ÞÁ og NÚ ....... um ESB

Forveri Samfylkingar, Alþýðuflokkurinn, hafði það meðal annars á stefnuskrá sinni að Ísland leitaði inngöngu í ESB, þá EBE. Þáverandi formaður flokksins Jón Baldvin Hannibalsson (tími Jóhönnu var ekki kominn) var mjög áfram um að koma þessu máli í gegn. Hann stóð harðast að aðild Íslands að EES samningnum og í beinu framhaldi vildi hann að sótt yrði um aðild að EBE. Eftir að Samfylkingin var sett saman úr nokkrum flokksbrotum á vinnstri væng stjórnmálanna, hélt þessi stefna áfram.

ÞÁ var ein af stefnum íslenskra sósíaldemókrata að sótt skyldi um aðild að ESB, er þetta eina stefna þeirra. Svo mikilvægt er þetta í huga þessa fólks að formaður Samfylkingarinnar er tilbúin að fórna flokknum, málinu til framgangs!

 

Fyrir síðustu kosningar hélt Samfylkingin uppi miklum áróðri um ESB aðild. Var því meðal annars haldið fram að ef við hefðum verið í ESB þegar bankarnir hrundu, hefði fallið orðið mun minna. Í ljós hefur komið að þessi málflutningur var rugl. Þau lönd innan ESB sem lent hafa í svipuðum vandræðum og við Íslendingar, fá lítinn stuðning frá ESB, jafnvel hægt að segja að sá stuðningur sem þó kemur sé sem millusteinn um háls þeirra.

ÞÁ var sagt að ESB væri björgunarhringur fyrir aðildarríki í vandræðum, hefur komið í ljós að sá björgunarhringur er gerður úr steini!

 

Fyrir kosningarnar vorið 2009 hélt maður einn, sem titlar sig Evrópufræðing, því fram að ekki tæki nema þrjá mánuði fyrir Ísland að gerast aðili að ESB og nánast í beinu framhaldi væri hægt að taka upp evru. Nú, nærri tveim árum eftir að umsókn var lögð fyrir ESB,  halda bjartsýnustu menn því fram að hugsanlega gæti verið kominn samningur eftir tæp tvö ár í viðbót og þrem árum seinna gætum við tekið upp evru. Hugsanlega getur samningur legið fyrir á þeim tíma en hann þarf að fá samþykki landsmanna. Það er óvíst að það takist, sérstaklega þegar litið er til þess að svo virðist sem báðir aðilar þessarar samningsgerðar er sömu megin borðsins. Það kemur sjaldnast vitrænn samningur úr slíku. Þá er ljóst að fimm ár duga okkur engan veginn til að uppfylla þau skilyrði sem þarf til upptöku evru, ef hún verður þá til eftir fimm ár. Eina leiðin væri að við svindluðum okkur inn í það mynntsamstarf, eins og sagt er að Grikkir hafi gert og væntanlega yrði uppskera okkar þá svipuð og Grikkja!

ÞÁ var sagt að það tæki einungis þrjá mánuði að öðlast aðild að ESB, eru bjartsýnustu menn á því að það taki að minnsta kosti fjögur ár. Um upptöku evru verður sennilega ekki að ræða.

 

Þegar aðildarumsóknin var lög fyrir þingið til samþykktar, var því haldið fram að um samningaviðræður væri að ræða, til "að kíkja í pokann". Menn lét glepjast, jafnvel þingmenn. Auðvitað er ekki hægt að sækja um aðild nema vilji til inngöngu sé til staðar. Fáir eru enn eftir sem halda fram þessari bábylju, en þeir eru þó til. Umsóknin var lögð fyrir þingið af ríkisstjórninni og þá um leið þingflokki VG, það var þeirra gjald til að fá ráðherrastóla.

ÞÁ var sagt að einungis ætti að kíkja í pokann, vita allir að um alvöru inngönguferli er að ræða.

 

Fljótlega eftir að umsóknin hafði verið send með hraði til Svíþjóðar komu upp raddir að um aðlögunarferli yrði að ræða. Þessar raddir komu ekki frá andstæðingum aðildar hér á landi heldur frá þeim aðilum innan ESB, sem tjáðu sig um umsókn okkar. Fáir eru þeir eftir sem segja að ekki sé um aðlögun að ræða, flestir hafa viðurkennt þá staðreynd. Þó eru til menn sem rita grein í blað að morgni og segja að ekki sé um aðlögun að ræða, mæta í viðtal í ljósvakafjölmiðlum í hádeginu og segja þar að enginn sæki um aðild nema full alvara liggi að baki og því fylgi auðvitað viss aðlögun og fara síðan heim til sín og blogga um að ekki sé um aðlögunarferli að ræða. Það skelfilegasta er þó að innan samninganefndar íslendinga við ESB eru til slíkir menn!

ÞÁ var sagt að ekki væri nein aðlögun í gangi, viðurkenna flestir að svo sé, þó vissulega séu einstaka steingerfingar til.

 

Vorið 2009 var ástandið í ESB bara nokkuð gott, svona á yfirborðinu. Að vísu var viðvarandi atvinnuleysi í aðildarríkjunum, hagvöxtur lítill sem enginn, gengdarlaus spilling hjá valdaelítu ESB og fleira. En flestir voru bara nokkuð sáttir, þetta ástand var að festast í sessi og engin sérstök ástæða til að ætla að nein afgerandi breyting yrði þar á. Þó voru nokkrir sem héldu því fram að blikur væru á lofti og auðvitað voru þeir úthrópaðir sem svartsýnismenn eða talsmenn niðurrifsafla. Staðreyndir er að þessir menn voru bara framsýnir, þeir sáu það sem á eftir kom.  Atvinnuleysi innan ríkja ESB er nú í hæðstu hæðum, jafnvel svo að sumstaðar eru nærri annar hver vinnuhæfur maður atvinnulaus. Hvort spillingin hafi aukist innan valdaelítunnar er ekki gott að segja en það skýtur þó skökku við að framkvæmdastjórn ESB skuli fara fram á nærri 4% aukningu til sín til rekstrar ESB frá aðildarríkjunum á meðan þessir sömu menn krefja þessi sömu ríki um stór aukinn samdrátt í sínum rekstri! Evrópa logar í mótmælum, sérstaklega í jaðarlöndunum, þar sem efnahagskreppan hefur bitið sárast. Hvernig þessu líkur, hvort ESB muni lifa af er ekki gott að segja. Það er þó ljóst að kraftaverk þarf til að evran lifi af þessar hremmingar, enda á hún stórann þátt í vanda þeirra ríkja sem henni hafa bundist.

ÞÁ var ekki að sjá annað en ESB og evran væri komið til með að vera, er vafasamt hvort ESB lifir áfram í núverandi mynd og nokkuð ljóst að evran mun ekki verða söm og áður, ef hún þá lifir!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband