Við brúsapallinn
8.10.2023 | 09:23
Síðasta fimmtudag kom Bændablaðið til okkar lesenda þess. Magnað hvað blaðinu tekst ætíð að ná fram því jákvæða í fréttum af bændum, kannski um of. Glensið er ekki langt undan á síðum blaðsins, eins og fyrirsögn fréttar um að 500 manns hafi verið á hesti. Ekki slæmt að eiga slíkan gæðing.
Þegar sest er við brúsapallinn er ekki annað hægt en að hugsa til þeirrar graf alvarlegu stöðu sem bændur landsins standa frammi fyrir, þrátt fyrir að Bændablaðinu takist að láta líta svo út að þar sé allt í besta lagi. Sjaldan eða aldrei, frá því land byggðist, hefur staða landbúnaðar verið jafn slæm og nú. Bændum fækkar sem aldrei fyrr og þeir sem eftir standa draga við sig í búskap. Byggðir eru að fara í eyði, endurnýjun bændastéttarinnar er nánast útilokuð og þeir sem hafa dug og djörfung til að reyna slíkt, enda oftar en ekki sem gamalmenni fyrir aldur fram og jafnvel eignalausir eftir nokkurra ára strit. Ungir bændur hafa þann eina möguleika til að eignast bújörð og áhöfn, að sækja vinnu frá búinu. Nú er staðan orðin sú að slíkt dugir ekki lengur. Jafnvel þó menn leggi á sig langan vinnudag og sinni búi eftir vinnu seint að kvöldi og fyrir vinnu snemma að morgni, dugir það engan veginn. Eina sem slíkt skilar er að líkaminn gefur sig. Að vinna 18 til 20 tíma á sólahring, til langs tíma, er ekki beinlínis hollt.
En hvað veldur? Þegar stórt er spurt er oft erfitt um svör.
Augljósast, þessi misserin, er sú okurvaxtastefna sem stjórnvöld standa að. Seðlabankanum eru sett lög og í eymd sinni og getuleysi til að standast þau lög, hefur bankinn hækkað stýrivexti fram úr hófi. Gerir það sama aftur og aftur þó fullreynt sé að árangur verður verri en enginn. Ekki nokkrum bónda dytti til hugar að etja klár sínum lengra og lengra út í fenið, þegar séð er að botninn er löngu farinn. Hann myndi snúa til lands og leita annarra leiða til að komast yfir. Vandi bænda er þó dýpri en vaxtaokur stjórnvalda. Það er bara súkkulaðimylsnan á rjómatertunni.
Hinn eiginlegi vandi bændastéttarinnar er hugarfar landsmanna. Fyrir um fjórum áratugum hófst grímulaus aðför að bændum og hefur tekist að breyta svo hugarfari landsmanna að jafnvel eru til bændur sem trúa því að þeir séu þurfalingar. Allt hófst þetta með þeirri fásinnu að halda því fram að hvergi á byggðu bóli væru greiðslur til bænda úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, hærri en hér á landi. Jafnvel því haldið fram á hvergi í veröldinni væru slíkt kerfi nema hér á landi. Það tók tiltölulegan stuttan tíma til að þessi skoðun næði eyrum margra kjósenda og sumir stjórnmálamenn voru betur læsir á þær breytingar en aðrir. Stukku á vagninn. Við skulum átta okkur á þeirri staðreynd að á þessum tíma var upplýsingaöldin nokkuð fjarri því sem nú er. Stjórnmálaflokkar gáfu út sín flokksblöð, sem auðvitað voru lesin af flokksbundnum kjósendum. Ein útvarpsstöð var í landinu og þeir sem náðu eyrum hennar voru nokkuð á grænni grein. Þar bar nokkuð mikið á boðberum "sannleikans". Síðar var farið að gefa út blað sem presinteraði sig sem frjálsan fjölmiðil. Þar áttu bændur lítinn stuðning en boðberar hugarfarsbreytinga því meiri.
Því reyndist nokkuð auðvelt að telja þjóðinni trú um að landbúnaður hér á landi væri baggi á þjóðinni. Baggi sem nauðsynlegt væri að losna við. Byggðastefna og aðrar slíkar kreddur voru ekki til í hugum boðbera "hins eina sanna sannleiks".
En nú er öldin önnur. Nú er hægt að seilast í vasa sinn og taka þar upp smá tæki sem getur gefið manni allar þær upplýsingar sem hægt er að finna, um víða veröld. Þar má sjá að flestar þjóðir hins vestræna heims greiða úr sínum sameiginlegu sjóðum til landbúnaðar. Þar má einnig sjá að þar erum við Íslendingar langt á eftir öðrum þjóðum. Þar má einnig sjá að þegar áföll verða í sambandi landbúnað, þurfa bændur ekki að fara betlandi hendi til stjórnvalda til að fá aðstoð. Slík aðstoð kemur yfirleitt að fyrra bragði frá stjórnvöldum. Skiptir þar einu hvort um er að ræða áföll vegna uppskerubrest, vegna verðfalls landbúnaðarvara, vegna okurvaxta stjórnvalda eða bara af hvaða stofni áföll skella á.
Erlendis er hugarfar gagnvart bændum nokkuð annað en hér á landi. Þar skilur fólk nauðsyn þess að halda uppi landbúnaði, skilur nauðsyn þess að halda uppi byggð á viðkvæmum svæðum, skilur að án bænda er engan mat að fá, engin föt að fá og jafnvel ekki heldur neitt áfengi! Þar skilur fólk að til að landbúnaður geti þrifist er nauðsynlegt að greiða til hans úr sameiginlegum sjóðum, ella þurfi að hækka laun almennings verulega. Þar skilur fólk að það kostar að framleiða matvæli. Hér á landi hefur, gegnum látlausan áróður undanfarinna fjögurra áratugar, tekist að telja fólki trú um að landbúnaður gæti rekið sig á loftinu einu saman. Að bændur væru ofaldir.
Hvergi á byggðu bóli er skipting á milli frumframleiðslu matvæla, vinnslu þeirra og sölu, jafn óréttlát og hér á landi. Bóndinn þarf að ala skepnur í langan tíma þar til afurðir fara að berast. Í flestum tilfelum tekur um tvö ár áður en mjólk fæst úr grip, eða hann verður sláturhæfur til kjötvinnslu. Afurðastöðin tekur við gripum, slátrar þeim og vinnur kjötið og geymir í frystigeymslum í allt að einu ári. Verslunin tekur kjötið að láni frá vinnslunni og skilar aftur náist ekki að selja fyrir síðasta söludag.
Bóndinn skilar því langmestu vinnuframlagi á mjólkurlítrinn eða kjötkílóið, vinnslan kemur þar skammt á eftir og ber ábyrgð á að kjötinu sé fargað, náist ekki að selja það. Reyndar færir vinnslan kostnaðinn við þá ábyrgð yfirleitt niður til bóndans, en það er önnur og sorglegri saga. Verslunin gerir að eitt að hringja eftir vörunum, taka við peningum frá neytendum og skila síðan aftur því sem ekki selst. Skipting auranna er þó nokkuð fjarri því að fylgja vinnuframlaginu eða ábyrgðinni!
Ég hef áður skrifað um svokallaðar niðurgreiðslur til bænda. Bent á að þær greiðslur væru ekki í þökk eða þágu bænda, heldur til þess gerðar að halda niðri launum. Þetta á við hvar sem slíkar greiðslur tíðkast. Það skiptir þó mestu máli er að fólk átti sig á raunveruleikanum. Að það kostar að framleiða mat. Að það kostar að halda landinu í byggð. Byggðastefna er ekki eitthvað montyrði, notað fyrir kosningar. Byggðastefna byggir á því að halda landi í byggð og einfaldast og ódýrasta aðferðin til þess er að efla landbúnaðinn, gera hann þannig að bændur geti lifað sómasamlegu lífi af landbúnaði og verið stoltir verka sinna. Byggðastefna byggir ekki á því að bændur vinni sig í þrot, verði gamalmenni fyrir aldur fram og þurfi að sjá á eftir búum sínum. Stolt yfir glæsilegu verki dugir þar skammt, eitt og sér.
Ekki verður rætt um vanda landbúnaðar án þess að ræða örlítið um innflutning matvæla. Auðvitað er það svo að sum matvæli verða ekki framleidd hér á landi, en þau sem hægt er að framleiða á að framleiða hér. Forsvarsmenn verslunarinnar eru þessu ekki sammála. Segja að landbúnaðarvörur eigi að flytja inn ef hægt er að fá þær ódýrari erlendis. Að þarna eigi peningar að ráða. Aldrei hef ég séð að þessar "ódýru innfluttu matvörur" á mikið lægra verði í kjötborði hér, enda kostar sitt að flytja þær heimsálfa á milli. Þá kemur aldrei fram í málflutningi þessara manna að þessar vörur eru þegar niðurgreiddar erlendis, ekki úr íslenska ríkisjóðnum heldur ríkissjóðum þeirra landa sem matvælin eru sótt til. Ef verslunin hér á landi þyrfti að greiða þessi innfluttu matvæli á kostnaðarverði, dytti engum til hugar að reyna innflutning þeirra.
Eins og áður segir er auðvelt að finna hvaða upplýsingar sem er gegnum snjallsíma. Þar má einnig finna að hvergi í veröldinni er minna notað af lyfjum í landbúnaði og hér á landi, hvergi.
Hví ættum við þá að flytja inn mengaðan mat sem hægt er að framleiða hreinan hér?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Matur og drykkur, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð grein. Þjóð sem framleiðir mikinn gjaldeyri er oft með gjaldeyrinn hærra skráðann. Pólverjar koma til Íslands og fá þreföld laun miðað við Pólland. Einhversstaðar heyrði ég að ef borðuð væru hrísgrjón, kartöflur og karrí sósa mætti spara mikið í matar kostnaði. Þá gengi vel að borga niður húsnæðið í Póllandi. Þá væri hægt að rétta úr bakinu og leggja sig fram með bros á vör. Ég bar saman verð á rafmagni í þar sem þ að var lægst og á Íslandi. Ég bar saman raforku verð og tekjur í lóndunum hvoru fyrir sig. Þá kom í ljós að rafmagnið var lægst á Íslandi. Þá var ekki búið að búa til skort til að hækka verðið. Muna Kaliforníu, þar tóku menn rofana út og sögðu að ekkert rafmagn væri til nema á hærra verði. Fréttir, Þýskaland hringdi til Danmerkur og vildi kaupa allt vindrafmagnið, svo slökkvið þið á vindorkuverunum og fáum skort og þá hærra verð.
Egilsstaðir, 08.10.2023. Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 8.10.2023 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.