Schengen ER hrunið

Það liggur ljóst fyrir að Schengen sáttmálinn ER hruninn. Þessi sáttmáli, sem flest ESB og EFTA ríki eru aðilar að, er ekki einungis um frjálsa för milli þeirra landa sem að honum standa, hann er einnig um að ytri landmæri Schengen skuli varin.

Í suður og suðaustur hluta Evrópu hefur ekki tekist að tryggja landamæri Schengen. Þar flæðir fólk inn á svæðið og því sáttmálinn fallinn.

Ísland er einn af útvörðum Schengen til vesturs. Hér er ekki til staðar sá vandi að fólk komi ólöglega inn á Schengensvæðið, hér er vandinn að fólk vill komast út af því, vestur um haf. Okkar vandi er því ekki að verja landamæri Schengen fyrir þeim sem vilja komast inn á það svæði, heldur er okkar vandi að verja að fólk komist út af því.

Og þessi vandi okkar er stór. Ekki kannski í fjölda þeirra sem vilja flýja af svæðinu, þó fastlega megi gera ráð fyrir að hann aukist verulega samhliða þeirri bylgju flóttafólks sem flæðir yfir Evrópu. Vandi okkar er alvarleiki þess ef einhverjum tækist að flýja Schengensvæðið vestur um haf, gegnum okkar land.

Sá vandi er kannski stærri en margan grunar. Samkvæmt alþjóða samningum um siglinga og flugvernd, eru ákvæði um mjög strangar aðgerðir, sleppi fólk á milli landa. Að þessum samning standa flest öll ríki heims, en eitt þeirra, Bandaríkin, hafa gefið út að það muni hugsanlega nýta sér ströngustu túlkun laganna.

Þessar túlkun felst m.a. í því að viðkomandi skip og skipafélag, sem kemur með laumufarþega, er sektað um háar upphæðir, hægt er að meina öllum skipum frá viðkomandi skipafélagi að koma til viðkomandi lands og eftir allra ströngustu túlkun má einnig banna öllum skipum sem koma frá höfnum sem viðkomandi skip kom til í 10 síðustu skipti. Þetta gæti því hæglega lokað landinu okkar um óákveðinn tíma. Það er því ekki undarlegt þegar farmskip frá Íslandi á leið til Bandaríkjanna velur að snúa við til Íslands, þó það eigi tiltölulega skammt eftir för, finnist um borð laumufarþegi. Kostnaður skipafélagsins við slíkan snúning er gífurlegur, auk þess sem áætlanir riðlast, en áætlanir eru ær og kýr fyrir hvern þann sem stendur í fragtflutningum. Samt velja skipafélög þá leið frekar en hina, að taka áhætti með því að koma með laumufarþega til Bandaríkjanna. Afleiðingar þess gætu orðið mun verri og dýrari, ekki bara fyrir skipafélagið, heldur þjóðina í heild.

Ekki hefur farið mikið fyrir þessum vanda í fréttum, en hann er töluverður nú þegar. Og þessi vandi á eftir að margfaldast. Það er klárt mál að töluverður hluti þeirra flóttamanna sem nú koma inn í Evrópu ætlar sér ekki að setjast þar að. Það fólk hugsar vestur um haf. Eftir að fólkið er komið inn fyrir landamæri Schengen er auðvelt fyrir það að ferðast innan svæðisins og þar sem Ísland er einn af útvörðum þess til vesturs, er víst að margir munu koma hingað til að freista þess að komast vestur um haf.

Það þarf ekki annað en að skoða hvernig flestir þeirra sem óskað hafa eftir landvistarleyfi hér á landi, hafa komist hingað. Hægt er að telja á fingrum sér það fólk sem hingað hefur komið beint í þeim tilgangi að óska eftir landvist. Flestir þeirra sem slíkt hafa gert til þessa, eru fólk sem stöðvað hefur verið við landamæraeftirlit á Keflavíkurflugvelli, á leið vestur. Þegar það sér að ekki verður lengra komist, í bili, er óskað eftir landvistarleyfi. Síðan er farið að vinna að því að halda för áfram, eftir óhefðbundnari leiðum.

Það liggur fyrir að Schengen sáttmálinn er hruninn. Það liggur fyrir að aðildarríki hans geta ekki haldið hreinum landamærum á suður og suðaustur svæði hans og þar flæðir fólk óheft inn. Því mun þrýstingur út af svæðinu, til vesturs aukast. Vandi okkar Íslendinga er hins vegar sá að ef leki kemur upp út af Schengensvæðinu til vesturs, munum við einir bera skaðann af því. Skaða sem er svo stór að útilokað er fyrir okkur að takast á við hann. 


mbl.is Grípa þarf strax til aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gunnar, það er spurning hvað gerist þegar einn brauðfóturinn molnar undan risanum?

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 10.9.2015 kl. 12:14

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þegar einn brauðfótur molnar, þá molna hinir brauðfæturnir einnig.

Gunnar Heiðarsson, 11.9.2015 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband