín loforð, eins og framkvæmdastjóri SA gerir og er sennilega einsdæmi. Hitt er algengara að gagnrýnin liggi í því að stjórnvöld geri ekki nóg.

Það eru vissulega merki um aukna þenslu. Dýrir bílar seljast nú sem heitar lummur. Varla eru þó kaupendur þeirra úr hópi hins almenna launamanns. Hótel spretta upp sem gorkúlur og full ástæða til að biðja til Guðs um að hér muni ferðmenn koma áfram. Þar eru þó blikur á lofti. Græðgivæðingin hefur hertekið margann sem vill þjóna þessum gestum okkar. Veitingahús og verslanir sjá þetta fólk sem gullnámu og hækka sínar gjaldskrár sem enginn sé morgundagurinn. Erlendir gestir sem hingað koma þurfa að greiða fyrir hótelherbergin sem um fimm stjörnu hótel sé að ræða, jafnvel þó í boði sé bara svefnpokapláss. Maturinn sem framreiddur er fyrir þessa gesti okkar er á þvílíku verði að halda mætti að hann væri gullhúðaður, svona eins og sumum þótti gott fyrir hrun. Þegar litið er á diskana er þó bara um ósköp venjulegan mat að ræða. Hvenær er komið að þolmörkum? Hvenær hætta ferðamenn að koma í heimsókn til okkar? Víst er að verðlagning spilar þar stórann þátt og víst er að þegar ferðamannabólan springur, þá springur hún með hvelli. Hvað á þá að gera við allar hótelbyggingarnar? Hvernig ætla bankarnir að standast það að veðin verða verðlaus?

Og þenslan sést á fleiri sviðum. Það er ekki bara mikil sala í dýrum bílum og hótelgorkúlur. Leigumarkaðurinn hefur verið duglegur við að ýta við verðbólgudraugnum. Leiguverð er nú með þeim hætti á stórborgarsvæðinu að með ólíkindum er. Þar ræður ekki framboð og eftirspurn, þar ræður okkar ágæta samfélag, sem sættir sig svo auðveldlega við að samkeppninni sé snúið á haus, að verðsamráð sé eitthvað sem er eðlilegt, eða jafnvel náttúrulögmál. Og fleira má telja sem merki um þenslu. Það væri sennilega hægt að slá á lyklaborðið í klukkustundir um það málefni eitt.

Eitt er þó víst, sú þensla kemur þó ekkert við launahækkunum á almennum markaði. Þar eru önnur öflugri öfl að baki. Það sem þó spilar stæðsta hlutverkið í því að vekja upp verðbólgudrauginn er að sjálfsögðu vaxtastefna Seðlabankans og einokunarstaða bankanna á sama sviði. Önnur atriði eru í raun afleiðingar þess. Jafnvel þó vaxtastefnan hafi mest áhrif á fyrirtæki landsins, þá eru þau flest rekin með meiri hagnaði en nokkurn tíman áður og ástæðan er auðvitað sú að þau senda þessar vaxtahækkanir beint út í verðlagið. Sum með örlitlu álagi, svona fyrir fyrirhöfnina!

Stundum fær maður það á tilfinninguna að Seðlabankanum sé stjórnað í þeim tilgangi að grafa undan stjórnvöldum, að þar séu pólitísk viðmið látin ráða för.


mbl.is Ekki heilbrigt ástand á vinnumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gunnar - sem aðrir gestir, þínir !

Þorsteinn: sonur Lunda (Víglundar Þorsteinssonar): er SA stjórinn, svo til haga skyldi halda.

Lundi gamli: verður ekki bendlaður, við mis gáfulegar ályktanir aura púkans sonar síns, Gunnar minn.

Með beztu kveðjum: sem oftar - vestur á Skipaskaga /  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.9.2015 kl. 20:15

2 identicon

Myndatexti:

Heil Friedman!

Stuttbuxi (IP-tala skráð) 12.9.2015 kl. 23:07

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Afætur þjóðfélagsins eru á fullu i gegnum flokkaræðið, nú á að taka lífeyrissjóðina alla! STOPP kæru vinir og þjóð hingað og ekki lengra.

Sigurður Haraldsson, 13.9.2015 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband