Tekjur og skuldir ríkissjóðs

Skuldir ríkissjóðs verða aldrei greiddar niður með aukinni skattpíningu. Einungis aukin verðmætasköpun og hagræðing í rekstri ríkisins, getur unnið á þeim. 

Þegar lifað er um efni fram þarf að skoða hvað er í ólagi og laga það. Rekstur ríkissjóðs ber þess merki að að lengi hafi verið safnað skuldum umfram tekjur. Sér í lagi á tíma ríkisstjórnar Katrínar og því miður virðist þessi ríkisstjórn sem nú situr, vera einstaklega dugleg við að sóa fé í alls kyns óþarfa, einkum á erlendri grundu þar sem afraksturinn hverfur úr landi. 

Aukin verðmætasköpun fæst ekki með aukinni skattpíningu, þvert á móti leiðir slík píning til samdráttar og afturfarar. Skuldir aukast vegna minni tekna ríkissjóðs. 

Hagræðing í rekstri ríkisins ætti að vera forgangsatriði. Allir peningar sem frá ríkissjóð koma, ættu að nýtast hér innanlands, svo afrakstur þeirra haldist í landinu. En það er víðar sem hægt er að spara. Lokun landamæranna er forgangsatriði. Sú sóun fjár sem opnun þeirra leiðir af sér er ekki með nokkru móti réttlætanleg. Þá er ríkisbáknið sjálft orðið ósjálfbært, nærri 30% launþega orðnir starfsmenn ríkisins og stefnir hratt í 50%! Á þessu þarf að taka. Það getur engin þjóð staðið undir því að helmingur launþega þurfi að halda uppi hinum helmingnum, sér í lagi þegar verðmætasköpunin sjálf er á enn færri höndum. Það mun leiða til tortímingar.

Þegar við vorum bláfátæk þjóð gátum við byggt upp sjúkrahús vítt og breytt um landið, skólar voru í hverri sveit og héraðsskólar til framhaldsmenntunar í hverju héraði. Ekki var neitt vandamál að manna þessar stofnanir og fólk gat leitað sér lækninga í héraði og börnin fengu góða menntun í heimasveit og síðan undirstöðu til háskólanáms eða hinna ýmsu starfa, í héraði. 

Nú er Ísland talið með ríkustu þjóðum heims. Héraðssjúkrahúsin verið lögð niður og kallast nú heilsugæslustöðvar, þar sem minnstu krankleika er hægt að laga en öll meiri veikindi þarf að bæta í einni stofnun á höfuðborgarsvæðinu Háskólasjúkrahúsinu, ef mannskapur fæst. Skólum til sveita hefur fækkað verulega og börn, sum hver, þurfa að ferðast daglega langa leið til skóla, ekki óalgengt að þau þurfi að sitja í bíl hátt í eina klukkustund, aðra leiðina. Héraðsskólar hafa allir verið aflagðir og nokkrir framhaldskólar, gjarnan staðsettir í stærri bæjarfélögum, reistir í staðinn. Flestir þó á höfuðborgarsvæðinu. Börn fá því ekki lengur framhaldsmenntun heima í héraði, þurfa að flytja burtu til að stunda nám sitt. Það sem verra er að menntun unga fólksins hefur dalað verulega, svo mikið að Ísland er í flokki vanþróaðra ríkja á því sviði. Skortur á hæfu fólki til að mennta börnin okkar er helsta skýringin auk kol rangrar stefnu í menntamálum. Því koma sum hver ólæs úr skólunum og fara þannig í háskólana. Enginn skortur er á þeim og enginn skortur á kennurum þar, þó hráefnið sem þeir fá til meðhöndlunar sé oftar en ekki stór gallað vegna lélegs undirbúnings. 

Þessir tveir liðir, heilbrigðismál og menntunarmál eru stærstu liðir í útgjöldum ríkissjóðs. Fjármagnið sem til þessara tveggja liða fer, fer hækkandi með hverju ári samhliða minni þjónustu. Þarna er eitthvað stórt að. Tálga mætti töluvert fjármagn til baka ef kjarkur væri til að taka á þessum þáttum og jafnvel auka þjónustuna. Auðvitað þarf að eyða öllum blýantsnögurum í kerfinu, fólkinu sem fjármálaráðherra sagði að væru áskrifendur að launum sínum.

Alla vega er fullt tilefni til að skoða rekstur ríkissjóðs, velta við hverri krónu. Jafnvel spurning að setja á stopp á ráðherra í eyðslusemi, að banna þeim að eyða einni krónu nema samþykki Alþingis liggi fyrir. 

Málið er ósköp einfalt fyrir alla nema hagfræðinga, tekjur þurfa alltaf að duga fyrir gjöldum. Hagfræðingum tekst að snúa þessu við. 


mbl.is Vaxtagjöld hvers einasta íbúa nemi 314.000 kr. á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband