Fyrir hverja?

Fyrir hverja er nauðsynlegt að skipta Landsvirkjun upp?

Frá því Landsvirkjun var stofnuð, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hefur það fyrirtæki verið rekið á grunni samfélagsþjónustu, þ.e. hagnaðinum hefur verið skilað til landsmanna í formi ódýrrar orku. Hin allra síðustu ár hefur þetta breyst og fyrirtækið horfir meira og meira til auðsöfnunar. Enginn efast um að orkufyrirtæki gætu skilað verulegum hagnaði, sennilega engin fyrirtæki hér á landi betur í stakk búin til þess, einungis þarf að hætta að skila hagnaðnum beint til eigendanna í formi ódýrrar orku og milljarðarnir fara að safnast saman. Auðvitað eru það landsmenn sem þá milljarða borga í sjóði orkufyrirtækjanna.

Það eru fleiri fyrirtæki í orkuframleiðslu en Landsvirkjun, fyrirtæki sem sum eru í eigu sveitarfélaga og sum í einkaeigu. Þessi fyrirtæki eru flest lítil miðað við Landsvirkjun og verða í raun að fylgja verðlagningu þess.  

Það er því í raun pólitísk ákvörðun hvort Landsvirkjun verður nýtt í samfélagsþágu og verð orkunnar til landsmanna þannig að aðrar þjóðir öfundi okkur.

Nú hefur danskur hagfræðingur, að beiðni samtaka iðnaðarins, komist að þeirri niðurstöðu að þetta kerfi okkar sé ekki nógu gott, að skipta þurfi upp fyrirtækinu og helst selja alla partana úr því. Þannig myndist það sem hann kallar "eðlileg samkeppni" um orkuverð.

Þá er bara spurningin, eðlileg fyrir hverja?

Við þekkjum öll hvernig samkeppni virkar hér á landi, þarf ekki annað en horfa til bankanna, eldsneytissölu, flutninga, nú eða matvöruverslana. Samráð og sukk er allsríkjandi og allir nema neytendur græða. Svo mun einnig fara ef verð á orku fær að ráðast á einhverjum gervimarkaði. Þá fyrst fara orkufyrirtækin að græða á kostnað landsmanna.

Og hvers vegna þarf að selja þetta fyrirtæki? Hvers vegna má stæðsti hluti orkuframleiðslunnar ekki vera á einni hendi? Hvers vegna má ekki leiðandi fyrirtæki, sem rekið er á samfélagsgrunni, vera áfram?

Auðvitað getur reynst erfitt fyrir hagfræðinga að skilja hugtakið samfélag, enda þeirra hugur allur fastur við að græða sem mest. Þeim danska er því kannski smá vorkunn.

Eins og áður segir þá hefur stjórn Landsvirkjunar horft frekar til auðsöfnunar en hins samfélagslega þáttar, sem fyrirtækinu var þó uppálagt að sinna, við stofnun þess. Þarna kemur til breyting á lögum um fyrirtækið, breyting sem ekki var til góðs fyrir landsmenn.

Eitt að þeim "sóknartækifærum" sem fyrirtækið hefur fundið er sæstrengur til annarra landa. Sumir halda vart vatni vegna þessa glópagulls, meðan aðrir reyna að vara við skelfingunni.

Vitað er að orkuverð mun hækka verulega við lagningu slíks sæstrengs og það eitt ætti að hringja bjöllum hjá eigendum þessa fyrirtækis, landsmönnum. Þá eru efasemdir um fjárhagslega hlið málsins. Allir útreikningar gera ráð fyrir að Bretar niðurgreiði orkuna verulega en jafnvel þá hlaupa útreikningar Landsvirkjunar á gróðanum á hundruðum milljarða, eða frá nánast engum gróða upp í nokkur hundruð milljarða. Trúverðugleiki útreikninganna er því enginn!

Ef einhverjar breytingar þarf að gera á þessu fyrirtæki okkar landsmanna, ætti að horfa til þess eins að styrkja það sem samfélagsfyrirtæki. Að Landvirkjun verði ávallt í eigu landsmanna og að arði þess verði ávallt skilað í formi eins lágs orkuverðs og hugsast getur.

Þá ættu allar á fyrirtækinu að ákvarðast af eigendum þess, þ.e.landsmönnum öllum. Við þurfum ekki danskan hagfræðing á launum hjá samtökum iðnaðarins til að segja okkur fyrir verkum, jafnvel þó þar fari hinn vænsti maður.

 

 


mbl.is Landsvirkjun verði skipt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband