Svikabrigsl stjórnvalda

Jóhanna talar um "svikabrigsl af hálfu ASÍ". Sennilega hefur enginn ríkisstjórn, allt frá stofnun lýðveldisins, notið jafn mikils langlundargeðs ASÍ og núverandi ríkisstjórn. En allt um þrýtur, einnig langlundargeð verkalýðshreyfingarinnar.

Þessi ræða Jóhönnu á Alþingi staðfestir það sem margur hefur haldið fram og ASÍ tók undir loks í gær, að fátt sé að marka sem frá stjórnarherrum kemur. Hvernig ætlar Jóhanna að standa við þau orð sín að ríkisstjórnin hafi lagt 50 - 60 milljarða í aðstoð við skuldug heimili? Stæðsti hluti þess fjár sem farið hefur til þess verkefnis, ef hægt er að segja svo, er til komið vegna dóma Hæstaréttar. Hvernig er hægt að segja að það fé sem skilað er vegna ólöglegra gerða banka og lánastofnana sé aðstoð? Þetta er leiðrétting, verið að skila ránsfeng. Þjófum er skylt að skila því fé sem þeir stela, að auki eru þeim oftast gert að greiða sekt og gjarnan hnepptir í fangelsi, þó stjórnvöld  telji það til of mikils mælst fyrir bankana að skila einungis ránsfengnum!

"Sjáið dýrðina!" hrópa þau í kór Jóhanna og Steingrímur. "Sjáið þið ekki hversu falleg fötin keisarans eru?" var einnig sagt í ævintýri H C Andersaen og allir þóttust sjá þau glæsilegu föt. Það þurfti barn til að benda fólki á að keisarinn var allsnakinn!

Sem betur fer eru íslendingar ekki eins trúgjarnir og þegnar keisarans í ævintýrinu. Við sjáum að ríkisstjórnin er nakin, alls nakin. Við þurfum ekki börn til að segja okkur þá staðreynd. Það er engin dýrð!

Það má benda á ýmsar tölur og töflur og segja; "þarna sjáið þið þetta, svart á hvítu". Það breytir ekki staðreyndum. Þegar notuð eru vitlaus mælitæki, kemur vitlaus niðurstaða. Það er eins og að ætla sér að byggja hús með sentimetramáli, þegar teikningar eru með tommumáli. Húsið verður allt of lítið. Það sama má segja um mælistikur ríkisstjórnarinnar.

Atvinnuleysi er talið minnka. En hversu mörg virk störf eru í landinu? Þau vilja sem minnst tala um það, heldur er bennt á tölur sem segja að atvinnuatvinnuleysi minnki, tölur sem eru fengnar með röngum mælistokk. Það verður væntanlega mikil gleði á stjórnarheimilinu í janúar, þegar þúsundir falla af atvinnuleysisbótum. Þá minnkar nú atvinnuleysið hressilega!

Það er sagt að nauðungaruppboðum hafi fækkað. Auðvitað fækkar þeim, eftir því sem fækkar þeim sem eiga húsnæði. Það er ekki hægt að gera þann gjaldþrota sem þegar hefur verið gerður það. Það er ekki hægt að henda þeim á götuna sem þegar búa á henni! Það er ljóst að þeir sem enn hafa tangarhald á sínum íbúðum fer fækkandi og að skriða nauðungaruppboða á eftir að skella á bankakerfinu. Þeir sem voru svo forsjálnir að steypa sér ekki í miklar skuldir fyrir hrun og áttu talsverðann hlut í sinni íbúð og jafnvel einhverja upphæð inn á séreignasparnaði, eru nú að komast á endastöð. Ekkert hefur verið gert fyrir þetta fólk, það hefur mátt sjá á eftir ævisparnaði sínum til bankanna. Þarna er verið að tala um það fólk sem fór varlega í fjárfestingum, fólk sem ekki reysti sér burðarás um öxl. Það gat enginn séð fyrir að hér yrði sú holskefla sem bankahrunið olli og enn færri sem gátu ímyndað sér að í kjölfar þess kæmi ríkisstjórn sem virðist hafa það eitt að markmiði að auka eymd landsmanna!!

Svona mætti lengi halda áfram, en ég bendi fólki á að lesa grein Ragnars Árnasonar, prófessors í hagfræði, þar sem hann ritar um sannleik ríkisfjármálanna. 

Þessi ríkisstjórn kennir sig við jöfnuð og öreiga landsins. Engri ríkisstjórn hefur þó tekist að auka hér ójöfnuð jafn mikið. Engin ríkisstjórn hefur gengið lengra í árás á öreiganna og engri ríkisstjórn hefur tekist að fjölga þeim jafn mikið og þessari. Engin ríkisstjórn hefur gengið jafn langt í því að búa til sundrung og ósætti, jafnvel gengið svo langt á því sviði að hver höndin er upp á móti annari milli stjórnarflokkanna og innan þeirra!

Framkoma stjórnvalda gagnvart öldruðum, öryrkjum, fjölskyldum og raunar öllum landsmönnum, er með eindæmun og fordæmalaus. Það má hafa mörg orð um slíka framkomu, en heimska á kannski best við.

 

 


mbl.is Jóhanna og Bjarni tókust hart á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband