17. júní og starfsmenn þjóðarinnar

Vil byrja á að óska landsmönnum öllum til hamingju með daginn.

Í viðhengdri frétt af hátíðarræðu forsætisráðherra, kemur fram að hann hefur áhyggjur af framtíð lýðræðis okkar. Undir það má vissulega taka, þó kannski meiningarmunur sé á hver orsökin er.

Ráðherra telur hættuna stafa að samfélagsmiðlum og þeirri umræðu sem fram fer þar. Nefnir skautun, ógagnrýna hugsun, stutt myndskeið og falsfréttir í því sambandi. Umræða á samfélagsmiðlum er ekki hættulegt fyrirbrigði, heldur spegill þjóðarinnar. Skilji stjórnmálamenn ekki þá staðreynd eru þeir ekki starfi sínu vaxnir.

Þar liggur kannski hundurinn grafinn, stjórnmálamenn skilja ekki þjóðina. Og þar liggur hætta lýðræðis okkar. Undanfarna tvo og hálfann áratug hafa stjórnvöld markvisst unnið gegn lýðræði landsins. Þó hefur keyrt úr hófi síðustu ár. Með samþykkt aðild að EES samningnum, á tíunda áratug síðustu aldar, með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi og án þess að þjóðin fengi þar nokkra aðkomu, hófst þessi vegferð til slátrunar á lýðræði okkar. Þar var samþykkt óheft flæði fólks, fjármagns og verslunar, milli Íslands og ESB/EES ríkja. Síðan hefur verið settar á okkur auknar kvaðir á flestum sviðum, þó einkum krafa um einkavæðingu á sem flestum sviðum. Einkavæðing er í sjálfu sér ekki slæm, en það er ýmis grunnþjónusta sem útilokað er að einkavæða hjá lítilli þjóð í stóru landi.

Einungis tók rúman áratug fyrir misyndismenn að komast yfir bankakerfið okkar og í krafti frjáls flæðis fjármagns settu þeir landið okkar nánast á hausinn. Eitt lítið dæmi, sem þó skiptir miklu máli fyrir fjölda landsmanna, er einkavæðing póstflutninga. Í fyrstu virtist þetta litlu máli skipta, enda sett yfir málaflokkinn stofnun sem átti að sjá um að þjónustan yrði virk. Ekki leið á löngu áður en farið var að heimila einkafyrirtækinu að sleppa póstburði á einstaka bæi og síðan fór pósthúsum á landsbyggðinni að fækka. Nú er svo komið að fjöldi bæja fær ekki borinn til sín póst, vegna óhagkvæmni fyrir fyrirtækið og enn stærri hópur fólks, heilu sveitarfélögin og byggðakjarnarnir, hafa ekki lengur aðgengi að pósthúsi í heimabyggð.

Að hafa óskorað vald yfir auðlindum okkar er hornsteinn þess að við getum haldið uppi lýðræði okkar. Af þeim sökum var sjávarútvegi og landbúnaði haldið utan EES samningsins og hefur það að mestu haldið. Hellst að gengið sé á rétt bænda, þeir látnir gangast að kröfum ESB á ýmsum sviðum. 

Orkumál komu hins vegar ekki til umtals við gerð EES samningsins, enda þau ekki orðin það bitepli heimsbyggðarinnar sem nú. Það leið þó ekki á löngu er ESB tók þau mál í sína gíslingu, fyrst innan eigin ríkja en fljótlega færð yfir í EES samninginn. Samþykkt Alþingis á fyrsta orkupakka ESB voru stór mistök og algerlega óþörf. Það var þó ekki fyrr en annar orkupakkinn tók gildi sem landsmenn áttuðu sig á hvert stefndi. Þá fóru að taka hér gildi ýmis lög og reglur ESB, eins og t.d. að skipta upp fyrirtækjum er að orkumálum stóð. Sama fyrirtækið mátti ekki lengur hafa með höndum framleiðslu orku, flutning hennar og sölu. Þetta leiddi óneytanlega til þess að orkuverð hækkaði, einkum flutningur hennar. Lengi vel reyndu stjórnvöld hér að hundsa þessa reglugerð en urðu að lokum að láta undan kröfum ESB.

Það var svo orkupakki3 sem í raun færði ESB öll völd yfir íslensku orkunni. Sá orkupakki fjallar um að yfirstjórn orkumála skuli vera hjá ACER, orkustofnun ESB. Skylt var að setja á stofn orkumarkað um sölu orkunnar og eru nú þegar fjöldi fyrirtækja sem sjá um að selja orku. Slíkir milliliðir þurfa sitt, sem auðvitað kemur í hlut neytanda að greiða. Megin stef þessa pakka er þó frjáls flutningur orku milli landa. Þar setti Alþingi svokallaðan varnagla, sem auðvitað mun ekki halda gegn ACER. Þegar Alþingi samþykkti op3, var hann búinn að vera í gildi um hríð í ESB og stofnun ACER orðin að veruleika. Og það sem kannski skiptir mestu máli, ESB var þá þegar búið að samþykkja orkupakka4, sem Alþingi hefur ekki samþykkt. ACER vinnur því samkvæmt op4 og getur ekki annað. Því má segja að ef koma upp mál sem fara fyrir þá stofnum, verður hún að afgreiða þau samkvæmt op4, þó Alþingi hafi ekki samþykkt hann enn.

Bókun 35 er svo síðast naglinn í kistu okkar lýðræðis. Verði sú bókun samþykkt, munu íslensk lög þurfa að víkja fyrir lögum ESB. Alvarleiki þess máls er gífurlegur. Réttarkerfið hér færi á hvolf. Lög sem hér hafa gild í árhundruð munu þá víkja. Þeir sem muna umræðuna um samþykkt EES samninginn á Alþingi, muna ástæðu þess að þessari bókun var haldið frá samningnum. Svo nærri stjórnarskránni var samningurinn talinn vega, að með þessari bókun var ekki hægt að samþykkja hann. Þetta var gert með vilja og samþykki Evrópubandalagsins, forvera Evrópusambandsins. Engar breytingar hafa orðið á þessu sjónarmiði, jafnvel þó ljóst sé að framkvæmd EES samningsins hafi gengið enn nær stjórnarskrá en lofað var.

Ekki ætla ég að ræð mikið um landsölu stjórnmálamanna. Þó verður að nefna að það æði sem hefur gripið um sig í vindorkumálum mun ekki styrkja lýðræðið okkar! Það er með öllu útilokað að hægt sé að bjarga náttúrunni með því að fórna henni.

Það er vissulega rétt hjá forsætisráðherra, lýðræði okkar á undir högg að sækja. Ekki vegna umræðunnar á samfélagsmiðlum, umræðu þjóðarinnar. Skautun dæmir sig sjálf, falsfréttir má leiðrétta, þ.e. eftir að menn ná að skilgreina falsfrétt. Stjórnmálamenn eru sífellt oftar að nota það hugtak yfir þá umræðu sem ekki hentar þeim. Falsfrétt hlýtur þó að vera eitthvað sem er ósatt og sannleikurinn kemur alltaf fram um síðir. Eftir sem áður er umræða þjóðarinn spegill hennar.

Lýðræðið okkar er í hættu vegna þess að stjórnmálamenn skilja ekki sitt hlutverk, að þeir eru starfsmenn þjóðarinnar. Verði ekki gripið skjótt inní og þessum starfsmönnum gerð grein fyrir því fyrir hverja þeir eiga að vinna, er óvíst hversu oft enn við getum óskað hverju öðru til hamingju með þennan hátíðisdag okkar!!


mbl.is Þakkaði Guðna og óskaði Höllu velfarnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já ef forsætisráðherra óttast um lýðræði okkar,get ég ekki annað en trúað því að hann búi yfir bestu ráðum til varnar sjálfstæðinu og nýti þau meðan hann hefur völd til þess.

Helga Kristjánsdóttir, 18.6.2024 kl. 03:05

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og tuttugu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband