Hvenær er stríð orðið stríð ?

Það er hart barist í Úkraínu. Talað er um að ekki hafi verið beitt jafn miklu af þungavopnum og skriðdrekum, af hálfu beggja aðila, í styrjöld í Evrópu síðan orrustan um Berlín var háð, undir lok síðari heimstyrjaldar. Sumir kalla þetta ágreining, aðrir uppþot. Eina nafnið sem hægt er að gefa þessum átökum er STRÍÐ og það af hörðustu og verstu gerð!

Þegar stríð eru háð gleymist gjarna að skoða upphafið, hvað það var sem hleypti því af stað. Í þessu stríði liggur ljóst fyrir hver er upphafsaðilinn, þó menn vilja gjarnan gleyma þeirri staðreynd.

Úkraína var hluti gamla Sovét og við fall þess var þetta stóra land næst Rússlandi og bandamaður þess. Á Krímskaga voru Rússar með flotastöð sína og allt lék í lyndi. Samstarf Rússa og Úkraínu var með ágætum, þó vissulega mikil spilling væri í stjórnkerfi Úkraínu. Reglulega komu þó upp deilur milli þessara ríkja um gaskaup, það keypti Úkraína frá Rússlandi, en illa gekk hjá þeim að borga fyrir eldsneytið. Þessar deilur gátu stundum orðið harðar, einkum í vestrænum fjölmiðlum. Alltaf leystust þær, enda mikilvægi Rússa fyrir aðgengi að landinu meiri en svo að slíkar deilur væru látnar rugga bátnum.

Á hinn bóginn var ESB. Fyrst eftir hrun Sovét lét þó ESB þetta land afskipt með öllu, enda Tékkóslóvakía, Pólland, Rúmenía og Ungverjaland á milli landa ESB og Úkraínu. En það tók ekki langan tíma fyrir ESB að komast að landamærum Úkraínu.

Þegar svo var komið varð freisting stór- Evrópusinna skynseminni sterkari. Hinar reglulegu gasdeilur milli Rússa og Úkraínu, deilur sem fyrst og fremst áttu sér stað í vestrænum fjölmiðlum, voru nýttar til að koma sér í mjúkinn í Kiev, eða Kænugarði eins og margir vilja kalla þá borg. Þá var vel hlúð að spillingunni í stjórnkerfi Úkraínu, í von um að þar leyndist hjálp. Að lokum fór svo að boðinn var viðskiptasamningur gegn frekari tengslum. Enginn efast um tilganginn, færa átti mörk ESB að landamærum Rússlands.

Þetta var meira en Rússar gátu sætt sig við og til að tryggja sig hernámu þeir Krímskaga. Að vísu var það kallað uppreisn borgaranna, en þessi deila hefur aldrei snúist um vilja borgara Úkraínu. Frá upphafi hefur hún verið á milli Rússlands og stór-Evrópusinna ESB, þeirra sem þar ráða og vilja gera sambandið að heimsveldi.

Það fer því ekkert á milli mála að afskipti ESB af málefnum Úkraínu eru orsök þess sem komið er og því miður er ekki að sjá að þeim linni.

Leifturstríð var hugleikið Hitler og beitti hann þeirri aðferð í yfirgangi sínum yfir Evrópu, við upphaf seinni heimstyrjaldar. Til að þessi aðferð virki þurfa að hernaðarlegar aðstæður að vera með þeim hætti að árásaraðilinn hafi töluverða yfirburði. Það liggur fyrir að hernaðarmáttur Rússa hefur verið efldur mjög, hin síðustu ár og ljóst að ef Pútin, eða kannski þegar, ákveður að beita þeirri aðferð í vesturátt, er fyrirstaðan næsta lítil. Hversu langt hann kemst áður en Bandaríkjamenn ná að stoppa þá för, er erfitt að segja til um, en skelfing stríðsins mun vissulega færst mun nærri okkur en nú er. Hernaðarmáttur ESB landa hefur verið heftur um langt skeið og varla hægt að tala um virkan her innan flestra þeirra. Bandaríkjamenn hafa fækkað sínum stöðvum í Evrópu verulega. Á meðan hefur verið markviss uppbygging Rússa á sínum her. Því er ljóst að afl þeirra er margfalt meira en ríkja ESB. Kannski ráðamenn ESB séu loks að átta sig á þessari staðreynd og óttinn sé að ná á þeim tökum.

Úkraína er vígvöllur, vígvöllur stórveldissinna. Í þessu stríði munu Rússar ekki gefa eftir. Úkraína er fallin og einungis spurning hvort ESB nær að láta það stöðvast við vesturlandamæri Úkraínu. Til að svo megi verða þurfa ráðamenn innan ESB að viðurkenna sín mistök. Þó fjárhagsleg styrjöld dugi ESB ágætlega til að kúga eigin ríki dugir það skammt gegn hermætti Rússa. Þar þarf ESB að leyta ásjár Bandaríkjanna.

Íbúar Úkraínu eru einungis peð á taflborði stórveldissinna!

 

 

 


mbl.is Áttu „uppbyggilegan“ fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband