Vilja Grindvíkinga ber að virða
17.1.2024 | 08:38
Náttúruöflin hér á landi eru ægileg. Þegar þau láta að sér kræla ber okkur skilda til að halda vel utanum það fólk sem fyrir verður. Þar duga ekkert yfirlýsingar ráðamanna um hversu duglegir við landsmenn séum, að við munum komast gegnum þetta, dugir ekkert "þetta reddast" hugarfarið. Það virðast þó ríkt í hugum þeirra sem stjórna landinu okkar á þessum viðsjárverðu tímum náttúruhamfara.
Trekk í trekk dynja ósköp yfir Grindavík og nú síðast hraunrennsli inn í bæinn og nýtt og enn viðsjárverðara sprungusvæði, sem var þó ærið fyrir. Og nú tala jarðfræðingar um að þetta sé í raun einungis byrjun á enn stærri atburðum, eða gætu veri það. Grindavíkurbær er þegar að stórum hluta óbyggilegur og enn eftir að fá úr því skorið hversu umfangsmikið sprungusvæðið er orðið. Því er óvíst hvort eða hvenær hægt verður að byggja upp aftur.
Engir eru dómbærari á það hvernig staðið skuli að aðstoð við íbúana, en þeir sjálfir. Einungis þeir hafa reynsluna og einungis þeir geta sagt hvernig skuli staðið að verki. Allir aðrir eru óhæfir til þess verks, allra síst stjórnmálamenn. Það er útilokað með öllu, fyrir nokkurn mann að setja sig í spor Grindvíkinga.
Nú hefur verið haldinn íbúafundur og vilji þeirra er skýr. Þeir vilja losna frá þessum hörmungum, vilja losna við hús sín, vilja geta hafið líf á nýjum stað. Þegar yfir lýkur munu sjálfsagt einhverjir sækja heim aftur, en það geta verið ár eða áratugir þar til slíkt verður framkvæmanlegt. Þessi vilji er skýr og sennilega fáir landsmenn sem setja sig upp á móti þeim vilja íbúana. Það er hins vegar stjórnvalda að hrinda þeirri framkvæmd í verk og þar duga hvorki vettlingatök né slóðaskapur. Þetta verk þarf að vinna hratt og örugglega, svo Grindvíkingar geti farið að horfa fram á veginn. Það er þegar búið að leggja meira á þá en góðu hófu gegnir.
En þar kemur babb í bátinn. Ekki einungis eru stjórnmálamenn hikandi, heldur er neikvæðni þeirra hrópleg. Gert meira úr kostnaði en efni eru til og yfirleitt sú lausn sem íbúar vilja töluð niður. Rætt um aðrar og jafnvel dýrari lausnir. Stjórnmálamenn telja sig vita betur hvernig Grindvíkingum lýður en þeir sjálfir, þykjast vita meira um vilja íbúanna en þeir sjálfir. Þetta kallast á vægu máli hroki.
Fjármálaráðherra kom fram með tölur á fundinum, sagði það kosta 120 milljarða að kaupa upp húseignir í Grindavík. Inn í þeirri tölu er innbú, sem í flestum tilfellum má enn bjarga. Því er upphæðin nokkuð lægri. Ekki er enn búið að meta öll tjón á húsum í bænum og ekki byrjað að meta það tjón sem kom upp í síðustu ósköpum. Því er ekki vitað hversu mörg hús þarf þegar að kaupa upp, en kostnaður við þau kaup dregst að sjálfsögðu frá þeim hundrað milljörðum sem ráðherra nefndi. Ekki nema hún telji vera hægt að komast hjá að bæta þau einnig. Því er endanlegur kostnaður við kaup á þeim húsum sem ekki dæmast ónýt, kannski ekki svo hár og sjálfsagt gæti ríkissjóður yfirtekið lán sem hvíla á mörgum þeirra og þannig dreift greiðslubyrgði yfir lengri tíma.
En það er ekki bara að sum húsin séu skemmd. Landið er stórskemmt og hættulegt. Það er ekki nóg að eiga heilt hús ef ekki er hægt að fara út fyrir dyr þess án þess að eiga á hættu að hverfa ofaní jörðina. Það fer enginn með börn inn á slíkt svæði, jafnvel þó sjálft húsið sé heilt. Ef umhverfið er ekki öruggt er húsið jafn ónýtt fyrir eigandann, þó ekki sjáist á því sprungur.
Það minnsta sem hægt er að gera í stöðunni í dag er að fara að vilja Grindvíkinga, að losa þá frá þeirri skelfingu sem þeir hafa búið við. Um það ætti ekki að þurfa að deila, jafnvel þó kostnaður sé einhver. Hann skilar sér fljótt aftur. Í það verkefni þurfa stjórnvöld að einhenda sér.
Úrtölur eða hroki er ekki til bóta í stöðunni nú.
Forsíða Morgunblaðsins: Nístandi óvissa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þá þarf einfaldlega að dæma bæinn óbyggilegan og fara með jarðýtu á hann allan. Og þá í framtíðinni jafnvel Hveragerði, Voga, Garðabæ og Hafnarfjörð. Útborgun eigna kemur ekki til greina nema öryggissjónarmið krefjist niðurrifs. Vilji, óskir og vonir íbúanna eiga þar engu að ráða. Fólk lendir í áföllum um allt land án þess að ríkið komi stöðugt til bjargar. Og margir nú þegar verr settir en Grindvíkingar.
Vagn (IP-tala skráð) 18.1.2024 kl. 08:56
Takk fyrir þitt innlegg Vagn. Ég virði þína skoðun þó ég sé fjarri því sammála.
Gunnar Heiðarsson, 18.1.2024 kl. 23:12
Svo er spurning hvað svona skuldaaukning og útgjöld ríkisins umfram fjárlög hefðu mikil áhrif á verðbólgu og gengi krónunnar. Er réttlætanlegt að frysta eða lækka kaupmátt launa og halda heimilum landsins í fjötrum hárra vaxta einhverjum árum lengur svo Grindvíkingar geti vandræðalaust flutt? Er gáfulegt að leggja þannig óbeinan skatt á heimilin upp á tugi eða hundruð þúsunda eftir skuldastöðu? Hvað er sanngjarnt að margar fjölskyldur missi heimili sín fyrir hugarró Grindvíkinga? Hvaða fyrirtæki má setja á hausinn?
Það þarf að passa það að ákafinn við að aðstoða Grindvíkinga með ríkisskuldum skapi ekki margfeldisáhrif á vaxtagreiðslur annarra og önnur stærri og illleysanlegri vandamál.
Vagn (IP-tala skráð) 19.1.2024 kl. 02:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.