Grunnhyggnir töframenn Viðreisnar

Þeir sem halda fram töfralausnum eru yfirleitt grunnhyggnir. Hagkerfi hvers ríkis er sérstakt og bundið við það ríki. Hvernig gengur að stjórna því kemur ekkert gjaldmiðli þess við. Hann getur hins vegar verið mælikvarði á stjórnun hagkerfisins, hafi ríki sinn eigin gjaldmiðil.

Lausn Viðreisnar felst í því einu að ganga í ESB og taka upp evru. Það er galdralausn þess stjórnmálaflokks. En jafnvel innan ESB er hvert ríki með sitt eigið hagkerfi, þó þau notist við sameiginlega mynt. Það sýnir sig líka að verðbólga innan þessara ríkja ESB er mismunandi, sumstaðar mun hærri en hér á landi, sé sama viðmið notað, en hér er mæling verðbólgu með öðrum hætti en innan ESB ríkja. Jafnvel þó notuð sé hin sér íslenska mæling verðbólgu, getum við talist á nokkuð góðu róli miðað við lönd ESB. Þá eru vaxtakjör innan ESB ríkja mismunandi, eftir því hvernig hagkerfi þeirra gengur. En þar sem þau ráða ekki hvert og eitt yfir gjaldmiðlinum, verður hagstjórnin erfiðari.

Því er fjarstæða að halda því fram að einhver töfralausn liggi í því að ganga í ESB og taka upp evru. Hagkerfið hér mun lítið breytast við slíka ráðstöfun og fráleitt að ætla að vaxtakjör breytist til batnaðar. Á fundi Efnahags og viðskiptanefndar Alþingis var seðlabankastjóri yfirheyrður. Þar kom meðal annar þetta fram:

Ásgeir tók hann einnig fram að ef Ísland væri með evr­una væri verðbólg­an hér­lend­is mun hærri og nefndi 7% hag­vöxt á síðasta ári og aukna at­vinnuþátt­töku sem dæmi um góðan ár­ang­ur. „Þú finn­ur ekki annað Evr­ópu­land í þess­ari stöðu“.

Reyndar er ótrúlegt að löggjafaþingið, sem á að stjórna hagkerfinu, skuli kalla þann embættismann fyrir nefnd sem þarf að þrífa skítinn upp eftir óstjórn stjórnvalda. Það fólk ætti að líta sér nær.  Það má vissulega deila um þau verkfæri sem seðlabankinn notar við þau þrif, ég fæ t.d. ekki séð hvernig slá megi á verðbólgu eða lántökur með því að hækka vexti á þegar teknum lánum. Varla fer fólk að skila þeim aftur í bankann.

Þingmenn Viðreisnar ættu kannski að átta sig á því að við búum á eyju langt frá öllum öðrum ríkjum. Það kostar að búa við slíkar aðstæður. Þó hugsanlega megi telja til einhvern kostnað við að halda eigin mynt, er sá kostnaður lítill á við annan kostnað við að búa afskekkt. Innganga í ESB og upptaka evru breytir ekki staðsetningu Íslands á hnettinum, þvert á móti má gera ráð fyrir að vandinn yrði enn stærri.

Grunnhyggnir töframenn leysa sjaldnast neinn vanda!


mbl.is Halda fast í „pínuoggulitla örmynt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Gunnar

Árið 2011 var áætlað að kostnaður Íslands yrði á milli 13-15 milljarðar við veru í ESB.

Árið 2008 notaði Seðlabankinn 15 milljarða til að verja krónuna

Eggert Guðmundsson, 22.2.2023 kl. 12:05

2 identicon

Góður pistill en ég held að Seðlabankinn hefði mátt fara aðeins hægar í peningaprentunina í COVID.

 

Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 22.2.2023 kl. 15:21

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Flott grein eins og við var að búast af þér....

Jóhann Elíasson, 22.2.2023 kl. 16:12

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gunnar, skoðaðu þetta endilega:

873/153 svar: verðbólga og peningamagn í umferð | Þingtíðindi | Alþingi

     3.      Hvaða áhrif hafa lánveitingar lífeyrissjóða á peningamagn í umferð?
    Þegar innlánsstofnun veitir lán verður samtímis til nýtt samsvarandi innlán og þannig eykst peningamagn. Það sama á ekki við þegar lífeyrissjóður veitir lán þar sem sú fjárhæð sem er lánuð var áður hluti af innlánum lífeyrissjóðsins eða bundin í öðrum fjárfestingum. Útlán lífeyrissjóða hafa þannig ekki sömu beinu áhrif á peningamagn og þegar innlánsstofnun veitir lán.

     4.      Hvaða áhrif hafa hækkanir vaxta þegar tekinna lána á peningamagn í umferð?
    Hækkun vaxta veldur að jafnaði hækkun vaxta á sparnaði og útistandandi skuldum á breytilegum vöxtum. Þannig er dregið úr vilja og getu heimila og fyrirtækja til að stofna til meiri skulda um leið og ýtt er undir meiri sparnað og hraðari uppgreiðslur útistandandi lána. Hærri vextir hafa einnig óbein áhrif þar sem efnahagsumsvif verða minni og ráðstöfunartekjur lægri. Áhrif þessara þátta eru að öðru óbreyttu til þess að draga úr vexti peningamagns í umferð og létta á undirliggjandi verðbólguþrýstingi.

Þorsteinn, talandi um peningaprentun:

     1.      Hvað hefur verið dregið mikið úr peningamagni í umferð frá því að ársverðbólga fór yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs stjórnvalda og Seðlabanka Íslands í mars 2021 og hvernig? Ef ekki hefur verið dregið úr peningamagni, hvers vegna er það og hversu mikið hefur það þá aukist?
    Peningamagn í umferð (M3) hefur aukist um tæp 22% að nafnvirði frá því í mars 2021...

Samkvæmt þessu hefur meira en fimmta hver króna í umferð verið "prentuð" á síðustu tveimur árum. Allan þann tíma hafa ráðamenn efnahagsmála látið eins og ekki væri von á mikilli verðbólgu og láta núna þegar hún er komin eins og það hafi verið óvænt.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.2.2023 kl. 16:46

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Eggert

Hvað notaði Seðlabankinn marga milljarða til að verja krónuna árið 2011?

Gunnar Heiðarsson, 22.2.2023 kl. 23:43

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Guðmundur

Varðandi 4. liðinn sem þú nefnir, um áhrif vaxta á þegar tekin lán, þá eru fræðin svo sem rétt, en í praktík er þetta ekki eins einfalt. Þegar skuldastaða heimila er orðin það há að vart er borð fyrir báru, eins og svo algengt er, þíðir vaxtahækkun á þegar tekin lán það eitt að greiðslugetan fellur, með tilheyrandi hörmungum.

Aðrir liðir snúa að óstjórn í peningamálum. Við vitum að peningaprentun umfram getu hagkerfisins kemur alltaf í bakið á viðkomandi hagkerfi.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 22.2.2023 kl. 23:52

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Gunnar og takk fyrir þjóðhollan og góðan pistil.

Það er svo skrýtið með íslensku krónuna að það var hún sem kom þjóðinni út úr moldakofunum. Á meðan stóru gjaldmiðlarnir, -Skandínavíski  ríkisdalurinn og danska krónan, -voru lögeyrir á Íslandi hvorki gekk né rak.

Þjóðin var bláfátæk um aldir og hafði engin tök á að komast inn í nútímann með erlendan greiðslumiðil vegna þess að hún hafði ekkert um gengi hans að segja, náttúruauðlindirnar voru þær sömu og í dag, um þetta vitnar sagan.

Magnús Sigurðsson, 23.2.2023 kl. 06:28

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Gunnar.

Ég hefði sennilega átt að taka fram að svarið við 4. lið er einmitt algjör þvæla. Rétt svar er einfaldlega að hækkun vaxta þegar tekinna lána hefur engin áhrif á peningamagn í umferð. Í stað þess að svara þannig er farið í einhverjar málalengingar til að komast svo að þeirri niðurstöðu að vaxtahækkun dragi úr vexti peningamagns í umferð, en spurt var um sjálft magnið, ekki vöxtinn á því.

Það sem stendur upp úr í svarinu í heild er að stjórnvöld hafa nákvæmlega ekkert gert til að beinlínis draga úr peningamagni í umferð, frá því að verðbólgan fór yfir efri mörk verðbólgumarkmiðs (4%). Þau hafa líka gert mjög lítið til að draga úr vexti þess með neinum öðrum úrræðum en að láta seðlabankanum það eftir en það getur hann aðeins gert með stórfelldum vaxtahækkunum sem eru á leiðinni að setja marga á hausinn.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2023 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband