Hvað er sáttapólitík ?

Björk Vilhelmsdóttir kemur heiðarlega fram og segir sig úr pólitík, vegna þess að hún telur að sér hafi mistekist. Betur færi ef fleiri stjórnmálamenn tækju hana sér til fyrirmyndar.

Þá stingur Björk á ljótu graftarkýli, sem vissulega má taka til mikillar umræðu og vonandi að fjölmiðlar haldi því máli opnu. Ekki munu pólitíkusar gera það. Í þessu bloggi ætla ég þó ekki inn á þá braut, heldur velta upp spurningu sem vaknað hjá mér vegna þeirra orða Bjarkar að hún aðhyllist "sáttapólitík".

Þetta orð, sáttapólitík, er sennilega eitthvað vinsælast orð stjórnmálamanna í dag, einkum þeirra sem eru í stjórnarandstöðu á þingi. En hvað er sáttapólitík?

Er það sáttapólitík að allir verða að vera sáttir við niðurstöðuna? Að ekkert mál frá Alþingi eða öðrum lýðræðiskjörnum stofnunum, sé afgreitt nema víðtæk sátt ríki um málið? Ef svo er, er víst að lítið kæmi frá slíkum stofnunum, að lagasetningar gengu hægt eða alls ekki. Þá vaknar líka upp spurningin um hvort yfir höfuð þurfi nokkuð að kjósa í þessu landi, hvort ekki væri bara einfaldara og ódýrara að flokkarnir skipi í sæti á Alþingi og skipti síðan með sér stjórn landsins. Þá þyrfti fólk ekki að gera upp við sig hvernig það vill að landinu sé stjórnað og kjósa samkvæmt því, sáttapólitíkin myndi væntanlega ná sátt um það!

Var stunduð sáttapólitík á síðasta kjörtímabili Alþingis? Var það sáttapólitík þegar þingmenn voru nánast barðir með svipu til að svíkja sína kjósendur, eins og sumir þingmenn VG þurftu að sæta?

Var það sáttapólitík þegar ráðherra tók skjal sem samið hafði verið sem frumvarp til laga, eftir langt og strangt ferli meðal fagfólks, þegar þessi ráðherra tók síðan skjalið og breytti því áður en það var lagt fyrir þingið? Af þeirri einföldu ástæðu að ráðherrann var ekki sammála fagfólkinu, það samrýmdist ekki hennar pólitísku hugmynd!

Var það sáttapólitík þegar þáverandi ríkisstjórn ætlaði að koma á þjóðina fjárhagslegum klafa, sem útilokað var að standa við? Allt í þágu þess að hugsanlega mætti mýkja gagnaðilann í samningum við aflát þjóðarinnar á sínu sjálfstæði.

Var það sáttapólitík þegar síðasta ríkisstjórn, í krafti meirihluta, gekk svo hart gegn öldruðum og öryrkjum, að skrifað mun um það í sögubækur framtíðar?

Svona mætti lengi telja um síðustu ríkisstjórn, sátt þekktist ekki á þeim bæ, þvert á móti logaði þjóðin í illdeilum. Það var ekki fyrr en svo hafði gengið úr skafti ríkisstjórnarinnar að hún var komin með minnihluta á þingi, sem farið var að ræða við flokka stjórnarandstöðunnar. Það var þó engin sáttapólitík þar á ferð, einungis hrossakaup svo ríkisstjórnin héldi velli!

Er framferði Reykjavíkurborgar í flugvallamálinu merki um sáttapólitík? Þegar 70.000 manns skrifa undir áskorun þess efnis að flugvöllurinn skuli vera, er þeim undirskriftum samstundis kastað í næstu ruslafötu. Síðan er haldið áfram af enn meiri krafti við að koma honum burt. Er þetta merki um sáttapólitík?

Ber stefna borgaryfirvalda í samgöngumálum merki sáttapólitíkur? Þar er öllu fé sóað í reiðhjólastíga, sem einungis eru nýttir að litlu leyti. Götur eru málaðar og þrengdar meðan viðhald gatna og endurbætur þeirra eru látnar lönd og leið. Er þetta merki um sáttapólitík? Er það sáttapólitík að etja saman íbúum borgarinnar, eftir því hvernig þeir vilja ferðast um borgina?

Það er eins með núverandi borgarstjórn og fyrrverandi ríkisstjórn, sátt finnst ekki þar á bæ.

Það vefst því fyrir manni hvað orðið sáttapólitík þýðir. Reyndar virðist vera sem túlkun vinstri flokkanna sé nokkuð skýr: Meðan VIÐ stjórnum þá ráðum VIÐ, meðan aðrir stjórna þá viljum VIÐ líka ráða.

Fyrir almenning er þetta hins vegar einungis hljómfagurt og merkingarlaust orð. Orðið hrossakaup eru hins vegar öllum skiljanleg.

Er mikill munur milli þessara tveggja orða?

 


mbl.is Björk hættir í stjórnmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Nákvæmlega Gunnar. Eins og í mínum huga!

Eyjólfur G Svavarsson, 11.9.2015 kl. 11:58

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Jebb! Viðráða pólitík!

Helga Kristjánsdóttir, 11.9.2015 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband