Enn eitt klúðrið frá Jóhönnu

Enn tekst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að klúðra málum. Í þetta sinn með framsetningu nýrra upplýsingalaga. Það er engu líkara en að þessari ríkisstjórn sé gjörsamlega útilokað að koma einu einasta máli gegnum þingið án þess að klúðra því!!

Ekki setti ég mig mikið inn í þessi nýju lög, enda talað um að breytingin væri fyrst og fremst til að auka gagnsæi. Aukið gagnsæi er mér vissulega að skapi.

Nú hefur hins vegar komið í ljós að ýmis ákvæði þessara laga eru undarleg, svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Sú staðreynd að einhver ein persóna geti lokað gögnum í allt að 110 ár er ótrúleg. Vart er hægt að telja það vera aukið gagnsæi. T.d. væri hægt að loka öllum gögnum um icesave ruglið allt til ársins 2121, ef þjóðskjalaverði þykir það hæfa.

Að fela einni persónu slíkt vald er með ólíkindum. Þetta vald er þessari persónu fært án allra skilyrða eða starfsreglna, einungis persónulegt mat viðkomandi ræður hvort gögn eru aðgengileg eða lokuð til allt að 110 ára. Það þarf ekki neinn snilling til að sjá að þetta gengur ekki upp og hvaða deilur þetta geti haft í för með sér í framtíðinni.

Ekki veit ég hvaða persóna það er sem fengi þetta vald í hendur nú í upphafi, enda skiptir það minnstu máli. Það eru aftur þeir sem á eftir koma sem máli skipta. Þetta starf verður væntanlega mjög eftirsótt og líkur á að í það veljist pólitískir leppar, sem geta þá skekkt verulega pólitískt landslag hér á landi. Þá gæti slík persóna haldið hlífiskyldi yfir sínum flokki en haldið öllum gögnum sem snúa að andstæðingunum opnum, hversu viðkvæm sem þau væru.

Ekki verður því annað séð að það sem fólki var talin trú um að ætti að leiða til opnari stjórnsýslu, sé einmitt öfugt, að verið sé að gera feluskapinn og dulúðina enn meiri.

Þetta kennir manni að aldrei skyldi maður trú því sem Jóhanna segir, þvert á móti verður að taka hvert orð frá henni með gagnrýni og sannreyna allt sem hún segir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband