Framtíðarnefnd
21.5.2025 | 07:59
Ekki vissi ég að til væri svokölluð framtíðarnefnd á Alþingi. Verkefni hennar frekar óljóst, þó er vitað Alþingi getur ekki vísað ákveðnum málum til nefndarinnar.
Nú hefur varaformaður nefndarinnar lagt til að Framtíðarnefnd verði lögð af, að loknum skipanatíma hennar. Forseti Alþingis er hins vegar á því að mikilvægi þessarar nefndar sé svo mikið að nauðsyn beri til að lengja þann skipunartíma.
Það er ekki öll vitleysan eins og fjarri því að síðasti hálfvitinn sé fæddur. Hvað höfum við við Framtíðarnefnd að gera, nefnd sem ekki er hægt að vísa málum Alþingis til en aðrar nefndir geta leitað álits hjá? Skilgreint markmið nefndarinnar er svo loðið að hálfa væri nóg. Þessi nefnd er því algerlega þarflaus og gagnlaus.
En kannski eru þeir sem í nefndinni sitja svo miklir vitringar að þeir sjái fyrir um framtíðina, nú eða að þeir ráði yfir einhverri kristalkúlu. Man reyndar ekki eftir neinni afurð nefndarinnar, en framtíðin er jú ekki enn komin. Þegar varaformaður nefndarinnar telur hana vera þarflausa, er nokkuð ljóst að svo er. Ekki viðtekin venja að nefndarmenn telji sína nefnd óþarfa, hvað þá þeir sem titlaðir eru í efstu lögum nefnda. Oftast halda stjórnmálamenn föstum tökum í sínar nefndir, gefa út misvitrar skýrslur til að sanna tilveru þeirra. Vilja halda lífi í þeim svo lengi sem mögulegt er. Það er því nokkuð ljóst að þegar varaformaður nefndar telur hana ekki þjóna tilgangi, er nefndin gagnslaus og ber að leggja af.
Hvar er nú öll hagræðingin sem stjórnvöld boðuðu? Ef ekki er hægt að stöðva tilraun sem fyrirséð að myndi mislukkast, hvernig fer þá með aðrar hagræðingaráætlanir stjórnarinnar? Ef nefnd sem á að spá um það sem útilokað er að spá, þ.e. framtíðina, er talin svo mikilvæg, hvað þá með aðrar nefndir og stofnanir sem Alþingi ræður yfir?
Ég segi því aftur, það mun seint fæðast síðasti hálfvitinn. Verra er að þeir virðast hafa þá tilhneigingu að safnast saman í þingsal Alþingis.
![]() |
Segir framtíðarnefnd tilraun sem eigi að ljúka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Kannski mun framtíðin leiða í ljós hlutverk nefndarinnar. Athyglisverðara að það sé engin nútíðarnefnd starfandi. Fortíðarnefnd er þó með öllu óþörf þar sem núverandi stjórnarandstaða fer með það hlutverk.
Guðmundur Ásgeirsson, 21.5.2025 kl. 22:06
Að fortíð þarf að hyggja ef vel á að byggja, Guðmundur. Gleymum ekki þeirri staðreynd.
Varðandi nefndir til að skoða fortíð, nútíð eða framtíð, sé ég reyndar ekki tilgang. Það eru margir sem skoða fortíðina, sumir sem vilja breyta henni, sem auðvitað er erfitt. Um nútíðina þá er hún hverju sinni, rétt eitt augnablik. Um framtíðina eru margir fúsir til að spá, þó það reynist flestum erfitt. Framtíðin á nefnilega til að fara sínar eigin leiðir og stundum taka óvænta stefnu.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 21.5.2025 kl. 22:51
Í raun og veru er ekkert til nema nútíðin, því fortíðin er horfin og framtíðin ekki orðin. Þó er ekki þar með sagt að hvorugt sé raunverulegt því minningar okkar eru til vitnis um fortíðina og af reynslu hennar vitum við að framtíðin mun koma (a.m.k. fram að heimsendi).
Guðmundur Ásgeirsson, 21.5.2025 kl. 23:16
Nútíðin er stutt. Þegar ég lét renna í bollan minn áðan, var það í fortíðinni. Líklega mun ég klára að drekka úr honum í framtíðinni. Það er þó ekki endilega víst, margt gæti breytt þeirri spá. Ég gæti rekið mið í bollann og kaffið hellst niður, nú eða ég gleymt að drekka það og þegar það er orðið kalt, farið og hellt glundrinu í vaskinn. Um þetta veit ég auðvitað ekki, enda í framtíðinni.
Hitt veit ég að í fortíðinni lét ég renna kaffi í þennan bolla, eitthvað sem þegar er orðið.
Nútíðin er hins vegar mjög stutt, reyndar bara eitt augnablik. Af henni getum við hvorki lært né spáð til um. Hún bara er.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 22.5.2025 kl. 01:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.