Kosningar
30.8.2021 | 09:02
Nú líður að kosningum. Við Íslendingar erum svo heppin að fá að velja það fólk sem stjórnar landinu, þ.e. löggjafavaldið. Framkvæmdavaldið skipast hins vegar eftirá, þegar kosningum er lokið. Það þarf ekki endilega að endurspegla vilja kjósenda og mörg dæmi þess að menn sem jafnvel rétt skriðu inn á Alþingi, fái digra ráðherrastöðu. En við fáum þó að kjósa til Alþingis, það er alls ekki sjálfgefið og einungis fengið með sjálfstæði þjóðarinnar.
Flestir flokkar og framboð hafa nú opinberað sínar stefnur. Umræðan er hins vegar nokkuð flöt ennþá og snýst fyrst og fremst um ýmis froðumál líðandi stundar. Lítið er talað um það sem máli skiptir fyrir okkur sem sjálfstæða þjóð.
Lítið sem ekkert er rætt um brýn innanlandsmál, s.s. orkumál. Hvernig við eigum að halda þar á málum og þá ekki síst hvort samþykkja eigi orkupakka 4 frá ESB eða sæstreng sem virðist nú vera kominn á fulla ferð aftur. Þetta er eitt brýnasta mál dagsins í dag.
Lítið er rætt um þá bylgju erlendra aðila sem eru að leggja landið undir sig og þar á ég ekki við ólöglega innflytjendur, heldur kaupsýslumenn sem eru að kaupa upp landið til að eignast laxveiðiár, kaupa upp heiðarnar til að byggja þar risastóra vindmilluskóga og kaupa upp firðina kringum landið til laxeldis. Þetta er ein af þeim ógnum sem okkur steðjar hætta af, þó frambjóðendur til Alþingis þegi.
Fleira mætti nefna sem ógnar sjálfstæði okkar þjóðar, eins og t.d. EES samningurinn. Í formálanum hér fyrir ofan nefni ég hvað við séum heppin að fá að kjósa okkur löggjafaþing. Sú heppni súrnar þó aðeins þegar staða Alþingis er orðin þannig að í stað löggjafar er þar að stórum hluta tekið á móti tilskipunum erlendis frá og þær stimplaðar sem lög. Hvert er þá sjálfstæðið okkar komið?
Sjálfstæðisflokkur ætlar að efla loftlagsvarnir, væntanlega með aukinni skattheimtu. Það virðist eina verkfærið. Að öðru leyti reynir flokkurinn að vísa til fornar frægðar, sem löngu er fallin. Ekkert er þarna minnst á orkumál eða op4, ekkert minnst á erlenda auðjöfra sem eru að leggja landið undir sig og ekkert á framtíð EES samningsins.
VG ætlar að efla atvinnulífið í landinu. Auk þess leggur flokkurinn mikla áherslu á loftlagsvarnir fyrir jörðina en einnig skal hér tekinn stór hluti landsins og friðaður. Ætlar að gera það ómögulega. Ekkert er minnst á op4, erlenda landtökumenn eða EES/ESB.
Framsókn er eins og Framsókn er, svona eins og haustlauf sem er við það að detta af grein sinni. Þar á bæ tala menn um að fjárfesta í fólki. Ekkert nánar um það nema kannski að láta það borga veggjöld. Ekkert minnist þessi flokkur þó á þau mál sem ógna sjálfstæði þjóðarinnar. Ekki einu sinni minnst á landbúnað!
Samfylkingin vill ganga í ESB og taka upp evru. Orkumálum og landsyfirráðum má fórna til að ná því takmarki. EES samninginn þarf ekki að ræða í þeirra huga, enda fellur hann úr gildi þegar við erum orðin aðilar að ESB.
Um Viðreisn má hafa sömu orð og yfir Samfylkingu. Auðvitað eru rætur þessara flokka sitt úr hvorri áttinni, Viðreisn á sínar rætur til Sjálfstæðisflokks, til hægri, meðan rætur Samfylkingar liggja til vinstri. ESB er þó sameiginlegt áhugamál þessara flokka og þar sem þetta er í raun eina mál þeirra, má sannarlega kalla þá sitthvora hliðina á sama peningnum. En auðvitað þurfa þessir tveir flokkar ekki að spá í framtíð Íslands eða hvernig hér skal skipa málum. Eftir inngöngu í ESB munum við bara gera eins og okkur er sagt.
Píratar, já píratar. Ég veit eiginlega ekki hvað skal segja. Þeim hefur tekist að halda sér á þing í nokkur kjörtímabil, jafnvel þó þeir hafi enga eiginlega stefnu. Fylgja bara deginum í dag. Fortíð og framtíð er þeim framandi. Sjálfstæði þjóðarinnar eða málefni því tengt er ekki inn á borði Pírata. Hins vegar hafa nokkrir duglegir þingmenn komið frá Pírötum og slíka menn er ágætt að hafa á þingi, svona með.
Flokkur fólksins hefur sett baráttu fyrir aldraða og öryrkja í forgang. Þannig fólk þarf einnig á Alþingi. Þessi flokkur tjáir sig hins vegar lítið um afstöðu sína til þeirra mála er varðar þau mál er ógna sjálfstæði okkar. Það er slæmt fyrir kjósendur.
Jafnvel Miðflokkurinn, sem á sínar rætur að rekja til icesave, hefur verið ansi slappur að ræða málefnin sem mestu skiptir. Verk þeirra segja okkur hins vegar hvar þeir liggja í þessum málaflokkum, en það þarf að minna kjósendur á þau verk. Að koma fram með málefni sem fáir virðast skilja, jafnvel þó það sé gott, gaf flokkurinn fjölmiðlum og öðrum flokkum tækifæri til að mistúlka það á alla vegu og gera erfiðara fyrir frambjóðendur að halda uppi merki flokksins. Miðflokkurinn á að halda sig við sínar rætur og ræða þau málefni sem hann hefur verið duglegastur að vinna að á Alþingi, mál sem snúa að sjálfstæði þjóðarinnar. Að vísu er einstaka frambjóðandi duglegur að halda þessu merki flokksins á lofti, en það er eins og vanti einhvern samhug milli frambjóðenda hans. Kannski var sú breyting sem gerð var á frambjóðendum ekki að öllu leiti flokknum til góða, kannski er hann farinn að stefna í þá átt, sem hann hefur gagnrýnt fram til þessa, að verða einskonar kerfisflokkur.
Sósíalistaflokkurinn er tímaskekkja. Ekki aðeins málefnaleg tilurð hans heldur ekki síður hvernig til hans var stofnað. Það er búið að reyna sósíalískt stjórnarfar í meira en eina öld, vítt og breitt um heiminn. Það hefur allstaðar og alltaf endað með skelfingu.
Að kjósa hefur afleiðingu. Kjósendur hafa vald. Þegar því valdi beitt, er nauðsynlegt að vita hvað skiptir máli og hvað ekki. Við kjósum fyrir okkur sjálf, ekki aðra!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Facebook
Athugasemdir
Flott sundurliðun. Þú gleymdir reyndar Frjálslynda lýðræðisflokkinn sem fékk úthlutað listabókstaf 0 (NÚLL)!
Sigurður I B Guðmundsson, 30.8.2021 kl. 11:07
Já Sigurður, ég gleymdi því framboði enda heyrist lítið frá því. Kannski eru fjölmiðlar búnir að útiloka það?
Gunnar Heiðarsson, 30.8.2021 kl. 11:48
Samt bjóða þeir fram í öllum kjördæmum hafi ég skilið þá rétt.
Helga Kristjánsdóttir, 30.8.2021 kl. 13:31
Þeir ætla a.m.k. að reyna það Helga. Spurning hvernig gengur að ná tilskildum fjölda meðmælenda.
Gunnar Heiðarsson, 30.8.2021 kl. 13:35
Sæll Gunnar.
"Flokkur fólksins [...] tjáir sig hins vegar lítið um afstöðu sína til þeirra mála er varðar þau mál er ógna sjálfstæði okkar."
Þetta er ekki alveg rétt. Inga Sæland lagði fram á síðasta þingi tillögu til þingsályktunar um að afturkalla aðildarumsóknina til ESB með formlegum hætti. Það ber vott um skýra afstöðu til málefnisins, sem flokkurinn allur stendur á bakvið.
Aftur á móti er vissulega ekki á stefnuskrá flokksins að segja upp EES samningnum, eins og sumir virðast aðhyllast, enda fjallar stefnuskrá fyrst og fremst um hvað flokkur ætlar eða vill gera en ekki hvað hann ætlar ekki að gera.
Svo geta menn deilt um það hvort EES samningurinn ógnar sjálfstæði "okkar" eins og virðist vera þín skoðun. Ég deili þeirri skoðun ekki með þér því eftir af hafa lært Evrópurétt líst mér frekar vel á margt við þann samning. Það eina við hann sem gæti á einhvern hátt "ógnað" sjálfstæði "okkar" er að við fáum hverja ríkisstjórnina á fætur annarri sem þorir ekki að beita neitunarvaldi sínu í málum sem falla undir hann og geta ógnað sjálfstæðinu.
Guðmundur Ásgeirsson, 30.8.2021 kl. 22:15
Sæll Guðmundur. Það er rétt, okkar skoðanir gagnvart EES eru ekki samhljóða og við því verður lítið gert. Okkur er báðum heimilt að hafa okkar skoðun á honum.
Það er rétt hjá þér að Inga var meðal þeirra sem lögðu fram þingsályktunartillögu um afturköllun aðildarumsóknar. Það er einnig rétt að Flokkur fólksins hélt uppi málflutningi til varnar sjálfstæði þjóðarinnar fyrir síðustu kosningar. Hinu verður ekki horft framhjá að helsta málefni þessa flokks er varðstaða fyrir aldraða og öryrkja og eins og fram kemur í mínum pistli er vissulega þörf á slíku fólki inn á Alþingi.
Gunnar Heiðarsson, 30.8.2021 kl. 23:22
Sammála. Fyrir utan varðstöðu fyrir aldraða og öryrkja vill Flokkur fólksins einnig standa vörð um neytendur á fjármálamarkaði. Það er ekki ný áhersla en hefur núna færst ofar á blaðið.
Guðmundur Ásgeirsson, 31.8.2021 kl. 00:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.