Ríki í ríkinu
9.10.2019 | 21:56
Opinberlega var farið að skoða lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands árið 2012. Fram að því var litið á menn sem töldu þetta kost, sem einhverskonar sérvitringa eða jafnvel ekki alveg með fulla fimm. Það er því ljóst að ef Landsvirkjun hefur fengið heimild til rannsókna á þessu sviði, mun sú heimild hafa verið gefin af ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu. Aldrei hefur þetta verið rætt á alþingi og því spurning hvort sú heimild hafi verið lögmæt, ef hún á annað borð var gefin. Kannski hefði þingmaðurinn frekar átt að leggja fram spurningu til ráðherra um hvort og þá hvenær slík heimild var gefin.
Það má líka furðu sæta að Landsvirkjun, fyrirtæki í eigu landsmanna, skuli vera stikk frí frá því að gefa upp hvernig fjármunum þess er varið og jafnvel komist hjá að svar þeim fulltrúum eigenda sem sitja á alþingi, um sama efni. Hafi fyrirtækið fengið slíka heimild, sem forseti alþingis getur kannski manna best svarað þingmönnum um, er það í sjálfu sér nógu slæmt, sér í lagi án aðkomu alþingis og umræðu út í þjóðfélaginu. Hitt er verra að Landsvirkjun skuli geta haldið leynd yfir þeim rannsóknum, valið að gefa út þær upplýsingar sem henta en haldið öðrum leyndum. Hver er þá áreiðanleiki þeirra rannsókna? Hvað annað er falið fyrir eigendum fyrirtækisins?
Það er ljóst að Landsvirkjun hefur verið í sambandi við væntanlega aðila um lagningu þessa strengs og kaupendur orkunnar. Þó hafa stjórnvöld ekki, svo vitað sé, gert neina samninga um lagninguna eða sölu orkunnar. Kannski forstjóri Landsvirkjunar sé búinn að ganga frá þeim smá málum og þegar það loks kemur fyrir alþingi verði afsökunin á sama veg og með op3, að málið sé komið svo langt að ekki verði aftur snúið.
Það er ljóst að endurskoða þarf stöðu forstjóra og stjórn Landsvirkjunar. Hvort sem heimild hafi verið gefin fyrir rannsóknum á sæstreng, eða ekki, er algjörlega út í hött að þetta fólk geti starfað sem ríki í ríkinu. Landsmenn eiga heimtingu á að fá að vita hver gaf leifi fyrir þessum rannsóknum, hvenær, hversu mikið þær hafa kostað fyrirtækið og þá um leið eigendur þess, hversu langt þessar rannsóknir eru komnar og síðast en ekki síst öll samskipti Landsvirkjunar við væntanlega aðila sem ætla sér að leggja strenginn.
Svona til að árétta þá er Landsvirkjun framleiðandi orku, ekki flytjandi. Því er í hæsta máta óeðlilegt að fyrirtækið sé að kanna flutning orkunnar til annarra landa. Það verkefni á að vera í höndum Landsnets, eftir að alþingi hefur tekið ákvörðun um slíkt, eða ACER. Í öllu falli eiga slíkar rannsóknir að vera opnar landsmönnum á allan hátt.
Í stuttu máli er þetta óþolandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Glöggur jafnan Gunnar Heiðarsson, og enn sannast það. En ACER vilja þjóðhollir vitaskuld ekki að fari að ráða hér öllu í þessum orkugeira, þótt sú verði trúlega afleiðing Op3, nema menn rísi upp gegn EES-fýrverkinu (kalla það því nafni, af því að stór hluti af áróðrinum fyrir EES-samningnum er sjónhverfingar, Pótemkíntjöld kringum það sem mun minna er í reynd en lofað er). En Landsvirkjun hagar sér eins og ríki í ríkinu og hefur til þess enga heimild, rétt, Gunnar!
Jón Valur Jensson, 10.10.2019 kl. 02:47
Það skyldi þó ekki vera að Norðmenn skeri okkur niður úr orkupakka þrjú snörunni? Það yrði þá alveg óviljandi, því hingað til hafa þeir frekar verið til ama og leiðinda frekar en hitt og sannast kannski þar máltæki "Frændur eru frændum verstir". En það er eftir að taka mál NEI TIL EU fyrir og ef svo fer að NEI TIL EU vinni málið er ekki sjálfgefið að ORKUPAKKI ÞRJÚ fari í gegnum þingið.........
Jóhann Elíasson, 10.10.2019 kl. 08:51
Er Hörður Arnarson ekki á ofurlaunum með rúmar þrjár milljónir á mánuði svo það er eins gott fyrir hann að hafa hljótt!!!
Sigurður I B Guðmundsson, 10.10.2019 kl. 10:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.