Sorgleg fyndni

Um áramót er gjarnan rætt um skaupið, þetta sem ruv sýnir landsmönnum. Ég ætla hins vegar að ræða um hitt skaupið, þetta sem við erum uppfrædd af fjölmiðlum alla daga. Það skaup er mun skemmtilegra en hitt, en einnig nokkuð sorglegra fyrir suma hópa.

 

Í viðhengdri frétt fjargviðrast formaður rafbílasambandsins um að stjórnvöld séu að úthýsa rafbílnum á Íslandi. Að skattlagning á þessa bíla muni valda því að þeir verði ekki keyptir.

Fyrir það fyrsta þá eru rafbílar leiktæki auðvaldsins. Enginn venjulegur launþegi kaupir slíka bíla, enda verð þeirra nokkuð ofan kaupgetu þeirra. Sumir láta þó blekkjast af gylliboðum bankanna og taka lán fyrir slíkum bíl, en vart er hægt að hugsa sér að innleiðing rafbíla verði fjármögnuð á þann hátt. Það myndi stefna þjóðarskútunni beinustu leið í strand, sér í lagi ef ríkissjóður má ekki leggja á þessa bíla neinn skatt.

Því er það svo að láglaunafólkið, sem flest ekur á eldsneytisbílum, þarf um þessi áramót að greiða enn meira í ríkisjóð af sínum akstri, svo auðvaldið geti keypt sér dýra rafbíla án afskipta ríkissjóðs. Þetta er sorgleg fyndni.

 

Önnur frétt á mbl í dag fjallar um ófærð og ferðaþjónustu. Þar kveinka ferðaþjónustuaðilar yfir að ekki skyldi koma óveður á gamlársdag, með tilheyrandi ófærð. Vilja kenna veðurfræðingum um skandalinn.

Það er ekki veðurfræðingum að kenna, eða þakka, þó veðrið verði betra en spáð er. Þar ráða náttúruöflin. Veðurfræðingar spá samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, hverju sinni. Í þeirri spá sinni reyna þeir að vera eins nákvæmir og hugsast getur, en ef vafi er til staðar verða þeir ð gera ráð fyrir verri kostinum. Annað væri fráleitt og beinlínis hættulegt.

Varðandi vegalokanir þá er ljóst að mun fyrr er lokað vegum í dag en áður fyrr. Þar er þó ekki um að kenna verra veðri og enn síður veðurfræðingum eða almannavörnum. Ástæðan er einfaldlega sú að búið er að markaðssetja Ísland sem heilsárs ferðaland. Þetta veldur því að erlendir ferðamenn, sem koma hingað til lands, er talin trú um að geta ferðast um landið þvert og endilangt, alla daga ársins. Þegar svo náttúran okkar ræskir sig örlítið, þá verða þessir ferðamenn strand á þjóðvegunum, jafnvel þó okkur landanum, a.m.k. okkur landsbyggðafólki, þyki ekki mikið til koma með veður eða færð. Því verður að loka vegum mun fyrr, svo þetta ferðafólk fari ekki sjálfu sér að voða eða stofni öðrum í hættu.

Það er ekki veðrið eða færðin sem ræður lokunum, heldur það erlenda ferðafólk, stundum á illa búnum bílaleigubílum, hefur litla eða enga reynslu í akstri í snjó og hálku og sumt hvert aldrei séð snjó á sinni ævi. Þar ráða ferðaskrifstofurnar öllu. Þær skaffa fólki bílana og þær markaðssetja Ísland á erlendri grundu. Þetta er sorgleg fyndni.

 

Þá má ekki gleyma blessaðri stjórnmálastéttinni okkar. Síðustu daga þingsins, fyrir jólafrí, voru umræður um kjör þeirra sem allra minnst hafa í okkar þjóðfélagi. Þar stóðu ráðherrar sem einn í því að standa gegn smá bótum til þessa hóps, meðan þeir á sama tíma útbýttu tugum og hundruðum milljóna í ýmis önnur málefni. Vart var þetta fólk gengið út úr steinhúsinu við Austurvöll, þegar það fór að ræða kjör hinna verst settu og að standa þyrfti vörð um þann hóp.

Svo kom nýtt ár og með því sjálf Kryddsíldin. Þar lét þetta fólk sína visku njóta sín, eða þannig. Sumir komu betur fyrir en aðrir og sumir urðu, að venju, sér sjálfum til skammar.  Auðvitað allir sammála um að verja þurfi kjör þeirra sem verst standa, þrátt fyrir að allir fréttamiðlar væru stút fullir af fréttum um hinar ýmsu hækkanir skatta, sem tækju gildi þann sama dag.

Það var engu líkara en að þessir pólitísku leiðtogar okkar væru í einverjum öðrum heimi en við hin. Þetta fólk er sorglegt.

 

Læt staðar numið að sinni þó margt fleira mætti telja fram. Eitt er þó víst að spaugstofa ruv mun aldrei toppa íslenskan raunveruleik, hvorki í spaugi né sorg.

Óska öllum farsældar á nýju ári.


mbl.is „Á góðri leið með að úthýsa rafbílum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband