237 milljarðar?
26.3.2020 | 20:41
Ekki er að sjá að aðgerðaráætlun stjórnvalda sé að skila miklum árangri. Nú, á rúmum sólhring, hafa um 200 manns misst vinnu hjá tveim fyrirtækjum.
Annars er þessi aðgerðaráætlun stjórnvalda ansi innihaldslaus og stendur þar vart steinn yfir steini. Mesta skrumið er þó að segja þetta aðgerðarpakka upp á 237 milljarða króna. Þá er með eindæmum að ekki skuli hafa verið unnið að honum í samstarfi við stjórnarandstöðu og jafnvel sveitarfélög landsins. Þarna sannast það fornkveðna að völd hafa oftar en ekki þann kvilla að þeir sem þau bera, ofmetnast. "Vér einir vitum".
Þegar aðgerðarpakkinn er skoðaður kemur í ljós að hann byggir á 10 atriðum. Flest þeirra eru annað hvort frestanir á greiðslum ýmissa gjald eða beinlínis að fólk noti eigið fé. Þá er svokallað fjárfestingaátak að stórum hluta byggt á því að lagðir verða aukaskattar til greiðslu þeirra framkvæmda. Eftir stendur að útgjöld ríkisins verða um eða innan við 10%af þeirri upphæð sem stjórnvöld státa sig af. Af því fé er einungis um 1,5 milljarður ætlaður til að hjálpa fyrirtækjum að halda fólki í vinnu.
Frestanir á greiðslum eru t.d. frestun á sköttum upp á um 75 milljarða króna. Þetta er frestun, ekki afnám. Því þarf að greiða þetta fé til ríkissjóðs þótt síðar verði. Ekki kemur fram hvort reiknaðir verði vextir á þetta fé meðan frestur stendur, en annað er ólíklegt.
Annað dæmi má nefna, sem ætlað er að vega 9,5 milljarða af þeim 237 sem stjórnvöld tala um, er úttekt séreignasparnaðar. Séreignasparnaður er eign þeirra sem hann eiga og varla hægt að telja hann sem kostnað ríkisins.
20 milljörðum er ætlað í það sem kallað er "viðbótarfjárfesting" í framkvæmdum. Þarna er um framkvæmdir að ræða sem sumar hverjar átti að ráðast í en aðrar sem ætlunin var að framkvæma á allra næstu árum. Stærsti liðurinn þar eru samgöngumannvirki. Megnið af þeim skal þó greiðast með nýjum sköttum.
Ein er þó sú atvinnustarfsemi sem mun fara vel út úr þessum pakka stjórnvalda, en það er bankakerfið. Þar er hvorki um að ræða frestun né nokkuð í þeim dúr. Þar er hreinn niðurskurður á skatti, upp á litla 11 milljarða króna.
Ekkert er talað um að hjálpa fólki sem þegar hefur misst sína vinnu, það er afskrifað af stjórnvöldum. Og ekkert á að gera til að koma í veg fyrir að fólk haldi sínum hýbýlum. Nú þegar hefur gengi krónunnar fallið nokkuð gagnvart erlendum gjaldmiðlum og því mun fylgja hækkun á verði innfluttra vara. Það er verðbólga og mun hækka lánin. Ekki er enn vitað hversu illa fyrirtæki innan lands munu fara vegna veirunnar, en ljóst er að liður í að halda þeim lifandi hlýtur að vera að hækka verð framleiðslunnar. Það eykur einnig verðbólgu og hækkar húsnæðislánin. Það þarf ekki neinn fjármálasnilling til að átta sig á þessu, þó fjármálaráðherra skilji ekki svo einfalt mál.
Eftir hrun bankakerfisins, haustið 2008, var gerð rannsóknarskýrsla um hvað hefði farið úrskeiðis. Þar kom einmitt mikil gagnrýni á samráðsleysi í stjórnmálum auk þess sem gagnrýnt var að ekki skildi hafa verið sett þak á verðtryggingu húsnæðislána. Það olli því að þúsundir fólks missti sitt húsnæði og enn margt sem er í vanda, 12 árum síðar. Nú stefnir aftur í sama hryllinginn, einungis vegna vanþekkingar fjármálaráðherra á einföldustu málum.
Það stefnir í að taka eigi sömu tökum á þeim vanda sem nú herjar og notuð voru við uppbygginguna eftir bankahrunið, enda sumir þeirra sem þá voru í lykilstöðum komnir til valda á ný. Fjölskyldufólkinu skal fórnað á altari Mammons, í þágu bankanna!
Á annað hundrað sagt upp hjá Bláa lóninu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Gunnar nöturlega sannur pistill.
Sjálftökuliðið skuldsetti ríkissjóð upp í rjáfur strax í upphafi mánaðarins með því að ábyrgjast að þotuliðið á skíðum héldi óskertum launum í boði ríkissjóðs á meðan setið væri í sóttkví.
Margir flugu beinlínis á sýkt svæði til að njóta góðgerðanna og flytja þær heim.
Í síðustu viku voru orðnir um 7000 manns í sóttkví, sem í flestum tilfellum er til tveggja vikna. Þotuliðið er með um milljón á mánuði og reiknað nú.
Magnús Sigurðsson, 26.3.2020 kl. 21:22
Aðgerðirnar eru að mestu leyti blekking. 2/3 þess sem talað er um sem framlög ríkisins er annað hvort frestun á skattgreiðslum eða ríkisábyrgð á lánum.
Þorsteinn Siglaugsson, 26.3.2020 kl. 22:23
Kynningin á þessum aðgerðapakka var frekar klaufaleg. Ætla má að stjórnin telji að fólk sé ekki sérlega vel gefið. Þegar stjórnmálamenn þruma yfir landslýð að “Ríkið” ætli að redda þessu, er engu líkara en þar sé gert ráð fyrir að þjóðin viti ekki að hún sé “Ríkið”.
Gefið var í skyn að þetta væru fyrstu aðgerðir og hugsanlega yrði bætt í seinna meir. Eðlilega tekur einhvern tíma að móta allar aðgerðir og vonandi tekst að halda þannig á málum að hinn almenni borgari sitji ekki einn uppi með skaðan, meðan fjármagnseigendur og fjármálastofnanir hagnist á öllu saman. Arðgreiðslur bankanna undanfarin ellefu ár, ættu að núllstilla þá alla. “Ríkið” þ.e.a.s. þjóðin á nefnilega bankana og ekkert annað en sjálfsagt að sannir eigendur þeirra njóti liðsinnis þeirra á krísutímum. Oft var þörf, en nú er nauðsyn!
Hálfur milljarður í viðbót við áður sólundað fé í breyta hitastigi jarðar, á þessum tímapunkti, er svo galið að fólk hefur ekki mikla trú á að hugur fylgi máli. Stjórninni er eins gott að drífa af trúverðug úrræði um, hvernig bregðast á við þessu fordæmalausa ástandi.
Þakka góðan pistil.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan. Guð blessi Ísland.
Halldór Egill Guðnason, 26.3.2020 kl. 23:04
Blessaður Gunnar.
Magnús stal frá mér fyrstu setningunni.
En það jákvæða er að það er búið að viðurkenna alvarleikann, að hluta reyndar, en þá verða orð að fylgja á eftir.
Hins vegar geta menn gleymt því á meðan barnalán stjórnar landinu.
En þetta er aðeins rétt að byrja.
Pistillinn fer í gullkistuna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.3.2020 kl. 23:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.