Kosningar
1.10.2021 | 01:45
Það var vissulega óheppilegt hvernig staðið var að talningu atkvæða í NV kjördæmi og vissulega má taka undir að þar hefði betur mátt fara. Hitt er undarlegra, að lögfróðir menn, sumir jafnvel sem voru í framboði og fengu ekki næg atkvæði, skuli bera fyrir sig brotum á stjórnarskrá og kosningalögum í þessu sambandi. Þessu fólki væri hollt að lesa stjórnarskránna og kosningalögin.
Það er fljótlesið hvað stjórnarskrá segir um kosningar til Alþingis, þar er í raun einungis rætt um kjördæmaskipan og hverjir eru kjörgengir. Að öðru leyti er vísað til kosningalaga. Í þeim er aftur að finna hvernig skuli farið með kjörgögn, hvernig skuli staðið að talningu og annað er snýr að kosningunni sjálfri, auk ákvæða um kjördæmaskipan og kjörgengi.
Skemmst er frá að segja að samkvæmt þeim lögum er talað um að kjörkassar skuli innsiglaðir á kjörstað, á leið frá kjörstað til talningarstöðvar og á leið frá talningarstöð í geymslu, þar sem þau eru geymd í ákveðinn tíma en síðan eytt. Ekki segir að kjörkassar þurfi að vera innsiglaðir meðan þeir eru á talningarstað. Ekki segir að kjörgögn skuli flutt til geymslu strax að lokinni talningu, einungis að talningarstaður skuli vera í innsigluðu rými. Ekkert segir til um hvernig skuli staðið að flutningi kjörgagna, til og frá kjörstað, hvort einn eða fleiri eigi að vinna það verk.
Varðandi viðurlög við brotum á kosningalögum er ansi fátæklegt um að litast í þeim. Meint vald Alþingis virðist vera ofmetið. Það hefur einungis vald til að skoða hvort hver sá er hlýtur kjör þangað inn sé með löglegt umboð þjóðarinnar. Til að Alþingi geti ákveðið nýjar kosningar þarf annað tveggja að vera fyrir hendi, að ágallar séu svo miklir að veruleg áhrif það hafi á fylgi flokka og ef ágallar leiði til að heill þingflokkur telst vera án umboð þjóðarinnar.
Nú liggur fyrir að þessi skekkja sem varð í talningu atkvæða í NV kjördæmi breytti ekki fylgi stjórnmálaflokka, hafði einungis áhrif á uppbótarþingmenn innan hvers flokks. Því er ljóst að fyrra atriðið er ekki fyrir hendi. Hvort þeir uppbótarþingmenn er komu inn í stað þeirra sem fóru út, hafi umboð þjóðarinnar, má kannski deila um. Ljóst er þó að einungis er þar um að ræða fjóra þingmenn frá fjórum flokkum.
En upphlaupið sýnir kannski kjarna málsins. Þeir þingmenn sem duttu út láta mikinn, þó flokkar þeirra hafi ekki borið neinn skaða. Horfa fyrst og fremst á eigin hag.
Svo má auðvitað deila um hvort stjórnarskrá og lög um kosningar séu sanngjörn. Það er bara allt önnur saga.
Um meint vantraust er það eitt að segja að þeir sem velja að túlka og snúa lögum sér í hag eru þeir menn sem grafa undan trausti til stjórnsýslunnar. Sorglegt að þar skuli lögfræðingar vera á bekk. Mistök geta hins vegar alltaf átt sér stað. Þegar þau uppgötvast er það merki um styrk að ráðast strax í að leiðrétta þau.
Þá er rétt að nefna að enginn hefur tjáð sig um að kosningasvindl hafi átt sér stað.
Innsiglað alls staðar nema í Norðvesturkjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er ekkert sem segir að kosningasvik hafi átt sér stað, og ekkert sem útilokar að kosningasvik hafi átt sér stað. Ekki er hægt að útiloka að kjörseðlum hafi verið breytt þegar þeir voru aðgengilegir óviðkomandi án eftirlits og innsigla. Möguleikinn er fyrir hendi og líkurnar, þekkjandi fulla Íslendinga og þeirra skopskyn, eru töluvert miklar.
Hvort á að láta talningu á atkvæðum sem hver sem er gæti hafa breytt gilda eða talningu sem grunuð er um að vera röng? Er hægt að láta kosningar gilda þegar bæði talning atkvæða og endurtalning misferst?
Mistök máttu sér stað og þau verða ekki leiðrétt með því að láta eins og þau hafi ekki átt sér stað. Það er ekki leiðrétting að segja bara sorrí við látum þetta ekki ske aftur. Mistök áttu sér stað og nú er óvíst hvernig kjósendur í kjö0rdæminu kusu og engin leið að komast að því. Þannig mistök er ekki lítið mál að leiðrétta.
Það má ekki fara með kornabörn inn í kjörklefa en atkvæði sem lágu fyrir hunda og manna fótum eiga að ráða hverjir verða þingmenn.
Vagn (IP-tala skráð) 1.10.2021 kl. 08:09
Lögin eru skýr Vagn og eftir þeim þarf að fara. Hitt má deila um hvort þessi lög séu réttlát. Komist menn að þeirri niðurstöðu, mun þeim sjálfsagt breytt.
Inntakið í pistli mínum var þó kannski ekki það, ekki heldur tek ég þar afstöðu um hvernig staðið var að talningunni. Það sem ég er fyrst og fremst að benda á er að menn eru að bera fyrir sig lagabókstaf sem ekki er fyrir hendi, að þarna hafi orðið brot á stjórnarskrá og brot á lögum um kosninga til Alþingis. Hvorugt stenst.
Gunnar Heiðarsson, 1.10.2021 kl. 16:02
Talningarstöð er salurinn, herbergið, þar sem talningin fer fram en ekki öll byggingin, öll herbergi, þvottahús, eldhús, bar, líkamsrækt og lobbí hótelsins. Sá salur er oft einangraður og talning hafin áður en kjörstöðum er lokað. Þannig getur fólk verið að kjósa á einum stað í húsi, kjörstað, eða drekka á barnum meðan talning fer fram á öðrum stað, talningarstöð. Fari atkvæðin úr þeim sal sem talningin fer fram í þá segja lögin að kjörkassar skuli innsiglaðir á leið frá talningarstöð. Það misfórst og má kalla brot á kosningalögum.
Þegar vafi er uppi, og hlutkesti eða geðþóttaákvörðun virðist ráða hver verður uppbótarþingmaður, verður varla sagt að það séu þá þjóðkjörnir þingmenn eins og Stjórnarskráin gerir kröfu um. Það má kalla það brot á Stjórnarskrá.
Vagn (IP-tala skráð) 1.10.2021 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.