Sérlausnir ?

Engu er líkara en að þeir Birgir Ármannson og Össur Skarphéðinsson hafi setið sitt hvorn fundinn. Meðan Birgir segir að undanþágur séu hreinir draumórar, segir Össur að öllum vafa um sérlausnir hafi verið eytt. Af ummælum Össurar má ætla að hann hafi efast, en nú hafi þeim efa verið eytt. 

En hvaða sérlausnir er Össur að tala um? Hvað sér hann að Ísland geti fengið? Enn hefur hann ekki nefnt neitt í þá átt og því síður komið með haldbær rök fyrir þannig lausn. Eina sem frá honum kemur er að hann telji slíkar lausnir vera í boði, um eitthvað.

Össur hefur bent á að Finnland hafi fengið sérlausn í landbúnaði og Malta í sjávarútvegi. Aðrar þjóðir hafa einnig fengið ýmsar undanþágur frá aðildarsamningi, en þær komu allar löngu fyrir tíma Evrópusambandsins, komu á þeim tíma er þetta samstarf kallaðist Evrópubandalag.  Og það sem kannski mestu skiptir, er að allar þær undanþágur hafa fallið úr gildi utan ein, yfirráð Dana yfir sumarhúsum sínum. Bretar, Írar og Danmörk fengu undanþágu að hluta frá fiskveiðistjórnuninni, þegar þessar þjóðir sameinuðust EB. Þær undanþágur eru ekki lengur gildar. Spánn fékk örlítil yfirráð yfir sínum skipaflota, fyrstu ár sín innan EB. Þau yfirráð eru fokin. Þegar Norðmenn gerðu samninga við EB, var þeim boðin takmörkuð yfirráð yfir hluta sinnar landhelgi, í heil tvö ár. Þeir felldu þann samning. En þetta allt kom þegar ESB hét EB.

Mikill eðlismunur varð á þessu samstarfi 1. nóvenber 1993, þegar Evrópubandalagið breyttist í Evrópusamband. Eftir það hafa 14 ríki gengið til liðs við þetta samstarf og einungis tvö þeirra fengið sérlausn við inngöngu, Finnland varðandi landbúnað og Malta varðandi fiskveiðar.

Sérlausn Finna er frekar fátækleg. Landið fékk heimild til að greiða úr eigin sjóðum meira til landbúnaðar en ESB styrkir hljóðuðu upp á. Þetta var þó með ströngum skilyrðum. Þessi skilyrði eru mótuð hverju sinni innan ESB og undir eftirliti þess. Það sem kannski er verst við þau skilyrði sem akkúrat eru í gildi þessa stundina, er að vöxtur getur ekki orðið innan þeirra svæða sem styrktir eru með ríkissjóð Finnland. Fari vöxturinn yfir ákveðin mörk fellur heimild Finna niður á viðkomandi svæði. Þessi lausn Finna er ekki undanþága heldur sérlausn, a la Össur. Það er svo undir ákvörðun ESB hvort eða hvenær þessi sérlausn fellur úr gildi.

Sérlausn Möltu er jafnvel enn hlægilegri.  Eyjan fékk yfirráð yfir 13 mílum umfram þær 12 sem öll ríki ESB hafa, eða 25 sjómílna landhelgi. Og enn koma stöng skilyrði til. Hámarksstærð báta er ákveðin af ESB, auk þess sem ákvörðun um hámarks afla er tekin í Brussel. Annars er best að láta Stefán sjálfan segja frá þessari hlægilegu sérlausn Möltu. Hér er kafli úr skýrslunni hans, þar sem hann fer vel yfir þetta mál:

Í 9. mgr. 6. gr. aðildarsamnings Möltu o.fl. sést vel að vald til að stjórna fiskveiðum ríkis er framselt til Evrópusambandsins við inngöngu í sambandið. Aðalatriðið hér er að Malta sett fram kröfu um að stjórna veiðunum innan 25 sjómílna vegna sérstakra aðstæðna. Til að koma til móts við sjónarmið Möltu var gert ráð fyrir að reglugerð 1626/94 (um ákveðnar tæknilegar ráðstafanir til verndar fiskiauðlindum í Miðjarðarhafinu)307 yrði breytt og hún sniðin að þeim sérstöku aðstæðum sem þarna ríkja í tiltekinn aðlögunartíma. Tekið er sérstaklega fram í skjalinu að þeim ráðstöfunum verði einungis beitt á fyrrgreindu 25 sjómílna belti og að þar megi ekki beita mismunun. Loks er skýrt tekið fram að þær verndarráðstafanir sem ákvörðun verður tekin um komi ekki í veg fyrir framþróun afleiddrar löggjafar sambandsins á þessu sviði.308 Þessar breytingar voru gerðar með reglugerð nr. 813/2004 og er reglurnar nú að finna í reglugerð nr. 1967/2006. Auk framangreinds fékk Malta nokkrar aðrar undanþágur sem þó skipta litlu máli fyrir það efni sem hér er rætt. Þessar undanþágur voru þó ýmist tímabundnar eða framkvæmdar með breyttum gerðum sambandsins.309 Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er ljóst að Malta fékk ekki neinar varanlegar undanþágur frá fiskveiðistefnu sambandsins. Eins og málin standa nú er einvörðungu um að ræða sérstakar verndarráðstafanir innan 25 sjómílna marka þar til annað verður ákveðið.310 Athuga verður að þær tilhliðranir sem Malta fékk er að finna í afleiddum gerðum Evrópusambandsins. Þeim gerðum getur Evrópusambandið svo breytt með þeirri málsmeðferð sem um það gildir innan sambandsins.

Það kemur fram í þessari úttekt er að í raun er ekki um að ræða vald Möltu yfir þessu svæði, þar sem öðrum þjóðum sambandsins er heimilt að veiða innan 25 mílnanna ("þar megi ekki beita mismunun"). En vegna stærðartakmarkanna báta er útilokað fyrir aðrar þjóðir að sækja sjó þangað.

Það liggur því ljóst fyrir, eins og Össur hefur sjálfur sagt, að engar undanþágur eru í boði, hvorki tímabundnar né til langframa. Við eðlisbreytingu EB í ESB féll allt slíkt niður.

Sérlausnir hafa verið veittar eftir það og þær sérlaunsir bæði undir ströngum skilyrðum auk þess að vera háðar ESB. Þó má benda á þá staðreynd að frá því þessar takmörkuðu og nánast hlægilegu sérlausnir voru veittar hafa verið tekið upp strangari skilyrði fyrir inngöngu. Og við gildistöku Lissabon sáttmálans, 1. des. 2009, voru þessi skilyrði enn hert. 

Einungis eitt ríki hefur fengið inngöngu í ESB frá því Lissabon sáttmálinn tók gildi, en það er Króatía. Kannski Össur geti nefnt einhverjar sérlausnir sem sú þjóð fékk?

 

 


mbl.is Undanþágur hreinir draumórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég veit ekki á hvaða plánetu Samfylkingin er þessa dagana, og Steingrímur J. og kó.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.3.2014 kl. 11:34

2 identicon

Varanleg sérlausn sem þegar hefur verið afgreidd í þeim hluta samningsins sem lokið er snýr um strangari kröfur um hámark kadmíum í fosfóráburði. Þannig að sérlausnir eru til og ekki útilokaðar. Hverjar við getum knúið fram kemur ekki í ljós nema ljúka samningum.

http://www.dv.is/frettir/2014/3/4/island-hefur-thegar-samid-um-serlausn/

Hábeinn (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 12:31

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það þarf sérstakann hugsanahátt til að geta hundsað öll þau ummæki sem koma frá sérfræðingum um þetta mál. Að ekki sé talað um ummæli fulltrúa ESB.

Allir eru þessir aðilar á sama máli, umsóknarríki verður að taka upp lög og reglur ESB til að fá inngöngu. Það er umsóknarríki sem óskar inngöngu í sambandið, ekki öfugt.

Þrátt fyrir þetta dugir aðildarsinnum að Össur haldi eitthvað annað!

Gunnar Heiðarsson, 5.3.2014 kl. 12:32

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sú "sérlausn" sem DV bendir þarna á er varla hægt að kalla sérlausn, Hábeinn. Þarna er ekki verið að sækja um undanþágu frá regluverki ESB, í þeim skilningi að komist verði hjá lögum eða reglum þess. Þarna er sótt um heimild til strangari krafna en ESB fylgir.

Það er sótt um að þær reglur sem við höfum sett varðandi notkun ákveðins efnis innan tilbúins áburðar á tún og eru mun strangari en reglur ESB á þessu sviði, fái haldið.

Þetta er því engin undanþága frá regluverki ESB, heldur heimild til strangari reglna.

Þá er ljóst að umræðan erlendis, ekki síst innan ESB, hefur verið á þann veg síðustu ár, að herða beri þessar reglur. Því er nokkuð víst að innan fárra ára verði reglugerð ESB varðandi notkun  kadíum í áburði hert verulega, jafnvel svo að þeir ná okkar kröfum.

Svona til fróðleiks eru einungis þrjú lönd innan Evrópu þar sem magn kadíum í matvælum mælist undir þolmörkum, en það eru Finnland, Svíþjóð og Ísland. þar er Ísland lang lægst.

Kadíummengun er talin geta leitt til nýrnabilunnar, krabbameins og beinskaða. 

Gunnar Heiðarsson, 5.3.2014 kl. 12:51

5 identicon

Þarna er undanþága frá regluverki ESB og einu af grunngildum fjórfrelsis ESB. Þarna er heimild til strangari krafna en ESB fylgir, strangari krafna en lög og reglur ESB heimila öðrum að setja. Sem gefur okkur forskot komi aftur til áburðarframleiðslu á Íslandi eins og hugmyndir eru uppi um. Því íslenski áburðurinn inniheldur ekkert kadmíum og mun því geta átt markaðinn hérlendis einn þegar ESB löglegur erlendur áburður verður bannaður. Það kallast viðskiptahindranir og er ekkert smámál í augum ESB þó þér finnist það léttvægt.

Hábeinn (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 13:26

6 identicon

Venjulega er aðildarríkjum heimilt að gera strangari kröfur til SINNA afurða en meginregla er í ESB.
Kadmíum í áburði er oftast hærra en það sem við erum vön, og mun verða svo, því kadmíum fylgir fosfatinu, og mest allt það sem unnið er á jörðu er kadmíumríkt.
Mest allt fosfat kemur frá Marokkó og er kadmíumríkt, en svo er góður slumpur frá kólaskaga, og er tiltölulega hreint.
En er sem verður, - mest allt fosfat í notkun í landbúnaði heimsins er frekar kadmíumríkt. Standard í ESB.

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 14:11

7 identicon

Og Hábeinn:"Íslenski" áburðurinn hafði ekkert íslenskt annað en hluta af köfnunarefninu, - steinefnin voru innflutt. Fosfatið var af kólaskaga ef ég man rétt, en í dag, með innfluttan áburð hefur þetta verið sitt á hvað.
Strangari kröfur en innan ESB myndi þvinga mögulega áburðarframleiðslu hérlendis til þess að kaupa dýrara fosfat eða fosfat af þrengri markaði.
Sem sé, - strangari kröfur en hjá samkeppnisaðilum.

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 14:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband