Samgönguáætlun

Það er nokkuð fróðlegt að lesa samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar en betra að vera ekki svartsýnn fyrir þann lestur, það gæti endað illa.

Einn kafli þessarar áætlunar er nefndur Vegakerfið - notendagjöld. Þarna reynir vissulega nokkuð á sálarlífið en í þessum kafla koma fyrir eftirfarandi setningar:

Verði tekin upp notendagjöld á forsendunum „notandi greiðir“ þarf að huga að útfærslu sem endurspeglar heildarkostnað. Af þeim möguleikum til réttlátrar gjaldtöku sem nefndir hafa verið er ekin vegalengd talin eiga best við. Með nýrri þráðlausri staðsetningartækni opnast nýir möguleikar þar sem hægt er að taka mið af því hvaða mannvirki eru notuð, tíma dags, vegalengd, stærð, þyngd og mengunarflokki farartækis. Þannig er hægt að beita jákvæðri mismunun háð veggerð og fjarlægð í þjónustu. Nýtt gjaldheimtukerfi þarf einnig að geta ráðið við gjaldtöku eftir stund og stað og þarf því að byggjast á upplýsingatækni 

Þarna er nokkuð langt seilst. Byrjum á fyrra atriðinu, "notendur greiði". Nú er það svo að notendur bíla greiða sannarlega fyrir alla sína þjónustu frá ríkinu og gott betur. Í dag er verið að innheimta um eða yfir 80 milljarða króna á ársgrundvelli plús virðisaukaskatt, af bíleigendum. Af þessari upphæð er nærri helmingur skattur sem á var lagður til viðhalds og endurnýjunar vegakerfisins. Þetta er nánast sama upphæð og samgönguáætlun gerir ráð fyrir að notað sé til viðhalds og endurnýjunar vegakerfisins - á næstu fimm árum!!

Seinna atriðið og heldur kuldalegra er sú staðreynd að nú skal njósnað um hvar hver ekur og hvenær. Til þessa á að nota "nýjustu tækni" sem reyndar hefur verið til í nokkuð mörg ár, en hvað um það, einkalífinu skal fórnað. Ekki þarf snilling til að sjá að í framhaldinu verður auðvelt að koma á annarri njósnastarfsemi tengt þessari "nýju tækni" eins og hraðaeftirliti löggæslu. Reyndar getur vart verið að þetta standist hin nýju persónuverndarlögin, svo kannski er þar smá glæta.

Auðvitað er í sjálfu sér ekkert að því að breyta skattlagningu á akstri bíla, enda ljóst að akstur rafbíla er utan kerfis og ekkert eðlilegra en að þeir séu á einhvern hátt látnir greiða það sem þeim ber, til viðhalds og endurnýjunar vegakerfisins. Eldsneytisbílar verða þó ekki dregnir inn í slíka skattgreiðslu nema því aðeins að sambærilegt gjald, sem nú er innheimt við kaup á eldsneyti, verði lagt niður. Tvísköttun má aldrei samþykkja, ekki undir nokkrum kringumstæðum.

Einfaldast er auðvitað að nýta bara þann hluta skattsins sem innifalinn er í eldsneyti til þess sem honum var ætlað. Þannig má fimmfalda hraðann við uppbyggingu vegakerfisins. Við það má svo bæta þeim peningum sem stjórnvöld hafa notað í önnur mál, af þessum skattstofni undanfarin ár, skila ránsfengnum. Eftir sem áður væru bíleigendur að greiða væna summu til samneyslunnar, þ.e. annað en viðhald og endurnýjun vegakerfisins, umfram aðra þjóðfélagþegna. Ef allt það fé sem eyrnamerkt var vegamálum færu í þann flokk þyrfti ekki að hugsa um veggjöld og jafnvel væri hægt að hafa rafbíla undanþegna þeirri skattlagningu um einhver ár enn, jafnvel þar til menn átta sig á að mun skynsamlegra er að horfa til vetnisbíla.

En það er fleira sem tengist samgönguáætlun. Allir vita að borgarstjórn hefur náð að fífla ráðherra verulega, svo jafnvel stilltustu menn reyta hár sitt og skegg. Svokölluð borgarlína, sem reyndar er jafn dulin og veggjöldin, er nú óbeint komin þarna inn og orð eins og "þétting byggðar" farin að sjást þar á prenti. Nokkuð merkilegt, þar sem þetta er jú samgönguáætlun.

Öllu verra er að borgaryfirvöld sækja nú hart að fá inn í samgönguáætlun heimild til enn frekari skattlagningu á landsmenn, skatta sem þau nefna "mengunar- og tafagjöld". Þetta hefur lítið verið rætt í sambandi við samgönguáætlun og vonandi að þingmenn séu ekki svo skyni skroppnir að þeir láti stjórnendur þess sveitarfélags sem hellst er fært til að safna skuldum, fífla sig sem ráðherra.

En hvað er "mengunar- og tafagjald"? Jú fyrst og fremst er þetta enn einn skatturinn, til álagningar á bíleigendur, eins og þar sé óþrjótandi uppspretta peninga! En þetta er ekki neinn venjulegur skattur, heldur skattur sem hefur þann hvata að gera ekki neitt. Þá er ekki átt við að bíleigendur sitji heima og geri ekkert, heldur hitt að borgaryfirvöld geri ekkert.

Með því að halda gatnakerfinu og umhverfi þess sem sóðalegustu verður mengun meiri. Þá er hægt að innheimta meira mengunargjald. Tafagjaldið hækkar síðan í réttu hlutfalli við tafir í umferðinni, sem aftur eykur enn frekar mengun. Þetta er því "tær snilld" eins og höfundar Icesave sögðu á sínum tíma, getur bara ekki klikkað!!

Og auðvitað lenda þessir skattar þyngst á landsbyggðafólki, sem þarf að sækja sér sífellt meiri þjónustu til höfuðborgarinnar. Tærasta snilldin er síðan að byggja nýjan landspítala niður undir miðbæ borgarinnar svo örugglega sé nú hægt að kroppa aðeins meira af landsbyggðafólkinu, þegar það þarf að sækja sér lækninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband