Það hefur aldrei verið kosið um nýja stjórnarskrá
26.7.2020 | 14:05
Sá leiðinlegi misskilningur virðis vera meðal sumra í þjóðfélaginu að hér hafi verið kosið um nýja stjórnarskrá og að meirihluti þjóðarinnar hafi samþykkt þá stjórnarskrá. Þetta er þó fjarri lagi og nokkuð grófleg mistúlkun á sögunni og sannleikanum.
Þann 20.okt, 2012 var þjóðinni boðið upp á ráðgefandi kosningu um fimm tillögur stjórnlagaráðs, auk þess sem spurt var hvort nota ætti aðrar tillögur ráðsins sem ráðgefandi fyrir Alþingi að nýrri stjórnarskrá. Því var þessi ráðgefandi kosning í 6 liðum og framsetningin þannig að nánast útilokað var að svara einum lið með já en öðrum með nei, nema því aðeins að svara fyrsta lið með nei. Þannig var í raun hægt að samþykkja einn eða fleiri af hinum fimm. Enda fór svo að fyrsti liðurinn fékk fæst atkvæði.
Á kjörskrá voru 236.911, af þeim kusu 114.570, eða 48.4% atkvæðisbærra. Af þessum 114.570 sögðu 73.408 ja við fyrsta lið í kosningunni, eða 64.2% þeirra sem kusu eða 31,7% kosningabærra.
Allar þessar upplýsingar liggja opnar á netinu og því óþarfi fyrir fréttamenn að apa lygina upp eftir öðrum.
Svo slök kosningaþátttaka, innan við helmingur atkvæðisbærra landsmanna er auðvitað ein og sér ástæða þess að útilokað er að breyta æðsta plaggi lýðveldisins. Þar þarf að koma skýrari vilji kjósenda.
Hvers vegna kosningaþátttaka um þetta mál var svo léleg má rekja til margra punkt. Hvernig staðið var að vali stjórnlagaráðs, eftir að Hæstiréttur hafi dæmt kosningu til stjórnlagaþings ólögmæta. Sú staðreynd að kosningin var einungis um fimm atriði þessarar vinnu stjórnlagaráðs, en ekki nýja stjórnarskrá. Enda slík kosning ómöguleg og brot á gildandi stjórnarskrá. Að um ráðgefandi kosningu var að ræða en ekki bindandi.
Öll þessi atriði urðu til þess að margir sátu heima, sáu ekki tilgang kosningarinnar. Má sannarlega leiða að því líkum að einmitt þeir sem á móti voru þessari vinnu stjórnlagaráðs og hvernig til hennar var spilað, hafi frekar setið heim, en þeir sem hlynntir voru verið duglegri að mæta á kjörstað.
Hver niðurstaðan hefði orðið ef mögulegt hefði verið að kjósa um þessa vinnu sem nýja stjórnarkrá og sú kosning hefði verið bindandi, vitum við aldrei. Slík kosning hefur ekki farið fram og mun ekki verða, nema því aðeins að gildandi stjórnatskrá verði breytt til að heimila slíka kosningu.
Það er ekki að ástæðulausu að þjóðir heims hafi ákvæði í sínum stjórnarskrám, sem gera breytingar þeirra þungar í vöfum. Við höfum einnig slíkt ákvæði, enda á stjórnarskrá að vera að grunni til sem mest eins, þó vissulega eilíft eigi að hafa hana í skoðun og breyta einstökum liðum eftir því sem þróun segir. Umbylting stjórnarskrár kallar á tímabil lögleysu, þar sem skilgreina þarf upp á nýtt flest grundvallar viðmið laga í landinu.
Þær breytingar sem nú eru boðaðar virðast frekar sakleysislegar, þó maður átti sig ekki á sumum þeirra. Að binda í stjórnarskrá að forseti geti ekki setið nema 12 ár er vissulega af hinu góða, en hvers vegna mátti það ekki bara vera þrjú fjögurra ára kjörtímabil? Hvers vegna tvö sex ára tímabil?
Hyggst leggja fram stjórnlagabreytingar að hausti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:10 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þessa þörfu grein. Ég tek undir hvert orð, sem þú segir þar. Það er sorglegt til þess að vita, að til skuli vera fólk hér á landi með slíkar ranghugmyndir um þessi stjórnarskrárdrög, sem var kosið um á sínum tíma, og ríkisstjórnin skuli ekki geta tekið upp greinar í gildandi stjórnarskrá til að endurskoða þær í ljósi breyttra tíma, án þess að þetta fólk, sem þú nefnir, byrji að arga og garga og æpa eftir því, að "stjórnarskráin, sem þjóðin kaus" verði tekin í gildi athugasemdalaust, og kalla þar með drögin fullburða stjórnarskrá. Það sýnir best, hvernig þetta fólk hugsar og hvílíkar ranghugmyndir eru í gangi í þessu máli eru á sveimi. Að tala svo sífellt um "þjóðina", sem kaus þessa "stjórnarskrá" þeirra, er þvílíkt bull, að engu tali tekur. Þetta er bókstaflega sagt með öllu óskiljanlegt, hvernig þetta er látið viðgangast athugasemdalaust. Það kemur líka í ljós, þegar litið er yfir athugasemdirnar, sem hafa verið gerðar við frumvarp forsætisráðherra, að stærsti hlutinn af því eru einungis skammir, hálfgerðar formælingar og svo kröfur um, að "stjórnarskráin, sem þjóðin kaus" verði tafarlaust tekin í gildi og annað álíka rugl og kjaftæði, sem á ekkert heima á því svæði. Þess vegna skil ég ekki, hvað er í gangi hjá þessu fólki. Þetta er engan veginn í lagi. Það segir sig sjálft.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 27.7.2020 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.