Skýrslan

Jæja, þá er fyrstu yfirferð yfir stóra sannleikann lokið. Ég veit eiginlega ekki hvar á að byrja.

Það er svo sem ekkert nýtt í þessari skýrslu, ekkert sem kemur manni í raun á óvart en þó gott að fá staðfestingu á öllu ruglinu. Vissulega eru allir ánægðir með skýrsluna, þó flestir sem hlut eiga að máli telji ekki alveg rétt með farið gagnvart því sem að þeim snýr.

Það er ljóst að allt brást sem brugðist gat hjá okkur. Stjórnsýslan, eftirlitið, fjölmiðlarnir og að sjálfsögðu þeir sem höfðu tagl og haldir í fjármálastofnunum.

Steingrímur J, einn af fáum þeirra sem á þingi voru, getur verið hress með sinn hlut í skýrslunni. Ég gat hvergi séð minnst á hann, þó ber að taka fram að ég fór á hálfgerðum hlaupum yfir skýrsluna.

Hann er hinsvegar duglegur við að kenna einkavæðingu bankanna um, þar liggi rót vandans. Þetta er út í hött. Vissulega má gagnrýna störf þáverandi bankamálaráðherra fyrir að skrifa undir sölu á bönkunum til óþekktra aðila. Það var þó búið að reyna að fá viðurkennda kjölfestufjárfesta til að koma að málinu, en engin áhugi var fyrir því. Hverju hefði það svo breytt? Hvað ef viðurkenndur banki hefði komið inn sem kjölfestufjárfestir? Værum við eitthvað betur sett? Var ekki fyrsti bankinn sem hrundi í kreppunni einhver virtasti bankinn í USA? Og síðan hafa þessar "virtu" fjármálastofnanir hrunið út um allan heim. Svo má ekk gleyma þeirri staðreynd að núverandi fjármálaráðherra gerði það nákvæmlega sama við sölu á nýju bönkunum í vetur. Hann ætti því að hafa sem fæst orð um þetta. 

Það sem maður óttast nú er að þau stjórnmálaöfl sem nú eru við völd ætli sér að kollvarpa öllu hjá okkur, bæði því sem nauðsynlegt er að breyta og einnig hinu sem vel hefur reynst. Að farið verði frá of miklu frjálsræði yfir í of miklar hömlur. Það þarf að finna meðalveginn og fylgja honum. Of miklar hömlur eru síst betri en of mikið frjálsræði.

Jóhanna hefur haldið því fam að of seint hafi verið að gera nokkuð eftir að hennar flokkur kom í stjórn 2007. Hægt hefði verið að grípa inní fyrr og koma í veg fyrir þetta. Þetta er hugsanlega rétt. En hvernig hefði verið tekið á því ef seðlabankinn og ríkisstjórnin sem var við völd á þeim tíma, hefði farið að setja bönkum strangari skilyrði. Það hefði að sjálfsögðu bitnað meðal annars á baugsveldinu. Þá er hætt við að fjölmiðlum hefði verið beitt óspart og Samfylkingin að sjálfsögðu hlaupið með. 

Þessi rök Jóhönnu eru jafn fáránleg og ef bíl er keyrt á fullri ferð í átt að vegg, ökumaður gerir sér grein fyrir að hann nái ekki að stoppa áður en hann lendir á veggnum og ákveður því að sleppa að bremsa. Það er aldrei of seint að grípa inní, því fyrr sem það er gert því betra, en aldrei of seint.

Fjármálaeftirlitið mátti sín lítils og jafnvel þó það hefði verið margfaldað að stærð og getu, gætu þeir aldrei staðið í hárinu á mönnum sem voru með þvílíkt fjármagn að baki sér og höfðu einbeittann vilja til að fara í kring um þau lög og reglur sem í gildi voru. Þegar það ekki dugði var ekki hikað við að brjóta lög. 

Fjölmiðarnir dönsuðu þennan dans af ákefð. Reyndar var, og er reyndar enn, stór hluti þeirra í eigu einns stærsta glæpamannsins og því ekki von að frá þeim kæmi alvarleg gagnrýni. Hinir fjölmiðlarnir voru máttlausir og dönsuðu með. Ef einhver fréttamaður hafði kjark til að flytja gagnýna frétt og gat fengið einhvern miðil til að birta hana fyrir sig, var viðkomandi fréttamaður samstundis kærður fyrir meinsæri og dregin fyrir dóm.

Fjárglæframennirnir, það er eigendur og stjórnendur bankanna eru að sjálfsögðu hinir eiginlegu sökudólgar. Siðblindan og græðgin yfirgengileg og ekki hikað við að beyta bolabrögðum til að ná sínu fram. Sú staðreynd að fyrirtæki í eigu og undir stjórn Jóns Ásgeirs skuli hafa skuldað í bönkunum meir en helmingi meira en næsta samstæða, sem var eigu og undir stjórn Bakkabræðra og nærri þrefalt meiri skuld en allar skuldir Björgúlfsfeðga, gerir Jón Ásgeir óneytanlega mesta sökudólginn í öllu þessu máli. Allir hinir eigendur og stjórnendur bankanna eru að sjálfsögðu sekir líka. 

Það er alveg með ólíkindum hvað þessir menn komust áfam í krafti auðs sem þeir áttu ekki einu sinni.

Það ættu allir þeir þingmenn sem sátu einhvertíma í stjórn á tímabilinu frá 2003 og fram að hruni að segja af sér þingmennsku. Það er engin afsökun að viðkomandi þingmaður hafi ekki verið fagráðherra peningastjórnunar, þeir voru í ríisstjórn og því sekir. Manni verður hálf flökurt af að lesa að Ingibjörg Sólrún beri ekki ábyrgð vegna þess að hún var ekki fagráðherra. Samt kemur skýrt fram að hún hélt bankamálaráðherra utan allrar umræðu og tók allar meiriháttar ákvarðanir sjálf.

Þá ætti líka að koma í veg fyrir, með öllu, að allir þeir fjáglæframenn sem settu hér allt á annan endan fái að koma nálægt fyrirtækjarekstri hér á Ísland um alla framtíð.

Það er dapurlegt að horfa á stjórnmálamenn keppast við að réttlæta sig og sinn flokk. Að vísu hafa bæði formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks viðurkennt að margt hefði mátt betur fara hjá þeim. Jóhanna er eini formaðurinn sem ekki hefur enn viðurkennt að hennar flokkur hafi verið sekur að neinum hluta þessa harmleiks.

Enn dapurlegra er að fylgjast með fjölmiðlum draga fram sakir stjórnmálamanna og eyða hverjum frétatímanum af öðrum í þá umfjöllun. Ekki vil ég verja gjörðir þeirra, en fjölmiðlarnir ættu að snúa sér meira að þætti þeirra sem settu hér allt á annan endann og kryfja þeirra mál til mergjar. Einnig væri nauðsynlegt að sjá hvernig þessir sömu menn eru að taka yfir fyrirtækin í landinu aftur.

Það er ljóst af viðbrögðum manna, bæði stjórnmálamanna og fjölmiðla, að þessir aðilar eru ekki enn tilbúnir að fjalla um þessa skýrslu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband