Fáviska SA

Það er alvarlegt mál þegar framkvæmdastjóri SA hefur ekki meiri þekkingu á kjarasamningum en virðist vera nú. Hún hleypir kjaragerð í uppnám á þeirri stundu er nánast er lokið samningsgerð, lætur stranda á endurskoðunarákvæði. Hún virðist ekki átta sig á að verkalýðshreyfingin hefur einungis eitt vopn í sínum fórum og ef ekki næst samningur verður því vopni auðvitað beitt.

Samningur sem á sér vart sögulegar forsendur liggur á borðinu. Þar hefur forusta verkalýðshreyfingarinnar teygt sig lengra en nokkurn tíman áður, jafnvel svo að ærlegt verk verður að fá þann samning samþykktan af launafólki. Kjarabætur eru langt frá því að bæta það tap er verðbólgan hefur stolið af launafólki,  þó ekki æðstu stjórn landsins. Þeirra laun eru verðtryggð. Og auðvitað ekki heldur forstjórum og þeirra næsta fólki. Það skammtar sér laun sjálft. En almennt launafólk hefur tapað miklu á verðbólgunni og eins og áður segir, þá er fjarri því að sá samningur sem nú liggur á borði bæti það tap, þó ástæða þessarar verðbólgu sé fjarri því launþegum að kenna.

Ástæða þess að forusta launþega hefur valið þessa leið, þá leið að gefa verulega eftir í því að fá bætt verðbólgutapið, er auðvitað sú viðleitni að kveða niður verðbólgudrauginn. Að sína í verki að launþegar leggi sitt af mörkum í þeirri baráttu, enda stærsta kjarabótin að verðbólgan lækki og vextir samhliða. Um þetta hefur forustan talað frá upphafi þessarar kjaragerðar.

En það eru ekki allir sem tapa á verðbólgudraugnum. Bankar græða á tá og fingri, fyrirtæki geta auðveldlega fært kostnaðinn út í verðlagið og fóðrað drauginn. Eins og áður segir eru æðstu stjórnendur með sín laun verðtryggð og þeir sem ofar eru í launastiganum, margir hverjir í þeirri stöðu að skammta sér laun. 

Því er eðlilegt að forusta launafólks setji fram kröfu um endurskoðunarákvæði í samninginn. Það er forsenda þess að samningurinn fáist samþykktur af launafólki. Það er ekki tilbúið að semja til langs tíma um lág laun, í baráttu við drauginn, ef ekki er hægt að skoða hvort aðrir taki þátt í þeirri baráttu og ef svo er ekki, þá falli samningurinn. Krafan um slíka endurskoðun er eftir eitt ár, en þá liggur fyrir hverjir standa við sitt. Boð SA er hins vegar að slík endurskoðun verði ekki fyrr en undir lok samningsins, eitthvað sem launþegar munu aldrei samþykkja, hvað sem forusta þeirra gerir.

Ef framkvæmdastjóri SA áttar sig ekki á þessum staðreyndum er hún óhæf í starfi. Þá mun hún baka sínum umbjóðendum miklum skaða, sem og þjóðfélaginu. Verkfallsvopnið mun verða virkjað.

Ég vona innilega að vinnuveitendur framkvæmdastjórans geri henni grein fyrir alvarleik málsins, eða skipi annan í hennar stað við samningsborðið. Það má ekki verða að launþegar neyðist til að beita sínu eina vopni, vegna fávisku fulltrúa SA.

 


mbl.is Segir fullyrðingar Vilhjálms rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tregða SA til að gera verðbólgusamninga, eins og SA gat gert síðast og oft áður, er óskiljanleg. Það er nú einu sinni hefð fyrir því að gera verðbólguhvetjandi samninga. Eða eins og stéttarfélögin segja óbeint, á meðan eitthvað fyrirtæki á Íslandi skilar hagnaði viljum við margar krónur frekar en lága verðbólgu. Og nú erum við að gefa verulega eftir miðað við síðustu verðbólgusamninga, viljum bara komast á sama stað og við vorum þegar launin settu ofvöxt í verðbólguna, en heimtum endurskoðunarákvæði sem tryggja áframhaldandi verðbólgu. Það köllum við hófstyllta og sanngjarna kröfu. 

Laun æðstu stjórnar landsins eru ekki verðtryggð. Þau fylgja launavísitölu. Þannig að þeir fá bara þær hækkanir sem almenningur hefur fengið.

Vagn (IP-tala skráð) 11.2.2024 kl. 11:50

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Tenging launa við vísitölu kallast verðtrygging, Vagn. Og vísitala launa nær yfir öll laun í landinu, ekki bara laun almennings. Þannig að þegar laun æðstu ráðamanna eru hækkuð samkvæmt launavísitölunni, hækkar sú vísitala enn frekar. 

Annað er ekki svaravert í þinni athugasemd.

Gunnar Heiðarsson, 12.2.2024 kl. 05:37

3 identicon

Þegar laun æðstu ráðamanna eru hækkuð samkvæmt launavísitölunni, hækkar sú vísitala ekkert. Til þess þurfa þeir af fá meira en sem nemur hækkuninni sem aðrir fá. Og fái þeir minna lækkar launavísitalan.

Á Íslandi skilja flestir verðtryggingu þannig að hið verðtryggða haldi verðgildi sínu. Og það verður ekki sagt að laun á Íslandi haldi verðgildi sínu og launavísitalan endurspegli verðgildi peninga. Að miða við vísitölu sem hefur ekkert með verðgildi að segja verður seint skilið sem verðtrygging, sama hvort það sé launavísitalan eða hamingjuvísitalan.

Vagn (IP-tala skráð) 12.2.2024 kl. 12:18

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú skilur greinilega ekki hvað verðtrygging er, Vagn.

Það er hægt að verðtrygga hvað sem er við hvaða þá vísitölu sem er. Ein skilyrðið að vísitalan sé til og henni við haldið. 

Og þegar eitthvað er verðtryggt, t.d. laun við launavísitölu, hækkar sú vísitala í hvert sinn sem laun þeirra er hafa hærri laun en meðaltalslaun vísitölunnar, hækka. Þetta er einfalt reiknidæmi, kennt í barnaskóla, eða var að minnsta kosti kennt þar á árum áður.

Gunnar Heiðarsson, 12.2.2024 kl. 14:31

5 identicon

Það er hægt að tengja við vísitölu, hvaða vísitölu sem er. En það er ekki verðtrygging, það er bara tenging við vísitölu. Hamingjuvísitalan mundi til dæmis ekki verð tryggja neitt. Laun tengd við hana gætu verið sultarlaun einn mánuðinn en ofurlaun þann næsta.

Launavísitala hækkar um meðaltal(kennt í barnaskóla) prósentuhækkunar launa, ekki meðaltal launa, og er alveg ótengd því hver launin eru. Það eru ekki til nein meðaltalslaun í útreikningum launavísitölunnar. Þegar laun eru tengd við launavísitölu, hækka launin um þá prósentu sem launavísitalan hefur hækkað um. Hvort laun eru há eða lág skiptir engu máli og hefur engin áhrif á vísitöluna. Launavísitala mælir meðaltal prósentuhækkunar launa, og það eina sem breytir því meðaltali eru frávik frá meðaltalinu. Eða eins og kennt er í barnaskóla, meðalaldur tveggja tíu ára krakka er sá sami og hundrað tíu ára krakka og þó þúsund tíu ára krakkar bætist við þá er meðalaldurinn enn sá sami.

Vagn (IP-tala skráð) 12.2.2024 kl. 18:02

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þú er alveg ágætur Vagn.

Gunnar Heiðarsson, 12.2.2024 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband