Minning um mann
9.10.2021 | 08:23
Það hefur verið ljóður á þingræði okkar að þingmenn geti skipt um flokka eins og nærbuxur. Um þetta þarf þó ekki að deila, þingmenn hafa þennan rétt og sífellt fleiri sem nýta sér hann. Það segir þó ekki að þetta sé réttlátt gagnvart kjósendum, enda í raun enginn þingmaður kosinn í eigin nafni, heldur í skjóli einhvers stjórnmálafls. Réttur kjósandans á kjörstað til að velja sér ákveðna persónu, nú eða hafna henni, er slíkur að útilokað er að virkja hann. Fólk kýs flokk, með þeim frambjóðendum sem þeim flokki fylgir.
Eins og áður segir, þá færist sífellt í aukanna að þingmenn flakki milli flokka á milli kosninga. Nánast eingöngu hefur það verið vegna málefnalegs ágreinings innan flokks, sem kemur upp á kjörtímabilinu. Að fólk hefur ekki verið tilbúið að fylgja flokkslínunni, nú eða að þingmenn telji að meirihluti síns flokks hafi svikið eigin flokkslínu. Við þær aðstæður hafa sumir þingmenn talið æru sinni vegna, að betra sé að yfirgefa flokk sinn. Sumir starfað sem óháðir á eftir en flestir þó gengið til samstarfs við annan flokk. Sjaldan hefur þó slíkt flokkaflakk orðið þingmanni til framdráttar.
En nú ber alveg nýtt við. Einungis eru örfáir dagar frá kosningum og þingmaður ákveður að yfirgefa flokk sinn, ekki vegna málefnalegs ágreinings, enda störf Alþingis vart hafin, ekki heldur vegna þess að þingflokkur hans sé að svíkja eigin stjórnmálastefnu. Nei, þingmaðurinn yfirgefur flokk sinn vegna málefnis sem skeði snemma á síðasta kjörtímabili, utan starfa Alþingis. Ja, betra seint en aldrei, myndu sumir segja!
Heiðarlegra hefði verið, þar sem gamalt mál hrjáir samvisku þessa þingmanns, að gefa bara alls ekki kost á sér fyrir þann flokk sem hann nú yfirgefur. Gefa frekar kost á sér í framboð fyrir þann flokk sem hann nú dáir.
Það er full ástæða til að óska Sjálfstæðisflokki til hamingju með þennan nýja öflugan þingmann, sem þeir fengu svona í bónus. Ekki ónýtt að eflast með þessum hætti. Hitt ætti hinn skeleggi þingmaður að átta sig á að allar þær ræður og öll sú vinna er hann lagði á sig til að standa vörð sjálfstæðis og til varnar að hálendið yrði tekið og lagt undir embættismenn í 101 Reykjavík, hefði verið honum ómöguleg ef hann hefði setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokk á síðasta kjörtímabili.
Þá væri minningin um Birgir Þórarinsson önnur.
Birgir skilur við Miðflokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:27 | Facebook
Athugasemdir
Eitt verð ég að segja þér áður en ég dey,
enda skalt þú börnum þínum kenna fræði mín,
sögðu mér það álfarnir í Suðurey,
sögðu mér það dvergarnir í Norðurey,
sögðu mér það gullinmura gleymmérey
og gleymdu því ei:
að hefnist þeim er svíkur sína huldumey,
honum verður erfiður dauðinn.
Völuvísa eftir Guðmund Böðvarsson
Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 9.10.2021 kl. 10:15
Ég tel þetta ekki vera heilindi, þetta heitir að notfæra sér kjósendur í annarlegum tilgangi. Maðurinn mátti alveg skipta um flokk, en fyrir kosningar þá, það hefði verið heiðarlegra.
G Helga Ingadottir, 9.10.2021 kl. 14:24
Sæll Guðmundur. Nafni þinn Böðvarsson, einn af okkar ágætu Borgarfjarðarskáldum, kunni að binda orðin rétt. Hér er svo önnur vísa, reyndar eftir ágætan bónda úr Dölunum, Bjarna Gíslason:
Illt er að finna eðlisrætur,
allt er nagað vanans tönnum.
Eitt er víst að fjórir fætur
færu best á sumum mönnum.
Gunnar Heiðarsson, 10.10.2021 kl. 00:14
Vissulega eru þetta ekki heilindi hjá Birgi, Helga. Það kemur sífellt betur í ljós, eftir því sem hann tjáir sig meira um málið, að honum hefur líkað illa vistin um nokkuð skeið í Miðflokknum. Hvers vegna þá að bjóða sig fram fyrir flokkinn? Hefði ekki verið eðlilegra að hleypa þá einhverjum öðrum að borðinu, einhverjum sem líkaði vistin betur?
Það fólk sem vann að kjöri Birgis, í Suðurkjördæmi, telur sig eðlilega illa svikið. Þá er ljóst að kjósendur hans hafa verið rændir sínu atkvæði. Er þetta lýðræðislegt?
Gunnar Heiðarsson, 10.10.2021 kl. 00:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.