Eignarrétturinn er friðhelgur?

"Lausn „snillinganna“ snýst um að láta kröfuhafa föllnu bankanna standa straum af þessum kostnaði. Hugmyndir sem jafngilda þjóðnýtingu erlendra eigna kröfuhafa. Allar niðurfærslur á krónueignum kröfuhafa fara í að vinna á snjóhengjunni, það er ekki hægt að nota sömu fjármuni tvisvar. Eignarrétturinn er friðhelgur og það sem þessir menn boða er brot á alþjóðasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða." ath. leturbreyting blogghöfundar

Svo mælist Guðmundi Gunnarssyni, fyrrverandi verkalýðsfrömuð og núverandi aðalbaráttumaður fyrir áframhaldi verðtryggingar og verkfæri ESB á Íslandi.

Það er nokkuð merkilegt að fyrrum varðmaður launafólks í landinu skuli meta eignarrétt erlendra vogunnarsjóða meira en eignarrétt fjölskyldna þessa lands. Að vísu talar Guðmundur um "erlendar eignir kröfuhafa" en allir ættu að vita að samsetnig þess hóps sem kallast kröfuhafar er orðin verulega einsleit, þ.e. erlendir vogunnarsjóðir. Kröfuhafar sem áttu eign í þessum föllnu bönkum við hrun þeirra, eru vart teljandi á fingrum sér. Þeir hafa flestir selt þessar kröfur á hrakvirði og kaupendur voru erlendir vogunnarsjóðir.

Þá vaknar upp sú spurning hver raunveruleg eign þessara sjóða er í þeim kröfum. Er það sú upphæð sem þeir borguðu við kaupin á þessum kröfum, með hæfilegum vöxtum auðvitað, eða er raunveruleg eign þessara vogunnarsjóða hæðasta hugsanlega upphæð sem hægt er að ná út úr uppskiptingu þrotabúanna?

Það merkilega við þessi ummæli Guðmundar Gunnarssonar, er að þau eru sótt í pistill sem hann ritaði á Eyjunni og hann kallar "Töfralausnir" og fjallar að meginhluta um það sem hann kallar "kosningavíxil" Framsóknarflokks. Að auki gerir Guðmundur misheppnaða tilraun til að réttlæta baráttu þeirra sem vildu leggja icesave klafann á þjóðina, sem er nokkuð merkilegt þar sem sá klafi hefði kostað síst minna en leiðrétting stökkbreyttra lána heimila.

En aftur að eignarréttinum. Guðmundur ver eignarrétt erlendra vogunnarsjóða á eign sem vart er fyrir hendi. Hann gleymir að skoða eignarrétt heimila landsins, eignarrétt sem bundinn var í íbúðum fjölskyldna þessa lands. Sá eignaréttur er lítils virði hjá þessum fyrrum varðmanni launþega. Fyrir honum er eðlilegasta mál þó þessar eignir fjölskyldna landsins sé af þeim teknar, svo framarlega að sú eignaupptaka skili sér sem best til erlendra vogunnarsjóða!!

Annars ber þessi pistill Guðmunda öll merki um rökþrot. Hann er uppfullur af andstæðum og tvöfeldni. Áður hefur verið minnst á þá skoðun hans um leiðrétingu stökkbreyttra húsnæðislána gegn skoðun um icesave klafann og kostnaði við þessi tvö mál. Þá telur Guðmundur fráleitt að afnema verðtryggingu, en segir í sömu setningu að fá eða engin verðtryggð lán hafi verðið tekin hjá bönkum eftir að þeir fóru að bjóða óverðtryggð lán.

Afnám verðtryggingar er í raun einungis formsatriði. Að vísu þarf að leysa vanda Íbúðalánasjóðs og fjármögnun hans svo skrefið verði klárað. Bankarnir hafa þegar stigið þetta skref. Vandi Íbúðalánasjóðs liggur fyrst og fremst í þeirri staðreynd að hann fjármagnar sig með verðtryggðum lánum. Meðan útlán sjóðsins eru einnig verðtryggð og 100% innheimta skilar sér til sjóðsins, er þetta í lagi. Hins vegar er ljóst að sjóðurinn hefur þurft að taka til sín þúsundir eigna og þær eru fjarri því að vera verðtryggð. Þarna liggur stæðsti vandi Íbúðalánasjóðs, í verðtryggingunni sjálfri, rétt eins og vandi fjölskyldna þessa lands. Annað má nefna í sambandi við þennan sjóð okkar og mismun á rekstri hans og bankakerfisins að öðru leyti. Sjóðurinn er með sín lánasöfn að mestu á sama grunni og fyrir hrun, hann fékk ekki afslátt á þeim eins og aðrar lánastofnanir, þegar þær voru endurreistar. Þá hefur nokkru fé verið varið til sjóðsins, en ekkert í líkingu við það sem bankarnir fengu úr hendi landsmanna, við upprisu þeirra. Því er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að sjóðurinn berjist í bökkum, meðan bankarnir telja sinn hagnað í tugum milljarða á hverju ári. Samkeppnisstaðan er kolskökk!! Það er spurning hvort ekki eigi að láta Íbúðalánasjóð fara sömu leið og stóru bankarnir, falla í gjaldþrot og endurreisa með sömu aðferðum og bankarnir voru endurreistir. Þá er víst að sjóðurinn geti farið að telja hagnað í milljörðum ár hvert.

En afnám verðtryggingar leysir engann vanda þeirra þúsunda fjölskyldna sem sjá fram á að þurfa að velja um hvort halda skuli áfram að greiða af lánum eða kaupa mat fyrir börnin. Afnám verðtryggingar er einungis bót til framtíðar og bráðnauðsynleg sem slík. Ef henni verðir viðhaldið mun annað bankahrun skella á þjóðinni, bankahrun sem gjörsamlega verður útilokað að taka á. Því er afnám verðtryggingar lausn framtíðar.

Vandi fjölskyldna landsins og reyndar landsins sjálfs, verður hins vegar einungis lagaður með leiðréttingu stökkbreyttra húsnæðislána. Að eignarréttur fjölskyldna verði metin að einhverju leyti, jafnvel þó það kosti að ganga þurfi á ímyndaðann eignarétt erlendra vogunnarsjóða. Það er ljóst að erlendu vogunnarsjóðirnir munu lifa slíkt af, enda þeirra hlutverk að taka áhættu. Slíka áhættu tóku þeir þegar þeir keyptu kröfurnar á rústir föllnu bankanna.

Það er jafn ljóst að fjölskyldur landsins munu ekki lifa af þá eignarskerðingu sem þær hafa orðið fyrir. Allt að 50% eigna fjölskyldna þessa lands hafa verið gerð upptæk og ljóst að aldrei mun nást samstaða í þjóðfélaginu meðan sú staða er látin viðgangast.

Við bankahrunið var sú ákvörðun tekin að tryggja innistæður í bönkum landsins og það kallað að verja eignarréttinn. Það gleymdist hins vegar að þúsundir fólks átti sinn sparnað í íbúð sinni, ekki inn á bankareikning. Þær eignir voru ekki tryggðar og nú er kominn tími til að leiðrétta þann mismun. Að eignaréttur landsmanna verði ekki skilgreindur eftir því hvar eignin er geimd.

Ég gef ekkert fyrir eignarétt erlendra vogunnarsjóða, sem stunda þá iðju að kaupa kröfur fallinna fyrirtækja á hrakvirði og treysta á að græða við uppgjör þeirra. Fyrir þessa sjóði er engin eign tryggð, ekki einu sinni sú smánarupphæð sem þeir leggja fram við kaup krafnanna. Þegar þeir kaupa kröfur í fallið fyrirtæki, ganga þeir að því sem vísu að þeir eru að taka áhættu.

Mér er hins vegar umhugað um eignarrétt almenning, ekki síst fjölskyldna þessa lands. Það á ekki að teljast áhætta að geyma sinn sparnað í þeirri íbúð sem fjölskyldur búa í. Þarna greinir okkur Guðmund greinilega mjög á.

Þjóð byggist á fólkinu sem hana mynda. Ef fólkið er lamað, er þjóðin lömuð!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áður en farið verður að ræða við hrægammasjóðina, er nauðsinlegt að búið verði að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort verðtryggingin til almennings sé lögleg eða ekki, mjög margt bendir til að hún sé kolólögleg, eins og gengistryggðu lánin.

En gaman væri að frétta af því hvernig Guðmundi Gunnarssyni og öðrum sjóðfélögum í Stöfum lífeyrissjóði, í gegnum eitthvert eignarhaldsfélag, gengur á Hrossamakríl,úti fyrir ströndum Marítaníu á riksugutogaranum Blue Wave.

Björn Sig. (IP-tala skráð) 1.4.2013 kl. 14:33

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er í sjálfu sér ágætt að fá úr því skorið hvort verðtryggingin sé ólögleg, Björn. Það væri þá einungis til að staðfestingar.

En það á þó ekki að nálgast umræðuna frá þeim punki, heldur þeim hvort verðtryggingin og það heljartak sem hún hefur á lánþegum, sé rétt út frá siðferðislegu sjónarmiði. Hvort siðuð þjóð geti látið viðgangast að einn hópur í þjóðfélaginu sé tryggður í bak og fyrir gegn öllum áföllum sem á það dynja, jafnvel þó þeir sjálfir séu stórþáttakendur í þeirri gerð sem áfallinu olli, meðan annar hópur getur ekki hönd yfir höfuð sér borið og verður að taka öllu óréttlætinu af fullum þunga.

Það er hvergi í heiminum sem almennir lántakendur eru meðhöndlaðir sem hér á landi og heldur hvergi í heiminum sem fjármálaöflin eru jafn tryggð. Þetta er siðferðislega rangt, kolrangt.

Um lögfræðilegu hliðina er það eitt að segja að ef þetta órétti er löglegt, segir það okkur svart á hvítu hverjum stjórnmálamenn fylgja. Þetta hefur reyndar sýnt sig greinilega á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Forusta ríkisstjórnarinnar hefur ekki látið sér nægja að flytja málstað fjármálaaflanna, heldur sett lög þeim til handa. Siðferðisbrot þessarar ríkisstjórnar er algert!

Stjórnmálamenn eiga fyrst og fremst að hugsa um hag þjóðarinnar. Þessi ríkisstjórn sem nú er blessunarlega að yfirgefa stjórnarráðið hefur gleymt þessari staðreynd, í aðdáun sinni á þeim sem með fjármagnið fara. Hagsmunum þeirra sem fjármagnið eiga, þjóðinni, er fórnað fyrir hagsmuni þeirra sem með þetta fjármagn fara.

Þjóðin er fólkið í landinu og ef fólkið er lamað þá er þjóðfélagið lamað.

Hrossamakrílveiðar Guðmundar við Afríkustrendur þekki ég ekki, en gaman væri að fá nánari upplýsingar um það mál.

Gunnar Heiðarsson, 1.4.2013 kl. 14:54

3 identicon

Gaman væri að heyra söguna alla um Blue Wave, bloggarinn olafurjonsson.blog.is gæti vafalítið sagt alla söguna.

Björn Sig. (IP-tala skráð) 1.4.2013 kl. 17:50

4 identicon

Sparnaður í fasteignum var staðreynd sem stjórnvöld hunsuðu algjörlega eftir hrun, en á sama tíma voru afskrifaðar hundruðir miljarða á aðilana sem fremstir fóru í að setja þjóðina á hausinn og stela fjármunum frá lífeyrissjóðum og auðtrúa fjármagnseigendum, eldriborgurum.

Guðbrandur Ólafsson (IP-tala skráð) 2.4.2013 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband