Lúaleg framkoma að ætla að kenna stúlkunni um !!

Það fer um mann hrollur að lesa um þennan atburð. Viðbrögð þeirra sem að málinu koma eru þó enn verri. Enginn vill taka á sig ábyrgð, heldur benda allir á einhvern annan, jafnvel farin sú lúalega leið að kenna stúlkunni um hvernig fór.

Það er sama hvernig á málið er litið, ökumaður bílsins hlýtur að bera mesta sök. Í fyrsta lagi á hann að vera meðvitaður um hversu marga farþega hann er með í bílnum hverju sinni og hvort þeir hafi skilað sér á þann stað sem til er ætlast. Þetta á við um alla bílstjóra sem flytja fólk, en kannski aldrei eins mikilvægt en hjá þeim sem taka að sér að aka fötluðum einstaklingum.

Þá á bílstjóri alltaf að ganga úr skugga um að bílinn sé tómur, áður en hann er yfirgefinn og læstur. Þetta er eitt af grunnatriðum sem kennd eru atvinnubílstjórum sem fá réttindi til að aka með fólk. Því liggur auðvitað stæðsta sökin í þessu máli hjá bílstjóranum.

Þá má segja að starfsmenn Hins hússins beri einhverja ábyrgð. Þeir áttu að vita að þessi stúlka átti að dvelja hjá þeim á milli kl.13 og 16. Þegar hún skilaði sér ekki átti starfsfólk Hins hússins auðvitað að kanna hvers vegna.

Sjálfsagt má síðan tengja þetta þeim vanda sem búið er að setja ferðaþjónustu fatlaðra í, á höfuðborgarsvæðinu. Sú breyting sem varð á þessari þjónustu um síðustu áramót, er langt frá því ásættanleg. Á því bera stjórnendur þessara sveitarfélaga alla ábyrgð. Þá ábyrgð verða þessar sveitastjórnir að bera og vonandi að þetta atvik verði til þess að þeir vakni til lífsins. 

Bs. Strætó er með þessa flutninga á sinni könnu. En það fyrirtæki er bara milliliður, þar sem aksturinn er að mestu eða öllu leiti í höndum undirverktaka. Hvers vegna verið er að bæta þessum millilið í ferðaþjónustuna, er óskiljanlegt. Í það minnsta leiðir slíkt ekki til meiri skilvirkni, þvert á móti.

Það kerfi sem tók gildi um áramót, varðandi ferðaþjónustu fatlaðra er gjörsamlega glatað. Afsakanir um að í svo og svo mörgum prósentum sé kerfið að virka eru óásættanlegar. Svona kerfi, sem sér um flutninga á fötluðu fólki á að virka 100%. Ekkert annað á að vera í boði! Eftir þennan atburð hljóta sveitastjórnir á höfuðborgarsvæðinu að bakka með þetta, fara yfir í gamla kerfið aftur þar til ljóst er að hægt er að sinna þessu með þeim hætti að sómi sé að. Við skulum ekki gleyma því að þegar fyrsta gagnrýni kom á þetta kerfi var talað um að það tæki eina til tvær vikur að "slípa það til". Síðan eru liðnar 5 vikur og árangurinn er langt frá því að vera kominn í lag. Með sama hraða tekur það um ár að "slípa kerfið". Ef á annað borð það er hægt.

Það er skelfilegt til þess að vita að svona atburður skuli geta átt sér stað á Íslandi, árið 2015. Skelfilegast er þó að ætla að reyna að koma sökinni á þolandann, vitandi að hún getur ekki varið sig sjálf. Slík framkoma er lúaleg og til háborinnar skammar!!

 


mbl.is Stúlkan sem sat ein í bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Hrikalegt. Sammála þér.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 5.2.2015 kl. 11:47

2 identicon

Það ætti auðvitað að reka bílstjórann umsvifalaust og síðan ákæra hann fyrir vanrækslu í starfi. Sigtrygg Magnússon ætti einnig að reka fyrir að hafa treyst á svona svikulan dugleysingja.

Að kenna stúlkunni sjálfri um er það lítilmannlegasta sem getur hugsazt. Það er ekkert betra en skipstjóri sem siglir ferju í strand, stekkur fyrstur frá borði og kennir síðan drukknuðum farþegum og skipverjum um strandið.

Pétur D. (IP-tala skráð) 5.2.2015 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband