Brexit og afl sveitavargsins

Enginn efast um að niðurstaða kosningar í Bretlandi, um úrgöngu þess úr ESB, er einhver stæðsti viðburður það sem af er þessarar aldar, á heimsvísu.

Viðbrögðin hafa hins vegar verið blendin. ESB elítan, fjölmargir fjölmiðlar, hagfræðingar og ekki síst fjármálamenn, líta þetta sem svartan dag, meðan almenningur fagnar. Þarna var í raun baráttan milli lýðræðis og fjármálaræðis háð og lýðræðið hafði sigur.

Ein fyrsta fréttin af niðurstöðu kosningarinnar, sem ruv flutti, var nokkuð undarleg. Þar sagði að meirihluti Skota og Norður Íra, ásamt flestum borgum Englands og Wales, hefðu kosið áframhaldandi veri í ESB. Mikið andskoti er sveitavargurinn í Wales og Englandi þá öflugur!

Það hefur verið með eindæmum að fylgjast með fréttum af þessum atburði, hér á landi. Þekktir aðildarsinnar vita ekki hvar á þá stendur veðrið og margar stórundarlegar yfirlýsingar hafa oltið af vörum þeirra. Sá sem talinn er vera ríkasti maður landsins segir þetta vera "efnahagslegt sjálfsmorð" Bretlands.  Stofnandi nýjasta stjórnmálaflokks landsins, sem stofnaður er í þeim eina tilgangi að koma Íslandi inn í ESB, segir þetta vera "áfall fyrir alla heimsbyggðina".

Lengst gengur þó fyrrverandi formaður Samfylkingar, Árni Páll Árnason, þegar hann segir þessa kosningu vera "flipp". Og hann gengur enn lengra og skilgreinir lýðræðið alveg upp á nýtt, reyndar ekki hægt að sjá neitt lýðræði eftir, yrðu hans skoðanir ofaná. Það má sem sagt einungis vera lýðræði um ákveðna hluti, þá hluti sem eru þóknanlegir og ef niðurstaða kosninga er rétt. Oft hefur þessi maður opinberað fávisku sína, en sjaldan sem nú!

Einn er þó sá íslendingur sem sér hlutina í öðru ljósi. Það er forseti vor. Hann skrifar góða greiningu á hver áhrif Brexit geti orðið, á Bretland sjálft, okkur íslendinga og heimsbyggðina. Fáir íslendingar hafa betri og skarpari sýn pólitík en einmitt Ólafur Ragnar, hvort heldur er innlenda pólitík eða erlenda. Hann, eins og meirihluti kjósenda Bretlands, sér tækifærin.  

"Látum ekki taka Evrópu frá okkur" segir utanríkisráðherra Þýskalands. Þessi orð lýsa vel hugsanahætti þess fólks sem ráðskast með þjóðir ESB. Í þeirra hug er ESB Evrópa! Þvílíkt bull!

Evrópa liggur yfir landsvæði sem telur 10.800 ferkílómetra. Af því þekur ESB einungis 4.320 ferkílómetra, eða nærri 40%. Nálægt 60% af landsvæðum Evrópu eru utan ESB!! Það getur enginn tekið Evrópu frá einum né neinum, hins vegar gætu kjósendur þeirra landa sem mynda ESB tekið þann óskapnað frá elítunni, fengju þeir tækifæri til þess.

Kosningar eru hornsteinn lýðræðis. Eftir að kosið hefur verið og niðurstaða liggur fyrir, hefur lýðræðið talað. Þetta virðist þó ekki eiga við í hugum þeirra sem aðhyllast ESB. Nú er hafin undirskriftasöfnun meðal Breta um að endurtaka kosninguna. Ástæða þess er að nú telja sumir að aukinn meirihluta þurfi til. Engum datt þó í hug að nefna þetta fyrir kosninguna. Í kosningunni sjálfri kusu 16,8 milljónir kjósenda útgöngu úr ESB. Undirskiftasöfnun nú, svo skömmu eftir kosningarnar, þarf því að telja að minnsta kosti þann fjölda, eða fleiri. Að hætti ESB vilja þeir sem aðhyllast sambandið í Bretlandi nú kjósa aftur og svo aftur og aftur, allt þar til "rétt" niðurstaða fæst.

Eins og áður sagði, þá er þessi atburður tvímælalaust sá stæðsti á þessari öld. Hvernig úr spilast fer eftir því hvort ráðamenn nálgast það verkefni sem vandamál eða tækifæri. Í öllum málum má sjá vandamál og í öllum málum má sjá tækifæri. Niðurstaðan fer að öllu leyti eftir því hvor leiðin að markinu er valin.

Því miður er ekki að sjá að ráðmenn ESB líti þetta sem tækifæri, þvert á móti hafa margir sagt þetta vera vandamál sem nánast er óyfirstíganlegt. Þar liggur kannski vandinn sjálfur, ráðamenn átta sig ekki á hvað þeir eru að gera rangt. Lýðræðishalli innan sambandsins er slíkur að þegnarnir vilja ekki við una. Þá er annað stórt vandamál, en það er yfirgangur fárra stórþjóða innan sambandsins og hinum minni gert að hlýða. Í viðtengdri frétt við þetta blogg er ekki að sjá að skilningur forseta Frakklands sé mikill, þar sem hann leggur til að Frakkar og Þjóðverjar taki enn frekar yfir stjórn sambandsins. Hvernig er erfitt að sjá, þar sem þessar þjóðir hafa nú þegar tögl og haldir í stjórn þess.

Eina leiðin fyrir ESB, svo það fái lifað í einhverri mynd, er að auka enn frekar rétt þjóða til lýðræðis. Að auka vægi smærri þjóðanna og láta af öllum hugmyndum um eitthvað stórríki Evrópu. Þá þarf að draga stórlega úr því sukki sem tíðkast í rekstri þessa sambands, en sem dæmi hafa reikningar þess ekki fengist samþykktir í áraraðir, vegna misræmis. Þjóðir sem hvattar eru af sambandinu sjálfu til að sýna fyrirhyggju og ráðdeild í fjármálum, sætta sig ekki við það sukk sem tíðkast í rekstri ESB. Þetta þarf að vinna hratt og vel. 

Að öðrum kosti munu fleiri lönd fylgja fordæmi Breta. Þá gæti farið svo að innan skamms tíma verði einungis eitt ríki innan ESB, Þýskaland.

 


mbl.is Frakkar og Þjóðverjar taki frumkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr forseti

Þjóðin hefur valið sér nýjan forseta, Guðna Th Jóhannesson. Það er því við hæfi að óska þeim ágæta manni og hans fjölskyldu til hamingju.

Ekki kaus ég Guðna, þó ég hafi vissulega kosið rétt, eftir eigin sannfæringu. Og lítið get ég gert við því þó ekki hafi verið nægjanlega margir sammála mér. Svona er bara lýðræðið, meirihlutinn ræður og hinir verða að sætta sig við niðurstöðuna.

Enginn efast um að Guðni er hinn mætasti maður, ljúflingur hinn mesti. Og enginn efast um að slík skapgerð er kostur fyrir forseta, en það þarf meira til. Forseti þarf að hafa staðfestu og dug. Staðfestu til að standa á sínu máli í þágu þjóðarinnar og dug til að halda því til streitu.

Því miður reyndi lítt á þessa kosti í kosningabaráttunni, sem var með eindæmum litlaus. Því er eftir að sjá hvort Guðni hefur þessa mannkosti, til samans við góðmennskuna. Það á eftir að sjá hvort hann hefur staðfestu til að standa með þjóðinni ef og þegar henni mislíkar störf stjórnvalda, jafnvel þó við stjórnvölinn sitja hans nánustu vinir. Og það á eftir að sjá hvort hann hefur dug til að standa með þjóðinni gegn hans vinum, ef og þegar til þess kemur.

Vonandi er Guðni meiri maður en fram kom í kosningabaráttunni, vonandi hefur hann staðfestu og dug til að standa með þjóðinni.

Íslendingar, innilega til hamingju með nýjan forseta, kosinn í lýðræðislegum kosningum.

Hamingjuóskir til þín og þinnar fjölskyldu Guðni Th Jóhannesson, verðandi forseti.


mbl.is Stefnan að sameina en ekki sundra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkuð seint í rassinn gripið

Það er nokkuð seint í rassinn gripið þegar búið er að gera í buxurnar.

Það lá fyrir þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að í báðum stjórnarflokkum var sterkur vilji til að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni yrði áfram í óbreyttri mynd. Í báðum flokkum er þetta meitlað í stefnuskrá og því eðlilegt að þessi vilji væri settur í stjórnarsáttmálann. Það eina sem vantaði var að ríkisstjórnin kæmi þessum vilja sínum og kjósenda sinna, til framkvæmda. Vitað var að skipulagsvaldið lá hjá borginni, þó landið væri að stæðstum hluta í eigu ríkisins og um flugöryggi landsins væri að ræða.

Í stað þess að vinda sér strax í málið og ganga þannig frá því að við vellinum yrði ekki hreyft, var bara beðið og skíturinn látinn leka hægt og rólega í buxurnar!

Þáverandi Innanríkisráðherra gerði síðan samning við borgarstjórn um að neyðarbrautinni skildi lokað og hluti af landi ríkisins færi til borgarinnar. Stjórnarliðar gerðu ekkert, létu sér vel líka og enn hélt drullan að leka í buxur þeirra. Hafi þeir haldið að slíkur samningur, undirritaður af ráðherra, væri ekki gildur, er fáviska þeirra meiri en hæfir þingmönnum og ráðherrum!

Þegar síðan kom að efndum þessa samnings ákvað nýr Innanríkisráðherra að láta málið fara fyrir dómstóla. Auðvitað verða dómstólar að dæma eftir lögum og málið tapaðist fyrir báðum dómstigum. Þar var ekki verið að dæma út frá öryggis- eða skynsemissjónarmiðum, ekki hvort tilvera vallarins væri öryggismál. Þar var einungis dæmt um hvort undirskrift ráðherra væri gild eða ekki og auðvitað er hún gild. Það væri undarleg stjórnsýsla ef svo væri ekki!

Það lá fyrir við upphaf stjórnarsamstarfs þeirra flokka sem nú eru við völd að borgarstjórn vildi koma vellinum burtu, með góðu eða illu. Það var ekki að ástæðulausu að þetta atriði væri sett í stjórnarsáttmálann. Þegar síðan þáverandi Innanríkisráðherra undirritaði samkomulagið við borgarstjórn, áttu stjórnarliðar að átta sig á alvarleik málsins. Þarna átti ríkisstjórnin að grípa inní og gera þær ráðstafanir sem til þurftu, svo vellinum yrði bjargað og til að forða ríkinu frá dómsmáli. Ekkert var þó gert, drullan lak bara áfram í buxurnar!

Nú, þegar drullan er komin upp á bak stjórnarliða á loks að gera eitthvað. Örfár starfsvikur Alþingis til kosninga og nánast útilokað að koma málinu gegnum þingið. Þetta er að öllum líkindum tapað stríð. Völlurinn mun missa öryggisbrautina á haustdögum og eftir örfá ár verður næstu braut lokað og þá mun völlurinn allur.

Talað hefur verið um byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Samkvæmt Rögnunefndinni (Dagsnefndinni) er talið að það sé mögulegt. Einungis hafa þó farið fram skrifborðsrannsóknir á þeirri framkvæmd, engar nauðsynlegar haldbærar rannsóknir liggja fyrir um þann stað eða hvort lendingarskilyrði þar sé til staðar. Þetta kemur fram í téðri skýrslu og lagt til að slíkar rannsóknir yrðu hafnar. Ekkert hefur þó verið unnið að málinu. Þá liggur ekkert fyrir um hver eða hvernig fjármagna skuli slíka byggingu. Auðvitað liggur í augum uppi að borgarsjóður fjármagni byggingu á nýjum flugvelli, það er jú borgin sem vill völlinn burt úr Vatnsmýrinni. En um þetta þarf auðvitað að semja, ef ný staðsetning finnst, staðsetning sem hefur sama flugöryggi og núverandi flugvöllur.

Þegar frá því hefur verið gengið, fundinn staðsetning sem uppfyllir flugöryggiskröfur og samið um hver skuli borga, er hægt að fara að huga að minnkum starfsemi í Vatnsmýrinni, samhliða uppbyggingu hins nýja flugvallar. Þar til þetta hefur verið gert, á ekki að hrófla við vellinum á neinn hátt. Ef ekki finnst önnur staðsetning, ef ekki næst samkomulag um hver skuli borga, mun flugvöllurinn í Vatnsmýri auðvitað verða rekinn áfram. Þá þarf að einhenda sér í uppbyggingu hans og gera hann þannig úr garð að hann geti enn frekar þjónað sínu hlutverki.

Ríkisstjórnin hefur staðið sig með eindæmum illa í þessu máli og það litla sem þaðan hefur komið einungis flækt það enn meira. Nú, þegar allt er komið í hönk, völlurinn að hverfa, þarf óbreyttur þingmaður að boða frumvarp til bjargar.

Hvers vegna í andskotanum var Hanna Birna ekki stoppuð af með undirskrift samkomulagsins? Hvers vegna í andskotanum var ekki strax hafist handa við að semja frumvarp til varnar flugvellinum og tilveru hans?

Af hverju þarf stjórnsýslan hér á landi alltaf að vera eins og hjá einhverjum hottintottum og virðist þar litlu skipta hver er við völd.


mbl.is Frumvarp um flugvöllinn í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Minnihlutalýðræði"

Á þessu kjörtímabili hefur orðið "minnihlutalýðræði" heyrst nokkuð oft. Hver höfundur þessa orðskrípis er þekki ég ekki, en eins og gefur að skilja vellur þetta bull oftast úr munni þeirra sem eru í minnihluta á Alþingi, þó einstaka þingmenn meirihlutans séu nokkuð skotnir í þessu orðskrípi. Samkvæmt því sem næst verður komist á merking þessa orðs að vera að þeir sem í meirihluta eru skuli hlusta á og fara að ráðum minnihlutans. Ekki að núverandi minnihluti hafi sýnt neina tilburði til þess á síðasta kjörtímabili.

Auðvitað er ekkert til sem heitir minnihlutalýðræði. Lýðræði byggir alltaf á kosningum og vilja meirihluta þeirra sem kjósa. Stjórnmálaflokkar setja sér stefnu og tala fyrir ákveðnum áherslum. Kjósendur meta það sem fyrir þá er borið og kjósa síðan þann flokk sem þeim hugnast best. Þeir flokkar sem ná að mynda meirihluta á Alþingi sjá síðan um stjórn landsins, samkvæmt þeim stefnum og áherslum sem þeir boðuðu kjósendum. Þannig er lýðræði og getur ekki með nokkru móti verið á annan hátt. Það fer enginn í kjörklefann til að kjósa einn flokk og ætlast síðan til að sá flokkur starfi eftir stefnu og áherslum annars flokks.

Því miður eru alltaf einhverjir stjórnmálamenn sem misskilja þetta hlutverk sitt, misskilja lýðræðið. Sumir telja sig með því vera einhverskonar sáttasemjara, að þeir séu að sætta mismunandi sjónarmið. Lýðræðið gengur ekki út á það, lýðræðið gengur út á að meirihlutavilji sé virtur!

Eitt gleggsta dæmið um þennan fáránleik er nú að bíta okkur landsmenn í rassinn, með ófyrirsjáanlegum og skelfilegum afleiðingum. Þegar stjórnmálamaður sem mikið hefur hælt sér af svokölluðum "sáttarstjórnmálum" (annað orðskrípi) komst í stól ráðherra, þá var eitt fyrsta verk þess stjórnmálamanns að undirrita samkomulag við meirihluta borgarstjórnar. Þetta samkomulag var í algerri andstöðu við stefnu þess flokks sem þessi stjórnmálamaður er í og í andstöðu við þær áherslur sem lofað var fyrir kosningar, nokkrum vikum fyrr. Þá var þetta samkomulag einnig í fullri andstöðu við stefnu og áherslur samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Því til viðbótar var þetta í algerri andstöðu við undirskriftasöfnun meðal kjósenda, þar sem yfir 70.000 manns rituðu nafn sitt.

Með þessu gerræði, sem gert var í nafni svokallaðrar sáttar, gekk þessi stjórnmálamaður freklega gegn vilja meirihluta kjósenda og niðurstaðan mun valda mikilli úlfúð meðal þjóðarinnar. Öryggi landsbyggðarfólks er sett að veði og gjáin milli landsbyggðar og höfuðborgar mun dýpka. 

Þarna má segja að orðskrípið "minnihlutalýðræði" opinberist best. Afleiðingarnar verða síðan enn frekari ósátt og illindi.


mbl.is Sorglegt að neyðarbrautin loki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hverja?

Fyrir hverja er nauðsynlegt að skipta Landsvirkjun upp?

Frá því Landsvirkjun var stofnuð, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hefur það fyrirtæki verið rekið á grunni samfélagsþjónustu, þ.e. hagnaðinum hefur verið skilað til landsmanna í formi ódýrrar orku. Hin allra síðustu ár hefur þetta breyst og fyrirtækið horfir meira og meira til auðsöfnunar. Enginn efast um að orkufyrirtæki gætu skilað verulegum hagnaði, sennilega engin fyrirtæki hér á landi betur í stakk búin til þess, einungis þarf að hætta að skila hagnaðnum beint til eigendanna í formi ódýrrar orku og milljarðarnir fara að safnast saman. Auðvitað eru það landsmenn sem þá milljarða borga í sjóði orkufyrirtækjanna.

Það eru fleiri fyrirtæki í orkuframleiðslu en Landsvirkjun, fyrirtæki sem sum eru í eigu sveitarfélaga og sum í einkaeigu. Þessi fyrirtæki eru flest lítil miðað við Landsvirkjun og verða í raun að fylgja verðlagningu þess.  

Það er því í raun pólitísk ákvörðun hvort Landsvirkjun verður nýtt í samfélagsþágu og verð orkunnar til landsmanna þannig að aðrar þjóðir öfundi okkur.

Nú hefur danskur hagfræðingur, að beiðni samtaka iðnaðarins, komist að þeirri niðurstöðu að þetta kerfi okkar sé ekki nógu gott, að skipta þurfi upp fyrirtækinu og helst selja alla partana úr því. Þannig myndist það sem hann kallar "eðlileg samkeppni" um orkuverð.

Þá er bara spurningin, eðlileg fyrir hverja?

Við þekkjum öll hvernig samkeppni virkar hér á landi, þarf ekki annað en horfa til bankanna, eldsneytissölu, flutninga, nú eða matvöruverslana. Samráð og sukk er allsríkjandi og allir nema neytendur græða. Svo mun einnig fara ef verð á orku fær að ráðast á einhverjum gervimarkaði. Þá fyrst fara orkufyrirtækin að græða á kostnað landsmanna.

Og hvers vegna þarf að selja þetta fyrirtæki? Hvers vegna má stæðsti hluti orkuframleiðslunnar ekki vera á einni hendi? Hvers vegna má ekki leiðandi fyrirtæki, sem rekið er á samfélagsgrunni, vera áfram?

Auðvitað getur reynst erfitt fyrir hagfræðinga að skilja hugtakið samfélag, enda þeirra hugur allur fastur við að græða sem mest. Þeim danska er því kannski smá vorkunn.

Eins og áður segir þá hefur stjórn Landsvirkjunar horft frekar til auðsöfnunar en hins samfélagslega þáttar, sem fyrirtækinu var þó uppálagt að sinna, við stofnun þess. Þarna kemur til breyting á lögum um fyrirtækið, breyting sem ekki var til góðs fyrir landsmenn.

Eitt að þeim "sóknartækifærum" sem fyrirtækið hefur fundið er sæstrengur til annarra landa. Sumir halda vart vatni vegna þessa glópagulls, meðan aðrir reyna að vara við skelfingunni.

Vitað er að orkuverð mun hækka verulega við lagningu slíks sæstrengs og það eitt ætti að hringja bjöllum hjá eigendum þessa fyrirtækis, landsmönnum. Þá eru efasemdir um fjárhagslega hlið málsins. Allir útreikningar gera ráð fyrir að Bretar niðurgreiði orkuna verulega en jafnvel þá hlaupa útreikningar Landsvirkjunar á gróðanum á hundruðum milljarða, eða frá nánast engum gróða upp í nokkur hundruð milljarða. Trúverðugleiki útreikninganna er því enginn!

Ef einhverjar breytingar þarf að gera á þessu fyrirtæki okkar landsmanna, ætti að horfa til þess eins að styrkja það sem samfélagsfyrirtæki. Að Landvirkjun verði ávallt í eigu landsmanna og að arði þess verði ávallt skilað í formi eins lágs orkuverðs og hugsast getur.

Þá ættu allar á fyrirtækinu að ákvarðast af eigendum þess, þ.e.landsmönnum öllum. Við þurfum ekki danskan hagfræðing á launum hjá samtökum iðnaðarins til að segja okkur fyrir verkum, jafnvel þó þar fari hinn vænsti maður.

 

 


mbl.is Landsvirkjun verði skipt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband