Rökræða fokin út í veður og vind

Vegna þeirrar undarlegu og nánast óskiljanlegu umræðu sem fram fór síðustu viku í þjóðfélaginu, hef ég alveg látið vera að skrifa blogg. Ekki að tilefnin hafi vantað, frekar að þau voru svo yfirgengileg. Nú hefur umræðan örlítið róast og kannski hægt að leggja mat á hvað hér gerðist.

Fyrir það fyrsta þá setti Alþingi verulega niður, þessa daga. Þar féllu stór og óvægin ummæli og hætt við að sumir eigi eftir að iðrast þess sem sagt var. Stjórnarandstaðan einokaði ræðupúlt Alþingis og þangað mættu hver stjórnarandstæðingurinn af öðrum og höguðu sér sem englar alheimsins. Þeirra og einungis þeirra orða voru hin sönnu og æðið í samræmi við það. Allir sem andmæltu voru uppnefndir og þeim jafnvel blótað. Önnur eins framganga hefur aldrei áður sést á Alþingi og hefur þó  oft verið hart barist þar. Sú barátta hefur hingað til byggst á rökræðu, en nú var það persónuníðið sem var í algleyming.

Stjórnarandstöðunni tókst að snúa umræðunni um hvort vit væri í áframhaldandi aðlögun að ESB upp í allt annað, eða hvort þjóðin ætti að eiga aðkomu að þeirri ákvörðun.  Og auðvitað vill þjóðin hafa ákvörðunarvald, ekki bara um þetta mál heldur sem flest, annað væri óeðlilegt. En það fólk á Alþingi sem vill nú fá álit þjóðarinnar, hafniði með öllu slíkum afskiptum hennar þegar ákveðið var að sækja um. Það er þeirra Akkelesarhæll. Hefði þjóðin verið spurð um hvort sækja skildi um, sumarið 2009, væri auðvitað nauðsynlegt að þjóðin tæki ákvörðun um hvort umsóknin yrði dregin til baka. En þar sem Alþingi tók sér það vald að sækja um, er það auðvitað í valdi Alþingis hvort haldið skuli áfram.

Umræðan, sem átti auðvitað að vera rökræða um framhald viðræðna, varð því um eitthvað allt annað og orðræðan sem stunduð var, var flestum til minnkunnar. Auðvitað eru stjórnarflokkarnir ekki alsaklausir af því hvernig fór. Utanríkisráðherra var kannski full fljótur að leggja fram tillögu um slit viðræðna, en þessi tillaga var rædd innan ríkisstjórnar og beggja stjórnarflokkanna og fékk afgreiðslu þaðan. Því var ekki eftir neinu að bíða. Í stað þess að ræða þessa tillögu á  þeim grunni hvort skýrsla Hagfræðistofnunnar  rökstyddi þá ákvörðun, var málinu strax vísað í allt annan og undarlegri farveg.

Skýrsla Hagfræðistofnunnar er að mestu ákaflega skýr, hvað varðar möguleika okkar í frekari viðræðum. Einstaka þingmönnum tókst þó að finna setningar innan skýrslunnar sem ekki voru nægjanlega skýrar og snúa þeim á þann veg að hugsanlega væri nú hægt að ná einhverjum undanþágum. Þetta voru veik hálmstrá sem slitnuði við minnsta átak. Það má því segja að það hafi verið einstök snilld stjórnarandstöðunnar að snú umræðunni burt frá sjálfri skýrslunni og höfða til þess sem allir vita að virkar, ákvörðunarvalds þjóðarinnar.

Þessi umsnúningur hefur haft meiri áhrif en jafnvel stjórnarandstaðan þorði að vona. Þessi aðferð hennar hefur leitt til þess að þeir sem veikir eru fyrir innan stjórnarflokkanna hafa snúist og jafnvel hægt að sjá undanhald hjá formanni Sjálfstæðisflokks. Það er enda erfirtt verk og einuingis á hendi þeirra sterku, að standa á sannfæringu sinni. Poppúlisminn er auðveldari.

Þá hafa fjölmiðlar verið duglegir við sinn hlut, í baráttu stjórnarandstöðuflokkanna. Hver fréttatíminn af öðrum hefur verið undirlagður áróðri í þessum tilgangi. Nægir þar að nefna fréttaflutning frá mótmælafundum, en þar hafa alltaf fystu fréttir greint frá tilteknum fjölda mótmælenda og þeim fjölda gerð góð skil. Síðar koma svo leiðréttingar þar sem kemur fram að fjöldinn hafi verið allt að helmingi minni. Þeirri frétt er gjarnan lætt inn svo lítið beri á. Þá má nefna hvernig fréttamenn ganga fram í viðtölum. Tilraun var gerð til að grilla fjármálaráðherra í viðtali, þar sem orð hans fyrir kosningar voru tekin fram fyrir stefnuskrá flokks hans. Annað viðtal var við fyrrverandi varaformann þess flokks og fékk hún allt aðra meðferð. Engin tilraun gerð til að herma upp á hana stefnuskrá hennar flokks. Þetta eru einungis dæmi um hvernig fjölmiðlar hafa gengið fram í málinu.

Það verður vandi fyrir ríkisstjórnina að spila úr málinu. Hún hefur einungis tvo kosti, að gefa eftir eða standa á sínu.

Gefi hún eftir verður það væntanlega á þeim grunni sem VG hefur lagt til, að halda óbreyttu ástandi út þetta kjörtímabil og kjósa um málið að því loknu. Þetta væri í sjálfu sér ágæt leið, utan þess að umræðan mun þá snúast um þetta mál meira og minna allt þetta kjörtímabil, með tilheyrandi töfum á uppbyggingu þjóðfélagsins. Þá er ljóst að staða okkar sem umsóknarríkis þvælist fyrir í samskiptum okkar við önnur lönd. Þetta hefur þegar sannast í sambandi við samstarf okkar á norðuslóðum, þar sem okkur er að hluta haldið utan ákvarðanatöku vegna þess að við erum með stöðu umsóknarríkis. Að gefa eftir væri auðvitað sterkur leikur gagnvart almenningsálitunu, meðan það er skekkt af rangri umræðu. En hættulegast við þessa leið er kannski það að með því er blóðþyrstri stjórnarandstöðu réttur litlifingur. Hennar markmið er eitt og aðeins eitt, að koma þessari ríkistjórn frá.

Hinn möguleikinn, að standa fast á sínu, er ekki síður vandmeðfarin. Þar skiptir öllu að stjórnarþingmenn standi saman. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til að sá eini stjórnarþingmaður sem alla tíð hefur verið á móti tillögunni, snúi sér við, en hinir sem samþykktu tillöguna þegar hún var rædd innan þingflokkanna, verða hins vegar að snúa saman bökum. Annars er þessi leið dauðadæmd. Stjórnvöld þurfa að byrja á því að koma umræðunni á rétt plan, þ.e. rökræðu um skýrslu Hagfræðistofnunnar. Þessari umræðu þurfa stjórnvöld að koma út í þjóðfélagið og nýta þá menn sem að skýrslunni stóðu til þess verks. Flestir þeirra hafa tjáð sig og er ekki neinn efi í þeirra hugum. Þessa umræðu þurfa stjórnvöld láta gerjast í einhvern tíma og síðan, þegar umræðan hefur komist á rétt ról, er hægt að taka tillöguna til afgreiðslu. Með þessu myndi ríkisstjórnin styrkjast og vera mun betur í stakk búin til að afgreiða önnur mál, það sem eftir er af kjörtímabilinu.

Fyrri kosturinn gæti leitt til þess að ríkisstjórnin yrðri með öllu óstarfhæf, en sú síðari gæti, ef rétt er að málum staðið, gert hana sterka. Veik ríkisstjórn sem stjórnast af ótta við stjórnarandstöðu, er bein vísun í óstöðugleika.

Það er ljóst að síðasta vika var einhver sú svartasta í sögu Alþingis. Orðræðan sem þar var stunduð var með þeim ólíkindum að ekki verður við unað. Það er eitt að stunda málþóf, en þarna var allt annað á ferðinni. Heift sumra þingmanna var slík að þeir þurfa vissulega að skoða sína framtíð. Þessi framkoma er engum til sóma og jafnvel þó beðist sé afsökunnar, er það vart nóg. Ljótu orðin féllu og þau verða höfð í mynni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband