Eðli verkfalla og fákunnátta margra

Ekki veit ég hverjar kröfur BHM eru og vel getur verið að hægt sé að finna einhverja takmarkaða hópa innan þeirra samtaka þar sem hægt er að reikna kröfur til 100% hækkunar. Þó efast ég stórlega um að svo sé, þar til staðreyndir liggja á borðum.


Hins vegar veit ég hverjar kröfur SGS eru. Þar er verið að tala um aðra hluti og mun vægari. Jafnvel eru kröfur SGS svo lágar að þó að þeim verði gengið að fullu munu endar ekki ná saman hjá fólki og vantar reyndar töluvert á. Út frá þeim kröfum og þörf margra innan SGS til leiðréttinga horfi ég á málið. Ef Bjarni er í þessari frétt að gagnrýna verkföll BHM, þá átti hann að sjálfsögðu að segja svo. Með því að tilgreina það ekki, verður ekki annað skilið en hann sé að gagnrýna launþega SGS líka. Hitt er svo umhugsunarefni hvers vegna hann kýs að kasta bensíni á eld kjaradeilna, með svona málflutningi. Nær væri fyrir hann að vinna að lausn málsins.


En kröfur eru kröfur. Aldrei hefur kjarasamningi lokið á þann veg að launþegar fái allar sínar kröfur uppfylltar. Hins vegar nást kjarasamningar einungis ef fólk talar saman, að samningsaðilar komi með tilboð og gagntilboð. Þannig ganga allir samningar fyrir sig.


Það sem kemur á óvert er hversu fávita margir menn eru um eðli verkfalla. Kannski ætti það ekki að koma á óvart, þar sem þeir sem sitja í fílabeinsturni þekkja lítið til utan hans. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem verkföll skella á þjóðinni og því ættu menn að læra af reynslunni, jafnvel þó þeir sjálfir hafi aldrei komist í þá stöðu að þurfa að velta fyrir sér aurum og velja hverju helst er hægt að sleppa svo fæða megi fjölskylduna út mánuðinn.


Styrmir Gunnarsson, sá frábæri penni, ritar um verkföll á sínu bloggsvæði. Greinilegt er að þar fer þessi góði penni langt út fyrir sína þekkingu. Bæði er hann með staðreyndarvillu um þann fjölda félaga SGS sem eru að fara í verkfall sem og hann telur að verkföll SGS muni hafa mun alvarlegri áhrif en verkföll BHM.


Auðvitað meta menn alvarleika misjafnt og víst má telja að verkföll SGS muni geta haft töluverðan fjárhagslega skaða, fyrir sum fyrirtæki. Þeir sem virða peninga meir en mannslíf geta því vissulega tekið undir með Styrmi.

Annar góður og gegn maður, Pétur Blöndal, alþingismaður, opinbera þó enn frekar sína fávisku um verkföll. Sjaldan fer Pétur þá leið að tala undir rós, hefur verið hans aðalsmerki að segja hlutina eins og honum dettur í hug, tala mannamál. Fyrir þetta er Pétur einn fárra þingmanna sem hægt er að bera virðingu fyrir og staðfesta hans er oft á tíðum aðdáunarverð.

En nú bregður öðru við. Hann segir að gera eigi verkafólk ábyrgt fyrir tjóni sem þriðji aðili verður fyrir, vegna verkfalla. Hvar og hvenær hefur orðið verkfall sem ekki bitnar á þriðja aðila? Verkföll eru skaðleg, um það þarf ekki að deila. Að gera launafólk ábyrgt fyrir skaða þriðja aðila í verkföllum er ígildi þess að leggja af verkfallsréttinn.

Hvers vegna segir Pétur ekki bara eins og hann hugsar, að leggja beri af verkfallsrétt? Um það má alveg ræða, þ.e. ef hæfileg þóknun kemur til og trygging fyrir áframhaldandi kjarabótum. Sú trygging gæti verið tengd vísitölum, t.d. hagnaði fyrirtækja eða einhverjum öðrum sem menn kæmu sér saman um.

Hin tillaga Péturs, um að stæðsti hluti kjarabót komi fram sem skyldusparnaður, er enn frekara merki fákunnáttu hans um kjör almennings. Auðvitað er af hinu góða að spara og ekki kannski mikið mál fyrir þingmann með laun yfir 700 þúsund krónum á mánuði að taka við kauphækkun í formi skyldusparnaðar. En fyrir launamann, sem er á launum langt undir sannarlegum framfærslukostnaði, er slík launahækkun lítils virði. Hann kaupir ekki mat fyrir peninga sem fastir eru í banka. 


Staðreyndirnar eru borðleggjandi. Sá hópur sem síst skildi tók á sig þá byrgði að reyna að stemma stigu við verðbólgudraugnum, á jólaföstunni 2013. Þetta var sá hópur sem var á svo lágum launum að útilokað er að lifa af þeim. Samt var það einmitt það fólk sem setti tóninn. Því miður var enginn annar hópur í þjóðfélaginu tilbúinn að fylgja á eftir, allra síst þeir menn sem láglaunafólkið gerði þann samning við. Þeir fóru strax að semja um hærri laun til annarra hópa og síðan hefur launaskriðið verið töluvert, hjá öllum nema launþegum SGS.


Því er mælirinn fullur, eins og kosningin um verkföll sýndi svo glöggt. Rétt nærri 50% félagsmanna kaus og af þeim var langt yfir 90% sem kusu verkföll. Skýrari skilaboð er ekki hægt að setja. Þarna kemur tvennt til, fólk vill fá einhverja umbun fyrir betra gengi fyrirtækja, en þó einkum svik mótherjanna, strax að lokinni undirskrift síðustu kjarasamninga.


Styrmir, Pétur og allir þeir sem að fávisku rita um verkföll ættu að átta sig á að aldrei kemur til verkfalla að ástæðulausu. Tilefnið verður að vera ærið, svo fólk sé tilbúið að fórna launum um lengri eða skemmri tíma. Að vísu er auðveldara fyrir fólk sem hvort eð er nær ekki saman endum við mánaðarmót að fara í verkfall. Það hefur kunnáttu til að lifa við skort.


Verkföll eru því ekki á ábyrgð launþegans, heldur atvinnurekandans. Það er atvinnurekandinn sem greiðir launin og því í hans valdi að sjá til þess að kjarasamningi verði lokið.  Ef fyrirtæki hefur ekki bolmagn til að greiða laun sem hægt er að lifa af, er vandséð að það eigi tilverurétt. Slík fyrirtæki á að leggja af og færa verkefnin sem þau sinna til þeirra sem betur eru fallnir til fyrirtækjarksturs. Verkefnin fara ekki þó fyrirtækin leggist af og einhverjir verða að vinna þau. 

Þeir sem ekki átta sig á þessari einföldu staðreynd, búa greinilega í röngu landi. Þeir ættu að búa í landi þar sem einræði ríkir.


Í þeirri kjarasamningalotu sem nú stendur yfir hafa atvinnurekendur ekki sýnt neinn samningsvilja. Kjararadeilan fór nánast strax til ríkissáttasemjara og eftir árangurslausar tilraunir þar var loks ákveðið að boða til verkfalls. Fyrirséð var að ekki mynda verða samið af hálfu atvinnurekenda. Kannski Pétur og Styrmir hafi einhverja lausn aðra sem launþegar hefðu getað gripið til, svo samningum yrði náð.

Þeir ættu þá að opinbera þá visku fyrir landsmönnum.

 

 


mbl.is Kröfur um 100% hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Hárrétt hjá þér, góð grein. - Las þessa frásögn Péturs Blöndal. Hann er á köflum eins og vanviti en í raun skín út úr öllu hjá honum að hann er af öðru sauðahúsi (Sj.Fl.) og gengur þess vegna ekki í takt við fólk sem er að berjast í bökkum við að borga verðbótarþáttinn fyrir sparnaðinn hans. - Pétur Blöndal hefur áður tjáð sig og opinberað heimsku sína fyrir umheiminum þegar hann talaði um að "fólk ætti að eiga 4-6 mán mánaðarlaun inni á sparireikningi til að mæta óvæntum útgjöldum.." og " sleppa því að panta pizzur.." og meira bla bla en dró svo í land síðar (tvísaga) þegar hann reiknaði út að svokallaður "sparnaður" væri ekki mögulegur og borgaði sig ekki vegna lágra innvaxta og vaxta á vexti sparnaðar sem var hækkaður úr 10% í 20%. - Sumir eiga bara að þegja, því þá opinbera þeir ekki fávisku sína eða þá innrætið.

Már Elíson, 26.4.2015 kl. 16:32

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég man að fyrir mörgum árum tiltók hann ákveðna upphæð sem einstaklingur ætti vel að komast af með,það var fyrir tilkomu samskiptamiðla,svo það var bísnast og hneykslast manna á meðal í matar og kaffitímum. Í dag verða menn að gæta sín,sem eru við stjórnvölinn,eða þannig.

Helga Kristjánsdóttir, 29.4.2015 kl. 04:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband