Heimur versnandi fer
31.10.2021 | 21:41
Allt frá því ég fyrst man eftir mér, sem er reyndar lengra síðan en ég man, hefur maður heyrt talað um að heimurinn fari versnandi, að allt hafi verið svo miklu betra áður fyrr. Þó er það svo að mannskepnan hefur það alltaf betra en áður.
Á mínum ungdómsárum var það kjarnorkuváin. Manni var innprentað að kjarnorkustríð væri að skella á. Viðkvæm börn tóku þetta nærri sér og búa sum enn af þeirri ógn sem að þeim var haldið. Næst voru það skógarnir sem áttu að hverfa. Hvert pappírssnifsi skildi nýtt til hins ýtrasta, því annars myndu skógar heimsins hverfa, súrefni hverfa og við kafna. Svo kom hafísinn að landinu og miklir kuldar voru um allan heim. Þetta var talið merki um að ísöld væri að skella á og að Ísland myndi verða komið undir tveggja kílómetra þykkan ís fyrir aldamót. Loks lauk barnaskóla.
En þetta var þó ekki búið. Einhverjum snilling út í heimi datt í hug að halda því fram að olíulindir væru að tæmast og innan örfárra ára myndi skella á mikil ógn um heimsbyggðina vegna orkuskorts. Fréttamiðlar voru duglegir að endurvarpa þessari speki. Þegar ljóst var að þarna var farið fram með fleipur, tók við ógnin um að jörðin myndi steikjast, með öllu sem á henni er. Þetta er sennilega sú mantra sem lengst hefur lifað. Með reglulegu millibili er gefin út spá um hvenær heimsendir verður. Þessar spár hafa verið nánast eins nú í nærri þrjá áratugi, með þeirri einu breytingu að lokadagurinn færist örlítið aftur.
Það efast enginn um að hlýnað hefur á jörðinni síðustu áratugi. Það er hið besta mál, verra væri ef það hefði kólnað. Þarna er mið tekið af upphafi almennra hitamælinga, en vandinn er bara sá að upphaf almennra hitamælinga er í lok litlu ísaldar, kaldasta tímabils þessa hlýskeiðs. Vill fólk virkilega fá slíkt kuldatímabil aftur? Vill fólk geta gengið á ís milli Akraness og Reykjavíkur?
Hlýnun jarðar er af hinu góða, kólnun væri verri. Auðvitað mun breytt hitastig hafa áhrif á sum byggð ból, en að öllu jöfnu verða þau áhrif óveruleg. Önnur svæði verða byggilegri. Vandinn er hins vegar sá að ekki er víst að þessi hlýnun haldi áfram, hefur reyndar látið á sér standa nú síðustu ár. En vonum það besta.
Sérfræðingar í lygum, þ.e. pólitíkusar, hafa tekið þessari spá af mikilli gleði, enda óttastjórnun eitt auðveldasta stjórnarform sem til er - til skamms tíma. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að nú er skollin á einhver mesta ógn yfir Evrópu, ekki hlýnandi loftslag, heldur orkuskortur. Orkuskortur af þeirri stærðargráðu er aldrei áður hefur þekkst. Þetta eru ekki náttúruhamfarir, þetta er að öllu leiti manngerð ógn.
Meðan sérfræðingarnir í lygum sitja saman og spjalla um hvernig þeir geta snúið á náttúruna, gera þeir ekkert til að afstýra þeirri manngerðu ógn sem þeir hafa skapað, frekar að aukið verði í! Náttúran verður aldrei tamin, einungis hægt að aðlagast duttlungum hennar. Hitt má laga, manngerð mistök!
Hafi einhvertíma verið ástæða til að halda að heimur fari versnandi er það nú. Ekki vegna náttúruhamfara, heldur vegna þeirrar ótrúlegu heimsku sumra að halda að mannskepnan geti tamið náttúruna, með því einu að auka örbyrgð og vesaldóm jarðarbúa. Hvert er þetta fólk eiginlega komið?!
Hér er örstutt myndband með Dr Patrick Moore, umhverfisfræðingi. Hann er kannski þekktastur fyrir að vera einn af stofnendum Greenpeace og forseti þeirra samtaka um skeið. Þessi maður hefur lagt sig um að sinna sinna því er hann lærði, var um tíma fulltrúi Kanada í hringborði SÞ um þessi mál. Þarna fer enginn sérfræðingur í lygum, heldur sérfræðingur í umhverfismálum.
Allir verða að vera sammála | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 21:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.