"Mokið, mokið, mokið, mokið, mokið meiri snjó"
4.1.2023 | 00:07
Mikið er rifist um snjóruðning í höfuðborginni okkar. Ekki laust við að ætla að þar sé stjórnað af fólki sem er svo mikið alheimsfólk að það gleymir þeirri staðreynd að stundum snjóar á Íslandi.
Sjálfur bý ég á Skaganum og þar var ágætlega staðið að snjóruðningi. Reyndar ekki komið í götuna hjá mér, en við sem við hana búum erum svo sem ekki óvön því. Hugsanlega má líka telja að snjómokstur hjá okkur hafi verið svona góður vegna þess hversu lítið snjóaði.
Og það var einmitt málið, snjókoman var ekkert svo mikil. Hvorki hér á Skaganum né í höfuðborginni. Heldur meira snjóaði í nágrannabæjum borgarinnar, Mosfellssveit og uppbyggðum Kópavogs, en þar gekk einnig ágætlega að halda opnu. Öfugt við borgina. Nokkurn byl og blindu gerði hins vegar um tíma.
Það væri fróðlegt ef gerði alvöru snjókomu í borginni, svona svipað og austan Hellisheiðar. Þar hefur sannarlega snjóað. Hvað ef svona snjókoma færi yfir höfuðborgina okkar? Hverjum væri þá um að kenna?
Enn og aftur reynir borgarstjórnarmeirihlutinn að koma af sér sök. Ástæða þess að borgin var kolófær, þegar tiltölulega lítinn snjó gerði, er öllum öðrum um að kenna. Formaður einhverrar nefndar er látinn standa í stafni borgarstjórnar og halda uppi ruglinu. Fyrst var ástæðan að aðkeyptir viðbragðsaðilar hefðu ekki mætt þegar kallið kom, svo var haldið að fólki þeirri rökleysu að ekki væru til næg tæki og tól til að sinna verkinu. Því var einnig haldið fram að tafist hafi að endurskipuleggja snjómokstur borgarinnar. Og í dag fræddi þessi formaður okkur um að ástæða þeirrar tafa væri sleifarlag minnihlutans í borginni, að hann hefði ekki getað skipað fulltrúa í nefndina. Þetta er orðinn slíkur farsi að engu tali tekur. Trúir einhver þessu andsk... bulli?
Það er annars ágætt að meirihlutinn vilji nú starfa með minnihlutanum, það hefur ekki borið á slíkum vilja fyrr. Eða er aðild minnihlutans kannski bara æskileg þegar á bjátar í stjórnun? Ef svo er, ætti meirihlutinn fyrir löngu að vera búinn að færa minnihlutanum lykilinn að borginni, svo mikið er víst. Þá yrði borginni kannski stjórnað almennilega, án þess að eilíft væri verið að endurskipueggja einföldustu hluti.
Annars er sennilega fyndnasta tillagan komin frá fulltrúa VG, er hún lagði til að borgin keypti skóflur fyrir borgarbúa. Þegar svo skömmu síðar byggingavöruverslanir auglýstu að snjóskóflur væru að verða uppseldar, hélt ég í alvöru að hún hefði fengið meirihlutann til samstarfs.
Hvað sem öllu líður, þá var snjókoman fyrir jól ekkert svo ofboðsleg, miðað við hvað getur orðið. Íbúar á norðanverðu landinu gerðu góðlátlegt grín af borgarbúum, enda þekkja þeir snjóinn nokkuð vel. Það er ekki stórmál eða vísindi að ryðja snjó af götum og sú uppákoma sem varð í borginni því engan vegin afsakanleg. Þar gildir sú megin regla að fá sem flest tæki strax. Fleiri tæki afkast meiru en færri, það þarf hvorki nefnd né vísindamenn til að átta sig á því. Og fleiri tæki í styttri tíma, kosta varla mikið meira en færri tæki svo dögum skiptir.
Að halda götum borgarinnar opnum er ekki bara réttlætismál íbúa, það er ekki síður öryggismál, að viðbragðsaðilar komist um borgina.
Að hægt sé að halda uppi öryggi borgarbúa.
Ábyrgðarhlutur að borgin geri ekki ráðstafanir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Samgöngur, Stjórnmál og samfélag, Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 06:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.