Verðbólga og stýrivextir hækka

Það er sorglegt að hlusta á menntaða menn tala viljandi gegn eigin þekkingu. Þetta gerir aðalhagfræðingur Seðlabankans á opinberum vettvangi. Hvað veldur? Telur þessi maður að honum beri skylda til að taka afstöðu með ákveðnum hópum í landinu? Er ekki hans hlutverk að segja rétt og satt frá, út frá staðreyndum? Eða er starf aðalhagfræðings Seðlabankans fólgið í spádómum, út frá hæpnum forsendum.

Aðalhagfræðingurinn segir að ef laun hækki um 30% á þrem árum, muni verðbólga hækka um 7%. Hann tekur sérstaklega fram að hækkun verðbólgu yrði þó ekki hærri vegna þess að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti.

Staðreyndin er að launakostnaður fyrirtækja er ekki nema rúmlega 25% að meðaltali. Auðvitað nokkuð misjafnt milli fyrirtækja, eftir eðli þeirra, en meðaltalið liggur einhverstaðar nálægt þessu. Sum stór fyrirtæki eru með launakostnað vel undir 10% af rekstrarkostnaði. Það segir að hækki laun um 30% á þrem árum ætti verðbólguhvatinn vegna þeirra hækkana að vera rúmlega 7%, þ.e. ef fyrirtæki velja að velta öllum kostnaði við launahækkunina út í verðlagið og Seðlabankinn gerir ekki neitt.

Nú er ljóst að flest fyrirtæki eru að sýna ágætis hagnað og sum mjög góðan. Því ættu þau hæglega að geta tekið hluta af launahækkuninni á sig og mörg alla. Því ætti að vera auðvelt að halda verðbólgunni enn neðar. Þá er einnig ljóst að Seðlabankinn hefur haldið uppi háum vöxtum um langan tíma, mun hærri en efni standa til. Því ætti hann að vera búinn, nú þegar, að skapa mótvægisaðgerð gegn hækkun launa. Vandi bankans er hins vegar sá að meðan stæðsti hluti lána heimila er verðtryggður, duga vaxtahækkanir skammt til að halda niðri neyslu almennings. Hins vegar virka vaxtahækkanir bankans mjög vel á fyrirtækin í landinu og eru því beinn hvati til verðbólguaukningar.

Það sem þó slær mann mest í viðtalinu er sú setning aðalhagfræðingsins að hann talar þarna um hluta vinnumarkaðarins, svona eins og verðbólgudraugurinn fari í manngreiningarálit. Tíu þúsund launamenn Starfsgreinasambandsins munu því valda meiri verðbólgu en jafn fjölmennur hópur launamanna í efri þrepum launastigans. Þó eru heildarkrónurnar sem launþegar SGS munu fá mun færri en þær krónur sem sumar aðrar stéttir hafa nú þegar fengið. 

Það er erfitt að skilja svona hagfræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband