Tásumyndir frá Tene
23.11.2022 | 23:59
Það er ekki oft sem samtök atvinnulífsins og fulltrúar launþega eru sammála. Það tókst þó seðlabankastjóra að ná fram, með undarlegri hegðun sinni. Ásgeir Jónsson er af góðum ættum og ágætlega gefinn, en að hann væri megnugur þess að sameina atvinnurekendur og launþega, svona á fyrstu skrefum samningaviðræðna, er sennilega hans stærsti sigur.
Seðlabankinn hefur ýmis tæki til að stjórna peningamálum þjóðarinnar. Eitt þessara tækja er hækkun stýrivaxta. Til þessa tóls er gjarnan gripið þegar stefnir í óefni á lánamarkaði, þ.e. þegar útlán eru komin út fyrir það sem gott þykir. Þá eru vextir hækkaðir til að stemma stigu við frekari útlánum bankanna og er gott og gilt að því marki. Það er hins vegar spurning hvers vegna þurfi að hækka vexti á þegar útgefnum lánum og hvaða áhrif slík hækkun hefur. Þegar einhver tekur lán á hann að geta gengið að því sem vísu að þeir vextir sem hann skrifar undir, séu þeir vextir sem hann þarf að greiða. Það er erfitt eða útilokað fyrir lántaka að skila láninu.
Að hækka vexti á þegar útgefnum lánum getur aldrei slegið á verðbólgu, heldur kyndir undir hana. Það er ekki bara launafólk sem er bundið bönkum með lánum, flest fyrirtæki í flestum geirum, eru einnig með miklar lántökur. Bæði langtímalán og skammtímalán. Ólíkt launafólki, sem ekki hefur neinn möguleika á öðru en að halda áfram að borga af sínum lánum ella missa heimili sitt, geta mörg fyrirtæki fært þessa auknu byrgði sína yfir á neytendur, þ.e. hækkað verð á sinni vöru eða þjónustu. Það er fæða verðbólgudraugsins.
Tásumyndir frá Tene eru seðlabankastjóra hugleiknar. Vill meina að landsmenn séu stórtækir í ferðum í sólina. Þó viðurkennir hann að þær ferðir séu ekki fjármagnaðar með lántökum, heldur innistæða fólks frá Covid tímanum. Fólk hlýtur að ráð hvernig það ráðstafar sínu fé, eða ætlar seðlabankinn að stjórna því líka? Stærri spurning er hvernig hann hyggst stjórna með vaxtahækkun, þegar fólk er upp til hópa að nota fé sem það á fyrir.
Alvarlegasta við þetta frumhlaup seðlabankastjóra er þó sú staðreynd að nú standa yfir viðræður um kaup og kjör á vinnumarkaði. Þessi gjörningur er ekkert annað en sprengja inn í þær viðræður. Það lá fyrir að einmitt vegna mikilla hækkana bankans á stýrivöxtum, yrðu þessar viðræður erfiðar. Ríkissáttasemjari er þegar tekinn til starfa.
Það dylst engum að verðbólga er í landinu. Hana má fyrst og fremst rekja til erlendra áhrifa. Þau innlendu áhrif sem oft eru talin, eru flest til komin af sömu ástæðu. Nær engin bein innlend áhrif má rekja til þessarar verðbólguhækkunar, ekki einu sinni tásumyndirnar. Innlend vaxtahækkun hefur því lítil áhrif á verðbólguna og innlend vaxtahækkun á þegar útgefin lán einungis fóður fyrir verðbólgudrauginn. Þeir sem græða á þessum hækkunum eru bankarnir, þeir sem tapa er fólkið og fyrirtækin í landinu.
Tásumyndatal seðlabankastjóra minnir nokkuð á flatskjáaumræðuna eftir hrun bankana. Kannski er Ásgeir búinn að átta sig á að við nálgumst þann stað er við vorum á haustið 2008 og er að búa í haginn fyrir afsökun hins nýja hruns landsins.
Vaxtahækkun truflar kjaraviðræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál | Facebook
Athugasemdir
Það er ekki sigur þegar kommúnistar neyta aflsmunar.
Guðjón E. Hreinberg, 25.11.2022 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.